Ferill 563. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 799  —  563. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036.


Frá innviðaráðherra.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd eftirfarandi stefnu í byggðamálum til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára, sbr. lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, og að gert verði ráð fyrir framkvæmdinni við gerð fjárlaga hvers árs og í fimm ára fjármálaáætlun.

Niðurbrot á ramma fjármálaáætlunar 2022–2026 2022 2023 2024 2025 2026 Samtals
Byggðamál samtals 2.078 1.969 1.895 1.879 1.863 9.683
Byggðaáætlun 923 923 857 849 840 4.392
    Þar af aðgerðaáætlun 647 661 663 655 644 3.270
Sóknaráætlanir landshluta 569 465 460 456 451 2.401
Byggðastofnun 213 211 209 207 205 1.043
Atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni 206 204 202 201 200 1.015
Jöfnun flutningskostnaðar 167 167 167 167 167 833
Miðað við verðlag í fjárlögum fyrir árið 2022. Fjárhæðir í millj. kr.

I. FRAMTÍÐARSÝN OG MEGINMARKMIÐ

    Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi byggðir landsins og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.
    Meginmarkmið eru tvenns konar:
     a.      Innviðir mæti þörfum samfélagsins.
     b.      Byggðir og sveitarfélög um land allt verði sjálfbær.
    Í öllum landshlutum verði blómlegar byggðir og öflugir byggðakjarnar þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna og búsetufrelsi með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu, húsnæði og fjölbreyttum atvinnutækifærum. Grunnþjónusta verði veitt íbúum sem mest í nærsamfélaginu. Á höfuðborgarsvæðinu verði miðstöð opinberrar stjórnsýslu og miðlægrar þjónustu sem allir landsmenn hafi gott aðgengi að.
    Byggðamál verði samhæfð við aðra málaflokka eftir því sem við á. Í allri stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera verði loftslagsmál og sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi og áhrif á þróun einstakra byggða og búsetu skoðuð og metin.

II. LYKILVIÐFANGSEFNI

    Til að takast á við þær áskoranir sem blasa við á sviði byggðaþróunar verði unnið að eftirfarandi fimm lykilviðfangsefnum:
     1.      Lýðfræðilegri þróun og grunnþjónustu.
     2.      Fjölbreyttu atvinnulífi.
     3.      Innviðum.
     4.      Umhverfis- og loftslagsmálum.
     5.      Alþjóðlegri samkeppnisstöðu og sjálfbærni byggða.
    Efling sveitarstjórnarstigsins og jafnréttissjónarmið verði tengd við úrlausn þessara áskorana.

III. MARKMIÐ, ÁHERSLUR OG MÆLIKVARÐAR

    Markmið stjórnvalda í byggðamálum samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir eru að:
     A.      Jafna aðgengi að þjónustu.
     B.      Jafna tækifæri til atvinnu.
     C.      Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt.
    Sérstök áhersla verði lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.
    Við útfærslu á öllum markmiðum verði leitast við að beita aðferðafræði altækrar hönnunar þar sem tekið er mið af ólíkri stöðu og þörfum allra íbúa landsins.
    Eftirfarandi áherslur leiði til beinna og skilgreindra aðgerða eða til samhæfingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að framangreindum markmiðum verði náð.

A. Jafna aðgengi að þjónustu.
     a.      Opinber grunnþjónusta verði skilgreind í lögum sem og hvernig réttur íbúa landsins til hennar verði tryggður óháð búsetu.
     b.      Opinber stefnumörkun verði samhæfð eins og kostur er og áhrif hennar á þróun búsetu í landinu metin.
     c.      Stutt verði við nýsköpun og tækniþróun í félags- og heilbrigðisþjónustu um land allt.
     d.      Öll lögheimili og vinnustaðir á landinu eigi kost á háhraðanettengingu með ljósleiðara eða annarri sambærilegri tækni.
     e.      Mótuð verði opinber viðmið um útbreiðslu og gæði farsíma- og farneta á vegakerfi landsins og viðeigandi úrbætur gerðar.
     f.      Orkukostnaður heimila verði jafnaður.
     g.      Stuðlað verði að því að verslun á dreifbýlum svæðum, fjarri stórum þjónustukjörnum, verði viðhaldið.
     h.      Almenningssamgöngur í lofti, láði og á legi styrki tengingar innan vinnu- og þjónustusóknarsvæða og auki þannig aðgengi og jafnræði íbúa, m.a. innan landfræðilega víðfeðmra sveitarfélaga en einnig með því að tengja fámennari byggðarlög stærri þjónustukjörnum.
     i.      Með aukinni samhæfingu áætlana verði við forgangsröðun framkvæmda í samgönguáætlun og skilgreiningar á þjónustustigi horft sérstaklega til þess að efla atvinnu- og þjónustusóknarsvæði.
     j.      Aðgengi að innviðum fyrir vistvæn farartæki verði til staðar um allt land.
     k.      Tækifæri til að hagnýta upplýsingatækni og fjarskipti til náms, kennslu og eflingar heildstæðrar skólaþjónustu verði nýtt.
     l.      Innflytjendur fái aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu og geti þannig nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu, m.a. með auknu aðgengi að íslenskukennslu og samfélagsfræðslu.
     m.      Íbúar landsins, ekki síst börn og ungmenni, hafi aðgang að menningu, listum, íþróttum og öðrum tómstundum óháð búsetu og efnahag.
     n.      Aðgengi að fjölbreyttu starfs-, iðn- og tækninámi verði bætt um land allt.
     o.      Háskólar leggi áherslu á aukið framboð náms í fjar- og dreifnámi og efli samstarf sín á milli, m.a. um sameiginleg námskeið, sameiginlegar prófgráður og svæðisbundnar lausnir.
     p.      Öryggi og gæði neyðar- og öryggisþjónustu verði aukin.
     q.      Tryggð verði örugg póst- og vörudreifing á þeim svæðum sem búa við markaðsbrest í þeirri þjónustu.

Mælikvarðar sem stuðst verði við til að meta framgang markmiðs:
     1.      Mismunur á húshitunarkostnaði heimila.
     2.      Hlutfall þeirra sem búa í innan við 30 kílómetra fjarlægð frá heilsugæslustöð, leik-, grunn- og framhaldsskóla og dagvöruverslun.
     3.      Hlutfallsleg skólasókn á framhalds- og háskólastigi, annars vegar í aldurshópnum16–24 ára og hins vegar þeirra sem eru eldri en 24 ára.

B. Jafna tækifæri til atvinnu.
     a.      Lögð verði áhersla á mikilvægi áframhaldandi uppbyggingar innviða, bæði efnislegra og félagslegra, sem taki mið af ólíkri stöðu og þörfum mismunandi hópa samfélagsins á grundvelli hugmyndafræði altækrar hönnunar, loftslagsmála og sjálfbærrar þróunar.
     b.      Tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar verði nýtt með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
     c.      Nýsköpunarhæfni samfélaga og áhersla á frumkvöðlastarfsemi og græn störf verði aukin um allt land með áherslu á að styrkja stoðkerfi og innviði nýsköpunar, stafræna þróun, þekkingaruppbyggingu og greiðara aðgengi að mörkuðum og fjármagni.
     d.      Stuðlað verði að eflingu hringrásarhagkerfisins um land allt með áherslu á græna atvinnuuppbyggingu, staðbundna styrkleika, aukna fullvinnslu í héraði og bætta nýtingu auðlindastrauma, þ.m.t. orkunýtingu.
     e.      Sköpuð verði fjölbreytt og verðmæt störf um land allt og stuðlað að sem jafnastri dreifingu starfa. Til að styðja við byggðaþróun og búsetufrelsi verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.
     f.      Tryggðir verði fjármunir til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða um land allt þar sem jafnvægi ríki á milli hagnýtingar, samfélagslegs ávinnings og verndunar náttúru.
     g.      Stutt verði við uppbyggingu fluggátta til landsins um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll og þannig stuðlað að jafnari dreifingu ferðamanna um landið auk þess að mæta þörfum fyrir varaflugvelli í landinu.
     h.      Staðinn verði vörður um byggðatengdar aflaheimildir smærri sjávarbyggða.
     i.      Nýliðun og búháttabreytingar í landbúnaði verði auðveldaðar og brugðist við kröfum um bættan aðbúnað bústofns með aðgengi að lánum á sem hagstæðustum kjörum.
     j.      Til að ná fram markmiðum um kolefnishlutleysi Íslands verði unnið að verndun og bindingu kolefnis í jarðvegi með endurheimt vistkerfa, landgræðslu og skógrækt og unnið að því að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda frá landi með endurheimt votlendis og sjálfbærri landnýtingu.
     k.      Áfram verði unnið að því að efla skapandi greinar sem vaxandi atvinnuveg og ríki og sveitarfélög skapi skilyrði til atvinnustarfsemi á sviði lista og menningar um land allt.
     l.      Uppbygging þekkingarstarfsemi og annarrar þjónustu á sviði norðurslóðamála styðji við byggðaþróun og þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi.
     m.      Í samstarfi stjórnvalda, stoðkerfis atvinnulífsins og landshlutasamtaka sveitarfélaga verði lokið greiningu á styrkleikum einstakra svæða með tilliti til atvinnuuppbyggingar og fjárfestingaráherslur skilgreindar og á þeim grunni hvatt til grænna fjárfestinga um land allt.
     n.      Afhendingaröryggi raforku verði aukið og stutt við orkuskipti á landsvísu. Áhersla verði lögð á verkefni sem stuðla að sem bestri raforkunýtingu með samhæfingu framleiðslu, flutnings og notkunar eftir því sem kostur er og sem falla að öðrum markmiðum og áætlunum, m.a. um sjálfbæra byggðaþróun, full orkuskipti og kolefnishlutleysi Íslands eigi síðar en árið 2040.

Mælikvarðar sem stuðst verði við til að meta framgang markmiðs:
     1.      Atvinnuþátttaka og meðalatvinnutekjur.
     2.      Hlutfall ríkisstarfa af íbúafjölda/heildarfjölda stöðugilda.
     3.      Menntunarstig (25–64 ára).

C. Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt.
     a.      Unnið verði með félagslegan fjölbreytileika og lýðfræðilega þætti á borð við kyn, aldur og uppruna og þau tækifæri nýtt sem felast í mannauðnum í hverju byggðarlagi.
     b.      Sveitarfélög setji sér loftslagsstefnu með skilgreindum markmiðum um samdrátt í losun og geri áætlanir til að tryggja að markmið náist með hliðsjón af markmiði um kolefnishlutleysi Íslands eigi síðar en árið 2040.
     c.      Fyrirliggjandi þekking um áhrif loftslagsbreytinga, áhættumat og tengsl við líffræðilega fjölbreytni skuli tekin til greina í stefnumótun, áætlanagerð og við ákvarðanir er varða þróun byggðar, landnotkun og skipulagsgerð, hvort sem er á landi, haf- eða strandsvæðum.
     d.      Tryggt verði skilvirkt laga- og reglugerðarumhverfi til að bregðast megi við harðnandi alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki.
     e.      Greindir verði styrkleikar einstakra svæða og unnið með þá og gætt að samspili þéttbýlis og dreifbýlis í þeim tilgangi að byggja upp fjölbreytt sjálfbær byggðarlög. Í því felst m.a. að móta stefnu þar sem hlutverk Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins verði skilgreint annars vegar og hlutverk Akureyrarsvæðisins í byggðaþróun í landinu hins vegar.
     f.      Aðferðafræði sóknaráætlana landshluta og brothættra byggða verði efld og þróuð.
     g.      Tryggt verði nægilegt framboð af fjölbreyttu íbúðarhúsnæði með fjölgun íbúða á svæðum þar sem skortur á hentugu húsnæði hamlar eðlilegri framþróun og uppbyggingu byggðarlaga og atvinnulífs.
     h.      Rekstrarskilyrði fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins verði bætt.
     i.      Rannsóknir á sviði byggðamála verði efldar og virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi á sviði byggðamála og rannsókna tryggð.
     j.      Skipan í opinberar stjórnir, ráð, nefndir og starfshópa endurspegli búsetudreifingu í landinu.
     k.      Í samstarfi ríkis og sveitarfélaga verði unnið að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og verkefnis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um aldursvæn samfélög.
     l.      Sveitarfélög hafi fjárhagslega og faglega getu til að standa til lengri tíma undir lögbundnum verkefnum, innviðauppbyggingu og öðrum brýnum viðfangsefnum nærsamfélagsins og að fjármögnun þeirra stuðli að hagkvæmu skipulagi sveitarstjórnarstigsins og góðri nýtingu opinberra fjármuna.
     m.      Stutt verði við klasasamstarf sem tæki í byggðaþróun en þar hefur hið opinbera því hlutverki að gegna að bregðast við markaðsbresti og styrkja innviði nýsköpunar um allt land.
     n.      Skoðaðir verði möguleikar á beitingu hagrænna hvata sem tækis í byggðaþróun, svo sem að nýta ívilnanaheimildir laga um Menntasjóð námsmanna til endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina og svæða.
     o.      Ríki og sveitarfélög verði færari um að bregðast við áskorunum sem felast í mikilli fólksfjölgun á einstökum svæðum.
     p.      Stutt verði við hin ýmsu form samfélags- og nýsköpunarmiðstöðva í minni byggðakjörnum.
     q.      Rannsóknir á hagrænum og samfélagslegum áhrifum menningar og lista verði efldar, ekki hvað síst á landsbyggðinni.
     r.      Hlutverk íþróttahéraða verði skilgreind og þau efld, ekki hvað síst með hag barna og ungmenna að leiðarljósi.

Mælikvarðar sem stuðst verði við til að meta framgang markmiðs:
     1.      Framfærsluhlutfall.
     2.      Lýðfræðilegir veikleikar.
     3.      Loftslagsstefnur sveitarfélaga, sbr. mælikvarða í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

IV. SAMHÆFING VIÐ AÐRAR STEFNUR OG ÁÆTLANIR

    Alþingi ályktar að náið samráð milli ráðuneyta, stofnana ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífs, félagasamtaka og almennings sé mikilvægt við framkvæmd byggðastefnu. Með því móti verði tryggð samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Meðal þess sem horft verði til í því sambandi er eftirfarandi:
     a.      Regluleg umræða fari fram á vettvangi ríkisstjórnarinnar um stöðu og framkvæmd byggðaáætlunar og tækifæri til samhæfingar.
     b.      Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál verði efldur og virk þátttaka þvert á Stjórnarráðið tryggð.
     c.      Tryggð verði fagleg aðkoma Byggðastofnunar að framkvæmd og eftirfylgni byggðaáætlunar og unnið mat á samfélagslegum áhrifum og þjóðhagslegri arðsemi áætlunarinnar.
     d.      Þjónustukort sýni aðgengi landsmanna að opinberri þjónustu og útbúið verði mælaborð sem varpar ljósi á stöðu og framvindu byggðamála.
     e.      Samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga sé virkt.
     f.      Tryggð verði regluleg upplýsingagjöf til Alþingis.
     g.      Fram fari kerfisbundin miðlun upplýsinga, rannsóknir, fræðsla og alþjóðlegur samanburður.
    Við framkvæmd laga um opinber fjármál verði fjallað sérstaklega um byggðasjónarmið í tengslum við mótun og framlagningu fjármálaáætlunar og fjárlaga hvers árs.

V. AÐGERÐAÁÆTLUN 2022–2026

    Alþingi ályktar að unnið skuli í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun til að tryggja framgang markmiða byggðaáætlunar.
    Einstök ráðuneyti fjármagni aðgerðir eftir því sem við á. Fjárheimildir byggðaáætlunar verði nýttar til fjármögnunar aðgerða, ýmist til samfjármögnunar með ábyrgðar- og framkvæmdaraðilum eða að öllu leyti, eftir því sem fjárheimildir leyfa.

A. Jafna aðgengi að þjónustu.
A.1. Háhraðanettengingar.
          Markmið: Að öll lögheimili og vinnustaðir eigi kost á háhraðanettengingu um ljósleiðara.
          Stutt lýsing: Staða háhraðanettenginga á landsvísu verði greind og sú greining lögð til grundvallar samkeppnishvetjandi aðgerðum og aðkomu opinberra aðila að verkefninu, reynist þess þörf. Forgangsmál verði að koma um 50 minni byggðakjörnum sem hafa takmarkað aðgengi að nútíma háhraðanettengingum í tengingu við ljósleiðara. Gripið verði til annarra ásættanlegra lausna í þeim tilfellum þar sem ekki er talið ákjósanlegt að tengja með ljósleiðara.
          Ábyrgðarráðuneyti: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Fjarskiptafyrirtæki, sveitarfélög.
          Dæmi um samstarfsaðila: Fjarskiptastofa, fjarskiptasjóður, innviðaráðuneyti.
          Tímabil: 2022–2025.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Fjarskiptaáætlun, nýsköpunarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9, einkum undirmarkmið 9.1 og 9.4.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 172 millj. kr.

A.2. Jöfnun orkukostnaðar.
          Markmið: Að orkukostnaður í dreifbýli og þéttbýli verði jafnaður, bæði hvað varðar dreifingu á raforku og húshitunarkostnað.
          Stutt lýsing: Þar sem dreifikostnaður raforku er meiri í dreifbýli en þéttbýli og kostnaður við húshitun hærri á stöðum sem ekki búa við möguleika á hitaveitu með jarðvarma verði gripið til jöfnunaraðgerða. Markmið um jöfnun orkukostnaðar á landsvísu sem er einn þáttur í jöfnun búsetuskilyrða og atvinnutækifæra verði tryggð með jöfnunarframlagi og niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Sérstaklega verði skoðaðar skilgreiningar dreifiveitna í dreif- og þéttbýli og miða þar við skilgreiningar í aðalskipulagi.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Orkustofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Orkustefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 7, einkum undirmarkmið 7.1.
          Tillaga að fjármögnun: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

A.3. Bráðaviðbragð neyðarþjónustu.
          Markmið: Að neyðarþjónusta verði bætt og öryggi aukið um land allt.
          Stutt lýsing: Aðgerðin verði tvíþætt. Annars vegar verði viðbragðstími neyðarþjónustu greindur og staðan kortlögð til að unnt verði að stytta tímann og auka öryggi um land allt. Mæling á viðbragðstíma lögreglu og annarra viðbragðsaðila verði samræmd, greint hvort þjónustu- og öryggisstig sé sambærilegt um allt land og metið hvaða breytinga sé þörf og hvernig bæta megi þjónustu og öryggi. Hins vegar verði nærsamfélagið virkjað til að auka líkur á góðri útkomu í bráðaaðstæðum fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga. Stutt verði við umgjörð um samræmda skipulagða þjónustu vettvangsliða um landið, svo sem björgunarsveita, RKÍ og annarra í nærumhverfi, með því að námskeiðum fyrir vettvangsliða verði fjölgað.
          Ábyrgðarráðuneyti: Dómsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Ríkislögreglustjóri, heilbrigðisstofnanir og heilsugæslur.
          Dæmi um samstarfsaðila: Lögreglustjórar, sveitarfélög, slökkvilið, Rauði kross Íslands, björgunarsveitir, félagasamtök, Sjúkraflutningaskólinn og Neyðarlínan.
          Tímabil: 2022–2025.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Löggæsluáætlun, aðgerðaáætlun fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 1, 3, 11 og 16, einkum undirmarkmið 1.5, 3.6, 11.5, 11.a og 16.6.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 30 millj. kr.

