Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 594  —  415. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022–2025.


Frá forsætisráðherra.



    Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025.

1. Framkvæmdasjóður hinsegin málefna.
    Varið verði 40 millj. kr. samtals til verkefna sem styðja við málefni hinsegin fólks á vegum ráðuneyta á tímabilinu 2022–2025. Verkefnin verði samstarfsverkefni ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, ríkisstofnana eða háskólasamfélagsins og niðurstöður, reynsla og þekking verði nýtt á sviði málefna hinsegin fólks eða til að innleiða tillögur á grunni verkefna í aðgerðaáætlun.
    Forsætisráðuneytið auglýsi eftir umsóknum frá ráðuneytum og úthluti 10 millj. kr. árlega á tímabilinu að undangengnu faglegu mati skrifstofu jafnréttismála. Reglur sjóðsins og umsóknareyðublöð verði kynnt ráðuneytum fyrir 1. sept. 2022.
    Tímaáætlun: 2022–2025.
    Kostnaðaráætlun: 40 millj. kr.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Aðalinntak heimsmarkmiðanna um að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

2. Staða Íslands á regnbogakorti ILGA Europe.
    Unnið verði að því að koma Íslandi í eitt af efstu sætunum á regnbogakorti ILGA Europe með réttarbótum og bættri stöðu hinsegin fólks.
    Markmiðið verði að koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks.
    Tímaáætlun: 2022–2025.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Aðalinntak heimsmarkmiðanna um að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

3. Kortlagning á stöðu og réttindum hinsegin fólks á Íslandi.
    Gerð verði rannsókn á stöðu og réttindum hinsegin fólks á Íslandi. Meðal annars verði horft til löggjafar og stefnumótunar stjórnvalda, stöðu hinsegin barna og ungmenna í skólum, stöðu á vinnumarkaði, stöðu eldri borgara innan hinsegin samfélagsins, aðgengi að félagslegri þjónustu og þjónustu heilbrigðiskerfisins og almennt til félagslegrar stöðu og réttinda. Leitað verði eftir samstarfi við Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum (RIKK) við framkvæmd rannsóknarinnar.
    Markmið aðgerðarinnar verði að kortleggja stöðu og réttindi hinsegin fólks á Íslandi til að útfæra frekari aðgerðir til hagsbóta fyrir hinsegin fólk í samfélaginu.
    Tímaáætlun: 2022–2024.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: 5 millj. kr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2, 10.3, 10.4, 16.6, 16.7, 16.10, 16.b, og 17.17.

4. Fræðsla fyrir stjórnendur ríkisins um hinsegin málefni.
    Tryggt verði að stjórnendur og þeir sem fara með mannaforráð hjá ríkinu hafi þekkingu á málefnum hinsegin fólks á vinnumarkaði.
    Markmið aðgerðarinnar verði að efla fræðslu meðal stjórnenda ríkisins í samstarfi við hagsmunasamtök hinsegin fólks þannig að stjórnendur þekki til málefna og stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði.
    Tímaáætlun: 2023–2024.
    Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 8.8, 10.4, 16.6 og 16.10.

5. Fræðsla um hinsegin málefni fyrir lögreglu.
    Unnið verði fræðsluefni fyrir lögreglu um hinsegin málefni með það fyrir augum að tryggja betri þekkingu innan lögreglunnar á málaflokknum.
    Markmið aðgerðarinnar verði að fræðsluefni um hinsegin fólk, málefni og stöðu þess verði komið með skipulegum hætti til lögregluembætta landsins.
    Tímaáætlun: 2023–2024.
    Ábyrgð: Dómsmálaráðuneyti í samvinnu við ríkislögreglustjóra.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.3, 16.3, 16.6 og 16.10.

6. Hinsegin börn og ungmenni í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi.
    Unnið verði fræðsluefni um stöðu hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi, auk þess sem útbúnar verði leiðbeiningar fyrir þá sem bera ábyrgð á slíku starfi. Tekið verði mið af þörfum ólíkra hópa í skipulögðu íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Aðilar sem bera ábyrgð á starfseminni setji sér jafnréttisstefnu sem taki til þátttöku og aðgengis hinsegin barna og ungmenna að íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi.
    Markmiðið verði að tryggja þátttöku og aðgengi hinsegin barna og ungmenna að íþrótta-, tómstunda og æskulýðsstarfi.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2 og 10.3.

7. Líðan hinsegin barna og ungmenna í skólum.
    Úttekt á líðan hinsegin barna í skólakerfinu verði samþætt við rannsóknir á líðan skólabarna og unnar tillögur um úrbætur á grundvelli niðurstaðna. Hugað verði sérstaklega að líðan og stöðu hinsegin barna og ungmenna í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka líðan og stöðu hinsegin barna og ungmenna.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 4.2, 4.5, 4.a, 5.c, 10.2, 10.3.

