Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 170  —  168. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 (fjölgun mismununarþátta).

Frá forsætisráðherra.



1. gr.

    Í stað orðanna „og þjóðernisuppruna“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

2. gr.

    Í stað orðanna „kynþætti og þjóðernisuppruna“ í 2. gr. laganna kemur: þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „kynþáttar eða þjóðernisuppruna“ í 1., 2., 3. og 5. tölul. kemur: einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.
     b.      4. tölul. orðast svo: Áreitni: Hegðun sem tengist kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
     c.      Við bætast átta nýir töluliðir, svohljóðandi:
              6.      Lífsskoðun: Skoðun sem byggist á veraldlegum viðhorfum til lífsins, ákveðnum siðferðisgildum og siðferði ásamt skilgreindri siðfræði og þekkingarfræði.
              7.      Fötlun: Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.
              8.      Aldur: Lífaldur.
              9.      Kynhneigð: Geta einstaklings til að laðast að eða verða ástfanginn af öðrum einstaklingi.
              10.      Kynvitund: Upplifun einstaklings af eigin kyni og skilgreining hans á því.
              11.      Kyneinkenni: Líffræðilegir þættir sem tengjast kyni, svo sem kynlitningar, hormónastarfsemi, kynkirtlar og kynfæri.
              12.      Kyntjáning: Félagsleg tjáning einstaklings á kyni sínu.
              13.      Fjölþætt mismunun: Þegar einstaklingi er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt lögum þessum, lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði og lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Fjölþætt mismunun getur annaðhvort verið samtvinnuð þannig að tvær eða fleiri mismununarástæður skapi sérstakan grundvöll mismununar eða verið tvöföld/margföld þannig að mismununin sé vegna tveggja eða fleiri sjálfstæðra mismununarástæðna.

4. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Hvers kyns mismunun á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem getur um í 1. mgr. 1. gr. er óheimil, sbr. einnig lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Fjölþætt mismunun er einnig óheimil. Fyrirmæli um mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem getur um í 1. mgr. 1. gr. teljast einnig mismunun samkvæmt lögum þessum sem og áreitni þegar hún tengist einhverjum þeim þáttum. Neitun um viðeigandi aðlögun skv. 7. gr. a telst jafnframt mismunun.
    Ákvæði í samningi sem fela í sér mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. eru ógild.

5. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 7. gr. a og 7. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (7. gr. a.)

Viðeigandi aðlögun.

    Fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og opinberir aðilar skulu gera nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til að gera fötluðum einstaklingi kleift að nýta sér eða fá notið samfélagsins utan vinnumarkaðar til jafns við aðra, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi eða umfram það sem eðlilegt má teljast.

    b. (7. gr. b.)

Frávik vegna aldurs.

    Mismunandi meðferð vegna aldurs telst ekki brjóta gegn lögum þessum, séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. opinberri stefnu eða öðrum markmiðum stjórnvalda, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að.
    Mismunandi meðferð á grundvelli ákvæða í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og samningum þar sem sérstök aldursviðmið eru tilgreind telst ekki mismunun ef unnt er að réttlæta aldursviðmið á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná því markmiði eru viðeigandi og nauðsynlegar.

6. gr.

    Í stað orðanna „kynþáttar eða þjóðernisuppruna“ í 1. málsl. 8. gr., 1. málsl. 9. gr. og 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Í skólum, öðrum menntastofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er hvers kyns mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. óheimil.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að ekki sé mismunað á grundvelli þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. og þau séu ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar þeim sem hafa ákveðna lífsskoðun eða trú, eru á vissum aldri, af tilteknum kynþætti eða þjóðernisuppruna eða í ljósi fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar viðkomandi.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Bann við mismunun í skólum og öðrum menntastofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.

8. gr.

    1. málsl. 11. gr. laganna orðast svo: Auglýsandi og sá sem hannar eða birtir auglýsingu skulu sjá til þess að auglýsingin sé ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar þeim sem hafa ákveðna lífsskoðun eða trú, eru á vissum aldri, af tilteknum kynþætti eða þjóðernisuppruna eða í ljósi fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar viðkomandi eða stríði á nokkurn hátt gegn jafnri meðferð óháð framangreindum þáttum, sbr. 1. mgr. 1. gr.

9. gr.

    Í stað orðanna „kynþætti eða þjóðernisuppruna“ í 15. gr. laganna kemur: einhverjum þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.

10. gr.

    Í stað ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Innan árs frá gildistöku þessa ákvæðis skal ráðherra skipa starfshóp til að fjalla um mismunun vegna tengsla og um mögulegar tillögur til breytinga á lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði til að bregðast við þess háttar mismunun. Skal starfshópurinn skila niðurstöðu til ráðherra svo fljótt sem verða má eftir að hann tekur til starfa. Í starfshópnum skulu meðal annars eiga sæti fulltrúar frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, samtökum atvinnurekenda, heildarsamtökum launafólks og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

11. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu ákvæði laga þessara um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs, sbr. 1. mgr. 1. gr., ekki öðlast gildi fyrr en 1. júlí 2024.

13. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
                      1.      4. tölul. orðast svo: Áreitni: Hegðun sem tengist kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
                      2.      Við 12. tölul. bætist: og skilgreining hans á því.
                      3.      13. tölul. orðast svo: Kyneinkenni: Líffræðilegir þættir sem tengjast kyni, svo sem kynlitningar, hormónastarfsemi, kynkirtlar og kynfæri.
                      4.      14. tölul. orðast svo: Kyntjáning: Félagsleg tjáning einstaklings á kyni sínu.
                      5.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fjölþætt mismunun: Þegar einstaklingi er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt lögum þessum, lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Fjölþætt mismunun getur annaðhvort verið samtvinnuð þannig að tvær eða fleiri mismununarástæður skapi sérstakan grundvöll mismununar eða verið tvöföld/margföld þannig að mismununin sé vegna tveggja eða fleiri sjálfstæðra mismununarástæðna.
                  b.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 7. gr. laganna:
                      1.      Á eftir 1. málslið kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fjölþætt mismunun er einnig óheimil.
                      2.      Við bætist við nýr málsliður, svohljóðandi: Neitun um viðeigandi aðlögun skv. 10. gr. telst jafnframt mismunun.
     2.      Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020: Í stað ,,lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna“ í 3. tölul. 2. gr. laganna kemur: lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.
     3.      Lög um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020:
                  a.      Í stað „lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna“ í 1. málsl. 1. gr. laganna kemur: lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.
                  b.      Í stað „lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna“ í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Ákvæði laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, lúta að jafnri meðferð á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Með jafnri meðferð utan vinnumarkaðar er í lögunum meðal annars átt við félagslega vernd, svo sem í tengslum við almannatryggingar, menntun og aðgang almennings að vörum og þjónustu.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að við lög nr. 85/2018 verði bætt við mismununarþáttunum trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Þar með bætast framangreindir mismununarþættir við mismununarþættina kynþátt og þjóðernisuppruna sem fyrir voru. Það þýðir að lögunum verði breytt á þann veg að þau gildi ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar. Þess má geta að um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð framangreindum mismununarþáttum gilda önnur lög, þ.e. lög nr. 86/2018.
    Frumvarp þetta er unnið í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 85/2018 þar sem kveðið er á um að lögin skuli gilda um fleiri mismununarþætti. Verði frumvarpið samþykkt koma lög nr. 85/2018 einnig til með að samræmast betur lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, en þau fjalla um alla framangreinda mismununarþætti en ekki einungis kynþátt og þjóðernisuppruna. Báðir lagabálkarnir munu þá ná til sömu mismununarþátta. Við gerð frumvarpsins var jafnframt höfð hliðsjón af norsku (n. lov om likestilling og forbud mot diskriminering), sænsku (s. diskrimineringslag) og finnsku (s. diskrimineringslag) lögunum um bann við mismunun og enn fremur var gætt samræmis við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, og lög um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020.
    Við gerð frumvarps sem varð að lögum nr. 85/2018 var höfð hliðsjón af efni tilskipunar ráðherraráðs Evrópusambandsins 2000/43/EB frá 29. júní 2000 um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis, en þó einungis þeim hluta hennar sem lýtur að öðrum sviðum samfélagsins en vinnumarkaði. Sú tilskipun kveður á um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna og gildir hún innan sem utan vinnumarkaðar, sbr. 3. gr. tilskipunarinnar. Rétt er einnig að geta þess að við gerð frumvarpsins sem varð að lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, var tekið mið af efni tilskipunar ráðherraráðs Evrópusambandsins 2000/78/EB frá 27. nóvember 2000 um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu. Gildissvið hennar takmarkast við vinnumarkaðinn, sbr. 3. gr. tilskipunarinnar. Við gerð þess frumvarps var einungis höfð hliðsjón af þeim hluta tilskipunar ráðsins 2000/43/EB er lýtur að vinnumarkaði.
    Frumvarp þetta er liður í innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi en Ísland undirritaði samninginn 30. mars 2007 og var hann fullgiltur 23. september 2016. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn. Samningurinn felur í sér bann við hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og að fötluðu fólki sé tryggð jöfn og árangursrík réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum. Einnig má geta þess að Ísland samþykkti í síðustu allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála árið 2016 að innleiða heildstæða löggjöf um bann við mismunun, sbr. Skýrslu vinnuhóps um reglubundna allsherjarúttekt.
    Til einföldunar er í frumvarpi þessu vísað til „þátta“, „mismununarþátta“ eða „mismununarástæðna“ og er þá átt við eftirtalda þætti: kynþátt, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldur, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáningu eftir því sem við á.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Einstaklingar eru verndaðir gegn mismunun óháð kyni, kynþætti og þjóðernisuppruna bæði innan og utan vinnumarkaðar, sbr. gildandi löggjöf um jafnréttismál, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020, auk 65. gr. stjórnarskrárinnar. Einstaklingar eru hins vegar ekki verndaðir á sama hátt gegn mismunun á grundvelli trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar, utan vinnumarkaðar, samkvæmt framangreindri löggjöf um jafnréttismál. Það þýðir að þau sem telja sér mismunað á grundvelli þeirra þátta njóta ekki jafn ríkrar réttarverndar utan vinnumarkaðar og þau sem telja sér mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernisuppruna. Ef ekkert er aðhafst munu þau áfram búa við lakari réttarvernd hvað það varðar en fólk sem telur sér mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar og þjóðernisuppruna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með hliðsjón af gildissviði laga nr. 85/2018 er gert ráð fyrir að frumvarp þetta gildi um jafna meðferð á öllum sviðum samfélags, utan vinnumarkaðar, óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Verði frumvarpið samþykkt gildi lögin ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur jafnframt um jafna meðferð einstaklinga óháð öllum framangreindum þáttum.
    Engin breyting er lögð til varðandi þau svið samfélagsins sem lögin ná þegar til en einstök svið eru sérstaklega tilgreind til áherslu. Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 85/2018 eiga lögin meðal annars við um félagslega vernd, þar á meðal í tengslum við almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu, félagsleg gæði, menntun, aðgang að eða afhendingu vöru sem og þjónustu eða aðgang að þjónustu. Sérstaklega er tekið fram að frumvarpið eigi við um húsnæði sem er í boði fyrir almenning.
    Með félagslegum gæðum er meðal annars átt við tækifæri til að njóta tiltekinna gæða á vegum opinberra aðila eða einkaaðila innan aðildarríkjanna, svo sem aðgangs að stöðum sem ætlaðir eru almenningi þar sem unnt er að njóta frístunda eins og sundstöðum, skíðasvæðum, skautasvellum, skipulögðum leiksvæðum, fjölskyldugörðum sem og bókasöfnum, listasöfnum, leikhúsum og ýmsum öðrum menningar- eða listviðburðum. Er í þessu sambandi jafnframt átt við afslætti eða tilboð sem gilda í tengslum við viðburði eða aðgang að slíkum stöðum. Miðað er við að framangreint eigi við um alla staði sem ætlaðir eru almenningi, hvort sem viðkomandi staður telst vera opinber eða í einkaeigu, en stundum er talað um almannarými í þessu samhengi. Enn fremur má nefna aðgang að almenningssamgöngum, niðurgreiddar máltíðir í skólum, niðurgreidd leikskólagjöld og frístundastyrki til að greiða niður þátttökugjald í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þess ber að geta að ekki er um að ræða tæmandi upptalningu á því sem getur talist til félagslegra gæða.
    Í því skyni að tryggja ekki eingöngu jafna meðferð einstaklinga í íslensku samfélagi óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur jafnframt óháð öðrum mismununarþáttum er með frumvarpi þessu lagt til að skýrt verði kveðið á um að mismunun á grundvelli framangreindra þátta, hvort heldur bein eða óbein, sé óheimil. Verður þetta að teljast nýmæli í lögum enda þótt öðrum ákvæðum innlendra laga sé einnig ætlað að tryggja að ákveðnu leyti jafna meðferð á tilteknum sviðum samfélagsins, sbr. umfjöllun í 4. kafla. Er þetta ekki síður mikilvægt í því skyni að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð framangreindum þáttum.
    Þannig er lagt til í 2. gr. frumvarpsins að framangreindum þáttum verði bætt við markmiðsákvæði laganna. Í 3. gr. er lagt til að framangreindum þáttum verði bætt við viðeigandi skilgreiningar í orðskýringarákvæði laganna. Einnig er lagt til að orðskýringarákvæðum sem einnig er að finna í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, verði bætt við lögin og skilgreiningum á hugtökum verði bætt við lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, sbr. 13. gr. frumvarpsins, til samræmis við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, og lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að við ákvæðið í lögunum sem hefur geyma almennt bann við mismunun á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, verði bætt við öllum framangreindum þáttum og að kveðið verði skýrt á um að fjölþætt mismunun sé einnig óheimil, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Enn fremur er lagt til það nýmæli að neitun um viðeigandi aðlögun skv. 7. gr. a, sbr. a-lið 5. gr. frumvarps þessa, teljist til mismununar.
    Nauðsynlegt er að taka tillit til þess að þeir mismununarþættir sem lagt er til að verði bætt við lögin með frumvarpi þessu eru ólíkir innbyrðis og það getur verið þörf á sérreglum hvað einstaka mismununarþætti varðar. Því er lagt til að bætt verði við lögin tveimur nýjum ákvæðum vegna fötlunar, þ.e. 7. gr. a um viðeigandi aðlögun, sbr. a-lið 5. gr., og aldurs, þ.e. 7. gr. b um frávik vegna aldurs, sbr. b-lið 5. gr. Þessar sérreglur eru sambærilegar 10. gr. og 12. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018.
    Í 6. gr. er lagt til að vísað verði í framangreinda mismununarþætti í ákvæðum laganna er snúa að banni við mismunun í tengslum við félagslega vernd, vörukaup og þjónustu og vernd gegn órétti. Í 7. gr. er einnig lagt til að vísun í framangreinda þætti verði bætt við ákvæði laganna um bann við mismunun í skólum og öðrum menntastofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Jafnframt er lagt til að samræma orðalag ákvæðisins við sambærilegt ákvæði í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Í 8. gr. er svo lagt til að framangreindum þáttum verði bætt við ákvæði laganna um auglýsingar. Sambærileg breyting er gerð í 9. gr. og í 6. gr. frumvarpsins.
    Í 10. gr. er lagt er til að í stað ákvæðis til bráðabirgða í lögunum komi nýtt ákvæði þar sem kveðið verði á um skipan starfshóps sem skuli fjalla um mismunun vegna tengsla og mögulegar tillögur til breytinga á lögum nr. 85/2018 og lögum nr. 86/2018 í tengslum við þess háttar mismunun.
    Í 11. gr. er heiti frumvarpsins breytt í ljósi þess að það takmarkast við þá mismununarþætti sem eru í gildandi lögum.
    Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin taki þegar gildi, verði frumvarpið samþykkt. Þó er lagt til að ákvæði laganna skuli ekki gilda um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs, sbr. 1. mgr. 1. gr., fyrr en 1. júlí 2024. Er þetta lagt til svo að nægur tími gefist til að fara yfir aldurstengd ákvæði í öðrum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum, reglugerðum, reglum og samningum og gera breytingar á þeim, ef þörf krefur, til samræmis við ákvæði frumvarpsins.
    Að lokum eru í 13. gr. lagðar til breytingar á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, til samræmis við frumvarp þetta, lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, lög um jafna stöðu og jafna meðferð kynjanna, nr. 150/2020, og lög um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020.
    Mikilvægt er að hafa í huga að ójöfn meðferð fólks á grundvelli framangreindra mismununarþátta þarf í einstaka tilfellum ekki að vera mismunun. Við mat á mismunun er áherslan lögð á samanburð við annan einstakling við sambærilegar aðstæður. Einstaklingar eiga ávallt að hljóta sambærilega meðferð við sambærilegar aðstæður. Að sama skapi á ekki að mismuna einstaklingum sem eru ekki í sambærilegum aðstæðum nema unnt sé að réttlæta slíka meðferð á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði. Mismunandi meðferð á grundvelli þeirra mismununarþátta sem frumvarp þetta tekur til kann því að vera réttlætanleg við vissar aðstæður. Hvert tilvik þarf því að meta fyrir sig.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarps þessa er í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.
    Markmið frumvarpsins er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar. Líkt og kemur fram í greinargerð með áðurnefndu frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/2018 hafa íslensk stjórnvöld fullgilt milliríkjasamninga sem ætlað er að stuðla að jafnri meðferð í samfélaginu. Þar má nefna mannréttindasáttmála Evrópu, samning Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samning Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og félagsmálasáttmála Evrópu. Enn fremur hafa íslensk stjórnvöld lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.
    Enn fremur eru í gildi ýmis ákvæði í íslenskri löggjöf sem hafa sama markmið. Nú þegar eru einstaklingar verndaðir utan vinnumarkaðar fyrir nokkrum mismununarþáttum sem frumvarp þetta tekur til á grundvelli annarra laga. Þar má nefna 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Einnig 233. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sem mælir fyrir um að hver sá sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skuli sæta sektum eða fangelsi í allt að tvö ár; sem og 1. mgr. 180. gr. sömu laga sem kveður á um að hver sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar skuli sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Það varðar sömu refsingu að neita manni um aðgang til jafns við aðra að opinberum samkomustað eða öðrum stöðum sem opnir eru almenningi, sbr. 2. mgr. 180. gr. laganna.
    Í 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, segir að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti og að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða sem byggjast á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Einnig má nefna 3. mgr. 24. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, sem kveður á um að markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti, sem og 2. mgr. 1. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, sem kveður á um að óheimilt sé að mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
    Dæmi um fleiri lagaákvæði sem ætlað er að stuðla að jafnri meðferð í samfélaginu eru 9. gr. laga um póstþjónustu, nr. 98/2019, 16. gr. fyrrnefndra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, 1. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og lög um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun), nr. 65/2006.

