Ferill 589. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 831  —  589. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til starfskjaralaga


Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.I. KAFLI

Gildissvið, stjórnsýsla, markmið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um laun og önnur starfskjör launamanna. Lögin gilda ekki um sjálfboðaliða.

2. gr.

Stjórnsýsla.

    Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Vinnumálastofnun annast framkvæmd laganna.

3. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja að laun og önnur starfskjör launamanna á innlendum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og kjarasamninga á vinnumarkaði hér á landi á hverjum tíma.

4. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Launamaður: Einstaklingur sem starfar fyrir og á ábyrgð atvinnurekanda gegn endurgjaldi.
     2.      Sjálfboðaliði: Einstaklingur sem ekki gegnir almennum störfum launamanna sem eru hluti af efnahagslegri starfsemi fyrirtækja eða stofnana.
     3.      Starfsnemi: Einstaklingur sem stundar nám á vinnustað undir umsjón leiðbeinanda á grundvelli viðeigandi samnings sem hefur verið gerður milli hlutaðeigandi atvinnurekanda, viðurkennds fræðsluaðila og einstaklingsins og það starf eða þau störf sem einstaklingurinn gegnir á vinnustaðnum eru þáttur í námi einstaklingsins.

II. KAFLI

Starfskjör launamanna og samráðsnefndir.

5. gr.

Laun og önnur starfskjör.

    Laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um skulu vera lágmarkskjör óháð öðrum þáttum, svo sem kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu sem og ráðningartíma, fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningurinn tekur til. Atvinnurekendum er óheimilt að greiða einstaka launamanni lakari laun eða semja við einstaka launamann um lakari kjör en almennir kjarasamningar kveða á um og skulu slíkir samningar ógildir.

6. gr.

Samráðsnefndir til úrlausnar í ágreiningsmálum.

    Samningar aðildarsamtaka vinnumarkaðarins um málsmeðferð í ágreiningsmálum, um hvort laun og ráðningarkjör launamanna á innlendum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga, skulu hafa sama almenna gildi og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör, sbr. 5. gr., með þeim takmörkunum sem í samningunum felast.
    Þegar settar eru á fót samráðsnefndir til úrlausnar í ágreiningsmálum á grundvelli samninga skv. 1. mgr. og atvinnurekandi, sem er málsaðili, á ekki aðild að samtökum atvinnurekenda er honum heimilt að tilnefna einn fulltrúa sem tekur sæti eins fulltrúa samtaka atvinnurekenda í nefndinni. Hið sama gildir um launamann sem er málsaðili og á ekki aðild að stéttarfélagi en fulltrúi hans tekur sæti eins fulltrúa samtaka launafólks í nefndinni. Ákveði málsaðili að tilnefna fulltrúa skal tilnefningin fara fram fyrir upphaf málsmeðferðar hjá samráðsnefndinni.

III. KAFLI

Skyldur atvinnurekanda.

7. gr.

Upplýsingaskylda atvinnurekanda.

    Atvinnurekanda ber ávallt að hafa tiltæk gögn sem sýna fram á hvaða laun hann hefur greitt starfsmönnum sínum á hverjum tíma, að teknu tilliti til vinnutíma starfsmanna, svo sem ráðningarsamninga eða skriflegar staðfestingar á ráðningum í samræmi við lög eða kjarasamninga, upplýsingar um vinnutíma starfsmanna, sbr. 57. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og önnur gögn er varða kjör starfsmanna, þ.m.t. launaseðla og staðfestingu á að laun hvers starfsmanns hafi verið greidd í samræmi við það sem kemur fram á launaseðli viðkomandi starfsmanns.

8. gr.

Skyldur atvinnurekanda vegna starfsnema.

    Atvinnurekanda sem skuldbindur sig til að taka starfsnema í starfsnám á vinnustað ber að sjá til þess að fyrir liggi viðeigandi samningur milli hans, viðurkennds fræðsluaðila og nemans. Í samningnum skal meðal annars koma fram sá tími sem áætlað er að starfsneminn verði í starfsnámi, starfskjör nemans og starfsaðstæður, tryggingar, réttindi og lýsing á því starfi eða þeim störfum sem neminn kemur til með að gegna á vinnustaðnum, hver er leiðbeinandi hans á vinnustaðnum svo og nánari lýsing fræðsluaðilans á náminu og staðfesting hans á því að starfsnámið á vinnustaðnum og það starf eða þau störf sem starfsneminn kemur til með að gegna á vinnustaðnum sé þáttur í náminu.
    Atvinnurekanda sem skuldbindur sig til að taka starfsnema í starfsnám á vinnustað ber ávallt að hafa tiltækt afrit af samningi skv. 1. mgr. á gildistíma samningsins.

IV. KAFLI

Eftirlit Vinnumálastofnunar.

9. gr.

Eftirlit Vinnumálastofnunar.

    Vinnumálastofnun er heimilt að gefa atvinnurekanda fyrirmæli um að hann skuli greiða viðkomandi launamanni eða launamönnum laun sem ekki eru lakari en almennir kjarasamningar kveða á um.
    Áður en launamaður getur óskað eftir aðstoð Vinnumálastofnunar við að fá launagreiðslur leiðréttar skal launamaður sjálfur, standi hann utan stéttarfélags, eða með milligöngu stéttarfélags, hafa krafist þess með sannanlegum hætti að hlutaðeigandi atvinnurekandi leiðrétti launagreiðslur, enda telji launamaðurinn að atvinnurekandi greiði honum og/eða hafi greitt honum lakari laun en kveðið er á um í gildandi kjarasamningi í viðkomandi starfsgrein á því svæði þar sem vinna launamannsins fer fram, ella skal Vinnumálastofnun vísa málinu frá. Vinnumálastofnun skal jafnframt vísa málinu frá hafi ráðningarsambandi launamanns og atvinnurekanda lokið áður en þess var krafist að atvinnurekandi leiðrétti launagreiðslur.
    Berist Vinnumálastofnun upplýsingar sem gefa til kynna að atvinnurekandi greiði fleiri en einum launamanni lakari laun en kjarasamningar kveða á um og ráðningarsamband atvinnurekandans og viðkomandi launamanna er til staðar ber stofnuninni að kanna málið frekar.
    Komist Vinnumálastofnun að þeirri niðurstöðu að atvinnurekandi greiði lakari laun en kjarasamningur kveður á um skal stofnunin gefa atvinnurekanda fyrirmæli um að frá og með næstu útborgun launa greiði hann ekki lakari laun en kjarasamningur kveður á um. Vinnumálastofnun skal jafnframt tilkynna viðkomandi launamanni eða launamönnum, eftir því sem við á, sem og stéttarfélagi, óski viðkomandi launamaður eða launamenn eftir því, að stofnunin hafi gefið hlutaðeigandi atvinnurekanda framangreind fyrirmæli.
    Gefi Vinnumálastofnun atvinnurekanda fyrirmæli skv. 4. mgr. ber honum eða fulltrúa hans að tilkynna stofnuninni með fullnægjandi hætti, svo sem bréflega, rafrænt eða á annan hátt sem stofnunin ákveður, þegar úrbætur hafa verið gerðar.
    Sé ekki unnt að gefa hlutaðeigandi atvinnurekanda fyrirmæli skv. 4. mgr. þar sem ráðningarsambandi milli launamanns eða launamanna, eftir því sem við á, og atvinnurekanda sem í hlut á er lokið skal Vinnumálastofnun vísa málinu frá en afhenda stéttarfélagi þær upplýsingar sem stofnunin byggði mat sitt á, sbr. 4. mgr., enda óski viðkomandi launamaður eða launamenn eftir því.
    Leiki vafi á því hvort lakari laun séu eða hafi verið greidd en kjarasamningur kveður á um skal Vinnumálastofnun óska eftir mati samráðsnefndar til úrlausnar í ágreiningsmálum, sbr. 6. gr., á því hvort svo hafi verið. Með slíkri beiðni skulu fylgja þau gögn sem Vinnumálastofnun telur nauðsynleg svo að unnt sé að leggja mat á hvort greidd séu eða hafi verið greidd lakari laun en kjarasamningur kveður á um. Óski Vinnumálastofnun eftir mati samráðsnefndar og niðurstaða fulltrúa samningsaðila í nefndinni er ekki samhljóða skal stofnunin vísa málinu frá.
    Starfsmönnum Vinnumálastofnunar sem sinna eftirliti á vinnustöðum er meðal annars heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði og skal þeim veittur aðgangur að hlutaðeigandi vinnustöðum óski þeir eftir því. Við eftirlitið ber þeim að sýna sérstök skilríki sem stofnunin gefur út. Starfsmönnum Vinnumálastofnunar er heimilt að óska eftir aðstoð lögreglu við framangreint eftirlit þegar slíkt er nauðsynlegt að mati stofnunarinnar.

10. gr.

Upplýsingar í þágu eftirlits Vinnumálastofnunar.

    Atvinnurekandi eða fulltrúi hans skal láta Vinnumálastofnun í té fullnægjandi upplýsingar sem sýna fram á hvaða laun hafi verið greidd í því tilviki sem um ræðir hverju sinni þannig að stofnuninni sé unnt að leggja mat á hvort lakari laun hafi verið greidd en almennir kjarasamningar kveða á um.
    Upplýsingar sem atvinnurekandi eða fulltrúi hans skulu veita Vinnumálastofnun samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim skulu vera skriflegar, hvort sem er á rafrænu formi eða á pappír. Þegar gögn eru afhent á öðru tungumáli en íslensku eða ensku skulu fylgja þeim þýðingar á íslensku eða ensku. Þrátt fyrir framangreint getur Vinnumálastofnun í undantekningartilvikum ákveðið að taka við gögnum á öðru tungumáli en íslensku eða ensku, svo sem þegar þýðing gagnanna er óþörf að mati stofnunarinnar.
    Vinnumálastofnun getur aflað upplýsinga og miðlað þeim að því marki sem stofnuninni er það heimilt samkvæmt lögum þessum, rafrænt eða á annan hátt sem stofnunin ákveður.
    Berist Vinnumálastofnun upplýsingar á grundvelli laga þessara sem gefa til kynna að brotið sé gegn ákvæðum íslenskra laga eða reglugerða er stofnuninni skylt að afhenda viðeigandi stjórnvaldi upplýsingarnar án ástæðulausrar tafar.
    Í þeim tilvikum þegar Vinnumálastofnun býr ekki yfir upplýsingum sem eru nauðsynlegar að mati stofnunarinnar til að hún geti með fullnægjandi hætti rannsakað hvort lakari laun hafi verið greidd en almennir kjarasamningar kveða á um, sbr. 5. gr., skal stofnunin óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum eða eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, sem koma stofnuninni að gagni og ber hlutaðeigandi aðilum að veita Vinnumálastofnun umbeðnar upplýsingar búi þeir yfir þeim. Berist stjórnvöldum eða eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins upplýsingar sem gefa til kynna að brotið sé gegn lögum þessum er þeim skylt að afhenda Vinnumálastofnun upplýsingarnar án ástæðulausrar tafar.
    Starfsmönnum Vinnumálastofnunar er óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla annarra upplýsinga en þeirra sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar í þágu eftirlits skv. 9. gr. að mati stofnunarinnar.
    Starfsmenn Vinnumálastofnunar eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hvað varðar upplýsingar um mál sem stofnunin hefur til meðferðar á grundvelli laga þessara, sbr. þó 3. mgr. Starfsmönnum Vinnumálastofnunar er óheimilt að greina frá nafni þess sem kemur upplýsingum til stofnunarinnar, sbr. 3. mgr. 9. gr., ef um einstakling er að ræða, nema viðkomandi aðili hafi veitt samþykki sitt fyrir því að nafn hans komi fram. Þagnarskylda starfsmanna Vinnumálastofnunar helst eftir að þeir hætta störfum hjá stofnuninni.