A.4. Velferðarnet.
          Markmið: Að heildstæð þjónusta á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála verði styrkt og aukin og ávinningur notenda af þjónustu ríkis og sveitarfélaga þannig aukinn.
          Stutt lýsing: Haldið verði áfram með þróun tilraunaverkefna í þverfaglegum landshlutateymum/velferðarnetum sem sinni samhæfingu, ráðgjöf, gæðamálum og fleiru á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála í anda laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Sett verði á laggirnar velferðarnet sem myndi heildstæða og samræmda þjónustukeðju sveitarfélaga og ríkis á umræddum sviðum. Byggð verði upp kunnátta til að veita starfsfólki sveitarfélaga, notendum og foreldrum sérhæfða stað- og fjarbundna ráðgjöf sem miði m.a. að því að beita fyrirbyggjandi stuðningi og ráðgjöf fyrr. Unnið verði að verkefnum sem miði að því að styðja notendur og fjölskyldur þeirra í dreifðum byggðum til sjálfshjálpar þar sem ekki er greiður aðgangur að sérfræðingum. Áhersla verði lögð á þróun stafrænna lausna á sviði velferðartækni. Árangur aðgerðarinnar verði m.a. mældur í fjölda velferðarstofa.
          Ábyrgðarráðuneyti: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti og mennta- og barnamálaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Stofnanir ríkis og sveitarfélaga á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála á viðkomandi svæði.
          Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, landshlutasamtök sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga, hagsmunasamtök fatlaðs fólks, almannaheillasamtök, fyrirtæki í stafrænni þróun tæknilausna á sviði velferðar- og menntamála.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna, heilbrigðisstefna, nýsköpunarstefna, stefna í nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu, þingsályktun um barnvænt Ísland.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 1, 3, 4 og 16, einkum undirmarkmið 1.3, 3.5, 3.8, 4.a og 16.1.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 25 millj. kr.

A.5. Fjarheilbrigðisþjónusta.
          Markmið: Að aðgengi að heilbrigðisþjónustu verði aukið og bætt með nýsköpun og nýtingu tækni og fjarskipta við framkvæmd þjónustu.
          Stutt lýsing: Með innleiðingu á fjarheilbrigðisþjónustu verði leitast við að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, svo sem læknum, hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum, sálfræðingum og talmeinafræðingum. Jafnframt verði rafræn miðlun heilbrigðisþjónustu nýtt til að auka aðgengi að sérfræðiþekkingu, og þar með gagnkvæmri faglegri ráðgjöf, samráði og samstarfi, og með þeim hætti verði teymisvinna innan heilbrigðisþjónustunnar auðvelduð. Árangur aðgerðarinnar verði m.a. mældur í fjölda þeirra sem nýta sér sérfræðiþjónustu í gegnum netið.
          Ábyrgðarráðuneyti: Heilbrigðisráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Embætti landlæknis og veitendur heilbrigðisþjónustu.
          Dæmi um samstarfsaðila: Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, heilbrigðisstofnanir, heilsugæslustöðvar, sveitarfélög, aðrir veitendur heilbrigðisþjónustu og fyrirtæki í stafrænni þróun tæknilausna á sviði heilbrigðismála.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Heilbrigðisstefna, nýsköpunarstefna, fjarskiptastefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 3.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 100 millj. kr.

A.6. Aðgengi að sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.
          Markmið: Að aðgangur að ýmiss konar sérfræðiþjónustu óháð búsetu verði jafnaður.
          Stutt lýsing: Skoðað verði hvort fjölga megi sérfræðingum á heilbrigðissviði á landsbyggðinni með því að nýta ákvæði í lögum um menntasjóð námsmanna þar sem kveðið á um sérstaka ívilnun vegna námsgreina sem og sérstaka ívilnun vegna námsgreina á sérstökum svæðum. Lögð verði áhersla á mikilvægi þess að tryggja ýmiss konar sérfræðiþjónustu, til að mynda þjónustu geðhjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, talmeinafræðinga og sérfræðilækna, á landsbyggðinni.
          Ábyrgðarráðuneyti: Heilbrigðisráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila:
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélög.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Heilbrigðisstefna og menntastefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 3.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 2 millj. kr.

A.7. Nærþjónusta við innflytjendur.
          Markmið: Að aðgengi innflytjenda að opinberri þjónustu um land allt verði bætt.
          Stutt lýsing: Mótaðir verði samræmdir verkferlar/móttökuáætlanir og fjölmenningarstefnur á vettvangi sveitarfélaga. Upplýsingar um þjónustu sveitarfélaga verði aðgengilegar og hugað sérstaklega að nýjum innflytjendum. Kannaðar verði leiðir til að gera úrræði og upplýsingar sýnilegar fyrir innflytjendur í atvinnuleit. Þróað verði rafrænt fræðsluefni fyrir fagstéttir og boðið upp á stutt fræðsluerindi á vegum Fjölmenningarseturs. Símenntunarstöðvar fái námsgögn til þess að halda ítarlegri námskeið fyrir starfsfólk. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í fjölda sveitarfélaga sem innleiða fjölmenningarstefnur og/eða móttökuáætlanir, fjölda sveitarfélaga sem þiggja boð um fræðsluerindi og fjölda námskeiða sem haldin eru á vegum símenntunarstöðva.
          Ábyrgðarráðuneyti: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Fjölmenningarsetur.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Vinnumálastofnun, símenntunarstöðvar, Byggðastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda (í vinnslu, mars 2022), nýsköpunarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 10, einkum undirmarkmið 10.2, 10.3, 10.4, og 10.7.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12 millj. kr.

A.8. Stjórnsýslustöðvar ríkis í héraði.
          Markmið: Að opinber þjónusta í héraði verði efld, atvinnutækifærum fjölgað og ríkisrekstur bættur.
          Stutt lýsing: Starfsemi sýslumannsembætta um land allt og opinber þjónusta í héraði verði efld með betri nýtingu innviða, þ.m.t. stafrænnar tækni, húsnæðis og mannauðs. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í fjölda starfa á sýsluskrifstofum og fjölda sérfræðinga þar.
          Ábyrgðarráðuneyti: Dómsmálaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Dómsmálaráðuneyti og Sýslumannaráð.
          Dæmi um samstarfsaðila: Sýslumenn, Byggðastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélögin, verkefnastofa um stafrænt Ísland, önnur ráðuneyti og undirstofnanir.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Sýslumenn – Framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri, skýrsla dómsmálaráðuneytisins (mars 2021).
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.a og 11.b.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 50 millj. kr.

A.9. Verslun í dreifbýli.
          Markmið: Að stutt verði við rekstur dagvöruverslunar í minni byggðarlögum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu.
          Stutt lýsing: Komið verði til móts við vanda dreifbýlisverslana á fámennum markaðssvæðum sem búa við háan flutningskostnað, óhagkvæm innkaup og erfið rekstrarskilyrði, með fjárhagsstuðningi sem m.a. taki mið af flutningsvegalengd og veltu. Einnig verði boðið upp á fjárfestingarstuðning og metið hvernig best verði staðið að ráðgjöf.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9, 11 og 12, einkum undirmarkmið 8.9, 9.1, 11.b, 12.3 og 12.b.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 75 millj. kr.

A.10. Almenningssamgöngur milli byggða.
          Markmið: Að stutt verði við áframhaldandi þróun almenningssamgangna milli byggða, m.a. til að tengja ýmsa sérakstursþjónustu við almenningssamgöngur.
          Stutt lýsing: Haldið verði áfram að greina kerfi almenningssamgangna og þróa nýjar lausnir. Skoðað verði hvort þörf sé á að leggja til breytingar á gildandi laga- og reglugerðarumhverfi til að almenningssamgöngur nýtist fólkinu í landinu sem best og þannig staðinn vörður um hinar dreifðu byggðir þar sem alla jafna er erfiðast að reka reglubundnar almenningssamgöngur. Til að tryggja og styrkja lágmarksþjónustu í dreifðustu byggðunum verði hugmyndir um samflutning farms og farþega og deiliakstur sérstaklega skoðaðar.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Vegagerðin, landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélög, ráðgjafar, háskólar og fyrirtæki.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Samgönguáætlun, Ferðumst saman – heildarstefna í almenningssamgöngum milli byggða.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11, einkum undirmarkmið 9.1 og 11.2.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 65 millj. kr.

A.11. Heildstæð skólaþjónusta.
          Markmið: Að heildstæð skólaþjónusta á leik- og grunnskólastigi á landsbyggðinni verði efld og þróuð og samhæfð við félags- og heilbrigðisþjónustu.
          Stutt lýsing: Heildstæð skólaþjónusta, sem snýst um ráðgjöf, leiðbeiningar og stuðning við starfsemi skóla og starfsfólk, styðji við skólaþróun, starfsþróun kennara, veiti nemendum almennan og sértækan stuðning og foreldrum þeirra leiðbeiningar og ráðgjöf eftir þörfum. Lágmarksviðmið um skólaþjónustu verði skilgreind og því fylgt eftir að þjónustan sé veitt í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Heildræn nálgun verði tryggð með því að skóla-, heilbrigðis- og félagsþjónusta verði fléttuð saman með markvissu samstarfi milli mismunandi kerfa og þjónustu og sem bestu aðgengi að þjónustunni óháð landfræðilegri staðsetningu og stærð sveitarfélaga. Hagnýtt verði tækifæri sem felast í auknu samstarfi sveitarfélaga, samnýtingu og samhæfingu sérfræðiþekkingar, m.a. með hjálp stafrænna lausna. Sérstök áhersla verði lögð á að auka stuðning við nemendur með annað tungumál en íslensku og uppbyggingu og þróun samhæfðrar skólaþjónustu á þeim stöðum þar sem þörfin er brýnust.
          Ábyrgðarráðuneyti: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Rekstraraðilar skóla, landshlutasamtök sveitarfélaga, Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Grunnur, félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum.
          Dæmi um samstarfsaðila: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, háskólar, Fjölmenningarsetur, skólastjórnendur, fyrirtæki í stafrænni þróun tæknilausna á sviði velferðar- og menntamála.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna, þingsályktun um barnvænt Ísland.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4, einkum undirmarkmið 4.1, 4.2, 4.7 og 4.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 26 millj. kr.

A.12. Jafnræði til náms.
          Markmið: Að aðgengi verði aukið að kennurum með sérþekkingu í tilteknum faggreinum og á tilteknum námssviðum á grunn- og framhaldsskólastigi.
          Stutt lýsing: Nemendur hafi aðgengi að sérfræðiþekkingu kennara með sérhæfingu í tilteknum faggreinum eða á tilteknum námssviðum, kennslu og kennsluráðgjöf, m.a. stafrænt, svo jafnræði þeirra til náms óháð landfræðilegri staðsetningu verði tryggt eins og kostur er. Mönnun í tilteknum faggreinum og á tilteknum námssviðum í grunn- og framhaldsskólum verði kortlögð og þörf fyrir rafræna kennslu og kennsluráðgjöf metin.
          Ábyrgðarráðuneyti: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Grunnur, félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar og fagfélög skólastjórnenda og kennara, fyrirtæki í stafrænni þróun tæknilausna á sviði velferðar- og menntamála.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna, þingsályktun um barnvænt Ísland.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4, einkum undirmarkmið 4.1, 4.3, 4.4, 4.5 og 4.7.
          Tillaga að fjármögnun: Mennta- og barnamálaráðuneyti.

A.13. Starfsþróun starfsfólks leik- og grunnskóla.
          Markmið: Að fagháskólanámi í leikskólafræðum verði komið á fót og það fest í sessi í öllum landshlutum og íslenskukunnátta starfsfólks leikskóla sem ekki hefur íslensku að móðurmáli verði efld.
          Stutt lýsing: Aðgerðin verði tvíþætt. Annars vegar að til að koma í veg fyrir kennaraskort og auka nýliðun verði starfsfólki leikskóla sem ekki uppfyllir inntökuskilyrði til háskólanáms boðið tækifæri til aðfararnáms að háskólanámi í leikskólafræðum sem jafnframt teldist vera fyrstu skref í háskólanámi. Áhersla verði lögð á að sveitarfélögin veiti sínu starfsfólki stuðning við upphaf námsins. Skoðað verði að koma á fót raunfærnimati til að fá inngöngu í nám í leikskólafræði. Hins vegar verði stefnt að því að starfsfólk leik- og grunnskóla sem ekki hefur íslensku að móðurmáli fái tækifæri til að efla íslenskukunnáttu sína svo það nái færni B samkvæmt Evrópska tungumálarammanum. Námið verði sniðið að þörfum þess og hægt verði að stunda það jafnhliða starfi, m.a. með fjarnámi og stafrænu námsefni. Árangur aðgerðarinnar verði m.a. mældur í fjölda þeirra sem sækja námið.
          Ábyrgðarráðuneyti: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Háskólar, sveitarfélög, fræðsluaðilar.
          Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Fjölmenningarsetrið og stéttarfélög ófaglærðra starfsmanna leik- og grunnskóla.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna, þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál, þingsályktun um barnvænt Ísland.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4.
          Tillaga að fjármögnun: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.

A.14. Ráðstöfun fjármuna til grunnskóla.
          Markmið: Að reglum um úthlutun og ráðstöfun fjármuna verði breytt þannig að horfið verði frá viðbragðsmiðuðum stuðningi og þess í stað lögð áhersla á snemmtækan stuðning og forvarnir.
          Stutt lýsing: Unnið verði með niðurstöður tilraunaverkefnis mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og tólf sveitarfélaga sem fram fór 2019– 2020. Reglur sveitarfélaga um úthlutun og ráðstöfun fjármuna til kennslu og þjónustu í grunnskólum verði endurskoðaðar og þær færðar að þeim viðmiðunum sem Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar hefur lagt til. Sveitarfélög sem tóku þátt í tilraunaverkefninu haldi áfram samstarfi og samstarfið nái jafnframt til sveitarfélaga um land allt.
          Ábyrgðarráðuneyti: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Rekstraraðilar skóla og fræðslumála, Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Kennarasamband Íslands, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, Grunnur, félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna, þingsályktun um barnvænt Ísland.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 2 millj. kr.

A.15. Opinber grunnþjónusta og jöfnun aðgengis.
          Markmið: Að aðgengi og þjónustustig opinberrar grunnþjónustu verði jafnað með bættum aðstæðum og tæknilausnum.
          Stutt lýsing: Skilgreint verði aðgengi að opinberri grunnþjónustu. Einnig verði skilgreint lágmarksþjónustustig opinberrar grunnþjónustu fyrir dreifbýli þar sem of kostnaðarsamt getur þótt að veita þjónustuna. Jafnframt verði lagðar fram tillögur um tæknilega framkvæmd og jöfnun kostnaðar við að sækja einstaka þætti þjónustu á vegum ríkisins.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti og stofnanir, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 1, 10 og 11, einkum undirmarkmið 1.4, 10.2, 10.3, 10.4, 10.7, 11.1, 11.2, 11.3 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 2 millj. kr.

A.16. Kostnaðargreining vegna þjónustusóknar.
          Markmið: Að heildarkostnaður vegna þjónustusóknar verði greindur.
          Stutt lýsing: Greindur verði heildarkostnaður við þjónustusókn, þ.m.t. ferða- og uppihaldskostnaður, vinnutap og annar samfélagslegur kostnaður sem til fellur, hjá mismunandi samfélagshópum við að sækja tiltekna opinbera þjónustu um lengri veg, svo sem heilbrigðis-, mennta- og félagsþjónustu. Aðgerðir til jöfnunar aðgengis geti byggst á samfélagslegum heildarkostnaði, óháð því hver ber hann.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Byggðastofnun og fleiri.
          Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, stofnanir og háskólar.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11, einkum undirmarkmið 9.1., 11.2 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 5 millj. kr.

B. Jafna tækifæri til atvinnu.
B.1. Þrífösun og jarðstrengjavæðing.
          Markmið: Að afhendingaröryggi raforku verði aukið, aðgengi að áreiðanlegri orku á landsvísu jafnað, búsetuskilyrði bætt og atvinnutækifæri efld.
          Stutt lýsing: Haldið verði áfram jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku og samhliða verði það þrífasa. Einnig verði unnið að einföldun regluverks varðandi framkvæmdir í flutnings- og dreifikerfi raforku. Aðgerðin verði unnin í samræmi við fimm ára fjármálaáætlun 2021–2025 þar sem gert ráð fyrir 600 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði í sérstakt átak til að ljúka þrífösun og jarðstrengjavæðingu þjóðhagslega mikilvægs hluta dreifikerfis raforku að mestu leyti fyrir 2025.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Rarik og Orkubú Vestfjarða.
          Dæmi um samstarfsaðila: Orkustofnun og landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Tímabil: 2022–2025.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Orkustefna, nýsköpunarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 7 og 11, einkum undirmarkmið 7.1 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 275 millj. kr.