5. Samráð.
    Haft var samráð við eftirfarandi aðila við gerð frumvarpsins: Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp, Samtökin '78, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jafnréttisstofu, félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið.
    Frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-57/2021) 25. febrúar 2021 og var umsagnarfrestur til 8. mars. Þrjár umsagnir bárust á þeim tíma, frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands. Allir umsagnaraðilar styðja fyrirhugaða lagasetningu.
    Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands gera athugasemd við að hugtökin fötlun og fatlað fólk séu skilyrt við „langvarandi skerðingar“. Athugasemdin leiddi ekki til breytinga á frumvarpinu þar sem mikilvægt þykir að sami skilningur verði lagður í hugtakið fötlun og fatlað fólk í frumvarpi þessu og í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, og gætt samræmis við 1. og 2. tölul. 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Í framangreindum lagabálkum er gert að skilyrði að skerðingar séu „langvarandi“ og til að gæta samræmis við túlkun og framkvæmd laganna er mikilvægt að skilgreiningarnar séu þær sömu.
    Öryrkjabandalagið bendir jafnframt á að tilgreina þurfi fleiri svið samfélagsins þar sem verið sé að telja upp svið til áhersluauka sem lögin skuli taka til. Frumvarpið er unnið í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 85/2018 þar sem kveðið er á um að fjölga skuli tilgreindum mismununarþáttum. Ráðuneytið telur ekki þörf á að tilgreina fleiri svið samfélagsins en þegar er gert. Enn fremur setur Öryrkjabandalagið fram þá tillögu í umsögn sinni að mismunun vegna félagslegrar stöðu verði bætt við frumvarpið. Eins og fram hefur komið er frumvarpið unnið samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 85/2018 þar sem þeir mismunarþættir sem fjölga á eru sérstaklega tilgreindir. Ekki er talin ástæða til að fjölga mismununarþáttum í frumvarpi þessu umfram það sem þar er tilgreint.
    Mannréttindaskrifstofa Íslands vakti meðal annars athygli á mikilvægi þess að Jafnréttisstofu yrði tryggt nægjanlegt fjármagn svo að stofnunin gæti rækt sitt hlutverk sem skyldi en fjölgun mismununarþátta með frumvarpi þessu mun fjölga verkefnum stofnunarinnar. Frumvarp þetta gerir ekki sérstaklega ráð fyrir auknu fjármagni til Jafnréttisstofu en bent er á að nýlega var gert ráð fyrir einu stöðugildi hjá stofnuninni vegna nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, sbr. lög um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020, auk þess sem svigrúm skapaðist fyrir stofnunina til að bæta við öðru stöðugildi í ljósi verkaskiptingar milli stofnunarinnar og nýrrar skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu. Frá síðustu áramótum eru því tvö stöðugildi á Jafnréttisstofu fyrir verkefni sem leiða af nýjum lögum og framtíðarverkefni. Ætla má að framangreint muni nýtast til að standa straum af verkefnum sem skapast vegna frumvarps þessa, verði það samþykkt.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að í íslenskri löggjöf verði kveðið á um meginregluna um jafna meðferð einstaklinga, ekki einungis óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur jafnframt óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018.
    Frumvarpinu er ætlað að hafa þau áhrif að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð framangreindum mismununarþáttum. Enn fremur er frumvarpinu ætlað að hafa þau áhrif að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga vegna fyrrnefndra ástæðna.
    Þess er vænst að sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu leiði til aukinnar réttarverndar fyrir fólk sem telur sér mismunað utan vinnumarkaðar á grundvelli trúar, lífsskoðunar, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar og leiði þar með til aukins jafnréttis í samfélaginu. Þeim einstaklingum verður í fyrsta skipti veitt heimild til að leita réttar síns til úrskurðarnefndar innan stjórnsýslunnar hér á landi. Einstaklingar munu því njóta meiri verndar en þeir hafa áður notið í tilteknum tilvikum en gera verður ráð fyrir að áhrif frumvarpsins verði lítil á þeim sviðum þar sem þegar eru í gildi lög sem banna mismunun á grundvelli tiltekinna mismununarþátta, svo sem innan stjórnsýslunnar.
    Mögulegt er að dóms- og kærumálum fjölgi verði frumvarpið lögfest þar sem verið er að fjölga þeim þáttum sem geta orðið grundvöllur slíkra mála. Ekki er þó hægt að áætla slíkt fyrir fram eða hvort það hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Þá kunna sumar stofnanir eða fyrirtæki að verða fyrir kostnaði ef bæta þarf aðgengi að eða gera breytingar á húsnæði og búnaði vegna fatlaðra einstaklinga en samkvæmt frumvarpinu ættu slíkrar ráðstafanir ekki að vera of íþyngjandi að teknu tilliti til meðal annars fjárhagslegs bolmagns viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Slíkar ráðstafanir hafa smám saman verið gerðar hjá hinu opinbera um langt árabil, einkum við endurbætur á húsnæði og aðstöðu.
    Verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd er ekki ástæða til að ætla að það hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram það sem leiðir af gildandi löggjöf um jafnréttismál, þ.e. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, sbr. lög um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ekki er gert ráð fyrir breytingum á því til hvaða sviða lögin taka. Lögin munu þannig áfram gilda um félagslega vernd, þar á meðal almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu, félagsleg gæði, menntun og aðgang að eða afhendingu vöru og þjónustu. Lögunum er jafnframt áfram ætlað að gilda um húsnæði sem er í boði fyrir almenning. Er þetta í samræmi við 3. gr. tilskipunar ráðherraráðs Evrópusambandsins 2000/43/EB.

Um 2. gr.

    Markmið frumvarps þessa er að vinna gegn mismunun annars staðar en á vinnumarkaði og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga án þess að trú, lífsskoðun, fötlun, aldur, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáning hafi þar áhrif, á öllum sviðum samfélagsins. Í því skyni er í frumvarpi þessu skýrt kveðið á um að mismunun vegna framangreindra mismununarþátta sé óheimil, hvort heldur um er að ræða beina eða óbeina mismunun. Er slíkt talið mikilvægt, meðal annars til að unnt sé að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð framangreindum mismununarþáttum rétt eins og óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Allir skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína.

Um 3. gr.