V. KAFLI

Viðurlög.

11. gr.

Dagsektir.

    Fari atvinnurekandi ekki að fyrirmælum Vinnumálastofnunar innan þess frests sem veittur hefur verið, sbr. 4. mgr. 9. gr., sem og í þeim tilvikum þegar atvinnurekandi veitir stofnuninni ekki upplýsingar skv. 1. og/eða 2. mgr. 10. gr. innan þess frests sem veittur hefur verið eða þær upplýsingar sem hann hefur veitt stofnuninni hafa verið rangar eða ófullnægjandi getur Vinnumálastofnun tekið ákvörðun um að hlutaðeigandi atvinnurekandi greiði dagsektir þar til úrbætur hafa verið gerðar.
    Atvinnurekanda sem fyrirhuguð ákvörðun um dagsektir skv. 1. mgr. beinist að skal veittur frestur til að koma að skriflegum athugasemdum áður en ákvörðun er tekin. Tilkynningu Vinnumálastofnunar um fyrirhugaða ákvörðun um dagsektir skal fylgja skriflegur rökstuðningur.
    Ákvörðun um dagsektir skv. 1. mgr. skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim atvinnurekanda sem hún beinist að eða fulltrúa hans og skal henni fylgja skriflegur rökstuðningur.
    Ákvörðun um dagsektir felur í sér að sá atvinnurekandi sem ákvörðunin beinist að skal greiða sekt fyrir hvern dag frá og með upphafi fyrsta virka dags eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina og er það tímamark jafnframt gjalddagi kröfunnar. Síðasti sektardagur skal vera sá dagur þegar bætt hefur verið úr annmörkum að mati Vinnumálastofnunar.
    Dagsektir geta numið allt að 1 millj. kr. fyrir hvern dag. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal meðal annars líta til fjölda launamanna þess atvinnurekanda sem ákvörðun beinist að, hve aðkallandi úrbætur teljast, umfangs brots og hve umfangsmikill viðkomandi atvinnurekstur er.
    Dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
    Ákvörðun Vinnumálastofnunar um dagsektir er aðfararhæf. Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnumálastofnun ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.
    Að öðru leyti fer um ákvörðun Vinnumálastofnunar um dagsektir samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

12. gr.

Tímabundin stöðvun á starfsemi.

    Hafi Vinnumálastofnun tekið ákvörðun um dagsektir skv. 11. gr. og atvinnurekandi hefur ekki gert viðeigandi úrbætur innan sex vikna frá því að ákvörðunin um dagsektir var sannanlega birt hlutaðeigandi atvinnurekanda getur Vinnumálastofnun, ef önnur úrræði laga þessara hafa ekki skilað árangri, látið stöðva tímabundið starfsemi atvinnurekanda þar til úrbætur hafa verið gerðar. Starfsmönnum Vinnumálastofnunar er heimilt að óska eftir aðstoð lögreglu til að framfylgja vinnustöðvun þegar slíkt er nauðsynlegt að mati stofnunarinnar.

13. gr.

Stjórnvaldssekt.

    Óháð því hvort ráðningarsambandi launamanns og atvinnurekanda er lokið og óháð því hvort um ásetning eða gáleysi hefur verið að ræða af hálfu atvinnurekanda er Vinnumálastofnun heimilt að leggja stjórnvaldssekt á atvinnurekanda sem hefur að mati stofnunarinnar:
     a.      ítrekað ekki farið að fyrirmælum stofnunarinnar, sbr. 4. mgr. 9. gr., eða
     b.      hefur ekki veitt stofnuninni upplýsingar skv. 1. og/eða 2. mgr. 10. gr. innan þess frests sem veittur hefur verið eða þær upplýsingar sem hann hefur veitt stofnuninni hafa verið rangar eða ófullnægjandi.
    Stjórnvaldssektir geta numið allt að 5 millj. kr.
    Við ákvörðun stjórnvaldssektar skal Vinnumálastofnun meðal annars líta til alvarleika brots, til þess hve lengi brotið hefur staðið yfir og hvort um ítrekað brot hafi verið að ræða, sem og til samstarfsvilja hins brotlega aðila.
    Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim atvinnurekanda sem sektin beinist að eða fulltrúa hans og skal ákvörðuninni fylgja skriflegur rökstuðningur.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer samkvæmt ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu.
    Heimild Vinnumálastofnunar til þess að leggja á stjórnvaldssekt samkvæmt ákvæði þessu fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi skv. 1. mgr. lauk.
    Stjórnvaldssekt rennur í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu sektarinnar.
    Ákvörðun Vinnumálastofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf.
    Að öðru leyti fer um ákvörðun Vinnumálastofnunar um stjórnvaldssekt samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

14. gr.

Févíti.

    Atvinnurekandi, sem af ásetningi hefur greitt launamanni lakari laun en samkvæmt viðeigandi kjarasamningi, sbr. 5. gr., skal greiða viðkomandi launamanni févíti, geri launamaðurinn um það rökstudda kröfu, séu gjaldfallin laun ekki greidd innan 18 daga frá því að launamaður sjálfur eða stéttarfélag hans í hans umboði gerði kröfu um greiðslu gjaldfallinna launa.
    Févíti skv. 1. mgr. kemur ekki til álita ef um er að ræða réttmætan ágreining um kröfu launamanns, ágreining aðila kjarasamnings um túlkun hans sem og ef málefnalegar ástæður liggja að baki því að atvinnurekandi greiddi viðkomandi launamanni lakari laun en kjarasamningur kveður á um, sbr. 5. gr., eða aðrar sambærilegar ástæður eru fyrir hendi.
    Ef ágreiningur er um rétt launamanns til févítis skv. 1. mgr. skal launamaður skjóta kröfunni til samráðsnefndar til úrlausnar í ágreiningsmálum, sbr. 6. gr., sem ákvarðar hvort skilyrði séu fyrir greiðslu almenns eða sérstaks févítis. Niðurstaða samráðsnefndar skal liggja fyrir innan 30 daga frá því að leitað er til nefndarinnar. Hafi mál verið höfðað fyrir dómstólum þar sem févítis er krafist, án þess að ágreiningur hafi komið upp um rétt launamanns til févítis, er launamanni ekki skylt að leita eftir ákvörðun samráðsnefndar. Atvinnurekanda er þá heimilt, innan 30 daga frá birtingu stefnu, að bera ágreining um skilyrði févítis undir samráðsnefnd til ákvörðunar.
    Févíti skiptist í almennt févíti og sérstakt févíti. Almennt févíti skal greiða þegar ekki teljast skilyrði fyrir sérstöku févíti og getur það numið allt að tvöföldum dráttarvöxtum af höfuðstól gjaldfallinna launa. Sérstakt févíti skal greiða þegar háttsemi atvinnurekanda er talin sérlega vítaverð og getur það numið allt að 80% af höfuðstól gjaldfallinna launa.
    Við mat á fjárhæð févítis skal meðal annars líta til alvarleika brots, hve lengi það hefur staðið yfir, fjölda þeirra launamanna sem eiga í hlut hverju sinni sem og samstarfsvilja hlutaðeigandi atvinnurekanda.
    Komist meiri hluti samráðsnefndar að þeirri niðurstöðu að skilyrði séu fyrir greiðslu févítis er ákvörðun nefndarinnar bindandi fyrir aðila auk þess sem nefndinni er þá jafnframt heimilt að gera tillögu að fjárhæð févítis.

VI. KAFLI

Greiðsla iðgjalda.

15. gr.

Greiðsla iðgjalda í fræðslusjóð atvinnulífsins, sjúkrasjóð og orlofssjóð.

    Öllum atvinnurekendum er skylt að greiða í fræðslusjóð atvinnulífsins sem og sjúkrasjóð og orlofssjóð viðkomandi stéttarfélaga þau iðgjöld sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina.
    Atvinnurekanda er skylt að halda eftir af launum launamanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina.
    Verði dráttur á greiðslu iðgjalda samkvæmt lögum þessum skal skuldari greiða dráttarvexti af skuldinni frá gjalddaga samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu.

16. gr.

Greiðsla iðgjalda í lífeyrissjóð í fæðingarorlofi sjóðfélaga.

    Ákveði félagi í lífeyrissjóði sem á rétt á töku fæðingarorlofs á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof að hverfa úr fyrra starfi að hluta eða öllu leyti vegna barnsburðar, meðal annars í því skyni að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs, er þeim lífeyrissjóði sem viðkomandi er félagsmaður í skylt að veita félagsmanninum heimild til áframhaldandi aðildar að sjóðnum á óbreyttum grundvelli í allt að sjö ár, enda taki félagsmaður þá að sér að greiða iðgjaldahlut atvinnurekanda ásamt sínum eigin iðgjaldahluta. Slíkur félagsmaður nýtur allra sömu réttinda í lífeyrissjóðnum og aðrir félagsmenn, þar á meðal lánsréttinda.

VII. KAFLI

Stefnumótun um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.

17. gr.

Samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.

    Ráðherra skal skipa samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn og skal hún koma saman fullmönnuð einu sinni á ári eða oftar ef þörf krefur. Ráðherra sem fer með mál er varða þjóðhagsmál, ráðherra sem fer með mál er varða vinnumál, ráðherra sem fer með mál er varða lífeyrismál og ráðherra sem fer með mál er varða ákæruvald skulu eiga fast sæti í samstarfsnefndinni.
    Auk þeirra sem tilgreindir eru í 1. mgr. skal ráðherra skipa einn fulltrúa án tilnefningar, sem og einn fulltrúa tilnefndan af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af ríkislögreglustjóra, einn tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn tilnefndan af Samtökum atvinnulífsins, einn tilnefndan af Skattinum, einn tilnefndan af Útlendingastofnun, einn tilnefndan af Vinnumálastofnun og einn tilnefndan af Vinnueftirliti ríkisins. Þá skal ráðherra skipa einn fulltrúa sem tilnefndur er sameiginlega af Bandalagi háskólamanna og BSRB.
    Ráðherra annast stjórnsýslu fyrir nefndina. Nefndarmönnum er skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu fyrir nefndina og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.

