Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 759  —  531. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (fjármögnun skilasjóðs, iðgjöld og fyrirkomulag Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020.

1. gr.

    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Lögfesting.

    Ákvæði framseldrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/63 frá 21. október 2014 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB að því er varðar framlög greidd fyrir fram til fjármögnunarfyrirkomulags vegna skilameðferðar, með breytingu samkvæmt framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1434 um leiðréttingu á framseldri reglugerð (ESB) 2015/63 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB að því er varðar framlög greidd fyrir fram til fjármögnunarfyrirkomulags vegna skilameðferðar og aðlögunum samkvæmt bókun 1 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest, og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 237/2019 frá 27. september 2019, hafa lagagildi hér á landi.
    Reglugerð (ESB) 2015/63 er birt á bls. 49–69 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 8 frá 10. febrúar 2022. Reglugerð (ESB) 2016/1434 er birt á bls. 13–15 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 8 frá 10. febrúar 2022.

2. gr.

    Í stað orðanna „innstæðueigenda og fjárfesta“ í 4. mgr. 8. gr., 5. tölul. 3. mgr. 17. gr., 1. tölul. 2. mgr. 32. gr., 5. mgr. 57. gr., 80. gr. og a-lið 1. tölul. 1. mgr. 85. gr. a laganna kemur: vegna fjármálafyrirtækja.

3. gr.

    Orðin „umfram þá“ í 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna falla brott.

4. gr.

    Í stað orðanna „innstæðueigenda og fjárfesta“ í 10. tölul. 1. mgr. 56. gr. og 3. tölul. 4. mgr. 70. gr. laganna kemur: vegna fjármálafyrirtækja.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „innstæðueigenda og fjárfesta greiða skilavaldinu“ í 1. mgr. kemur: vegna fjármálafyrirtækja greiða skilavaldinu úr innstæðudeild sjóðsins.
     b.      Í stað orðanna „innstæðueigenda og fjárfesta“ í 2., 3., 4. og 5. mgr. kemur: vegna fjármálafyrirtækja.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „14. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 1. mgr.
     d.      Í stað orðanna „Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta“ í 6. mgr. kemur: innstæðudeildar Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja.
     e.      Í stað orðanna „innstæðueigenda og fjárfesta ekki krafinn um eiginfjárframlag“ í 7. mgr. kemur: vegna fjármálafyrirtækja ekki krafinn um eiginfjárframlag úr innstæðudeild sjóðsins.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 86. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Starfrækja skal sérstakt fjármögnunarfyrirkomulag sem nefnist skilasjóður.
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sjóðurinn skal varðveittur sem afmörkuð deild í Tryggingarsjóði vegna fjármálafyrirtækja.
     c.      Við 2. mgr. bætist: allra lánastofnana sem hafa starfsleyfi hér á landi.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Stjórn Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja fer með umsýslu skilasjóðs.

7. gr.

    Á eftir 87. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 87. gr. a – 87. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (87. gr. a.)

Framlag í skilasjóð.

    Fyrirtæki ber að greiða framlag í skilasjóð ef stærð sjóðsins fer undir viðmiðunarmark skv. 2. mgr. 86. gr.
    Skilavaldið ákvarðar framlag í skilasjóð.
    Framlag fyrirtækis skal ákvarðað árlega og skal það vera hlutfall af fjárhæð heildarskuldbindinga fyrirtækisins að frádregnum tryggðum innstæðum og eiginfjárgrunni skv. 1. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Framlagið ber að ákvarða með tilliti til áhættusniðs fyrir sérhvert fyrirtæki í samræmi við reglugerðir (ESB) 2015/63 og (ESB) 2016/1434 sem hafa lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. a.
    Þrátt fyrir 3. mgr. skal fyrirtæki greiða fast framlag í skilasjóð skv. 10. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 ef heildareignir þess eru minni en jafnvirði eins milljarðs evra í íslenskum krónum og heildarskuldbindingar að frádregnum eiginfjárgrunni og tryggðum innstæðum eru jafnar eða lægri en að jafnvirði 300 milljónum evra í íslenskum krónum.
    Ákvæði þessarar greinar gilda einnig, ef við á, um útibú skv. e-lið 2. gr.

    b. (87. gr. b.)

Sérstakt eftiráframlag.

    Ef fjármunir skilasjóðs eru ekki nægjanlegir til að mæta tapi, kostnaði eða öðrum útgjöldum skilasjóðs skv. 1. mgr. 87. gr. er skilavaldinu heimilt að krefja fyrirtæki og útibú skv. e- lið 1. mgr. 2. gr. um sérstakt eftiráframlag.
    Sérstaks eftiráframlags skal aflað í samræmi við 87. gr. a og getur það numið allt að þreföldu árlegu framlagi eins og það er ákvarðað samkvæmt þeirri grein.
    Skilavaldið getur ákveðið að sérstöku eftiráframlagi verði frestað að hluta eða í heild í allt að sex mánuði ef framlagið getur haft verulega neikvæð áhrif á lausafjárstöðu eða gjaldfærni fyrirtækis. Heimilt er að framlengja tímabil frestunar að beiðni fyrirtækis. Fyrirtæki skal greiða frestað framlag þegar greiðsla þess stofnar ekki lengur lausafjárstöðu eða gjaldfærni fyrirtækisins í hættu.
    Ráðherra setur reglugerð sem tilgreinir aðstæður og skilyrði til frestunar sérstaks eftiráframlags skv. 3. mgr.

    c. (87. gr. c.)

Lántaka og önnur fjármögnun skilasjóðs.

    Skilavaldinu er heimilt að ákveða að skilasjóður taki lán eða afli fjár með öðrum hætti ef þeir fjármunir sem eru til ráðstöfunar í sjóðnum og fjármunir sem hægt er að afla í hann með sérstöku eftiráframlagi skv. 87. gr. b duga ekki til að mæta tapi, kostnaði eða öðrum útgjöldum sjóðsins skv. 1. mgr. 87. gr.
    Skilavaldinu er heimilt, að undangengnu samþykki ráðherra, að ákveða að skilasjóður taki lán hjá hliðstæðu fjármögnunarfyrirkomulagi, einu eða fleiri, í öðru aðildarríki ef fjármunir skv. 1. mgr. duga ekki til að mæta tapi, kostnaði eða öðrum útgjöldum sjóðsins. Við sömu aðstæður er skilasjóði heimilt, að undangengnu samþykki ráðherra, að lána hliðstæðu fjármögnunarfyrirkomulagi í öðru aðildarríki.

8. gr.

    Við 1. mgr. 94. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: 14. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63, með breytingu skv. 2. gr. a, um upplýsingaskyldu vegna greiðslu framlaga í skilasjóð.

9. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „5.–9. gr., 19.–30. gr. og 103.–106. gr.“ í 1. tölul. 102. gr. laganna kemur: 5.–9. gr. og 19.–30. gr.

10. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Stjórn Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja skal eigi síðar en fyrir árslok 2022 færa 26,3 milljarða kr. úr innstæðudeild sjóðsins í skilasjóð.

II. KAFLI

Breyting á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999.

11. gr.

    1. gr. laganna orðast svo: Markmið með lögum þessum er að veita lágmarksvernd vegna greiðsluerfiðleika fjármálafyrirtækja í samræmi við ákvæði laga þessara og laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja til innstæðueigenda og viðskiptavina fjármálafyrirtækja.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna
     a.      1. málsl. orðast svo: Með framkvæmd laga þessara fer sérstök stofnun er nefnist Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækja, hér eftir nefndur sjóðurinn.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Framkvæmdaraðili.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Viðskiptabankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og, ef við á, rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðilar sérhæfðra sjóða, skulu eiga aðild að innstæðu- og verðbréfadeild sjóðsins, enda hafi þeir staðfestu hér á landi.
     b.      Tilvísunin „,sbr. ákvæði 6. og 7. gr.“ í 3. málsl. fellur brott.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Um fyrirkomulag skilasjóðs fer eftir lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja nema annað leiði af lögum þessum.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Fyrirkomulag sjóðsins.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „sex“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fjórum.
     b.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu frá Samtökum fjármálafyrirtækja, einn samkvæmt tilnefningu frá Seðlabanka Íslands og tveir af ráðherra án tilnefningar.
     c.      3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     d.      Á eftir 4. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Einfaldur meiri hluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Falli atkvæði stjórnarmanna jafnt ræður atkvæði formanns úrslitum.
     e.      Í stað orðanna „viðskiptabanka og sparisjóði“ í 4. mgr. kemur: skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
     f.      Í stað. 5. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Stjórn sjóðsins skal árlega, eða oftar ef ástæða þykir til, gera ráðherra skriflega grein fyrir afstöðu sinni til þess hvort innheimta þurfi iðgjöld í innstæðudeild sjóðsins.
                      Stjórn setur sjóðnum samþykktir sem háðar skulu samþykki ráðherra að fenginni umsögn Seðlabankans. Nánar skal kveðið á um verkefni stjórnar sjóðsins í samþykktum hans.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      3. og 4. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      2., 3. og 4. málsl. 2. mgr. falla brott.
     c.      3. mgr. fellur brott

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. a laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Sjóðurinn starfar í þremur sjálfstæðum deildum: innstæðudeild, verðbréfadeild og skilasjóði.
     b.      2. og 3. málsl. falla brott.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Deildir sjóðsins.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. b laganna:
     a.      Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Innstæðudeild skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tiltækum fjármunum sem nema að lágmarki 0,8% af tryggðum innstæðum allra lánastofnana sem hafa starfsleyfi hér á landi.
     b.      Í stað orðsins „A-deildar“ í 1. mgr. kemur: innstæðudeildar.
     c.      Í stað orðsins „A-deild“ í fyrri málsl. 2. mgr. kemur: innstæðudeild.
     d.      Í stað hlutfallstalnanna „0,02%“, „0,16%“, „0,005% og „0,04%“ í 3. mgr. kemur, í hverju tilviki: 0%.
     e.      Í stað orðanna „Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta“ í 6. og 11. mgr. kemur: Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja.
     f.      Lokamálsgrein fellur brott.
     g.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Innstæðudeild.

18. gr.

    6. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Skilasjóður.

    Skilasjóður skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tiltækum fjármunum sem nema að lágmarki 1% af tryggðum innstæðum allra lánastofnana sem hafa starfsleyfi hér á landi.
    Um greiðslur í skilasjóð fer samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

19. gr.

    8. gr. laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „A- eða B-deild“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: innstæðudeild.
     b.      Við 3. málsl. 1. mgr. bætist: eða við skilameðferð lánastofnunar að uppfylltum skilyrðum 82. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020.
     c.      Í stað orðanna „A- eða B-deild“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: innstæðudeild.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Skilavald samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja tekur ákvörðun um greiðslur úr skilasjóði. Um framkvæmd greiðslna úr skilasjóði fer samkvæmt fyrirmælum skilavaldsins.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „eignir“ í 3. mgr. kemur: innstæðu- eða verðbréfadeildar.
     b.      Í stað orðsins „sjóðnum“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: innstæðu- eða verðbréfadeild sjóðsins.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Skilavaldið ákvarðar fjárhæð greiðslna úr skilasjóði á grundvelli laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „deilda“ í 1. málsl. kemur: innstæðudeildar og verðbréfadeildar.
     b.      3. málsl. fellur brott.