8. Hinsegin fólk og heimilisofbeldi.
    Gerð verði rannsókn á heimilisofbeldi í hinsegin samböndum og fjölskyldum.
    Markmið aðgerðarinnar verði að skapa þekkingu á heimilisofbeldi meðal hinsegin fólks á Íslandi og vinna gegn því.
    Tímaáætlun: 2023–2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2 10.3, 16.1, 16.3, 16.7 og 16.10.

9. Hatursorðræða og hatursglæpir – lagabreytingar.
    Breytingar verði gerðar á 233. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þannig að hatursorðræða á grundvelli kyneinkenna verði gerð refsiverð. Samhliða verði gert refsivert að neita einstaklingi um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli kyneinkenna. Jafnframt verði gerð breyting á 70. gr. sömu laga um refsihæð þannig að það leiði til refsiþyngingar ef brot teljist hatursglæpur, þ.e. ef rekja megi brotið til tilgreindra atriða er varði brotaþola. Við ákvörðun refsingar verði litið til þess hvort brotið megi rekja til þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra sambærilegra þátta.
    Markmið aðgerðarinnar verði að endurskoða lagaákvæði almennra hegningarlaga um hatursorðræðu og hatursglæpi.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Dómsmálaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2, 10.3, 16.1, 16.3, 16.6, 16.7 og 16.10.

10. Breytingar á reglugerðum um hollustuhætti.
    Gerðar verði breytingar á reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum og reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni.
    Markmið aðgerðarinnar verði að tryggja að tekið sé tilliti til trans fólks og þar á meðal fólks með hlutlausa kynskráningu í ákvæðum sem snúa að aðgengi að salernum og annarri aðstöðu.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2 og 10.3.

11. Aðgengi trans fólks; vinnustaðir, sundstaðir, íþróttamannvirki.
    Skipaður verði starfshópur undir forystu forsætisráðuneytis til að vinna að heildarúttekt á aðgengismálum fyrir trans fólk út frá gildandi reglum og stöðu málaflokksins almennt. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum frá félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og innviðaráðuneyti.
    Markmið aðgerðarinnar verði að skýra og samræma reglur um aðgengi trans fólks á vinnustöðum og í almenningsrýmum, svo sem í sundlaugum og öðrum íþróttamannvirkjum.
    Tímaáætlun: 2023–2024.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 8.8, 10.2 og 10.3.

12. Útfærsla söfnunar og skráningar kyngreindrar tölfræði hjá sveitarfélögum.
    Eyðublöð, skráningarform og skilríki, þar sem kynskráningar er krafist, verði samræmd þannig að gefinn sé kostur á hlutlausri kynskráningu auk karlkyns og kvenkyns.
    Markmið aðgerðarinnar verði að setja verklagsreglur um söfnun og skráningu kyngreindra tölfræðiupplýsinga.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 16.6 og 16.10.

13. Fræðsla um hinsegin málefni fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga.
    Boðið verði upp á fræðslu um hinsegin málefni fyrir alla kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga.
    Markmið aðgerðarinnar verði að auka þekkingu meðal kjörinna fulltrúa og starfsfólks sveitarfélaga um réttindi og félagslega stöðu hinsegin fólks.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.3 og 16.6.

14. Fjölbreytileiki á vinnumarkaði.
    Gerð verði könnun á viðhorfi og þekkingu atvinnurekenda á stöðu og aðgengi hinsegin fólks að vinnumarkaði.
    Markmið aðgerðarinnar verði að vekja athygli á stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði og mikilvægi fjölbreytileika á vinnustöðum.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 8.8 og 10.3.

15. Hinsegin sjávarútvegur og landbúnaður.
    Gerð verði könnun á viðhorfi og stöðu hinsegin fólks innan sjávarútvegs og landbúnaðar.
Markmið aðgerðarinnar er að vekja athygli á stöðu hinsegin fólks í sjávarútvegi og landbúnaði og mikilvægi fjölbreytileika í öllum atvinnugreinum.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Matvælaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 8.8 og 10.3.

16. Verklagsreglur teymis Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum.
    Tryggð verði viðeigandi og fordómalaus heilbrigðisþjónusta fyrir trans fólk og teymi Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum setji sér verklagsreglur í samræmi við viðurkenndar vinnureglur á alþjóðavettvangi.
    Markmiðið aðgerðarinnar verði að setja verklagsreglur sem byggist á nýjustu rannsóknum í málaflokknum.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 5.6 og 3.8.