    Í skýringum við 3. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, eru nánar tiltekin hugtök skýrð sem fram koma í lögunum. Hvorki er gert ráð fyrir að breytingar verði á skilgreiningum hugtakanna jöfn meðferð, bein og óbein mismunun né á hugtakinu sértækar aðgerðir að öðru leyti en því að bætt er við mismununarþáttum sem hugtökin skulu ná til.
     Um a-lið. Lagt er til að með jafnri meðferð verði ekki eingöngu átt við að ekki megi mismuna einstaklingum beint eða óbeint vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna heldur einnig vegna trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Það sama er lagt til varðandi hugtökin bein mismunun og óbein mismunun. Líkt og fram kemur í frumvarpi því er varð að lögum nr. 85/2018, sbr. einnig umfjöllun í 3. kafla greinargerðar með frumvarpi þessu, er við skýringar á hugtökunum bein mismunun og óbein mismunun lögð áhersla á samanburð við annan einstakling við sambærilegar aðstæður. Er þar verið að undirstrika mikilvægi þess að einstaklingar við sambærilegar aðstæður fái ávallt sambærilega meðferð nema unnt sé að réttlæta meðferðina á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar við að ná því markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.
    Dæmi um beina mismunun á grundvelli frumvarps þessa væri ef eigandi veitingahúss meinaði einstaklingum af ákveðinni trú eða vegna kynhneigðar inngöngu á veitingastað sinn, ef einstaklingi væri neitað um skráningu í skóla vegna sömu ástæðna eða ef leigufélag gæfi út yfirlýsingu um að það leigði ekki út íbúðir til einstaklinga vegna þessara ástæðna. Dæmi um óbeina mismunun væri aftur á móti ef skilyrði, viðmið eða ráðstöfun sem virtist hlutlaus kæmi verr við einstakling vegna trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar borið saman við annan einstakling nema slíkt væri unnt að réttlæta málefnalega með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná markmiðinu væru viðeigandi og nauðsynlegar. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 85/2018 er tekið fram að bann við því að nemendur beri trúartákn í skólastofnunum sé oft nefnt sem dæmi um mögulega óbeina mismunun vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna þar sem talið er að slíkt bann sé líklegra til að hafa áhrif á fólk sem ekki er af vestrænum uppruna.
    Einnig er lagt til í frumvarpi þessu að með sértækum aðgerðum verði ekki eingöngu átt við sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu einstaklinga á þeim sviðum þar sem á þá hallar, utan vinnumarkaðar, vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna í því skyni að stuðla að jafnri meðferð, heldur einnig vegna trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Skv. 12. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, er heimilt að beita sértækum aðgerðum, sbr. 5. tölul. 3. gr. laganna. Er í því sambandi átt við sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu þeirra einstaklinga sem standa höllum fæti á ákveðnum sviðum vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna og, verði frumvarp þetta að lögum, einnig vegna þeirra mismununarþátta sem lagt er til að verði bætt við lögin. Í skýringum við framangreinda 12. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 85/2018 kemur fram að sértækar aðgerðir séu heimilar samkvæmt íslenskum rétti. Þá sé um að ræða kerfislægar aðgerðir sem ætlað er að mæta kerfislægri jaðarstöðu og flýta því að jafnrétti náist í raun. Slíkar aðgerðir verði að vera unnt að réttlæta hlutlægt séð og megi ekki vera of íþyngjandi. Með sértækum aðgerðum sé meðal annars leitast við að ná fram efnislegu jafnrétti í stað aðeins formlegs jafnréttis, en formlegt jafnrétti felur í sér að öll mismunun sem grundvallast á mismunandi stöðu einstaklinga, svo sem kynþætti eða þjóðernisuppruna, sé ólögmæt. Beiting aðgerða til að ná efnislegu jafnrétti krefjist þess aftur á móti að litið sé til þess ójafnaðar sem kann að ríkja milli fólks úr ólíkum þjóðfélagshópum. Aðgerðir sem beinast að efnislegu jafnræði feli því í sér að við ákveðnar aðstæður þurfi að meðhöndla einstaklinga úr ólíkum hópum á ólíkan hátt svo að raunverulegt jafnrétti náist. Með raunverulegu jafnrétti er átt við aðstæður þar sem engin undirliggjandi mismunun er fyrir hendi og allir njóti jafnra tækifæra óháð persónueinkennum. Þannig þyki sértækar aðgerðir, sem vega upp á móti þeirri mismunun sem er til staðar í þjóðfélaginu, nauðsynlegar til að ná fram jafnrétti milli ólíkra einstaklinga. Dæmi um sértæka aðgerð í því ljósi gæti verið sérstök áætlun til að fjölga fötluðum nemendum í námi.
     Um b-lið. Í lögunum er gert ráð fyrir að áreitni teljist mismunun þegar hún tengist kynþætti eða þjóðernisuppruna, sbr. 7. gr. laganna, og er það í samræmi við efni tilskipunar 2000/43/EB. Í frumvarpi þessu er lagt til að með áreitni verði ekki eingöngu átt við hegðun sem tengist kynþætti og þjóðernisuppruna heldur einnig trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu viðkomandi. Jafnframt er lagt til að orðalag ákvæðisins verði breytt til samræmis við skilgreiningu hugtaksins kynbundin áreitni í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Þannig er lagt til að felld verði á brott orðin „í óþökk“ í framangreindu hugtaki þar sem ekki verður séð að nauðsyn sé á að hafa þessi orð í skilgreiningunni þar sem hegðunin hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi. Orðnotkun laganna þykir jafnframt setja ábyrgð á þolendur en ekki meinta gerendur.
     Um c-lið. Samkvæmt lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, er óheimilt að mismuna einstaklingum á vinnumarkaði á grundvelli trúar og lífsskoðunar í skilningi tilskipunar 2000/78/EB. Í frumvarpi þessu er lagt til að sami skilningur verði lagður í hugtökin trú og lífsskoðun og í lögum nr. 86/2018. Með orðinu trú í frumvarpi þessu verði þannig átt við átrúnað eða trú og með orðinu lífsskoðun verði átt við skoðun sem byggist á veraldlegum viðhorfum til lífsins, ákveðnum siðferðisgildum og siðferði ásamt skilgreindri siðfræði og þekkingarfræði. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 86/2018 er tekið fram að mikilvægt sé að einstaklingar verði ekki fyrir mismunun á grundvelli lífsskoðana sinna og að sífellt meiri áhersla hafi hin síðari ár verið lögð á að hugsana- og samviskufrelsi sé verndað til jafns við trúfrelsi. Sama eigi við um stöðu lífsskoðunarfélaga gagnvart trúfélögum. Sé þetta meðal annars í samræmi við 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Síðan er tekið fram að samkvæmt lögum nr. 6/2013, um breytingu á lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999, sem samþykkt voru 30. janúar 2013, sé skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags að um sé að ræða félag sem byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miði starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og mannrækt og fjalli um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti. Efni frumvarps þessa takmarkast þannig hvorki við hefðbundin trúarbrögð né þá sannfæringu eina sem hafi skipulagsleg einkenni eða hefðir sem líkja megi við hefðbundin trúarbrögð.
    Með þessari nálgun fellur til dæmis trúleysi og efahyggja undir lífsskoðun í skilningi frumvarpsins enda séu skilyrði frumvarpsins uppfyllt að öðru leyti. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að t.d. pólitískar skoðanir eða skoðanir um mismunandi verðleika einstaklinga vegna einhverra þeirra mismununarþátta sem frumvarp þetta tekur til falli hér undir. Í nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði frá allsherjar- og menntamálanefnd (þskj. 1184, 394. mál á 148. löggjafarþingi) kemur fram að í umsögn Siðmenntar um sambærilegt frumvarp frá 146. löggjafarþingi (435. mál) sé fjallað um að lífsskoðun geti hvort heldur sem er verið veraldleg eða trúarleg. Nefndin taki undir ábendingu Siðmenntar um að lífsskoðanir geti verið hvort heldur sem er trúarlegar eða veraldlegar og líti á skilgreiningu hugtaksins í frumvarpinu sem skilgreiningu á veraldlegri lífsskoðun enda sé það í samræmi við þann tilgang hennar í frumvarpinu að greina þess háttar lífsskoðun frá trúarlegum skoðunum.
    Samkvæmt lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, er óheimilt að mismuna einstaklingum á vinnumarkaði á grundvelli fötlunar í skilningi tilskipunar 2000/78/EB. Í frumvarpi þessu er lagt til að sami skilningur verði lagður í hugtakið fötlun og í þeim lögum og til samræmis við 1. tölul. 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Með orðinu fötlun í frumvarpi þessu verði þannig átt við afleiðingu skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar. Til fatlaðs fólks telst fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.
    Samkvæmt lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, er óheimilt að mismuna einstaklingum á vinnumarkaði á grundvelli aldurs í skilningi tilskipunar 2000/78/EB. Í frumvarpi þessu er lagt til að einnig verði óheimilt að mismuna einstaklingum á grundvelli aldurs utan vinnumarkaðar og að sami skilningur verði lagður í hugtakið og í frumvarpinu sem varð að lögum nr. 86/2018, þannig að með orðinu aldur í frumvarpi þessu sé átt við lífaldur en ekki t.d. starfsaldur, og er það í samræmi við túlkun Evrópudómstólsins á hugtakinu í skilningi fyrrnefndrar tilskipunar. Hvað varðar mismunun á grundvelli aldurs á sviðum utan vinnumarkaðar er vísað að öðru leyti til skýringa við b-lið 5. gr. frumvarps þessa.
    Í frumvarpi þessu er mælt fyrir um bann við mismunun utan vinnumarkaðar á grundvelli kynhneigðar en með kynhneigð er átt við getu fólks til að laðast að eða verða ástfangið af öðrum einstaklingi, sbr. 11. tölul. 3. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Kynhneigð getur verið breytileg og mismunandi hjá hverjum og einum. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 86/2018 kemur fram að í skýringargögnum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (skjal COM (1999) 565) komi fram að gera verði greinarmun á kynhegðun annars vegar og kynhneigð hins vegar. Er þannig eingöngu gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins eigi við um bann við mismunun á vinnumarkaði á grundvelli kynhneigðar en ekki kynhegðunar og nær efni frumvarpsins því ekki til kynhegðunar einstaklinga. Gert er ráð fyrir að það sama eigi við í frumvarpi þessu. Enn fremur þykir mikilvægt að frumvarp þetta stuðli að jafnri meðferð óháð kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu, sbr. fyrrnefnd lög nr. 86/2018, og er því lagt til að kynvitund, kyneinkenni og kyntjáning verði meðal þeirra þátta sem geta leitt til mismununar sem frumvarp þetta tekur á þar sem ætla má að einstaklingur geti átt á hættu að verða fyrir slíkri mismunun utan vinnumarkaðar. Framangreindar skilgreiningar eru til samræmis við lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.
    Lagt er til að skilgreining á hugtakinu fjölþætt mismunun verði bætt við orðskýringarákvæði laganna. Ákvæðið er í samræmi við 3. tölul. 2. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Um 4. gr.

    Í ákvæði þessu er lagt til að hvers kyns mismunun á öllum sviðum samfélagsins annars staðar en á vinnumarkaði, hvort heldur er bein eða óbein, verði óheimil á grundvelli þeirra mismununarþátta sem um ræðir í frumvarpi þessu. Líkt og áður segir tekur frumvarpið ekki til vinnumarkaðar þar sem lög nr. 86/2018 gilda um jafna meðferð á vinnumarkaði og banna hvers kyns mismunun á þeim vettvangi á grundvelli framangreindra þátta.
    Lagt er til að skýrt verði kveðið á um að fjölþætt mismunun sé óheimil og er það til áréttingar á 1. mgr. 16. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Um nánari umfjöllun um fjölþætta mismunun vísast til skýringa við 16. gr. við frumvarp það er varð að þeim lögum. Jafnframt er lagt til að fyrirmæli um mismunun vegna allra framangreindra mismununarþátta teljist mismunun, en ekki eingöngu vegna kynþáttar og þjóðernisuppruna. Dæmi um slíka mismunun væri ef eigandi skemmtistaðar gæfi dyravörðum þau fyrirmæli að hleypa ekki einstaklingum af tiltekinni trú eða með tiltekna kynhneigð inn á skemmtistað. Annað dæmi væri ef fyrirtæki sem sér um öryggisgæslu veitti öryggisvörðum í verslunarmiðstöð fyrirmæli um að fylgjast sérstaklega vel með fólki vegna sömu ástæðna.
    Einnig er lagt til það nýmæli að skýrt verði kveðið á um að neitun um viðeigandi aðlögun vegna fötlunar samkvæmt nýrri grein, 7. gr. a, teljist til mismununar, sbr. a-lið 5. gr. frumvarpsins. Enn fremur er gert ráð fyrir að áreitni, sbr. b-lið 3. gr. frumvarpsins, teljist mismunun þegar hún tengist einhverjum þeim þáttum sem getið er um í 1. mgr. 1. gr., að teknu tilliti til þeirra þátta sem við bætast með frumvarpi þessu, verði það að lögum. Þá er lagt til að ákvæði í samningi, sem fela í sér mismunun vegna einhverra umræddra þátta, skuli vera ógild.

