Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 611  —  206. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings Íslands, Konungsríkisins Noregs og Furstadæmisins Liechtenstein og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnar G. Kristjánsson, Ögmund Hrafn Magnússon, Nínu Björk Jónsdóttur, Þórð Jónsson, Ingólf Friðriksson og Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti. Í kjölfar gestakomunnar sendi ráðuneytið nefndinni minnisblað með viðbótarupplýsingum vegna málsins dagsett 8. febrúar 2022.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli Íslands, Konungsríkisins Noregs og Furstadæmisins Liechtenstein og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands sem undirritaður var 8. júlí 2021.
    Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni var útganga Bretlands úr ESB og þar með EES-samstarfinu vendipunktur í samskiptum Íslands og Bretlands. Viðskipta- og efnahagssamstarf ríkjanna hefur á undanförnum aldarfjórðungi nær alfarið byggst á EES-samningnum sem er víðtækasti og ítarlegasti fríverslunarsamningur sem Ísland á aðild að. Hann tryggir bæði tollfrelsi og hindranalaus viðskipti með flestar vörur og þjónustu. Strax og Bretland tilkynnti um úrsögn sína úr ESB og EES var ljóst að tryggja þyrfti nýja umgjörð fyrir framtíðarsamband Íslands og Bretlands. Nokkrir samningar voru gerðir við Bretland til þess að bregðast við útgöngunni auk þess sem Ísland vann að því ásamt hinum EES/EFTA-ríkjunum, Noregi og Liechtenstein, að gera ítarlegan fríverslunarsamning til framtíðar.
    Fram kemur í greinargerðinni að fríverslunarsamningurinn við Bretland er yfirgripsmeiri og ítarlegri en aðrir fríverslunarsamningar sem Ísland á aðild að ef frá er talinn EES-samningurinn. Endurspeglar það mikilvægi Bretlands sem nágrannaríkis og eins helsta viðskiptalands Íslands. Þrátt fyrir umfang samningsins er grundvallarmunur á honum og EES-samningnum sem áður gilti um viðskiptasamband ríkjanna. EES-samningurinn hefur algjöra sérstöðu, m.a. að því leyti að með honum var komið á fót sameiginlegu efnahagssvæði sem byggðist á samræmdum stöðlum og reglum fyrir vöruviðskipti, frjálsri för launafólks, frjálsri þjónustustarfsemi og staðfesturétti, ásamt frjálsum fjármagnshreyfingum. Fríverslunarsamningar fjalla almennt ekki um réttindi borgara til að búa og starfa í þeim ríkjum sem að slíkum samningum standa eða tryggja rétt til menntunar í öðrum ríkjum. Fríverslunarsamningurinn við Bretland inniheldur því ekki ákvæði þess efnis.
    Þegar kemur að markaðsaðgangi fyrir vörur er EES-samningurinn og fríverslunarsamningar sambærilegir að því leyti að þeir fela ekki í sér tollabandalag. Bæði í EES-samningnum og fríverslunarsamningnum við Bretland er kveðið á um fullt tollfrelsi fyrir iðnaðarvörur en samið er sérstaklega um tollaívilnanir fyrir sjávar- og landbúnaðarafurðir. Samningurinn veitir sams konar tollfríðindi fyrir sjávar- og landbúnaðarafurðir og EES-samningurinn og aðrir tengdir samningar gerðu áður. Þá tryggir samningurinn að útflytjendur íslenskra sjávarafurða og landbúnaðarafurða fái a.m.k. sömu ívilnandi meðferð vegna dýraheilbrigðisreglna við innflutning til Bretlands og önnur samkeppnisríki á EES.
    Hvað varðar þjónustuviðskipti og fjárfestingar felst munurinn á EES-samningnum og fríverslunarsamningnum við Bretland einkum í því að með EES-samningnum er komið á sameiginlegum markaði fyrir þjónustuviðskipti og frjálst flæði fjármagns, þ.m.t. fjárfestingar, þar sem mismunun milli innlendra aðila og aðila frá öðrum aðildarríkjum er almennt bönnuð. Í fríverslunarsamningum, þ.m.t. fríverslunarsamningnum við Bretland, er staðfest að núverandi löggjöf á sviði þjónustuviðskipta gagnvart þriðju ríkjum skuli gilda gagnvart samningsríkinu og löggjöfin þar með fest í sessi.
    Hvað varðar eftirlit með heilbrigði matvæla og eftirlit með því að tæknilegum reglum sé framfylgt kveður EES-samningurinn á um að framleiðsluríki sinni eftirliti en að það fari ekki fram á landamærum. Vara getur því að meginstefnu til farið eftirlitslaust milli ríkja innri markaðarins. Vegna eðlis innri markaðar EES er ekki unnt að festa slíkar skuldbindingar í samningi við Bretland án þess að öll aðildarríki EES-samningsins samþykki að gera sams konar samning.
    Nefndin leggur áherslu á mikilvægi sambands Íslands og Bretlands sem hefur verið ríkt og náið um langt árabil, m.a. á sviði stjórnmála, menningar, menntunar og viðskipta. Hvað hið síðastnefnda varðar hefur Bretland, eins og fyrr er nefnt, verið meðal mikilvægustu markaða fyrir íslenskar útflutningsvörur auk þess sem Bretar eru næst fjölmennasti hópur ferðamanna hér á landi og þar með stórkaupendur á sviði þjónustuviðskipta. Fram kemur í greinargerð að vöruútflutningur til Bretlands nam tæpum 69 milljörðum kr. á árinu 2020, þar af nam útflutningsverðmæti sjávarafurða 48 milljörðum kr. eða sem svarar til 26% af heildarútflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða það ár. Á sama tíma nam innflutningur frá Bretlandi um 50 milljörðum kr. Útflutningur á þjónustu til Bretlands nam um 48,5 milljörðum kr. á árinu 2020 og tók verulega dýfu vegna heimsfaraldurs COVID-19. Bretland er þó næststærsta einstaka innflutningsland íslenskrar þjónustu og eiga þar sjóflutningar, flugþjónusta og ferðaþjónusta stærstan hlut. Nefndin undirstrikar hina ríku viðskiptahagsmuni sem í húfi eru og telur að með fríverslunarsamningnum, sem tillagan fjallar um, sé viðskiptasambandi Íslands og Bretlands búin sterk umgjörð.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Diljá Mist Einarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 2. mars 2022.

Diljá Mist Einarsdóttir,
frsm.
Birgir Þórarinsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Jakob Frímann Magnússon. Jóhann Friðrik Friðriksson Logi Einarsson.
Orri Páll Jóhannsson. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.