Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 259  —  206. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um fullgildingu fríverslunarsamnings Íslands, Konungsríkisins Noregs og Furstadæmisins Liechtenstein og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.


Frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli Íslands, Konungsríkisins Noregs og Furstadæmisins Liechtenstein og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands sem undirritaður var 8. júlí 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi Íslands, Konungsríkisins Noregs, Furstadæmisins Liechtenstein og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands sem undirritaður var 8. júlí 2021 í London. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari auk viðauka á íslensku og ensku.
    Hér á eftir verður byrjað á að rekja forsögu viðræðna um fríverslunarsamninginn. Því næst verður gerð grein fyrir samráði sem utanríkisráðuneytið stóð fyrir við gerð samningsins. Þá verður rætt um helstu hagsmuni Íslands af gerð samningsins og ítarlega farið yfir helstu efnisatriði hans. Að lokum verða tilteknar þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að hrinda samningnum í framkvæmd.
    Fríverslunarsamningurinn er yfirgripsmikill og ítarlegur og hefur meðal annars að geyma eftirfarandi efnisatriði sem gerð verða nánari skil síðar:
          Kjarnahagsmunir Íslands í vöruviðskiptum eru tryggðir.
          Lagaumgjörð um þjónustuviðskipti á milli ríkjanna með sérstökum köflum um fjármálaþjónustu, fjármagnsflutninga, fjarskiptaþjónustu, sjóflutninga og fjárfestingar.
          Sérstakur kafli um tímabundna dvöl þjónustuveitenda sem auðveldar íslenskum þjónustuveitendum að veita þjónustu sína í Bretlandi og öfugt.
          Aðgangur að opinberum útboðum í Bretlandi umfram þann aðgang sem veittur er í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber útboð.
          Áframhaldandi góð vernd hugverkaréttinda. Hugverkakaflinn inniheldur jafnframt ákvæði um vernd afurðarheita.
          Upprunareglur sem áfram tryggja möguleika á að nýta ESB-hráefni til vinnslu og útflutnings.
          Metnaðarfullar skuldbindingar á sviði umhverfisverndar og baráttu gegn hlýnun jarðar auk skuldbindinga á sviði vinnuréttar.
          Sérstakur kafli um jafnréttismál þar sem aðilar samningsins undirstrika vilja sinn um að ávinningur samningsins nýtist óháð kyni og alþjóðlegar skuldbindingar á sviði kynjajafnréttis ítrekaðar.
          Samstarf á sviði samkeppnismála.
          Samstarfsvettvangur fyrir mögulega samræmingu reikigjalda með það að markmiði að vernda neytendur.
          Samningurinn tryggir að útflytjendur íslenskra sjávarafurða og landbúnaðarafurða lúta sambærilegum reglum og samkeppnisríkin á EES um innflutning dýraafurða.
          Hugað er að starfsumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, góðum reglusetningarháttum og ríkisstyrkjum.

