Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 303  —  210. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um viðspyrnustyrki (frestun gjalddaga og framlenging umsóknarfrests).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. er launagreiðendum með meginstarfsemi í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að tveimur greiðslum á afdreginni staðgreiðslu af launum skv. 1. og 2. tölul. 5. gr., sem eru á gjalddaga 1. janúar 2022 til og með 1. júní 2022. Þeim greiðslum sem frestað er skal skipta á fjóra gjalddaga og skulu gjalddagar og eindagar þeirra, að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis, vera 15. september, 17. október, 15. nóvember og 15. desember 2022.
    Ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2022 eða úttekt eigenda innan ársins 2022 fer umfram reiknað endurgjald þeirra verður ekki fallist á frestun greiðslna í skilningi þessa ákvæðis.
    Skilyrði fyrir frestun greiðslu skv. 1. mgr. eru þau að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 1. ágúst 2021 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum til Skattsins, sl. þrjú ár eða síðan hann hóf starfsemi. Bú aðila skal ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt skal launagreiðandi ekki hafa verið tekinn til slita, nema ef slitin eru liður í samruna eða skiptingu rekstraraðilans og fyrirhugað er að halda rekstri veitingastaðar eða -staða sem umsókn varðar áfram í lögaðila sem við tekur.
    Umsókn um frestun á greiðslum skv. 1. mgr. felur eftir sem áður í sér skyldu til skila á viðkomandi skilagreinum skv. 2. mgr. 20. gr. Umsóknin skal hafa borist í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils skv. 1. mgr. 20. gr. á því formi sem Skatturinn ákveður. Þó skal umsókn vegna eindaga 17. janúar 2022 hafa borist eigi síðar en 31. janúar 2022. Heimilt er að hafna umsókn ef talið er að skilyrði ákvæðisins séu ekki uppfyllt. Almenn afgreiðsla á greiðslufrestun sætir síðari endurskoðun og felur því ekki í sér staðfestingu á því að skilyrði hennar hafi á afgreiðsludegi verið uppfyllt.
    Leiði síðari skoðun í ljós að skilyrði greiðslufrestunar hafi ekki verið til staðar skal launagreiðandi sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins skv. 28. gr. í samræmi við upphaflega gjalddaga og eindaga hvers greiðslutímabils sem greiðslu var frestað fyrir. Launagreiðandi og forsvarsmenn hans skulu ekki sæta öðrum viðurlögum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. er launagreiðendum með meginstarfsemi í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að tveimur greiðslum á staðgreiðslu tryggingagjalds sem eru á gjalddaga 1. janúar 2022 til og með 1. júní 2022. Þeim greiðslum sem frestað er skal skipta á fjóra gjalddaga og skulu gjalddagar og eindagar þeirra greiðslna, að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis, vera 15. september, 17. október, 15. nóvember og 15. desember 2022.
    Um skilyrði fyrir heimildum skv. 1. mgr. og framkvæmd gildir að öðru leyti ákvæði til bráðabirgða X í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

III. KAFLI
Breyting á lögum um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020.
3. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókn um viðspyrnustyrk vegna nóvember 2021 skal þó lögð fram eigi síðar en 1. mars 2022.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu, sem er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, eru lagðar til lagabreytingar vegna áframhaldandi óvissu sem nú ríkir í atvinnulífi og um efnahag landsins þar sem fyrir liggur að heimsfaraldur kórónuveiru mun dragast á langinn. Frá því að heimsfaraldur kórónuveiru skall á hafa fyrirtæki, þar á meðal fyrirtæki í veitingarekstri, notið víðtæks stuðnings frá hinu opinbera. Úr þeim stuðningi dró hins vegar eftir því sem samkomutakmarkanir voru felldar úr gildi um mitt ár 2021 en 25. júní kynnti ríkisstjórnin að ákveðið hefði verið að fella úr gildi allar takmarkanir á samkomum innan lands. Í því fólst meðal annars að opnunartími veitingastaða var ekki háður öðrum takmörkunum en almennt giltu áður en heimsfaraldurinn skall á.
