Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 499  —  354. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu samninga Íslands við Noreg annars vegar og Danmörku fyrir hönd Færeyja hins vegar um afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna á svæðinu milli Færeyja, Íslands, meginlands Noregs og Jan Mayen (Síldarsmugan).


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Konungsríkisins Danmerkur ásamt landsstjórn Færeyja hins vegar er varðar afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna á svæðinu milli Færeyja, Íslands, meginlands Noregs og Jan Mayen, sem og samning milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Noregs er varðar afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna á svæðinu milli Færeyja, Íslands, meginlands Noregs og Jan Mayen, sem undirritaðir voru í Stokkhólmi 30. október 2019.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á tveimur samningum Íslands, við Noreg annars vegar og við Danmörku fyrir hönd Færeyja hins vegar, um afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna á svæðinu milli Færeyja, Íslands, meginlands Noregs og Jan Mayen (Síldarsmugunnar). Samningarnir voru undirritaðir í Stokkhólmi 30. október 2019 (sjá fskj. I–IV).

Forsaga og tildrög samninganna.
    Ísland skilaði inn greinargerð til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna í apríl 2009 um ytri mörk íslenska landgrunnsins utan 200 sjómílna. Um var að ræða hlutagreinargerð sem náði til vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar annars vegar og Ægisdjúps í suðurhluta Síldarsmugunnar hins vegar. Greinargerðin tók hvorki til hins umdeilda Hatton Rockall-svæðis, sem er hluti af íslenska landgrunninu og Bretland, Írland og Danmörk/Færeyjar gera einnig tilkall til, né austurhluta Reykjaneshryggjar vegna skörunar við það svæði.
    Landgrunnsnefndin féllst að fullu á kröfur varðandi Ægisdjúp í samræmi við greinargerð Íslands og er því meðferð nefndarinnar hvað þetta svæði varðar formlega lokið. Afmörkun landgrunnsins á vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar er enn þá til meðferðar fyrir landgrunnsnefndinni og var endurskoðaðri greinargerð um þann hluta landgrunnsins skilað til nefndarinnar í mars 2021.
    Áður en greinargerðinni var skilað inn árið 2009 var gengið til samninga við Noreg og Danmörku, fyrir hönd Færeyja, um skiptingu landgrunnsins á svæðinu. Landgrunnsnefndin getur ekki tekið afstöðu til umdeildra svæða og var því talið rétt að ljúka fyrst samningagerðinni. Haustið 2006 náðist samkomulag milli ríkjanna þriggja. Þegar tillögur landgrunnsnefndarinnar lágu fyrir var gengið frá formlegum samningum í samræmi við fyrrnefnt samkomulag með undirritun þeirra 30. október 2019.

Helstu efnisatriði samninganna.
    Kjarnaákvæði samninganna er að finna í 1. gr. þeirra, en þar eru skilgreindir punktar, ákvarðaðir með landfræðilegri breiddar- og lengdargráðu. Á milli punktanna er dregin markalínan sem tilgreinir skilin milli landgrunns landanna þriggja innan Síldarsmugunnar. Til glöggvunar fylgja með tillögu þessari myndir af markalínunum tveimur, en rétt er þó að árétta að einungis er um skýringarmyndir að ræða og við afmörkun markalínanna gilda fyrrnefndir punktar.
    Í 2.–7. gr. samningsins við Danmörku, fyrir hönd Færeyja, er fjallað um þær reglur sem gilda um nýtingu hugsanlegra auðlinda á svæðinu.
    Í 2. gr. þess samnings kemur fram að aðilar skulu hafa með sér samráð við nýtingu jarðefnalaga sem kunna að finnast á svæðinu. Leiði rannsóknir og viðræður í ljós að vetniskolefnislag nái yfir á landgrunn beggja aðila og nýta megi lagið á landgrunni annars aðilans frá landgrunni hins aðilans að öllu leyti, eða að hluta, eða að nýting lagsins á landgrunni annars aðilans mundi hafa áhrif á möguleika til að nýta lagið á landgrunni hins aðilans skal hvorugur aðili nýta sér vetniskolefnislagið fyrr en aðilarnir hafa gert samning um nýtingu sín á milli. Í 3. gr. samningsins eru settar fram ítarreglur um nauðsynlegt inntak slíkra samninga.
    Í 4. gr. samningsins segir að aðilar skuli leggja allt kapp á að leysa úr hvers kyns ágreiningi sem varðar lag sem liggur yfir markalínur eins fljótt og unnt er. Nái aðilar samt sem áður ekki að komast að samkomulagi skulu þeir í sameiningu kanna alla valkosti til þess að leysa úr ágreiningsefninu. Í 5. gr. er tilgreindur möguleiki aðila á að vísa málinu til gerðardóms, náist ekki samningar, og í 6. gr. er að finna heimildir aðila til að skipa sameiginlega óháðan sérfræðing til að ákvarða skiptinguna. Ákvarðanir gerðardóms og óháðs sérfræðings eru bindandi samkvæmt samningnum.
    Í samningnum við Noreg er ekki að finna nein efnisákvæði um auðlindanýtingu heldur er í 2. gr. hans vísað til samnings milli Íslands og Noregs, frá 3. nóvember 2008, um vetniskolefnislög sem liggja yfir markalínur.
    Vert er að taka fram að vegna samsetningar hafsbotnsins á svæðinu er ólíklegt að þar sé að finna vetniskolefnislög eða aðrar jarðefnaauðlindir. Einnig er rétt að árétta að samningar þessir fjalla einungis um skiptingu landgrunnsins, þ.e. hafsbotnsins, og taka ekki að neinu leyti til fiskveiða á svæðinu.



Fylgiskjal I.


Samningur milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Konungsríkisins Danmerkur ásamt landsstjórn Færeyja hins vegar er varðar afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna á svæðinu milli Færeyja, Íslands, meginlands Noregs og Jan Mayen.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0499-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Markalína á Ægisdjúpi, afmörkuð í samningi milli Íslands og Danmerkur fyrir hönd Færeyja (skýringarmynd).

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0499-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Samningur milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Noregs er varðar afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna á svæðinu milli Færeyja, Íslands, meginlands Noregs og Jan Mayen.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0499-f_III.pdf



Fylgiskjal IV.


Markalína á Ægisdjúpi, afmörkuð í samningi milli Íslands og Noregs (skýringarmynd).

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0499-f_IV.pdf