23. gr.

    12. gr. laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „viðskiptabanka, sparisjóða, fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða“ í 1. mgr. kemur: fjármálafyrirtækja.
     b.      Í stað orðsins „sjóðnum“ í 1., 2. og 3. mgr. kemur: innstæðu- og verðbréfadeild sjóðsins.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Útibú erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „á afgreiðslustöðum sínum hafa til reiðu skriflegar upplýsingar um aðild sína að sjóðnum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: birta á vefsíðum sínum upplýsingar um aðild sína að innstæðu- og verðbréfadeild sjóðsins.
     b.      Í stað orðsins „sjóðnum“ í 2. mgr. kemur: innstæðu- og verðbréfadeild sjóðsins.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Birting upplýsinga.

26. gr.

    Í stað orðsins „sjóðnum“ í 18. gr. laganna kemur: innstæðu- og verðbréfadeild sjóðsins.

27. gr.

    VI. kafli laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.

28. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I.–V. í lögunum falla brott.

29. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2.–13. mgr. 5. gr. b laganna skulu innlánsstofnanir ekki greiða iðgjald í innstæðudeild Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja frá gildistöku laga þessara og þar til annað verður ákveðið með lögum. Innlánsstofnanir skulu þó eftir sem áður standa sjóðnum skil á upplýsingum um innstæður í því formi sem sjóðurinn ákveður.

30. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal a-liður 7. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2023.

31. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald, nr. 99/1999: Í stað orðanna „Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og öryggissjóðir“ í 13. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: Innstæðudeild Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja.
     2.      Lög um fjarsölu á fjármálaþjónustu, nr. 33/2005: Í stað orðanna „Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta“ í 2. tölul. 8. gr. laganna kemur: Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækja.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í þeim tilgangi að innleiða í íslenskan rétt þau ákvæði í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja (BRRD) sem ekki hafa þegar verið innleidd. Um er að ræða þriðja og síðasta áfanga innleiðingar á tilskipuninni en meginefni hennar hefur áður verið innleitt með annars vegar lögum nr. 54/2018 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og hins vegar heildarlögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020.
    Umfjöllunarefni frumvarpsins er annars vegar fjármögnun skilasjóðs og hins vegar breytingar á iðgjöldum og starfsemi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF). Þá felur frumvarpið að auki í sér eina breytingartillögu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sem er ekki í beinum tengslum við meginefni frumvarpsins. Fjallað er um þá breytingu í 3. og 5. kafla greinargerðarinnar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    BRRD er nú þegar fullinnleidd hér á landi að undanskildum fjórum greinum, þ.e. 103.–106. gr. tilskipunarinnar, sem fjalla um fjármögnun og lánamál skilasjóðs. Nauðsynlegt er að ljúka innleiðingu á BRRD þannig að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Samhliða þeirri innleiðingu er æskilegt að huga að innbyrðis tengslum milli innstæðutrygginga, þ.m.t. starfsemi TIF, og skilameðferðar, þ.m.t. skilasjóði, og er það gert með endurskoðun á greiðslum iðgjalda í TIF og nokkrum öðrum atriðum sem varða fyrirkomulag þess sjóðs, þ.m.t. heiti sjóðsins og skipan stjórnar.

2.1. Um skilasjóð.
    Með lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja var nýju fjármögnunarfyrirkomulagi sem nefnist skilasjóður komið á fót sem sérstakri deild í TIF. Hlutverk skilasjóðs er að tryggja skammtímafjármögnun vegna aðgerða sem hægt er að grípa til við skilameðferð fjármálafyrirtækis. Þannig er til dæmis heimilt að nýta fjármuni sjóðsins til eiginfjárframlaga, lánveitinga og ábyrgða. Með lögunum var einnig komið á fót skilavaldi, sem er hluti af Seðlabanka Íslands, og fer það með framkvæmd laganna. Skilavaldið tekur ákvarðanir um greiðslur úr skilasjóði en TIF hefur annast ávöxtun og eignastýringu sjóðsins.
    Í BRRD er gert ráð fyrir að skilasjóður verði fjármagnaður með framlagi frá fjármálafyrirtækjum sem falla undir gildissvið tilskipunarinnar. Að svo stöddu falla einungis lánastofnanir undir gildissvið laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Eignir skilasjóðs skulu að lágmarki nema 1% af tryggðum innstæðum fyrir árslok 2027, eða sem nemur um 11 mö.kr. (m.v. tryggðar innstæður 31. desember 2021). Við undirbúning frumvarpsins sem varð að lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja var ákveðið að skilasjóður yrði til að byrja með fjármagnaður með færslu fjármuna úr TIF í stað þess að innheimta framlög frá lánastofnunum. Á þeim tíma höfðu reglugerð (ESB) 2015/63 sem fjallar um greiðslur í skilasjóð og reglugerð (ESB) 2016/1434 sem leiðréttir fyrrnefndu reglugerðina ekki verið teknar upp í EES-samninginn en fyrir lá að fjármagna þyrfti sjóðinn. Meðal annars af þeim sökum var samþykkt ákvæði til bráðabirgða við lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja um að færa skyldi samtals 2,4 ma.kr. í skilasjóð úr innstæðudeild TIF á árunum 2020–2021.
    Við innleiðingu BRRD í Noregi var skilasjóður fjármagnaður með tilfærslu fjármuna úr innstæðutryggingarkerfi í skilasjóð. Þar í landi voru fjármunir sem námu 55% af innstæðutryggingarsjóði færðir yfir í skilasjóð og 45% fjármunanna var haldið áfram í innstæðutryggingarsjóði. Með þeirri færslu fjármuna urðu heildareignir norska innstæðutryggingasjóðsins 1,22% af tryggðum innstæðum og heildareignir skilasjóðs 1,53% af tryggðum innstæðum. Til viðbótar við þessa tilfærslu var svo hafist handa við að innheimta framlög frá fjármálafyrirtækjum með starfsemi í Noregi.
    BRRD var tekin upp í EES-samninginn 9. febrúar 2018 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018. Eftirlitsstofnun EFTA hefur hafið formlega málsmeðferð vegna tafa Íslands við að innleiða tilskipunina að fullu. Stjórn TIF hefur lokið við tilfærslu fjármuna til samræmis við efni ákvæðis til bráðabirgða en enn vantar u.þ.b. 80% af lágmarksstærð skilasjóðs samkvæmt lögunum, eða um 8,4 ma.kr. Þá hafa reglugerðir (ESB) nr. 2015/63 og 2016/1434 nú verið teknar upp í EES-samninginn og því tímabært að ljúka fjármögnun skilasjóðs.

2.2. Breytt hlutverk og æskileg eignastaða TIF.
    Í kjölfar innleiðingar á BRRD eiga fjármálafyrirtæki að vera betur í stakk búin til að standa af sér rekstrarerfiðleika og minni líkur eru á að ríkissjóður þurfi að leggja til fé þannig að áframhaldandi mikilvæg starfsemi þeirra verði tryggð. Gildistaka laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja breytti mörgu er varðar vernd innstæðna og draga lögin úr líkum á að reyna muni á greiðslur úr TIF með tilheyrandi áhrifum á gjaldfærni sjóðsins. Ber þar helst að nefna þann forgang og þá hagfelldu meðferð sem innstæður njóta við skilameðferð, nýja kröfu um fjármagnsskipan (MREL), breytt hámark og lágmark tryggingaverndar, og þann hátt sem reynt getur á greiðsluþátttöku innstæðutryggingasjóða við skilameðferð.
    Með lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja voru gerðar nokkrar breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999. Á meðal þeirra var nýtt hámark og lágmark á tryggingavernd innstæðudeildar TIF, þ.e. fjárhæð að jafnvirði 100.000 evra í íslenskum krónum. Fjárhæðin miðast ekki við samanlagða eign hvers einstaklings heldur er miðað við eign einstaklings hjá hverri lánastofnun. Áður hafði lágmark tryggingaverndar verið rúmlega 20 þúsund evrur en ekkert lögbundið hámark. Við þessa breytingu lækkuðu tryggðar innstæður á Íslandi um u.þ.b. 40%. Sú ráðstöfun breytti gjaldstofni iðgjalda í TIF og hafði þau áhrif að aðildarfélög sjóðsins greiða nú umtalsvert lægra iðgjald en áður var. Sú lækkun kom til viðbótar við þá lækkun á iðgjaldi sem hlaust af lægra gjaldhlutfalli iðgjaldsins með lögum nr. 59/2019 um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Sú breyting sem gerð var á tryggingarvernd innstæðna er í samræmi við þá tryggingarvernd sem gildir í ESB á grundvelli tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/49/ESB um innstæðutryggingarkerfi. Sú tilskipun hefur hins vegar hvorki verið tekin upp í EES-samninginn né innleidd hér á landi. Efni þessa frumvarps er að engu leyti innleiðing á efni þeirrar tilskipunar.
    Samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er mat á almannahagsmunum ráðandi um það hvort fjármálafyrirtæki á fallanda fæti verði tekið til skilameðferðar eða hefðbundinnar slitameðferðar. Því má leiða af regluverkinu að kerfislega mikilvægir bankar verði líklega teknir til skilameðferðar en minni fjármálafyrirtæki fari að líkindum í hefðbundna slitameðferð nema almannahagsmunir krefjist annars. Af þessum sökum má ráða að eftir gildistöku laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja muni ekki reyna á innstæðutryggingavernd TIF á sama hátt og áður ef kerfislega mikilvægur banki er á fallandi fæti.
    Greiðsluskylda TIF við skilameðferð lánastofnunar getur einungis stofnast á tvennan hátt. Annars vegar getur TIF þurft að greiða úr innstæðudeild sjóðsins til skilameðferðar ef skilaúrræðinu eftirgjöf er beitt og tap lánastofnunar í skilameðferð verður það umfangsmikið að nauðsynlegt þykir að færa niður tryggðar innstæður til að mæta því og endurreisa eiginfjárgrunn fyrirtækisins. Hins vegar getur greiðsluskylda TIF stofnast ef öðrum skilaúrræðum en eftirgjöf er beitt og niðurstaða virðismats á eignum og skuldbindingum leiðir til þess að innstæðueigendur tryggðra innstæðna hefðu tapað fjármunum við slit á lánastofnuninni. TIF getur þá þurft að greiða upphæð sem samsvarar þeirri fjárhæð sem nemur tapi tryggðra innstæðna.
    Þegar litið er til forgangsraðar krafna við skila- og slitameðferð sem lögfest var með lögum nr. 38/2021 um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sjá mynd 1, má sjá hinar fjölmörgu skuldbindingar sem eru réttlægri en tryggðar innstæður og niðurfæra skal við eftirgjöf á undan tryggðum innstæðum. Á meðal skuldbindinga sem sjá má á mynd 1 er nýr flokkur undirskipaðra skuldagerninga sem, ásamt öðrum skuldbindingum, getur nýst til að uppfylla lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (MREL). MREL felur í sér nýja kröfu um fjármagnsskipan sem kom inn með lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Flokkur almennra ótryggðra krafna á myndinni samsvarar flokki almennra krafna skv. 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Að þessu virtu má ljóst vera að mikið þarf að koma til svo sú sviðsmynd raungerist að TIF beri að greiða til skilameðferðar fjármálafyrirtækis. Til grundvallar því mati er einnig litið til þess að ýmsar nýjar reglur á bankamarkaði eiga að renna styrkari stoðum undir starfsemi fjármálafyrirtækja og með því draga úr líkum á að reyni á innstæðutryggingar. Má í þessu samhengi nefna auknar kröfur um magn og gæði eigin fjár, auknar kröfur um laust fé og stöðuga fjármögnun, auknar kröfur til áhættustýringar og stjórnarhátta og möguleika Fjármálaeftirlitsins til þess að takmarka ákveðna starfsemi, svo sem innlánasöfnun erlendis.