18. gr.

Verkefni samstarfsnefndar.

    Ráðherra skal fela samstarfsnefnd um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, sbr. 17. gr., að koma með tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði og skal nefndin afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá alþingiskosningum. Jafnframt skal nefndin afhenda ráðherra skýrslur, eftir því sem þörf krefur að mati nefndarinnar og einnig ef ráðherra óskar sérstaklega eftir því, um stöðuna hvað varðar brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði.

19. gr.

Samstarfsvettvangur eftirlitsaðila.

    Lögreglustjórar, Skatturinn, Vinnueftirlit ríkisins og Vinnumálastofnun skulu gera með sér samning um samstarfsvettvang eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Framangreindum aðilum er heimilt að stækka samstarfsvettvanginn með samningum við aðrar stofnanir ef þörf krefur, að fengnu samþykki ráðherra.
    Þeim stofnunum sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. er heimilt að óska eftir ráðgjöf og aðstoð frá utanaðkomandi aðilum ef þörf krefur.
    Markmiðið með samstarfsvettvangi skv. 1. mgr. er að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á vinnumarkaði fari að ákvæðum laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á innlendum vinnumarkaði.
    Þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. skulu standa fyrir sameiginlegum aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði með eftirliti og virkri eftirfylgni, greiningarvinnu og upplýsingamiðlun milli aðila innan þeirra marka sem lög heimila.
    Starfsmönnum sem starfa á grundvelli samstarfsvettvangs skv. 1. mgr. sem fulltrúar þeirra stofnana sem mynda vettvanginn og öðrum þeim sem kallaðir eru til samstarfs er skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
    Þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvang skv. 1. mgr. skulu formbinda reglulegt samráð og samstarf við samtök aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit, eftir því sem við á. Þrátt fyrir 5. mgr. er starfsmönnum samstarfsvettvangs skv. 1. mgr. heimilt að miðla þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru hverju sinni til samtaka aðila vinnumarkaðarins á grundvelli formlegs samráðs og samstarfs, sbr. 1. málslið.

VIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

20. gr.

Kæruheimild.

    Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar samkvæmt lögum þessum til ráðuneytisins en um slíkar kærur gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
    Ráðuneytið skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að ráðuneytinu berst mál til úrskurðar.

21. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara að fenginni umsögn samtaka aðila vinnumarkaðarins, svo sem í tengslum við beitingu viðurlaga á grundvelli V. kafla.

22. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

23. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980:
                  a.      Við 45. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Stjórnandi tiltekinnar vélar, sbr. 1.–5. mgr., skal vera líkamlega og andlega fær um að stjórna vélinni og því má enginn stjórna eða reyna að stjórna slíkri vél ef hann, svo sem vegna veikinda, hrörnunar, ofreynslu, svefnleysis, neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða annarra orsaka, er þannig á sig kominn að hann er ekki fær um að stjórna vélinni örugglega.
                      Enginn má stjórna eða reyna að stjórna tiltekinni vél, sbr. 1.–5. mgr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki vera vélknúið ökutæki, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, sem vegna neyslu lyfja telst óhæfur til að stjórna vélinni, sbr. 48. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, eða er undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru hér á landi samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim, ef magn áfengis eða ávana- og fíkniefna er yfir þeim mörkum sem kveðið er á um í 49. og 50. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019.
                  b.      Á eftir 57. gr. laganna kemur ný grein, 57. gr. a, svohljóðandi:
                      Atvinnurekendum er skylt að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna sinna þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um daglegan og vikulegan vinnutíma sem og upplýsingar um á hvaða tíma sólarhrings unnið er, samfelldan hvíldartíma og vikulegan frídag. Einnig skulu koma fram upplýsingar um tilvik þar sem vikið hefur verið frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag samkvæmt lögum þessum eða kjarasamningum sem og upplýsingar um hvort starfsmenn hafi í slíkum tilvikum fengið hvíld síðar. Starfsmaður skal eiga þess kost að nálgast framangreindar upplýsingar 12 mánuði aftur í tímann.
                  c.      68. gr. laganna orðast svo:
                      Vinnueftirlit ríkisins skal skipuleggja og halda skrár á landsvísu þar sem fram koma upplýsingar um eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma sem tilkynntir eru til stofnunarinnar skv. 79. og 80. gr. í þeim tilgangi að afla upplýsinga um tíðni, orsakir og afleiðingar eitrana á vinnustöðum sem og vinnuslysa og atvinnusjúkdóma og að auka þannig þekkingu í því skyni að efla forvarnarstarf á vinnustöðum. Vinnueftirlit ríkisins skal einnig vinna upplýsingar úr skrám skv. 1. málsl. til notkunar í forvarnarstarfi, við áætlanagerð og við stefnumótun og önnur verkefni stjórnvalda.
                      Vinnueftirliti ríkisins er heimilt, meðal annars í samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands, að nýta stafræna innviði stjórnvalda við söfnun nauðsynlegra upplýsinga í skrár skv. 1. mgr. með það að markmiði að auðvelda og einfalda tilkynningar til stofnunarinnar um eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma skv. 79. og 80. gr.
                      Vinnsla Vinnueftirlits ríkisins á persónugreinanlegum upplýsingum í tengslum við skrár skv. 1. mgr. skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
                      Ráðherra er heimilt að setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, þar sem meðal annars er kveðið nánar á um skipulagningu og gerð skráa, sem og um vinnslu upplýsinga úr þeim í forvarnarskyni.
                  d.      Í stað 2. málsl. 8. mgr. 87. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlit ríkisins ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.
                  e.      Á eftir 1. mgr. 99. gr. laganna koma fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að:
                      1.      brjóta gegn 27. gr. sem og brjóti atvinnurekandi eða verkstjóri gegn 1. eða 2. mgr. 86. gr.,
                      2.      brjóta með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn 1. mgr. 14. gr., 2. mgr. 23. gr. eða 3. mgr. 80. gr.,
                      3.      brjóta gegn 8. mgr. 45. gr. en við ákvörðun refsingar skal fara eftir 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, eða
                      4.      brjóta gegn ákvæðum laga þessara og/eða ákvæðum reglna eða reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra ef brotið leiðir til alvarlegs slyss eða dauða starfsmanns eða annarra eða alvarlegs óhapps þar sem verulegar líkur hafa verið á því að afleiðingarnar hefðu getað orðið þær sömu.
                      Heimilt er að ákvarða atvinnurekendum sektir í samræmi við II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, fyrir þau brot sem tilgreind eru í 2. mgr.
                      Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að banna stjórnanda að nota tiltekna vél, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr., ef grunur er um að hann sé undir áhrifum áfengis, ávana- og fíkniefna eða lyfja, sbr. 8. mgr. 45. gr., en þá skal lögregla jafnframt kölluð til. Lögregla hefur sömu heimildir til rannsókna á öndunar-, svita-, munnvatns-, blóð- og þvagsýnum frá stjórnanda vinnuvélar vegna gruns um brot sem tilgreint er í 3. tölul. 2. mgr. og hún hefur skv. 1.–4. mgr. 52. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, gagnvart ökumanni vélknúins ökutækis, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Kostnaður vegna slíkra rannsókna telst til sakarkostnaðar með sama hætti og skv. 2. málsl. 6. mgr. 52. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019.
                      Ef stjórnandi vélar skv. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki til vélknúins ökutækis, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, hefur brotið gegn ákvæðum laga þessara og brotið er tilgreint í 3. tölul. 2. mgr. eða stjórnandinn hefur neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 4. mgr. er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að svipta hann vinnuvélaréttindum. Svipting vinnuvélaréttinda skv. 1. málsl. skal annaðhvort vara í tiltekinn tíma og þá eigi skemur en einn mánuð eða vara ótímabundið ef sakir eru miklar eða brot er endurtekið öðru sinni eða oftar. Svipting vinnuvélaréttinda felur í sér sviptingu tiltekinna réttinda sem tilgreind eru í vinnuvélaskírteini sem og réttar til að öðlast vinnuvélaréttindi. Ef svipting vinnuvélaréttinda er ótímabundin getur sá sem sviptur er réttindum ekki sótt að nýju um vinnuvélaréttindi fyrr en fimm ár eru liðin frá sviptingunni að undangengnu verklegu og bóklegu prófi á viðkomandi vél.
                      Ef stjórnandi vélar skv. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki vera vélknúið ökutæki, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, hefur brotið gegn 48.–50. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að svipta hann vinnuvélaréttindum í sama tíma og ökuréttarsviptingin varir.
                  f.      Á eftir 99. gr. laganna kemur ný grein, 99. gr. a, svohljóðandi:
                      Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á atvinnurekanda og eftir atvikum verkkaupa eða fulltrúa verkkaupa og framleiðanda, innflutningsaðila og dreifingaraðila varnings, sbr. 4. gr. laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, sem:
                      a.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um stöðvun vinnu eða lokun starfsemi eða hluta hennar eða um bann við notkun vélar skv. 84. eða 85. gr.,
                      b.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við markaðssetningu eða um bann við notkun sem og afturköllun eða eyðileggingu á vélum, tækjum og öðrum búnaði skv. 48. gr. a,
                      c.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við framleiðslu, flutningi eða notkun hættulegra efna og efnavara skv. 2. mgr. 51. gr.,
                      d.      brýtur ítrekað gegn fyrirmælum stofnunarinnar um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skv. 37. gr., 42. gr. eða 46. gr., sem veitt hafa verið vegna sambærilegrar háttsemi eða brots,
                      e.      brýtur gegn ákvæðum reglugerðar um bann við notkun asbests á vinnustöðum,
                      f.      brýtur gegn 5. mgr. 36. gr., 60. gr. eða 1. eða 2. mgr. 80. gr.,
                      g.      brýtur með stórfelldum hætti og alvarlega gegn 1. eða 2. mgr. 53. gr., 1. eða 2. mgr. 54. gr. eða 55. gr.,
                      h.      brýtur með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 50. gr. eða 1. mgr. 51. gr. a,
                      i.      brýtur gegn ákvæðum laga þessara og/eða ákvæðum reglna eða reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og brotið veldur loftmengun eitraðra eða eldfimra eða hættulegra efna, sprengihættu, klemmihættu, skurðhættu, fallhættu eða hættu á hruni jarðvegs, verkpalls, vörustæðu, gáma, kerja eða burðarvirkis sem skapar verulega hættu fyrir líf eða heilbrigði starfsmanna,
                      j.      tilkynnir ekki í samræmi við 1. mgr. 79. gr. eða veitir rangar eða villandi upplýsingar um vinnuslys sem leiðir til dauða eða langvinns eða varanlegs heilsutjóns starfsmanns,
                      k.      ræður börn eða ungmenni til vinnu við þær aðstæður sem kveðið er á um í 62. gr.,
                      l.      veitir stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar að mati stofnunarinnar um þau atriði sem veita skal stofnuninni upplýsingar um skv. 5. mgr. 36. gr., 58. gr., 1. og 2. mgr. 80. gr., 2., 3., 5. eða 10. mgr. 82. gr.
                      Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á starfsmann sem:
                      a.      brýtur gegn 6. mgr. 45. gr., eða
                      b.      brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við notkun tiltekins tækis, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 99. gr.
                      Stjórnvaldssekt sem lögð er á starfsmann getur numið allt að 1 millj. kr.
                      Stjórnvaldssekt sem lögð er á atvinnurekanda getur numið allt að 15 millj. kr.
                      Við ákvörðun stjórnvaldssektar skal Vinnueftirlit ríkisins meðal annars líta til alvarleika brots, til þess hve lengi það hefur staðið yfir, hvort um ítrekað brot hafi verið að ræða sem og samstarfsvilja hins brotlega aðila og umfangs atvinnurekstrar aðilans, sé um atvinnurekanda að ræða.
                      Stjórnvaldssekt skal beitt óháð því hvort brotið var framið af ásetningi eða gáleysi.
                      Ekki skal leggja stjórnvaldssekt á starfsmann og atvinnurekanda fyrir sama brot. Ef stjórnvaldssekt er lögð á verður öðrum viðurlögum samkvæmt lögum þessum ekki beitt.
                      Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim aðila sem sektin beinist að og skal ákvörðuninni fylgja skriflegur rökstuðningur.
                      Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer samkvæmt ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu.
                      Heimild Vinnueftirlits ríkisins til þess að leggja á stjórnvaldssekt samkvæmt ákvæði þessu fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi skv. 1. og/eða 2. mgr. lauk.
                      Stjórnvaldssekt rennur í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu sektarinnar.
                      Ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um stjórnvaldssekt er aðfararhæf.
                      Að öðru leyti fer um ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um stjórnvaldssekt samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
                  g.      Fyrirsögn XV. kafla laganna verður: Viðurlög og refsiákvæði.
     2.      Lög um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007:
                      Við 7. mgr. 15. gr. a laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnumálastofnun ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.
     3.      Lög um starfsmannaleigur, nr. 139/2005:
                      Við 8. mgr. 11. gr. a laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnumálastofnun ákveði slíkt sérstaklega. Heimilt er að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.
     4.      Lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006:
                      Í stað tilvísunarinnar „1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda“ í c-lið 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: 5. gr. starfskjaralaga.

