Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 537  —  2. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2022–2026.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Umhugsunarverð þróun hefur átt sér stað í okkar velferðarsamfélagi allt frá síðustu kreppu, í að verða 14 ár. Reynslan af 2008-kreppunni varpaði ljósi á mikilvægi þess að halda samfélaginu gangandi þrátt fyrir erfiða stöðu ríkisfjármála.
    Lærdómurinn var dýrmætur. Niðurskurður er ekki leið út úr kreppu. Yfirborðsútreikningar á fjármálahliðinni geta ekki verið frumforsendur ákvörðunartöku eftir svona stór átök í samfélaginu. Skuldir er að finna á fleiri stöðum en í opinberu bókhaldi ríkisins. Hvernig samfélag þú afhendir ungu fólki og komandi kynslóðum þarf að taka með inn í myndina. Hvar er sparað til að draga úr bókhaldslegum skuldum, og hvað þýðir slíkur sparnaður fyrir kynslóðaójöfnuð og byrði og tækifæri komandi kynslóða?
    Skilningur hefur aukist á síðustu árum á áhrifum niðurskurðar, hvernig hrörnandi innviðir, bæði efnislegir og félagslegir, draga úr getu fólks til að sækja fram, draga úr virkni fólks og veikja þannig grunninn sem samfélagið stendur á. Hvernig hinar svokölluðu „erfiðu ákvarðanir“ í niðurskurði eða vanfjárfestingu geta raunverulega verið bara „rangar ákvarðanir“.
    En þegar kórónufaraldurinn skall á á Íslandi var umræða um halla ríkissjóðs og bókhaldslegar skuldir strax yfirráðandi. Öll umræða snerist um fjárhagsáfallið sem dundi á ríkissjóði. Þeirri umræðu hafa þó nær alltaf fylgt þær viðbótarupplýsingar að viðbrögðin við þessari krísu séu allt öðruvísi en við síðustu – þar sem niðurskurður réð ríkjum, en nú sé verið að gefa í, fjárfesta í hagkerfinu og verja velferðarkerfið.
    En er það svo? Stundum virðumst við gleyma hvar í ferlinu við erum stödd. Því við stöndum enn í auga stormsins þó að veiran sjálf sé orðin veikari.
    Ríkissjóður var nefnilega rekinn með halla í sex ár eftir síðustu kreppu. Á árunum 2008– 2013 var uppsafnaður halli ríkissjóðs 36% af landsframleiðslu. Miðað við núverandi áætlanir stjórnvalda verður ríkissjóður rekinn með halla í sjö ár frá og með fyrsta ári kórónukreppunnar og uppsafnaður halli eftir þetta ástand rúmlega 30% af landsframleiðslu.
    Það er ekki augljóst af þessari tölfræði að þrátt fyrir að við séum að sigla inn í þriðja ár af þessari ríkisfjármálakreppu og hér verði halli næstu árin að enginn niðurskurður muni eiga sér stað og eigi sér ekki nú þegar stað. Í áfallastjórnun getur reynst auðveldara að fela stórpólitískar ákvarðanir um undirliggjandi rekstur samfélagsins. Það gefst ekki tími til að tala um raunverulegu pólitíkina sem er alls ráðandi.
    Ríkissjóður var sem fyrr segir rekinn með halla í sex ár eftir síðustu kreppu og það með meiri halla en talið er að muni myndast í þessari kreppu. Á sama tíma átti sér stað verulegur niðurskurður og þá sér í lagi undir lok tímabilsins og á þeim árum sem eftir komu þar sem barist var við að skila jákvæðri fjárhagslegri afkomu.
    Undirliggjandi efnahags- og samfélagspólitík kemur nefnilega í ljós á næstu árum – ekki fyrstu árum kreppunnar. Erfiðu ákvarðanirnar eiga sér ekki endilega stað í viðbragðinu, viðbragðspólitík er oft sjálfgefnari. Nú fer að sjást hverjir synda naktir, þegar við förum að ræða um grunninn, kerfin og framtíðina.