17. Reglugerð um heilbrigðisþjónustu.
    Reglugerðarheimild í 3. mgr. 13. gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, verði nýtt til að setja reglugerð um heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga sem falla undir lögin.
    Markmiðið aðgerðarinnar verði að skýra betur hlutverk teymis Barna- og unglingageðdeildar Landspítala um kynvitund þegar kemur að þjónustu við einstaklinga sem falla undir lögin og hvaða sérfræðiþjónustu sé nauðsynlegt að tryggja þeim sem leita eftir þjónustu teymisins.
    Tímaáætlun: 2023–2024.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 5.6 og 3.8.

18. Reglugerð um blóðgjafir.
    Gerðar verði breytingar á reglugerð nr. 441/2006 um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV við sömu reglugerð í því skyni að afnema mismunun gagnvart samkynhneigðum þegar kemur að blóðgjöf.
    Markmiðið aðgerðarinnar verði að afnema mismunun sem blóðgjafar hafa sætt á grundvelli kynhneigðar.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 5.6 og 3.8.

19. Utanríkisstefna með áherslu á réttindi hinsegin fólks.
    Utanríkisráðuneyti nýti áfram öll tækifæri til að leggja ríka áherslu á mannréttindi hinsegin fólks í alþjóðlegu samstarfi og í samskiptum við önnur ríki og leitist þannig við að hafa jákvæð áhrif á stöðu hinsegin fólks um allan heim. Stjórnvöld nýti sér þá stöðu og reynslu sem Ísland hefur þegar kemur að réttindum og félagslegri stöðu hinsegin fólks til að auka vernd og réttindi þess annars staðar í heiminum.
    Markmið aðgerðarinnar verði að stjórnvöld leggi sérstaka áherslu á réttindi hinsegin fólks í utanríkisstefnu Íslands.
    Tímaáætlun: 2022–2025.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Aðalinntak heimsmarkmiðanna um að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

Greinargerð.