Um 5. gr.

    Í a-lið er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við lögin, 7. gr. a, til samræmis við 12. tölul. 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.
    Með vísan til almenns álits nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, nr. 6 (2018) um jafnrétti og mismunun, gætu dæmi um viðeigandi aðlögun samkvæmt frumvarpi þessu verið að gera aðstöðu eða upplýsingar aðgengilegar fyrir tiltekinn fatlaðan einstakling, breyta eða lagfæra einhver tiltekin tæki, endurskipuleggja einhverja tiltekna starfsemi til að gera fötluðum einstaklingi kleift að taka þátt og aðlaga námsefni og/eða kennsluaðferðir í skólastarfi fyrir tiltekinn fatlaðan einstakling enda teljist lagfæringarnar eða breytingarnar ekki of íþyngjandi að teknu tilliti til þeirrar starfsemi um ræðir hverju sinni.
    Sambærilegt ákvæði er í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Þar er kveðið á um skyldu atvinnurekenda til viðeigandi aðlögunar vegna fötlunar. Ákvæðið byggist á 5. gr. tilskipunar 2000/78/EB. Í skýringum við 10. gr. frumvarpsins sem varð að þeim lögum er tekið fram hvernig ákvarðanir um það hvort ráðstafanir teljist of íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi atvinnurekanda eru metnar og nokkur dæmi eru nefnd um hvað mundi teljast viðeigandi aðlögun á vinnumarkaði. Ætla má að unnt verði að nota þær skýringar til hliðsjónar þegar viðeigandi aðlögun samkvæmt frumvarpi þessu er metin.
    Lagt er til að skyldan til viðeigandi aðlögunar þegar kemur að sviðum utan vinnumarkaðar takmarkist annars vegar við að unnt sé koma tilteknum ráðstöfunum í framkvæmd og hins vegar við að umræddar ráðstafanir séu ekki of íþyngjandi að teknu tilliti til þeirrar starfsemi sem um ræðir hverju sinni. Við ákvörðun um hvort ráðstafanir teljist of íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi þannig að honum beri þá ekki skylda til að hrinda þeim í framkvæmd ber sérstaklega að líta til fjárhagslegs kostnaðar og umfangs þeirra með tilliti til eðlis og stærðar stofnunar eða fyrirtækis sem í hlut á hverju sinni. Í því ljósi ber enn fremur að líta til fjárhagslegs bolmagns viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis til að hrinda ráðstöfununum í framkvæmd, en í því tilliti þarf jafnframt að líta til möguleika á opinberum fjárstuðningi, svo sem styrkjum úr opinberum sjóðum sem ætlað er að styðja við aðgerðir til að bæta aðgengi og aðbúnað fatlaðra einstaklinga. Þá er gert ráð fyrir að sérstaklega verði tekið tillit til þess hvers eðlis fötlunin sé og hvað það er sem viðkomandi einstaklingi verði gert kleift að njóta til jafns við aðra í kjölfar þeirra ráðstafana sem grípa þarf til. Einnig gæti þurft að taka tilliti til líftíma vöru eða þjónustu sem um ræðir, sem og hvers eðlis samband þess fatlaða einstaklings sem á í hlut er við tiltekna stofnun eða fyrirtæki og hve lengi það hefur varað eða í hverju samskiptin þar á milli hafa falist. Dæmi um viðeigandi aðlögun væri ef skólayfirvöld réðu táknmálstúlk til að tryggja heyrnarskertum nemanda möguleika á að þreyta tiltekið próf til jafns við aðra nemendur.
    Þess má geta að skylda til viðeigandi aðlögunar er ekki sú sama og almennt aðgengi þó svo að í báðum tilvikum sé markmiðið að auka aðgengi, sbr. álit nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, nr. 6 (2018) um jafnrétti og mismunun. Skylda til viðeigandi aðlögunar er svokölluð ex nunc-skylda en skyldan til almenns aðgengis með svokallaðri „algildri hönnun“ eða hjálpartækjum kallast ex ante-skylda. Algild hönnun merkir samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: Hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu, sem allt fólk getur nýtt sér, að því marki sem mögulegt er, án þess að koma þurfi til umbreyting eða sérstök hönnun. Frumvarp þetta tekur aðeins til viðeigandi aðlögunar.
     a.      Samkvæmt ex ante-skyldu þarf að taka tillit til jafns aðgengis í öllum kerfum og ferlum án tillits til þarfa tiltekins fatlaðs einstaklings, t.d. gera byggingu, þjónustu eða vöru aðgengilega fyrir alla, smám saman, einkum við endurbætur á húsnæði og aðstöðu. Um er að ræða fyrirbyggjandi og kerfisbundna skyldu stjórnvalda og gæta þarf samráðs við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sbr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, við gerð slíkra reglna.
     b.      Samkvæmt ex nunc-skyldu þarf að gera viðeigandi aðlögun frá þeim tíma sem tiltekinn einstaklingur krefst aðgengis að tiltekinni aðstöðu eða vill nýta rétt sinn í tilteknu tilviki. Viðeigandi aðlögunar er oftast krafist af þeim tiltekna fatlaða einstaklingi sem krefst aðgengis í því tilviki, eða fulltrúa þess einstaklings, en það er þó ekki nauðsynlegt. Í sumum tilvikum kemur viðeigandi aðlögun sem gerð verður fyrir þennan tiltekna einstakling öðrum fötluðum einstaklingum til góða. Í öðrum tilvikum kemur viðeigandi aðlögunin sem er gerð í tilteknu tilviki aðeins tilteknum einstaklingi til góða. Skyldan til viðeigandi aðlögunar er einstaklingsmiðuð viðbragðsskylda sem stofnast um leið og krafa um viðeigandi aðlögun er sett fram. Skyldan til viðeigandi aðlögunar krefst þess að sá sem krafan beinist að ráðfæri sig við þann sem ber upp kröfuna um það hvað telst viðeigandi aðlögun í því tiltekna tilviki. Mikilvægt er að hafa í huga að skyldan til viðeigandi aðlögunar takmarkast ekki eingöngu við tilvik þar sem fatlaði einstaklingurinn hefur krafist viðeigandi aðlögunar eða þar sem unnt er að sanna að sá sem skyldan beinist að hafi í raun vitað um fötlun einstaklingsins. Skyldan til viðeigandi aðlögunar varðar jafnframt tilvik þar sem sá sem krafan beinist að hefði mátt vita að einstaklingurinn væri fatlaður sem gæti kallað á viðeigandi aðlögun til að þessi tiltekni einstaklingur geti átt aðgengi og nýtt réttindi sín til jafns við aðra.
    Rétt er að taka fram að viðeigandi aðlögun skal ekki rugla saman við sértækar aðgerðir skv. 12. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018.
    Í b-lið er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við lögin, 7. gr. b, þess efnis að mismunandi meðferð vegna aldurs teljist ekki brjóta gegn frumvarpi þessu, séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. opinberri stefnu eða öðrum markmiðum stjórnvalda, t.d. efnahagslegum, félagslegum eða fjárhagslegum markmiðum, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að. Þetta er lagt til þar sem mismunandi meðferð á grundvelli aldurs á ýmsum sviðum utan vinnumarkaðar kann að vera réttlætanleg við vissar aðstæður. Því er nauðsynlegt að gera annars vegar greinarmun á mismunandi meðferð sem er réttlætanleg, t.d. á grundvelli lögmætrar stefnu í lýðheilsumálum eða vegna almannaöryggis eða barnaverndar, og hins vegar mismunun sem nauðsynlegt er að banna. Mikilvægt er að hafa í huga að slík frávik fela í sér undanþágu frá meginreglunni um jafna meðferð óháð aldri utan vinnumarkaðar.