Ákvæði til bráðabirgða

I.

    Að tveimur árum liðnum frá gildistöku laga þessara skal ráðherra meta í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins hvort þörf sé á endurskoðun á 14. gr. Komi til endurskoðunar á 14. gr. skal slík endurskoðun fara fram í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins.

II.

    Ráðherra sem fer með mál er varða vinnumál og ráðherra sem fer með mál er varða réttarfar skulu við gildistöku laga þessara kanna í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins hvort og þá með hvaða hætti staðfest févíti geti talist hluti af launakröfu í skilningi laga um gjaldþrotaskipti. Komi til þess að ráðherra sem fer með mál er varða réttarfar leggi fram frumvarp á Alþingi, þar sem gert verður ráð fyrir breytingum á lögum um gjaldþrotaskipti þess efnis að févíti skuli teljast hluti af launakröfu í skilningi laganna, skal ráðherra sem fer með mál er varða vinnumál samhliða leggja fram frumvarp þar sem gert verður ráð fyrir nauðsynlegum breytingum á lögum um Ábyrgðasjóð launa þannig að févíti njóti ábyrgðar sjóðsins.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Undirbúningur vegna frumvarps þessa hófst í október 2018 en þá skipaði þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra samstarfshóp í því skyni að sporna gegn félagslegum undirboðum á innlendum vinnumarkaði. Í hópnum áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Bandalagi háskólamanna, BSRB, dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Jafnframt áttu sæti í hópnum fulltrúar frá þáverandi velferðarráðuneyti (síðar félagsmálaráðuneyti og nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti), embætti ríkislögreglustjóra, ríkisskattstjóra, Vinnueftirliti ríkisins og Vinnumálastofnun en formaður hópsins var skipaður án tilnefningar. Var samstarfshópnum meðal annars ætlað að leggja til aðgerðir sem vænlegar þættu til árangurs í baráttunni gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði þar sem samstarf þeirra aðila sem fara með eftirlit á vinnumarkaði væri meðal annars tryggt. Í lok janúar 2019 skilaði samstarfshópurinn skýrslu sinni, Skýrsla samstarfshóps félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði.
    Hinn 3. apríl 2019 kynntu stjórnvöld aðgerðir sínar til stuðnings svokölluðum lífskjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru sama dag. Í því skyni að koma til framkvæmda þeim aðgerðum er lúta að vinnumarkaði og falla undir málefnasvið félagsmálaráðuneytisins (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti) skipaði þáverandi félags- og barnamálaráðherra nefnd í september 2019. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, félagsmálaráðuneyti (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti), Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Þá áttu Vinnueftirlit ríkisins og Vinnumálastofnun einnig fulltrúa í nefndinni og var formaður nefndarinnar skipaður án tilnefningar. Hlutverk nefndarinnar var að vinna lagafrumvarp þar sem einkum væri litið til aðgerða á vinnumarkaði sem tilgreindar voru í stuðningi stjórnvalda við framangreinda lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði og féllu undir málefnasvið þáverandi félags- og barnamálaráðherra (nú félags- og vinnumarkaðsráðherra).

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Vinnumarkaður hér á landi er vel skipulagður með öflugum samtökum launafólks og atvinnurekenda sem semja sín á milli í kjarasamningum um laun og önnur starfskjör launamanna sem eru þátttakendur á innlendum vinnumarkaði sem og um aðra þætti er varða hagsmuni launafólks og atvinnurekenda. Þá hafa verið settar reglur og mótuð framkvæmd í samskiptum samtaka aðila vinnumarkaðarins sem gefur stéttarfélögum og samtökum atvinnurekenda ríkt umboð til að koma fram fyrir hönd og gæta hagsmuna launafólks, fyrirtækja og stofnana, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða stofnanir á almennum eða opinberum vinnumarkaði.
    Opinberum aðilum hefur einnig verið falið að fara með afmarkað eftirlit á innlendum vinnumarkaði og fara Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins meðal annars með slíkt eftirlit, svo sem á grundvelli laga um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, laga um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010, og laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980. Í aðgerðum stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði vorið 2019 var gert ráð fyrir enn frekari aðkomu opinberra aðila að eftirliti á innlendum vinnumarkaði.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði ný heildarlög um starfskjör launafólks í stað laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, auk þess sem lagðar eru til breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, lögum um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, og lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Megintilgangur frumvarpsins er að koma til framkvæmda þeim aðgerðum stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði vorið 2019 sem falla undir málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðherra og lúta að vinnumarkaði. Það er jafnframt megintilgangur frumvarpsins að skýra leikreglur á vinnumarkaði, meðal annars í því skyni að sporna gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi og er frumvarpinu þannig ætlað að bregðast við auknum vanda hvað það varðar á innlendum vinnumarkaði.

     Aðgerðir stjórnvalda sem lúta að vinnumarkaði.
     *      Aðgerð 22.
         Heimildir til refsinga verði auknar, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, ef atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanns.
     *      Aðgerð 23.
         Komið verði upp föstum samráðshópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem beri ábyrgð á sameiginlegri stefnumótun um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.
     *      Aðgerð 24.
         Þau stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði (lögreglan, Skatturinn, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun) geri með sér formlegt samkomulag um skipulegt samstarf gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Formbundið verði reglulegt samráð og samstarf þessa samstarfsvettvangs við aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit.
     *      Aðgerð 25.
         Útfært verði hvernig megi fyrirbyggja alvarleg og/eða ítrekuð brot gegn starfsmönnum með því að útvíkka refsiábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna.
     *      Aðgerð 26.
         Stjórnvöldum verði veittar lagaheimildir til að taka á brotastarfsemi, meðal annars með þvingunarúrræðum og stjórnvaldsviðurlögum.
     *      Aðgerð 28.
         Komið verði í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði undir formerkjum starfsnáms eða sjálfboðaliðastarfsemi og markaður skýr rammi um hvað skuli heimilað undir þeim formerkjum.

