Ferill 192. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 536  —  192. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum.


     1.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum frá árinu 2018? Svar óskast sundurliðað eftir undirmarkmiðum.
    Frá árinu 2018 hefur verkefnastjóri verið starfandi hjá embætti landlæknis til þess að fylgja eftir aðgerðum áætlunarinnar. Aðgerðaáætlunin samanstendur af sex undirmarkmiðum og 54 aðgerðum. Ábyrgð á framkvæmd aðgerða er dreifð á fjölda ráðuneyta, stofnana og samtaka þar sem sjálfsvígsforvarnir eru í eðli sínu flóknar og flestar krefjast þverfaglegrar samvinnu og aðkomu margra. Í janúar 2022 er staða aðgerðaáætlunar til að fækka sjálfsvígum á Íslandi, sundurliðuð eftir undirmarkmiðum, eftirfarandi:
     1.     Efling geðheilsu og seiglu í samfélaginu.
    Undirmarkmið A: Að efla uppvaxtarskilyrði barna. Aðgerðin er í biðstöðu.
    Undirmarkmið B: Að efla geðrækt og forvarnir í skólastarfi. Aðgerðir 1 og 2 eru í vinnslu en aðgerð 3 er í biðstöðu.
    Undirmarkmið C: Að efla aðgengi að menntun. Báðar aðgerðir eru í vinnslu.
    Undirmarkmið D: Að efla geðrækt og forvarnir á vinnustöðum. Báðar aðgerðir eru í vinnslu.
    Undirmarkmið E: Að efla heilsueflandi samfélög á landsvísu. Aðgerðin er í vinnslu.
    Undirmarkmið F: Að efla forvarnir á sviði áfengis og annarra vímuefna. Allar aðgerðirnar fjórar eru í vinnslu.
    Undirmarkmið G: Að efla forvarnir á sviði ofbeldis og áfalla. Aðgerðirnar þrjár eru í biðstöðu.
     2.     Gæðaþjónusta á sviði geðheilbrigðis.
    Undirmarkmið A: Að samþætta geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Aðgerð 1 er í vinnslu.
    Undirmarkmið B: Að auka aðgengi að lágþröskuldaþjónustu í nærumhverfi. Aðgerð 1 er á bið en aðgerðum 2 og 3 er lokið.
    Undirmarkmið C: Að efla 1. og 2. stigs geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og fullorðna.
    Aðgerð 1 er í biðstöðu en aðgerðir 2–4 eru í vinnslu.
    Undirmarkmið D: Að lágmarka bið eftir sérfræðiþjónustu og tryggja þjónustu á biðtíma. Aðgerð 1 er í vinnslu en aðgerð 2 er í bið.
    Undirmarkmið E: Að efla meðferðarúrræði vegna áfalla, ofbeldis, sjálfsskaða og sjálfsvígshættu. Aðgerðir 1 og 3 eru í vinnslu en aðgerð 2 er á bið.
    Undirmarkmið F: Að efla þátttöku notenda og eftirlifenda. Báðar aðgerðir eru í vinnslu
     3.     Takmörkun á aðgengi að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum.
    Af sjö aðgerðum telst ein aðgerð fullkláruð þ.e. aðgerð 6, að tryggja öflugt eftirlit með lyfjaávísunum, m.a. í gegnum miðlægan lyfjagagnagrunn, til að koma í veg fyrir að einstaklingar fái ávísað of miklu magni lyfja og tryggja að fólk þurfi að sýna skilríki við móttöku lyfseðilsskyldra lyfja. Aðrar aðgerðir eru í vinnslu nema aðgerð 3 sem er í bið.

     4.     Aðgerðum til að draga úr áhættu meðal sérstakra áhættuhópa.
    Í þessum undirflokki eru fjórar aðgerðir sem allar eru í biðstöðu.
     5.     Stuðningur við eftirlifendur.
    Í þessum undirflokki eru þrjár aðgerðir. Aðgerð 1 er í vinnslu en aðgerðir 2 og 3 eru komnar til framkvæmda.
     6.     Efling þekkingar á sviði sjálfsvíga og sjálfsvígsforvarna.
    Undirmarkmið A: Að skapa fastan vettvang fyrir þekkingu og forvarnir. Aðgerðin er í biðstöðu.
    Undirmarkmið B: Að safna áreiðanlegum upplýsingum um sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir. Báðar aðgerðirnar eru í biðstöðu.
    Undirmarkmið C: Að stuðla að ábyrgri fjölmiðlaumfjöllun um sjálfsvíg og tengd málefni. Báðum aðgerðum er lokið.
    Undirmarkmið D: Að efla þekkingu fagfólks í heilbrigðis-, félags- og menntakerfi. Aðgerðir 1 og 2 eru í vinnslu en aðgerðir 3 og 4 í bið.

     2.      Hvaða fjármunum hefur verið varið til aðgerðaáætlunarinnar? Svar óskast sundurliðað eftir undirmarkmiðum og árum.
    Árið 2018 var aðgerðaáætlunin samþykkt og embætti landlæknis veittar 25 millj. kr. til að fylgja áætluninni eftir, 5 millj. kr. árið 2020 og 12. millj. kr. árið 2021. Einnig hefur heilbrigðisráðherra styrkt sjálfsvígsforvarnir og stuðning og meðferð fyrir þá sem eru í sjálfsvígshættu með styrkjum til Píeta-samtakanna að upphæð 13 millj. kr. árið 2020 og 25 millj. kr. árið 2021.