    Í kjölfar mikillar fjölgunar smita ákvað ríkisstjórnin að grípa aftur til samkomutakmarkana sem tóku gildi 25. júlí 2021. Frá því um miðjan nóvember sl. hafa verið í gildi miklar takmarkanir á starfsemi veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar, opnunartími styttur og hámarksfjöldi gesta í rými takmarkaður verulega. Í nóvembermánuði var merkjanlegur samdráttur í greiðslukortaveltu hjá fyrirtækjum í veitingarekstri, sem ekki var að sjá í hagkerfinu í heild. Hertar sóttvarnaraðgerðir síðla árs 2021 hafa þannig takmarkað verulega starfsemi ákveðinna fyrirtækja í veitingarekstri og leitt til samdráttar í tekjum þeirra.
    Nauðsynlegt er að koma til móts við fyrirtæki með vínveitingaleyfi og vinna gegn tímabundnum lausafjárvanda sem gæti leitt til óþarfa efnahagslegs taps fyrir samfélagið og til að styrkja viðspyrnu fyrirtækjanna þegar sóttvarnarráðstöfunum verður aflétt. Því er lögð til heimild til handa fyrirtækjum í veitingarekstri með meginstarfsemi í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, að fresta allt að tveimur greiðslum á afdreginni staðgreiðslu launa og tryggingagjalds sem eru á gjalddaga 1. janúar til og með 1. júní á árinu 2022.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að umsóknarfrestur vegna viðspyrnustyrkja fyrir nóvembermánuð 2021, samkvæmt lögum nr. 160/2020, verði framlengdur til 1. mars 2022. Frestur til að sækja um viðspyrnustyrki rann út 31. desember 2021.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á árinu 2020 gripu stjórnvöld til margvíslegra aðgerða til að bregðast við efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins. Ein þessara aðgerða var að veita lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri, sem lentu í tímabundnum rekstrarörðugleikum, aukið svigrúm til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum vegna tekjumissis. Með setningu laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald (frestun gjalddaga), nr. 17/2020, var helmingi af greiðslu á staðgreiðslu launamanna og tryggingagjaldi vegna launa í febrúar 2020 frestað hjá öllum launagreiðendum. Með lögunum var þannig lengdur sá tími sem mátti líða án þess að vanskilaviðurlögum væri beitt á helming þeirrar fjárhæðar sem var á gjalddaga í mars 2020.
    Upphaflega náði fresturinn til 1. apríl 2020 í stað lögbundins gjalddaga 1. mars en með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, var fresturinn framlengdur til 1. janúar 2021. Auk þess var lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri heimilað að fresta greiðslu á þremur gjalddögum staðgreiðslu og tryggingagjalds á tímabilinu 1. apríl til og með 1. desember 2020 til 15. janúar 2021. Þá var veitt heimild til að fresta greiðslum enn frekar eða fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021. Sækja þurfti um aukinn greiðslufrest til og með 15. janúar 2021. Með 10. gr. laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, lögum um fjársýsluskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald, nr. 141/2020, var heimilað að fresta greiðslu á allt að tveimur gjalddögum frá og með 1. janúar til og með 1. desember 2021. Nýr gjalddagi var samkvæmt því 17. janúar 2022.
    Mörg fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri glímdu á árinu 2021 enn við rekstrarerfiðleika vegna faraldursins. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 36/2021, var þeim aðilum sem nýttu sér framangreint úrræði og frestuðu greiðslum til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021 veittur enn frekari frestur með greiðsludreifingu í 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Úrræðið gerði lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri, sem lent höfðu í greiðsluvanda, kleift að dreifa greiðslubyrði ógreiddrar staðgreiðslu og tryggingagjalds ársins 2020 á lengra tímabil.
    Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar má rekja til mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar en ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft áhrif á fyrirtæki í veitingarekstri. Fyrirhugaðar aðgerðir miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Með frumvarpinu er lagt til að fyrirtækjum í veitingarekstri með meginstarfsemi í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, verði veitt svigrúm með heimild til frestunar staðgreiðslu launa og tryggingagjalds á allt að tveimur gjalddögum á tímabilinu 1. janúar til 1. júní 2022.