    Forsætisráðherra leggur hér með fram tillögu til þingsályktunar um fyrstu aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum hinsegin fólks.
    Aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks er ætlað að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og lýsa tilteknum verkefnum sem ýmist er ætlað að varpa ljósi á stöðu hinsegin fólks í samfélaginu eða fela í sér beinar aðgerðir. Framsetning þingsályktunartillögunnar byggist á svipuðum grunni og framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum en slíkar áætlanir hafa verið lagðar fram á Alþingi með afmarkaðan gildistíma, oftast til fjögurra ára í senn. Aðgerðir í áætluninni tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á sambærilegan hátt og framkvæmdaáætlun um jafnréttismál. Jafnvel þó svo að málefni hinsegin fólks séu ekki nefnd sérstaklega í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þá rúmast aðgerðirnar að öllu leyti innan aðalinntaks þeirra sem er að engir einstaklingar eða hópar séu skildir eftir. Gert er ráð fyrir að gildistími fyrstu aðgerðaáætlunar í málefnum hinsegin fólks taki til tímabilsins 2022–2025.
    Jafnframt er stefnt að því að útbúa mælaborð þar sem staða aðgerða verði birt á myndrænan hátt með fyrirmynd í mælaborði framkvæmdaáætlunar um jafnréttismál og öðrum mælaborðum sem forsætisráðuneytið hefur haft forystu um að kynna á undanförnum árum. Með mælaborðinu verður staða aðgerða aðgengileg og skýr og mælaborðið auðveldar eftirfylgni.
    Í nýjum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, er tekið mið af þeim veruleika að hlutlaus kynskráning er nú heimiluð, sbr. lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Ákvæði laga nr. 150/2020 eiga því einnig við um fólk með hlutlausa skráningu kyns. Fól breytingin í sér réttarbót fyrir þann hluta trans fólks sem skilgreinir sig utan kynjatvíhyggju.
    Með lögum um kynrænt sjálfræði var komið til móts við ný og breytt viðhorf til opinberrar skráningar kyns og stuðlað að réttarbótum trans fólks og intersex einstaklinga. Einstaklingum 15 ára og eldri er nú heimilt að skilgreina kyn sitt á eigin forsendum og ráða skráningu þess. Í lögunum er staðfestur réttur einstaklinga til að breyta kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun og án þess að þurfa að sæta skilyrðum um sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð eða uppfylla kröfur um atferlisþjálfun. Með þessu er sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins virtur þar sem eigin skilningur á kynvitund er lagður til grundvallar ákvarðanatöku varðandi opinbera skráningu.
    Með breytingalögum nr. 154/2020 var réttur barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni til líkamlegrar friðhelgi styrktur og er nú óheimilt að framkvæma ónauðsynlegar breytingar á kyneinkennum barna án upplýsts samþykkis.
    Með lögum um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (kynrænt sjálfræði), sem tóku gildi 8. júní 2021, var bætt við ákvæðum sem mæla fyrir um foreldrastöðu trans fólks og fólks með hlutlausa kynskráningu. Breytingin veitti þeim sem eru skráðir í hjúskap stöðu foreldris þeirra barna sem eru alin í þeim hjúskap.
    Með lögum nr. 153/2020 var jafnframt gerð breyting á öðrum lögum sem leiða af lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Breytingarnar voru nauðsynlegar til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks. Annars vegar var um að ræða breytingar sem voru nauðsynlegar þar sem hlutlaus kynskráning er heimil og í lagaákvæðum sem gera ráð fyrir kyngreiningu er nú gert ráð fyrir einstaklingum með hlutlausa kynskráningu. Hins vegar var nauðsynlegt að gera breytingar á ýmsum lögum til að tryggja foreldrastöðu trans fólks og þar með fólks með hlutlausa kynskráningu.
    Á yfirstandandi löggjafarþingi hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, þar sem mismununarástæðum er fjölgað og bætt inn mismununarþáttunum trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Viðbótin er meðal annars til þess fallin að auka og bæta réttindi og stöðu hinsegin fólks í samfélaginu.
    Við gerð aðgerðaáætlunar í málefnum hinsegin fólks var meðal annars horft til ábendinga ILGA Europe, regnhlífarsamtaka hinsegin hreyfinga í Evrópu. ILGA Europe gerir árlega úttekt á lagalegri stöðu hinsegin fólks í Evrópu og er til að mynda skoðað hvort stjórnvöld hafi tiltækar aðgerðaáætlanir gegn mismunun, hatursorðræðu og ofbeldi gagnvart hinsegin fólki og könnuð staða hinsegin fólks við stofnun hjúskapar og barneignir svo að fátt eitt sé nefnt. Ísland hefur þokast upp á við á lista ILGA Europe og er nú í 14. sæti listans en var í 19. sæti árið 2019. Frá síðustu úttekt ILGA hafa orðið nokkrar réttarbætur sem ættu að þoka Íslandi upp listann við næstu úttekt. Má þar nefna viðurkenningu á foreldrastöðu trans fólks og umboð Jafnréttisstofu til eftirlits með lögum sem varða hinsegin fólk, sbr. 4. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020. Stefnumótun og aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks er meðal þeirra atriða sem ILGA Europe leggur áherslu á og lönd fá stig fyrir á regnbogakortinu.
    Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs frá nóvember 2021 er fjallað um efnahagslegar og félagslegar framfarir, jafnrétti kynjanna og málefni hinsegin fólks. Um málefni hinsegin fólks segir í sáttmálanum: „Ríkisstjórnin mun halda áfram því verki sem hafið var á fyrra kjörtímabili og koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með sérstakri aðgerðaáætlun og réttarbótum.“ Sú aðgerðaáætlun sem nú lítur dagsins ljós er samkvæmt sáttmálanum forgangsatriði hjá ríkisstjórninni og þær aðgerðir og verkefni sem hér er mælt fyrir um munu stuðla að réttarbótum og bættri stöðu hinsegin fólks.
    Hinsegin samfélagið á Íslandi er lítið og að mörgu leyti viðkvæmt. Hinsegin fólk á skilið virðingu og þarf á vernd og auknum réttindum að halda. Barátta hinsegin fólks, rétt eins og önnur jafnréttisbarátta, er í stöðugri þróun og lýkur seint eða aldrei. Samhliða breytingum og þróun á hinsegin samfélaginu sem og samfélaginu öllu þarf að breyta og bæta löggjöf sem snertir málaflokkinn og tryggja aðgengi hinsegin fólks að þjónustu opinberra stofnana. Þrátt fyrir að ýmsar lagabreytingar hafi tekið gildi og hinsegin fólk hlotið ákveðin réttindi er ekki þar með sagt að allri mismunun hafi verið útrýmt.
    Þær aðgerðir sem gerð er tillaga um í aðgerðaáætluninni eru margvíslegar og snerta sumar mörg svið og þar af leiðandi fleira en eitt ráðuneyti, sem og stofnanir, sveitastjórnir, félagasamtök og hagsmunaaðila.
    Aðgerðaáætlun þessi er sú fyrsta sem snýr eingöngu að málefnum hinsegin fólks. Þar sem mikilvægt er að auka þekkingu og búa til farveg fyrir málefnalega umræðu um stöðu og réttindi hinsegin fólks er lögð áhersla á fræðslutengd verkefni og vitundarvakningu um málefni hinsegin fólks. Í gildi er samstarfssamningur milli Samtakanna ´78 og forsætisráðuneytis um fræðslu þeirra fyrrnefndu fyrir fagaðila og starfsmenn í stjórnsýslu. Að því marki sem fræðsluverkefni í aðgerðaáætlun þessari rúmast innan samstarfssamningsins mun forsætisráðuneytið standa straum af kostnaði sem af þeim hlýst.
    Nokkrar aðgerðir gera ráð fyrir starfshópum og áframhaldandi vinnu við útfærslu verkefna, aðrar gera ráð fyrir lagabreytingum og enn aðrar rannsóknum, gerð skýrslna og stefnumótun. Allar miða aðgerðirnar að því að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks til hagsbóta fyrir samfélagið allt.
    Við gerð aðgerðaáætlunarinnar var haft samráð við hagsmunasamtök hinsegin fólks. Einstaka aðgerðir voru unnar í samráði við fagráðuneyti þar sem jafnréttisfulltrúar Stjórnarráðsins komu að gerð og vinnu við útfærslu einstakra tillagna.