    Talsvert hefur borið á þeirri skilgreiningu á núverandi ríkisstjórn að hér sé um sístöðustjórn að ræða. Afturhald, íhald, ekkert breytist. En það er ekki rétt. Það hafa raunverulegar breytingar átt sér stað á undanförnum tíu árum, hægfara breytingar í krafti þessa stjórnarfars, sem hafa að miklu leyti farið fram hjá almenningi. Vandinn er sá að við ofmetum oft hversu mikil áhrif er hægt að hafa á 1–2 árum, jafnvel kjörtímabili. En vanmetum hversu ótrúlega miklar breytingar geta átt sér stað á áratug.
    Nú er nefnilega næstum áratugur frá því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tók við árið 2013. Og þeirra efnahagsstjórn hefur ráðið ríkjum alla tíð síðan. Andlit ríkisstjórnarinnar hefur breyst, en staðreyndin er sú að þau sem stýra efnahagsmálunum, fjármálunum, þau stýra velferðarmálunum. Það kosta ekki allar breytingar pening, en alvöru breytingar eiga sér ekki stað ef fólk hefur ekki skynbragð á hvernig efnahagspólitíkin er rekin. Og sú pólitík hefur verið hægri pólitík í að verða áratug. Afleiðingar þessara hægfara breytinga eru nú farnar að sýna sig.
    Íbúðamarkaðurinn er í engu samhengi við samfélagslegar þarfir. Heilbrigðiskerfið er rekið á plástrum, skammtímafjárveitingum, því grunnurinn þar hefur verið skertur í takt við ríkisfjármálapólitíkina undanfarinn áratug. Jaðarsetning öryrkja er að ná hámarki, þar sem við göngum í gegnum enn ein áramótin þar sem kjaragliðnun eykst á milli öryrkja og fólks á almennum vinnumarkaði.
    Peningarnir virðast ekki til, hallinn á rekstri ríkissjóðs er þrautseigur næstu árin. En sjaldan er talað um undirliggjandi ástæður þessa.

Kerfisbundin vanfjármögnun og misræmi milli sáttmála og stefnu.
    Strax á þessu ári verða útgjöld ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu orðin aðeins lægri en þau voru að meðaltali á árunum 2016–2019 þegar ríkissjóður var að komast á lygnari sjó eftir 2008-kreppuna. Frá 2019 höfum við lent í kórónuveirufaraldrinum, erum enn með innviðaskuldirnar frá síðustu og þar síðustu ríkisstjórn á bakinu, höfum safnað loftslagsskuldum og enn ekki gert við göt í velferðarkerfinu okkar. En ríkisútgjöld sem hlutfall af hagkerfinu á þessu ári verða samt lægri að meðaltali en á árabilinu 2016–2019.
    Hallinn á ríkissjóði undir lok spátímabilsins árið 2026 er því ekki vegna þess að engum böndum hafi verið komið á útgjöldin. Þvert á móti verða útgjöldin þá 29% af landsframleiðslu, þau lægstu á öldinni. Sömu sögu má segja ef sveitarfélögunum er bætt við. Af hverju er þá halli allt til ársins 2026?
    Það er tekjuhliðin sem er brostin. Um þá hlið er nær aldrei talað. Nema í tengslum við markmið ríkisstjórnarinnar að lækka skatta. Það markmið er þó sjaldnast sett í samhengi við hvað telst eðlilegt tekjustig til að halda úti norrænu velferðarríki. Hvað þá hvort hér á landi eigi við smæðarálag – við þurfum jú ákveðna yfirbyggingu líkt og fjölmennari lönd.
    Núverandi spá ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir lágum tekjum ríkissjóðs næstu árin. Árið 2026 verða þær 28% af landsframleiðslu eða þær lægstu á öldinni. Að meðtöldum sveitarfélögunum verða tekjur hins opinbera 39% árið 2026. Ef frá eru talin fyrstu tvö árin eftir fjármálakreppuna 2008 er þetta lægsta prósentan á öldinni.