2. Forsaga fríverslunarviðræðnanna og annarra samninga við Bretland.
    Bresk stjórnvöld tilkynntu formlega um útgöngu Bretlands úr ESB í mars 2017. Var það í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í júní 2016. Bretland gekk úr ESB 31. janúar 2020 en útgangan kom þó fyrst að fullu til framkvæmda þann 1. janúar 2021 þar sem hið svonefnda aðlögunartímabil stóð yfir frá 31. janúar til 31. desember 2020. Á aðlögunartímabilinu var Bretland áfram bundið af regluverki ESB, þ.m.t. alþjóðasamningum. Af þeim samningum skipti EES-samningurinn mestu máli hvað Ísland varðar. Með lögum um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu, nr. 121/2019, var tiltekið að við framkvæmd ákvæða laga, reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla sem fela í sér innleiðingu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992 myndi Ísland líta á Bretland með sama hætti og önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins meðan á aðlögunartímabilinu stæði. Þegar aðlögunartímabilinu lauk hættu ákvæði EES-samningsins að gilda um Bretland.
    Strax og Bretland tilkynnti um úrsögn sína úr ESB og EES var ljóst að tryggja þyrfti nýja umgjörð fyrir framtíðarsamband Íslands og Bretlands. Ísland hefur nú lokið við gerð nokkurra samninga við Bretland, bæði vegna útgöngunnar sjálfrar og um framtíðarsamband Íslands við Bretland. Á árunum 2017–2020, þar til útganga tók formlega gildi, höfðu íslensk stjórnvöld undirbúið viðbrögð við tveimur mögulegum sviðsmyndum, annars vegar að Bretland gengi úr ESB án samnings og hins vegar með útgöngusamningi. Bretland, Ísland og Noregur höfðu m.a. gert samning um vöruviðskipti sem tekið hefði gildi 31. janúar 2020 ef komið hefði til útgöngu án samnings. Þar sem niðurstaðan varð sú að Bretland gekk úr ESB með útgöngusamningi tók aðlögunartímabil við og samningurinn um vöruviðskipti tók því ekki gildi fyrr en 1. janúar 2021, þegar aðlögunartímabilinu lauk. Sá samningur gildir enn um vöruviðskipti á milli Íslands og Bretlands en honum er eingöngu ætlað að brúa bilið þangað til nýr fríverslunarsamningur tekur gildi. Hann tryggir að ekki eru lagðir hærri tollar á inn- og útflutning til og frá Bretlandi en giltu undir EES-samningnum. Auk þess tryggir hann áframhaldandi tollfrjálsan útflutning til Bretlands á 692 tonnum af lambakjöti og 329 tonnum af skyri.
    Í byrjun árs 2020 var undirritaður samningur á milli Íslands, Noregs, Liechtenstein og Bretlands í kjölfar útgöngu Bretlands úr ESB og EES-samningnum. Þessi nýi samningur leysti úr skilmálum útgöngunnar með sambærilegum hætti og gert var í útgöngusamningi Bretlands og ESB. Gerði samningurinn það m.a. að verkum að íslenskir borgarar sem búsettir voru í Bretlandi fyrir lok árs 2020 gátu haldið réttindum sínum skv. EES-samningnum. Samningurinn tryggði þannig að Íslendingar sem byggju í Bretlandi fyrir lok aðlögunartímabilsins gætu verið þar áfram og að réttindi þeirra væru í grundvallaratriðum óbreytt. Þetta á einnig við um breska ríkisborgara sem bjuggu á Íslandi við lok aðlögunartímabils. Í samningnum er einnig að finna ákvæði um tengd réttindi sem varða til að mynda almannatryggingar og viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Þá var í samningnum greitt úr ýmsum tæknilegum úrlausnarnefnum vegna útgöngu Bretlands úr EES á sviði vöruviðskipta, opinberra innkaupa, hugverkaréttinda, persónuverndar og tollamála.
    Fríverslunarviðræður við Bretland hófust í september 2020 þó svo að sameiginlegur undirbúningur ríkjanna hafi hafist nokkuð fyrr. Viðræðurnar fóru fram með hinum EFTA-ríkjunum innan EES, þ.e. Noregi og Liechtenstein.
    Markmið Bretlands og EFTA-ríkjanna innan EES var að fríverslunarviðræður þeirra á milli myndu eiga sér stað samhliða fríverslunarviðræðum Bretlands og ESB. Voru viðræður við EES-EFTA-ríkin í forgangi hjá breskum stjórnvöldum, m.a. af þeirri ástæðu. Nokkur dráttur var þó á að viðræður gætu hafist. Má reka það annars vegar til þess að COVID-19-faraldurinn hófst um það leyti sem viðræður hefðu átt að hefjast og hins vegar var mikið álag á stjórnsýslu Bretlands í kjölfar útgöngunnar úr ESB. Auk viðbragða við faraldrinum voru Bretar að undirbúa lok aðlögunartímabilsins ásamt því að eiga í viðræðum við nokkurn fjölda ríkja, auk ESB, um fríverslunarsamning.
    Innan stjórnsýslu Íslands voru fríverslunarviðræðurnar samstarfsverkefni Stjórnarráðsins sem utanríkisráðuneytið leiddi. Í desember 2019 skipaði utanríkisráðherra samninganefnd til að leiða framtíðarviðræður við Bretland í heild. Fríverslunarviðræður voru einn hluti af ábyrgðarsviði samninganefndarinnar sem skipuð var fulltrúum utanríkisráðuneytis, forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Auk samninganefndarinnar voru áfram starfandi svokallaðir Brexit-vinnuhópar sem höfðu haft veg og vanda af því að meta hagsmuni Íslands vegna útgöngu Bretlands úr ESB. Höfðu þeir vinnuhópar verið starfandi frá árinu 2017 og lagt grunninn að undirbúningi bæði fyrir fríverslunarviðræður og aðrar samningaviðræður við Bretland um framtíðarsamband ríkjanna. Jafnframt var starfræktur sérstakur stýrihópur innan utanríkisráðuneytisins undir formennsku ráðuneytisstjóra. Sérfræðingar flestra ráðuneyta tóku þátt í sjálfu samningaferlinu, þ.m.t. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, menntamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Þá tóku einnig þátt sérfræðingar ýmissa stofnanna, svo sem frá Skattinum, Matvælastofnun, Lyfjastofnun og Einkaleyfastofu. Samningaviðræður fóru fram á tímabilinu september 2020 til júní 2021. Vegna heimsfaraldursins fóru viðræður eingöngu fram í gegnum fjarfundabúnað. Er það í fyrsta sinn sem Ísland lýkur gerð fríverslunarsamnings með þeim hætti.
    Útganga Bretlands úr ESB og EES kallaði á umfangsmikla greiningu á því á hvaða sviðum yrði þörf að gera sérstaka tvíhliða samninga auk fríverslunarsamnings. Á sumum málefnasviðum eru þegar til staðar aðrir alþjóðasamningar sem taka við af EES-samningnum og gilda áfram en á öðrum málefnasviðum hefur reynst nauðsynlegt að gera nýja samninga. Auk fríverslunarsamningsins hafa eftirfarandi samningar og samstarfsyfirlýsingar verið gerðar með það fyrir augum að tryggja náið framtíðarsamband Íslands og Bretlands í kjölfar útgöngu þess síðarnefnda úr ESB og EES:
          Bráðabirgðafríverslunarsamningur (desember 2020).
          Samningur um dvalar- og atvinnuleyfi ungs fólks (júlí 2021).
          Samstarfsyfirlýsing um almennt samstarf ríkjanna (Vision 2030) (maí 2020).
          Loftferðasamningur (janúar 2021).
          Samningur um menntun, rannsóknir, nýsköpun og geimvísindi (júlí 2021).
          Framtíðarsamstarf í sjávarútvegsmálum (nóvember 2020).
    Ofangreindir samningar renna styrkum stoðum undir framtíðarsamstarf Íslands og Bretlands. Vinnu við að tryggja hagsmuni Íslands í þessum efnum er þó ekki lokið. Þessum samningnum þarf að fylgja eftir og enn eru viðræður yfirstandandi um samhæfingu almannatryggingakerfa. Þær viðræður varða fyrst og fremst lífeyrisréttindi og sjúkratryggingar.

