Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Nr. 10/152.

Þingskjal 564  —  2. mál.


Þingsályktun

um fjármálastefnu fyrir árin 2022–2026.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um opinber fjármál, nr. 123/2015, að stjórnvöld fylgi stefnumörkun um opinber fjármál sem stuðli að stöðugleika og sjálfbærni í samræmi við grunngildi laga um opinber fjármál með því að draga jafnt og þétt úr afkomuhalla og stöðva hækkun skulda hins opinbera í hlutfalli af vergri landsframleiðslu eigi síðar en árið 2026. Í því skyni skal stjórn opinberra fjármála vera í samræmi við eftirfarandi stefnumið um afkomu- og skuldaþróun á gildistíma fjármálastefnunnar 2022–2026, á grundvelli þeirra efnahagshorfa og annarra forsendna sem hún er reist á:

Hlutfall af vergri landsframleiðslu, % 2022 2023 2024 2025 2026
    
A1-hluti hins opinbera1
    Heildarafkoma
-7,0 -4,8 -3,6 -2,4 -1,0
         þar af ríkissjóður (A1-hluti)
-6,0 -4,0 -3,0 -2,0 -0,8
         þar af sveitarfélög (A-hluti)
-1,0 -0,8 -0,6 -0,4 -0,2
    Óvissubil
-1,5 -2,0 -2,5 -3,0 -3,5
    Skuldir²
43,5 46,0 49,0 51,0 51,5
         þar af ríkissjóður (A1-hluti)
36,0 38,0 40,5 42,0 42,5
         þar af sveitarfélög (A-hluti)
7,5 8,0 8,5 9,0 9,0
Opinberir aðilar í heild
    Heildarafkoma
-6,5 -4,0 -2,6 -1,4 0,0
         þar af A1-hluti hins opinbera
-7,0 -4,8 -3,6 -2,4 -1,0
         þar af fyrirtæki hins opinbera³
0,5 0,8 1,0 1,0 1,0
    Skuldir²
66,5 67,0 69,0 70,0 70,5
         þar af A-1 hluti hins opinbera
43,5 46,0 49,0 51,0 51,5
         þar af fyrirtæki hins opinbera³
23,0 21,0 20,0 19,0 19,0
1 Samkvæmt endurskoðaðri flokkun á starfsemi hins opinbera á grundvelli alþjóðlegs hagskýrslustaðals (GFS), sbr. nánari umfjöllun í kafla 6 í fjárlagafrumvarpi 2022.
² Heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, sbr. 7. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál.
³ Ríkisaðilar í A2- og A3-hluta eru í þessari framsetningu birtir með fyrirtækjum hins opinbera. Afkoma og skuldir fjármálafyrirtækja og sjóða er, eins og verið hefur, ekki meðtalið í þessari framsetningu.

    Yfirlitið að framan felur eftirfarandi í sér:

    I.        Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða V í lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, er ráðherra heimilt í fjármálastefnunni að víkja frá skilyrðum um heildarjöfnuð og skuldahlutfall hins opinbera skv. 7. gr. laganna til og með árinu 2025. Skilyrðin taka aftur gildi árið 2026 og skal stefnan taka mið af því.

    II.    Heildarafkoma A1-hluta hins opinbera verður neikvæð yfir tímabil stefnunnar, eða sem nemur 7% af VLF árið 2022, en fer batnandi ár frá ári uns hallinn nemi að hámarki 1% af VLF árið 2026.

    III.    Heildarskuldir A1-hluta hins opinbera sem hlutfall af VLF verði að hámarki 51,5% af VLF árið 2026 en fari lækkandi frá því ári í samræmi við skilyrði í 3. tölul. 7. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.

    IV.    Árleg markmið um halla á afkomu A1-hluta hins opinbera í töflu hér á undan eru hámarksviðmið. Reynist hagvöxtur verða umtalsvert meiri en fjármálastefnan miðast við, og tekjur aukast í sama mæli eða til falla töluverðar tekjur af öðrum völdum, er gert ráð fyrir að heildarafkoma batni sem því nemur.

    V.    Í varfærnisskyni eru tölusett markmið um afkomu A1-hluta hins opinbera í töflu hér á undan sett fram með óvissubili. Gildir það gagnvart þeim markmiðum um heildarafkomu sem ákveðin verða í árlegum fjármálaáætlunum. Óvissubilið felur í sér tölfræðileg líkindi á að frávik frá efnahagsforsendum verði innan þeirra marka sem það setur á þeim tímapunkti þegar stefnan er lögð fram. Óvissubilið verður því endurreiknað og birt í árlegri fjármálaáætlun fyrir komandi fimm ár.

            Reynist hagþróun og efnahagsforsendur fyrir áætlanagerð lakari en nú er gert ráð fyrir er heimilt að aðlaga stefnumið um afkomu- og skuldaþróun A1-hluta hins opinbera í sama mæli innan óvissubilsins. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að stjórnvöld beiti viðeigandi ráðstöfunum, ef á þarf að halda, til að tryggja að afkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum verði í samræmi við markmið fjármálastefnunnar. Mat á frávikum frá upprunalegum efnahagsforsendum innan óvissubilsins og mat á því hvort og í hvaða mæli það hefur áhrif á stefnuferla verður birt í árlegri fjármálaáætlun fyrir komandi fimm ár.

    VI.    Ef frávik frá efnahagsforsendum verða umfram óvissubilið teljast grundvallarforsendur fjármálastefnunnar brostnar í skilningi 10. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og skal þá gerð tillaga um endurskoðun hennar í samræmi við þau lagaákvæði.

    Alþingi staðfestir að fjármálastefna þessi sé samkvæm þeim grunngildum og skilyrðum sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. og 7. gr. laga um opinber fjármál. Á árunum til og með 2025 er vikið frá skilyrðum 7. gr. laganna svo sem heimilt er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða V í lögunum.

Samþykkt á Alþingi 23. febrúar 2022.