    Hvað veldur? Meðal annars er um grunnbreytingar á tekjustoðum ríkisins að ræða. Skattalækkanir og lækkanir á vöru- og þjónustugjöldum á síðustu árum. Í staðinn fyrir að hliðra til skattbyrðinni er um hreina minnkun á tekjum að ræða miðað við hagkerfið. Það er pólitík sumra flokka, sem er gott og vel. Vandamál skapast aftur móti þegar reynt er að reka velferðarríki sem er samanburðarhæft við norrænu ríkin samhliða slíkri pólitík.
    Fjármálaráð bendir á þetta í umsögn sinni um fjármálastefnu og má eins finna svipaðar athugasemdir í umsögnum Alþýðusambandsins og BSRB. Fram kemur hjá fjármálaráði að undirliggjandi afkoma árið 2019 hafi þá þegar verið orðin neikvæð um 2,2% af landsframleiðslu. Afkomuhorfur ríkissjóðs út tímabil þessarar fjármálastefnu er því langt í frá aðeins undir áhrifum af kórónuveirufaraldrinum. Líkt og fjármálaráð nefnir blasir við að styrkja verði tekjuöflunina og/eða minnka útgjöld. Hið síðarnefnda virðist hins vegar ekki í takt við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Ljóst er af lestri fjármálastefnu að reksturinn sem ríkisstjórnin boðar næstu árin er ekki í takt við málflutninginn í dag. Það er siglt undir fölsku velferðarflaggi.
    Fjármálaráð vekur líka athygli á þessu misræmi í orðræðu stjórnarliða, texta stjórnarsáttmála og svo þeim tölum sem birtast í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar út kjörtímabilið. Á því er haft orð að samhljóm skorti milli stjórnarsáttmála og fjármálastefnu. Í þessu samhengi má einnig benda á athugasemd fjármálaráðs um mikilvægi þess að stefnumörkunin sem fylgir framfylgd laga um opinber fjármál þurfi að vera raunsæ. Fram kemur í umsögninni að það „væri ákjósanlegt að draga saman stjórnmálalegar og fjármálalegar áherslur til að gefa skýrt til kynna hvernig stjórnvöld hafa hugsað sér að framfylgja stefnumiðum sínum næstu fjögur árin.“
    Til marks um það misræmi sem er á milli stjórnarsáttmála og fjármálastefnu má vitna í útreikninga fjármálaráðs sem benda til þess að áætlaður raunvöxtur útgjalda í fjármálastefnunni verði 2,6% á árabilinu 2022–2026 eða um 0,7% á ári á sama tíma og hagkerfið vex um 10%. Alþýðusambandið bendir á að hvergi sé fjallað um það í greinargerð með stefnunni hvað árleg raunaukning upp á 0,7% hafi í raun í för með sér fyrir opinbera velferðarþjónustu. Þar kemur fram að „[a]ð öllu jöfnu hækk[i] opinber útgjöld þótt þjónustustigið haldist óbreytt, t.d. vegna launahækkana. Það er erfitt að sjá hvernig að jafn lágur útgjaldavöxtur geti staðið undir velferðarkerfinu og því eru vísbendingar um að þar geti komið til skerðinga.“ Jafnframt segir í umsögn ASÍ að „[í] greinargerð með fjármálastefnu kemur fram að stefnt er að því að auka aðhald á næstu árum með það að markmiði að draga úr þenslu í hagkerfinu. Umfjöllun um tekju- og gjaldastefnu sýnir með skýrum hætti að aukið aðhald mun fyrst og fremst koma fram á útgjaldahliðinni. Það þýðir að aðhaldið í stefnunni byggir á því að velferðarkerfið verði notað sem helsta hagstjórnartækið.“
    Þetta er úr takti við orðræðuna í stjórnarsáttmála þar sem gefið er í skyn að ráðist verði í mikla sókn í velferðarmálum.
    Þessi pólitíski vinkill á stefnu sem oft er stillt upp að sé einfaldlega teknókratísk skiptir miklu máli: því skulda- og afkomureglur hljóta alltaf að vera settar á grundvelli ríkisfjármálastefnu sem þarf að vera skýr. Hvers konar hlutverk ætlum við ríkissjóði í hagkerfinu?

