Ferill 569. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 808  —  569. mál.

Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009 (framlenging bráðabirgðaákvæða).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða I í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „og 2022“ kemur: 2022 og 2023.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 1. mgr. skal nýsköpunarfyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu skv. 5. gr. eiga rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti árið 2023 sem nemur 30 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins að öðru leyti.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða II í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „og 2022“ kemur: 2022 og 2023.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 1. mgr. skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árið 2023 vera samtals 1.000.000.000 kr., þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu skv. 6. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í því eru lagðar til breytingar á ákvæðum til bráðabirgða í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, og varða breytingarnar framlengingu á bráðabirgðaákvæðum sem höfðu áhrif á skattfrádrátt nýsköpunarfyrirtækja vegna starfsemi þeirra árin 2020 og 2021. Í frumvarpinu er lagt til að framlengja bráðabirgðákvæðin svo þau hafi áhrif á starfsemi nýsköpunarfyrirtækja á árinu 2022. Jafnframt er lagt til að lækka bæði frádráttarhlutfall og hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti. Þrátt fyrir lækkunina er stuðningurinn mun meiri en hann yrði ef frumvarp þetta næði ekki fram að ganga.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar má rekja til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir), nr. 37/2020, og samþykktar ríkisstjórnarinnar hinn 10. mars 2020 um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum af völdum kórónuveirufaraldursins. Með lögunum voru meðal annars gerðar tímabundnar breytingar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, með það að markmiði að styðja við verkefni fyrirtækja sem snúa að rannsóknum og tækniþróun og um leið stuðla að nauðsynlegri nýsköpun í atvinnu- og efnahagslífi til lengri tíma litið. Nauðsynlegt er að þessar tímabundnu breytingar verði framlengdar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér tillögur að breytingum á bráðabirgðaákvæðum laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009.
    Bráðabirgðaákvæði laganna, sem tóku gildi með lögum nr. 37/2020, kveða annars vegar á um hækkun á frádráttarhlutfalli nýsköpunarfyrirtækja, þ.e. úr 20 í 35 hundraðshluta, frá álögðum tekjuskatti þeirra árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar á rannsóknar- og þróunarverkefnum og hins vegar um hækkun á hámarki kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árin 2021 og 2022 úr 600 millj. kr. og 900 millj. kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu í samtals 1.100 millj. kr. Nánar tiltekið kveður fyrra bráðabirgðaákvæðið á um að nýsköpunarfyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís) eigi rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022. Frádrátturinn nemur 35 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja en 25 hundraðshlutum í tilviki stórra fyrirtækja enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þá kveður seinna bráðabirgðaákvæðið nánar tiltekið á um að hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 skuli vera samtals 1.100.000.000 kr., þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu.
    Markmið skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna, sbr. lög nr. 152/2009, er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni. Á því rúmlega tíu ára tímabili sem liðið er frá setningu laganna hafa sífellt fleiri nýsköpunarfyrirtæki nýtt sér þennan stuðning. Þessi stuðningur hefur verið mikilvæg hvatning til nýsköpunarfyrirtækja í rannsókna- og þróunarstarfsemi og er talinn eiga stóran þátt í öflugum vexti nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og aukinni samkeppnishæfni á undanförnum árum. Þá skilar hinn opinberi stuðningur sér til baka til ríkisins, í gegnum aukna veltu og skattskylda starfsemi nýsköpunarfyrirtækja hér á landi. Þær ívilnanir sem felast í bráðabirgðaákvæðunum hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki í þeirri efnahagslegu óvissu sem uppi hefur verið í kjölfar COVID-19-faraldursins og jafnframt stuðlað að frekari uppbyggingu öflugrar nýsköpunar hér á landi í atvinnu og efnahagslífi til lengri tíma litið. Tillögur frumvarpsins fela í sér að bráðabirgðaákvæðin verði framlengd með þeim hætti að þau nái til frádráttar frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árið 2023 vegna alls rekstrarársins 2022. Ef bráðabirgðaákvæðin verða ekki framlengd mun heildarframlag til skattfrádráttar lækka niður í 20% frá álögðum tekjuskatti og hámarksþak kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja lækka niður í 600 millj. kr. og 900 millj. kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu.
    Tillögur frumvarpsins gera þó jafnframt ráð fyrir því að ívilnanir bráðabirgðaákvæðanna nái ekki eins langt og áður. Er það gert til að áætlaður kostnaður þeirra sé í samræmi við tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 og til að mæta kostnaði vegna hugsanlegrar fjölgunar umsókna nýsköpunarfyrirtækja til Rannís. Þannig er gert ráð fyrir að frádráttarhlutfall til lítilla og meðalstórra fyrirtækja lækki úr 35 hundraðshlutum í 30 hundraðshluta og hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti lækki úr 1.100 millj. kr. í 1.000 millj. kr.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þess var gætt við samningu frumvarpsins að efni þess og framsetning samrýmdust ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Breytingarnar í frumvarpinu um lækkun á frádráttarhlutfalli og hámarki á rannsóknar- og þróunarkostnaði til viðmiðunar á frádrætti eru innan marka reglugerðar um almenna hópundanþágu frá tilkynningarskyldu (e. General Block Exemption Regulation, GBER), nr. 651/2014, sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2014.

