Ferill 292. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 573  —  292. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um náttúruminjaskrá.


     1.      Hvenær var náttúruminjaskrá síðast gefin út og birt með auglýsingu í Stjórnartíðindum líkt og kveðið er á um í lögum um náttúruvernd að gert skuli á fimm ára fresti?
    Náttúruminjaskrá var síðast gefin út og birt í B-deild Stjórnartíðinda árið 1995, sbr. auglýsingu nr. 631/1995, um náttúruminjaskrá. Skráin byggðist á 28. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd. Samkvæmt lögunum var það ábyrgð náttúruverndarráðs að semja skrá um náttúruminjar og lönd sem ástæða kynni að vera til að friðlýsa. Náttúruminjaskrá þessi er aðgengileg á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

     2.      Hvenær var síðasta fimm ára framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár (áður náttúruverndaráætlun) lögð fyrir sem þingsályktunartillaga á Alþingi?
    Náttúruverndaráætlun sem byggðist á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, var samþykkt á Alþingi 2. febrúar 2010, sbr. þingsályktun nr. 3/138, um náttúruverndaráætlun 2009–2013, www.althingi.is/altext/138/s/0654.html.
    Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár (B-hluti) eins og hún er skilgreind í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, hefur ekki verið lögð fyrir Alþingi enn.

     3.      Hvar stendur vinna við undirbúning næstu fimm ára framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár og hvenær má vænta þess að hún verði lögð fram á Alþingi sem tillaga til þingsályktunar?
    Gildandi lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, tóku gildi árið 2015. Við setningu þeirra laga var gerð umtalsverð breyting á undirbúningi og málsmeðferð náttúruminjaskrár.
    Í apríl 2018 lagði Náttúrufræðistofnun Íslands fram tillögur að svæðum á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Alls lagði Náttúrufræðistofnun til að 112 svæði færu á framkvæmdaáætlun fyrir vistgerðir, fuglategundir og jarðminjar. Í desember 2020 bætti Náttúrufræðistofnun við 19 svæðum til verndar fossum og selum. Tillögurnar eru aðgengilegar á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar, www.ni.is/midlun/natturuminjaskra.
    Umhverfisstofnun var í kjölfarið falið að meta nauðsynlegar verndarráðstafanir svæðanna og meta kostnað við þær. Hefur sú vinna átt sér stað í samráði við ráðuneytið.
    Í samræmi við málsferð 36. gr. náttúruverndarlaga undirbýr Umhverfisstofnun kynningar- og samráðsferli á tillögu að svæðum á framkvæmdaáætlun og er sú vinna hafin.
    Að lokinni kynningu Umhverfisstofnunar tekur stofnunin saman umsögn um framkomnar athugasemdir og skilar til ráðherra. Ráðherra mun í kjölfarið leggja fram þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Ráðherra stefnir að því að leggja tillöguna fram á löggjafarþinginu 2022–2023.