3. Samráð.
    Utanríkisráðuneytið stóð fyrir umfangsmiklu samráði við helstu hagsmunaaðila, bæði á samningstímanum og í undirbúningi samningaviðræðna, eða allt frá því að Bretar kusu um úrsögn sína úr Evrópusambandinu í júní 2016.
    Hagsmunagreiningar voru gerðar og birtar undir forystu fyrrnefndra Brexit-vinnuhópa skipuðum sérfræðingum ráðuneyta og stofnana. Reglulega voru haldnir fundir með utanríkismálanefnd þar sem gerð var grein fyrir framgangi mála. Þá stóð ráðuneytið fyrir fjölmennum upplýsingafundum um útgöngu Bretlands og stöðu mála. Í samstarfi við Íslandsstofu var sendur út spurningalisti um helstu útflutningshagsmuni íslenskra fyrirtækja á Bretlandi.
    Helstu hagsmunaaðilar auk utanríkismálanefndar hafa einnig reglulega fengið send yfirlit yfir stöðu mála gagnvart Bretlandi og aðrar lykilupplýsingar. Þá hafa ítarlegar upplýsingar verið birtar á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Afrakstur þessa samráðs og greiningarvinnu var lagður til grundvallar við gerð samningsmarkmiða Íslands og hafður til hliðsjónar á samningstímanum.

4. Hagsmunir af fríverslunarsamningi við Bretland.
    Frá upphafi var ljóst að útganga Bretlands úr ESB og þar með EES-samstarfinu yrði vendipunktur í samskiptum Íslands og Bretlands. Viðskipta- og efnahagssamstarf ríkjanna hefur á undanförnum aldarfjórðungi nær alfarið byggst á EES-samningnum. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er víðtækasti og ítarlegasti fríverslunarsamningur sem Ísland á aðild að, enda þótt hann nái til fleiri sviða. Hann tryggir bæði tollfrelsi og hindranalaus viðskipti með flestar vörur og þjónustu. Óheftur aðgangur að kjölfestumarkaði Íslands, innri markaði ESB, veitir stöðugleika í utanríkisviðskiptum og skapar um leið svigrúm og frelsi til að afla nýrra markaða fyrir íslenskar vörur og þjónustu.
    Þeir fríverslunarsamningar sem Ísland er aðili að tryggja íslenskum útflytjendum betri aðgang að fjölda markaða um allan heim. Enda þótt samninganefndin hafi greint tækifæri til að bæta viðskiptakjör Íslands í Bretlandi var tilgangur fríverslunarviðræðnanna ekki síður að koma í veg fyrir að múrar rísi um þau viðskipti sem Ísland og Bretland hafa átt hindrunarlaust frá gildistöku EES-samningsins.
    Ísland er með útflutningsdrifið og opið hagkerfi og deilir sameiginlegum hagsmunum með Bretlandi á mörgum sviðum. Bretland er meðal mikilvægustu markaða fyrir íslenskar útflutningsvörur, vel yfir 2.000 Íslendingar búa að jafnaði á Bretlandseyjum, um 1.200 Bretar búa á Íslandi og Bretar eru annar fjölmennasti hópur ferðamanna hér á landi, svo fátt eitt sé nefnt. Náin tengsl eru því á milli Íslands og Bretlands.
    Viðskipti á milli Íslands og Bretlands eru margvísleg, bæði hvað varðar vörur og þjónustu. Í viðskiptum ríkjanna hafa orðið til fjölbreyttar virðis- og framleiðslukeðjur, bæði tvíhliða og með öðrum ríkjum innan ESB. Það er því mikilvægt að reglur fríverslunarsamningsins séu þannig úr garði gerðar að virðiskeðjur rofni ekki og viðskipti geti haldið áfram eins hnökralaust og mögulegt er.
    Heildarútflutningur til Bretlands nam tæpum 69 milljörðum króna á árinu 2020. Þar af nam útflutningsverðmæti sjávarafurða 48 milljörðum króna, landbúnaðarvara 3,3 milljörðum króna og iðnaðarvara 15,5 milljörðum króna. Til samanburðar nam heildarútflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða 270 milljörðum króna á árinu 2020. Voru því um 26% sjávarafurða seldar til Bretlands ef litið er til verðmætis eingöngu. Bretland er þannig langstærsta einstaka innflutningsland íslenskra sjávarafurða. Þar á eftir koma Frakkland, með innflutning fyrir um 36,5 milljarða króna, og svo Bandaríkin, sem á árinu 2020 fluttu inn sjávarafurðir frá Íslandi fyrir 23 milljarða króna. Bretland er einnig mikilvægt viðskiptaland með tilliti til aðfanga og nam innflutningur frá Bretlandi um 50 milljörðum króna á árinu 2020. Innflutningurinn er fjölbreyttur en af helstu vöruflokkum má nefna fóðurvörur, korn, ýmis raftæki og tölvur, ökutæki, flutningatæki, varahluti og kol og koks.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Útflutningur á þjónustu til Bretlands nam um 48,5 milljörðum kr. á árinu 2020 en 83 milljörðum kr. á árinu 2019. Töluverð dýfa varð í þjónustuviðskiptum við flest viðskiptalönd Íslands á árinu 2020 vegna heimsfaraldursins. Bretland er þó næst stærsta einstaka innflutningsland íslenskrar þjónustu á eftir Bandaríkjunum. Samkvæmt hagtölum eru það sjóflutningar, flugþjónusta og ferðaþjónusta sem eiga þar stærstan hlut að máli. Þó er jafnframt töluvert um að tölvuþjónusta og rannsókna- og þróunarþjónusta sé veitt til Bretlands.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