Mynd 1. Forgangsröð krafna við skilameðferð.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ef greiðsluskylda stofnast hins vegar á TIF við skilameðferð lánastofnunar er kveðið á um hámark á þeim greiðslum. Sú fjárhæð nemur 175% af 0,8% viðmiðunarmarki tryggðra innstæðna. Tryggðar innstæður námu 1.079 milljörðum króna 31. desember 2021 og því væri þak á greiðsluþátttöku TIF við skilameðferð stærsta bankans u.þ.b. 15,1 ma.kr.
    Staða TIF er mjög góð og hvergi innan EES er hlutfall eigna innstæðutryggingasjóðs jafn hátt og hér, sjá mynd 2. Í töflunni hægra megin á mynd 2 sjást eingöngu þau lönd sem eru með innstæðutryggingarsjóði umfram 0,8% lágmarkið. Tólf lönd innan EES eru með sjóði sem hafa ekki náð þeirri stærð. Ísland er eitt í flokki landa þar sem eignir innstæðutryggingasjóðs eru meira en 3% af tryggðum innstæðum. Samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/49/ESB um innstæðutryggingakerfi (DGS III) skulu innstæðutryggingasjóðir búa yfir fjármunum sem nema að lágmarki 0,8% af tryggðum innstæðum og hafa flestir evrópskir sjóðir tekið upp það lágmark. Tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn en þetta viðmiðunarmark hefur þó verið lögfest í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
Mynd 2. Eignir Tryggingasjóða innan EES sem hlutfall af tryggðum innstæðum (súlur sýna fjölda).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Hlutfall eigna innstæðutryggingasjóða innan Evrópska efnahagssvæðisins er þó almennt nokkuð lægra en annars staðar sem líklega skýrist að hluta af þeim varúðarráðstöfunum sem felast í Evrópureglum á þessu sviði þ.m.t. BRRD. Flest ríki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa einnig hafið uppbyggingu skilasjóðs sem skal vera að lágmarki 1% af tryggðum innstæðum. Í þessu nýja regluumhverfi telur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að skilasjóður þurfi að vera betur fjármagnaður en innstæðutryggingasjóður og lágmarkið fyrir sjóðina saman er 1,8%. Útreikningar framkvæmdastjórnar ESB benda til þess að sjóðirnir þurfi að vera samanlagt 1,5% til 3% af tryggðum innstæðum til að mæta áföllum, að því gefnu að skilameðferð verði beitt, sjá áhrifamat framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á BRRD, einkum töflu 18 í kafla 5.1. í viðauka XIII (bls. 148). Þessir útreikningar miða við að eftirgjöf (e. Bail-in) sé beitt og að bankar hafi lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn upp á 10,5%. Hærra eigið fé getur dregið úr tapi sem annars myndi falla á innstæðutryggingasjóð. Ef skilameðferð væri ekki beitt benda útreikningar framkvæmdastjórnarinnar til þess að sjóðirnir þyrftu að vera samtals 8,5% af tryggðum innstæðum í alvarlegustu sviðsmyndinni. Samanlögð stærð TIF og skilasjóðs er rúmlega 4,8% hér á landi.