Óljóst hvernig fyllt verður út í ramma fjármálastefnu.
    Lög um opinber fjármál eiga að stuðla að stöðugleika og sjálfbærni í rekstri ríkissjóðs. Viðmiðin eru afkoma og heildarskuldir. Leiðarljós fjármálastefnunnar, eins og birtist í þingsályktunartillögunni, er að hækkun á skuldum hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu stöðvist á árinu 2026. Tekið er fram að þar sem landsframleiðslan verði við framleiðslugetu á þessu ári verði dregið úr sértækum stuðningi við einstaklinga og fyrirtæki. Ekkert er þó fjallað í greinargerð með stefnunni um ójafnvægi sem til staðar er engu að síður í hagkerfinu og getur aftrað vaxtargetu þess til lengri tíma og þar með gert hinu opinbera erfitt fyrir þegar kemur að því að halda skuldahlutfallinu sjálfbæru. Áhersla er lögð á að draga úr stuðningi hins opinbera við hagkerfið, þ.e. auka aðhald og þar með tempra þenslu í hagkerfinu, en engin umfjöllun er um hvernig forgangsraða ætti fjármunum á tímabilinu til að draga úr ójafnvægi sem hefur skapast.
    Ljóst er að eignaverðshækkanir hafa skapað ójafnvægi, auk þess sem hópur fólks líður sérstaklega fyrir eftirköst veirunnar. Mikil verðbólga er nú til staðar, m.a. vegna umrædds ójafnvægis, og ljóst að eðli útgjalda hins opinbera skiptir sköpum. Þrátt fyrir þetta virðist engin vinna vera til staðar innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins við að greina þensluáhrif einstakra útgjaldaflokka og forgangsraða þannig verkefnum og fjármagni til að draga úr ójafnvægi í hagkerfinu.
    Þó hafa birst greiningar á nýsamþykktum úrræðum ríkisstjórnarinnar sem meiri hluti fjárlaganefndar samþykkti milli jóla og nýárs sem bentu til þess að um slæma forgangsröðun væri að ræða. Hér er átt við samþykkt á úrræðinu „Allir vinna“, sem bætti rúmlega 7 milljörðum kr. við halla ríkissjóðs og er ein af ástæðunum fyrir því að endurskoða þurfti fjármálastefnuna nokkrum vikum eftir að hún var lögð fram á Alþingi. Hér fór meiri hluti fjárlaganefndar gegn ráðum fjármála- og efnahagsráðuneytisins og samþykkti fjárveitingu sem hefur þensluhvetjandi áhrif á hagkerfið og bætir því í verðbólguna og dregur auk þess úr svigrúmi til að vinna á móti öðru ójafnvægi í hagkerfinu.
    Þá er tekið fram í greinargerð fjármálastefnu að stöðvun á skuldahlutfalli sé nauðsynleg til að byggja upp svigrúm til að mæta auknum útgjöldum vegna fyrirsjáanlegra lýðfræðibreytinga. Í greinargerðinni kemur fram að minni hagvöxtur muni draga úr skatttekjum að óbreyttu skattkerfi og því þeim útgjöldum sem ríkið getur staðið undir til lengdar. Þá kalli lægri framleiðnivöxtur og öldrun þjóðar á aukin útgjöld. Ályktað er að þessar langtímabreytingar séu þess eðlis að koma þurfi böndum á hækkun skuldahlutfalls hins opinbera og mynda svigrúm til útgjaldanna þegar fram í sækir svo að markmið laga um opinber fjármál um sjálfbærni og varfærni verði uppfyllt.