5. Nánar um fríverslunarsamninginn.
    Fríverslunarsamningurinn við Bretland er að meginstofni til byggður upp með sama hætti og þeir fríverslunarsamningar sem Ísland hefur gert í samstarfi við hin EFTA-ríkin. Hann er þó yfirgripsmeiri og ítarlegri en aðrir fríverslunarsamningar sem Ísland á aðild að. Endurspeglar það mikilvægi Bretlands sem nágrannaríkis og eins helsta viðskiptalands Íslands.
    Samningurinn veitir samskonar tollfríðindi fyrir sjávar- og landbúnaðarafurðir og EES-samningurinn og aðrir tengdir samningar gerðu áður. Þá tryggir samningurinn að útflytjendur íslenskra sjávarafurða og landbúnaðarafurða fái a.m.k. sömu ívilnandi meðferð vegna dýraheilbrigðisreglna við innflutning til Bretlands og önnur samkeppnisríki á EES. Þó svo að fríverslunarsamningurinn fjalli að meginstefnu til um viðskiptakjör og viðskiptareglur er þar jafnframt að finna sérstakan kafla um jafnréttismál og valdeflingu kvenna í viðskiptum. Er það í fyrsta sinn sem fríverslunarsamningur sem Ísland á aðild að inniheldur slík ákvæði. Þá inniheldur samningurinn jafnframt skuldbindingar á sviði umhverfisverndar og baráttu gegn hlýnun jarðar, auk skuldbindinga á sviði vinnuréttar.
    Þrátt fyrir umfang samningsins er grundvallarmunur á fríverslunarsamningi sem þessum og þeim samningi sem áður gilti um viðskiptasamband Íslands og Bretlands, þ.e. EES-samningnum. EES-samningurinn hefur algjöra sérstöðu, m.a. að því leyti að með honum var komið á fót sameiginlegu efnahagssvæði sem byggðist á samræmdum stöðlum og reglum fyrir vöruviðskipti, frjálsri för launafólks, frjálsri þjónustustarfsemi og staðfesturétti, ásamt frjálsum fjármagnshreyfingum.
    Fríverslunarsamningar fjalla almennt ekki um réttindi borgara til að búa og starfa í þeim ríkjum sem að slíkum samningum standa eða tryggja rétt til menntunar í öðrum ríkjum. Fríverslunarsamningurinn við Bretland inniheldur því ekki ákvæði þess efnis.
    Þegar kemur að markaðsaðgangi fyrir vörur er EES-samningurinn og fríverslunarsamningar sambærilegir að því leyti að þeir fela ekki í sér tollabandalag. Bæði í EES-samningnum og fríverslunarsamningnum við Bretland er kveðið á um fullt tollfrelsi fyrir iðnaðarvörur en samið er sérstaklega um tollaívilnanir fyrir sjávar- og landbúnaðarafurðir.
    Hvað varðar þjónustuviðskipti og fjárfestingar felst munurinn á EES-samningnum og fríverslunarsamningnum við Bretland einkum í því að með EES-samningnum er komið á sameiginlegum markaði fyrir þjónustuviðskipti og frjálst flæði fjármagns, þ.m.t. fjárfestingar, þar sem mismunun milli innlendra aðila og aðila frá öðrum aðildarríkjum er almennt bönnuð. Í fríverslunarsamningum, þ.m.t. fríverslunarsamningnum við Bretland, er staðfest að núverandi löggjöf á sviði þjónustuviðskipta gagnvart þriðju ríkjum skuli gilda gagnvart samningsríkinu og löggjöfin þar með fest í sessi.
    Hvað varðar eftirlit með heilbrigði matvæla og eftirlit með því að tæknilegum reglum sé framfylgt kveður EES-samningurinn á um að framleiðsluríki sinni eftirliti en að það fari ekki fram á landamærum. Vara getur því að meginstefnu til farið eftirlitslaust milli ríkja innri markaðarins. Vegna eðlis innri markaðar EES er ekki unnt að festa slíkar skuldbindingar í samningi við Bretland án þess að öll aðildarríki EES-samningsins samþykki að gera samskonar samning.
    Þrátt fyrir fríverslunarsamninginn hafa því orðið töluverðar breytingar á sambandi Íslands og Bretlands í viðskiptalegu tilliti. Þetta leiðir af hinu breytta eðli samningsambandsins en eitt yfirlýstra markmiða Bretlands með Brexit var að hverfa af innri markaðnum og komast undan hinu svokallaða fjórfrelsi.

Nánar um einstaka kafla fríverslunarsamningsins.
    Meginmál fríverslunarsamningsins samanstendur af 17 köflum og við hann eru 25 viðaukar. Efnisatriði samningsins ná meðal annars yfir vöruviðskipti, þjónustu og fjárfestingar, stafræn viðskipti, opinber innkaup, vernd hugverkaréttinda, samkeppnismál, málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja, viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi og viðskipti og sjálfbæra þróun. Samningurinn inniheldur jafnframt hefðbundin stofnanaákvæði, almenn lagaleg ákvæði og ákvæði um lausn deilumála.
    Í formálsorðum samningsins er gerð grein fyrir ýmsum forsendum og markmiðum samningsaðila við gerð samningsins. Formálsorð samningsins ramma inn viðskiptatengsl samningsaðilanna auk þess að endurspegla sameiginlegar grundvallarreglur á borð við stuðning þeirra við lýðræði, réttarríkið, mannréttindi og grundvallarfrelsi, umhverfisvernd, sjálfbæra þróun og baráttu við spillingu.