B.2. Orkuskipti og betri orkunýting.
          Markmið: Að orkuöryggi á landsvísu verði aukið og stutt við orkuskipti í samræmi við markmið Orkustefnu um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040.
          Stutt lýsing: Stutt verði við orkuskipti, svo sem rafhleðslustöðvar, jarðhitaleit, innlenda eldsneytisframleiðslu, vetnisvæðingu, rafvæðingu hafna og uppbyggingu sjálfbærra smávirkjana, og styrkir veittir til aukinnar einangrunar húsa og uppsetningu varmadæla þar sem þörf er á. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í fjölda nýorkuverkefna og rafvæðingarverkefna í höfnum, fjölgun varmadæla og smávirkjana og heildarafli þeirra og fjölda jarðhitaleitarverkefna og árangri af þeim.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Orkustofnun og Orkusjóður.
          Dæmi um samstarfsaðila: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Orkustefna, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, nýsköpunarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 7 og 13, einkum undirmarkmið 7.1 og 13.2.
          Tillaga að fjármögnun: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

B.3. Efling nýsköpunar í byggðum landsins.
          Markmið: Að komið verði á fót stafrænni nýsköpunargátt fyrir frumkvöðla og fræðslu- og stuðningsaðila nýsköpunar um land allt.
          Stutt lýsing: Nýsköpunargáttin verði fyrsti snertiflötur frumkvöðla við stoðkerfi nýsköpunar og vettvangur fyrir miðlun á stoðefni og upplýsingum. Aðgerðin verði unnin í samræmi við 9. gr. laga um opinberan stuðning við nýsköpun, nr. 25/2021, þar sem kemur fram að setja skuli á fót stafræna nýsköpunargátt fyrir upplýsingagjöf um stuðning við nýsköpun. Tilgangur gáttarinnar verði að miðla á einum stað upplýsingum og stoðefni frá ólíkum aðilum innan stoðkerfis nýsköpunar á Íslandi. Unnið verði að þarfagreiningu út frá væntum notendum, svo sem frumkvöðlum, fræðsluaðilum og ráðgjöfum. Samráð verði haft um efnistök, áherslur og framsetningu sem nýtast eiga aðilum á landinu öllu. Niðurstöður þarfagreiningar og samráðs verði lagðar til grundvallar við framkvæmd. Aðgerðin feli í sér hönnun, uppsetningu og rekstur vefsvæðis auk framleiðslu á stoðefni.
          Ábyrgðarráðuneyti: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, Byggðastofnun, Samtök iðnaðarins, háskólar og aðrar þekkingarstofnanir.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir:
Nýsköpunarstefna, klasastefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 11, einkum undirmarkmið 8.3, 8.5, 8.9, 9.3, 9.5 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 15 millj. kr.

B.4. Stafrænt forskot.
          Markmið: Að fyrirtæki nýti stafræna tækni til vaxtar og viðnámsþróttar í ört breytilegu viðskiptaumhverfi.
          Stutt lýsing: Fyrirtæki verði hvött til að hagnýta stafræna tækni til að auka samkeppnishæfni og nýbreytni í rekstri. Jafnframt verði þau hvött til að nýta stafrænar lausnir til að sækja fram á sviði nýsköpunar og vöruþróunar. Boðið verði upp á aðgang að fræðslu og fyrirlestrum sérfræðinga um nýtingu stafrænnar tækni, svo sem sjálfvirknivæðingu, bálkakeðjutækni, sýndarveruleika og gervigreind, við daglegan rekstur og nýsköpun. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í fjölda fyrirtækja sem taka þátt.
          Ábyrgðarráðuneyti: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Samtök verslunar og þjónustu.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskólinn á Bifröst, Samtök verslunar og þjónustu, landshlutasamtök sveitarfélaga, áfangastaðastofur, símenntunarmiðstöðvar.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Nýsköpunarstefna, klasastefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 9, einkum undirmarkmið 8.3, 9.4 og 9.5.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12 millj. kr.

B.5. Greining atvinnusóknar.
          Markmið: Að ferðaleiðir verði greindar vegna atvinnusóknar, þ.e. ferða milli heimili og vinnustaðar.
          Stutt lýsing: Skilgreint verði staðfang vinnustaðar og tíðni ferða milli heimilis og vinnustaðar þar sem slík greining er nauðsynleg forsenda þess að beita megi hagrænum hvötum við þróun atvinnusóknarsvæða. Upplýsinga verði m.a. leitað um það hvernig slíkum upplýsingum er safnað í Noregi.
          Ábyrgðarráðuneyti: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, innviðaráðuneyti, Skatturinn, Þjóðskrá og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11, einkum undirmarkmið 9.1, 11.2 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 2 millj. kr.

B.6. Staðarval ríkisstarfa.
          Markmið: Að dreifing starfa á vegum ríkisins verði jöfnuð og stuðlað að fjölbreyttu atvinnulífi sem víðast um landið.
          Stutt lýsing: Þegar ný starfsemi hefst eða breytingar verða á starfsmannahaldi á vegum ríkisins verði metið með hlutlægum hætti hvort staðsetja megi störfin/starfsemina utan höfuðborgarsvæðisins.
          Ábyrgðarráðuneyti: Forsætisráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Forsætisráðuneyti, önnur ráðuneyti og stofnanir þeirra.
          Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna í málefnum sveitarfélaga 2019–2033.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11, einkum undirmarkmið 9.1, 9.4 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun: Forsætisráðuneyti.

B.7. Óstaðbundin störf.
          Markmið: Að búsetufrelsi verði eflt með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni.
          Stutt lýsing: Störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega, þannig að búseta hafi ekki áhrif á ráðningar. Tekið verði saman yfirlit um fjölda starfsstöðva/-rýma og fjölda ríkisstarfa sem eru óháð staðsetningu. Í kjölfarið verði sett markmið um fjölgun vinnurýma og óstaðbundinna starfa með sem jafnastri dreifingu um landið. Byggðir verði upp vinnustaðaklasar í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og annarra aðila eftir atvikum, þannig að góð vinnuaðstaða verði í boði sem víðast um landið. Skoðað verði hvort Byggðastofnun geti boðið lán með veði í slíkum klösum. Settir verði upp samkeppnispottar til að styðja annars vegar við uppbyggingu vinnustaðaklasa og hins vegar við einskiptiskostnað vegna starfa sem staðsett verða í skilgreindum vinnustaðaklösum eða annars staðar utan atvinnusóknar höfuðborgarsvæðisins. Árangur aðgerðarinnar verði metinn út frá fjölda vinnurýma og dreifingu þeirra um landið. Þá verði fylgst með nýtingu þeirra og fjölbreytni starfa.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti í samstarfi við forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Byggðastofnun í samstarfi við ráðuneyti og ríkisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu.
          Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, samtök þeirra og fyrirtæki.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna í málefnum sveitarfélaga 2019–2033.
          Tenging við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11, einkum undirmarkmið 9.1, 9.4 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 298 millj. kr.

B.8. Miðstöð norðurslóðamála.
          Markmið: Að staða Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóðamála á landsvísu verði styrkt og samstarf þeirra fjölmörgu aðila sem hafa aðkomu að málaflokknum eflt.
          Stutt lýsing: Stutt verði við starfsemi Norðurslóðanetsins varðandi stafræna sókn, uppbyggingu samstarfsnets og þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum.
          Ábyrgðarráðuneyti: Utanríkisráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili:
Norðurslóðanetið.
          Dæmi um samstarfsaðila: Önnur ráðuneyti, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna Íslands í málefnum norðurslóða.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9, 13 og 17, einkum undirmarkmið 9.5, 13.2 og 17.16.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 9 millj. kr.

B.9. Stefnumótun og hlutverk menningarstofnana.
          Markmið: Að starfsemi menningarstofnana á landsbyggðinni verði efld.
          Stutt lýsing: Unnin verði stefnumótun og skilgreining á hlutverkum menningarmiðstöðva og sambærilegra stofnana á landsvísu líkt og gert er í nágrannalöndunum. Landshlutasamtökum sveitarfélaga verði falið að greina stöðu þeirra og leggja drög að stefnumörkun til framtíðar. Sérstaklega verði litið til samþættingar við sóknaráætlun viðkomandi landshluta.
          Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Menningarstofnanir, háskólar.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menningarstefna, sóknaráætlanir landshluta.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.4.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 10 millj. kr.

B.10. Nýting menningarminja.
          Markmið: Að menningarminjar til stuðnings byggðaþróun verði nýttar, einkum á svæðum sem standa höllum fæti í byggðarlegu tilliti.
          Stutt lýsing: Leitast verði við að fá heildarsýn yfir minjaarfinn til að greina nýtingarmöguleika og þau sóknartækifæri sem í honum felast. Menningarminjar (fornleifar, mannvirki og hús) verði kortlagðar á tilteknum svæðum og þau gögn notuð sem forsenda fyrir hönnun verkefna. Minjastofnun verði byggðarlögum til aðstoðar við leit að fjármagni fyrir þau verkefni sem sett verða í gang í kjölfarið, svo sem með því að benda á viðeigandi sjóði, styðja umsóknir og veita faglega ráðgjöf.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Minjastofnun Íslands.
          Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun, Þjóðminjasafn Íslands, landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélög, áfangastaðastofur, ferðaþjónustuaðilar og háskólar.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menningarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.4.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12,5 millj. kr.

B.11. Fluggáttir.
          Markmið: Að ferðamenn dreifist jafnar um landið.
          Stutt lýsing: Flugþróunarsjóður styðji við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Árangur verði mældur í fjölgun ferðamanna sem koma með flugi/fjölda lendinga.
          Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Flugþróunarsjóður.
          Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, Isavia, landshlutasamtök sveitarfélaga og áfangastaðastofur.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir:
Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 og Flugstefna Íslands.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 11, einkum undirmarkmið 8.2, 9.1, 9.4 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.

C. Stuðla að sjálfbærni byggða um land allt.
C.1. Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða.
          Markmið: Að heimafólki verði færð aukin ábyrgð á ráðstöfun fjármuna og sóknaráætlanir landshluta verði tengdar við byggðaáætlun.
          Stutt lýsing: Landshlutasamtök sveitarfélaga geti í samstarfi við haghafa í hverjum landshluta sótt um framlög í samkeppnissjóð vegna verkefna sem nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans eða landshlutanum í heild. Verkefni sem talin eru hafa varanleg áhrif, eru atvinnuskapandi og hvetja til nýsköpunar verði í forgangi. Sérstök áhersla verði lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf með gerð viðaukasamninga við sóknaráætlanir viðkomandi landshluta um tiltekin verkefni eftir forgangsröðun heimafólks.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Byggðastofnun og landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál, ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, háskólar, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Sóknaráætlanir landshluta, stefnur/áætlanir ríkisins sem hafa áhrif á byggðaþróun.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 700 millj. kr.

C.2. Brothættar byggðir.
          Markmið: Að spornað verði við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarlögum.
          Stutt lýsing: Haldið verði áfram með verkefnið Brothættar byggðir þar sem leitað er lausna á bráðum vanda á tilteknum svæðum vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi undangengin ár. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í íbúaþróun í þátttökubyggðarlögum.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Íbúar viðkomandi byggðarlaga, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga, ráðuneyti og stofnanir.
          Tímabil:
2022–2026.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 11, einkum undirmarkmið 8.3, 8.9, 9.4 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 600 millj. kr.

C.3. Grænt og snjallt Ísland.
          Markmið: Að nýttar verði snjallar og grænar lausnir til að efla atvinnulíf og samfélag.
          Stutt lýsing: Unnið verði í víðtæku samstarfi að framtíðarsýn fyrir Ísland sem einkennist af sjálfbærni, jöfnum tækifærum og samstarfi um verkefni sem nýta snjallar og grænar lausnir til að efla atvinnulíf og samfélag. Skilgreind verði lykilverkefni og grænar fjárfestingar sem nauðsynlegt er að ráðast í til þess að markmiðið um Grænt og snjallt Ísland (GOS) verði að veruleika. Í tengslum við GOS verði sett á fót samstarfsteymi sem m.a. samhæfir sókn í fjármagn, þ.m.t. í ESB-sjóði.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Samband íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við teymi sem stofnað verður.
          Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga, Íslandsstofa, Byggðastofnun, Verkefnastofa um stafrænt Ísland, háskólar.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Aðgerðaáætlun um eflingu stafrænnar þjónustu, Framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar, Stefna í málefnum sveitarfélaga, orkustefna, nýsköpunarstefna og klasastefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 7, 9, 12 og 13, einkum undirmarkmið 7.2, 7.3, 9.5, 12.2, 12.5, 12.8 og 13.2.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 5 millj. kr.

C.4. Borgarstefna.
          Markmið: Að stærstu þéttbýlissvæðin verði efld og samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun landsins styrkt.
          Stutt lýsing: Með hliðsjón af vinnu starfshóps um mótun höfuðborgarstefnu og starfshóps um svæðisbundið hlutverk Akureyrar verði mótaðar stefnur sem annars vegar skilgreini hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og stuðli að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og hins vegar hlutverk og uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Í vinnunni verði viðmið OECD um mótun og inntak borgarstefnu lögð til grundvallar eftir því sem við á.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Innviðaráðuneyti, Reykjavíkurborg, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Akureyrarbær og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.
          Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, Byggðastofnun, Skipulagsstofnun og ýmsir haghafar.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Landsskipulagsstefna, samgönguáætlun, svæðisskipulag og aðrar skipulagsáætlanir sveitarfélaga.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 4 millj. kr.

C.5. Húsnæðismál.
          Markmið: Að tryggt verði nægilegt framboð af fjölbreyttu íbúðarhúsnæði með fjölgun íbúða á svæðum þar sem skortur á hentugu húsnæði hamlar eðlilegri framþróun og uppbyggingu atvinnulífs.
          Stutt lýsing: Gripið verði til margvíslegra aðgerða til að bregðast við skorti á hentugu íbúðarhúsnæði, hvort sem er til leigu eða kaupa, á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins þar sem bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði eru á að fá fjármögnun á almennum markaði. Slíkar aðgerðir geti til að mynda falist í viðbótarframlagi til almennra íbúða (sérstakt byggðaframlag), lánveitingum til nýbygginga, samstarfi við Leigufélagið Bríeti um framboð á leiguíbúðum og stuðningi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á hönnunar- og undirbúningsstigi og verið liður í verkefninu Tryggð byggð. Markaðsbrestur á mismunandi svæðum verði greindur, m.a. til að nýta megi sem best húsnæðisstuðning, svo sem í formi viðbótarstofnframlaga. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í fjölda íbúða sem byggðar verða á fyrrnefndum svæðum.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Leigufélagið Bríet, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og Byggðastofnun.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Húsnæðis- og skipulagsáætlanir sveitarfélaga, landsskipulagsstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.1, 11.3 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12,5 millj. kr.

C.6. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga.
          Markmið: Að raunhæfar og markvissar húsnæðisáætlanir verði í gildi hjá öllum sveitarfélögum á stafrænu formi og þær endurskoðaðar árlega.
          Stutt lýsing: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vinni að því að innleiða stafrænar húsnæðisáætlanir með það að markmiði að auðvelda sveitarfélögum gerð þeirra og uppfærslu og auka áreiðanleika þeirra upplýsinga sem þar koma fram. Sveitarfélög skili áætlunum sínum í áætlanakerfi HMS. Stuðlað verði að því að sveitarfélög vinni saman að gerð húsnæðisáætlana, t.d. á vettvangi landshlutasamtaka. Framkvæmd verði sameiginleg þarfagreining, m.a. í tengslum við landsskipulagsstefnu, svæðisskipulag og þá þætti í aðalskipulagi sem snúa að framboði og eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði, einkum til leigu. Í húsnæðisáætlunum komi fram hvernig íbúðaþörf mismunandi hópa verði mætt, þ.m.t. að fötluðu fólki sem býr á stofnunum eða herbergjasambýlum verði boðnir aðrir búsetukostir og staðan á því verkefni kortlögð og metin við árlega endurskoðun húsnæðisáætlunar.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélög og Skipulagsstofnun.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Húsnæðis- og skipulagsáætlanir sveitarfélaga.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.1, 11.3 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12,5 millj. kr.

C.7. Efling fjölmiðlunar í héraði.
          Markmið: Að öflugir fjölmiðlar um land allt verði stoð undir lýðræðislega umræðu og fjölbreyttan fréttaflutning.
          Stutt lýsing: Veittir verði styrkir til einkarekinna staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins enda gegni þeir mikilvægu hlutverki við að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um menningar- og samfélagsmál. Efni þeirra sé fjölbreytt og ætlað almenningi á útbreiðslusvæði fjölmiðilsins og styðji þannig við lýðræðisþátttöku og menningarstarf.
          Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Dæmi um samstarfsaðila: Fjölmiðlanefnd og Byggðastofnun.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 10, 11 og 16, einkum undirmarkmið 10.2, 10.3, 11.3 og 16.10.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12,5 millj. kr.

C.8. Sjálfbær samfélög – efling hringrásarhagkerfis.
          Markmið: Að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda við meðhöndlun úrgangs, unnið að kolefnishlutleysi Íslands og dregið úr myndun úrgangs. Enn fremur að endurvinnsla og önnur endurnýting verði aukin, dregið úr urðun og urðun lífbrjótanlegs úrgangs hætt.
          Stutt lýsing: Dregið verði úr myndun úrgangs, flokkun og endurvinnsla aukin og stuðlað að meiri samræmingu á landsvísu. Horft verði til þess að sveitarfélög nýti svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem stjórntæki og að þau samþætti viðeigandi stefnumörkun og áætlanir til að efla hringrásarhagkerfið, bæti auðlindanýtingu og dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda. Veittir verði styrkir til sveitarfélaga til þess að styrkja úrgangsforvarnir og bæta meðhöndlun úrgangs í sveitarfélögum, einkum byggðarlögum sem búa við veikan fjárhag, mjög dreifða byggð eða neikvæða byggðaþróun.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Sveitarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök iðnaðarins, Fenúr og fyrirtæki í úrgangsgeiranum.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, Orkustefna, klasastefna, Saman gegn sóun – almenn stefna um úrgangsforvarnir 2016–2027, stefna um meðhöndlun úrgangs 2021–2032, Matarauðlindin Ísland – matvælastefna Íslands til ársins 2030.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 2, 9, 11, 12 og 13, einkum undirmarkmið 2.4, 9.4, 11.6, 12.3, 12.4, 12.5, 12.8, 13.2 og 13.3.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 85 millj. kr.