Um einstakar aðgerðir tillögunnar.

Um 1. aðgerð.

    Framkvæmdasjóður hinsegin málefna verður starfræktur í forsætisráðuneytinu. Markmið sjóðsins er að efla starf stjórnvalda með úthlutun til verkefna ráðuneyta í Stjórnarráðinu sem tengjast hinsegin málefnum. Settar verða reglur um úthlutun úr sjóðnum og þær kynntar ráðuneytum fyrir 1. september 2022. Fyrirmynd að sjóðnum er sótt til framkvæmdasjóðs jafnréttismála og mun sjóðurinn geta stutt við verkefni og eftirfylgni við verkefni tengd aðgerðaáætlun þessari í hinsegin málefnum þannig að nýta megi niðurstöður, reynslu og þekkingu sem fæst með verkefnunum.

Um 2. aðgerð.

    Stjórnvöld leggja áherslu á að koma Íslandi í eitt af efstu sætum regnbogakorts ILGA Europe og er ljóst að margar af þeim aðgerðum sem aðgerðaáætlun þessi kveður á um, munu bæta stöðu landsins á kortinu. Staða Íslands á regnbogakortinu er því sett fram sem sérstök aðgerð í aðgerðaáætluninni og er aðgerðinni ætlað að tryggja eftirfylgni og skilvirka framkvæmd aðgerða.

Um 3. aðgerð.

    Málefni hinsegin fólks hafa fengið meira vægi á síðustu árum og ný lög hafa verið sett til verndar réttindum og stöðu þessa hóps. Nýlega var starf og hlutverk norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál útvíkkað þannig að það nær nú einnig til málefna hinsegin fólks. Ný löggjöf á Íslandi um kynrænt sjálfræði, ný jafnréttislög (lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna) og breytingar á barnalögum hafa beint kastljósi á málefni hópsins.
    Ísland er í 14. sæti á regnbogakorti ILGA Europe og því er mikilvægt að kortleggja stöðu hinsegin fólks á Íslandi til að sjá hvar skórinn kreppir svo að hægt sé að bregðast við. Því er lagt til að ráðist verði í vinnu við kortlagningu á stöðu hinsegin fólks og taki hún jafnt til barna og ungmenna, fullorðinna og eldra fólks innan hinsegin samfélagsins. Horft verði til löggjafar og stefnumótunar stjórnvalda, stöðu hinsegin barna og ungmenna í skólum, stöðu á vinnumarkaði, aðgengi að félagslegri þjónustu og þjónustu heilbrigðiskerfisins og almennt á félagslega stöðu og réttindi.

Um 4. aðgerð.

    Ríkið sem atvinnurekandi þarf að tryggja að stjórnendur og þeir sem fara með mannaforráð hjá ríkinu hafi þekkingu á málefnum hinsegin fólks á vinnumarkaði. Innan hinsegin samfélagsins eru viðkvæmir hópar sem hafa átt erfitt uppdráttar á vinnumarkaði. Til að vinna gegn fordómum og vanþekkingu er brýnt að stjórnendur hjá ríkinu fái fræðslu um hinsegin málefni svo að stjórnendahópurinn sé betur í stakk búinn að mæta hinsegin starfsfólki án fordóma og mismununar.

Um 5. aðgerð.

    Bakslag hefur orðið um allan heim þegar kemur að réttindum hinsegin fólks og þar er trans og intersex fólk í sérstaklega viðkvæmum hópi. Meira hefur borið á hatursorðræðu og hatursglæpum á liðnum árum. Þá verður hinsegin fólk einnig fyrir margvíslegum fordómum og beinni og óbeinni mismunun í samfélaginu. Mikilvægt er að þekking sé meðal lögregluþjóna um málefni hópsins svo að tekið sé án fordóma og mismununar á verkefnum sem koma inn á borð lögreglunnar. Því er lagt til að útbúið verði fræðsluefni fyrir lögreglu sem tekur sérstaklega mið af þörfum hinsegin fólks.