Almenn ákvæði
    Í 1. kafla samningsins er að finna almenn ákvæði samningsins. Kaflinn tekur m.a. til ákvæða um markmið, viðskipti og efnahagstengsl og gagnsæis í stjórnsýslu samningsaðilanna. Í kaflanum er svæðisbundið gildissvið samningsins jafnframt skilgreint.

Vöruviðskipti.
    Í 2. kafla samningsins er fjallað um vöruviðskipti, tæknilegar viðskiptahindranir, ráðstafanir á sviði matvælaheilbrigði, tollmeðferð og viðskiptaliprun, og viðskiptaleg verndarúrræði samningsaðila. Upprunareglur samningsins er svo að finna í viðauka við kaflann.
    Eins og áður hefur komið fram tryggir fríverslunarsamningurinn áframhald núverandi tollakjara í vöruviðskiptum milli ríkjanna á grundvelli EES-samningsins og annarra tengdra viðskiptasamninga.
    Frá því að aðlögunartímabilinu lauk þann 1. janúar 2021 hefur bráðabirgðafríverslunarsamningur við Bretland verið í gildi. Þar voru sömu tollakjör og giltu á meðan Bretland var í ESB tryggð tímabundið. Þó var samið sérstaklega um innflutningskvóta á grundvelli sögulegra viðskipta. Bráðabirgðasamningnum er ætlað að vera í gildi þangað til fríverslunarsamningurinn tekur gildi.
    Samkomulag var á milli aðila um að endurspegla í samningnum sama markaðsaðgang og kveðið er á um í bráðabirgðasamningnum en bæta ekki í að svo stöddu. Fríverslunarsamningurinn gerir þó ráð fyrir að þessi kjör sæti endurskoðun að fimm árum liðnum.
    Fríverslunarsamningurinn inniheldur því sömu tollfrjálsu innflutningskvóta fyrir landbúnaðarvörur og sjávarafurðir og bráðabirgðafríverslunarsamningurinn gerir. Magn kvóta var ákvarðað þannig að hafi Bretland áður nýtt tollfrjálsa innflutningskvóta samkvæmt samningum Íslands við ESB er stærð kvóta milli Íslands og Bretlands ákveðin að teknu tilliti til meðalnýtingar á kvótum til og frá ESB á viðmiðunartímabilinu 2014–2016, byggt á stærð ESB-kvóta á árinu 2019.
    Á þessum grundvelli mun Ísland áfram veita Bretlandi eftirfarandi tollfrjálsa kvóta á innflutningi til Íslands:
          19 tonn af hvers konar osti,
          11 tonn af ostum með verndað afurðaheiti sem vísar til uppruna,
          18,3 tonn af unnum kjötvörum.
    Ísland fær eftirfarandi tollfrjálsa innflutningskvóta til Bretlands:
          692 tonn af lambakjöti, með eða án beins (samsvarar yfir 1.000 tonnum af heilum skrokkum),
          329 tonn af skyri,
          145 tonna kvóta (alls) fyrir lax, flatfisk og fleiri tegundir, fersk karfaflök, síld og humar.
    Þegar tækifæri gefst til að endurskoða kjör samningsins er áfram mögulegt að stefna að víðtækari fríverslun með sjávarafurðir og bæta markaðsaðgang fyrir íslenskar landbúnaðarvörur inn til Bretlands.

Tæknilegar viðskiptahindranir.
    Fjallað er um tæknilegar viðskiptahindranir í þætti 2.2. Taka ákvæði hans til meginreglna sem varða útfærslu tæknilegra reglna, staðla og samræmismats, merkinga og samstarfs um markaðseftirlit. Þar er einnig kveðið á um samvinnu og að gagnsæi ríki á milli samningsaðilanna og sett á fót nefnd um tæknilegar viðskiptahindranir. Í kaflanum er einnig að finna fimm viðauka sem fjalla sérstaklega um vélknúin ökutæki, lyf, íðefni, lífræn efni og viðskipti með vín.

Ráðstafanir á sviði matvælaheilbrigðis.
    Þáttur 2.3 er um ráðstafanir á sviði dýra- og plöntuheilbrigðis sem haft geta áhrif á viðskipti milli samningsaðilanna. Með ákvæði hans eru staðfest réttindi og skyldur samningsaðilanna samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um slíkar ráðstafanir og setur enn fremur fram nákvæmar skyldur varðandi gagnsæi, upplýsingaskipti, tilkynningar og samráð. Kaflinn kveður á um að ef Bretland og ESB koma sér saman um frekari ívilnandi viðskiptareglur eða fyrirkomulag á sviði dýra- og matvælaheilbrigðis skuli Bretland jafnframt semja um slíkt fyrirkomulag við Ísland. Samningurinn tryggir þannig að útflytjendur íslenskra sjávarafurða og landbúnaðarafurða sitja við saman borð og helstu útflytjendur frá ríkjum innan EES þegar kemur að matvælaheilbrigðisreglum. Komið er á fót sameiginlegri undirnefnd um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.

Tolla- og viðskiptaliprun.
    Samningurinn inniheldur ítarleg ákvæði um viðskiptaliprun í þætti 2.4. Í því felst einföldun tollafgreiðslu, skjót afhending á vörum og að staðinn verði vörður um fyrirsjáanleika og lagaleg réttindi viðskiptaaðila. Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að tryggja að farið sé að lögum og reglum á sviði tollamála og bæta öryggi birgðakeðja fyrir matvæli sem viðkvæm eru fyrir skemmdum. Þar er enn fremur að finna bókun um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í tollamálum með það fyrir augum að liðka enn frekar fyrir viðskiptum.