2.3. Mögulegar leiðir til fjármögnunar skilasjóðs.
    Frumvarpið varðar að meginstefnu til fjármögnun skilasjóðs og greiðslu iðgjalda í TIF. Þrír valkostir koma helst til greina til að fjármagna skilasjóð. Í fyrsta lagi er hægt að halda áfram að færa fjármuni úr innstæðudeild TIF í skilasjóð þannig að lágmarki skilasjóðs verði náð eigi síðar en fyrir árslok 2027. Í öðru lagi er hægt að hefja innheimtu á framlögum frá lánastofnunum til samræmis við ákvæði BRRD og reglugerða (ESB) 2015/63 og (ESB) 2016/1434 sem fjalla um greiðslur og útreikning á framlögum í skilasjóð. Ef hafist verður handa við að innheimta framlög í skilasjóð munu sömu lánastofnanir greiða framlag í skilasjóð samkvæmt BRRD-regluverkinu og greiða í innstæðudeild TIF en aðferðafræði við útreikning framlaga í skilasjóð verður önnur en vegna greiðslna í TIF. Að teknu tilliti til gildandi laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta yrði hlutfallslegt framlag lánastofnana í skilasjóð ekki að öllu leyti sambærilegt því iðgjaldi sem þær greiða nú í TIF. Árlegt framlag lánastofnana í skilasjóð yrði lægra en iðgjald í TIF, eða u.þ.b. 40% af því sem greitt er í TIF á hverju ári. Smærri lánastofnanir myndu greiða fast gjald í skilasjóð samkvæmt reglugerð (ESB) 2015/63 sem hefði þau áhrif að framlag sparisjóða til skilasjóðs yrði umtalsvert lægra en það iðgjald sem þeir hafa greitt í TIF. Í þriðja lagi kemur svo til greina blönduð leið sem felur í sér færslu á fjármunum úr TIF í skilasjóð samhliða gjaldtöku á lánastofnanir.
    Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu, að fjármagna skilasjóð með tilfærslu fjármuna úr innstæðudeild TIF, grundvallast á eftirfarandi þremur þáttum:
     1.      Breyttu lagaumhverfi á fjármálamarkaði í kjölfar fjármálaáfallsins 2008.
     2.      Núverandi eignastöðu TIF í hlutfalli af tryggðum innstæðum og breyttu hlutverki TIF.
     3.      Hagkvæmni, þ.m.t. að teknu tilliti til smæðar íslenskrar stjórnsýslu og íslenskra fjármálafyrirtækja í samanburði við Evrópu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, og lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999. Þær breytingar sem varða lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja eru að meginstefnu til innleiðing á ákvæðum BRRD eða afleiddar breytingar sem leiða af öðrum breytingum samkvæmt frumvarpinu. Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu um að fjármagna skilasjóð með tilfærslu fjármuna úr innstæðudeild í skilasjóð byggist hins vegar ekki á efni tilskipunarinnar. Að því leyti er gengið lengra en lágmarksreglur tilskipunarinnar kveða á um. Fjármögnunarleiðin byggir að hluta á norskri fyrirmynd sem fjallað er um í kafla 2.1 í greinargerðinni en tekur þó einnig mið af íslenskum aðstæðum. Breytingar frumvarpsins á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta eru ekki innleiðing á Evrópureglum. Breytingarnar þykja æskilegar ýmist í ljósi þess að skilasjóði er ætlað að starfa til frambúðar sem sérstök deild í TIF eða vegna þess að þær eru taldar einfalda eða skýra lögin ásamt því að fella brott úrelt ákvæði.
    Í frumvarpinu er lagt til að fjármunir verði færðir úr innstæðudeild TIF í deild skilasjóðs þannig að stærð hvorrar deildar/sjóðs um sig eftir tilfærsluna verði hlutfallslega sú sama og milli lögbundinna lágmarka þeirra samkvæmt Evrópureglum, þ.e. 0,8% og 1%. Með þessu er átt við að skilasjóður verði stærri en innstæðudeildin í TIF sem nemur 25%. TIF er sjálfseignarstofnun og þau fyrirtæki sem greitt hafa iðgjald í sjóðinn eiga ekki tilkall til eigna hans né hafa þau um það að segja hvernig þeim er ráðstafað. Miðað við núverandi stöðu á fjármálamarkaði kæmu sömu fyrirtæki og greitt hafa iðgjald í innstæðudeild TIF til með að greiða í skilasjóð þó að hlutfallslegt framlag þeirra í sjóðina tvo yrði ekki að öllu leyti sambærilegt.
    Í frumvarpinu er lagt til að 26,3 ma.kr. verði færðir úr innstæðudeild TIF í skilasjóð en sú fjárhæð miðast við stöðu tryggðra innstæðna og eignir innstæðudeildar og skilasjóðs 31. desember 2021. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt verða heildareignir innstæðudeildar 23 ma.kr. eða 2,1% af tryggðum innstæðum og heildareignir skilasjóðs 28,8 ma.kr. sem samsvarar 2,7% af tryggðum innstæðum. Í töflu 1 gefur að líta tölur um skiptingu eigna samkvæmt þessari tillögu og hlutfallslega stærð.
Tafla 1. Skipting eigna milli skilasjóðs og innstæðudeildar skv. tillögu frumvarpsins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt og eftir tilfærslu fjármuna verður innstæðudeild meðal stöndugustu innstæðutryggingasjóða á Evrópska efnahagssvæðinu og eignir deildarinnar rúmlega 49% af tryggðum innstæðum lánastofnana sem ekki teljast kerfislega mikilvægar. Þá verða bæði deild skilasjóðs og innstæðudeildin ríflega tvöfalt stærri en áskilnaður er gerður um samkvæmt Evrópureglum. Í frumvarpinu er því einnig lagt til að greiðslur iðgjalda í innstæðudeild verði stöðvaðar að svo stöddu. Lagt er til að ráðherra verði árlega upplýstur með skriflegum hætti um afstöðu stjórnar sjóðsins til greiðslna í innstæðudeild hans og gert er ráð fyrir því að innheimta á iðgjöldum verði hafin að nýju ef slíkt þykir nauðsynlegt. Þannig eru ákvæði laganna um framkvæmd innheimtu ekki felld brott úr lögum en gjaldhlutfallið fært niður í 0. Með því móti þarf einungis einfalda lagabreytingu til að innheimta iðgjaldanna geti hafist að nýju.
    Þrátt fyrir að lagt sé til í frumvarpinu að skilasjóður verði fjármagnaður að fullu með tilfærslu fjármuna úr innstæðudeild TIF er nauðsynlegt að innleiða ákvæði BRRD-regluverksins um greiðslur á framlögum í skilasjóð. Er það vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum. Þá er jafnframt æskilegt að hægt verði að innheimta framlög í skilasjóð með skjótum hætti ef nauðsyn krefur. Í frumvarpinu er því kveðið á um greiðslur framlaga í skilasjóð en skýrt tekið fram að framlög verði ekki innheimt nema eignir skilasjóðs fari undir lögbundið lágmark sjóðsins samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sbr. einnig lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þá er lagt til að reglugerðum (ESB) 2015/63 og 2016/1434 verði veitt lagagildi með frumvarpinu en ekki mun reyna á ákvæði reglugerðanna nema hafist verði handa við að safna framlögum í skilasjóð.
    Í frumvarpinu er einnig kveðið á um breytingar sem ætlað er að færa umgjörð skilasjóðs í varanlegt horf. Með hliðsjón af breyttu lagaumhverfi, breyttu hlutverki TIF og samrekstri TIF og skilasjóðs er lagt til að sjálfseignarstofnunin sem falin er varsla sjóðanna fái nýtt heiti sem verði Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækja. Sjálfseignarstofnunin verður rekin í þremur aðskildum deildum: innstæðudeild, skilasjóði og verðbréfadeild en breytt heiti sjálfseignarstofnunarinnar þykir endurspegla betur nýtt fyrirkomulag stofnunarinnar. Með hliðsjón af breyttu hlutverki er jafnframt lagt til að stjórnarmönnum verði fækkað úr sex í fjóra. Lagt er til að Samtök fjármálafyrirtækja tilnefni einn, Seðlabanki Íslands einn en ráðherra skipi tvo án tilnefningar og verði annar þeirra formaður. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun stjórn Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja annast umsýslu skilasjóðs og því í verkahring stjórnar að fara með ávöxtun fjármuna hans. Um starfsemi skilasjóðs og þær ákvarðanir sem skilavaldi Seðlabanka Íslands er falið að taka er nánar fjallað um í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Af lögunum leiðir að það kemur í hlut skilavaldsins en ekki stjórnar að taka ákvörðun um söfnun framlaga í sjóðinn ef nauðsyn krefur, útgreiðslu úr sjóðnum og lánamál hans.
    Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að nokkur ákvæði sem talin eru úrelt verði felld úr gildi. Þau helstu eru ákvæði sem heimila ráðherra að afturkalla starfsleyfi aðildarfyrirtækis verðbréfadeildar sem ekki uppfyllir skyldur sínar samkvæmt lögunum, ákvæði um heimild sjóðsins til að veita aðildarfyrirtækjum víkjandi lán og loks ákvæði um heimildir viðskiptabanka og sparisjóða til að stofna sérstaka öryggissjóði. Nánari skýringar vegna þessara breytinga er að finna í skýringum við einstakar greinar II. kafla frumvarpsins.
    Loks er í frumvarpinu að finna eina leiðréttingu á innleiðingu í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Í breytingunni felst að óvissu er eytt um þá lausafjárfyrirgreiðslu sem gera má ráð fyrir að hægt verði að fá hjá Seðlabankanum samkvæmt skilaáætlunum fjármálafyrirtækja. Nánari skýringar er að finna í 5. kafla greinargerðarinnar og í skýringu við 3. gr. frumvarpsins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á þeim ákvæðum í tilskipun 2014/59/ESB sem ekki hafa verið innleidd í íslenskan rétt. Þá felur meginefni frumvarpsins í sér tilfærslu fjármuna úr TIF í skilasjóð og stöðvun á innheimtu iðgjalda í innstæðudeildina.
    Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta er sjálfseignarstofnun sem komið var á fót með lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999. Þau fyrirtæki sem greitt hafa iðgjald í sjóðinn eiga ekki tilkall til eigna hans né hafa þau um það að segja hvernig fjármunum sjóðsins er ráðstafað. Þá er tilgangur með báðum sjóðunum meðal annars að vernda innstæðueigendur. Af þessum sökum er ekki talið að tilfærsla fjármuna milli innstæðudeildar TIF og skilasjóðs brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.
    Í dómi Hæstaréttar frá 17. febrúar 2015 í máli nr. 91/2015 var úrskurður héraðsdóms staðfestur en í málinu var meðal annars tekist á um það hvort greiðslur iðgjalda í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta brytu gegn ákvæði 77. gr. stjórnarskrárinnar um að skattamálum skuli skipa með lögum. Þeirri málsástæðu var hafnað þar sem gjaldinu væri einungis ætlað að veita innstæðueigendum lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis og gæti því vart talist skattur í skilningi 40. gr. stjórnarskrárinnar. Gjaldið hafi ekki runnið í ríkissjóð og ekki verið nýtt til almenns reksturs þjóðfélagsins. Framlagi í skilasjóð er ætlað að standa undir lögbundnum verkefnum vegna skilameðferðar fjármálafyrirtækis og getur á sama hátt og iðgjald í TIF vart talist skattur í skilningi stjórnarskrárinnar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst innstæðueigendur, lánastofnanir, Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og Seðlabanka Íslands.
    Áform um lagasetningu voru send öðrum ráðuneytum til umsagnar í desember 2021 en engar athugasemdir bárust. Áformin voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 5.–20. janúar 2022, sbr. mál nr. S-5/2022. Ein umsögn barst um áformin frá Samtökum fjármálafyrirtækja þar sem lýst er yfir stuðningi við að þau nái fram að ganga. Drög að lagafrumvarpi voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 2. mars 2022 og var frestur til athugasemda veittur til 13. mars sama ár, sbr. mál nr. S-51/2022. Tvær umsagnir bárust, frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og Hagsmunasamtökum heimilanna. Helstu athugasemdir við einstaka þætti frumvarpsins voru eftirfarandi:
     1.      Í umsögn TIF var lagt til að tilgreint yrði í lagaákvæðinu sem fjallar um tilfærslu fjármuna úr innstæðudeild í skilasjóð að heimilt verði að færslan fari fram með fjármálagerningum, hvernig staðið skuli að verðmati á þeim og við hvaða tímapunkt slíkt verðmat skuli miðast. Skýringar við 10. gr. frumvarpsins voru þegar nokkuð ítarlegar en til að bregðast við athugasemdunum hefur verið bætt við skýringartextann.
     2.      Vikið var að því í umsögn TIF að hætta kunni að skapast á því að litið verði svo á að sjálfseignarstofnunin TIF hafi fremur einkenni ríkisstofnunar en sjálfseignarstofnunar vegna tillagna frumvarpsins um breytta samsetningu stjórnar. Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna var tekið undir athugasemdir TIF. Í þessu samhengi er vísað til málsástæðu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gegn íslenska ríkisinu í máli nr. E-16/11 (Icesave-málinu) fyrir EFTA-dómstólnum. Málsástæðan laut að því að TIF væri afsprengi íslenska ríkisins og ríkið bæri þar af leiðandi ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Í málinu taldi EFTA-dómstóllinn málsástæðuna, eins og málatilbúnaði ESA var háttað, ekki hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins. Ráðuneytið er meðvitað um Icesave-málið og þann ágreining sem var til staðar í því máli. Meðal annars í því ljósi er ekki lögð til breyting á rekstrarformi sjóðsins. Hann verður sem fyrr sjálfseignarstofnun þar sem eignir stofnunarinnar standa einar til fullnustu á kröfum. Í almennri greinargerð frumvarpsins er umfjöllun um breytt hlutverk TIF og einnig er í stuttu máli vísað til þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á bæði reglu- og eftirlitsumhverfi á fjármálamarkaði. Í ljósi breytts hlutverks sjóðsins og breyttrar regluumgjarðar er talið tilefni til að fækka stjórnarmönnum og bæta við stjórnarmanni sem tilnefndur er af Seðlabanka Íslands.
     3.      Í umsögn TIF var bent á að æskilegt væri að kveða á um skipan nýrrar stjórnar, í samræmi við breytta stjórnarsamsetningu, í ákvæði til bráðabirgða, til að tryggja starfhæfa stjórn í framhaldi af lagabreytingum. Ráðuneytið telur það koma til greina en þó ekki nauðsynlegt. Ef frumvarpið verður samþykkt sem lög á Alþingi þarf að birta lögin í A-deild Stjórnartíðinda til að þau öðlist gildi. Á þeim tíma er hægt að ganga frá skipan nýrrar stjórnar.
     4.      Í umsögn TIF var vakin athygli á því að engin úrræði eða viðurlög væri að finna vegna vanrækslu aðildarfyrirtækja á upplýsingagjöf til sjóðsins. Að mati ráðuneytisins þykir ekki ákjósanlegt að sjóðurinn fái heimild til dagsekta eða annarra þvingunarúrræða enda samræmist það illa starfsemi sjálfseignarstofnana. Ef til þess kemur að aðildarfyrirtæki sjóðsins afhendi honum ekki umbeðnar upplýsingar mun skapast augljóst tilefni til að skoða það sérstaklega og bregðast við eftir þörfum.
     5.      Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna var lagt til að kröfur sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta kann að eignast við greiðslu úr sjóðnum, ásamt öllum kröfum neytenda á hendur föllnu fjármálafyrirtæki, njóti lögveðsréttar í eignum viðkomandi fyrirtækis. Sama athugasemd barst frá samtökunum við áform um lagasetningu og frumvarp um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja (forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð). Frumvarpið var lagt fram á 151. löggjafarþingi 2020–2021 og samþykkt sem lög nr. 38/2021. Viðbrögðum ráðuneytisins við þessari athugasemd samtakanna eru gerð skil í 5. kafla greinargerðar frumvarpsins sem varð að lögum nr. 38/2021 og er vísað til þess sem þar kemur fram um afstöðu ráðuneytisins til tillögunnar.
    Um það leyti sem frumvarpsdrögin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda barst ráðuneytinu ábending frá Seðlabankanum um ónákvæma innleiðingu sem æskilegt væri að yrði lagfærð með frumvarpinu. Um er að ræða ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. Samkvæmt bankanum hefur ákvæðið valdið óvissu þar sem misskilnings hefur gætt um mörk vegna lausafjárviðbragða og neyðarráðstafana, meðal annars í vinnu við gerð endurbótaáætlana samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og skilaáætlana samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Rétt þykir að bregðast við ábendingunni og því er lögð til breyting á umræddu ákvæði í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja í 3. gr. frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarp þetta er þriðji og síðasti áfangi innleiðingar á tilskipun 2014/59/ESB. Verði það að lögum mun skilasjóður verða fullfjármagnaður og með því lagður grunnur að því að skilvirk skilameðferð geti farið fram samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

6.1. Áhrif á lánastofnanir.
    Fjármögnun skilasjóðs með flutningi eigna úr innstæðudeild TIF án frekari gjaldtöku í innstæðudeild eða skilasjóð er hagkvæmur kostur fyrir bæði lánastofnanir og innstæðueigendur. Miðað við núverandi stöðu á fjármálamarkaði kæmu sömu fyrirtæki og greitt hafa iðgjald í innstæðudeild TIF til með að greiða í skilasjóð samkvæmt BRRD og reglugerð (ESB) 2015/63, ef hafist yrði handa við að söfnun framlaga. Flutningur fjármuna úr innstæðutryggingarsjóði í skilasjóð samhliða stöðvun á innheimtu iðgjalda er til hagsbóta fyrir fyrirtækin sem hafa mörg lýst yfir stuðningi við flutning eigna milli sjóðanna eða lýst sig andsnúin greiðslum í TIF og skilasjóð samtímis.

