Ferill 211. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 304  —  211. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (leiðrétting).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (GHaf, ÁBG, DME, HHH, SÞÁ).


I. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
1. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. júlí 2022“ í ákvæði til bráðabirgða XLVI í lögunum, sbr. 16. gr. laga nr. 133/2021, kemur: 1. janúar 2022.

II. KAFLI
Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.
2. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða XVIII í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal á árinu 2022 lækka skráða losun húsbíla um 40%, en þó að hámarki niður í 150 g/km, áður en til álagningar vörugjalda kemur, hafi losun verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni að uppfylltum skilyrðum a–c-liðar 1. mgr.

III. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
3. gr.

    Orðin „veitingastaðar eða -staða“ í lokamálslið 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII í lögunum falla brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.
4. gr.

    2. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XIV í lögunum orðast svo: Þeim greiðslum sem frestað er skal skipta á sex gjalddaga og skulu gjalddagar og eindagar þeirra, að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis, vera 15. september, 17. október, 15. nóvember og 15. desember 2022 og 16. janúar og 15. febrúar 2023.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til leiðréttingar á nokkrum lögum, m.a. vegna mistaka sem urðu við þinglega meðferð tveggja frumvarpa sem nefndin hafði til umfjöllunar, annars vegar frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (gjalddagar, refsinæmi o.fl.), sbr. 4. mál á yfirstandandi þingi, og hins vegar frumvarps til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um viðspyrnustyrki (frestun gjalddaga og framlenging umsóknarfrests), sbr. 210. mál.

Breyting á lögum um virðisaukaskatt.
    Um nýliðin áramót tóku gildi lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (gjalddagar, refsinæmi o.fl.), nr. 133/2021. Í 16. gr. laganna er kveðið á um að við lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem mælt er fyrir um að á tímabilinu 1. júlí 2022 til og með 31. desember 2027 skuli endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið við innflutning eða fyrstu sölu nýs loftfars, hreyfils eða loftskrúfu sem nýtir rafmagn eða vetni sem orkugjafa. Ákvæðið tekur einnig til virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið við innflutning og fyrstu sölu enda sé loftfarið þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu og hreyfill og loftskrúfa þriggja ára eða yngri á innflutningsdegi eða söludegi.
    Ákvæðinu var bætt við frumvarpið með breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (þskj. 227) í samræmi við tillögu fjármála- og efnahagsráðuneytisins í minnisblaði þess, dags. 16. desember 2021. Í minnisblaðinu er bent á að ákvæðið byggist á sambærilegu ákvæði til bráðabirgða sem var að finna í frumvarpi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til nýrra heildarlaga um loftferðir sem lagt var fram á 151. löggjafarþingi (586. mál, þskj. 994) en náði ekki fram að ganga.
    Í minnisblaði ráðuneytisins og í áliti meiri hluta nefndarinnar kom fram að ákvæðinu væri ætlað að gilda frá 1. janúar 2022 til 31. desember 2027, en ekki frá 1. júlí 2022 líkt og gert var ráð fyrir í fyrrnefndu frumvarpi til loftferðalaga. Fyrir mistök var lagt til í breytingartillögunni að ákvæðið gilti frá 1. júlí 2022, þrátt fyrir það sem fram kæmi í nefndaráliti meiri hlutans. Með frumvarpinu er lagt til að framangreint verði leiðrétt og gildistími ákvæðisins miðist við 1. janúar 2022 og taki þannig til innflutnings og sölu sem undir ákvæðið fellur frá og með þeim degi.

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
    Í ákvæði til bráðabirgða XVIII í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, er kveðið á um að lækka skuli skráða losun húsbíla um 40%, en þó að hámarki niður í 150 g/km, áður en til álagningar vörugjalds kemur, hafi losun einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni. Ákvæðið sem gilti á árunum 2020 og 2021 var framlengt út árið 2022 með lögum nr. 133/2021. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022, nr. 131/2021, var ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. breytt á þann veg að ef koltvísýringslosun ökutækis er skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni skuli vörugjald lagt á samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni, en ekki samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
    Ákvæði til bráðabirgða XVIII er tilkomið vegna breytinga sem gerðar voru á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með lögum nr. 117/2018, þar sem aðferðafræði við mælingu losunar var breytt. Breytingin hafði þær ófyrirséðu afleiðingar í för með sér að í tilviki húsbíla gat munur á útsöluverði til neytenda verið töluverður eftir því hvort viðmiðið var lagt til grundvallar. Ákvæðinu var ætlað að bregðast við því ástandi þar til komist yrði að varanlegri niðurstöðu um álagningu vörugjalds á húsbíla.
    Í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna með lögum nr. 133/2021 munu húsbílar, þar sem losun er skráð samkvæmt báðum gildum, sæta álögum samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni og því sæta stórauknum álögum ef losun er eingöngu skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni. Til þess að bregðast við þessu er lagt til að á árinu 2022 taki ívilnunin einnig til húsbíla þegar losun er skráð samkvæmt báðum gildum.

Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Við umfjöllun nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um viðspyrnustyrki (frestun gjalddaga og framlenging umsóknarfrests), sbr. 210. mál, var ákveðið að bæta við heimild fyrir rekstraraðila til að fresta gjalddögum staðgreiðslu og tryggingagjalds, sem áður hafði verið frestað og voru á gjalddaga 17. janúar 2022, og dreifa greiðslum þeirra á sex mánuði frá og með september 2022. Ákveðið var að sömu skilyrði og fram komu í 3. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins eins og það var lagt fram skyldu gilda um frestunina en við gerð breytingartillögu láðist að aðlaga orðalagið að því að viðbótin er almenn en á ekki eingöngu við um veitingarekstur. Er brugðist við þessu með 3. gr. frumvarpsins.

Breyting á lögum um tryggingagjald.
    Með framangreindu frumvarpi í 210. máli á yfirstandandi þingi var lagt til að frestaðir gjalddagar staðgreiðslu og tryggingagjalds dreifðust á fjóra nýja gjalddaga í lok ársins 2022. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um málið (þskj. 328) kemur fram að nefndin leggi til að gjalddagar greiðslna sem frestað er skv. 1. og 2. gr. frumvarpsins verði sex talsins í stað fjögurra. Í breytingartillögu nefndarinnar (þskj. 329) var lögð til viðeigandi breyting á 1. gr. frumvarpsins, sbr. b-lið 2. tölul., en fyrir fórst að leggja til sömu breytingu á 2. gr. frumvarpsins. Úr því er bætt með 4. gr. frumvarps þessa.