Upprunareglur.
    Í viðauka I við kafla 2 er kveðið á um nútímalegar upprunareglur sem byggjast á upprunareglum samnings Evrópu og Miðjarðarhafslanda (PEM). Þær upprunareglur ættu að vera íslenskum útflutningsfyrirtækjum vel kunnugar enda notaðar í mörgum af þeim fríverslunarsamningum sem Ísland á aðild að, m.a. EES-samningnum.
    Upprunareglurnar eru í takt við nútímaframleiðsluhætti og hafa að geyma nauðsynlegan sveigjanleika. Þannig er t.d. tryggt að unnt sé að vinna hráefni frá ESB á Íslandi og flytja tollfrjálst til Bretlands. Jafnframt er gert ráð fyrir möguleika á að rýmka slík ákvæði svo þau nái með ákveðnum skilyrðum til þriðju aðila.

Þjónusta og fjárfestingar.
    Í 3. kafla samningsins er fjallað um þjónustu- og fjárfestingar. Með kaflanum leitast samningsaðilar við að veita þjónustuveitendum og fjárfestum beggja aðila aðgang að mörkuðum sem er eins nálægt því sem gildir á innri markaðnum og hægt er. Þjónustu- og fjárfestingakaflinn nær yfir allar tegundir þjónustu og notast við svonefnda neikvæða lista yfir markaðsaðgang. Í neikvæðum lista felst að takmarkanir á markaðsaðgangi eru taldar upp í stað þess að þær þjónustugreinar séu taldar upp sem eru án takmarkana. Samningurinn inniheldur ákvæði um þjónustuviðskipti yfir landamæri, fjárfestingar og réttindi til stofnsetningar, innlendar reglur og tímabundinn aðgang fyrir þjónustuveitendur í Bretlandi. Samningurinn tryggir fyrst og fremst aðgang og fyrirsjáanleika að Bretlandsmarkaði þar sem þjónustuveitendur og fjárfestar fá í flestum tilvikum sömu meðferð og innlendir aðilar.
    Íslensk fyrirtæki og þjónustuveitendur munu njóta a.m.k. sömu kjara og réttinda og helstu samkeppnisaðilar frá ESB og í sumum tilfellum betri. Þar má nefna:
          víðtækari heimildir til að veita tímabundna þjónustu, m.a. fyrir tónlistar- og listafólk,
          betri markaðsaðgang fyrir veitendur fjármálaþjónustu,
          sérstakt ákvæði um reikigjöld sem tryggir Íslendingum áframhaldandi lág verð fyrir farsímanotkun í Bretlandi,
          skilvirkari reglur fyrir viðurkenningu starfsréttinda,
          bindandi ákvæði um að ekki megi mismuna kynjunum þegar kemur að leyfisveitingum til þjónustuveitenda og fjárfesta.
    Það ber að nefna að samningurinn veitir takmarkaðri aðgang á einstaka sviðum í samanburði við það sem gilti þegar Bretar voru hluti af EES og innri markaðnum. Má þar nefna fjármálaþjónustu og för fólks.
    Sérstaklega er kveðið á um reglur og réttindi vegna tímabundinnar dvalar þjónustuveitenda. Það auðveldar íslenskum einstaklingum að veita þjónustu sína í Bretlandi, sérstaklega varðandi sérfræðiþjónustu.

Stafræn viðskipti.
    Kafli 4 um stafræn viðskipti fjallar um kaup á stafrænum vörum og þjónustu yfir netið. Í kaflanum er mikilvægi tækniþróunar endurspeglað og settur fram sameiginlegur lagarammi um stafræn viðskipti milli aðila. Þannig eru m.a. ákvæði sem hafa að geyma bann við tollum á stafrænar vörur og bann við því að ríki geri kröfu um að gögn séu geymd í viðkomandi ríki. Settur er á fót samstarfsvettvangur um stafræn viðskipti.

Fjármagnsflutningar, greiðslur og millifærslur.
    Í kafla 5 um fjármagnsflutninga er settur fram skilningur beggja aðila á gildandi reglum sem liggja að baki frjálsum fjármagnsflutningum og greiðslum í tengslum við viðskipti sem hafa verið gefin frjáls samkvæmt samningnum.

Opinber innkaup.
    Í kafla 6 er fjallað um opinber innkaup. Samningurinn fellir inn samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup og kveður á um viðbótarréttaröryggi og markaðsaðgang umfram skuldbindingar í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þeir þættir sem eru umfram kveða á um gagnkvæman viðbótarmarkaðsaðgang fyrir veitur og innkaupastofnanir í einkaeigu sem heyra undir opinbera þjónustu fyrir ákveðna viðbótarþjónustu sem nánar er útlistuð í samningnum og fyrir útboð sérleyfissamninga. Með þessu næst markaðsaðgengi sem er nær því sem áður var í boði þegar Bretland var aðili að EES. Í samningnum eru einnig settar reglur um útreikninga á viðmiðunarfjárhæðum um það hvenær aðgangur er veittur að útboði, kveðið á um gagnsæi, tengiliðir tilnefndir auk þess sem að aðilar skuldbinda sig til að setja á fót vefsíðu með upplýsingum um dómaframkvæmd og tilkynningum um opinber útboð. Jafnframt er að finna í samningnum ákvæði, sem eru ítarlegri og nákvæmari en í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, varðandi framkvæmd opinberra útboða, t.d. hvað varðar framkvæmd rafrænna útboða.