Um 6. aðgerð.

    Á Íslandi taka nánast öll börn og ungmenni þátt í skipulögðu íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi af einhverju tagi. Fjölbreytileiki í hópi barna er mikill og það þarf að koma til móts við öll börn á þeirra forsendum. Mikilvægt er að huga að stöðu hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi og tryggja að umhverfið sé hvetjandi og jákvætt fyrir þennan hóp. Tryggja þarf fræðslu fyrir foreldra, þjálfara og aðra sem að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi koma. Mikilvægt er að íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélög og aðrir sem bera ábyrgð á æskulýðs- og tómstundastarfi með börnum setji sér stefnu og hljóti fræðslu um hinsegin málefni og þátttöku hinsegin barna í starfinu. Með því má bæta þekkingu og raunverulegt aðgengi hinsegin barna að íþrótta-, æskulýðs og tómstundastarfi.

Um 7. aðgerð.

    Skoða þarf sérstaklega líðan og stöðu hinsegin barna og ungmenna í skólum landsins en rannsóknir bæði hérlendis og erlendis sýna að hún er ekki nægilega góð. Samtökin ´78 hafa tekið þátt í alþjóðlegri könnun fyrir Íslands hönd þar sem fram kemur að hinsegin nemendum á aldrinum 13–18 ára líður verr en öðrum ungmennum í grunn- og framhaldsskólum. Reglulega eru gerðar kannanir á stöðu og líðan barna og ungmenna í skólum og er lagt til að aukin áhersla verði lögð á að kanna líðan og stöðu hinsegin barna sérstaklega í þeim könnunum. Hinsegin fræðsla fyrir börn og ungmenni og starfsfólk skóla er mikilvæg og fræðslan þarf einnig að vera samþætt við aðra þætti menntunar, svo sem kynfræðslu. Mikilvægt er að rýna í rannsóknir til að leita skýringa á vanlíðan og sjálfskaðandi hegðun meðal hinsegin barna og ungmenna og skoða hvort áreitni og ofbeldi gagnvart hinsegin börnum og ungmennum er að aukast.

Um 8. aðgerð.

    Í aðgerðaáætluninni er gert ráð fyrir því að heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir verði skoðað, en lítið er vitað um heimilisofbeldi í hinsegin fjölskyldum. Yfirleitt er gert ráð fyrir því að heimilisofbeldi eigi sér stað í gagnkynja samböndum og eru karlmenn til að mynda sjaldan sýnilegir sem brotaþolar. Þá má einnig nefna svokallað minnihlutaálag, en það að tilheyra minnihlutahópi er talið geta valdið auknu álagi á náin sambönd sem og á líf þeirra sem tilheyra minnihlutahópum almennt og þar með möguleika þeirra til að sækja sér aðstoð og nærþjónustu almennt. Einnig er talað um ofbeldi og valdbeitingu sem snýr að hinseginleika hinsegin fólks, en það á við þegar sjálfsmynd viðkomandi er notuð til þess t.d. að lítillækka. Hér þarf að skoða sérstaklega stöðu hinsegin barna og ungmenna sem verða fyrir ofbeldi á heimili sínu vegna hinseginleika. Það þarf að skilgreina heimilisofbeldi með þeim hætti að tekið sé sérstaklega tillit til barna og ungmenna að þessu leyti. Brýnt er að afla upplýsinga um stöðu þessara mála og kortleggja aðgerðaáætlun og næstu skref. Þá er mikilvægt að þeir aðilar og hópar sem vinna með brotaþolum og gerendum heimilisofbeldis fái upplýsingar og fræðslu um birtingarmyndir ofbeldis í nánum samböndum hinsegin fólks.

Um 9. aðgerð.

    Samkvæmt regnbogakorti ILGA Europe vantar nokkuð upp á að lagaákvæði á Íslandi um hatursorðræðu og hatursglæpi veiti fullnægjandi vernd fyrir hinsegin fólk. Á 151. löggjafarþingi lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, þar sem meðal annars var lögð til sú útvíkkun á lagaákvæði um hatursorðræðu að vernd ákvæðisins næði einnig til kyneinkenna (710. mál) en í núgildandi lagaákvæði eru talin upp kynhneigð og kynvitund. Lagt er til að frumvarpið verði lagt fram á ný. Með breytingunni væri fólki með ódæmigerð kyneinkenni tryggð sama vernd og öðrum viðkvæmum hópum. Með breytingu á ákvæði almennra hegningarlaga um refsihæð yrði jafnframt tryggt að hatursglæpir leiddu til refsiþyngingar. Með þessum breytingum væri komið til móts við þær athugasemdir sem bæði ILGA Europe og hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi hafa lagt fram.