    Frestur til að sækja um viðspyrnustyrki vegna nóvembermánaðar 2021 var einungis einn mánuður þar sem hinn almenni umsóknarfrestur samkvæmt lögunum um styrkina rann út 31. desember 2021. Sá frestur skýrðist af þeim tímabundna ramma sem í gildi var um ríkisaðstoð við gildistöku laga um viðspyrnustyrki. Sá rammi hefur nú verið framlengdur til 30. júní 2022. Nokkrir rekstraraðilar sem ætluðu að sækja um styrkina hafa sett sig í samband við ráðuneytið og óskað eftir því að umsóknarfresturinn verði framlengdur vegna þess að ekki náðist að ganga frá umsókn áður en fresturinn rann út. Rétt þykir að koma til móts við þessa aðila og lengja umsóknarfrestinn og hæfilegt þykir að hann verði framlengdur til 1. mars 2022.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru sem Alþingi hefur samþykkt hafa falið í sér margs konar ráðstafanir með það að markmiði að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið. Hluti þeirra hefur snúið að ýmsum opinberum sköttum og gjöldum, svo sem hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts, greiðslufresti vegna aðflutningsgjalda, frestun gjalddaga, niðurfellingu gistináttaskatts o.fl.
    Til að auðvelda fyrirtækjum í veitingarekstri með meginstarfsemi í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, að standa í skilum og þar með styrkja áframhaldandi rekstrargrundvöll þeirra er lagt til að heimiluð verði frestun á staðgreiðslu launa og tryggingagjalds á allt að tveimur gjalddögum á tímabilinu 1. janúar til 1. júní 2022. Þeim greiðslum sem frestað kann að verða skal skipt á fjóra gjalddaga, þ.e. 15. september, 17. október, 15. nóvember og 15. desember, að uppfylltum skilyrðum frumvarpsins. Með því verða nýir gjalddagar og eindagar þeir sömu en gjalddagi staðgreiðslu launa og tryggingagjalds er að óbreyttum lögum 1. hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar.
    Jafnframt er lagt til að umsóknarfrestur vegna viðspyrnustyrkja fyrir nóvembermánuð 2021, samkvæmt lögum nr. 160/2020, verði framlengdur til 1. mars 2022. Frestur til að sækja um viðspyrnustyrki rann út 31. desember 2021.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Sú aðstoð sem frumvarpið gerir ráð fyrir fellur undir tímabundnar heimildir til að veita fyrirtækjum sem lenda í ófyrirséðum lausafjárskorti sökum kórónuveirufaraldursins fjárstuðning. Tillögur um frestun gjalddaga staðgreiðslu launa og tryggingagjalds eru í samræmi við heimildir í kafla 3.9 í orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tímabundinn ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, frá 19. mars 2020, eins og tillögunum var breytt með orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 18. nóvember 2021. Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar samþykkt að úrræði um viðspyrnustyrki samræmist fyrrgreindum heimildum með ákvörðun nr. 160/20/COL frá 14. desember 2020, sbr. einnig ákvörðun nr. 037/21/COL frá 10. maí 2021. Aðstoðarkerfi og breytingar á þeim eru háðar samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA og hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið þegar upplýst stofnunina um þau áform sem felast í frumvarpinu. Þess var gætt við samningu frumvarpsins að efni þess og framsetning samrýmdust ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi löggjafarþing. Frumvarpið er hluti af viðbrögðum stjórnvalda við efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldurs kórónuveiru en náið hefur verið fylgst með horfum á því sviði. Talið var tímabært að leggja fram frumvarp um þau atriði sem í frumvarpinu felast. Frumvarpið var ekki kynnt í samráðsgátt stjórnvalda sökum þess hve áríðandi þótti að leggja það fram á Alþingi. Samráð var haft við forsætisráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Skattinn við vinnslu þess.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif á rekstraraðila.