Vernd hugverkaréttinda.
    Kaflinn um vernd hugverkaréttinda, kafli 7, kveður á um öfluga vernd og framfylgd hugverkaverndar, þ.m.t. höfundarréttar, vörumerki, hönnun, landfræðilegar merkingar og landaheiti, einkaleyfi og vernd trúnaðarupplýsinga. Samningurinn vísar til, og gengur á sumum sviðum lengra en staðlar sem settir eru fram í alþjóðasamningum á sviði hugverkaréttar, svo sem í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS) og sáttmálum Alþjóðahugverkastofnunarinnar.
    Að því er varðar landfræðilegar merkingar matvæla nær samningurinn til landbúnaðarafurða og matvæla sem eiga uppruna á yfirráðasvæðum Bretlands og Íslands, þ.m.t. fyrir vín og aðra áfenga drykki. Kaflanum fylgja þrír viðaukar sem varða vörur sem njóta verndar fyrir landfræðilegar merkingar, þ.m.t. fyrir merkið „Icelandic Lamb“.

Samkeppnismál.
    Í kafla 8 um stefnu í samkeppnismálum er lagður grunnur að samstarfi samkeppnisyfirvalda ríkjanna. Kveðið er á um að samkeppnisyfirvöld skuli eiga í samstarfi við eftirfylgni samkeppnislaga. Jafnframt er tekið fram að samkeppnisyfirvöld geti gert sérstaka samstarfssamninga sem gætu innihaldið frekari skilyrði um skipti á trúnaðarupplýsingum þeirra á milli.

Styrkir.
    Kafli 9 fjallar um ríkisstyrki en þar sammælast samningsaðilarnir um að samningsaðila sé heimilt að veita styrki þegar þeir eru nauðsynlegir til að ná markmiðum hans á sviði opinberrar stefnu. Þó er tekið fram að tilteknir styrkir geti leitt til röskunar á eðlilegri starfsemi markaða og grafið undan ávinningi af viðskiptafrelsi. Að meginreglu til ætti samningsaðili því ekki að veita styrki ef hann telur að þeir hafi eða gætu haft veruleg neikvæð áhrif á viðskipti milli samningsaðilanna.

Málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
    Í kafla 10 sammælast samningsaðilarnir um mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og leitast við að efla getu þeirra, þ.m.t. örfyrirtækja, til að nýta sér ávinning af samningnum. Sérhver samningsaðili og ríkisstofnanir þeirra sem hafa með reglusetningu að gera skulu gera upplýsingar varðandi samninginn auðveldlega aðgengilegar á netinu. Sérhver samningsaðili skal við gildistöku samningsins tilnefna þegar í stað tengilið fyrir málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja og tilkynna hinum samningsaðilunum.

Góðar reglusetningarvenjur og samstarf um reglusetningu.
    Í kafla 11 er kveðið á um upplýsingaskipti og samstarf á milli samningsaðila að því er varðar það að setja fram reglur með gagnsæjum hætti, þ.m.t. samráð við almenning þegar slíkt er unnt. Samstarf um reglusetningu er valfrjálst en hvatt er til þess.

Viðurkenning á starfsmenntun og hæfi.
    Kaflinn um viðurkenningu starfsréttinda, 12 kafli samningsins, gerir sérfræðingum kleift að fá menntun og starfsreynslu viðurkennda ef kröfur fyrir sama starf í hinu samningsríkinu eru uppfylltar. Komið er á fót regluramma til að greiða fyrir samræmdu fyrirkomulagi á viðurkenningu starfsréttinda. Þessi kafli á við þegar starfsgrein er lögvernduð bæði í lögsögu heima- og gistiríkis og jafnframt þegar starfsgreinin er einungis lögvernduð í lögsögu gistiríkisins. Ef aðgengi að lögverndaðri starfsgrein eða iðkun hennar í lögsögu gistiríkis er háð skilyrðum um sérstaka starfsmenntun og hæfi skal viðeigandi yfirvald viðurkenna menntun og hæfi fagmanns sem sækir um viðurkenningu í lögsögu gistiríkisins og býr yfir sambærilegri menntun og hæfi hvað varðar sömu starfsgrein í lögsögu heimaríkisins.

Viðskipti og sjálfbær þróun.
    Í 13. kafla samningsins er fjallað um viðskipti og sjálfbæra þróun. Kaflanum er skipt niður í fimm þætti: almenn ákvæði, viðskipti og atvinnumál, efnahagsleg valdefling kvenna og viðskipti, viðskipti og umhverfismál og fyrirkomulag stofnana.
    Í þætti 13.1, almennu ákvæðunum, sammælast samningsaðilarnir um að efnahagsþróun, félagsleg þróun og umhverfisvernd samþættast og styðja hvert við annað. Almenn ákvæði kaflans taka til skilgreininga á vinnu- og umhverfislöggjöf og staðfesta rétt samningsaðilanna til að ákveða eigið regluverk þegar kemur að viðskiptum og sjálfbærri þróun. Samningsaðilar skuldbinda sig einnig til að hvetja til öflugrar verndar og að hvetja ekki til viðskipta eða fjárfestinga milli samningsaðilanna með því að slaka á eða draga úr umhverfis- eða vinnuvernd. Kaflinn tekur einnig til skuldbindinga að því er varðar gagnsæi, upplýsingagjöf til almennings, samvinnu, eflingu viðskipta og fjárfestinga sem stuðla að sjálfbærri þróun, ábyrgum viðskiptaháttum og baráttu gegn spillingu.