Um 10. aðgerð.

    Í umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu er hafin vinna við endurskoðun á reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti og er þar meðal annars lögð til breyting sem tekur til aðgengis að kynhlutlausum salernum. Lagt er til að reglugerðir nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum og reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni verði jafnframt endurskoðaðar með það að markmiði að tryggt verði að tekið sé tillit til trans fólks í þeim ákvæðum reglugerðanna sem snúa að aðgengi að salernum og annarri aðstöðu á sund- og baðstöðum. Breytingar á reglugerðum um hollustuhætti sem taka mið af aðstæðum trans fólks eru til þess fallnar að styrkja rétt þess hóps til aðgengis að salernum og annarri aðstöðu.

Um 11. aðgerð.

    Í framhaldi af breytingum á ofangreindum reglugerðum mun starfshópur undir stjórn forsætisráðuneytis taka til skoðunar aðgengismál hinsegin fólks bæði í opinberum rýmum og á vinnustöðum en aðgengismál hafa lengi verið baráttumál í samfélagi hinsegin fólks. Sérstaklega verður horft til aðgengis trans fólks þar sem nokkuð vantar upp á að gert sé ráð fyrir öruggum rýmum fyrir þann hóp. Mikilvægt er að trans fólk, sem er jaðarsettur og viðkvæmur hópur, geti gengið að því vísu að vera öruggt á sínum vinnustað og í almannarýmum. Aðgengi að ókyngreindum salernum og kynhlutlausum klefum og sturtuaðstöðu, t.d. í sundlaugum og öðrum íþróttamannvirkjum, eru atriði sem trans fólk hefur lagt áherslu á. Mismunandi reglur gilda um aðgengismál eftir því hvort um vinnustaði eða opinber rými er að ræða. Hér lagt til að stofnaður verði starfshópur undir forystu forsætisráðuneytis sem hafi það hlutverk að gera úttekt á málaflokknum í heild sinni með það að markmiði að samræma reglur um aðgengi trans fólks á vinnustöðum og í almenningsrýmum. Starfshópurinn mun leita eftir samráði við hagsmunasamtök hinsegin fólks.

Um 12. aðgerð.

    Með lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 var gerð sú breyting að einstaklingar frá 15 ára aldri geta breytt kynskráningu sinni og er hlutlaus kynskráning jafnframt heimil. Samkvæmt lögunum fengu aðilar sem skrásetja kyn 18 mánaða frest frá gildistöku laganna til að aðlaga skráningarform, eyðublöð og skilríki að ákvæði laganna um hlutlausa kynskráningu. Frá ársbyrjun 2021 hefur verið lagaskylda að gera ráð fyrir þremur möguleikum við skráningu kyns á eyðublöðum, skilríkjum og gagnasöfnum. Hér er lagt til að um leið og leitað verði eftir staðfestingu þess að skilyrði laganna um kynhlutlausa skráningu séu uppfyllt verði komið á samræmdu verklagi innan sveitarfélaga þegar kemur að skráningu kyngreindra upplýsinga hvort sem um rafræna skráningu eða skrásetningu á pappírsformi er að ræða.

Um 13. aðgerð.

    Hinsegin fólk þarf að eiga greiða leið að þjónustu í sínu nærumhverfi. Þjónusta og viðmót á að vera laust við fordóma og mismunun en bein og óbein mismunun og útilokun getur stafað af þekkingarskorti þeirra sem þjónustuna veita. Til að bæta stöðuna og draga úr fordómum og þekkingarskorti er mikilvægt að efla þekkingu kjörinna fulltrúa og starfsfólks sem sinnir þjónustu við almenning. Því er lagt til að boðið verði upp á fræðslu fyrir starfsfólk og kjörna fulltrúa sveitarfélaga á landinu öllu.

Um 14. aðgerð.

    Samkvæmt erlendum rannsóknum eru margvíslegar hindranir þegar kemur að aðgengi hinsegin fólks að vinnumarkaði. Hinsegin fólk kemst síður í atvinnuviðtöl og ýmiss konar mismunun mætir því á vinnustöðum. Af þeim sökum hefur hinsegin fólk, sem er opið um kynhneigð sína og/eða kynvitund í einkalífinu, tilhneigingu til að koma ekki út úr skápnum á vinnustað sínum. Hér á landi hefur það færst í vöxt að í starfsauglýsingum sé vísað til allra kynja en ekki einungis karla og kvenna sem gefur til kynna ákveðna hugarfarsbreytingu meðal stjórnenda. Mörg fyrirtæki og stofnanir styðja einnig opinberlega við baráttu hinsegin fólks og leggja áherslu á fjölbreytileika í starfsmanna- og jafnréttisstefnum sínum. Hér er lagt til að gerð verði könnun á viðhorfi og þekkingu stjórnenda í atvinnulífinu á stöðu og aðgengi hinsegin fólks að vinnumarkaði. Markmið aðgerðarinnar er að vekja athygli á stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði og mikilvægi fjölbreytileika á vinnustöðum.