    Gert er ráð fyrir að frumvarpið gildi um laun og önnur starfskjör launamanna. Tekið er sérstaklega fram að gildissviðið nái ekki til sjálfboðaliða. Er þannig gert ráð fyrir að sjálfboðaliðastörf falli utan gildissviðsins, enda byggjast þau á langri hefð, en gera verður skýran greinarmun á sjálfboðaliðum, sem ekki gegna almennum störfum launamanna sem eru hluti af efnahagslegri starfsemi fyrirtækja og stofnana, og launamönnum sem starfa fyrir og á ábyrgð atvinnurekanda gegn endurgjaldi.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að fari atvinnurekandi ekki að fyrirmælum Vinnumálastofnunar, sbr. 4. mgr. 9. gr., þess efnis að frá og með næstu útborgun launa greiði hann ekki lakari laun en kjarasamningur kveður á um, sem og í þeim tilvikum þegar atvinnurekandi veitir stofnuninni ekki upplýsingar skv. 1. og/eða 2. mgr. 10. gr. innan þess frests sem veittur hefur verið geti Vinnumálastofnun tekið ákvörðun um að hlutaðeigandi atvinnurekandi greiði dagsektir þar til úrbætur hafa verið gerðar. Er gert ráð fyrir að hið sama gildi hafi atvinnurekandi veitt Vinnumálastofnun rangar eða ófullnægjandi upplýsingar skv. 1. og/eða 2. mgr. 10. gr.
    Enn fremur er lagt til að hafi Vinnumálastofnun tekið ákvörðun um dagsektir skv. 11. gr. og hafi atvinnurekandi ekki gert viðeigandi úrbætur innan sex vikna frá því að ákvörðunin um dagsektir var sannanlega birt honum geti Vinnumálastofnun látið stöðva tímabundið starfsemi hans þar til úrbætur hafa verið gerðar, enda hafi önnur úrræði ekki skilað árangri. Er gert ráð fyrir að starfsmönnum Vinnumálastofnunar verði heimilt að óska eftir aðstoð lögreglu til að framfylgja ákvörðun stofnunarinnar þegar slíkt er nauðsynlegt að mati stofnunarinnar.
    Þá er lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að leggja stjórnvaldssekt á atvinnurekanda hafi hann ítrekað ekki farið að fyrirmælum stofnunarinnar þess efnis að hann greiði ekki lakari laun en kjarasamningar kveða á um, sbr. 4. mgr. 9. gr., eða hafi hann veitt stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar skv. 1. og/eða 2. mgr. 10. gr. Þá er gert ráð fyrir að umrædd heimild Vinnumálastofnunar eigi einnig við hafi atvinnurekandi ekki veitt Vinnumálastofnun upplýsingar skv. 1. og/eða 2. mgr. 10. gr. Gert er ráð fyrir að umrædd heimild Vinnumálastofnunar eigi við í framangreindum tilvikum óháð því hvort um ásetning eða gáleysi hefur verið að ræða af hálfu atvinnurekandans sem og óháð því hvort ráðningarsambandi launamanns og atvinnurekanda er lokið eða ekki.
    Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi, sem af ásetningi hefur greitt launamanni lakari laun en samkvæmt viðeigandi kjarasamningi, sbr. 5. gr., skuli að rökstuddri kröfu launamanns greiða viðkomandi launamanni févíti séu gjaldföllnu launin ekki greidd innan 18 daga frá því að launamaður sjálfur eða stéttarfélag hans í hans umboði gerði kröfu um greiðslu launanna, enda séu tilteknar forsendur fyrir hendi. Í 14. gr. og í skýringum við ákvæðið er nánar tilgreint hvaða forsendur þurfa að vera fyrir hendi svo að févíti komi til álita sem og í hvaða tilvikum févíti kemur ekki til álita. Auk þess er í ákvæðinu og í skýringum við það tilgreint nánar hvernig forsendur fyrir févíti skulu metnar. Þar sem gert er ráð fyrir að ágreiningi um févíti sé skotið af hálfu launamanns til samráðsnefndar til úrlausnar í ágreiningsmálum, sbr. 6. gr., sem ákvarði um rétt launamanns til almenns eða sérstaks févítis, var ákvæðið unnið í sérstöku samráði við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins en markmiðið með févíti er að sporna gegn því að á vinnumarkaði hér á landi séu greidd lakari laun en kjarasamningum er ætlað að tryggja, sbr. 5. gr.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að komið verði á laggirnar sérstakri samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að verkefni nefndarinnar verði að koma með tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Er jafnframt gert ráð fyrir að nefndin skuli afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá alþingiskosningum hverju sinni en slíkt þykir mikilvægt svo að hver ríkisstjórn hafi tækifæri til marka sér stefnu og grípa til nauðsynlegra aðgerða innan hvers kjörtímabils. Enn fremur er gert ráð fyrir að nefndin afhendi ráðherra skýrslu, eftir því sem þörf krefur að mati nefndarinnar og einnig ef ráðherra óskar sérstaklega eftir því, um stöðuna hvað varðar brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði hverju sinni.
    Lagt til að með sérstökum samningum verði komið á fót samstarfsvettvangi opinberra eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Fyrsti samningur þess efnis milli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Skattsins, Vinnueftirlits ríkisins og Vinnumálastofnunar hefur þegar verið undirritaður og var það gert 15. nóvember 2019. Fram kemur í frumvarpinu að markmiðið með samstarfsvettvangi sé að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á innlendum vinnumarkaði fari að ákvæðum laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á vinnumarkaðnum. Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um að þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvanginn skuli standa fyrir sameiginlegum aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði með eftirliti og virkri eftirfylgni, greiningarvinnu og upplýsingamiðlun milli aðila innan þeirra marka sem lög heimili. Þá er gert ráð fyrir að sömu stofnanir skuli formbinda reglulegt samráð og samstarf við samtök aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit eftir því sem við eigi.
    Auk þess er í frumvarpinu lagt til að í fyrirhuguðum lögum verði kveðið á um sérstakar skyldur atvinnurekanda sem skuldbindur sig til að taka starfsnema í starfsnám á vinnustað.
    Loks eru í frumvarpi þessu lagðar til tilteknar breytingar á öðrum lögum í því skyni að tryggja eins vel og unnt er að framangreindar aðgerðir stjórnvalda komist til framkvæmda en helstu breytingarnar sem um ræðir eru á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarps þessa gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Áform um gerð frumvarpsins voru kynnt öðrum ráðuneytum í samræmi við verklag hvað varðar innra samráð Stjórnarráðsins.
    Frumvarpið var samið í samstarfshópi sem var skipaður fulltrúum frá félagsmálaráðuneyti (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti), Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Vinnueftirliti ríkisins og Vinnumálastofnun. Þá var 14. gr. frumvarpsins unnin í sérstöku samráði við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins og hið sama á við um ákvæði til bráðabirgða I og II. Auk þess var haft samráð við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, hvað varðar viðurlög og/eða refsingar við brotum gegn tilteknum ákvæðum laganna.
    Í ljósi efnis frumvarpsins sem og þess að það var samið í samstarfi við framangreinda aðila þótti ekki ástæða til að kynna sérstaklega drög að frumvarpinu í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið samþykkt má ætla að þær breytingar sem verða á löggjöf hér á landi og eru til þess fallnar að sporna gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði hafi í för með sér aukna þörf fyrir mannafla til að sinna opinberu eftirliti á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að árleg fjárhagsáhrif á ríkissjóð verði 175,7 millj. kr. verði frumvarpið óbreytt að lögum. Mun kostnaðurinn að mestu koma til vegna fjölgunar starfsmanna, bæði hjá Vinnumálastofnun og Vinnueftirliti ríkisins, en báðum þessum stofnunum er ætlað aukið hlutverk frá því sem nú er við eftirlit í því skyni að sporna gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Þrátt fyrir framangreint er talið að snarpara eftirlit og varnaðaráhrif fyrirhugaðra laga geti haft jákvæð áhrif á ríkissjóð til lengri tíma litið. Þá er gert ráð fyrir 76 millj. kr. einskiptiskostnaði vegna hugbúnaðargerðar hjá Vinnumálastofnun í tengslum við aukið eftirlit stofnunarinnar á vinnumarkaði.
    Ekki verður séð að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér muni hafa mismunandi áhrif á stöðu kynjanna á vinnumarkaði þar sem þeim er ætlað að gilda um innlendan vinnumarkað í heild sinni og þar af leiðandi alla starfsmenn sem starfa hér á landi, óháð því hvort viðkomandi starfsmenn sem um ræðir hverju sinni eru karlar eða konur. Þó má gera ráð fyrir að efni frumvarpsins hafi meiri áhrif á karla en konur þar sem fleiri karlar en konur eru starfandi á innlendum vinnumarkaði samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands yfir þá sem voru starfandi á árinu 2021.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er lagt til að frumvarpið gildi um laun og önnur starfskjör launamanna en hugtakið launamaður er skýrt í 4. gr. Jafnframt er lagt til að skýrt komi fram í ákvæðinu að gildissviðið nái ekki til sjálfboðaliða eins og það hugtak er skýrt í 4. gr. Er þannig gert ráð fyrir að sjálfboðaliðastörf falli utan gildissviðsins, enda byggjast þau á langri hefð, en gera verður skýran greinarmun á sjálfboðaliðum, sem ekki gegna almennum störfum launamanna sem eru hluti af efnahagslegri starfsemi fyrirtækja og stofnana, og launamönnum sem starfa fyrir og á ábyrgð atvinnurekanda gegn endurgjaldi. Þykir brýnt að gera þann greinarmun þar sem síðastliðin ár hefur borið á því á innlendum vinnumarkaði að einstaklingar gegni almennum störfum launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja án þess að þeim séu greidd laun fyrir störf sín en slíkt er andstætt ákvæðum kjarasamninga og meginreglum á vinnumarkaði. Þykir því mikilvægt að bregðast við þeirri þróun. Þess eru dæmi að um sé að ræða störf sem eru þess eðlis að alla jafna væru greidd laun fyrir vinnuframlag þeirra sem gegna þeim samkvæmt ákvæðum kjarasamninga, sbr. 5. gr. Leiða má líkur að því að séu kjarasamningar ekki virtir geti það meðal annars grafið undan starfsemi annarra fyrirtækja og spillt forsendum eðlilegrar samkeppni og dregið þannig úr ávinningi samfélagsins alls af traustu og heilbrigðu atvinnulífi.
    Hvað varðar nánari skýringar á hugtakinu sjálfboðaliði vísast til umfjöllunar um hugtakið í skýringum við 4. gr.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að þrjú hugtök verði skýrð. Er gert ráð fyrir að hugtakið launamaður verði skýrt þannig að um sé að ræða einstakling sem starfar fyrir og á ábyrgð atvinnurekanda gegn endurgjaldi. Í gildandi löggjöf er ekki að finna eina samræmda skýringu á hugtakinu. Notuð eru mismunandi orð yfir hugtakið, svo sem launamaður, launþegi, starfsmaður, verkamaður og verkafólk í hinum ýmsu lögum og getur hugtakið haft mismunandi merkingu eftir efni þeirra laga sem um ræðir hverju sinni. Sem dæmi um mismunandi skýringar á hugtakinu launamaður í gildandi löggjöf má nefna a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Það hefur því komið í hlut dómstóla að skýra hugtakið í íslenskum rétti hverju sinni og fyrir liggur löng dómaframkvæmd hvað það varðar. Í ljósi þróunar á vinnumarkaði, sér í lagi hvað varðar ný ráðningarform, má ætla að dómstólar hér á landi gætu til framtíðar litið þurft að hafa til hliðsjónar ný sjónarmið þegar meta þarf hvenær einstaklingar teljast launamenn og hvenær ekki. Í því sambandi má nefna að í inngangsorðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1152 frá 20. júní 2019 um gagnsæ og fyrirsjáanleg vinnuskilyrði í Evrópusambandinu kemur fram að Evrópudómstóllinn hafi með dómafordæmum lagt fram ákveðin viðmið til að ákveða hvenær einstaklingar teljast launamenn. Í 8. lið inngangsorða tilskipunarinnar kemur meðal annars fram að samkvæmt túlkun Evrópudómstólsins geti skilgreining á hugtakinu launamaður náð til launamanns sem vinnur við heimilishald, launamanns sem hægt er að kalla til vinnu eftir þörfum, lotustarfsmanns, launamanns sem vinnur á grundvelli inneignarmiða/úttektarmiða, verkvangsstarfsmanns, starfsnema og iðnnema. Aftur á móti sé hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi talinn sjálfstætt starfandi einstaklingur og falli því utan viðmiða Evrópudómstólsins. Í ljósi framangreinds þykir mikilvægt að hugtakið launamaður verði skýrt á þá leið að það nái yfir þá aðila sem sannanlega starfa í annarra þágu gegn endurgjaldi án tillits til þess hvernig ráðningarforminu er háttað.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að hugtakið sjálfboðaliði verði skýrt þannig að um sé að ræða einstakling sem ekki gegnir almennum störfum launamanna sem eru hluti af efnahagslegri starfsemi fyrirtækja eða stofnana. Það er andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja eða stofnana. Um þessi störf gilda ákvæði kjarasamninga, sbr. 5. gr. Launafólk hefur sinnt þessum störfum og verður því ekki skipt út fyrir sjálfboðaliða. Hefðbundin sjálfboðaliðastörf eiga sér langa sögu hér á landi og eru mikilvæg þeim aðilum sem vinna í þágu almannaheilla að góðgerða-, menningar- eða mannúðarmálum. Sem dæmi má nefna störf sjálfboðaliða í björgunarsveitum, ýmis störf innan íþróttahreyfingarinnar sem og störf í afmörkuðum verkum í landbúnaði sem byggjast á aðstoð vina og ættingja í mjög skamman tíma, svo sem í göngum eða réttum. Þá má nefna störf sjálfboðaliða í verkefnum fyrir ýmis félagasamtök sem tengjast góðgerða- eða mannúðarmálum, svo sem fyrir Rauða krossinn á Íslandi, Hitt húsið, Hjálpræðisherinn, skátahreyfinguna eða Alþjóðleg ungmennaskipti (AUS).
    Þá er gert ráð fyrir að hugtakið starfsnemi verði skýrt þannig að um sé að ræða einstakling sem stundar nám á vinnustað undir umsjón leiðbeinanda á grundvelli viðeigandi samnings sem hefur verið gerður milli hlutaðeigandi atvinnurekanda, viðurkennds fræðsluaðila og einstaklingsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að fram komi í skýringunni að það starf eða þau störf sem einstaklingurinn gegnir á vinnustaðnum séu hluti af náminu. Þykir þetta mikilvægt þar sem starfsnám á vinnustað er oft mikilvægur hluti af námi einstaklinga þar sem nemendur öðlast oft og tíðum dýrmæta þjálfun í að nýta fræðilega þekkingu á raunverulegum viðfangsefnum í atvinnulífinu undir leiðsögn sérfræðinga. Gert er ráð fyrir að um íslenskan eða erlendan fræðsluaðila, þ.m.t. menntastofnun, geti verið að ræða og að viðkomandi aðili sé viðurkenndur á grundvelli þeirra reglna sem gilda um slíka viðurkenningu í hlutaðeigandi ríki hverju sinni. Hér á landi eru fræðsluaðilar ýmist viðurkenndir samkvæmt lögum eða kjarasamningum.