Viðskipti og atvinnumál.
    Þáttur 13.2 um viðskipti og atvinnumál inniheldur skuldbindingar um að styrkja áætlanir um mannsæmandi störf og að þróa og efla ráðstafanir vegna mannsæmandi starfsskilyrða. Samningsaðilar muni stuðla að skoðanaskiptum milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórna og innleiða með skilvirkum hætti samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hver samningsaðili hefur fullgilt. Kaflinn tekur einnig til skuldbindinga að því er varðar bann við mismunun og jafnrétti á vinnustað sem og ákvæða um aðgang að réttlátri málsmeðferð.

Efnahagsleg valdefling kvenna.
    Í þætti 13.3 um efnahagslega valdeflingu kvenna viðurkenna samningsaðilarnir mikilvægi kynjasjónarmiða í alþjóðaviðskiptum til að ná fram sjálfbærum hagvexti og sammælast um að kynjasjónarmið séu hluti af viðskipta- og fjárfestingasambandi samningsaðilanna. Þá eru alþjóðlegar skuldbindingar á sviði jafnréttismála ítrekaðar og opnað á samstarf um ýmis mál á sviði jafnréttis- og viðskipta og fjárfestinga. Þetta er fyrsti fríverslunarsamningur sem Ísland gerir þar sem slík ákvæði er að finna.

Viðskipti og umhverfismál.
    Þáttur 13.4 um viðskipti og umhverfismál tekur til skuldbindinga varðandi skilvirka framkvæmd samninga um umhverfismál sem ríkin eru aðilar að, sjálfbæra stjórnun skóga, þ.m.t. baráttuna gegn ólöglegu skógarhöggi. Í ákvæðum um viðskipti og loftslagsbreytingar skuldbinda samningsaðilarnir sig til að koma rammasamningi SÞ um loftslagsbreytingar og Parísarsamningnum til framkvæmda með skilvirkum hætti og gera sér grein fyrir mikilvægi viðskipta til að styðja við baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Auk þess inniheldur samningurinn ákvæði varðandi loftgæði, ósoneyðandi efni, viðskipti og líffræðilega fjölbreytni, varðveislu vistkerfis sjávar, viðskipti og sjálfbæra stjórnun fiskveiða, viðskipti með úrgang, forvarnir gegn mengun og sjálfbæran landbúnað.
    Í þætti 13.5 er komið á fót undirnefnd um viðskipti og sjálfbæra þróun auk þess sem fjallað er um framkvæmd og lausn deilumála, samráð og málsmeðferð gerðardóms.

Stofnanauppbygging samningsins.
    Eins og í öðrum fríverslunarsamningum sem Ísland er aðili að er komið á fót sameiginlegri nefnd sem skipuð er fulltrúum hvers samningsaðila. Hlutverk nefndarinnar er að stýra, hafa eftirlit með og umsjón með frekari þróun samningsins. Sameiginlega nefndin skal alla jafna koma saman árlega og getur ákveðið og samþykkt breytingar á samningnum en þó með hefðbundnum stjórnskipulegum fyrirvara.
    Eftirfarandi fimm undirnefndum er komið á fót á vegum sameiginlegu nefndarinnar:
     a.      nefnd um vöruviðskipti,
     b.      nefnd um tæknilegar viðskiptahindranir,
     c.      sameiginlegri stjórnarnefnd um ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna,
     d.      nefnd um þjónustu og fjárfestingar, og
     e.      undirnefnd um viðskipti og sjálfbæra þróun.

6. Nauðsynlegar lagabreytingar vegna fríverslunarsamnings og annarra samninga við Bretland vegna útgöngu þess þeirra úr ESB og EES
    Eftirfarandi lagabreytingar eru nauðsynlegar vegna fríverslunarsamnings og annarra samninga við Bretland:
          Breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem kveða á um að nánustu aðstandendur þjónustuveitenda sem starfa tímabundið á Íslandi verði gert kleift að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
          Breyting á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim til að heimila aftur innflutning á fersku kjöti og sambærilegum vörum frá Bretlandi.
          Nauðsynlegar lagabreytingar vegna samnings um gagnkvæm dvalar- og atvinnuleyfi ungmenna (Youth Mobility Scheme): Breyting á lögum um útlendinga sem myndu heimila gerð slíkra samninga fyrir fólk á aldrinum 18–31 ára í stað 18–26 ára samkvæmt núgildandi lagaákvæðum og heimila endurnýjun slíkra dvalarleyfa um eitt ár ef samningur við tiltekið ríki gerir ráð fyrir dvöl í allt að tvö ár á þessum grundvelli.
    Gert er ráð fyrir að framangreindar lagabreytingar verði lagðar fram samhliða þingsályktunartillögu um heimild til ríkisstjórnar um að samþykkja fríverslunarsamning við Bretland.


Fylgiskjal I.


FRÍVERSLUNARSAMNINGUR MILLI ÍSLANDS, FURSTADÆMISINS LIECHTENSTEINS OG KONUNGSRÍKISINS NOREGS OG SAMEINAÐA KONUNGSRÍKISINS STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR-ÍRLANDS.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0259-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


FREE TRADE AGREEMENT BETWEEN ICELAND, THE PRINCIPALITY OF LIECHTENSTEIN AND THE KINGDOM OF NORWAY AND THE UNITED KINGDOM OF GREAT BRITAIN AND NORTHERN IRELAND.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0259-f_II.pdf