    Frestun á staðgreiðslu launa og tryggingagjalds eins og mælt er fyrir í frumvarpi þessu er ætlað að bæta lausafjárstöðu þeirra rekstraraðila sem hana nýta á fyrri hluta ársins 2022 þegar enn eru við lýði sóttvarnaraðgerðir sem ætla má að leiði til verulegs samdráttar í tekjum þeirra. Heimildin frestar gjalddögum innan árs og gerir rekstraraðilum því kleift að fresta útgjöldum þar til síðar á árinu. Áætlað er að umfangið á frestuðum greiðslum á fyrstu sex mánuðum ársins fram á síðari hluta þess nemi 0,5–1 milljarði kr. Byggist það mat á umfangi sambærilegra úrræða árin 2020 og 2021 og hlutdeild fyrirtækja í veitingarekstri í þeim.
    Framlengdur umsóknarfrestur vegna viðspyrnustyrkja fyrir nóvember 2021 mun hafa jákvæð áhrif á þá rekstraraðila sem ekki náðu að skila umsókn um styrkinn áður en gildandi umsóknarfrestur rann út. Með breytingunni gefst þeim kostur á að senda umsókn og fá styrkinn afgreiddan.

6.2. Áhrif á stjórnsýslu.
    Frestun á staðgreiðslu launa og tryggingagjalds mun hafa óveruleg áhrif þar sem úrræðið er þekkt fyrir en engu að síður kallar það á áframhaldandi umsjón og utanumhald innan Skattsins og Fjársýslunnar. Auk þess gæti orðið einhver fjölgun á kærum til yfirskattanefndar.
    Framlengdur umsóknarfrestur um viðspyrnustyrki mun hvorki hafa teljandi áhrif á Skattinn né yfirskattanefnd.

6.3. Áhrif á ríkissjóð.
    Frestun á staðgreiðslu launa og tryggingagjalds hefur þau áhrif að þær tekjur ríkissjóðs tefjast innan ársins. Staðgreiðsla launa felur einnig í sér útsvarsgreiðslur til sveitarfélaga. Ríkissjóður mun fjármagna þann hluta sem tilheyrir sveitarfélögum þannig að útsvarsgreiðslur þeirra á réttum tíma. Þetta hefur í för með sér aukinn fjármagnskostnað fyrir ríkissjóð en aukinn viðnámsþróttur þeirra fyrirtækja sem nýta sér úrræðið er einnig til þess fallinn að auka umsvif og skattgreiðslur síðar á árinu. Áhrif á ríkissjóð eru því ekki kunn en í öllu falli óveruleg.
    Ætla má að heildaráhrif af framlengingu umsóknarfrests viðspyrnustyrks vegna a.m.k. 40% tekjufalls í nóvember 2021 verði ekki meiri en 150 millj. kr. Talsverð óvissa ríkir þó um matið þar sem ekki liggur fyrir endanlegt umfang þeirra viðspyrnustyrkja fyrir nóvember sem sótt var um fyrir 1. janúar 2022. Enn á eftir að afgreiða nær 600 umsóknir sem gætu numið um 550 millj. kr. Hinn 7. janúar höfðu verið greiddar 200 millj. kr. í viðspyrnustyrki til 229 rekstraraðila vegna tekjufalls í nóvember og ljóst að umfangið er nokkuð minna en fyrri mánuði og talsvert minna en gert var ráð fyrir í ljósi þess að í mánuðinum fjölgaði smitum og sóttvarnartakmarkanir innan lands voru hertar í tvígang. Þrátt fyrir það var heildarvelta í verslun og þjónustu sterk í nóvembermánuði þó að marka megi samdrátt í veitingarekstri og menningu sem rekja má að einhverju leyti til hertra takmarkana á starfsemi þeirra.
    Ætla má að mikill hluti óafgreiddra umsókna hjá Skattinum varði tekjufall í nóvember en ekki er útilokað að þær eigi við aðra mánuði á tímabili úrræðisins. Ef gert er ráð fyrir að meiri hluti óafgreiddra umsókna sé vegna nóvembermánaðar er ekki ólíklegt að umfangið í mánuðinum sé þegar um 700 millj. kr. Þannig má ætla með framlengingu umsóknarfrests gætu bæst við 150 millj. kr. og yrði þá heildarumfang viðspyrnustyrkja vegna tekjufalls í nóvember í námunda við meðaltal greiddra viðspyrnustyrkja í maí og júní 2021 þegar fjöldatakmarkanir og takmarkanir á opnunartíma voru í gildi. Í maí og júní var bati í ferðaþjónustu þó ekki kominn jafn langt á veg og í nóvember sl. og færri voru bólusettir.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. og 2. gr.