Um 5. gr.

    Gert er ráð fyrir að ákvæði þetta verði efnislega samhljóða 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Hér er því lagt til að skýrt verði kveðið á um að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um skuli vera lágmarkskjör óháð öðrum þáttum, svo sem kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu sem og ráðningartíma, fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningurinn tekur til. Ekki er gert ráð fyrir að þeir þættir verði tæmandi taldir í ákvæðinu sem óheimilt er að láta hafa áhrif á þá meginreglu að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um skuli vera lágmarkskjör hér á landi en gert er ráð fyrir að 1. málsl. ákvæðisins verði í samræmi við 1. málsl. 1. gr. fyrrgreindra laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
    Frá því að lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda tóku gildi árið 1980 hafa ákvæði í íslenskri löggjöf í tengslum við hvers konar mismunun tekið nokkrum breytingum. Má sem dæmi nefna að árið 1995 voru gerðar breytingar á VII. kafla stjórnarskrárinnar, sem almennt er nefndur mannréttindakafli hennar, með það að markmiði að efla, samhæfa og samræma mannréttindaákvæðin þannig að þau mundu betur gegna hlutverki sínu en þágildandi ákvæði gerðu en meðal annars var samþykkt ný 65. gr. Þar er sett fram almenn jafnræðisregla þar sem kveðið er á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Jafnframt er í 7. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, kveðið á um að hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem taldir eru upp í 1. mgr. 1. gr. laganna sé óheimil. Í 1. mgr. 1. gr. laganna er kveðið á um að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Einnig má nefna að í 16. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, er kveðið á um að hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, sé óheimil. Markmið þeirra laga er meðal annars að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Þá má nefna að kveðið er á um vernd gegn mismunun fyrir starfsmenn sem eru tímabundið ráðnir í 4. gr. laga um tímabundna ráðningu starfsmanna, nr. 139/2003, en samkvæmt ákvæðinu skal tímabundið ráðinn starfsmaður hvorki njóta hlutfallslega lakari starfskjara né sæta lakari meðferð en sambærilegur starfsmaður með ótímabundna ráðningu af þeirri ástæðu einni að hann er ráðinn tímabundið nema það sé réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.
    Þá er í ákvæðinu lagt til að kveðið verði skýrt á um að atvinnurekendum sé óheimilt að greiða einstaka launamanni lakari laun eða semja við einstaka launamann um lakari kjör en almennir kjarasamningar kveða á um og að slíkir samningar skuli ógildir. Er í þessu sambandi við það miðað að starfskjör, þegar þau eru metin í heild sinni, verði að nema því lágmarki sem kjarasamningur tryggir hverju sinni, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í málum nr. 273/2010, 118/2007 og 351/1999. Í þessu sambandi er vísað til 2. málsl. 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda þar sem kveðið er á um að samningar einstaka launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveði skuli ógildir.

Um 6. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Hvað varðar skýringar við ákvæðið að öðru leyti vísast til athugasemda við frumvarp það er varð að lögum nr. 145/2004, um breytingu á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, sbr. athugasemd með 1. gr. frumvarpsins:
    Með ákvæði þessu er lagt til að þeir samningar sem samtök aðila vinnumarkaðarins gera sín á milli um málsmeðferð í ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ætlaðra brota á gildandi kjarasamningum í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningur tekur til hafi almennt gildi. Með orðunum „með þeim takmörkunum sem í samningunum felast“ er verið að vísa til þess að ekki er gert ráð fyrir að samningar þeir sem falla undir ákvæði þetta skuli í öllum tilvikum gilda um alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til eins og 1. gr. laganna gefur til kynna heldur geta einstakir samningar gilt um ákveðna hópa launafólks á íslenskum vinnumarkaði óháð félagsaðild þeirra. Dæmi um þetta er samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Sá samningur nær því einungis til erlendra starfsmanna í viðkomandi starfsgreinum á þeim svæðum sem samningurinn tekur til en ekki annarra launamanna enda þótt þeir starfi í sömu starfsgreinum og á sömu svæðum. Ástæða þessa samnings er meðal annars að það að ákveðnar breytingar eru að verða á samsetningu vinnuafls vegna fjölgunar útlendinga á íslenskum vinnumarkaði á ekki að leiða til röskunar á gildandi fyrirkomulagi um ákvörðun launa og annarra starfskjara launafólks með kjarasamningum. Enn fremur er tekið fram í forsendum samningsins að í tilvikum þegar kjarasamningar eru ekki virtir grafi það undan starfsemi annarra fyrirtækja, spilli forsendum eðlilegrar samkeppni og dragi úr ávinningi alls samfélagsins af traustu og heilbrigðu atvinnulífi.
    Þrátt fyrir hið almenna gildi samninganna sem hér er lagt til er engu síður gert ráð fyrir að þegar sérstakar samráðsnefndir hafa verið settar á fót þar sem fulltrúar hlutaðeigandi aðildarsamtaka taka sæti þá sé ófélagsbundnum aðila máls, hvort sem um er að ræða atvinnurekanda eða launamann, heimilt að tilnefna sinn fulltrúa er tekur sæti eins fulltrúa hlutaðeigandi samtaka. Eigi samtök aðila vinnumarkaðarins hvort um sig fleiri en einn fulltrúa í nefndinni taka þeir sem eftir sitja þátt í afgreiðslu málsins. Samtök aðilanna sem í hlut eiga ákveða sjálf hvaða fulltrúi muni víkja sæti fyrir fulltrúa hins ófélagsbundna aðila þegar samtökin eiga fleiri en einn fulltrúa í nefndinni. Kjósi hinn ófélagsbundni aðili að tilnefna sérstakan fulltrúa sinn í nefndina er lagt til að hann tilkynni nefndarmönnum þar um áður en nefndin tekur málið til efnislegrar meðferðar. Er þetta lagt til svo koma megi í veg fyrir að aðilar tilnefni fulltrúa eftir að nefndin hefur byrjað að fjalla um málið.

Um 7. gr.

    Hér er lagt til að kveðið verði á um að atvinnurekanda beri ávallt að hafa tiltæk gögn sem sýna fram á hvaða laun hann hefur greitt starfsmönnum sínum á hverjum tíma, að teknu tilliti til vinnutíma starfsmanna. Þykir þetta mikilvægt til að Vinnumálastofnun sé unnt að afla þeirra gagna sem stofnuninni eru nauðsynleg til að leggja mat á hvort atvinnurekandi hafi greitt einstaka launamanni lakari laun en kjarasamningur kveður á um og þannig brotið gegn 5. gr. Ekki er þó gert ráð fyrir að í ákvæðinu sé talið upp með tæmandi hætti hvaða gögn geti verið um að ræða þar sem ætla má að það geti verið misjafnt hvaða gögn atvinnurekendur telja best til þess fallin hverju sinni að sýna fram á að ekki hafi verið greidd lakari laun en kjarasamningur kveður á um. Þó er lagt til að í ákvæðinu verði í dæmaskyni kveðið á um að um geti verið að ræða ráðningarsamninga eða skriflegar staðfestingar á ráðningum í samræmi við lög eða kjarasamninga, upplýsingar um vinnutíma starfsmanna, sbr. 57. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, sbr. einnig b-lið 1. tölul. 23. gr. frumvarpsins, og önnur gögn er varða kjör starfsmanna, þ.m.t. launaseðla og staðfestingu á að laun hvers starfsmanns hafi verið greidd í samræmi við það sem kemur fram á launaseðli viðkomandi starfsmanns.

Um 8. gr.