Um 15. aðgerð.

    Lagt er til í aðgerðaáætluninni að skoðað verði sérstaklega viðhorf í samfélaginu til hinsegin fólks innan sjávarútvegs og landbúnaðar og aðgengi og sýnileiki hinsegin fólks í þessum hefðbundnu atvinnugreinum.

Um 16. aðgerð.

    Aðgangur að góðri heilbrigðisþjónustu hefur ávallt verið forgangsmál í íslensku samfélagi. Mikilvægt er að tryggja góða heilbrigðisþjónustu fyrir hinsegin fólk og að viðmót og kerfi sem mætir hinsegin fólki innan heilbrigðiskerfisins séu fordómalaus og viðeigandi. Þarfir hinsegin fólks eru mismunandi og geta tengst stöðu þess sem hinsegin. Þannig getur trans einstaklingur þurft á annarri þjónustu að halda en intersex eða samkynhneigður einstaklingur. Um leið sækir hinsegin fólk sér heilbrigðisþjónustu sem snertir ekki endilega stöðu þess sem hinsegin. Mikilvægt er að tryggja að þjónusta við trans fólk byggist ávallt á nýjustu rannsóknum og vinnureglum á alþjóðavettvangi. Teymi Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum sem skipað er samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði skal setja sér verklagsreglur sem uppfylla þessi skilyrði með það að markmiði að trans fólk fái viðeigandi og fordómalausa þjónustu.

Um 17. aðgerð.

    Mælt er fyrir um að sett verði reglugerð á grundvelli heimildar í og 3. mgr. 13 gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Skýra þarf betur hlutverk teymis Barna- og unglingageðdeildar Landspítala um kynvitund og þá þjónustu sem því ber að veita. Meðal þess sem brýnt er að skýra er staða barna yngri en 16 ára þar sem óskir koma fram um óafturkræfar breytingar á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. laganna. Enn fremur þarf að skilgreina betur ráðgjöf um varðveislu kynfruma og frjósemisaðgerðir.

Um 18. aðgerð.

    Breytingar á reglugerð 441/2006 um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV við sömu reglugerð voru kynntar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is í september 2021 (mál nr. 174/2021). Alls bárust 17 umsagnir um málið í samráðsgátt þar sem komu fram mismunandi sjónarmið og tillögur til breytinga og verður málið unnið áfram innan heilbrigðisráðuneytis í samráði við fagaðila. Með breytingunni á reglugerðinni er markmiðið að nálgast frávísanir blóðgjafar á þann hátt að horfið verði frá því að bann við blóðgjöf tengist kynhneigð einstaklinga. Hér er lagt til að reglugerðin verði birt með breytingum sem tryggja að mismunun tengd blóðgjöf á grundvelli kynhneigðar verði afnumin.

Um. 19. aðgerð.

    Ísland hefur lengi talist standa framarlega þegar kemur að réttindum og félagslegri stöðu hinsegin fólks. Árin 2018 og 2019 átti Ísland sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og lagði þar upp með að gera réttindum hinsegin fólks hátt undir höfði í málflutningi sínum. Enn fremur má nefna að í desember 2021 tilkynntu stjórnvöld um tvöföldun framlaga Íslands til Hnattræna jafnréttissjóðsins (Global Equality Fund) en sjóðurinn beinir stuðningi sínum sérstaklega að mannréttindum hinsegin fólks. Einnig styður Ísland við átaksverkefni Sameinuðu þjóðanna (UN Free and Equal) sem beinist að réttindum hinsegin fólks hvarvetna í heiminum. Bæði verkefnin eru mikilvæg til að auka vernd og réttindi hinsegin fólks. Íslensk stjórnvöld leggja nú þegar áherslu á jafnrétti kynjanna í utanríkisstefnu sinni og vekja athygli á málaflokknum þegar tækifæri gefst. Með sama hætti munu íslensk stjórnvöld nýta hvert tækifæri til að minna á réttindi hinsegin fólks á alþjóða vettvangi. Þá munu íslensk stjórnvöld beina sjónum að málefnum hinsegin fólks þegar staða mannréttinda hjá aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna er tekin fyrir.