C.9. Náttúruvernd til eflingar byggðaþróun.
          Markmið: Að þáttur náttúruverndar í byggðaþróun verði efldur.
          Stutt lýsing: Greint verði hvernig aukin náttúruvernd geti haft jákvæð áhrif á byggðaþróun og hvaða tækifæri og ávinningur gætu falist í því innan eins eða fleiri sveitarfélaga. Gerð verði grein fyrir hvernig náttúruverndaráform samræmist stefnu hlutaðeigandi sveitarfélags eða sveitarfélaga og hvernig megi best nýta þau tækifæri sem felast í náttúruvernd, svo sem með uppbyggingu innviða og þjónustu.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og Umhverfisstofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Markaðsstofur, Skipulagsstofnun, Byggðastofnun, háskólar.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Náttúruverndaráætlun og verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun), landsskipulagsstefna, landsáætlun um uppbyggingu innviða, landsáætlun í skógrækt 2021–2031 (í vinnslu, mars 2022) og landgræðsluáætlun 2021– 2031 (í vinnslu, mars 2022).
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 6, 11, 13 og 15, einkum undirmarkmið 6.3, 11.3, 11.4, 13.2, 15.1, 15.2, 15.3 og 15.9.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 30 millj. kr.

C.10. Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög.
          Markmið: Að heildræna nálgun á aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga verði mótuð.
          Stutt lýsing: Stigin verði fyrstu skrefin í mótun heildrænnar nálgunar á aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga í byggðum landsins. Tilviksrannsóknir verði framkvæmdar í litlum hópi ólíkra sveitarfélaga, t.d. hvað varðar fjarlægð frá sjó, þéttbýli, landslag, gróðurlendi og atvinnustarfsemi, með það að markmiði að þróa aðferðafræði sem nýtast muni á seinni stigum sem leiðarvísir fyrir íslensk sveitarfélög til frekari greininga á áhættu, tjónnæmi og aðlögunarþörf, sem og uppsetningu aðlögunaráætlana. Horft verði til sambærilegra áhættugreininga erlendis frá, sér í lagi þeirra sem sveitarfélög hérlendis hafa tekið þátt í. Niðurstöðurnar verði einnig nýttar í norrænt samstarfsverkefni um aðlögun smærri samfélaga á norðurslóðum.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Veðurstofa Íslands, Skipulagsstofnun, Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, landshlutasamtök, ráðuneyti, stofnanir, háskólar og Norræna ráðherranefndin.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna um aðlögun að loftslagsbreytingum, landsskipulagsstefna, aðlögunaráætlun (í vinnslu, mars 2022).
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 13.1.–13.3.
          Tillaga að fjármögnun: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

C.11. Bætt landnotkun sveitarfélaga.
          Markmið: Að binding kolefnis verði aukin og dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi með breyttri landnotkun.
          Stutt lýsing: Greind verði tækifæri sem felast í breyttri landnotkun innan sveitarfélaga í þágu loftslagsmála með aukinni kolefnisbindingu í skógrækt og endurheimt vistkerfa, samdrætti í losun frá landi, svo sem þurrkuðu votlendi eða rofnu landi, eða breyttri landnýtingu. Unnin verði tækifærisgreining sem geti orðið grunnur stefnumörkunar í aðalskipulagi.
          Ábyrgðarráðuneyti: Matvælaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Skógræktin, Landgræðslan, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, landsáætlun í skógrækt 2021–2031 (í vinnslu, mars 2022) og landgræðsluáætlun 2021–2031 (í vinnslu, mars 2022) og landsskipulagsstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 6, 11, 13 og 15, einkum undirmarkmið 6.6, 11.3, 13.2, 15.1 og 15.2.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 25 millj. kr.

C.12. Uppsetning og rekstur matvælakjarna.
          Markmið: Að nýsköpun og vöruþróun heima í héraði verði styrkt og stutt við matarfrumkvöðla með bættri og útbreiddari aðstöðu.
          Stutt lýsing: Komið verði á fót matvælakjörnum (matarsmiðjum/tilraunaeldhúsum) víðar um landið en nú er. Matvælakjarni sé vottað vinnslurými þar sem frumkvöðlar og smáframleiðendur hafi aðgang að aðstöðu til að framleiða og þróa vörur. Samhliða verði komið á fót stöðu matvælafulltrúa sem hafi það hlutverk að sjá um rekstur matvælakjarnans og hafa yfirsýn yfir matvælaframleiðslu á viðkomandi svæði. Hann verði tengiliður á milli frumframleiðenda, annarra matvælaframleiðenda, ferðaþjónustuaðila og veitingamanna á svæðinu. Með aðgerðinni verði neysla afurða úr nærsamfélaginu aukin, vöruþróun styrkt og matarfrumkvöðlum og smáframleiðendum verði auðveldað að þróa hugmyndir sínar til nýsköpunar og nýtingar hráefnis úr héraði.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, matvælaráðuneyti, Matís ohf., Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, matar- og vörusmiðjur í landinu.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Matarauðlindin Ísland, matvælastefna Íslands til ársins 2030, nýsköpunarstefna, klasastefna, tillögur starfshóps um aðgerðir gegn matarsóun.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 2, 8, 9 og 12, einkum undirmarkmið 2.4, 8.2, 8.4, 8.9, 9.1, 9.3, 9.4, 12.2 og 12.3.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 20 millj. kr.

C.13. Opinberar upplýsingar á sviði byggðamála.
          Markmið: Að þekkingargrunnur stefnumótunar og framkvæmdar á sviði byggðamála verði styrktur.
          Stutt lýsing: Unnið verði að öflun nýrrar þekkingar á sviði byggðamála í samstarfi við opinberar stofnanir, m.a. með rannsóknum, uppbyggingu tölfræðilegra gagnagrunna þar sem upplýsingar um þætti á borð við íbúaþróun, kyn, atvinnuþátttöku, tekjur, menntun og afkomu atvinnugreina verði aðgengilegar og samhæfðar við alþjóðlega gagnagrunna. Tölfræðilegir mælikvarðar sem byggist á upplýsingum um landfræðilega legu, lýðfræðilega þætti og efnahagslegar og félagslegar aðstæður verði notaðir til að leggja mat á stöðu svæða. Þannig verði til nokkurs konar byggðavísitala sveitarfélaga sem gefin verði út reglulega og geti nýst sem árangursmælikvarði og við mat á sértækum byggðaaðgerðum. Upplýsingar um byggðaþróun og þróun borgarsvæða verði aðgengilegar og samanburðarhæfar við upplýsingar annars staðar á Norðurlöndum.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Skipulagsstofnun, Hagstofan, Skatturinn, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11 og 17, einkum undirmarkmið 11.a, 17.13 og 17.17.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 125 millj. kr.

C.14. Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi.
          Markmið: Að þekkingargrundvöllur stefnumótunar og framkvæmdar á sviði byggðamála verði styrktur með aðgengi að alþjóðlegum straumum og stefnum á því sviði.
          Stutt lýsing: Virk þátttaka verði í alþjóðlegu samstarfi, svo sem undir merkjum Nora, Nordregio, Norðurslóðaáætlunar, ESPON og OECD, og þekkingar- og hugmyndafræðilegur grundvöllur byggðaaðgerða þannig styrktur og efldur.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Innviðaráðuneyti og Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, aðrar þekkingar- og rannsóknarstofnanir, landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélög, atvinnulífið.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11 og 17, einkum undirmarkmið 11.a, 17.13, 17.14, 17.16 og 17.17.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 410 millj. kr.

C.15. List fyrir alla.
          Markmið: Að öllum árgöngum grunnskóla verði gert kleift að njóta listverkefna á vegum Listar fyrir alla.
          Stutt lýsing: Listviðburðir verði valdir og þeim miðlað um land allt og þannig verði jafnaður aðgengismunur barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla verði lögð á menningu fyrir börn og menningu með börnum. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur með fjölda skóla sem taka þátt í verkefninu og fjölda árganga skólabarna sem býðst þátttaka.
          Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: List fyrir alla.
          Dæmi um samstarfsaðila:
Sveitarfélög, menningarfulltrúar og grunnskólar.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menningarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 25 millj. kr.

C.16. Jafnrétti í sveitarstjórnum.
          Markmið: Að sveitarstjórnir verði efldar og aukin vitund sköpuð um mikilvægi fjölbreyttra sjónarmiða innan þeirra.
          Stutt lýsing: Stuðlað verði að því að sveitarstjórnir endurspegli fjölbreytileika mannlífsins til þess að ákvarðanataka í þágu þjónustu við íbúa sé sem best og í samræmi við áætlanir sveitarfélaga í jafnréttismálum. Unnið verði markvisst að því að viðhalda jöfnu kynjahlutfalli í sveitarstjórnum og fólk með fjölbreyttan bakgrunn, t.d. af erlendum uppruna, verði hvatt til þátttöku í stjórnun nærsamfélagsins. Samhliða verði unnið að því að laga starfsaðstæður í sveitarstjórnum að fjölbreyttum aðstæðum fólks og stutt við möguleika á að samræma starfið fjölskyldu- og einkalífi.
          Ábyrgðarráðuneyti: Forsætisráðuneyti.
          Framkvæmdaaðili: Jafnréttisstofa.
          Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, Fjölmenningarsetur, Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna í málefnum sveitarfélaga 2019–2033.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 5, einkum undirmarkmið 5.5.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 3 millj. kr.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í júní 2018 samþykkti Alþingi stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 sem unnin var samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015. Skömmu eftir samþykkt byggðaáætlunar voru samþykktar breytingar á lögunum með lögum nr. 53/2018 sem kveða á um að ráðherra skuli á að minnsta kosti þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Markmið laganna er áfram að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála, innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga og færa til sveitarstjórna aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar.
    Byggðamál heyra stjórnarfarslega undir innviðaráðuneyti en snerta í eðli sínu flesta málaflokka ríkisins og varða þannig öll ráðuneyti. Áætlunin er mikilvægt tæki fyrir stjórnvöld á hverjum tíma til að hafa áhrif á framgang og móta stefnu í byggðamálum fyrir landið í heild sem og einstök svæði. Hafa ber í huga að með ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA, nr. 051/22/COL, eru tiltekin þau svæði á landinu þar sem byggðaaðstoð er heimil. Landið allt utan höfuðborgarsvæðisins fellur innan þeirra skilgreininga.
    Íslensk byggðastefna og byggðaáætlun byggjast á lögbundnum meginmarkmiðum sem snúa að því að jafna aðstöðu og efla sjálfbæra byggðaþróun. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Stjórnvöld hafa unnið að þessum markmiðum með því að beita ýmsum áætlunum öðrum en byggðaáætlun, svo sem á sviði samgangna, mennta-, heilbrigðis- og atvinnumála. Áhrif á byggðamál eru því mun víðtækari en byggðaáætlun ein og sér. Lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta kveða því jafnframt á um að byggðaáætlun skuli lýsa samhæfingu byggðastefnu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera og samráði við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra.
    Byggðamálaráð, sem starfar í umboði ráðherra, leiðir vinnu við gerð byggðaáætlunar og hófst endurskoðun gildandi áætlunar í júní 2020. Verkið var unnið af starfsfólki samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins (síðar innviðaráðuneytis) og Byggðastofnunar. Samráð og samhæfing hafa verið leiðarljós við þá vinnu. Samráðið hefur m.a. birst í fjölda funda sem haldnir hafa verið, bæði í aðdraganda stöðumats (grænbókar) og stefnudraga (hvítbókar). Til dæmis var fundað minnst tvisvar með hverjum landshlutasamtökum sveitarfélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Enn fremur voru haldnir fundir með alþingismönnum og stjórnendum allra ráðuneyta en auk þess var efnt til fjölda funda með sérfræðingum ráðuneytanna. Samhæfingin birtist meðal annars í nánu samráði við ábyrgðaraðila annarra málaflokka ríkisins þar sem leitað var leiða til að tengja byggðaáætlun sem mest við aðrar opinberar stefnur og áætlanir. Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál fer með lykilhlutverk þegar kemur að samhæfingu áætlana á vegum ríkisins. Boðið var upp á opið samráð á vef Byggðastofnunar og bæði stöðumat (grænbók) og drög að stefnu (hvítbók) voru lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is þar sem haghöfum og almenningi gafst kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum. Alls bárust 18 umsagnir um stöðumatið og 34 umsagnir um stefnudrögin. Umsagnirnar voru almennt jákvæðar og uppbyggilegar. Við sumum þeirra var unnt að bregðast með því að færa efni þeirra inn í hvítbók annars vegar og þingsályktunartillögu hins vegar. Tekið verður mið eftir atvikum af öðrum umsögnum í vinnu við framkvæmd byggðaáætlunar. Það sem helst var gagnrýnt var að í drögum að aðgerðaáætlun í hvítbókinni var ekki gerð grein fyrir fjármögnun aðgerða. Í tillögu til þingsályktunar kemur hins vegar fram tillaga að fjárveitingu af byggðaáætlun.
    Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 voru kynnt og samþykkt í ríkisstjórn 4. júní 2021 og lögð fram á Alþingi í sama mánuði sem þingskjal 1849, 872. mál en var ekki afgreidd. Sú þingsályktunartillaga sem hér er lögð fram hefur tekið breytingum með hliðsjón af nýjum ríkisstjórnarsáttmála og breytingum á skipan Stjórnarráðs Íslands. Breytingarnar eru unnar í nánu samráði við viðkomandi ráðuneyti og stofnanir, auk Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá hafa breytingarnar verið kynntar landshlutasamtökum sveitarfélaga.

2. Framtíðarsýn og meginmarkmið.
    Innviðaráðuneytið vinnur að því að samhæfa áætlanagerð á öllum meginsviðum ráðuneytisins sem leggja grunn að innviðum og þjónustu í samfélaginu. Þessi svið mynda eina heild þar sem starfsemi eins hefur mikil áhrif á hin. Samhæfing áætlana snýr bæði að samræmingu á vinnslu og framsetningu en einnig að því að þær vinni saman að áherslumálum ráðherra. Með samhæfingu áætlana er þannig leitast við að hámarka árangur og auka jákvæð áhrif.
    Unnið er eftir sameiginlegri framtíðarsýn og meginmarkmiðum í áætlunum ráðuneytisins. Tilfærsla málefna milli ráðuneyta getur haft áhrif á efni framtíðarsýnar og meginmarkmiða. Framtíðarsýnin er að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi byggðir landsins og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið. Meginmarkmiðin eru að innviðir og þjónusta mæti þörfum samfélagsins og að sjálfbærar byggðir og sveitarfélög verði um land allt.
    Það er mat ráðuneytisins að virk stefnumótun sé forsenda framfara og borgurum, fyrirtækjum og stofnunum nauðsynleg. Þegar lýðræðissamfélög þurfa að takast á við sameiginlegar áskoranir móta þau sér stefnu og áætlanir. Sameina þarf kraftana og brýnt er að allir hlutaðeigandi komi að samhæfðri úrlausn mála.

3. Lykilviðfangsefni.
    Byggðamál eru skilgreind sem öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, svo sem búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta. Samkvæmt þessari skilgreiningu eru byggðamál viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti.
    Helstu áskoranir á sviði byggðaþróunar eru fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf, tækniþróun, samspil þéttbýlis og dreifbýlis, uppbygging innviða, umhverfis- og loftslagsmál og samkeppnishæfni. Tengja þarf eflingu sveitarstjórnarstigsins, jafnréttissjónarmið og umhverfis- og loftslagsmál við þessar áskoranir og úrlausn þeirra.
    Til að takast á við þessar áskoranir verður unnið að eftirfarandi fimm lykilviðfangsefnum sem nánar verður gerð grein fyrir í köflum 3.1–3.5. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem sýnd eru með myndum, eru tengd hverju lykilviðfangsefni en útfærsla tengingarinnar er skilgreind við hverja aðgerð í þingsályktunartillögunni. Lykilviðfangsefnin byggjast á áherslum sem fram komu í samráði sem haft var við gerð byggðaáætlunar og þróun síðustu ára á flestum sviðum samfélagsins, svo sem í atvinnuháttum, efnahag, þjónustu, menningu og menntun, samgöngum, mannfjöldaþróun og samsetningu íbúafjölda.

3.1 Lýðfræðileg þróun og grunnþjónusta.
    Lykilviðfangsefni er að takast á við lýðfræðilegar áskoranir og ójafnræði þegar kemur að grunnþjónustu. Landsmönnum hefur fjölgað talsvert undanfarin ár en fjölgunin er að mestu bundin við höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess. Þessi þróun hefur m.a. leitt til þess að nú búa um 64% íbúa landsins á höfuðborgarsvæðinu, sem er verulega hærra hlutfall en í nágrannalöndunum. Þetta ójafnvægi í búsetumynstri kallar á nýja hugsun við skipulag og aðgengi að grunnþjónu stu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




3.2 Fjölbreytt atvinnulíf.
    Lykilviðfangsefni er að nýta tækifæri sem felast í fjórðu iðnbyltingunni og skapa fjölbreytt störf um land allt. Nýsköpun og hagnýting nýrrar tækni þarf að eiga sér stað um land allt og huga þarf sérstaklega að þeim svæðum sem byggjast á hefðbundnum atvinnugreinum, framþróun þeirra og samkeppnishæfni.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




3.3 Innviðir.
    Lykilviðfangsefni er að traustir innviðir séu til staðar um land allt, bæði efnislegir og samfélagslegir, sem taka mið af ólíkum þörfum kynjanna. Til dæmis eru góðar samgöngur mikilvægar fyrir byggðaþróun og til að styrkja atvinnu- og þjónustusóknarsvæði. Aðgengi að endurnýjanlegri orku og háhraða fjarskiptatengingar skapa tækifæri til að jafna aðgengi að þjónustu, atvinnu og afþreyingu. Þá er nægt framboð af viðeigandi íbúðarhúsnæði og gott aðgengi að þjónustu grundvallarþættir í búsetuvali fólks.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




3.4 Umhverfis- og loftslagsmál.
    Lykilviðfangsefni er að takast á við áskoranir í umhverfis- og loftslagsmálum. Aukin verðmætasköpun með hringrás vöru og þjónustu og fullnýtingu hráefna stuðlar að sjálfbærari nýtingu náttúruauðlinda. Aukin verndun náttúruverðmæta styrkir stoðir þjónustu í héraði. Markmið um kolefnishlutleysi og aðlögun að loftslagsbreytingum felur í sér að minnka þarf losun gróðurhúsalofttegunda, auka bindingu kolefnis en jafnframt auka viðnámsþrótt samfélaga. Efla þarf græna orkuframleiðslu og vinna að orkuskiptum til að mæta markmiði um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2050.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




3.5. Alþjóðleg samkeppnisstaða og sjálfbærni byggða.
    Lykilviðfangsefni er að bregðast við harðnandi alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki og stuðla að samspili þéttbýlis og dreifbýlis til uppbyggingar sjálfbærra byggðarlaga. Nýta þarf styrkleika þéttbýlismyndunar og styðja við sérstöðu einstakra svæða í þágu þeirra og landsins alls. Mannlíf, menning og blómlegt atvinnulíf hefur aðdráttarafl fyrir fólk og fyrirtæki hvaðanæva að.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




4. Markmið, áherslur og mælikvarðar.
    Fjallað er um byggðaáætlun í 3. gr. laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015. Markmiðin eru þríþætt:

A. Jafna aðgengi að þjónustu.
    Að jafna aðgengi að þjónustu felur m.a. í sér að hún verði veitt í nærsamfélaginu eftir því sem unnt er eða stafrænt og að aðgengi að miðlægri þjónustu verði jafnað, hvort sem er með nýtingu tæknilausna eða lágmörkun á kostnaði vegna þjónustusóknar.