    Fram kemur í greinargerð með stefnunni að samsetning tekna hins opinbera muni líklega breytast og skattbyrði færast frá launum yfir á neyslu, þar sem skattstofnar sem byggjast á tekjum og launum vaxi hægar en íbúafjöldi þar sem hlutfallslega færri verða á vinnumarkaði. Áhugavert er að sjá þessa framsetningu líkt og um kaldar staðreyndir sé að ræða. Neysluskattar eru í fyrsta lagi allt öðruvísi skattar en skattar á laun, því að þeir eru flatir. Í eðli sínu eru þeir því til þess fallnir að draga úr jöfnuði í samfélaginu því að þeir leggjast þyngst á fólk á lágum tekjum. Svo virðist sem ríkisstjórnin sé því að boða grundvallarbreytingu á skattkerfinu sem er í átt til ójafnaðar án þess að mikið fari fyrir því. Í öðru lagi er hvergi minnst á aðra tegund skatta, svo sem eignaskatta, þrátt fyrir að umræða víða erlendis um aukinn eignaójöfnuð, fremur en tekjuójöfnuð, sé algeng. Þá er áhugavert að ekkert er fjallað um skatta á fjármagn líkt og er gert í stjórnarsáttmála. Er þetta annað dæmi um að stjórnarsáttmáli og rekstraráætlanir þessarar ríkisstjórnar sem nú hafa birst fyrir kjörtímabilið fari ekki saman.
    Í endurmati á fjármálastefnunni eftir að breytingar voru gerðar á fjárlögum fyrir árið 2022 og endurmat átti sér stað á skuldastöðu ríkissjóðs fyrir áramót kemur fram að bæta þurfi 2% við skuldastöðu ríkissjóðs í fjármálastefnunni. Þá versnar afkoman fyrir árið 2022 um 0,5% af vergri landsframleiðslu, m.a. vegna útgjalda sem bættust við við vinnslu fjárlaga 2022. Fram kom í máli fjármála- og efnahagsráðuneytisins að um 14 milljarða kr. aukalega væri um að ræða, en þar af væru 8–9 milljarðar kr. sem væri varanleg aukning út tímabilið. Eða um 0,3% af vergri landsframleiðslu. Þrátt fyrir þessar breytingar er ekki gert ráð fyrir að afkoman eða skuldastaðan versni á komandi árum, þ.e. eftir árið 2022. Með öðrum orðum er hér um innbyggðan niðurskurð að ræða á næstu árum, upp á 8–9 milljarða kr. sem bætast nú við rammann sem ríkisstjórnin vinnur eftir. Nema það stefni í auknar skatttekjur á tímabilinu. Ekkert er þó fjallað um þau áform í fjármálastefnunni og kom fram í samræðum við fjármála- og efnahagsráðuneytið að útfærsla aðhaldsaðgerða, á gjalda- eða tekjuhlið, kæmi ekki fram fyrr en í fjármálaáætlun síðar í vor. Í þessu samhengi ber þó að vekja athygli á því að í síðustu fjármálaáætlun, þar sem boðaðar voru aðhaldsaðgerðir út tímabilið, kom hvergi fram hvar slíkt aðhald myndi birtast. 1. minni hluti gerir sér því vonir um að breytt verklag verði við vinnslu næstu fjármálaáætlunar.
    Þess má geta að fjármálaráð bendir einmitt á í sinni umsögn að athugavert hafi verið að í síðustu fjármálaáætlun hafi verið lagðar línur um afkomubætandi ráðstafanir sem nauðsynlegar væru til að koma opinberum fjármálum á réttan kjöl. En að þær væru tilgreindar án þess að sundurliða frekar hvað yrði gert eða hvernig. Tekið var fram að ráðstafanir myndu skiptast jafnt milli útgjalda og tekjuhliðar, en ekki var tilgreint með hvaða hætti. Sama staða er nú uppi í framsetningu fjármálastefnu sem mótar þó rammann fyrir fjármálaáætlun og blasir við að fjármála- og efnahagsráðuneytið hljóti að sýna á spilin varðandi áherslur og aðgerðir með skýrari hætti í komandi fjármálaáætlun. Í umsögn fjármálaráðs kemur fram að mögulegt hefði verið að láta það í ljós í greinargerð hvernig stjórnarsáttmálinn varpast yfir í fjármálastefnu en slíkt væri til að mynda hægt að gera með „skýrari umfjöllun um samhengi skattkerfisbreytinga, vænts hagvaxtar og áforma um tekjuþróun.“
    Má hér einnig vitna til athugasemda BSRB við fjármálastefnuna þar sem fram kom að fjallað væri um fyrirheit um óskilgreindar breytingar í greinargerðinni með fjármálastefnunni sem væru samt mjög stórar.