    Gert er ráð fyrir að það komi til skoðunar í hverju tilviki fyrir sig hvort aldurstengdar reglur séu heimilar á grundvelli ákvæðis þessa. Því verði ávallt að meta hvort fyrir þeim séu málefnaleg rök sem helgist af lögmætu markmiði og heimili þar með mismunandi meðferð á grundvelli aldurs en þá komi það í hlut dómstóla að meta hvort umrædd regla gangi lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt var að. Sem dæmi um tilvik þar sem gæti verið um mismunun að ræða á grundvelli aldurs utan vinnumarkaðar væri að sett væru aldursskilyrði fyrir því að veita eða fá afhenta einhverja tiltekna þjónustu eða vöru án þess að málefnaleg rök lægju þar að baki. Til dæmis að fá ekki að leigja bíl hjá bílaleigu eingöngu vegna þess að viðkomandi hafi náð tilteknum aldri án þess að unnt sé að réttlæta það á málefnalegan hátt.
    Þess má geta að lög um jafna meðferð á vinnumarkaði hafa að geyma sambærilegt ákvæði, sbr. 12. gr., sem tekur mið af 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 2000/78/EB. Tekið er fram í umræddu ákvæði tilskipunarinnar að mismunandi meðferð í þessum skilningi geti falið í sér að sett séu lágmarksskilyrði um aldur, starfsreynslu eða starfsaldur fyrir aðgengi að störfum eða tilteknum starfstengdum hlunnindum, eða skilyrði um hámarksaldur vegna krafna um sérstaka þjálfun þeirra sem ráðnir séu. Þegar litið er til dóma Evrópudómstólsins virðist sem fjölmörg álitaefni hafi risið um framkvæmd ákvæðisins líkt og sjá má í skýringum við 12. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 86/2018.
    Í grein Helen Meenan, sem nefnist „Age Discrimination in the European Union: A Work in Progress“ og birt var í bókinni Equality into Reality, Action for Diversity and Non-Discrimination in Iceland (Háskólaútgáfan, 2011), kemur fram að flest aðildarríkja Evrópusambandsins hafi lögfest ákvæði sem hafi það að markmiði að vernda ungt fólk á vinnumarkaði og algengt sé að finna í lögum ákvæði sem heimili skilyrði um lágmarks- eða hámarksaldur, sér í lagi í tengslum við aðgengi að störfum. Ákveðin óvissa ríki þó enn um það hvers konar mismunun á grundvelli aldurs sé heimil í skilningi ákvæðisins og því verði að telja mikilvægt að litið verði til dómafordæma Evrópudómstólsins við túlkun þess. Samkvæmt túlkun Evrópudómstólsins á 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 2000/78/EB verða þau lögmætu markmið sem hugsanlega geta leitt til þess að mismunandi meðferð á grundvelli aldurs sé heimil verði að vera í samræmi við þær reglur sem gilda um viðkomandi starfsstétt, auk þess sem meðferðin verði að vera viðeigandi og nauðsynleg til að ná því markmiði sem að sé stefnt. Í því sambandi má nefna skilyrði um tiltekin aldurstakmörk þegar um er að ræða störf innan tiltekinna starfsgreina sem krefjast sérstakrar þjálfunar eða líkamshreysti þeirra sem inna þau af hendi. Þó svo að framangreint gildi á vinnumarkaði má ætla að unnt verði að líta til þeirrar reynslu sem þar hefur myndast hvað varðar mat á því hvort mismunun á grundvelli aldurs hafi átt sér stað innan þess sviðs þegar kemur að sama mati utan vinnumarkaðar, verði frumvarp þetta að lögum.
    Frumvarpi þessu er ekki ætlað að hafa áhrif á aðra löggjöf sem mælir fyrir um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs ef unnt er að styðja hana málefnalegum ástæðum og lögmætu markmiði og ekki er gengið lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem að er stefnt. Mismunandi aldursskilyrði eru tilgreind í hinum ýmsu lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og samningum sem varða mörg svið utan vinnumarkaðar. Sem dæmi má nefna lögræðislög, umferðarlög, áfengislög, barnaverndarlög og lög um málefni aldraðra. Slík aldursskilyrði teljast ekki mismunun ef unnt er að réttlæta málefnalega þau lögmætu markmið sem liggja þar að baki og aðferðirnar til að ná þeim eru viðeigandi og nauðsynlegar. Sem dæmi um aldursskilyrði sem unnt væri að réttlæta málefnalega væri lágmarksaldur inn á stað sem hefur leyfi til að selja áfenga drykki eða til að sjá tiltekna kvikmynd í kvikmyndahúsi. Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög. nr. 19/2013, þarf að setja aldurstakmörk í ákveðnum tilvikum til að vernda börn. Eins þegar mismunandi verðlag er bundið við tiltekna aldurshópa, t.d. reglur sem kveða á um lægra verð fyrir börn og ellilífeyrisþega í almenningssamgöngur og sund en fyrir aðra aldurshópa. Einnig má nefna lög um vátryggingarsamninga sem innihalda einstaka ívilnandi ákvæði fyrir hinn vátryggða geti hann ekki vegna aldurs eða andlegs ástands síns gert sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna.
    Það kunna að vera tilvik þar sem miðað er við aldur í banka- eða annarri fjármálastarfsemi og í tengslum við vörukaup og þjónustu. Það getur leitt af sér að neitað er að afhenda vöru eða þjónustu eða þjónustan er minnkuð eða verðlögð hærra eingöngu vegna aldurs neytanda. Einnig hefur verið stuðst við aldur við ýmiss konar útreikninga í tryggingastarfsemi hér á landi. Sem dæmi um það eru líf- og sjúkdómatryggingar sem veittar eru á grundvelli laga um vátryggingarsamninga. Andlag þeirra er líf og heilsa vátryggðs þar sem aldur vátryggingartaka skiptir máli við mat á áhættu og þar af leiðandi fjárhæð iðgjalds. Ef unnt er að réttlæta slíka mismunandi meðferð vegna aldurs á málefnalegan hátt er ekki um mismunun að ræða. Hvert mál þarf að skoða sérstaklega til að unnt sé að meta hvort málefnalegar ástæður hafi verið fyrir hendi þegar einstaklingur telur að sér hafi verið mismunað í tengslum við afhendingu á eða aðgengi að vöru eða þjónustu.
    Verði frumvarp þetta að lögum má gera ráð fyrir að endurskoða og endurmeta þurfi aldurstengdar reglur í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og samningum og gera breytingar á þeim, ef þörf krefur, til samræmis við ákvæði frumvarps þessa. Ætla má að hlutaðeigandi aðilar þurfi svigrúm til þess og því er lagt til að ákvæðið taki ekki gildi fyrr en 1. júlí 2024, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Þetta er einnig lagt til í samræmi við gildistöku laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, en þá tók bann við mismunandi meðferð á grundvelli aldurs ekki gildi fyrr en einu ári eftir gildistöku þeirra laga af sömu ástæðu. Jafnframt má nefna að samkvæmt tilskipun nr. 2000/78/EB fá aðildarríki þremur árum lengri tíma til að innleiða bann við mismunun á grundvelli aldurs en til að innleiða bann við mismunun á grundvelli annarra þátta tilskipunarinnar.
    Að öðru leyti vísast til skýringa við 3. gr. þar sem fjallað er um hugtakið aldur.