B. Jafna tækifæri til atvinnu.
    Að jafna tækifæri til atvinnu felur m.a. í sér að bæta innviði, svo sem fjarskipti, samgöngur og afhendingargetu og öryggi í raforkumálum. Enn fremur að stoðkerfi stuðli að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi og að tækifæri til starfa hjá hinu opinbera og einkaaðilum verði jöfnuð óháð búsetu.

C. Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt.
    Að stuðla að sjálfbærni byggða um land allt felur m.a. í sér styrkingu efnahags-, félags- og umhverfislegra þátta, eflingu sveitarfélaga, bætt aðgengi að grunnþjónustu, fjölbreytt atvinnulíf og blómlega starfsemi í menningarmálum og afþreyingu sem tekur mið af ólíkri stöðu og þörfum íbúa.
    Samkvæmt lögunum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir skal byggðaáætlun lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

    Við útfærslu á öllum markmiðum verður leitast við að beita aðferðafræði altækrar hönnunar þar sem tekið er mið af ólíkri stöðu og þörfum allra íbúa landsins. Altæk hönnun/nálgun felur í sér að leitast er við að hanna og skipuleggja efnislega og óefnislega innviði þannig að þeir séu aðgengilegir öllum einstaklingum óháð persónubundnum þörfum og aðstæðum hvers og eins.
    Til þess að ná þessum markmiðum eru lagðar til margs konar áherslur sem leiða annaðhvort til beinna og skilgreindra aðgerða eða eru til samhæfingar og stuðnings við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum.
    Settir eru fram níu mælikvarðar, þrír fyrir hvert markmið. Almennt eru mælikvarðarnir settir fram eftir landshlutum en í aðalatriðum er einnig hægt að greina upplýsingar eftir sveitarfélögum og byggðakjörnum. Mælikvarðarnir eru til þess gerðir að unnt sé að fylgjast með árangri af framkvæmd byggðaáætlunar.

5. Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir.
    Samhæfing byggðaáætlunar við aðrar stefnur og áætlanir hefur verið leiðarljós í vinnu við endurskoðun byggðaáætlunar. Ávinningur af samhæfingu er fjölþættur og felur meðal annars í sér möguleika á betri nýtingu fjármuna, auknu gegnsæi og samvinnu í ólíkum málaflokkum um sambærilegar eða sameiginlegar áherslur og aðgerðir. Með samhæfingu er unnt að hámarka árangur opinberra áætlana á öllum stigum stjórnsýslunnar og auka þannig jákvæð áhrif. Því er mikilvægt að sameina krafta og tryggja að allir hlutaðeigandi komi að úrlausn mála.
    Innviðaráðuneytið vinnur að því að samhæfa áætlanagerð á öllum meginsviðum ráðuneytisins sem leggja grunn að innviðum og þjónustu í samfélaginu. Þessi svið mynda eina heild þar sem starfsemi eins hefur mikil áhrif á hin. Samhæfing áætlana snýr að bæði samræmingu á vinnslu og framsetningu en einnig að því að þær vinni saman að áherslumálum ráðherra. Með samhæfingu áætlana er þannig leitast við að hámarka árangur og auka jákvæð áhrif.
    Unnið er eftir sameiginlegri framtíðarsýn og meginmarkmiðum áætlana ráðuneytisins. Með hliðsjón af breytingum á Stjórnarráðinu og tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta mun innviðaráðuneytið endurskoða framtíðarsýn sína og meginmarkmið. Þannig munu byggða-, sveitarstjórnar-, samgöngu-, húsnæðis- og skipulagsmál vinna samkvæmt sameiginlegri sýn og markmiðum til að efla byggðir og tryggja sem jöfnust búsetugæði um land allt.
    Þá kveða lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir á um að byggðaáætlun skuli samhæfð við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun hefur þannig sérstöku samhæfingarhlutverki að gegna þar sem leitast er við að hafa áhrif á aðrar stefnur og áætlanir og draga fram byggðasjónarmið við gerð þeirra. Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál gegnir mikilvægu samhæfingarhlutverki en með honum hefur verið komið á fót tengslaneti fulltrúa allra ráðuneyta, landshlutasamtaka og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Endurskoðun byggðaáætlunar hefur miðast við að tryggja slíka samhæfingu og skapa tengingar við aðrar opinberar áætlanir sem í gildi eru á hverjum tíma og hafa skýra byggðatengingu. Þannig snertir byggðaáætlun stefnu í fjarskiptum, samgöngumálum, heilbrigðismálum, málefnum innflytjenda, menningarmálum og umhverfismálum, svo dæmi séu tekin. Mikilvægt er að halda því til haga að allar áherslur og aðgerðir byggðaáætlunar eru settar fram í nánu samráði við og með samþykki viðkomandi ábyrgðarráðuneytis.
    Samhæfing áætlana á ekki aðeins við gagnvart ríkinu. Í lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir er gerð krafa um að í sóknaráætlunum landshluta skuli mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taka mið af markmiðum byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og eftir atvikum annarri opinberri stefnumótun. Landshlutasamtökum sveitarfélaga er þannig gert að taka mið af stefnumörkun ríkisins. Að sama skapi þarf ríkið í auknum mæli að taka mið af sóknaráætlunum hvers landshluta. Til þess að þetta geti gengið eftir er brýnt að gott og reglulegt samráð eigi sér stað á milli þessara aðila.
    Samhliða endurskoðun byggðaáætlunar hefur verið unnið tilraunaverkefni undir leiðsögn forsætisráðuneytisins þar sem hugað hefur verið sérstaklega að kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Í byggðaáætlun er riðið á vaðið hvað þetta varðar en gert er ráð fyrir að það verði meginregla að samhæfa kynja- og jafnréttissjónarmið allri opinberri áætlanagerð. Slík samhæfing byggðasjónarmiða þarf einnig að verða meginregla til að opinberar stefnur og áætlanir nýtist öllum óháð búsetu og stuðli þannig að sem mestu jafnvægi í byggð landsins. Við þessa endurskoðunarvinnu hefur verið lögð áhersla á að stíga skref í þá átt.
    Mikilvægt er að við framkvæmd laga um opinber fjármál verði fjallað sérstaklega um byggðasjónarmið í tengslum við mótun og framlagningu fjármálaáætlunar og fjárlaga hvers árs.

6. Áhrif á íslenskt samfélag.
    Öflug byggðastefna hefur margvísleg áhrif á íslenskt samfélag og gegnir byggðaáætlun mikilvægu samfélagslegu hlutverki sem felst í því að hafa áhrif á aðrar opinberar áætlanir og tryggja að byggðasjónarmið nái þar fram að ganga. Við endurskoðun byggðaáætlunar var lögð áhersla á samhæfingu opinberra áætlana og að horfa til samspils dreifbýlis og þéttbýlis með það að markmiði að landið allt myndi sterka heild.
    Í þingsályktunartillögunni eru lagðar fram 49 áherslur og 43 aðgerðir sem öllum er ætlað að hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Sumum þeirra er ætlað að styrkja samkeppnishæfni landsins en öðrum er ætlað að styrkja landshluta eða svæði innan þeirra. Enn öðrum er ætlað að styðja við atvinnulífið og fólkið í landinu. Oftar en ekki styðja aðgerðirnar við allt framangreint.

6.1. Áhrif á alþjóðlega stöðu
    Ísland á í alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki og því er mikilvægt að horfa til landsins alls við mótun og framkvæmd byggðastefnu. Í tillögunni er lögð áhersla á skilvirkt laga- og reglugerðarumhverfi til að bregðast megi við harðnandi samkeppni og virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á sviði byggðamála og rannsókna.
    Dæmi um aðgerð sem ætlað er að styðja við samkeppnishæfni landsins alls er aðgerðin Háhraðanettengingar (A.1) . Með tengingu allra heimila og vinnustaða við ljósleiðara eða háhraðanet verður til eitt mesta forskot Íslands á alþjóðavísu og með því nær Ísland að halda stöðu sinni sem eitt af forysturíkjum heims í uppbyggingu fjarskiptainnviða og nýtingu þeirra í þágu samfélagsins, hvort heldur sem er til að jafna aðgengi að þjónustu og afþreyingu, jafna tækifæri til atvinnu eða auka sjálfbærni byggða.
    Alþjóðleg samkeppnisstaða landsins er háð því að Reykjavík, sem höfuðborg og höfuðborgarsvæðið sem heild, hafi sterka stöðu í samkeppni við borgarsvæði erlendis um fólk, stofnanir og fyrirtæki. Aðgerðinni Borgarstefna (C.4) er bæði ætlað að efla samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og landsins alls. Reykjavík hefur þróast, ásamt aðliggjandi byggðum, í öflugasta menningar-, efnahags- og markaðssvæði á landinu og hefur því mikla þýðingu fyrir alla íbúa landsins og byggðaþróun í landinu. Að sama skapi myndi stefnumörkun um uppbyggingu annars borgarsvæðis í landinu á grunni Akureyrar styrkja alþjóðlega samkeppnisstöðu landsins enn frekar. Með því stæði fólki, fyrirtækjum og stofnunum til boða tvenns konar borgarumhverfi í landinu sem styrkti samkeppnisstöðu landsins á alþjóðavettvangi.

6.2. Áhrif á landshluta
    Hvert svæði og eftir atvikum hver landshluti hefur sína styrkleika og sérkenni sem nýta þarf og byggja upp með sjálfbærum hætti til að efla viðkomandi byggðarlög. Þannig nýtast styrkleikarnir heildinni best. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn, þó að hlekkirnir í byggðamynstri landsins séu vissulega ólíkir. Lögð er áhersla á að lokið verði við greiningu á styrkleikum einstakra svæða með tilliti til atvinnuuppbyggingar og fjárfestingaáherslur skilgreindar og á þeim grunni verði hvatt til grænna fjárfestinga um land allt. Þá hefur áhersla sem lögð er á að efla og stækka vinnu- og þjónustusóknasvæðin með betri innviðum áhrif á stöðu landshlutanna.
    Dæmi um aðgerð sem ætlað er að hafa jákvæð samfélagsleg áhrif á landshluta eða svæði innan þeirra er Almenningssamgöngur milli byggða (A.10). Með því að styðja við þróun almenningssamgangna, þ.m.t. að tengja þær við ýmsa sérakstursþjónustu, eykst samkeppnishæfni og sjálfbærni byggðanna og með því að þróa áfram hugmyndir um samflutning farms og farþega og deiliakstur má tryggja og/eða styrkja lágmarksþjónustu í dreifðustu byggðunum. Mikil áhersla er lögð á að efla landshlutana, m.a. með því að þróa áfram aðferðafræði sóknaráætlana landshluta og brothættra byggða. Þannig gerir þingsályktunartillagan ráð fyrir að mestu fjármagni verði varið til aðgerðanna Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða (C.1) og Brothættar byggðir (C.2). Aðgerðin Óstaðbundin störf (B.7) er ekki aðeins mikilvægur þáttur í að efla búsetufrelsi fólks og auka fjölbreytni atvinnulífsins heldur eykur hún jafnframt félagslegan fjölbreytileika og styrkir þannig viðnámsþrótt viðkomandi landshluta.

6.3. Áhrif á atvinnulíf
    Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf er forsenda búsetu. Áhersla er lögð á mikilvægi áframhaldandi uppbyggingar innviða, bæði efnahagslegra og félagslegra. Nýsköpun, stafrænni þróun og frumkvöðlastarfi verður gert hátt undir höfði í öllum landshlutum og stutt við klasasamstarf sem tæki til byggðaþróunar. Áhersla er lögð á að efla skapandi greinar sem vaxandi atvinnuveg og skapa skilyrði fyrir atvinnustarfsemi á sviði lista og menningar sem víðast um landið.
    Dæmi um aðgerð sem ætlað er að hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf er Efling nýsköpunar í byggðum landsins (B.3) sem ætlað er að efla stuðningsumhverfi fyrir atvinnuskapandi hugmyndir frumkvöðla og fyrirtækja. Aðgerðinni Óstaðbundin störf (B.7) er ætlað að jafna dreifingu starfa og stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi sem víðast um landið og aðgerðinni Þrífösun og jarðstrengjavæðing (B.1) er ætlað að skapa forsendur fyrir atvinnutækifærum með auknu afhendingaröryggi raforku og aðgengi að áreiðanlegri orku á landsvísu.

6.4. Áhrif á einstaklinga
    Lýðfræðilegir þættir á borð við aldur, kyn, uppruna og íbúafjölda eru lykilþættir í þróun allra samfélaga. Áhersla er lögð á að unnið verði með fjölbreytileikann og þau tækifæri sem felast í mannauðnum verði nýtt í hverju byggðalagi. Tækifæri til atvinnu og aðgengi að þjónustu leggja grunn að búsetufrelsi einstaklinga og í tillögunni er að finna bæði áherslur og aðgerðir sem stuðla að því. Þá er lögð áhersla á að íbúar landsins, ekki síst börn og ungmenni, hafi aðgang að menningu, listum, íþróttum og öðrum tómstundum óháð búsetu og efnahag.
    Dæmi um aðgerð sem ætlað er að hafa jákvæð áhrif á einstaklinga er Verslun í dreifbýli (A.9). Það eykur lífsgæði íbúa að þurfa ekki að fara um langan veg eftir dagvöru og er mikilvæg forsenda búsetu. Aðgerðinni Nærþjónusta við innflytjendur (A.7) er ætlað að bæta aðgengi innflytjenda að opinberri þjónustu og tveimur aðgerðum (A.5 og A.6) er ætlað að bæta aðgengi einstaklinga að heilbrigðisþjónustu. Þá eiga þrjár aðgerðir (A.11–A.13) að stuðla að jafnræði leik- og grunnskólabarna og framhaldsskólanemanda til náms og bæta aðgengi þeirra að fagfólki. Enn og aftur má svo nefna aðgerðina Óstaðbundin störf (B.7) sem er grundvallarþáttur í að efla búsetufrelsi fólks svo það geti sinnt starfi sínu frá þeim stað sem það sjálft kýs.

6.5. Efnahagsleg áhrif
    Efnahagsleg áhrif byggðaáætlunarinnar eru talsverð. Samkvæmt fjármálaáætlun 2022–2026 verða framlög til hennar rúmir 3,5 milljarðar kr. og eru þá frátalin framlög til flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara. Efnahagslegu áhrifin eru þó mun meiri því flestar aðgerðir eru fjármagnaðar með framlagi úr öðrum málaflokkum og stuðningur byggðaáætlunar er því aðeins hluti af heildarfjármögnuninni.
    Framlög til málaflokks 8.2 Byggðamál hafa aukist á undanförnum árum, eins og sést í töflu 1. Heildarframlag ríkissjóðs nam um 1,6 milljörðum kr. árið 2013 en árið 2020 var það tæpir þrír milljarðar kr., á verðlagi hvors árs. Á árinu 2020 hækkuðu framlögin enn frekar vegna byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshluta. Skýringin á því felst að mestu leyti í ýmsum tímabundnum framlögum vegna áhrifa COVID-19-faraldursins og átaksverkefna ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2022 nema framlög til byggðaáætlunar 923 millj. kr., þar með talið framlag til flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, sem hefur verðið lagður niður, en opinberum stuðningi við framboð orkugjafa til samgangna á byggðalega viðkvæmum svæðum verður haldið áfram með stuðningi úr byggðaáætlun, sem fær rúmlega 172 millj, kr. aukalega til ráðstöfunar. Þá er veitt tímabundið 100 millj. kr. aukalega til sóknaráætlana landshluta.

Tafla 1 Framlög til málaflokks 8.2 Byggðamál 2013–2022, ásamt áætlun 2023–2026.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Forsendur:
    Allar tölur eru á verðlagi hvers árs.
    Um er að ræða heildarfjárveitingar hvers árs, þ.e. að meðtöldum fjáraukalögum o.fl.
    Árið 2020 tekur mið af millifærslum, fjáraukalögum og framlagi úr varasjóði að því marki sem búið er að afgreiða á árinu. Fjáraukalög 5 eru ekki inni í tölunum.
    Árin 2024–2026 miðast við 1% aðhald, en óvissa ríkir um það.

    Framlögin sem hér eru sýnd eru eingöngu til málaflokks 8.2 Byggðamál. Þarna eru ekki tilgreind ýmis önnur framlög sem þó tengjast byggðamálum beint. Má þar sérstaklega nefna framlag mennta- og menningarmálaráðuneytisins til sóknaráætlana landshluta sem nemur árlega 223 millj. kr.
    Aðgerðir í byggðaáætlun 2018–2024 hafa skilað margvíslegum samfélagslegum árangri og er endurskoðaðri áætlun ætlað jafnvel enn stærra hlutverk í þeim efnum. Það mikla samráð sem viðhaft er við gerð byggðaáætlunar og samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir er til þess fallið að skila auknum árangri.

6.6. Mat á áhrifum byggðaáætlunar á samfélag og umhverfi.
    Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun er ekki framkvæmda- eða skipulagsáætlun en henni er ætlað samhæfingarhlutverk, að hafa áhrif á aðrar stefnur og áætlanir og draga fram byggðasjónarmið við gerð þeirra. Þannig er áætluninni ætlað að hafa fjölþætt áhrif á stefnu og undirbúning framkvæmda í mörgum málaflokkum ríkis og sveitarfélaga. Aðgerðir byggðaáætlunar geta því leitt til sérstakra verkefna sem háð eru mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, þó svo að byggðaáætlun sjálf falli ekki þar undir.
    Við mótun byggðaáætlunar hefur engu að síður verið horft til margra þátta sem jafnan er gert í umhverfismati. Þess er vænst að samfélagsleg áhrif af áherslum og aðgerðum byggðaáætlunar og samhæfingu þeirra við aðra áætlanagerð verði veruleg og felist meðal annars í því að meira jafnvægi verði milli landshluta í íbúaþróun með bættri þjónustu og styrkingu atvinnulífs. Kappkostað var að vinna sem best í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og því hafa lykilviðfangsefni og allar aðgerðir byggðaáætlunar verið tengdar viðeigandi heimsmarkmiðum.