5. Samráð.
    Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi löggjafarþing. Það felur í sér viðbrögð við ákvæðum laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009. Frumvarpið var ekki kynnt í samráðsgátt stjórnvalda sökum þess hve áríðandi þótti að leggja það fram á Alþingi og jafnframt gerir fjármálaáætlun ráð fyrir auknum framlögum til málaflokksins á árinu 2023. Samráð var haft við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og Rannís við vinnslu þess.

6. Mat á áhrifum.
    Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu efla rannsóknar og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Frumvarpið mun hafa neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til skemmri tíma litið verði það óbreytt að lögum. Heildaráhrifin á fjármál ríkissjóðs ættu þó með tímanum að verða jákvæð enda tilgangur breytinganna að stuðla að aukinni nýsköpun með jákvæðum áhrifum á almannahagsmuni, aukinni hagsæld og samkeppnishæfni til framtíðar.
    Áætlaður kostnaður á árinu 2023, nái frumvarpið fram ganga, er 10,3 milljarðar kr. Að óbreyttu hefði kostnaður varðandi stuðning við nýsköpunarfyrirtæki á árinu 2023 verið 7,9 milljarðar kr. og því felur frumvarpið í sér útgjaldaaukningu upp á 2,4 milljarða kr. Til frekari samanburðar má nefna að árið 2021, þegar í gildi voru þau bráðabirgðaákvæði sem nú er lagt til að framlengja með breytingum, voru útgjöld vegna stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki um 10,4 milljarðar kr. Það er sambærileg fjárhæð og er gert ráð fyrir að verja í stuðninginn árið 2023, nái frumvarp þetta fram að ganga. Þá er gert ráð fyrir því að kostnaður vegna mögulegrar aukinnar ásóknar nýsköpunarfyrirtækja í stuðninginn milli áranna 2022 og 2023 verði jafn mikil og sá sparnaður sem hlýst af betri framkvæmd laganna, m.a. með auknu eftirliti með umsóknum þar sem metið verði með betri hætti hvort kostnaður sem nýsköpunarfyrirtæki sækja um fyrir sé vegna rannsókna- eða þróunarstarfa.
    Aukning varð á framlögum milli áranna 2021 og 2022 og voru útgjöldin þá 11,7 milljarðar kr. Áætluð útgjöld eru lægri árið 2023 en 2022 vegna þess að lögð er til lækkun á frádráttarhlutfalli lítilla og meðalstórra fyrirtækja úr 35 hundraðshlutum í 30 hundraðshluta og lækkun á hámarki kostnaðar til útreiknings á frádrætti úr 1.100 millj. kr. í 1.000 millj. kr.