Fjárfestingarstigið áfram lágt og gullna regla skoðuð.
    Taka ber alvarlega þær athugasemdir sem hafa birst frá umsagnaraðilum, þar á meðal fjármálaráði, þar sem áhyggjur eru af fjárfestingarstiginu í hagkerfinu á næstu árum. Fjárfestingarstig virðist vera orðið varanlega lægra en það var fyrst eftir aldamót. Í umsögn fjármálaráðs kemur til að mynda fram að fjármunastofninn hér á landi sé metinn lægri en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Mikilvægt sé að gengið sé ekki um of á eignahlið efnahagsreiknings hins opinbera með vanfjárfestingu og ljóst sé að þörf sé til staðar fyrir uppbyggingu og viðhald víða. Þó að stjórnarsáttmáli feli í sér ýmis fyrirheit um uppbyggingu og fjárfestingarverkefni þá virðast þau ekki endurspeglast með skýrum hætti í fjármálastefnunni.
    Þá kom fram í máli fjármálaráðs að ekki hefði tekist vel til í gegnum tíðina að nota fjárfestingar sem sveiflujöfnun í hagkerfinu. Verkefni færu hægt af stað og hættan sú að þegar loks fer að bera á fjárfestingarátaki sé hagkerfið farið á fullt. Í þessu samhengi virðist ljóst að íhuga þarf alvarlega að endurskoða lög um opinber fjármál hér á landi eins og þau snúa að fjárfestingu. Evrópusambandið er nú að skoða svokallaða „gullna reglu“ inni í reglum sínum um opinber fjármál. Þar er hugmyndin að aðskilja fjárfestingar frá útreikningum um skulda- og afkomureglur ríkjanna. Þannig ætti að gefast svigrúm til uppbyggingar eftir áralangt tímabil vanfjárfestingar, en að sama skapi koma í veg fyrir að innviðafjárfestingar og grunnuppbygging víki á tímum samdráttar í hagkerfinu, þ.e. að losna undan þeirri hugmynd að fjárfesting sé gott hagstjórnartæki í hagsveiflum í ljósi þess hve seigfljótandi hún er. Undir lok þessa kjörtímabils falla aftur í gildi fjármálareglurnar sem gætu brostið á með talsverðum þunga – og því bitnað á opinberri fjárfestingu. Að mati 1. minni hluta ætti að ráðast í alvöru skoðun á svipaðri gullinni reglu hér á landi.

Niðurskurður bakdyramegin – samskipti ríkis og sveitarfélaga.
    Vanfjárfesting á sér aftur á móti ekki aðeins stað hjá ríkinu, heldur er vandinn mun verri á sveitarstjórnarstiginu. 1. minni hluti bendir á að þrátt fyrir að afkomuhorfur og skuldastaða ríkissjóðs hafi batnað verulega frá því að síðasta fjármálaáætlun kom út og svo í núverandi fjármálastefnu, er staðan einmitt öfug hjá sveitarfélögum; þar hafa afkomuhorfur versnað sem og skuldastaðan. Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu hefur fallið hjá sveitarfélögum og bendir allt til þess að núverandi fjármálastefna og undirliggjandi fjármálaáætlun geri ráð fyrir að fjárfestingarhlutfallið fari lækkandi út árið 2026.
    Kemur þetta til m.a. vegna vanfjármögnunar sveitarstjórnarstigsins eftir yfirfærslu verkefna í gegnum árin frá ríki til sveitarfélaga án þess að fjármagn fylgi með. Má sem dæmi nefna málaflokk fatlaðs fólks sem var fluttur á árabilinu 2012–2013 frá ríki til sveitarfélaga og greiningar hafa bent til að vanti um 9 milljarða kr.