Um 6. gr.

    Ákvæði 8. gr. laganna kveður á um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna, sbr. tilskipun 2000/43/EB, og er þá meðal annars átt við almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu. Í frumvarpi þessu er lagt til að framangreindu ákvæði verði breytt þannig að það gildi ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna á þessum sviðum heldur einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Það þýðir að hvers kyns mismunun vegna þessara þátta í tengslum við heilbrigðisþjónustu eða félagsþjónustu sveitarfélaga verði óheimil og að hið sama gildi um mismunun í tengslum við aðgang að almannatryggingakerfi eða öðrum opinberum félagslegum kerfum, svo sem atvinnuleysistryggingakerfi og fæðingarorlofskerfi.
    Í þessu sambandi þykir mikilvægt að geta þess að ákvæðinu er ætlað að vera til fyllingar 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem gildir um stjórnvaldsákvarðanir, meðal annars innan framangreindra velferðarkerfa. Þar kemur fram að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála og að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða sem byggjast meðal annars á kynferði, trúarbrögðum eða öðrum sambærilegum ástæðum. Gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins sem hér um ræðir nái jafnframt til þjónustunnar sem slíkrar en ekki eingöngu til þeirrar stjórnvaldsákvörðunar að veita þjónustuna. Því má ætla að um mismunun sé að ræða ef t.d. einstaklingar af tiltekinni trú eða með tiltekna kynhneigð fá ákveðna félagsþjónustu eingöngu tvisvar í viku þegar einstaklingar af annarri trú eða með aðra kynhneigð sem eins er ástatt um fá sömu þjónustu daglega.
    Ákvæðinu er einnig ætlað að vera til stuðnings lagaákvæðum í öðrum lögum sem kveða á um vernd á þessum sviðum á grundvelli þeirra þátta sem frumvarp þetta tekur til. Sem dæmi má nefna lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í þeim lögum eru sett fram skýr markmið um að fatlað fólk skuli eiga kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skuli miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Í þeim lögum er fötluðu fólki tryggður réttur í samræmi við þarfir þess og óskir, sem og aðgangur að félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar þannig að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu.
    Enn fremur er unnt að nefna að samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga skal fatlað fólk eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða eins og það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu verði. Um húsnæði fyrir fatlað fólk gilda auk þess ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010, laga um mannvirki, nr. 160/2010, laga um húsnæðismál, 44/1998, og laga um almennar íbúðir, 52/2016, eftir því sem við á, sbr. 9. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Af almennum reglum leiðir að öll ákvæði almennrar húsnæðislöggjafar, svo sem ákvæði húsaleigulaga og laga um húsnæðisbætur, gilda einnig um húsnæði fyrir fatlað fólk.
    Í 9. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, sbr. tilskipun 2000/43/EB, er kveðið á um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna í tengslum við aðgang að eða afhendingu á vöru og þjónustu. Í frumvarpi þessu er lagt til að framangreindu ákvæði verði breytt þannig að það gildi einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Það þýðir að hvers kyns mismunun vegna umræddra þátta í tengslum við aðgang að eða afhendingu á vöru eða þjónustu verði óheimil. Hið sama á við um húsnæði sem er í boði fyrir almenning. Í þessu felst meðal annars að óheimilt verði að haga aðstæðum þannig að aðgangur að eða afhending vöru eða þjónustu, þ.m.t. húsnæði, sé hagstæðari fyrir einstakling af t.d. tiltekinni trú eða kynhneigð en einstakling sem aðhyllist aðra trú eða hefur aðra kynhneigð.
    Bann við mismunun samkvæmt ákvæði þessu í lögunum gildir um alla aðila, jafnt opinbera sem einkaaðila, sem útvega vörur og veita þjónustu sem býðst almenningi á almennum markaði sem og á opinberum markaði. Líkt og fram kemur í skýringum við 9. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 85/2018 er með hugtakinu aðgangur í frumvarpi þessu jafnframt átt við hugtakið aðgengi. Með hugtakinu vörur í ákvæði þessu er átt við framleiðsluvörur í skilningi ákvæða stofnsáttmála Evrópusambandsins að því er varðar frjálsa vöruflutninga, sbr. einnig 8. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Með hugtakinu þjónusta í ákvæðinu er átt við þjónustu sem að jafnaði er veitt gegn þóknun að því leyti sem hún lýtur ekki ákvæðum um frjálsa vöruflutninga, frjálsa fjármagnsflutninga og frjálsa fólksflutninga, sbr. 50. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins sem er efnislega samhljóða 37. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Af dómafordæmum Evrópudómstólsins má ráða að undir þjónustu geti fallið hvers konar atvinnustarfsemi sem felur í sér þjónustu gegn endurgjaldi. Ekki virðist skipta máli hvaða fyrirkomulag er á slíku endurgjaldi eða hver reiðir það af hendi. Það er því ekki gert að skilyrði að sá sem njóti þjónustunnar greiði fyrir hana.
    Einnig kemur fram í framangreindum skýringum að í samræmi við 4. tölul. aðfaraorða tilskipunar 2000/43/EB sé ekki gert ráð fyrir að ákvæðið eigi við um viðskipti á sviði fjölskyldu- og/eða einkalífs. Lögin gilda því ekki um tilvik þar sem einstaklingur leigir út íbúð sína tímabundið eða herbergi í húsi þar sem fjölskylda hans býr. Öðru máli gegnir um leigufélag sem býður íbúðir til leigu eða einstakling sem leigir út íbúðir að staðaldri. Enn fremur er lögunum ætlað að gilda um leigu herbergja á hótelum og gistiheimilum. Skiptir þá ekki máli þótt sá sem rekur gistiheimilið búi í einu herbergjanna.
    Í framangreindum skýringum er enn fremur lögð áhersla á að lagaákvæðið takmarki ekki samningsfrelsi manna almennt. Aðili sem býður vörur eða þjónustu kann að hafa margar huglægar ástæður fyrir vali sínu á samningsaðila. Lögin koma ekki í veg fyrir að aðilum sé frjálst að velja sér samningsaðila svo lengi sem valið byggist ekki á kynþætti og þjóðernisuppruna viðsemjandans sem dæmi. Það væri t.d. unnt að réttlæta ójafna meðferð af málefnalegum ástæðum ef húsnæðiskjarni væri til sölu eða leigu með áherslu á fólk sem komið væri yfir tiltekinn aldur eða fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
    Dæmi um tilvik þar sem erfitt væri að rökstyðja samkvæmt frumvarpi þessu að málefnalegar ástæður lægju að baki vali á viðsemjanda væri ef hóteleigandi neitaði að veita pari af sama kyni aðgengi að hótelherbergi með hjónarúmi eða eigandi bakarís neitaði að baka köku með regnbogafánanum (merki samkynhneigðra). Þetta eru dæmi um tilvik sem upp hafa komið erlendis.
    Þess má geta að sambærilegt ákvæði er í 17. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, sem kveður á um að hvers konar mismunun á grundvelli kyns er varðar aðgang að eða afhendingu á vöru sem og aðgang að eða veitingu þjónustu sé óheimil.
    Samkvæmt 13. gr. laga nr. 85/2018 er óheimilt að láta einstaklinga gjalda þess að kvartað hafi verið undan eða mismunun kærð vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna eða leiðréttingar krafist á grundvelli laganna. Í skýringum með framangreindu ákvæði í frumvarpi til laganna kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að veita einstaklingum sem kvarta undan eða kæra mismunun vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna tiltekna vernd, sem og þeim er krafist hafa leiðréttingar á grundvelli þess. Einnig er lögunum ætlað að koma í veg fyrir að óviðkomandi aðilar verði látnir gjalda þess að kvartað hafi verið undan eða mismunun kærð eða krafist leiðréttingar á grundvelli ákvæða laganna.
    Ákvæði þetta er sambærilegt 9. gr. tilskipunar 2000/43/EB. Ákvæðið á sér auk þess fyrirmynd í 27. gr. brottfallinna laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, sbr. 20. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Sambærilegt ákvæði var nýmæli í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, en slíkt ákvæði þótti nauðsynlegt til að ákvæði laganna yrðu virk á þann hátt að sá sem teldi sig misrétti beittan gæti leitað réttar síns án þess að eiga á hættu neikvæðar afleiðingar.
    Í skýringum við 13. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 85/2018 kemur fram að það verði að ætla að hið sama gildi um kvartanir, kærur eða kröfur um leiðréttingu á grundvelli þess frumvarps. Eigi ætlað brot skv. 1. mgr. ákvæðisins sér stað meira en einu ári eftir að kvörtun, kæra eða krafa um leiðréttingu kom fram á grundvelli laganna verður þó ekki litið svo á að um brot skv. 1. mgr. hafi verið að ræða.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að ákvæðinu verði breytt á þann veg að vernd gegn órétti muni ekki einungis gilda vegna kynþáttar og þjóðernisuppruna heldur jafnframt vegna trúar, lífsskoðunar, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar. Þannig verði óheimilt að láta einstaklinga gjalda þess að kvartað hafi verið undan eða mismunun kærð vegna allra framangreindra mismununarþátta eða krafist leiðréttingar á grundvelli ákvæða frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Ákvæði 10. gr. laganna kveður á um að hvers kyns mismunun vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna sé óheimil þegar kemur að menntun, sbr. g-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2000/43/EB. Fyrirmynd greinarinnar er 28. gr. brottfallinna laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, en efnislega sambærilegt ákvæði hefur verið í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 1991. Orðalag 28. gr. laga nr. 10/2008 var uppfært í nýjum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Þannig var horfið frá hugtakinu uppeldisstofnun enda um úrelt hugtak að ræða og orðunum „öðrum menntastofnunum“ var bætt við ákvæðið. Með því var tryggt að ákvæðið næði einnig yfir annað nám, meðal annars listnám og framhaldsfræðslu. Einnig var hugtakinu frístundaheimili bætt við ákvæðið og er það í samræmi við lög nr. 76/2016, um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008. Enn fremur var mismunun á grundvelli kyns í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi bönnuð á skýrari hátt. Tekið var fram í skýringum með ákvæðinu í frumvarpi er varð að þeim lögum að félagsmiðstöð félli meðal annars undir æskulýðs- og tómstundastarf. Með frumvarpi þessu er lagt til að orðalag ákvæðis 10. gr. laga nr. 85/2018 verði breytt á sama hátt og samræmt 21. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.
    Í frumvarpi þessu er einnig lagt til að breyta 10. gr. laganna þannig að hún taki ekki eingöngu til jafnrar meðferðar einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna þegar kemur að menntun heldur gildi einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Þannig er lagt til að hvers kyns mismunun vegna þeirra þátta sem um ræðir verði óheimil í skólum, öðrum menntastofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og skuli þess gætt í námi og kennslu, þjálfun, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur á öllum skólastigum sem og iðkendur. Markmið þessa ákvæðis er meðal annars að leggja áherslu á mikilvægi þess að ná fram jafnri meðferð í öllu skólastarfi óháð framangreindum mismununarþáttum.
    Í 2. mgr. 10. gr. laganna er kveðið á um að kennslu- og námsgögn skuli vera þannig úr garði gerð að hvorki sé mismunað á grundvelli kynþáttar eða þjóðernisuppruna né að þau séu einstaklingum af tilteknum kynþætti og þjóðernisuppruna til minnkunar eða lítilsvirðingar. Í frumvarpi þessu er bætt við þáttum er snúa að mismunun á grundvelli trúar, lífsskoðunar, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar og að kennslu- og námsgögn skuli ekki vera einstaklingum til minnkunar eða lítilsvirðingar sökum allra framangreindra mismununarþátta.
    Ákvæðinu er einnig ætlað að vera til stuðnings lagaákvæða í öðrum lögum sem fjalla um vernd á þessu sviði á grundvelli þeirra þátta sem frumvarp þetta tekur til. Má t.d. nefna 13. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, þar sem kveðið er á um að fötluð börn skuli hafa raunverulegan aðgang að og njóta menntunar, þjálfunar og tómstunda. Þess má jafnframt geta að í 16. gr. sömu laga er sérstaklega fjallað um skyldu sveitarfélaga til að bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur og 18. gr. sömu laga fjallar um rétt fatlaðra barna til að eiga kost á að komast í sumardvöl að heiman eins og önnur börn. Enn fremur má nefna 3. mgr. 24. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, þar sem segir að markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti.
    Ákvæði þessu er ekki ætlað að hafa áhrif á skipulag skólakerfisins eða starfsemi skóla almennt, þ.m.t. á efni aðalnámskrár á öllum skólastigum. Því er heldur ekki ætlað að hafa áhrif á trúarbragðakennslu eða viðburði á vegum skólans tengdum trúarhátíðum eða lífsskoðunum, á aldursskiptingu eftir árgöngum eða aðra aldurs- eða hópaskiptingu sem tíðkast í menntakerfinu og í íþrótta- og æskulýðsstarfi, eða að tilteknar skipulagðar vettvangsferðir séu einungis í boði fyrir nemendur í tilteknum aldurshópum, svo að dæmi séu nefnd.