6.2. Áhrif á innstæðueigendur og TIF.
    Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu ætti að draga úr kostnaði við fjármálaþjónustu að því marki sem gjöldum í TIF hefur verið velt yfir á viðskiptavini.
    Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt verða bæði innstæðutryggingarsjóður og skilasjóður um tvöfalt stærri en lögbundin lágmörk samkvæmt Evrópureglum og fjármögnun þessa kerfis verður með því besta sem gerist í Evrópu sem hlutfall af tryggðum innstæðum. Þar sem lagt er til að skilasjóður verði áfram fjármagnaður með flutningi eigna úr innstæðudeild kemur ekki til þess að óbreyttu að safna þurfi framlögum í skilasjóð auk þess sem lagt er til að gjaldtaka í innstæðudeildina verði felld niður.
    Á síðustu árum hefur hlutverk TIF breyst nokkuð og ekki er talið að flutningur eigna úr þeim sjóði yfir í skilasjóð komi niður á innstæðueigendum. Vel fjármagnaður skilasjóður er jafnframt hagsmunamál fyrir innstæðueigendur og almenning. Sjóðurinn getur t.a.m. tryggt skammtímafjármögnun vegna aðgerða sem hægt er að grípa til við skilameðferð, ef ákveðnar aðstæður myndast á fjármálamarkaði. Tryggðar innstæður njóta fullrar verndar við skilameðferð lánastofnunar og því njóta innstæðueigendur allra lánastofnana sömu verndar óháð því hvort fyrirtæki yrði tekið til skilameðferðar eða hefðbundinnar slitameðferðar.
    Kostnaður TIF af samþykkt frumvarpsins er talinn óverulegur og mögulega felur það í sér eitthvað hagræði fyrir sjóðinn til lengri tíma, t.d. vegna fækkunar stjórnarmanna. Einhver tímabundin aukin verkefni kunna að koma í hlut framkvæmdastjóra og stjórnarmanna í tengslum við yfirfærslu fjármuna úr innstæðudeild í skilasjóð og uppfærslu á samþykktum og annarri skjalagerð sem tengist nýju fyrirkomulagi sjóðsins. Breytt skipan stjórnar endurspeglar breytt hlutverk sjóðsins og það framtíðarskipulag skilasjóðs sem lagt er til í frumvarpinu. Þar sem núverandi nafn sjóðsins er orðið nokkuð rótgróið þarf að fylgja nafnabreytingunni vel úr hlaði af hálfu hans til þess að upplýsa innstæðueigendur um að nafnabreytingin feli ekki í sér breytingu á tryggingavernd þeirra með nokkrum hætti.

6.3. Áhrif á ríkissjóð.
    Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð af þeirri leið sem lögð er til í frumvarpinu.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að ákvæði reglugerðar (ESB) 2015/63 með leiðréttingu samkvæmt reglugerð (ESB) 2016/1434, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 237/2019 frá 27. september 2019, skuli hafa lagagildi hér á landi. Greinin byggir einnig á efni 4. og 7.–8. mgr. 103. gr. tilskipunar 2014/59/ESB. Meginhluti ákvæða þessara reglugerða fjallar um aðferðarfræði, þ.m.t. greiðslur og verklag, við söfnun framlaga í skilasjóð. Þessi ákvæði koma ekki til framkvæmda nema hafist verði handa við að safna framlögum í skilasjóð samkvæmt tillögu að 1. mgr. 87. gr. a laganna, sbr. a-lið þessarar greinar frumvarpsins. Á meðan stærð skilasjóðs er umfram 1% af tryggðum innstæðum mun því ekki reyna á þau ákvæði reglugerðanna sem fjalla um greiðslur í skilasjóð og tengd atriði.
    Reglugerðir (ESB) eru birtar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005.
    Í framangreindum reglugerðum, sérstaklega reglugerð (ESB) 2015/63, er nokkuð um vísanir til hugtaka og einstakra greina í tilskipun 2014/59/ESB og annarra Evrópugerða sem teknar hafa verið upp í íslenskan rétt. Með vísunum til hugtaka samkvæmt tilskipunum 2014/59/ESB og 2014/49/ESB í reglugerð (ESB) 2015/63 er átt við sömu hugtök í skilningi laga þessara og laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Auk þess þykir ástæða til að skýra nánar eftirfarandi vísanir í reglugerðunum:
     a.      Með vísun í viðmiðunarmark sem um getur í 1. mgr. 102. gr. tilskipunar 2014/59/ESB í 3. tölul. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við viðmiðunarmark skv. 2. mgr. 86. gr. laganna.
     b.      Með vísun í fjármögnunarfyrirkomulag sem um getur í 1. mgr. 100. gr. tilskipunar 2014/59/ESB í 4. tölul. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við skilasjóð í skilningi laga þessara.
     c.      Með vísun í fjárhæð sem um getur í 103. gr. tilskipunar 2014/59/ESB í 5. tölul. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við framlag skv. tillögu að 87. gr. a laganna.
     d.      Með vísun í innstæðutryggingakerfi eins og það er skilgreint í 9. tölul. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við innstæðutryggingakerfi í skilningi laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
     e.      Með vísun í heildarskuldbindingar eins og þær eru skilgreindar í 11. tölul. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við heildarskuldbindingar í skilningi laga um ársreikninga.
     f.      Með vísun í heildareignir eins og þær eru skilgreindar í 12. tölul. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við heildareignir í skilningi laga um ársreikninga.
     g.      Með vísun í lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar eins og hún er skilgreind í 1. mgr. 45. gr. tilskipunar 2014/59/ESB í 15. tölul. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar eins og hún er skilgreind í 1. mgr. 17. gr. laga þessara.
     h.      Með vísun í starfsleyfi sem stofnanir í samræmi við 8. gr. tilskipunar 2013/36/ESB í 26. tölul. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við starfsleyfi sem lánastofnun samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Með vísun til sömu tilskipunar í 3. mgr. 19. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við lög um fjármálafyrirtæki.
     i.      Með vísun í verðbréfasjóð samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB í e-lið 5. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við verðbréfasjóð í skilningi laga um verðbréfasjóði. Með vísun í sérhæfðan sjóð í sama staflið 5. gr. reglugerðarinnar er átt við sérhæfðan sjóð í skilningi laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
     j.      Með vísunum í II. kafla II. bálks tilskipunar 2014/59/ESB í iv. tölul. a-liðar og ii. tölul. b-liðar 6. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við ákvæði um skilabærni skv. III. kafla laga þessara.
     k.      Með vísun í undanþágu frá beitingu lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar á einingarstigi samkvæmt 12. mgr. 45. gr. tilskipunar 2014/59/ESB í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við undanþágu dótturfélags á einingargrunni skv. 2. mgr. 20. gr. laga þessara.
     l.      Með vísun í árleg framlög stofnana skv. 3. mgr. 45. gr. tilskipunar 2014/59/ESB í 11. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við lánastofnanir sem falla undir 4. mgr. 17. gr. laga þessara. Með vísun í tilgang sem um getur skv. 101. gr. tilskipunar 2014/59/ESB í sömu grein reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við verkefni skv. 1. mgr. 87. gr. laga þessara.
     m.      Með vísun í áritun sem löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki leggur fram í samræmi við 32. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/34/ESB í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 og 5. mgr. 1. gr. reglugerðar (ESB) 2016/1434 er átt við áritun endurskoðanda skv. 16. gr. laga um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019.
     n.      Með vísun í trúnaðarkvöð og þagnarskyldukröfur skv. 84. gr. tilskipunar 2014/59/ESB í 7. mgr. 14. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63 er átt við þagnarskyldu skv. 8. gr. laga þessara.

Um 2. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á heiti Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem taka mið af öðru fyrirkomulagi sjóðsins en verið hefur. Breytt heiti þykir endurspegla betur starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar sem ætlað er að starfa í þremur deildum, þ.e. innstæðudeild, verðbréfadeild og skilasjóður. Síðastnefndu deildinni, þ.e. skilasjóð, er að vissum skilyrðum uppfylltum ætlað að fjármagna ákveðin verkefni við skilameðferð. Markmið skilameðferðar er víðtækara en að vernda tryggðar innstæður þar sem markmiðið er einnig að vernda eignir viðskiptavina, nauðsynlega starfsemi fyrirtækja og lágmarka hættu á að veita þurfi fjárframlög úr ríkissjóði vegna falls fjármálafyrirtækis.

Um 3. gr.

    Í greininni er lögð til breyting sem stafar af því að ákvæði 4. mgr. 10. gr. tilskipunar 2014/59/ESB er ekki talin innleidd með nægjanlega nákvæmum hætti í 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna. Eins og ákvæðið er í núgildandi lögum má af því ráða að í skilaáætlunum skuli fara fram greining á því hvernig hægt er að óska eftir lausafjárfyrirgreiðslu (ELA) Seðlabankans umfram þá sem fellur undir regluleg viðskipti. Þetta má túlka eftir orðanna hljóðan á þann hátt að um sé að ræða svokallaða sérstaka lausafjárgreiðslu sem einnig er stundum nefnd lánveiting Seðlabankans til þrautavara, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Umrætt ákvæði í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja hefur svo einnig áhrif á gerð endurbótaáætlana sem eru sambærilegar áætlanir og skilaáætlanir en gerðar af lánastofnunum samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Í skilaáætlunum á ekki að gera ráð fyrir sérstakri lausafjárfyrirgreiðslu, sbr. 2. málsl. 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna, og því er ákvæði 1. málsl. 3. tölul. 9. gr. laganna að óbreyttu einkar misvísandi. Með þeirri breytingu sem lögð er til í greininni má vera ljóst að í 1. málsl. 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna er átt við lausafjárfyrirgreiðslu sem fellur undir regluleg viðskipti við Seðlabankann en ekki aðra lausafjárfyrirgreiðslu. Af þessu leiðir að við gerð endurbótaáætlana eða skilaáætlana er ekki hægt að gera ráð fyrir að lánastofnanir fái sérstaka lausafjárfyrirgreiðslu (ELA), þ.e. lánveitingu til þrautavara, þótt lánastofnunum sem glíma við alvarlegan rekstrarvanda sé vissulega heimilt að sækja um slíka lánveitingu í samræmi við 2. mgr. 19. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019.

Um 4. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar til samræmis við breytt heiti á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Sjá meðal annars skýringu við 2. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar til samræmis við breytt heiti á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Sjá meðal annars skýringu við 2. gr. frumvarpsins. Í 16. gr. frumvarpsins er lagt til að sjóðurinn starfi í þremur aðskildum deildum og taka breytingar greinarinnar mið af því að skýrt megi vera að 82. gr. laganna gildi eingöngu um innstæðudeild sjóðsins.

Um 6. gr.