7. Lýðfræði og efnahagsþróun.
    Í þessum kafla er horft til lýðfræði og efnahagsþróunar í samhengi við þau lykilviðfangsefni sem skilgreind eru í þingsályktunartillögunni. Lýðfræðileg þróun á borð við íbúafjölda, aldurssamsetningu og kynjahlutföll er í eðli sínu langtímaþróun en breytingar yfir styttri tímabil geta þó gefið vísbendingar um tilhneigingu og eðli breytinga.
    Sé horft til tímabilsins frá 1. janúar 1998 til 1. janúar 2021 fjölgaði landsmönnum um 96.411, úr 272.381 í 368.792 eða um 35,4%. Þessi fjölgun dreifist mjög misjafnlega á milli landshluta, allt frá 79,4% fjölgun (Suðurnes) til 16,9% fækkunar (Vestfirðir), eins og fram kemur í töflu 2 og á mynd 1.

Tafla 2 Íbúafjöldi og breyting eftir landshlutum 1998 og 2021.
Svæði 1998 2021 Breyting
Ísland 272.381 368.792 96.411 35,4%
Höfuðborgarsvæði 164.606 236.528 71.922 43,7%
Utan höfuðborgarsvæðis 107.775 132.264 24.489 22,7%
Suðurnes 15.715 28.195 12.480 79,4%
Vesturland 13.924 16.710 2.786 20,0%
Vestfirðir 8.556 7.108 -1.448 -16,9%
Norðurland vestra 8.252 7.400 -852 -10,3%
Norðurland eystra 28.417 30.613 2.196 7,7%
Austurland 9.946 10.850 904 9,1%
Suðurland 22.965 31.388 8.423 36,7%

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1 Breytingar á íbúafjölda eftir landshlutum 1998-2021. (Heimild: Byggðastofnun og Hagstofa Íslands)

    Sé litið til tímabilsins 2014–2021 fjölgaði landsmönnum um 43.121 eða 13,2%. Við blasir nokkuð breytt mynd hvað varðar dreifingu fjölgunarinnar, sjá töflu 3 og mynd 2. Á síðustu sjö árum fækkaði íbúum ekki í neinum landshluta, þótt fjölguninni sé enn mjög misskipt, eða allt frá 30,8% fjölgun á Suðurnesjum niður í 2% fjölgun á Vestfjörðum.

Tafla 3 Íbúafjöldi 2014–2021.
Svæði 2014 2015 2016 2017 2018 2019 2020 2021 Breyting í %
Ísland 325.671 329.100 332.529 338.349 348.450 356.991 364.134 368.792 13,2
Höfuðborgarsv. 208.752 211.282 213.619 216.878 222.484 228.231 233.034 236.528 13,3
Utan hb.svæðis 116.919 117.818 118.910 121.471 125.966 128.760 131.100 132.264 13,1
Suðurnes 21.560 22.026 22.509 23.993 25.770 27.113 27.829 28.195 30,8
Vesturland 15.441 15.566 15.766 15.929 16.257 16.507 16.662 16.710 8,2
Vestfirðir 6.972 6.970 6.883 6.870 6.994 7.063 7.115 7.108 2,0
Norðurland v. 7.245 7.137 7.128 7.156 7.195 7.227 7.322 7.400 2,1
Norðurland e. 29.091 29.257 29.361 29.685 30.453 30.445 30.600 30.613 5,2
Austurland 10.357 10.346 10.281 10.310 10.485 10.670 10.739 10.850 4,8
Suðurland 26.253 26.516 26.982 27.528 28.812 29.735 30.833 31.388 19,6


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Mynd 2 Breytingar á íbúafjölda eftir landshlutum 2014–2021. (Heimild: Byggðastofnun/Hagstofa Íslands)

    Eins og glögglega kemur fram í þessum tölum á íbúafjölgun undangenginna ára sér nánast öll stað á höfuðborgarsvæðinu og í þeim landshlutum sem næst því liggja, Vesturlandi, Suðurnesjum og Suðurlandi. Þannig fjölgar íbúum á þessum svæðum á tímabilinu 1998–2021 samtals um 95.611 af heildarfjölgun landsmanna sem var 96.411. Samanlögð heildarfjölgun á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austfjörðum var á sama tíma einungis 800 manns. Á tímabilinu 2014–2021 voru þessar tölur 40.815 og 2.306 af heildarfjölgun í landinu sem var 43.121.
    Ef horft er á svæðið sem hvað best liggur við höfuðborgarsvæðinu varðandi samgöngur (Borgarbyggð í vestri til Mýrdalshrepps í austri) á í raun öll íbúafjölgun landsins á tímabilinu 1998–2021 sér stað þar, einungis fjölgar um 60 íbúa utan þess svæðis, en á tímabilinu 2014–2021 nemur fjölgunin utan þess 2.791 íbúa. Á tímabilinu frá 1998 fækkar íbúum raunar alls staðar annars staðar á landinu með tveimur undantekningum sem máli skipta í heildarmyndinni. Annars vegar fjölgar íbúum á Akureyri og nágrenni 1 um rúm 23,6% (4.091) og í Múlaþingi og Fjarðabyggð um 12,3% (1.105).
    Í töflu 4 má sjá hvernig þessi þróun birtist, annars vegar sem fjöldatala en hins vegar sem hlutfall, þar sem heildarfjölgun beggja tímabilanna sem hér eru til skoðunar hefur verið deilt niður á árafjöldann. Við blasir að fjölgunin á svæðinu Borgarbyggð – Mýdalshreppur jafngildir einum stórum bæ á hverju ári allt tímabilið. Á sama tíma er árleg fjölgun á Akureyrarsvæðinu á pari við lítið þorp og á öðrum svæðum hefur þróunin verið enn veikari. Ljóst má vera að verði hún óbreytt mun það leiða til enn aukins misvægis í íbúaþróun landsins.
Tafla 4 Árleg breyting íbúafjölda eftir tímabilum.
Svæði 1998–2021 2014–2021
Árleg breyting Árleg breyting
Fjöldi Hlutfall Fjöldi Hlutfall
Borgarbyggð - Mýrdalshreppur 4.189 2,05% 5.761 2,21%
Akureyrarsvæði 178 1,03% 191 0,95%
Fjarðabyggð og Múlaþing 48 0,53% 72 0,75%
Önnur svæði -223 -0,54% 136 0,38%
Akureyrarsvæðið er hér skilgreint sem Akureyrarbær, Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit og Svalbarðsstrandarhreppur.

    Á þeim hluta landsins sem í töflunni er skilgreindur sem „önnur svæði“ hefur þróunin alls ekki verið einsleit og þar má finna sveitarfélög og byggðarlög sem búið hafa við þokkalegan stöðugleika og jafnvel vöxt, sérstaklega frá 2014. Hins vegar er einnig að finna á þessu svæði öll þau byggðarlög sem búið hafa við viðvarandi fólksfækkun, sem yfirleitt helst í hendur við einhæft atvinnulíf og oft einnig fjarlægð frá stærri þjónustukjarna. Þannig hafa mörg sveitarfélög á þessu svæði tapað allt frá fimmtungi til ríflega þriðjungs íbúanna á tímabilinu frá 1998.
    Sú þróun sem hér hefur verið lýst hefur m.a. leitt til þess að nú búa um 64% íbúa landsins á höfuðborgarsvæðinu. Til samanburðar má geta þess að um 36% íbúa Danmerkur búa á Kaupmannahafnarsvæðinu, um 30% íbúa Noregs á Óslóarsvæðinu og 26% íbúa Finnlands á Helsinkisvæðinu en hlutfallið er lægst í Svíþjóð þar sem tæp 22% íbúanna búa á Stokkhólmssvæðinu. Þessi staða ásamt fámenni hefur leitt til þess að umræðan um byggðamál hér á landi hefur haft tilhneigingu til að kristallast í andstæðunum höfuðborgarsvæði – landsbyggð.
    Byggðaþróunin getur einnig tengst þróun sveitarstjórnarstigsins en í stefnumarkandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga frá árinu 2020 er lögð áhersla á að sveitarfélög verði í stakk búin til að takast á við samfélagsbreytingar og byggðaþróun. Þau þurfi að búa yfir afli til uppbyggingar og sóknar til hagsbóta fyrir íbúa sína og landsmenn alla. Markmið sveitarstjórnaráætlunarinnar miðar að því að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni og takast á við breytingar í umhverfi þeirra, tækniþróun og áskoranir á sviði umhverfismála. Gangi áætlunin eftir munu breytingar á sveitarstjórnarstigi geta haft jákvæð áhrif á jafnari þróun og dreifingu íbúafjöldans.
    Ójöfn kynjahlutföll hafa verið talin eitt af einkennum byggðarlaga og svæða sem búa við fækkun eða stöðnun í íbúafjölda. 2 Þetta er þó ekki einhlítt enda getur innflutningur fólks, sérstaklega vinnuafls til skemmri tíma, haft veruleg áhrif á þessi hlutföll en þar eru karlar gjarnan í meiri hluta. Í töflu 5 er yfirlit yfir kynjaskiptinguna eftir landshlutum og landið í heild, bæði fyrir heildaríbúafjöldann og aldurshópinn 20–39 ára.

Tafla 5 Kynjaskipting í ársbyrjun 2021 eftir landshlutum og aldri.
(Heimild: Byggðastofnun)
Svæði Allir 20-39 ára
Kk% Kvk% Kk% Kvk%
Ísland 51,3% 48,7% 52,9% 47,1%
Höfuðborgarsvæði 50,9% 49,1% 52,6% 47,4%
Utan höfuðborgarsvæðis 52,0% 48,0% 53,6% 46,4%
Suðurnes 53,4% 46,6% 56,0% 44,0%
Vesturland 52,2% 47,8% 52,9% 47,1%
Vestfirðir 52,1% 47,9% 53,8% 46,2%
Norðurland vestra 51,0% 49,0% 51,4% 48,6%
Norðurland eystra 50,7% 49,3% 52,2% 47,8%
Austurland 52,6% 47,4% 53,4% 46,6%
Suðurland 51,9% 48,1% 53,2% 46,8%

    Ein stærsta lýðfræðilega breytingin sem orðið hefur á íslensku samfélagi frá aldamótum, en þó einkum á síðustu árum, er mikil fjölgun fólks af erlendum uppruna. Hlutfall íbúa með erlent ríkisfang var 2,1% 1998 en 13,6% árið 2021. Þetta hlutfall er mjög misjafnt milli landshluta og einstakra sveitarfélaga. Það er tæp 45% þar sem það er hæst en rúmt 1% í því sveitarfélagi þar sem það er lægst. Ef horft er á landshlutaskiptinguna, sjá mynd 3, er hlutfallið í ársbyrjun 2021 rúmlega 8% þar sem það er lægst en rúm 23% þar sem það er hæst.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Mynd 3 Hlutfall íbúa með erlent ríkisfang í ársbyrjun 2021 eftir landshlutum.
(Heimild: Byggðastofnun)

    Í nýuppfærðri mannfjöldaspá Byggðastofnunar, sem byggist á spá Hagstofu Íslands, var mannfjöldinn eftir svæðum framreiknaður til ársins 2070. Spáin tekur mið af sögulegum gögnum um búferlaflutninga milli landshluta, dánarhlutfalli og frjósemishlutfalli. Í töflunni hér að neðan er miðspá Hagstofunnar brotin niður á landshluta fyrir árin 2026 og 2036 í samanburði við rauntölur frá 1. janúar 2021.

Tafla 6 Mannfjöldaspá eftir landshlutum. (Heimild: Byggðastofnun)
2021 2026 2036   Breyting Breyting Breyting
2021–2026 2026–2036 2021–2036
Höfuðborgarsvæði 236.528 272.497 286.419   35.969 15,2%   13.922 5,1%   49.891 21,1%
Suðurnes 28.195 33.124 35.693   4.929 17,5%   2.569 7,8%   7.498 26,6%
Vesturland 16.710 18.292 17.370   1.582 9,5%   -922 -5,0%   660 3,9%
Vestfirðir 7.108 7.240 5.863   132 1,9%   -1.377 -19,0%   -1.245 -17,5%
Norðurland vestra 7.400 7.905 6.999   505 6,8%   -906 -11,5%   -401 -5,4%
Norðurland eystra 30.613 33.438 31.546   2.825 9,2%   -1.892 -5,7%   933 3,0%
Austurland 10.850 11.924 11.039   1.074 9,9%   -885 -7,4%   189 1,7%
Suðurland 31.388 35.841 36.328   4.453 14,2%   487 1,4%   4.940 15,7%
Landið allt 368.792 420.261 431.257   51.469 14,0%   10.996 2,6%   62.465 16,9%

    Samkvæmt spánni verður fjölgun í öllum landshlutum til 2026 þó að fjölgunin sé langmest á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi. Nokkur fjölgun verður einnig í öðrum landshlutum en þó einungis tæp 2% á þessu fimm ára tímabili á Vestfjörðum. Sé hins vegar horft til tímabilsins til 2036 breytist myndin talsvert og verulega dregur úr fólksfjölguninni samkvæmt spánni. 3 Áfram búa þeir þrír landshlutar þar sem vöxturinn er mestur fram til 2026 þó við öflugan vöxt á meðan hin svæðin rétt halda sjó eða standa frammi fyrir fólksfækkun, jafnvel talsverði. Aldurs- og kynjaskipting svæðanna er með ólíkum hætti, sem hefur áhrif á spá um náttúrulega fjölgun. Stærsti óvissuþátturinn í mannfjöldaspám eru hins vegar búferlaflutningar en helstu áhrifaþættir hvað þá varðar eru hinir ýmsu efnahags- og félagslegu þættir sem hafa bein og óbein áhrif á búsetuval fólks.
    Efnahagsþróun hefur jafnan mikil áhrif á búferlaflutninga til og frá landinu og eins og fram hefur komið fjölgaði íbúum í öllum landshlutum frá 2014–2020, en mismikið þó. Aðfluttir umfram brottflutta voru fleiri öll ár tímabilsins með áberandi toppi á mestu vaxtarárum ferðaþjónustunnar 2016–2019 en árið 2017 voru aðfluttir umfram brottflutta 8.240 eða 2,44% heildaríbúafjöldans. Á tímabilinu var flutningsjöfnuður fólks með íslenskt ríkisfang neikvæður um rúmlega 1.500 manns en jákvæður um rúmlega 30 þús. manns hjá fólki með erlent ríkisfang, sem endurspeglast í ört hækkandi hlutfalli íbúa af erlendum uppruna sem gerð var grein fyrir hér að framan.
    Af framansögðu má ljóst vera að ójafnvægi ríkir hvað íbúaþróun eftir landshlutum varðar og fari svo fram sem horfir mun sú þróun halda áfram næstu áratugi. Sum svæði hafa verið og munu áfram verða í örum vexti en önnur búa við stöðnun og jafnvel samdrátt. Samhliða þessari þróun hefur fólki af erlendum uppruna fjölgað mjög í landinu á undanförnum árum. Sú lýðfræðilega þróun sem hér hefur verið varpað ljósi á skapar ýmsar áskoranir varðandi skipulag og aðgengi að grunnþjónustu. Það er því eitt af lykilviðfangsefnum byggðaáætlunar að takast á við þær áskoranir til að draga úr því ójafnvægi sem einkennir byggðamynstrið en þetta sama ójafnvægi kallar jafnframt á nýja hugsun við útfærslu grunnþjónustunnar.
    Framfærsluhlutfall segir til um hlutfall þeirra aldurshópa sem skilgreindir eru utan vinnualdurs (0–19 ára og 65 ára og eldri) af fólki á vinnualdri (20–64 ára). Hlutfallið er því bæði lýðfræðilegt og efnahagslegt þar sem það mælir hve stór hluti íbúafjöldans stendur undir verðmætasköpun atvinnulífsins á hverjum tíma með vinnu sinni. Árið 2000 var þetta hlutfall 74,5% á landsvísu en sveiflaðist talsvert á milli landshluta, eða allt frá 71,2% á höfuðborgarsvæðinu upp í 83,4% á Norðurlandi vestra. Árið 2014 var hlutfallið 68,4% fyrir landið í heild og sveiflan milli landshluta frá 66,1% á höfuðborgarsvæðinu upp í 78,0% á Norðurlandi vestra. Sama þróun hefur svo haldið áfram og árið 2021 var hlutfallið orðið 65,3% fyrir landið í heild, lægst á Suðurnesjum 57,9% og hæst á Norðurlandi vestra 78,7%.
    Mynd 4 sýnir þróun meðalatvinnutekna eftir landshlutum fyrir tímabilið 2008–2020. Eins og sést á myndinni eru þær misjafnar eftir landshlutum og þó að heildarsveiflan yfir tímabilið fylgi sömu tilhneigingu eru þó athyglisverð frávik milli svæða eftir árum. Þær voru hæstar á höfuðborgarsvæðinu 2008 en í kjölfar bankahrunsins féllu þær verulega og frá 2009 –2016 voru hæstu meðaltekjurnar á Austurlandi. Líkt og á höfuðborgarsvæðinu féllu meðaltekjur verulega á Suðurnesjum í kjölfar hrunsins og voru lægstar í þeim landshluta 2009–2013. Frá 2014–2019 vermdi Norðurland vestra hins vegar það sæti. Með tilkomu heimsfaraldurs COVID-19 lækka meðalatvinnutekjur í öllum landshlutum en mismikið þó. Áberandi er að tekjufallið verður mest þar sem vægi ferðaþjónustu er hlutfallslega mikið. Þannig falla Suðurnesin úr fjórða sæti 2018 niður í áttunda og neðsta sæti 2020 og einnig verður verulegt tekjufall á Suðurlandi. Hins vegar halda Vestfirðir og Austurland nokkuð vel sjó og skipa tvö efstu sætin hvað varðar meðalatvinnutekjur árið 2020. Ekki er ólíklegt að auk tiltölulega lítils hlutfallslegs vægis ferðaþjónustunnar eigi uppsveifla í fiskeldi stóran þátt í stöðunni í þessum landshlutum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 4 Meðalatvinnutekjur eftir landshlutum 2008–2020. (Heimild: Byggðastofnun)