    Í ákvæðunum til bráðabirgða er lagt til að launagreiðendur með meginstarfsemi í flokki II eða III skv. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, geti óskað eftir frestun á allt að tveimur greiðslum á afdregnum skatti í staðgreiðslu og á tryggingagjaldi í staðgreiðslu sem eru á gjalddaga 1. janúar til og með 1. júní á yfirstandandi ári. Greiðslur sem þannig er frestað munu þess í stað koma til greiðslu á fjórum gjalddögum sem nánar eru tilgreindir frá 15. september 2022. Ekki er gert ráð fyrir því að þær greiðslur sem þegar hafa verið inntar af hendi á gjalddaga 1. janúar 2022 komi til endurgreiðslu.
    Þá er kveðið á um að ekki verði fallist á frestun greiðslna í skilningi ákvæðanna ef launagreiðandi hefur úthlutað arði á árinu 2022 eða úttektir eigenda innan ársins 2022 hafa farið umfram reiknað endurgjald þeirra til þess tíma.
    Skilyrði úrræðanna eru að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða sektir sem komin voru á eindaga 1. ágúst 2021 og að hann hafi staðið skil á skattframtölum og lögboðnum fylgiskjölum sl. þrjú ár eða frá upphafi starfsemi. Miðað skal við skuldastöðu eins og hún var í lok júlí 2021. Þá skal bú aðila ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt skal hann ekki hafa verið tekinn til slita, nema ef slitin eru liður í samruna eða skiptingu rekstraraðilans og fyrirhugað er að halda rekstri veitingastaðar eða -staða sem umsókn varðar áfram í lögaðila sem við tekur.
    Beiðni um frestun á greiðslum samkvæmt ákvæðum þessum felur í sér skil á viðkomandi skilagreinum skv. 2. mgr. 20. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990, og skal umsókn launagreiðanda um frestun hafa borist í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils á því formi sem Skatturinn ákveður. Þó skal umsókn launagreiðanda um frestun vegna eindaga 17. janúar 2022 hafa borist eigi síðar en 31. janúar 2022. Skattinum er heimilt við afgreiðslu og endurskoðun umsóknar að fara fram á að umsækjandi sýni með rökstuðningi og gögnum að skilyrði frestunar hafi verið uppfyllt. Skattinum er heimilt að hafna umsókn ef skilyrðum ákvæðisins er ekki fullnægt. Með almennri afgreiðslu á greiðslufrestum felst ekki staðfesting á að skilyrði frestunar hafi verið uppfyllt á afgreiðsludegi og því er ekki loku fyrir það skotið að til endurskoðunar komi síðar.
    Hafi greiðslu verið frestað án þess að skilyrði hafi staðið til þess reiknast álag skv. 28. gr. laganna eins og þar er kveðið á um miðað við upphaflegan gjalddaga og eindaga hvers greiðslutímabils, sbr. 14. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, sbr. og 10. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990. Þá segir að launagreiðandi og forsvarsmenn hans skuli ekki sæta öðrum viðurlögum.

Um 3. gr.

    Með breytingunni er lagt til að umsóknarfrestur vegna viðspyrnustyrkja samkvæmt lögum nr. 160/2020 verði framlengdur til 1. mars 2022. Frestur til að sækja um viðspyrnustyrki vegna nóvembermánaðar 2021 var einungis einn mánuður þar sem hinn almenni umsóknarfrestur samkvæmt lögunum um styrkina rann út 31. desember 2021. Sá frestur skýrðist af gildistíma ramma framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, frá 19. mars 2020, sem í gildi var um ríkisaðstoð við gildistöku laga um viðspyrnustyrki. Með orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 18. nóvember 2021 var gildistími rammans framlengdur til 30. júní 2022. Líkt og hefur verið nefnt hefur verið kallað eftir því að umsóknarfresturinn verði framlengdur og er breytingunni ætlað að koma til móts við þær óskir.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.