    Í greininni eru lagðar til ýmsar breytingar sem ætlað er að fjalla nánar um fyrirkomulag og starfsemi skilasjóðs.
     Um a- og b-lið. Með frumvarpi sem varð að lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, var lagt til að skilasjóður yrði stofnaður sem sérstök deild í TIF, sbr. gildandi 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lögin. Í ákvæði þessu er lagt til að efni ákvæðis 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða verði fært í 86. gr. laganna og skilasjóður verði starfræktur til frambúðar sem sérstök deild í Tryggingarsjóði vegna fjármálafyrirtækja. Einnig er kveðið á um sambærilegar breytingar í II. kafla frumvarpsins, sbr. einkum 12. og 15. gr.
     Um c-lið. Í ákvæðinu er lögð til breyting sem ætlað er að auka skýrleika um viðmiðunarmark fyrir lágmarksstærð skilasjóðs. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt verður orðalag ákvæða um viðmiðunarmark skilasjóðs, sbr. breytingu ákvæðisins og einnig breytingu á 6. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta í 18. gr. frumvarpsins, hið sama og orðalag um viðmiðunarmark innstæðudeildar í 1. mgr. 5. gr. b laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, sbr. breytingu í a-lið 17. gr. frumvarpsins.
     Um d-lið. Í ákvæðinu er kveðið á um að stjórn Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja, með þeim breytingum sem lagðar eru til á samsetningu stjórnarinnar í 4. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sbr. 14. gr. frumvarpsins, verði falin umsýsla skilasjóðs. Með umsýslu er fyrst og fremst átt við varðveislu og ávöxtun á fjármunum sjóðsins, móttöku á framlögum í skilasjóð ef þeim verður komið á og ef við á framkvæmd á útgreiðslu fjármuna í samræmi við ákvörðun skilavalds. Af breytingunni leiðir að framkvæmdastjóri TIF verður framkvæmdastjóri allra deilda Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja, þ.m.t. skilasjóðs. Starfsemi skilasjóðs fer þó að meginstefnu til eftir lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og í meginatriðum eru ákvarðanir teknar af skilavaldinu sem starfar samkvæmt þeim lögum. Stjórn sjóðsins tekur þannig ekki ákvörðun um ráðstöfun fjár úr skilasjóði, ákvörðun um að safna og hefja innheimtu á framlögum í skilasjóð, ef slíkt reynist nauðsynlegt, og ákvörðun um lánamál skilasjóðs. Skilavaldið fer með þessi verkefni, sbr. 1. mgr. 86. gr. laganna og tillögur að 87. gr. a – 87. gr. c laganna í 7. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

Um a-lið (87. gr. a).
    Greinin er að hluta innleiðing á 103. gr. tilskipunar 2014/59/ESB sem fjallar um greiðslu á framlögum í skilasjóð.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing á 1. og 5. mgr. 103. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið fjallar um greiðslu framlaga í skilasjóð en slík greiðsla er háð því að stærð skilasjóðs fari undir 1% af tryggðum innstæðum sem er það viðmiðunarmark sem kveðið er á um í 2. mgr. 86. gr. laganna, sbr. einnig breytingu á 6. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta í 18. gr. frumvarpsins. Hugtakið fyrirtæki er skilgreint í 17. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Að svo stöddu fellur ekkert verðbréfafyrirtæki undir gildissvið laganna og því kæmi greiðsla framlaga að óbreyttu einungis í hlut lánastofnana, eins og þær eru skilgreindar í 20. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Ákvæði þetta tekur ekki gildi fyrr en 1. janúar 2023, sbr. 30. gr. frumvarpsins, en þá mun tilfærsla fjármuna úr innstæðudeild TIF í skilasjóð hafa átt sér stað í samræmi við 10. gr. frumvarpsins.
     Um 2. mgr. Í ákvæðinu er kveðið um að skilavaldið ákvarði framlag hvers fyrirtækis í skilasjóð, ef hafist verður handa við að safna slíkum framlögum. Ákvörðun skilavaldsins grundvallast á þessu ákvæði (tillaga að 87. gr. a laganna) og þeirri aðferðarfræði sem lögð er til grundvallar í reglugerðum (ESB) 2015/63 og (ESB) 2016/1434, sbr. tillögu að 2. gr. a laganna í 1. gr. frumvarpsins.
     Um 3. mgr. Málsgreinin er innleiðing á 2., 7. og 8. mgr. 103. gr. tilskipunarinnar og tilgreinir þá mælikvarða sem árlegt framlag í skilasjóð miðast við. Endanlegt framlag fæst svo þegar búið er að aðlaga grunnframlagið að áhættusniði fyrirtækis í samræmi við reglugerðir (ESB) 2015/63 og (ESB) 2016/1434 sem veitt er lagagildi með tillögu að 2. gr. a laganna í 1. gr. frumvarpsins. Leggja ber sama skilning í hugtakið heildarskuldbindingar og gert er samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla sem lögfest er sem fylgiskjal með lögum um ársreikninga, nr. 3/2006. Hugtakið tryggð innstæða er skilgreint í 34. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna, sbr. 6. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
     Um 4. mgr. Í ákvæðinu er lagt til að tekin verði upp efnisatriði sem fram koma í 10. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63. Er það gert þannig að skýrt megi vera að ákvæði 3. mgr. 87. gr. a laganna gildi ekki um minni fyrirtæki en þeim er ætlað að greiða fast gjald í samræmi við reglugerð (ESB) 2015/63, ef hafist verður handa við að safna framlögum í skilasjóð.
     Um 5. mgr. Af ákvæðinu leiðir að ef útibú er starfrækt hér á landi hjá lánastofnun utan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. e-lið 1. mgr. 2. gr. laganna, skal slíkt útibú greiða framlag í skilasjóð. Útibú hjá lánastofnunum með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eru hluti af skilameðferð viðkomandi lánastofnunar og því ekki gert ráð fyrir framlögum frá þeim í skilasjóð.

Um b-lið (87. gr. b).
    Greinin er innleiðing á 104. gr. tilskipunar 2014/59/ESB sem fjallar um greiðslu sérstakra eftiráframlaga í skilasjóð. Ef skilavaldið krefst sérstakra eftiráframlaga samkvæmt tillögu að þessari grein laganna, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr., skulu framlögin skiptast á milli fyrirtækja, og ef við á útibúa hér á landi hjá lánastofnunum utan Evrópska efnahagssvæðisins, á sama hátt og framlögum var safnað skv. a-lið greinarinnar (tillaga að 87. gr. a) og reglugerðar (ESB) 2015/63, sbr. tillaga að 2. gr. a laganna í 1. gr. frumvarpsins. Ákvörðun um frestun á sérstöku eftiráframlagi og um framlengingu á tímabili frestunar verður einungis tekin að framkominni beiðni fyrirtækis, sbr. tillögu að 3. mgr. ákvæðisins. Í 4. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að ráðherra skuli setja reglugerð um aðstæður og skilyrði til frestunar sérstaks eftiráframlags. Í því skyni mun ráðherra setja reglugerð sem innleiðir framselda reglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) 2016/778, sem jafnframt mun hafa stoð í 2. mgr. 3. gr. laganna.

Um c-lið (87. gr. c).
    Greinin er innleiðing á 105. og 106. gr. tilskipunar 2014/59/ESB og fjallar um lántöku og aðra fjármögnun skilasjóðs. Ákvörðun um lántöku eða lánveitingu samkvæmt þessari grein skal tekin af skilavaldinu fyrir hönd skilasjóðs.
     Um 1. mgr. Málsgreinin er innleiðing á 105. gr. tilskipunarinnar. Skilyrði fyrir lántöku samkvæmt ákvæðinu er að fjármunir í skilasjóði séu ekki nægir til að fjármagna verkefni skv. 1. mgr. 87. gr. laganna. Þá er það skilyrði að sérstök eftiráframlög sem hægt er að krefjast samkvæmt tillögu að 87. gr. b séu ýmist ófullnægjandi eða ekki aðgengileg þegar í stað. Þeir lánveitendur sem koma helst til álita samkvæmt ákvæðinu eru fyrirtæki og fjármálastofnanir eins og þau eru skilgreind í lögunum. Heimild skilavaldsins til lántöku fyrir hönd skilasjóðs eða öflunar fjár í sjóðinn með öðrum hætti nær þó einnig til annarra þriðju aðila, enda fjármögnunarleiðir valfrjálsar samkvæmt ákvæðinu.
     Um 2. mgr. Málsgreinin er innleiðing á 106. gr. tilskipunarinnar og fjallar um heimild skilasjóðs til lánamála. Það er skilavaldsins að ákveða hvort sjóðurinn taki eða veiti lán en slík ákvörðun er háð samþykki ráðherra. Auk þess sem samþykki hlutaðeigandi ráðherra er áskilið er það forsenda lántöku samkvæmt ákvæðinu að lántaka eða öflun fjár með öðrum hætti samkvæmt tillögu að 1. mgr. 87. gr. c laganna sé ekki möguleg eða ekki nægjanleg til að hægt sé að fjármagna verkefni skv. 1. mgr. 87. gr. laganna. Ef gengið er til lánssamnings samkvæmt ákvæðinu skal samningurinn vera á milli skilasjóðs og hliðstæðs fjármögnunarfyrirkomulags og innihalda skilmála um vexti, endurgreiðsluhlutfall og skilyrði fyrir lánveitingu. Lánakjör og skilmálar samkvæmt lánssamningi skulu vera hinir sömu fyrir sérhvert fjármögnunarfyrirkomulag sem er aðili að samningnum nema þau öll samþykki annað.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að Seðlabankanum verði veitt heimild til að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðum 14. gr. reglugerðar (ESB) 2015/63. Heimildin sækir stoð sína í 110.–112. gr. tilskipunar 2014/59/ESB og 18. gr. reglugerðarinnar sem fjalla um stjórnsýsluviðurlög og aðrar stjórnsýsluráðstafanir vegna brota á reglugerðinni. Ekki þykir ástæða til að veita heimild til stjórnvaldssekta vegna annarra brota á tilskipuninni og reglugerðinni þar sem kveðið er á um aðrar stjórnsýsluráðstafanir og viðurlög í reglugerð (ESB) 2015/63 sem lagt er til að verði veitt lagagildi með frumvarpinu, sbr. tillögu að 2. gr. a laganna í 1. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiðingarákvæði laganna verði lagfært til samræmis við efni þessa frumvarps. Ef frumvarp þetta verður samþykkt óbreytt mun tilskipun 2014/59/ESB vera innleidd að fullu hér á landi.

Um 10. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða. Kveðið er á um færslu fjármuna úr innstæðudeild í skilasjóð sem skal eiga sér stað á árinu 2022. Umrædd færsla fjármuna fer fram í bókhaldi sjóðsins en allar deildir hans verða vistaðar á einni og sömu kennitölu sem ekki er gert ráð fyrir að breytist með lagabreytingunni. Um eiginlega tilfærslu eða eftir atvikum sölu eigna úr einni deild til kaupa á eignum í annarri verður því ekki að ræða. Í reynd er um það að ræða að hluti eigna innstæðudeildar verður færður til bókar sem eign skilasjóðs. Ekki þykir ástæða til að tilfærsla fjármuna eigi sér stað í áföngum heldur er lagt upp með að ljúka henni í einu lagi. Tvær af deildum sjóðsins, innstæðudeild og skilasjóður, verða vel fjármagnaðar og langt umfram lágmörk samkvæmt Evrópureglum. Þá hefur færsla fjármuna í einu lagi þau áhrif að tryggt verður að skilameðferð geti farið fram á skilvirkan hátt ef nauðsyn krefur. Jafnframt munu íslensk stjórnvöld hafa uppfyllt skuldbindingu sína um fullfjármagnaðan skilasjóð töluvert fyrir áskilið tímamark, þ.e. árslok 2027.

Um 11. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 1. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, sem fjallar um markmið laganna. Í ljósi þess að ákvæði 1. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta geymir almennar vísireglur sem æskilegt er að séu einfaldar og skýrar fyrir almenning er lagt til að hugtakið fjármálafyrirtæki verði notað í stað upptalningar á ýmsum fyrirtækjum á fjármálamarkaði. Það ræðst svo af efnisréttinum hvaða fyrirtæki eiga í hlut hverju sinni. Þannig getur t.d. lánafyrirtækjum verði gert að greiða í skilasjóð en þau falla ekki undir innstæðudeild sjóðsins. Einnig njóta viðskiptavinir rekstrarfélaga verðbréfasjóða og rekstraraðila sérhæfðra sjóða sem hafa heimild til að sinna vissum verkefnum verndar í gegnum verðbréfadeild sjóðsins. Þá fjalla lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja um viðbrögð og aðgerðir við greiðsluerfiðleikum. Ekki þykir ástæða til að tilgreina sérstaklega í 1. gr. laganna það markmið að lögin skuli koma að fjármögnun skilameðferðar þar sem það getur rúmast innan þess að veita lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum.