Um 8. gr.

    Í 11. gr. laganna er kveðið á um að auglýsandi og sá sem hannar eða birtir auglýsingu skuli sjá til þess að auglýsingin sé einstaklingum af tilteknum kynþætti eða þjóðernisuppruna ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar eða stríði á nokkurn hátt gegn jafnri meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Þá er gert ráð fyrir að óheimilt verði að birta slíka auglýsingu í fjölmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi.
    Ákvæðið á sér fyrirmynd í 29. gr. brottfallinna laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, sbr. 22. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Efnislega sambærilegt ákvæði hefur verið í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 1976 enda þótt skerpt hafi verið á efni þess í gegnum tíðina. Þykir mikilvægt að ákvæðið nái bæði til auglýsanda og þess sem hannar eða birtir auglýsingu svo að hvor um sig verði þar með ábyrgur fyrir sinni aðkomu að auglýsingunni. Jafnframt er talið nauðsynlegt að ákvæðið nái einnig til birtingarinnar sem slíkrar til að unnt verði að stöðva birtingu auglýsingar brjóti hún í bága við ákvæðið. Í þessu sambandi er ekki gert ráð fyrir að það skipti máli hvar auglýsingin birtist, svo sem í dagblöðum, tímaritum, á auglýsingaspjöldum, í kvikmyndum, útvarpi, sjónvarpi eða á netmiðlum. Einnig er gert ráð fyrir að ljósaskilti og auglýsingar í verslunum eða á vörum teljist til auglýsinga í þessu sambandi þótt þær birtist ekki í fjölmiðlum.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að ákvæðið fjalli ekki eingöngu um kynþátt og þjóðernisuppruna í þessu samhengi heldur skuli auglýsandi og sá sem hannar eða birtir auglýsingu einnig sjá til þess að auglýsingin sé ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar þeim sem hafa ákveðna lífsskoðun eða trú, eru á vissum aldri, af tilteknum kynþætti eða þjóðernisuppruna eða í ljósi fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar viðkomandi eða stríði á nokkurn hátt gegn jafnri meðferð óháð framangreindum þáttum.

Um 9. gr.

    Í 15. gr. laganna kemur fram að ef leiddar eru líkur að því að mismunun samkvæmt ákvæðum laganna hafi átt sér stað skuli sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem lágu til grundvallar meðferðinni tengist ekki kynþætti eða þjóðernisuppruna. Er þetta í samræmi við 1. mgr. 8. gr. tilskipunar 2000/43/EB. Ákvæðið á sér jafnframt fyrirmynd í 2. mgr. 25. gr. og í 4. mgr. 26. gr. brottfallinna laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, sbr. 2. mgr. 18. gr. og 4. mgr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Efnislega samhljóða ákvæði var jafnframt að finna í 2. mgr. 23. gr. og 3. mgr. 24. gr. brottfallinna laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Nánari skýringar hvað þetta varðar má sjá í skýringum við 15. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 85/2018.
    Í þessari grein er lagt til að ákvæði þessu verði breytt þannig að sá sem talinn er hafa mismunað sýni fram á að ástæður þær sem lágu til grundvallar meðferðinni tengist ekki trú, lífsskoðun, aldri, fötlun, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu, en ekki einungis ekki kynþætti eða þjóðernisuppruna.

Um 10. gr.

    Lagt er til að innan árs frá gildistöku laga þessara skipi ráðherra starfshóp til að fjalla sérstaklega um mismunun vegna tengsla og um mögulegar tillögur til breytinga á lögum nr. 85/2018 og lögum nr. 86/2018 til að koma til móts við þess háttar mismunun. Skal starfshópurinn skila niðurstöðu til ráðherra svo fljótt sem verða má eftir að hann tekur til starfa. Í starfshópnum skulu meðal annars eiga sæti fulltrúar frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, samtökum atvinnurekenda, heildarsamtökum launafólks og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Mismunun vegna tengsla er þegar einstaklingi er mismunað vegna þess að einhver honum tengdur hefur persónueinkenni sem lög nr. 86/2018, lög nr. 85/2018 og frumvarp þetta tekur til. Sem dæmi um mismunun vegna tengsla á vinnumarkaði væri t.d. ef hæfasti umsækjandinn í starf væri ekki ráðinn eingöngu vegna þess að viðkomandi ætti fatlað barn eða maka af erlendum uppruna. Sem dæmi um mismunun vegna tengsla utan vinnumarkaðar væri ef einstaklingi væri meinað að leigja húsnæði því að skyldmenni hans væri samkynhneigt. Noregur hefur nýlega lögfest bann við mismunun vegna tengsla bæði innan og utan vinnumarkaðar í sína mismununarlöggjöf (n. lov om likestilling og forbud mot diskriminering).

Um 11. gr.

    Lagt er til að heiti laganna verði lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar. Er það til samræmis við lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Verði frumvarp þetta samþykkt koma báðir lagabálkarnir til með að ná til sömu mismununarþátta.

Um 12. gr.

    Í ákvæði þessu er lagt til að lögin taki þegar gildi verði frumvarpið samþykkt. Þó er jafnframt lagt til að ákvæði laga þessara um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs, sbr. 1. mgr. 1. gr., taki ekki gildi fyrr en 1. júlí 2024. Er þetta lagt til svo að nægur tími gefist til að fara yfir aldurstengd ákvæði í öðrum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum, reglugerðum, reglum og samningum og gera breytingar á þeim, ef þörf krefur, til samræmis við ákvæði frumvarps þessa. Þess má geta að þetta er í samræmi við gildistöku laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, en þá tók bannið við mismunandi meðferð á grundvelli aldurs ekki gildi fyrr en einu ári eftir gildistöku þeirra laga af sömu ástæðu.

Um 13. gr.

    Í 1. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, sem þykja nauðsynlegar í kjölfar frumvarps þessa og til samræmis við ákvæði laga um kynrænt sjálfræði, laga um jafna stöðu og jafna meðferð kynjanna og laga um stjórnsýslu jafnréttismála. Í 2. og 3. tölul. er auk þess vísunum í lög nr. 85/2018 breytt í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum um stjórnsýslu jafnréttismála þar sem lagt er til að heiti laganna verði breytt, sbr. 11. gr. frumvarpsins.
     Um a-lið 1. tölul. Lagðar eru er til nokkrar breytingar á 3. gr. laga nr. 86/2018. Lögð er til breyting á skilgreiningu hugtaksins áreitni í samræmi við skilgreiningu sama hugtaks í frumvarpi þessu, sbr. b-lið 3. gr., sem og til samræmis við skilgreiningu hugtaksins kynbundin áreitni í 4. tölul. 2. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Vísað er til skýringa við 3. gr. frumvarps þessa til nánari skýringar.
    Lögð til breyting á 12. tölul. 3. gr. laga nr. 86/2018 um skilgreiningu hugtaksins kynvitund í samræmi við skilgreiningu á sama hugtaki í c-lið 3. gr. frumvarps þessa sem og í 4. tölul. 2. gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.
    Lögð er til breyting á 13. tölul. 3. gr. laga nr. 86/2018 á skilgreiningu hugtaksins kyneinkenni. Þetta er lagt til í samræmi við skilgreiningu á hugtakinu kyneinkenni í c-lið 3. gr. frumvarps þessa sem og í samræmi við 2. tölul. 2. gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.
    Lögð er til breyting á 14. tölul. 3. gr. laga nr. 86/2018 um skilgreiningu hugtaksins kyntjáning í samræmi við skilgreiningu á sama hugtaki í c-lið 3. gr. frumvarps þessa sem og í samræmi við 3. tölul. 2. gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.
    Lagt er til að nýrri skilgreiningu verði bætt við orðskýringaákvæði 3. gr. laga nr. 86/2018, þ.e. á hugtakinu fjölþætt mismunun, í samræmi við c-lið 3. gr. frumvarps þessa og 3. tölul. 2. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Vísað er til skýringa við 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 150/2020 til nánari skýringar.
     Um b-lið 1. tölul. Lagðar eru til tvær breytingar á 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018. Annars vegar er lagt til að á eftir 1. málslið komi nýr málsliður sem kveði á um að fjölþætt mismunun sé einnig óheimil. Þetta er lagt til svo að skýrt verði kveðið á um að fjölþætt mismunun sé óheimil í lögum nr. 86/2018 og er það í samræmi við 4. gr. frumvarps þessa og til áréttingar á 1. mgr. 16. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Um nánari umfjöllun um fjölþætta mismunun vísast til skýringa við 16. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 150/2020. Hins vegar er lagt til að við í 1. mgr. 7. gr. laganna bætist við nýr málsliður sem kveði á um að neitun um viðeigandi aðlögun skv. 10. gr. teljist jafnframt mismunun. Þetta ákvæði er einnig í samræmi við 4. gr. frumvarps þessa.
     Um 2. og 3. tölul. Lagðar eru til breytingar á vísunum í lög nr. 85/2018 í ljósi breytingar á lagaheiti, sbr. 11. gr. frumvarpsins.