Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 533  —  376. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um minnisvarða um eldgosið á Heimaey.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir.


    Alþingi ályktar í tilefni þess að árið 2023 eru 50 ár liðin frá Heimaeyjargosinu að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa kaup á minnisvarða um þann sögulega atburð. Undirbúningsnefndin skal skipuð fimm fulltrúum og skulu tveir skipaðir samkvæmt tilnefningu bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, tveir af Alþingi og einn án tilnefningar og skal viðkomandi vera formaður nefndarinnar. Undirbúningsnefndin skal fyrir lok ágúst 2022 leggja fram tillögu fyrir forsætisráðherra til samþykktar. Að fengnu samþykki skal nefndin annast frekari undirbúning fyrir uppsetningu og afhjúpun minnisvarðans sumarið 2023.

Greinargerð.

    Fáir atburðir mörkuðu jafn djúp spor í sögu Íslands á liðinni öld og eldgosið á Heimaey sem hófst þann 23. janúar 1973 og lauk í byrjun júlí sama ár. Heimaeyjargosið er eina eldgosið sem hafist hefur í byggð á Íslandi og urðu 1.350 fjölskyldur, um 2,5% þjóðarinnar, heimilislausar í einni svipan þegar 1,6 km gossprunga opnaðist við bæjardyr Vestmannaeyinga. Fyrir mikla mildi gekk giftusamlega að koma öllum heilu og höldnu frá eyjunni á fyrsta sólarhring gossins. Baráttuandi heima- og björgunarmanna vakti heimsathygli og þá ekki síst fyrir hina merku hraunkælingu sem talin er hafa bjargað innsiglingunni til Eyja.
    Eldgosið var ekki bara áfall fyrir íbúa Heimaeyjar heldur einnig efnahagslegt högg fyrir hið unga lýðveldi þar sem Vestmannaeyjar voru stærsta verstöð landsins sem skapaði um 12% útflutningstekna. Helstu innviðir ásamt hundruðum heimila urðu jarðeldunum að bráð og þótt meginþungi endurreisnar Vestmannaeyja hvíldi á herðum Íslendinga, lögðu Norðurlöndin einnig til mikilvægt framlag og sýndu stuðning sinn í verki. Ríkisstjórnir Norðurlandanna lögðu til um 25% af kostnaði við enduruppbygginguna. Fyrir utan opinbera aðstoð bárust einnig ríkuleg fjárframlög frá einstaklingum og félagasamtökum á Norðurlöndum.
    Þann 3. júlí 2023 verða 50 ár liðin frá lokum Heimaeyjargossins. Mikilvægt er að minnast gossins með myndarlegum hætti á þessum tímamótum svo að minningin um einstök afrek og þá miklu samkennd sem ríkti við einkar krefjandi aðstæður fái lifað um ókomna tíð. Forsætisráðherra og bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar undirrituðu viljayfirlýsingu í september 2021 um samvinnu og undirbúning viðburða í tilefni goslokaafmælisins. Undirbúningur er hafinn og ríkir samhugur um að gerð minnisvarða hæfi tilefninu vel. Vestmannaeyjabær hefur samið við Stúdíó Ólafs Elíassonar um hugmyndavinnu fyrir minnisvarða og ríkisstjórn Íslands veitt því verkefni styrk af ráðstöfunarfé sínu.
    Ólafur Elíasson er einn af fremstu listamönnum landsins sem víða hefur hlotið lof og viðurkenningu fyrir listsköpun sína. Því var ákveðið að semja við hann um hugmyndavinnu í samræmi við 39. gr. laga um opinber innkaup. Í þingsályktunartillögu þessari er lagt til að undirbúningsnefnd verði falið að annast frekari undirbúning fyrir kaup á minnisvarða til minningar um Heimaeyjargosið. Nefndin leggi fram tillögu fyrir forsætisráðherra til samþykktar ásamt því að annast frekari undirbúning fyrir uppsetningu og afhjúpun minnisvarðans.
    Tillaga til þingsályktunar um minnisvarða um eldgosin í Surtsey og Heimaey hefur þegar verið lögð fyrir Alþingi á 151. og 152. löggjafarþingi af Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Suðurkjördæmis, ásamt meðflutningsmönnum. Að höfðu samráði forsætisráðherra við forsætisnefnd Alþingis og þingflokksformenn þykir fara vel á því að nefnd með fulltrúum Alþingis, Vestmannaeyjabæjar og forsætisráðherra fylgi fyrrgreindum undirbúningi kaupa á minnisvarða eftir. Þá munu forsætisráðherra og bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar huga í sameiningu að undirbúningi viðburða í tilefni goslokaafmælisins í samræmi við viljayfirlýsingu þess efnis. Þeirra á meðal verður fundur forsætisráðherra Norðurlandanna sem haldinn verður í Vestmannaeyjum seinni hluta júnímánaðar 2023 og kemur til álita af afhjúpa minnisvarðann að þeim viðstöddum.