Um 12. gr.

    Í greininni er lagðar til breytingar sem taka mið af öðru skipulagi á starfsemi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta en verið hefur. Óbreytt er að sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og sem slíkur bera hvorki aðildarfélög né stjórnendur ábyrgð á skuldbindingum hans. Sjóðurinn er því einkaaðili sem fer með lögbundið hlutverk og þiggur ekki framlög frá ríkinu. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun sjóðurinn gegna víðtækara hlutverki en að fara með tryggingar samkvæmt lögunum. Í greininni er einnig lögð til breytt greinarfyrirsögn sem þykir endurspegla betur efni 2. gr. laganna.

Um 13. gr.

     Um a-lið. Í ákvæðinu eru lagðar til orðalagsbreytingar sem ætlað er að auka skýrleika. Leggja ber sama skilning í hugtökin viðskiptabanki og sparisjóður og lagður er í hugtökin samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, með þeim breytingum sem lagðar eru til á þeim lögum í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og fleiri lögum sem lagt verður fram á 152. löggjafarþingi. Hugtakið verðbréfafyrirtæki er skilgreint í lögum um markaði fyrir fjármálagerninga. Með rekstrarfélögum verðbréfasjóða í skilningi ákvæðisins er átt við félög sem hafa sérstaka heimild til að sinna verkefnum skv. 3. mgr. 5. gr. laga um verðbréfasjóði, nr. 116/2021. Með rekstraraðilum sérhæfðra sjóða í skilningi ákvæðisins er átt við aðila sem hafa sérstaka heimild til að sinna verkefnum skv. 3. mgr. 9. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020. Með tilkomu skilasjóðs sem sérstakrar deildar í Tryggingarsjóði vegna fjármálafyrirtækja þarf að liggja ljóst fyrir með skýrari hætti en áður var hvaða deild sjóðsins átt er við hverju sinni. Í ákvæðinu og einnig í ýmsum öðrum breytingum frumvarpsins er því lögð til breyting sem ætlað er að tryggja að engum vafa sé undirorpið hvaða deild sjóðsins rætt er um.
     Um b-lið. Ekki er talin þörf á tilvísun í 6. og 7. gr. laganna og því er lagt til að hún falli brott. Ákvæðinu er ætlað að hafa rýmri skírskotun með tilkomu skilasjóðs, sem sérstakrar deildar innan Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja, ásamt því sem lagt er til að ákvæði um B-deild innstæðudeildar TIF falli brott, sbr. breytingar í 18. gr. frumvarpsins.
     Um c- og d-lið. Ýmsar breytingar sem lagðar eru til á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta er ætlað að festa fyrirkomulag skilasjóðs, sem sérstakrar deildar í Tryggingarsjóði vegna fjármálafyrirtækja, í sessi til frambúðar. Breytingum í ákvæðunum er ætlað að endurspegla breytt fyrirkomulag á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem verður Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækja ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt.

Um 14. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 4. gr. laganna sem fjallar um stjórn og framkvæmdastjóra.
     Um a-lið. Í almennri greinargerð frumvarpsins er meðal annars fjallað um breytt hlutverk Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem rekja má til gildistöku laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Í ljósi þessa breytta hlutverks TIF, innbyrðis tengsla milli þeirra laga og laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og hagkvæmnissjónarmiða er lagt til að fyrirkomulag stjórnar verði endurskipulagt og henni jafnframt falið að fara með umsýslu skilasjóðs. Í ákvæðinu er lagt til að stjórnarmönnum í Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem mun bera heitið Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækjaverði, verði fækkað úr sex í fjóra.
     Um b-lið. Það fyrirkomulag sem nú er við lýði, að fjármálafyrirtæki myndi meiri hluta í stjórn líkt og raunin er með stjórn TIF, þykir ekki heppilegt fyrir stjórn skilasjóðs. Þá þykir æskilegt að Seðlabankinn eigi fulltrúa í stjórn sjóðsins enda fer skilavald bankans með framkvæmd laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, þ.m.t. ákvörðun um söfnun framlaga í sjóðinn, útgreiðslu úr sjóðnum og lánamál hans.
     Um c-lið. Í ákvæðinu er lagt til að ákvæði um áheyrnarfulltrúa Samtaka sparifjáreigenda í stjórn sjóðsins falli brott í ljósi þeirra breytinga sem lagðar eru til í a- og b-lið greinarinnar.
     Um d-lið. Í ákvæðinu er lagt til í þágu gagnsæis að fyrirmæli um að atkvæði formanns vegi tvöfalt á stjórnarfundum ef atkvæði stjórnarmanna falli jafnt verði fundinn staður í lögunum í stað þess að kveðið verði á um það í samþykktum sjóðsins.
     Um e-lið. Í ákvæði 4. mgr. 4. gr. laganna er vísað til laga um viðskiptabanka og sparisjóði sem voru í gildi þegar lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta voru sett. Lög um fjármálafyrirtæki hafa nú tekið við af lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Lagt er til að vísun til laga um viðskiptabanka og sparisjóði falli brott og þess í stað komi vísun til laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Í 8. gr. þeirra laga er fjallað um þagnarskyldu og er greinin víðtækari en þagnarskylduákvæði 58. gr. gildandi laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     Um f-lið. Breytingar ákvæðisins sem lagt er til að verði að nýrri 5. mgr. 4. gr. laganna tengjast því að í frumvarpinu er kveðið á um að innheimtu iðgjalda í innstæðudeild sjóðsins verði hætt. Í því ljósi þykir nauðsynlegt að ráðherra sé reglulega upplýstur um afstöðu stjórnar til innheimtu iðgjalda og gerir ákvæðið áskilnað um að sú afstaða berist ráðherra a.m.k. árlega og á skriflegan hátt. Í tillögum ákvæðisins sem ætlað er að verða ný 6. mgr. 4. gr. laganna er lagt til að stjórn sjóðsins setji honum samþykktir í stað aðalfundar, sbr. einnig breytingu í 15. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæðum um aðalfund sem leiða má af þeirri endurskipulagningu á starfsemi TIF sem kveðið er á um í frumvarpinu. Í frumvarpinu er lagt til að greiðslur í innstæðudeild TIF verði stöðvaðar og samsetningu stjórnar breytt á þann veg að fulltrúar fjármálafyrirtækja myndi ekki meiri hluta í stjórn. Breytingar greinarinnar færa einnig fyrirkomulag Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja nær hefðbundnu fyrirkomulagi sjálfseignarstofnana. Eitt megineinkenni sjálfseignarstofnana, sem aðgreinir þær gjarnan frá félögum, er að engir félagsmenn eru innan sjálfseignarstofnunar sem geta haft áhrif á starfsemi þeirra. Af þeim sökum er jafnan enginn félagsfundur í sjálfseignarstofnunum. Í greininni er lagt til að ákvæði um að aðalfundur setji sjóðunum samþykktir, ákvæði um að verkefni aðalfundar séu nánar tilgreind í samþykktum, ákvæði um skiptingu atkvæða milli aðildarfélaga og atkvæðavægi til að breyta samþykktum sjóðsins og ákvæði um aukafundi verði felld brott. Þau ákvæði sem ekki er lagt til að falli brott úr 5. gr. laganna eru að aðalfundur verði haldinn árlega, líkt og verið hefur, og aðildarfyrirtæki eigi rétt til setu á fundinum. Eftir breytinguna verður aðalfundur líkt og áður vettvangur fyrir miðlun upplýsinga og skoðanaskipti. Í stað þess að aðalfundur setji sjóðnum samþykktir er lagt til í f-lið 14. gr. frumvarpsins að stjórn setji samþykktir fyrir sjóðinn.

Um 16. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar sem taka mið af öðru fyrirkomulagi TIF en verið hefur. Skilasjóði er ætlað að starfa sem sérstök deild í Tryggingarsjóði vegna fjármálafyrirtækja til frambúðar.

Um 17. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 5. gr. b laganna sem fjallar um A-deild TIF. Ný greinarfyrirsögn verður Innstæðudeild enda lagt til að ákvæði um B-deild sjóðsins falli brott, sbr. breytingar í 18. gr. frumvarpsins.
     Um a-lið. Lagt er til að efni lokamálsgreinar 5. gr. b laganna verði flutt og fundinn staður í 1. mgr. sömu greinar laganna. Eftir breytinguna mun 1. mgr. í öllum þremur greinum laganna sem fjalla um einstakar deildir Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja fjalla um lágmarksstærð hverrar deildar, sbr. 5. gr. a, 6. gr. og 7. gr. laganna. Einnig er lögð til smávægileg breyting á núgildandi lokamálsgrein 5. gr. b laganna. Í stað þess að tala um tryggðar innstæður hjá „aðildarfyrirtækjum“ er talað um sömu innstæður hjá „lánastofnunum með starfsleyfi hér á landi“. Ekki er um efnisbreytingu að ræða þar sem einungis þau aðildarfyrirtæki sem eru lánastofnanir hafa heimild til að taka á móti innlánum. Breytingin er í samræmi við breytingu á 6. gr. laganna í 18. gr. frumvarpsins, sbr. einnig c-lið 6. gr. frumvarpsins, þannig að engum vafa sé undirorpið að sami mælikvarði er notaður til að finna viðmiðunarmark innstæðudeildar og skilasjóðs.
     Um b- og c-lið. Þær breytingar sem ákvæðin fela í sér leiða af öðru fyrirkomulagi á deildum sjóðsins en verið hefur. Ákvæði um B-deild sjóðsins verða felld brott úr lögunum, sbr. 18. gr. frumvarpsins, og við bætist ný deild skilasjóðs.
     Um d-lið. Í ákvæðinu er lagt til að hlutfallstölur almenns iðgjalds í innstæðudeild sjóðsins verði færðar niður í 0. Í stað þess að fella ákvæðið brott úr lögum er þessi aðferðafræði lögð til þannig að unnt sé að hefja aftur innheimtu á iðgjöldum með skjótum hætti ef þurfa þykir, sbr. einnig breytingu í 29. gr. frumvarpsins.
     Um e-, f- og g-lið. Þær breytingar sem ákvæðin fela í sér taka mið af öðru fyrirkomulagi TIF en verið hefur.

Um 18. gr.

    Í greininni er kveðið á um breytingar á 6. gr. laganna sem fjallar um B-deild TIF. Lagt er til að ákvæði um B-deild falli brott og þessi í stað verði kveðið á um deild skilasjóðs í sömu grein laganna. B-deild sjóðsins var komið á fót með breytingarlögum nr. 79/2012 og lagt til í bráðabirgðaákvæði við lögin að deildin yrði lögð niður þegar staðið hefði verið að fullu við skuldbindingar sem hvíldu á deildinni við gildistöku laga nr. 79/2012. Engar kröfur eða eignir eru nú í B-deild sjóðsins og rétt að fella ákvæði um deildina brott úr lögum. Starfsemi skilasjóðs fer að meginstefnu til eftir lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, sbr. einkum XV. kafli þeirra laga. Þrátt fyrir það þykir rétt að fjallað sé um skilasjóð með almennum hætti í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta enda lagt upp með að hann rúmist innan skipulags Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja.