    Fjárfesting sveitarfélaga hefur sögulega verið um 1,9% af landsframleiðslu en verður undir lok tímabils þessarar stefnu um 1,2% af landsframleiðslu. Er þessi 0,7% munur ígildi um 20 milljarða kr. í dag. Því mætti segja að vanfjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks skýri um helming af þessari vanfjárfestingu. A.m.k. er ljóst að vanfjármögnunin hefur bitnað á fjárfestingargetu sveitarfélaga. Aðra málaflokka mætti einnig telja til í þessu samhengi. Hér er um að ræða eins konar niðurskurð bakdyramegin í rekstri ríkissjóðs, þar sem málaflokkar eru fluttir yfir til sveitarfélaga til að hreinsa borð ríkissjóðs og bæta afkomustöðuna, en á móti dregur úr getu sveitarfélaga til að sækja fram. Er þetta sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að svigrúm sveitarfélaga til að bæta tekjur sínar er takmarkað þar sem tekjustofnar eru fáir, ólíkt hjá ríkissjóði, auk þess sem sveitarfélögin eiga erfiðara með að nálgast lánsfjármagn og þegar það er mögulegt er það á hærri vöxtum en hjá ríkissjóði.

Til hvers eru stjórnmálin – virkt ríki og mótun framtíðarstefnu.
    Mikil áhersla er á í greinargerðinni um fjármálastefnu að þar sem áföll dynji reglulega á, og séu tíðari en áður, sé enn mikilvægara að ríkið búið yfir nægum fjárhagslegum styrk til að mæta tíðum áföllum. Það vekur athygli í þessu samhengi að ekki sé meira fjallað um hvernig þróa ætti hin opinberu kerfi, hagstjórnarstefnu og samspil við vinnumarkað og einkageirann í þeim tilgangi að draga úr tíðni slíkra áfalla. Að ekkert sé fjallað um að ríkið sé gerandi í samfélaginu og geri atlögu að því að draga úr undirliggjandi ójafnvægi, í stað þess að haga ríkisfjármálum með varnarhætti. Sjálfbærnihugtak laga um opinber fjármál birtist þannig fyrst og fremst í þessari fjármálastefnu sem uppbygging fjárhagslegs styrks – áherslan er að bókhaldið lítið vel út – fremur en að áherslan sé á að styrkja getu hagkerfisins, samfélagsins og ríkisins til að takast á við viðfangsefni framtíðarinnar. Það þarf að fjárfesta í kerfi sem er ekki jafnviðkvæmt fyrir áföllum, sækja fram, frekar en að bakka í vörn sem viðbragð við þessum stóru samfélagslegu viðfangsefnum.

Sameiginleg yfirlýsing 1., 2. og 3. minni hluta.
    Lítið samræmi er á milli stjórnarsáttmála og þess reksturs sem boðaður er í fjármálastefnu út kjörtímabilið. Engin merki eru um eflingu almannaþjónustu og öflugt velferðarkerfi. Meintur vöxtur til velsældar er ekki í takt við þann ramma sem ríkisstjórnin setur sér næstu fjögur árin. Fjármálastefnan fjallar bara um áskoranir en inniheldur engar pólitískar lausnir. Það er nauðsynlegt í því samhengi að næsta fjármálaáætlun, sem kemur út síðar í vor, innihaldi pólitíska stefnumótun varðandi þær afkomubætandi ráðstafanir sem augljóst er að ráðast þarf í á næstu árum miðað við þann ramma sem ríkisstjórnin hefur sniðið sér með fjármálastefnu. Lög um opinber fjármál gera ráð fyrir gagnsæi og raunsæi í framsetningu áætlana og því ljóst að ríkisstjórnin getur hér ekki skilað auðu í næstu fjármálaáætlun.
    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, tekur undir efni yfirlýsingarinnar.


Alþingi, 21. febrúar 2022.

Kristrún Frostadóttir.