    Hér gert ráð fyrir að kveðið verði á um skyldur atvinnurekanda sem skuldbindur sig til að taka starfsnema í starfsnám á vinnustað. Þannig er gert ráð fyrir að atvinnurekanda, sem tekur starfsnema í slíkt starfsnám, beri að sjá til þess að fyrir liggi viðeigandi samningur milli hans, viðurkennds fræðsluaðila og nemans. Í því sambandi er gert er ráð fyrir að um íslenskan eða erlendan fræðsluaðila, þ.m.t. menntastofnun, geti verið að ræða og að viðkomandi aðili sé viðurkenndur á grundvelli þeirra reglna sem gilda um slíka viðurkenningu í hlutaðeigandi ríki hverju sinni, sbr. skýringar við 4. gr. Hér á landi eru fræðsluaðilar ýmist viðurkenndir samkvæmt lögum eða kjarasamningum.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að í samningnum skuli meðal annars koma fram sá tími sem áætlað er að starfsneminn verði í starfsnámi en mikilvægt þykir að umræddur tími sé vel skilgreindur í samningnum þannig að ávallt liggi ljóst fyrir að sá tími sem starfsnemi er í starfsnámi á vinnustað sé í eðlilegu samræmi við starfsnám viðkomandi starfsnema á vinnustaðnum. Er þetta lagt til þar sem ekki er gert ráð fyrir að starfsnemar geti verið í starfsnámi á vinnustað til lengri tíma litið þar sem slíkt nám er í eðli sínu tímabundið. Þá þykir mikilvægt að unnt verði að meta hvort einstaklingur sem sagður er í starfsnámi á vinnustað sé raunverulega í slíku námi, meðal annars út frá þeim tíma sem tilgreindur er í framangreindum samningi, eða hvort eðlilegt megi telja að viðkomandi einstaklingur sé ekki lengur í starfsnámi heldur sé um launamann að ræða. Er í því sambandi átt við að sá tími sem einstaklingurinn er sagður hafa verið í starfsnámi á hlutaðeigandi vinnustað er orðinn það langur að hann telst ekki lengur í eðlilegu samræmi við starfsnám á vinnustaðnum samkvæmt samningnum.
    Þá er gert ráð fyrir að starfskjör starfsnemans komi fram í samningnum en með því er átt við að í samningnum komi fram hvort neminn fái greitt fyrir starfsnámið í samræmi við ákvæði kjarasamninga sem í gildi eru hverju sinni og/eða hvort miðað sé við að neminn fái tilteknar námseiningar fyrir starfsnámið sem verði þá hluti af heildareiningum náms viðkomandi. Er jafnframt gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar fyrir liggur kjarasamningur í þeirri starfsgrein sem við á hverju sinni séu starfskjör starfsnema í samræmi við ákvæði þess kjarasamnings.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að í umræddum samningi komi fram upplýsingar um starfsaðstæður, tryggingar, réttindi viðkomandi starfsnema og lýsing á því starfi eða þeim störfum sem hann komi til með að gegna á vinnustaðnum, hver sé leiðbeinandi hans á vinnustaðnum svo og nánari lýsing hins viðurkennda fræðsluaðila á náminu og staðfesting hans á því að námið á vinnustaðnum og sú atvinnuþátttaka starfsnemans sem þar fer fram sé þáttur í náminu.
    Þá er gert ráð fyrir að atvinnurekanda, sem skuldbindur sig til að taka starfsnema í starfsnám á vinnustað, beri ávallt að hafa tiltækt afrit af framangreindum samningi á gildistíma hans. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja að atvinnurekandinn geti ávallt sýnt fram á að starfsneminn gegni ekki öðrum störfum á vinnustaðnum en því starfi eða þeim störfum sem eru hluti af náminu hverju sinni. Þykir þetta mikilvægt þar sem litið er svo á að ekki sé um starfsnema í starfsnámi að ræða þegar einstaklingur sem sagður er starfsnemi í starfsnámi á vinnustað gegnir starfi eða störfum á vinnustaðnum sem ekki eru hluti af námi viðkomandi.
    Starfsnám starfsnema á vinnustað er oft mikilvægur hluti af náminu en í slíku námi öðlast starfsnemar oft og tíðum dýrmæta þjálfun í að nýta fræðilega þekkingu í raunverulegum viðfangsefnum í atvinnulífinu undir leiðsögn sérfræðinga. Með ákvæðinu er leitast við að kveða skýrt á um þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt þegar um er að ræða starfsnema í starfsnámi á vinnustað. Þykir það mikilvægt til að unnt sé að greina á milli þeirra einstaklinga sem eru starfsnemar í starfsnámi og annarra þátttakenda á vinnumarkaði, svo sem launamanna í skilningi frumvarpsins, þar sem um ólík réttindi getur verið um að ræða hvað varða laun og önnur starfskjör eftir því hvort um er að ræða starfsnema eða launamenn.

Um 9. gr.

    Almennt hafa aðilar vinnumarkaðarins eftirlit með því að farið sé að ákvæðum kjarasamninga á innlendum vinnumarkaði. Er það jafnframt hlutverk stéttarfélaga að bregðast við kvörtunum launamanna telji þeir brotið á kjarasamningsbundnum réttindum sínum í tengslum við þátttöku á vinnumarkaði. Í frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir breytingu hvað þetta varðar. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði falið afmarkað hlutverk í þessu sambandi en lagt er til að launamaður geti óskað eftir aðstoð Vinnumálastofnunar við að fá launagreiðslur leiðréttar telji launamaðurinn að atvinnurekandi greiði honum lakari laun en kveðið er á um í gildandi kjarasamningi í viðkomandi starfsgrein á því svæði þar sem vinna launamannsins fer fram. Áður en launamaður getur óskað eftir aðstoð Vinnumálastofnunar við að fá launagreiðslur leiðréttar er gert ráð fyrir að hann sjálfur, standi hann utan stéttarfélags, eða með milligöngu stéttarfélags, hafi krafist þess með sannanlegum hætti að hlutaðeigandi atvinnurekandi leiðrétti launagreiðslur. Þykir slík framkvæmd í samræmi við þá meginreglu að almennt leysi aðilar vinnumarkaðarins úr ágreiningi sem upp kemur í tengslum við túlkun kjarasamninga án aðkomu opinberra aðila. Í ljósi þess þykir því mikilvægt að launamaður sem telur að atvinnurekandi hafi greitt honum lakari laun en kveðið er á um í gildandi kjarasamningi hafi fyrst reynt að fá launagreiðslur leiðréttar, annaðhvort sjálfur eða með milligöngu stéttarfélags, áður en hann geti óskað eftir aðstoð Vinnumálastofnunar við að fá launagreiðslur leiðréttar. Jafnframt er gert ráð fyrir að hafi launamaður ekki krafist þess að atvinnurekandi leiðrétti launagreiðslur áður en hann óskar eftir aðstoð Vinnumálastofnunar við að fá launagreiðslur leiðréttar beri Vinnumálastofnun að vísa málinu frá. Er það lagt til í ljósi þess sem að framan er rakið um hlutverk aðila vinnumarkaðarins þegar kemur að eftirliti með því hvort brotið sé gegn ákvæðum kjarasamninga. Þegar launamaður stendur utan stéttarfélags er nægjanlegt að hann hafi sjálfur reynt að fá launagreiðslur leiðréttar áður en hann leitar til Vinnumálastofnunar.
    Þá er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun skuli jafnframt vísa málinu frá hafi ráðningarsambandi launamanns og atvinnurekanda lokið áður en launamaður krafðist þess að atvinnurekandi leiðrétti launagreiðslur. Er þetta lagt til í ljósi þess að gert er ráð fyrir að komist Vinnumálastofnun að þeirri niðurstöðu að atvinnurekandi greiði lakari laun en kjarasamningur kveður á um skuli stofnunin gefa atvinnurekandanum fyrirmæli um að hann greiði ekki lakari laun en kjarasamningur kveður á um við næstu útborgun launa, sbr. 4. mgr. ákvæðisins.
    Lagt er til að berist Vinnumálastofnun upplýsingar sem gefa til kynna að atvinnurekandi greiði fleiri en einum launamanni lakari laun en kjarasamningar kveða á um og ráðningarsamband atvinnurekandans og viðkomandi launamanna er til staðar beri stofnuninni að kanna málið frekar. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að Vinnumálastofnun hafi heimild til að bregðast við í framangreindum tilvikum þrátt fyrir að umræddir einstaklingar leiti ekki eftir aðstoð stofnunarinnar við að fá launagreiðslur leiðréttar, enda gert ráð fyrir að ýmsar ástæður geti legið að baki því að viðkomandi launamenn leiti ekki eftir aðstoð stofnunarinnar. Ekki er miðað við að gera sérstakar kröfur til þess hvers konar upplýsingar geti verið upphaf að könnun Vinnumálastofnunar en þó má ætla að þær verði á einhvern hátt að gefa til kynna að hlutaðeigandi atvinnurekandi greiði lakari laun en kjarasamningur kveður á um.
    Við mat á því hvort atvinnurekandi greiði lakari laun en kjarasamningur kveður á um er gert ráð fyrir að horft verði til launakjara í heild sinni í hverju máli fyrir sig en samkvæmt dómum Hæstaréttar, svo sem í málum nr. 273/2010, 118/2007 og 351/1999, skulu starfskjör samkvæmt ráðningarsamningi nema því lágmarki sem kjarasamningur tryggir hverju sinni þegar starfskjörin eru metin í heild sinni.
    Komist Vinnumálastofnun að þeirri niðurstöðu að atvinnurekandi greiði launamanni lakari laun en kjarasamningur kveður á um ert gert ráð fyrir að stofnunin gefi atvinnurekanda fyrirmæli um að frá og með næstu útborgun launa greiði hann ekki lakari laun en kjarasamningur kveður á um. Er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun skuli tilkynna viðkomandi launamanni sem og stéttarfélagi, óski viðkomandi launamaður eftir því, að stofnunin hafi gefið hlutaðeigandi atvinnurekanda framangreind fyrirmæli.
    Gefi Vinnumálastofnun atvinnurekanda fyrirmæli um að hann greiði ekki lakari laun en kjarasamningur kveður á um frá og með næstu útborgun launa, sbr. 4. mgr. ákvæðisins, er mælt fyrir um að atvinnurekandanum eða fulltrúa hans beri að tilkynna stofnuninni með fullnægjandi hætti, svo sem bréflega, rafrænt eða á annan hátt sem stofnunin ákveður, þegar úrbætur hafa verið gerðar. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að Vinnumálastofnun geti fylgt eftir þeim fyrirmælum sem stofnunin gefur verði atvinnurekendur ekki við þeim innan þess frests sem veittur er hverju sinni. Er í þessu sambandi meðal annars átt við að mikilvægt sé að Vinnumálastofnun geti metið hvort þær úrbætur sem hafa verið gerðar séu í samræmi við fyrirmæli stofnunarinnar um úrbætur.
    Sé ekki unnt að gefa hlutaðeigandi atvinnurekanda fyrirmæli þar sem ráðningarsambandi milli launamanns og þess atvinnurekanda sem í hlut á er lokið þegar Vinnumálastofnun kemst að niðurstöðu um að atvinnurekandinn hafi greitt lakari laun en kjarasamningur kveður á um er miðað við að Vinnumálastofnun skuli vísa málinu frá. Þrátt fyrir það er gengið út frá því að Vinnumálastofnun afhendi stéttarfélagi þær upplýsingar sem stofnunin byggði mat sitt á, enda óski viðkomandi launamaður eða launamenn eftir því. Er þetta lagt til svo að þær upplýsingar sem Vinnumálastofnun byggði mat sitt á geti nýst hlutaðeigandi stéttarfélagi og viðkomandi launamanni við að knýja á um að atvinnurekandinn sem í hlut á greiði launamanninum gjaldfallin laun.
    Leiki vafi á því hvort greidd séu eða hvort greidd hafi verið lakari laun en kjarasamningur kveður á um er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun óski eftir mati samráðsnefndar til úrlausnar í ágreiningsmálum, sbr. 6. gr., á því hvort svo hafi verið. Gert er ráð fyrir að með slíkri beiðni skuli fylgja þau gögn sem Vinnumálastofnun telur nauðsynleg svo að unnt sé að leggja mat á hvort greidd séu eða hvort greidd hafi verið lakari laun en kjarasamningur kveður á um. Óski Vinnumálastofnun eftir mati samráðsnefndar og niðurstaða fulltrúa samningsaðila í nefndinni er ekki samhljóða er gert ráð fyrir að stofnunin skuli vísa málinu frá. Er þetta lagt til þar sem Vinnumálastofnun er ekki ætlað að skera úr ágreiningi milli samningsaðila að kjarasamningi um túlkun samningsins.
    Þá er lagt til að starfsmönnum Vinnumálastofnunar sem sinna eftirliti á vinnustöðum verði meðal annars heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði og að þeim skuli veittur aðgangur að hlutaðeigandi vinnustöðum óski þeir eftir því. Jafnframt er lagt til að við slíkt eftirlit beri þeim að sýna sérstök skilríki sem stofnunin gefur út. Enn fremur er gert ráð fyrir að starfsmönnum Vinnumálastofnunar verði heimilt að óska eftir aðstoð lögreglu við framangreint eftirlit á vinnustöðum þegar slíkt er nauðsynlegt að mati stofnunarinnar. Eru þessar heimildir Vinnumálastofnunar í samræmi við heimildir stofnunarinnar samkvæmt öðrum lögum þar sem stofnuninni hefur verið falið tiltekið eftirlit á vinnumarkaði, svo sem samkvæmt lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, og lögum um starfsmannaleigur, nr. 139/2005.