    Í töflu 7 er yfirlit yfir hagvöxt í landinu á tímabilinu 2012–2019 en ekki liggja fyrir nýrri tölur skipt niður á landshluta. Talsverðar breytingar eru á hagvexti í landinu frá ári til árs og sveiflurnar einnig misjafnar á milli landshluta. Það sama á raunar við innan landshluta en til að mynda virðist vera samband á milli þéttleika byggðar og hagvaxtar, sem nánar verður vikið að síðar. Á tímabilinu var hagvöxtur í landinu 35%, sem jafngildir um 4,3% árlegum vexti hagkerfisins. Mestur varð vöxturinn á Suðurnesjum eða 76%, sem gerir 8,4% árlegan meðalvöxt, en hann sveiflast mikið innan tímabilsins, eða frá 2% árið 2019 upp í 15% árið 2017. Minnstur varð hagvöxturinn á Austurlandi eða aðeins 12%, sem jafngildir um 1,6% árlegum meðalvexti. Þar eru sveiflurnar einnig talsverðar milli ára, allt frá 4% vexti árin 2015 og 2018 niður í 3% samdrátt 2016. Aðrir landshlutar liggja þarna á milli, Suðurland er yfir landsmeðaltalinu, höfuðborgarsvæðið við það en aðrir landshlutar nokkuð undir því. Almennt má segja að þeir landshlutar þar sem vöxtur ferðaþjónustunnar var mestur hafi búið við kröftugasta hagvöxtinn á tímabilinu. 4

Tafla 7 Hagvöxtur landshluta 2012–2019. (Heimild: Hagfræðistofnun og Byggðastofnun)
2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 2012– 2019 Á ári
Höfuðborgarsvæði 4,0% 3,0% 5,0% 7,0% 5,0% 5,0% 2,0% 35,0% 4,4%
Utan höfuðborgarsvæðis 4,0% 2,0% 5,0% 6,0% 5,0% 5,0% 2,0% 33,0% 4,2%
Suðurnes 6,0% 4,0% 9,0% 14,0% 15,0% 9,0% 2,0% 76,0% 8,4%
Vesturland 1,0% 4,0% 4,0% 5,0% 4,0% 6,0% 0,0% 27,0% 3,4%
Vestfirðir 5,0% -1,0% 5,0% 4,0% 0,0% 5,0% 5,0% 25,0% 3,2%
Norðurland vestra 3,0% 0,0% 1,0% 4,0% 0,0% 4,0% 5,0% 18,0% 2,4%
Norðurland eystra 3,0% 2,0% 3,0% 5,0% 2,0% 3,0% 1,0% 21,0% 2,7%
Austurland 3,0% 1,0% 4,0% -3,0% 2,0% 4,0% 1,0% 12,0% 1,6%
Suðurland 4,0% 2,0% 5,0% 8,0% 5,0% 6,0% 4,0% 41,0% 5,0%
Allt landið 4,0% 3,0% 5,0% 7,0% 5,0% 5,0% 2,0% 35,0% 4,3%

    Eins og vikið var að hér að framan segir hagvöxtur í heilum landshlutum ekki alla söguna því að fólki fækkar í dreifbýli og fámennum þorpum (a.m.k. hlutfallslega) en fjölgar í stærri þjónustukjörnum. Vöxtur í heilum landshlutum ræðst þess vegna að hluta til af því hvort slíkir kjarnar hafi náð að vaxa þar. Akureyri hefur til dæmis eflst jafnt og þétt frá síðustu aldamótum en byggð hefur látið undan síga víðast hvar annars staðar á Norðurlandi eystra. Á mynd 5 má sjá samhengi hagvaxtar og þéttbýlis. Þar er meðalhagvöxtur á ári frá 2012–2019 á lóðrétta ásnum en lárétti ásinn sýnir hve stórt hlutfall íbúa viðkomandi landshluta bjó í bæjum með meira en 2.000 íbúum árið 2012. Þegar myndin er skoðuð sést að nokkur leitni er á milli hlutfalls íbúa stórra bæja af heildaríbúafjölda viðkomandi landshluta og hagvaxtar á tímabilinu. Stærð hringjanna sýnir framleiðsluvirði í viðkomandi landshluta árið 2012.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 5 Hagvöxtur og þéttleiki byggðar. (Heimild: Hagfræðistofnun og Byggðastofnun)

    Eins og dæmi voru nefnd um hér að framan er nokkur munur milli landshluta og einstakra svæða í efnahagslegu tilliti. Hlutur einstakra atvinnugreina er misjafn eftir svæðum, sem hefur m.a. veruleg áhrif á meðalatvinnutekjur, og hagvöxtur sveiflast að einhverju marki eftir stöðu einstakra atvinnugreina. Fjölbreytt atvinnulíf um land allt er því eitt þeirra lykilviðfangsefna sem vinna þarf að til að draga úr sveiflum og jafna samkeppnisstöðu milli svæða. Í því samhengi er mikilvægt að nýta tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar, svo sem á sviði stafrænnar þróunar og sjálfvirkni, og ekki síst á þeim svæðum sem byggjast á hefðbundnum framleiðslugreinum. Framþróun þeirra helst einnig að verulegu leyti í hendur við græna umbyltingu en sjálfbærni og hringrásarhagkerfi eru lykilþættir til að takast á við áskoranir í umhverfis- og loftslagsmálum. Traustir innviðir, bæði efnislegir og samfélagslegir, eru forsenda þess að atvinnulífið um land allt geti staðið undir sjálfbæru velsældarsamfélagi í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki.

8. Byggðamál í alþjóðlegu samhengi.
    Byggðaþróun sem einkennist af þéttbýlismyndun ásamt íbúafækkun, skökkum kynjahlutföllum og öldrun samfélaga í dreifbýli er ekki séríslenskt fyrirbæri. Segja má að um hnattræna meginþróun (e. global megatrend) sé að ræða og að flest einkenni þessarar þróunar, í svokölluðum þróuðum ríkjum, séu áþekk.
    Hinar undirliggjandi fræðilegu og pólitísku forsendur fyrir því að reka byggðastefnu (e. regional policy) byggjast á því að efnahagsleg starfsemi, a.m.k. í tiltölulega frjálsu markaðshagkerfi, hafi tilhneigingu til samþjöppunar og geti þannig skapað svæðisbundinn mismun. Það leiði til þess að auðlindir, þ.m.t. mannauður, þeirra svæða sem verða undir í hinni efnahagslegu þróun séu vannýttar jafnframt því sem ofálag getur orðið á þeim svæðum sem eru í mestum vexti. 5 Samþjöppun efnahagsstarfseminnar endurspeglast m.a. í þéttbýlismyndun og þeim miklu búferlaflutningum sem henni tengjast.
    Til að takast á við þessa þróun reka flest lönd í okkar heimshluta byggðastefnu af einhverju tagi. Nærtækast er að horfa til Evrópu og þá einkum og sér í lagi Norðurlandanna enda félags- og efnahagsgerðin þar einna líkust því sem er hér á landi. Framan af var lögð áhersla á að rétta stöðu þeirra svæða sem urðu undir í samkeppninni um fólk og fyrirtæki með ýmsum ívilnunum og beinum fjárframlögum. Síðar meir hefur áherslan verið að færast yfir í það að vinna með styrkleika og tækifæri einstakra svæða og byggja þannig upp samkeppnishæfar efnahagslegar heildir.
    Þróuninni sem orðið hefur í málaflokknum í okkar heimshluta frá því um miðja síðustu öld og til dagsins í dag er lýst í töflu 8. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er um að ræða lýsingu á þróun sem felur í sér skörun á milli tímabila og því sýnir taflan áherslubreytingar yfir tíma fremur en skýr kaflaskil.

Tafla 8 Áherslubreytingar í byggðamálum.
Hefðbundin byggðastefna Ný byggðastefna
Markmið Jafna stöðu svæða með tímabundnum ívilnunum. Efla samkeppnishæfni á grunni svæðisbundinna styrkleika.
Aðferð Á grunni einstakra atvinnugreina. Samþætt þróunarverkefni.
Tæki Niðurgreiðslur og ríkisaðstoð. Uppbygging efnislegra og samfélagslegra innviða.
Gerendur Ríkisvaldið. Ýmis stjórnvöld.
Einingar Stjórnsýslueiningar Félags- og efnahagsheildir.
Afleiðing Endurdreifing gæða frá sterkari svæðum til þeirra veikari. Uppbygging samkeppnishæfra svæða á grunni svæðisbundinna styrkleika.

    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt voru af öllum aðildarríkjunum árið 2015 og gilda fyrir tímabilið 2016–2030, eru mikilvægur vegvísir samfélagsþróunar næstu ára. Þau mynda samþætt jafnvægi hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir og því er mikilvægt að ekki sé eingöngu horft til meðaltala við árangursmælingar heldur til þess að markmiðin hafi raunverulega náð til allra. Mörgum (jafnvel flestum) þeirra verður ekki náð nema með virkri aðkomu staðbundinna stjórnvalda í samvinnu við ríkisvaldið og eftir atvikum í alþjóðlegu samstarfi. 6
    Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur frá árinu 1999 starfrækt sérstaka nefnd til stefnumörkunar á sviði svæðisbundinnar þróunar (e. Regional Development Policy Committee). Hlutverk hennar er að skapa vettvang fyrir greiningu, umræðu og miðlun varðandi svæðisbundna þróun, sem er staðfærð, tekur til allra stjórnsýslustiga, gengur þvert á atvinnugreinar og byggist á rannsóknum og nýsköpun. Jafnframt styður nefndin við bætt búsetugæði hvort sem er í borgum, bæjum eða dreifbýli og að svæðin hvert um sig geti nýtt tækifæri sín og stuðli þannig að sem öflugustum samfélögum. 7 Í ljósi þess að .hlutar íbúa aðildarlanda OECD búa í borgum og að þær eru aflvélar nýsköpunar, hefur stofnunin, m.a. í samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og alþjóðleg samtök borga, unnið að því að þróa svokallaða borgarstefnu (e. national urban policy). Meginmarkmiðið með henni er að styrkja borgarsamfélög til að takast á við þær áskoranir sem m.a. felast í heimsmarkmiðunum, og efla samtal milli stjórnsýslustiga um stefnumótun, m.a. hvernig samspili borga við sitt nær- og fjærumhverfi sé best háttað. 8
    Evrópusambandið hefur í áratugi rekið byggðastefnu sem á sér rætur í stofnsáttmála sambandsins. Frá árinu 1986 hefur verið lögð megináhersla á að styrkja efnahagslega og samfélagslega samheldni (e. economic and social cohesion) með því að styðja við svæði sem með einhverjum hætti hafa orðið undir í samkeppninni um fólk og fyrirtæki. Framan af var áhersla lögð á stuðning við uppbyggingu innviða og þó að sú áhersla sé enn uppi hefur þunginn færst yfir á það hvernig einstök svæði geti sem best nýtt styrkleika sína til uppbyggingar sjálfbærrar þróunar innan sambandsins sem heildar. Veita þurfi jákvæðum og neikvæðum áhrifum samþjöppunar efnahagsstarfseminnar athygli, byggja sem bestar samgöngu- og fjarskiptatengingar og tryggja aðgengi að grunnþjónustu. Þá sé mikilvægt að þróa samstarf og samvinnu milli svæða þar sem mörg hinna stærri úrlausnarefna, svo sem á sviði loftslagsmála, eigi sér í raun engin landamæri. 9
    Framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar frá 2019 um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030 setur ákveðinn ramma um alla stefnumótun á sviði samfélags- og byggðaþróunar. Áherslurnar sem lagðar eru, græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd, snerta á öllum þremur víddum sjálfbærninnar. Forgangsverkefnin eru að: i) greiða fyrir grænum umskiptum og vinna að kolefnishlutleysi og sjálfbæru hringrásar- og lífhagkerfi, ii) efla grænan hagvöxt sem byggist á þekkingu, nýsköpun, hreyfanleika og stafrænni samþættingu og iii) efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð. 10 Áherslur og aðgerðir þeirrar tillögu að byggðaáætlun sem hér er lögð fram falla vel að þessari sýn og þeim forgangsverkefnum sem skilgreind eru.
    Það verður því áfram sérstakt verkefni stjórnvalda á komandi árum að fylgjast með og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði byggðamála. Einkum þarf að horfa til þeirra landa þar sem sýnilegur og mælanlegur árangur hefur náðst í að jafna skilyrði til búsetu og lífsgæða óháð landfræðilegri staðsetningu. Samanburður í þeim efnum gagnast við áframhaldandi þróun íslenskrar byggðastefnu. Einkum og sér í lagi er áhugavert að horfa til árangursríkra byggðaaðgerða sem beitt hefur verið í Noregi í ljósi þess að löndin eru í sömu stöðu gagnvart regluverki Evrópska efnahagssvæðisins. Þá getur Ísland einnig miðlað af góðri reynslu sinni, t.d. hvað varðar sóknaráætlanir landshluta og þá svæðisbundnu valddreifingu sem í þeim felast.

9. Aðgerðaáætlun 2022–2026.
    Til að ná fram lögbundnum markmiðum byggðaáætlunar er lögð fram aðgerðaáætlun sem nær til fimm ára, 2022–2026. Þar eru tilgreindar 43 aðgerðir sem skiptast þannig að 16 aðgerðir tengjast markmiði um að jafna aðgengi að þjónustu, 11 aðgerðir tengjast markmiði um að jafna tækifæri til atvinnu og loks tengjast 16 aðgerðir því markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt.
    Ýmsar aðgerðir eru beint eða óbeint framhald af aðgerðum í byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 en aðrar eru nýjar og afrakstur þess mikla samráðs sem átti sér stað í aðdraganda tillögunnar. Aðgerðir eru ýmist fjármagnaðar með framlagi af byggðaáætlun og/eða viðkomandi ábyrgðarráðuneyta. Fjárveitingar byggðaáætlunar verða þannig nýttar til fjármögnunar aðgerða, ýmist til samfjármögnunar með ábyrgðar- og framkvæmdaaðilum eða að öllu leyti. Tillagan er sett fram með fyrirvara um samþykkt fjárlaga hvers árs, fimm ára fjármálaáætlun og mögulega breytta forgangsröðun, t.d. vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Verk- og kostnaðarlýsing hverrar aðgerðar verður unnin í kjölfar samþykktrar þingsályktunartillögu þessarar. Innviðaráðuneytið mun hafa yfirumsjón með framkvæmd áætlunarinnar í heild.
    Aðgerðirnar eru allar afrakstur náins samráðs við ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og fleiri haghafa og eru settar fram í fullu samráði við viðkomandi ábyrgðarráðuneyti.
    Heildarkostnaður aðgerðaáætlunarinnar liggur ekki fyrir en mun ráðast af fjárheimildum fjárlaga hverju sinni og nánara kostnaðarmati sem gert verður í tengslum við verkefnisáætlun fyrir hverja aðgerð. Hér á eftir eru tekin dæmi af einstökum aðgerðum undir hverju hinna þriggja markmiða.

A. Jafna aðgengi að þjónustu
    Aðgerðir sem miða að því markmiði að jafna aðgengi að þjónustu snúa annars vegar að einstökum þjónustuþáttum og hins vegar að innviðum, líkt og aðgerðirnar Háhraðanettengingar (A.1), Jöfnun orkukostnaðar (A.2) og Opinber grunnþjónusta og jöfnun aðgengis (A.15). Aðgerðir sem miða að því að jafna aðgengi að þjónustu skiptast í tvö meginstef; heilbrigðisþjónustu og menntun.
    Aðgerðin Háhraðanettengingar tekur við af Ísland ljóstengt og er dæmi um vel heppnaða aðgerð sem er að finna í byggðaáætlun 2018–2024 en háhraðatengingar heimila og vinnustaða eru eitt af stærstu byggðamálunum. Þegar hafa 24 sveitarfélög fengið alls 300 millj. kr. byggðastyrk vegna dreifbýlis en í endurskoðaðri áætlun verður lögð áhersla á minni þéttbýlisstaði. Betri nettengingar auka aðgengi íbúa að þjónustu, menntun og afþreyingu. Bættar nettengingar hafa einnig áhrif á möguleika einstaklinga til að starfa í sinni heimabyggð, hvort sem það er óstaðbundið starf eða fjarvinna. Þetta eykur viðnámsþrótt þar sem fækkun íbúa hefur dregið úr þjónustuframboði og möguleika á jákvæðum áhrifum á lýðfræðilega samsetningu byggða, m.a. með tækifærum til aukinnar endurheimtar ungs fólks á landsbyggðina eftir að það hefur farið og aflað sér menntunar.
    Á samráðsfundum með landshlutasamtökum sveitarfélaga var lögð mikil áhersla á að tengja byggðaáætlun með auknum þunga við heilbrigðis- og menntamál og því tengjast fimm aðgerðir hvorum þessara málaflokka. Fyrir barnafjölskyldur, börn og ungmenni skiptir miklu máli að menntakerfið komi til móts við þarfir þeirra en töluverður munur er á menntunarstigi íbúa eftir einstökum landshlutum og sérstaklega er munurinn mikill í samanburði höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Með öflugri þjónustu væri tryggt að börn og unglingar sætu við sama borð hvað varðar menntun, óháð búsetu. Með góðu aðgengi að nútímalegu og heildstæðu menntakerfi, frá leikskóla til háskóla og fullorðinsfræðslu, yrði búseta á landsbyggðinni að eftirsóknarverðari kosti, lífsgæði myndu aukast og líkur á að ungt fjölskyldufólk settist að í dreifðum byggðum til langs tíma ykjust. Aðgerðin Heildstæð skólaþjónusta (A.11) mun efla og þróa heildstæða skólaþjónustu á leik- og grunnskólastigi og samhæfa hana félags- og heilbrigðisþjónustu. Heildstæð skólaþjónusta snýst um ráðgjöf, leiðbeiningar og stuðning við starfsemi skóla og starfsfólk í þeim tilgangi að efla skóla sem faglegar stofnanir er geti leyst flest þau viðfangsefni sem upp koma í daglegu skólastarfi. Heildstæð skólaþjónusta styður við skólaþróun, starfsþróun kennara, veitir nemendum almennan og sértækan stuðning og foreldrum þeirra leiðbeiningar og ráðgjöf eftir þörfum. Aðgerðinni Aðgengi að sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði (A.6) er ætlað að fjölga sérfræðingum á heilbrigðissviði á landsbyggðinni með því að nýta ákvæði í lögum um menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, um sérstaka ívilnun vegna námsgreina á sérstökum svæðum. Þó svo að aðgerðin miði eingöngu að heilbrigðisstarfsfólki þá taka lögin til allra starfsstétta. Í 28. gr. laganna er kveðið á um sérstaka ívilnun vegna námsgreina sem og sérstaka ívilnun vegna námsgreina á sérstökum svæðum. Fram kemur að ráðherra sé heimilt að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búsettir eru á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun.
    Nútímaleg, heildræn og notendamiðuð heilbrigðisþjónusta er grundvöllur fyrir búsetu á landsbyggðinni. Mikilvægi hennar er enn meira fyrir fólk sem þarf sérstaklega á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda, t.d. aldraða og langveika. Aukin fjarheilbrigðisþjónusta og sérhæfð, samþætt þjónusta á sviðum heilbrigðis-, félags- og menntamála hefur einnig veruleg áhrif á þær fjölskyldur, einstaklinga og hópa sem nýta sér hana og mikilvægt að styðja við nýsköpun og tækni á því sviði.
    Umtalsverður munur er á orkukostnaði heimila. Með aðgerðinni Jöfnun orkukostnaðar (A.2) verður orkukostnaður milli þéttbýlis og dreifbýlis jafnaður með aukinni jöfnun dreifikostnaðar raforku og niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á köldum svæðum og þannig stuðlað að bættri samkeppnisstöðu byggðarlaga þar sem orkuverð er hátt. Áfram verði stigin skref í átt að jöfnun orkuverðs til heimila en í því felst að áfram verði unnið að meira afhendingaröryggi og minni raforkunotkun með kyntri hitaveitu (fjarvarmaveitu) með aukinni notkun varmadæla.
    Fólki af erlendu bergi brotið hefur fjölgað hér á landi síðustu ár og mikilvægt er að innflytjendum sé veitt aðstoð við aðlögun að íslensku samfélagi með fræðslu um það og þá fyrst og fremst íslenskt mál. Sveitarfélög hafa annast fræðslu fyrir innflytjendur og er mikilvægt að efla þá þjónustu í samræmi við vaxandi fjölda nýrra íbúa. Aðgerðinni Nærþjónusta við innflytjendur (A.7) er ætlað að bæta aðgengi innflytjenda að opinberri þjónustu um allt land.
    Þá er í aðgerðaáætluninni að finna tvær aðgerðir sem ætlað er að vera mikilvægt tæki fyrir stjórnvöld til frekari stefnumótunar þegar kemur að því að jafna aðgengi að þjónustu. Það er annars vegar Opinber grunnþjónusta og jöfnun aðgengis (A.15) þar sem haldið verður áfram vinnu við að skilgreina hvað felst í grunnþjónustu og aðgengi að henni. Hins vegar er um að ræða aðgerðina Kostnaðargreining vegna þjónustusóknar (A.16) þar sem greindur verður heildarkostnaður einstaklinga við þjónustusókn.

