Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 202  —  151. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (framlenging bráðabirgðaheimilda).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Bjarna Ragnarsson, Hákon Þorsteinsson, Þorvald Heiðar Þorsteinsson og Magneu Magnúsdóttur frá dómsmálaráðuneytinu.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að framlengja bráðabirgðaheimildir sýslumannsembætta, lögreglu og dómstóla, sem renna að óbreyttu úr gildi þann 31. desember 2021, til þess að beita rafrænum lausnum og fjarfundarbúnaði í ákveðnum tilvikum. Með lögum nr. 32/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að heimila framlengingu fresta og rafræna meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum o.fl., voru samþykkt ákvæði til bráðabirgða til að bregðast við áhrifum af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar á tiltekin verkefni stjórnvalda og dómstóla og gera þeim kleift í auknum mæli að beita rafrænum lausnum við málsmeðferð. Gildistími heimildanna var framlengdur með lögum nr. 121/2020, um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (framlenging bráðabirgðaheimilda). Með frumvarpinu er nú á ný lagt til að framlengja heimildirnar til ársloka 2024.
    Þá er jafnframt lagt til í frumvarpinu að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir Landsrétt til að hafa aðsetur utan Reykjavíkur, sbr. 3. gr. laga nr. 10/2017, um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016, með síðari breytingum (nefnd um hæfni dómaraefna, aðsetur Landsréttar). Dómstóllinn hefur haft aðsetur í Kópavogi frá því að hann tók til starfa en unnið er að því að finna varanlegt húsnæði fyrir dómstólinn.

Varanlegar heimildir til rafrænnar meðferðar mála.
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um hvort þær bráðabirgðaheimildir sem frumvarpið mælir fyrir um varðandi rafrænar lausnir og rafræna meðferð mála hjá dómstólum og stjórnvöldum ættu að vera varanlegar. Nefndin telur mikilvægt að tryggt verði að þær tímabundnu heimildir sem mælt er fyrir um í frumvarpinu falli ekki úr gildi. Þó svo að þessar tímabundnu heimildir hafi verið veittar til að tryggja að unnt væri að sinna lögbundnum verkefnum og koma í veg fyrir réttarspjöll í ljósi aðstæðna vegna útbreiðslu kórónuveirunnar þá sé mikilvægt að byggja á þeirri reynslu og hverfa ekki til baka til fyrri framkvæmdar óháð því hver þróun heimsfaraldursins verður á komandi árum. Því leggur nefndin áherslu á að kannað verði hvort hægt sé að gera nauðsynlegar lagabreytingar til að innleiða varanlegar heimildir fyrir sýslumannsembætti, lögreglu og dómstóla til að nýta rafrænar lausnir þar sem það er mögulegt til að bæta þjónustu. Fyrir nefndinni kom fram að undirbúningur að slíkum breytingum sé þegar hafinn. Slík endurskoðun á löggjöf og innleiðing taki þó tíma enda þurfi að huga að mörgu og ekki síst að tryggja öryggi við miðlun og vistun gagna.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Nefndin leggur til að bráðabirgðaheimildir til að beita rafrænum lausnum verði framlengdar ári skemur en gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. til ársloka 2023, á þeim grundvelli að sá tími verði nýttur til að ljúka vinnu sem þegar er farin af stað með innleiðingu varanlegra heimilda til að nýta rafrænar lausnir hjá lögreglu, sýslumannsembættum og dómstólum. Hyggst nefndin leggja áherslu á að fylgjast með þeirri vinnu og mun hún í því skyni kalla eftir upplýsingum um framgang hennar fyrir árslok 2022. Nefndin leggur jafnframt til eina tæknilega breytingu á fyrirsögn frumvarpsins til að skýra efni þess. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað ártalsins „2024“ í 1.–4. gr. komi: 2023.
     2.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að framlengja gildistíma bráðabirgðaákvæða um rafræna meðferð mála o.fl.

    Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 16. desember 2021.

Bryndís Haraldsdóttir,
form., frsm.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Bergþór Ólason.
Birgir Þórarinsson. Eyjólfur Ármannsson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Jódís Skúladóttir. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Logi Einarsson.