Um 19. gr.

    Í greininni er lagt til að 8. gr. laganna sem fjallar um afturköllun leyfis aðildarfyrirtækis verðbréfadeildar TIF verði felld brott. Ákvæði 8. gr. laganna var lögfest með gildistöku laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, þann 1. janúar árið 2000. Við lögfestingu var greinin efnislega hliðstæð lagagrein í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem felld voru úr gildi með lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Efnisatriði 8. gr. laganna eru komin til ára sinna á sama tíma og miklar umbætur hafa verið á regluverki fjármálamarkaðar, þ.m.t. með gildistöku nýrra heildarlaga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Aðild að viðurkenndu bótakerfi fyrir fjárfesta er hluti af viðvarandi kröfum til starfsleyfisskilyrða verðbréfafyrirtækja, sbr. 19. og 31. gr. laga nr. 115/2021. Þá gildir ákvæði 19. gr. laganna um lánastofnanir þegar þær veita fjárfestingarþjónustu og/eða stunda fjárfestingarstarfsemi, sbr. 2. mgr. 1. gr. sömu laga.

Um 20. gr.

    Í greininni eru lagðar til afmarkaðar breytingar á 9. gr. laganna sem fjallar um greiðslur úr TIF.
     Um a- og c-lið. Þær breytingar sem ákvæðin fela í sér taka mið af öðru fyrirkomulagi TIF en verið hefur.
     Um b-lið. Í ákvæðinu er lögð til breyting þannig að 1. mgr. 9. gr. laganna kveði á um það með tæmandi hætti hvenær greiðsluskylda virkjast úr innstæðudeild Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja. Ef lánastofnun verður tekin til skilameðferðar getur að vissum skilyrðum uppfylltum komið til greiðslna úr innstæðudeild sjóðsins. Ákvæði 82. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, fjallar um þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að greiðsluskylda úr innstæðudeild virkist. Ákvæðið fjallar einnig um hámarksfjárhæð greiðslna úr innstæðudeild, sbr. 5. mgr. 82. gr. laganna. Í kafla 2.2. í greinargerð frumvarpsins er einnig fjallað með nákvæmum hætti um það hvernig stofnast getur til greiðsluskyldu innstæðudeildar sjóðsins vegna skilameðferðar.
     Um d-lið. Í 1. mgr. 86. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, er kveðið á um að skilavaldið taki ákvarðanir um greiðslur úr skilasjóði. Ástæða þykir einnig til að kveða á um það í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta enda lagt til að skilasjóður verði sérstök deild í Tryggingarsjóði vegna fjármálafyrirtækja. Lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja geyma ákveðnar reglur um greiðslur úr skilasjóði, sbr. einkum 87. gr. og 3. mgr. 57. gr. þeirra laga. Í sömu lögum er þó engin fyrirmæli að finna um framkvæmd greiðslna úr skilasjóði enda ekki kveðið á um það í tilskipun 2014/59/ESB. Það er því skilavaldsins að ákveða þá framkvæmd eins og tilgreint er í ákvæðinu.

Um 21. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 10. gr. laganna sem fjallar um fjárhæð til greiðslu úr TIF. Breytingar greinarinnar taka mið af öðru fyrirkomulagi á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta en verið hefur.

Um 22. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar sem taka mið af öðru fyrirkomulagi á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta en verið hefur. Tilskipun 2014/59/ESB hefur að geyma reglur um skilasjóð og fjallað er um lánamál þess sjóðs í c-lið 7. gr. frumvarpsins (tillaga að nýrri 87. gr. c í lögum nr. 70/2020). Í greininni er einnig kveðið á um að heimild ráðherra til að setja ákvæði í reglugerð um lánveitinguna falli brott. Slík reglugerð hefur ekki verið sett og eðlilegra þykir að umgjörð lánveitingar sé alfarið á verksviði stjórnar sjóðsins.

Um 23. gr.

    Í greininni er lagt til að 12. gr. laganna sem fjallar um víkjandi lán verði felld brott. Ákvæði 12. gr. laganna var lögfest með gildistöku laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, þann 1. janúar árið 2000. Við setningu laganna var greinin efnislega hliðstæð lagagrein í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem felld voru úr gildi með lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Að teknu tilliti til þeirra miklu umbóta sem átt hafa sér stað á regluverki fjármálamarkaðar undanfarin ár er lagt til að greinin falli brott. Kveðið er á um heildstæðar reglur um undirbúning og viðbrögð við rekstrarerfiðleikum fjármálafyrirtækja í lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

Um 24. gr.

    Í 1. mgr. 13. gr. laganna er vísað til „viðskiptabanka, sparisjóða, fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða“. Hugtakið fyrirtæki í verðbréfaþjónustu er ekki lengur notað í lögum um fjármálafyrirtæki heldur aðeins rætt um verðbréfafyrirtæki. Lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir eru nú nefndar lánafyrirtæki og teljast ásamt viðskiptabönkum og sparisjóðum til lánastofnana. Þessu til samræmis er lagt til í a-lið greinarinnar að rætt verði um fjármálafyrirtæki í málsgreininni í stað viðskiptabanka, sparisjóða, fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða. Hugtakið fjármálafyrirtæki er skilgreint sem lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og fleiri lögum sem lagt verður fram á 152. löggjafarþingi. Aðrar breytingar greinarinnar, sbr. ákvæði b-liðar, taka mið af öðru fyrirkomulagi á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Þá er lagt til að greinarfyrirsögn bætist við 13. gr. laganna líkt og á við um aðrar greinar í lögunum, sbr. c-lið greinarinnar.

Um 25. gr.

    Í greininni er lagt til að orðalag 16. gr. laganna endurspegli núgildandi starfsumhverfi fjármálafyrirtækja. Miklar tæknibreytingar hafa átt sér stað frá því að lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, tóku gildi um síðastliðin aldamót og ljóst að þær upplýsingar sem um ræðir í 16. gr. laganna eru nú birtar á vefsíðum aðildarfyrirtækja.

Um 26. gr.

    Í greininni er lögð til breyting sem tekur mið af öðru fyrirkomulagi Tryggingarsjóðs inn-stæðueigenda og fjárfesta en verið hefur.

Um 27. gr.

    Í greininni er lagt til að VI. kafli laganna sem hefur að geyma eina lagagrein um öryggissjóði falli brott. Einn sjóður hefur verið starfandi sem öryggissjóður samkvæmt 19. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Um er að ræða Tryggingarsjóð sparisjóðanna sem starfaði fyrir gildistöku laganna sem sjálfseignarstofnun sem skipt var upp í tvær deildir, innstæðudeild og lánadeild. Þegar Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta var stofnaður árið 2000 fluttist innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóðanna yfir í TIF en lánadeildin varð eftir og starfaði sem öryggissjóður á grundvelli 19. gr. laga nr. 98/1999. Tryggingarsjóði sparisjóðanna hefur verði slitið og ekki verður séð að ástæða sé til að halda heimild í lögum til að stofna sérstaka öryggissjóði.
    Lagaumhverfi fyrir banka og aðrar lánastofnanir er gjörbreytt frá því sem var fyrir og um síðustu aldamót. Tilskipun 2013/36/ESB um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærniseftirlit með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki (saman svonefndur CRD IV-pakki) hefur að meginstefnu til verið innleiddur í íslenskan rétt. Lokið verður við innleiðingu pakkans með síðari breytingum á Evrópureglunum með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem lagt verður fram á 152. löggjafarþingi. Þá hefur tilskipun 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja að meginstefnu til verið innleidd hér á landi. Með innleiðingu gerðanna hefur meðal annars verið aukið við kröfur um magn og gæði eigin fjár til að gera lánastofnanir betur í stakk búnar til að takast á við erfiðleika. Þá eru nákvæmar reglur í gildi um undirbúning og viðbrögð við alvarlegum rekstrarerfiðleikum.

Um 28. gr.

    Í greininni er lagt til að öll ákvæði til bráðabirgða við lögin falli brott. Ákvæðin tengjast þeirri vinnu sem farið var í eftir fjármálaáfallið 2008 þar sem innstæðudeild var skipt upp í A- og B-deild og hafist var handa við að safna framlögum á ný í sjóðinn. B-deild sjóðsins hefur verið lögð niður og tímamark greiðslna sem fjallað er um í einstökum bráðabirgðaákvæðum löngu liðið. Þá hefur efni ákvæðis til bráðabirgða II verið fellt inn í meginmál laganna, sbr. 5. gr. a og 9. gr. laganna.

Um 29. gr.

    Í greininni er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Ákvæði 2.–13. mgr. 5. gr. b laganna, sbr. breytingu í a-lið 17. gr. frumvarpsins, fjalla um greiðslur iðgjalda í innstæðudeild sjóðsins og tengd ákvæði. Í stað þess að fella þessi ákvæði í 5. gr. b laganna brott samhliða því að stöðva innheimtu iðgjalda er sú aðferðafræði lögð til að ákvæðin verði óvirk þannig að unnt sé að virkja þau aftur með skjótum hætti og hefja aftur innheimtu á iðgjöldum ef þurfa þykir. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að innheimta iðgjalda í innstæðudeild sjóðsins sé til viðvarandi skoðunar, sbr. tillögu að nýrri 6. mgr. 4. gr. laganna sem kveðið er á um í f-lið 14. gr. frumvarpsins.

Um 30. gr.

     Um 1. málsl. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi, þó með því fráviki sem kveðið er á um í 2. málsl. Í frumvarpinu er lagt til að greiðslur iðgjalda í TIF verði stöðvaðar að svo stöddu, sbr. breytingar í d-lið 17. gr. og 29. gr. frumvarpsins. Af lögum um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, leiðir að gjalddagi vegna fyrsta ársfjórðungs 2022 er 1. júní sama ár. Í ákvæði 1. málsl. felst að aðildarfyrirtækjum TIF ber að standa skil á þeim greiðslum í innstæðudeild sjóðsins sem komnar eru á gjalddaga fyrir samþykkt frumvarpsins.
     Um 2. málsl. Í málsliðnum er kveðið á um gildistöku við seinna tímamark á ákvæði a-liðar 7. gr. frumvarpsins (tillögu að nýrri 87. gr. a í lögunum). Stjórn Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja mun ekki hafa lokið tilfærslu fjármuna úr innstæðudeild sjóðsins í skilasjóð við samþykkt frumvarpsins, sbr. 10. gr. þess. Af þeirri ástæðu eru ekki forsendur til að ákvarða greiðslur í skilasjóð fyrr en við síðara tímamark, ef nauðsyn krefur, og eigi áður en tilfærslu fjármuna úr innstæðudeild Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja er lokið.

Um 31. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á tvennum lögum vegna breytinga frumvarpsins á heiti Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. einnig brottfall á VI. kafla laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, í 27. gr. frumvarpsins, sem fjallar um öryggissjóði.


Fylgiskjal.


Samanburður á ákvæðum frumvarpsins og gildandi laga.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0759-f_I.pdf