B. Jafna tækifæri til atvinnu
    Aðgerðir sem miða að því að jafna tækifæri til atvinnu snúa meðal annars að því að styrkja staðbundna starfsemi og starfsemi hins opinbera á landsbyggðinni. Aðgerðir sem styrkja staðbundna starfsemi snúa að orku og orkuöryggi, nýsköpun og menningu. Aðgerðir sem snúa að starfsemi hins opinbera miða að því að jafna dreifingu ríkisstarfa og skapa ný atvinnutækifæri á landsbyggðinni. Lykilatriði er að skapa þannig samkeppnisskilyrði um land allt að hagfellt sé að standa að uppbyggingu atvinnurekstrar.
    Aðgerðin Þrífösun og jarðstrengjavæðing (B.1) mun auka afhendingaröryggi raforku og hafa þannig umtalsverð áhrif á atvinnulífið, bæði fyrir starfandi fyrirtæki en einnig fyrir rekstrarforsendur nýrra fyrirtækja. Í samræmi við tillögur átakshóps ríkisstjórnar um úrbætur á innviðum, sem kynntar voru í febrúar 2020, er á fimm ára fjármálaáætlun 2021–2025 gert ráð fyrir 600 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði í sérstakt átak til að ljúka þrífösun og jarðstrengjavæðingu þjóðhagslega mikilvægs hluta dreifikerfis raforku að mestu leyti fyrir 2025. Átakið hófst árið 2020 og snýr að framkvæmdum hjá Rarik og Orkubúi Vestfjarða. Fæst framleiðslufyrirtæki mega við því að missa rafmagn af starfseminni án þess að verða fyrir umtalsverðu rekstrarlegu tjóni. Afhendingaröryggi og þrífösun rafmagns verður því til þess að áhættan í rekstri þessara fyrirtækja minnkar ásamt líkum á tjóni. Í ljósi takmarkana í flutningskerfi raforku hefur mikilvægi smávirkjana aukist og framleiðsla rafmagns fyrir staðbundinn markað. Smávirkjanir eru til þess fallnar að bæta staðbundið afhendingaröryggi og eru jafnan taldar umhverfisvænar í samanburði við stórvirkjanir. Slíkt verður þó að skoðast samhliða aðgerðum í endurbótum á flutningskerfi og dreifiveitum. Með aðgerðinni Orkuskipti og betri orkunýting (B.2) er stuðlað að uppbyggingu sjálfbærra byggðarlaga sem knúin eru endurnýjanlegri orku og orkutengdri nýsköpun.
    Stóraukin áhersla hefur verið lögð á nýsköpun í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Stuðningskerfi nýsköpunar, með þekkingu á nýsköpun og aukinni umræðu um hana, styrkir rekstrarforsendur bæði nýrra og starfandi fyrirtækja og eykur möguleika þeirra á frekari vexti og þróun. Nýsköpun á landsbyggðinni hefur átt undir högg að sækja og margir frumkvöðlar þar telja að lítinn stuðning sé að hafa hvað varðar fjármögnun nýsköpunarverkefna, hvort sem er opinbera styrki eða lánsfjármögnun. Rétt er að geta þess að byggðar hafa verið upp stafrænar smiðjur í öllum landshlutum, svokallaðar Fab Lab smiðjur sem nýtast við þróun nýsköpunarhugmynda. Einnig hefur verið settur upp sérstakur sjóður, Lóa, til að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi á landsbyggðinni. Eftir sem áður væri eftirsóknarvert fyrir byggðaþróun í landinu að auka aðgengi að þolinmóðu lánsfjármagni, en þess má þó geta að Byggðastofnun er með sérstakan lánaflokk til stuðnings nýsköpun á starfssvæði sínu. Skoða þarf hvers vegna einstaklingar og fyrirtæki á landsbyggðinni sæki í minna mæli en aðrir í þann fjárstuðning til nýsköpunar sem stendur til boða og kanna hvernig fjölga megi góðum umsóknum. Mikilvægt er að horfa til tækniþróunar og sjálfvirkni sem tekur að hluta við af hefðbundnum störfum. Aðgerðin Efling nýsköpunar í byggðum landsins (B.3) lýtur að því að koma á fót nýsköpunargátt fyrir frumkvöðla og fræðslu- og stuðningsaðila nýsköpunar um land allt og skapa öflugt stuðningsumhverfi þar sem meðal annars verður stutt við verkefni sem auka tækniþekkingu og hagnýtingu nútímatækni í ýmsum atvinnugreinum, svo sem ferðaþjónustu, fjarheilbrigðisþjónustu o.fl. Þá eru mikil tækifæri víða um land í hagnýtingu líftækni, t.d. framleiðslu virkra lífefna úr þörungum og sjávarfangi, en einnig í landbúnaði. Önnur tækifæri tengjast ríkulegum auðlindum í náttúru landsins, t.d. jarðvarma.
    Störf við hæfi eru ein meginforsenda fyrir búsetuvali. Störf á vegum ríkisins eru hlutfallslega fleiri á höfuðborgarsvæðinu en íbúafjöldi þess svæðis gefur tilefni til og mikilvægt að ríkið stuðli að fjölgun fjölbreyttra starfa sem víðast um landið. Það má gera með því að dreifa störfum á vegum ríkisins með sanngjörnum hætti en einnig með því að skapa hvata fyrir einkaaðila til að velja starfsemi sinni stað sem víðast um landið. Tveimur aðgerðum er ætlað að stuðla að jafnari dreifingu ríkisstarfa um landið. Það eru aðgerðirnar Staðarval ríkisstarfa (B.6) sem gengur út á það að þegar ný starfsemi hefst eða breytingar verða á starfsmannahaldi á vegum ríkisins verði metið hvort staðsetja megi störfin utan höfuðborgarsvæðisins. Aðgerðinni Óstaðbundin störf (B.7) er ætlað að efla búsetufrelsi með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni. Með auknum fjölda óstaðbundinna starfa verður mögulegt fyrir íbúa á landsbyggðinni að sækja um og vinna sérhæfð störf á vegum ráðuneyta eða stofnana þeirra. Það á því ekki að skipta máli hvort einstaklingur býr á Kópaskeri eða í Kópavogi þegar ráðið er í slík störf, svo dæmi sé tekið. Aðgerðin felur jafnframt í sér að stutt verður við uppbyggingu vinnustaðaklasa utan atvinnusóknar höfuðborgarsvæðisins. Nauðsynlegt er að auka þekkingu á atvinnusóknarsvæðum með því að hagnýta stafræna tækni en ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda fólks sem sækir vinnu um lengri veg á milli byggðarlaga. Aðgerðin Greining atvinnusóknar (B.5) gengur út á að skilgreina staðfang vinnustaðar og tíðni ferða á milli heimilis og vinnustaðar en slík greining er m.a. forsenda þess að hægt sé að meta ferðakostnað, samhæfa þjónustu samgöngukerfa og beita hagrænum hvötum við þróun atvinnusóknarsvæða.
    Aðgengi að menningu og afþreyingu eru mikilvægir búsetuþættir og með aðgerðunum List fyrir alla (C.15) og Stefnumótun og hlutverk menningarstofnana (B.9) er stutt við menningarstarfsemi í dreifðari byggðum og lögð áhersla á að efla rannsóknir á hagrænum og samfélagslegum áhrifum menningar og lista.
    Með aðgerðinni Miðstöð norðurslóðamála (B.8) er stutt við áframhaldandi uppbyggingu sérþekkingar og ýmiss konar starfsemi á sviði norðurslóðamála sem hefur byggst upp á Akureyri. Aðgerðin er til þess fallin að fjölga verðmætum störfum á landsbyggðinni og hún mun styrkja enn frekar stöðu landsins í alþjóðlegu samstarfi í málaflokknum.

C. Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt
    Aðgerðir sem miða að því að stuðla að sjálfbærri þróun byggða eru til dæmis Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða (C.1) og Brothættar byggðir (C.2) sem verða þróuð áfram í endurskoðaðri byggðaáætlun. Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða fela í sér aukna ábyrgð heimafólks á ráðstöfun opinberra fjármuna og tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun. Frá árinu 2018 hefur tæpum 500 millj. kr. verið ráðstafað til 22 verkefna á grundvelli aðgerðarinnar á svæðum sem búa við einhæft atvinnulíf og fólksfækkun. Um margvísleg verkefni er að ræða sem hafa skapað fjölbreytt störf og bætt búsetuskilyrði, svo sem með aukinni þjónustu og eflingu innviða. Með fjárframlögunum hefur m.a. verið komið á fót nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvum víðs vegar um landið sem er ætlað að vera vettvangur þjónustu, nýsköpunar og frumkvöðlastarfs, ýmist á sviði menningar, menntunar og/eða atvinnusköpunar. Þá má nefna styrk til innviðauppbyggingar vegna gagnavers á Blönduósi, sem í fyrsta áfanga er áætlað að hafi skapað 20–30 störf, bæði í iðnaði sem og tæknileg sérfræðistörf.
    Byggðastofnun hefur átt samstarf um verkefnið Brothættar byggðir í tíu byggðarlögum frá árinu 2018. Verkefnisstjórar hafa verið starfandi í öllum byggðarlögunum og aðstoðað íbúa við hin ýmsu samfélags- og framfaraverkefni. Leitast er við að styðja byggðirnar til sjálfbærni með því að leiða fram vilja og skoðanir íbúanna sjálfra og leita lausna á forsendum þeirra í samvinnu við þá sem koma að málum byggðarlagsins og láta sig framtíð þess varða. Úthlutað hefur verið tæplega 250 millj. kr. til margvíslegra verkefna sem hafa haft jákvæð áhrif í viðkomandi byggðarlögum. Í endurskoðaðri byggðaáætlun er haldið áfram með verkefnið Brothættar byggðir, það þróað áfram og leitað lausna á bráðum vanda á tilteknum svæðum vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi.
    Mikilvægt er að bregðast við harðnandi alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki og stuðla að samspili þéttbýlis og dreifbýlis til uppbyggingar sjálfbærra byggðalaga. Ein aðgerðin, Borgarstefna (C.4) , snýr að því að mótuð verði borgarstefna með það að markmiði að skilgreina og efla hlutverk stærstu þéttbýlissvæðanna í byggðaþróun í landinu, þ.e. höfuðborgarsvæðisins annars vegar og Akureyrarsvæðisins hins vegar. Byggðastefna eins og hún birtist í byggðaáætlunum hafði fram til ársins 2018 ekki náð til höfuðborgarsvæðisins. Með lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, varð sú breyting að byggðaáætlun nær til landsins alls, þar með höfuðborgarsvæðisins. Reykjavík er höfuðborg landsins og er með nágrannabyggðunum mikilvægasta markaðs- og efnahagssvæðið og gegnir stóru hlutverki fyrir þróun byggða um land allt. Borgarsvæðin eiga í meiri samkeppni um fólk og fyrirtæki við borgarsvæði erlendis en aðra íslenska landshluta og því er mikilvægt fyrir samkeppnishæfni landsins alls að efla þau. Staða og hlutverk borgarsvæða fyrir aðrar byggðir landsins þurfa að vera skýr í byggðastefnu stjórnvalda og mótast af ábyrgð og skilningi. Mótun slíkrar borgarstefnu krefst undirbúnings, samráðs og samstöðu og brýnt er að víðtæk þátttaka náist um það verk.
    Aðgengi að góðum samgöngum og endurnýjanlegri orku er mikilvægt fyrir byggðaþróun og styrkir atvinnu- og þjónustusóknarsvæði og nýting endurnýjanlegra orkugjafa á sem flestum sviðum íslensks samfélags er hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegra umhverfis- og loftslagsmála. Aukin áhersla á umhverfismál og eflingu hringrásarhagkerfisins með áherslu á græna og trausta orku og uppbyggingu innviða og þjónustu um land allt er nauðsynleg forsenda þess að byggja undir traust efnahagslíf og búsetu um land allt. Með aðgerðinni Grænt og snjallt Ísland (C.3) verða grænar og snjallar lausnir nýttar til að efla atvinnulíf og samfélag í víðtæku samstarfi og móta framtíðarsýn fyrir Ísland sem einkennist af sjálfbærni og jöfnum tækifærum. Nokkrar aðgerðir tengjast beint loftslagsmálum og má þar nefna Sjálfbær samfélög – efling hringrásarhagkerfis (C.8) sem stuðlar m.a. að því að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda og myndun úrgangs og flokkun og endurvinnsla verði aukin. Auk þess verður stuðlað að samræmingu úrgangsmála á landsvísu. Aðgerðin Bætt landnotkun sveitarfélaga (C.11) snýr að því að auka kolefnisbindingu og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með bættri landnotkun og aðgerðin Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög (C. 10) snýst um að greina áhættuþætti vegna loftslagsbreytinga sem síðan myndi grunn heildstæðra aðlögunaráætlana og styður þannig við stefnu íslenskra stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum sem hefur það að markmiði að áhrif þeirra á íslenskt samfélag, lífríki og þjóðarhag séu þekkt og samfélagslegir innviðir og atvinnugreinar búi yfir viðnámsþrótti gagnvart loftslagsvá.
    Efling byggðarannsókna er mikilvæg fyrir stefnumótun og leggja þarf aukinn þunga á rannsóknir á sviði byggðamála. Það verður meðal annars gert með aðgerðinni Opinberar upplýsingar á sviði byggðamála (C.13), en með virkri þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi og rannsóknum á sviði byggðamála styrkist samkeppnisstaða landsins. Með aðgerðinni Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi (C.14) verður Ísland áfram virkur þátttakandi í Nordregio, norrænni rannsóknastofnun á sviði byggða- og skipulagsmála, og enn fremur í Norðurslóðaáætluninni sem er atvinnu- og byggðaþróunarsjóður Evrópusambandsins og evrópsku ESPON-áætluninni um þverfaglegar byggðarannsóknir. Slíkt samstarf tryggir einnig að staða Íslands sé tekin með í reikninginn og borin saman við stöðu annarra landa í alþjóðlegum greiningum. Enn fremur opnast möguleikar fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi í gegnum alþjóðlegar áætlanir og sækja um styrki í afmörkuð samstarfsverkefni.

1    Akureyrarbær, Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit og Svalbarðsstrandarhreppur.
2    Þóroddur Bjarnason: ( rafhladan.is/bitstream/handle/10802/20306/23-24-PB.pdf?sequence=1)
3    Forsendur skammtíma- og langtímaspánna eru ólíkar að því leyti að skammtímaspáin tekur tillit til forsendna um hagvöxt sem hafi áhrif á flutningsjöfnuð en langtímaspáin gerir aftur á móti ráð fyrir að flutningsjöfnuður nái jafnvægisástandi. Sjá nánar á: hagstofan.s3.amazonaws.com/media/public/2020/d78e7ec1-da42-4795-86ce-1c016e8eb9dd.pdf
4    Sjá www.byggdastofnun.is/static/files/Hagvoxtur/hagvoxtur_landshluta_2012_2019.pdf
5    Sjá t.d. umfjöllun hér: academic.oup.com/cjres/article/6/2/179/367020 og hér: www.scielo.mec.pt/pdf/got/n7/n7a02.pdf
6     www.heimsmarkmidin.is/forsida/heimsmarkmidin/
7     www.oecd.org/regional/regionaldevelopment.htm
8     www.oecd.org/cfe/national-urban-policies.htm
9     ec.europa.eu/regional_policy/en/policy/what/territorial-cohesion/
10     www.norden.org/is/declaration/framtidarsyn-okkar-2030