Um 10. gr.

    Hér er lagt til að hlutaðeigandi atvinnurekanda eða fulltrúa hans beri að láta Vinnumálastofnun í té fullnægjandi upplýsingar sem sýna fram á hvaða laun hafi verið greidd í því tilviki sem um ræðir hverju sinni þannig að stofnuninni sé unnt að leggja mat á hvort atvinnurekandi hafi greitt lakari laun en almennir kjarasamningar kveða á um. Er hér meðal annars átt við upplýsingar og gögn sem sýna fram á hvaða laun hafi verið greidd, að teknu tilliti til vinnutíma starfsmanns. Ekki er gert ráð fyrir að í ákvæðinu verði með tæmandi hætti kveðið á um tiltekin gögn í þessu sambandi enda mismunandi hvernig atvinnurekendur halda utan um vinnutíma starfsmanna sinna og launagreiðslur til þeirra. Þó má meðal annars nefna þau gögn sem nefnd eru sem dæmi í 7. gr. yfir gögn sem atvinnurekanda ber ávallt að hafa tiltæk, svo sem ráðningarsamninga eða skriflegar staðfestingar á ráðningum í samræmi við lög eða kjarasamninga og afrit af launaseðlum og vinnutímaskýrslum. Í þessu sambandi má jafnframt nefna að í b-lið 1. tölul. 23. gr. er lagt til að lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum verð breytt þannig að við lögin bætist nýtt ákvæði, 57. gr. a, þar sem kveðið verði sérstaklega á um skyldu atvinnurekanda til að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar vinnutíma starfsmanna sinna sem meðal annars gefi upplýsingar um hvort farið sé að ákvæðum laganna um hámarksvinnutíma og lágmarkshvíld og haldi jafnframt utan um ávinnslu og úttekt frítökuréttar starfsmanna.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að upplýsingar sem atvinnurekandi eða fulltrúi hans skuli veita Vinnumálastofnun skuli vera skriflegar, hvort sem er á rafrænu formi eða á pappír. Auk þess er gert ráð fyrir að þegar um er að ræða gögn á öðru tungumáli en íslensku eða ensku skuli fylgja þeim þýðingar á íslensku eða ensku. Tilgangurinn er að tryggja að þau gögn sem hlutaðeigandi aðilar afhenda Vinnumálastofnun séu á því tungumáli sem ætla má að starfsmenn stofnunarinnar geti almennt skilið og þannig verði stofnuninni kleift að sinna lögbundnu eftirliti sínu. Þrátt fyrir að meginreglan verði sú að atvinnurekandi eða fulltrúi hans skuli afhenda Vinnumálastofnun þýdd gögn á íslensku eða ensku ásamt þeim gögnum sem um ræðir hverju sinni á frummálinu, sbr. framangreint, er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti í undantekningartilvikum ákveðið að taka við gögnum á öðrum tungumálum, svo sem þegar stofnunin telur af einhverjum ástæðum ekki þörf á þýðingu viðkomandi gagna á íslensku eða ensku.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að Vinnumálastofnun geti aflað upplýsinga og miðlað þeim að því marki sem stofnuninni verði heimilt, annaðhvort rafrænt eða á annan hátt sem stofnunin ákveður. Þá er gert ráð fyrir að berist Vinnumálastofnun upplýsingar sem gefa til kynna að brotið sé gegn ákvæðum íslenskra laga eða reglugerða verði stofnuninni skylt að afhenda viðeigandi stjórnvaldi upplýsingarnar án ástæðulausrar tafar. Er þetta gert í þeim tilgangi að tryggja að Vinnumálastofnun hafi heimild til að miðla slíkum upplýsingum til viðeigandi stjórnvalda þannig að þau geti metið hvort og þá með hvaða hætti þeim beri að bregðast við á grundvelli sinna eftirlitsheimilda. Að sama skapi er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að í þeim tilvikum þegar Vinnumálastofnun býr ekki yfir upplýsingum sem eru nauðsynlegar að mati stofnunarinnar til að stofnunin geti með fullnægjandi hætti haft það eftirlit sem henni er ætlað skuli stofnunin óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum eða eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti er í þessu sambandi eingöngu átt við að Vinnumálastofnun óski eftir upplýsingum sem koma stofnuninni að gagni við það eftirlit sem henni er ætlað að sinna, svo sem skv. 9. gr. Lagt er til að tekið verði fram að hlutaðeigandi aðilum sé skylt að veita Vinnumálastofnun umbeðnar upplýsingar búi þeir yfir þeim. Tilgangur þessa er meðal annars að gera eftirlit Vinnumálastofnunar skilvirkt og tryggja að stofnunin fái þær upplýsingar sem hún telur sig þurfa til að geta sinnt því eftirliti sem henni er ætlað. Ekki er þó gert ráð fyrir að umræddir aðilar sendi Vinnumálastofnun allar hugsanlegar upplýsingar sem ætla má að geti komið stofnuninni að notum við framkvæmd eftirlitsins heldur sé um að ræða upplýsingar sem stofnunin búi ekki yfir en telji nauðsynlegar í þágu eftirlits stofnunarinnar og óski því eftir þeim frá öðrum aðilum. Jafnframt er gert ráð fyrir að berist stjórnvöldum eða eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, upplýsingar sem gefa til kynna að brotið sé gegn ákvæðum laganna, verði frumvarpið að lögum, sé þeim skylt að afhenda Vinnumálastofnun upplýsingarnar án ástæðulausrar tafar. Er þannig lögð áhersla á að gætt sé meðalhófs svo að ekki sé miðlað öðrum upplýsingum en þeim sem koma Vinnumálastofnun að gagni við lögbundið eftirlit á sama tíma og lögð er áhersla á mikilvægi þess að opinberir aðilar og eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, hafi með sér samstarf að því marki sem nauðsynlegt er í því skyni að stuðla að því að farið sé að ákvæðum laga og reglugerða sem og ákvæðum kjarasamninga er gilda á innlendum vinnumarkaði. Þannig er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir formlegu samstarfi milli lögreglu, Skattsins, Vinnueftirlits ríkisins og Vinnumálastofnunar gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, sbr. 19. gr. Þykir slíkt samstarf mikilvægt, ekki síst til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð á vinnumarkaði eins og frekast er kostur.
    Loks er gert ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um að starfsmenn Vinnumálastofnunar séu bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hvað varðar upplýsingar sem stofnunin hefur til meðferðar, sbr. þó 3. mgr. ákvæðisins en þar er meðal annars gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti miðlað upplýsingum að því marki sem stofnuninni er heimilt. Jafnframt er gert ráð fyrir að þagnarskylda starfsmanna Vinnumálastofnunar haldist eftir að þeir hætta störfum hjá stofnuninni. Þannig er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti miðlað upplýsingum sem hún fær við lögbundið eftirlit samkvæmt þeim heimildum sem lögin kveða á um en að öðru leyti séu starfsmenn stofnunarinnar bundnir þagnarskyldu hvað varðar upplýsingar sem stofnunin hefur til meðferðar og skiptir þá hvorki máli í hvaða tilgangi né með hvaða hætti upplýsingarnar berast stofnuninni.

Um 11. gr.

    Fari atvinnurekandi ekki að fyrirmælum Vinnumálastofnunar innan þess frests sem veittur hefur verið skv. 4. mgr. 9. gr., þess efnis að frá og með næstu útborgun launa greiði hann ekki lakari laun en kjarasamningur kveður á um, sem og í þeim tilvikum þegar atvinnurekandi veitir stofnuninni ekki upplýsingar skv. 1 og/eða 2. mgr. 10. gr. innan þess frests sem veittur hefur verið, er lagt til að Vinnumálastofnun geti tekið ákvörðun um að atvinnurekandinn greiði dagsektir þar til úrbætur hafa verið gerðar. Er gert ráð fyrir að hið sama gildi hafi atvinnurekandi veitt Vinnumálastofnun rangar eða ófullnægjandi upplýsingar skv. 1. og/eða 2. mgr. 10. gr. Jafnframt er gert ráð fyrir að ákvörðun um dagsektir skuli tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim atvinnurekanda sem hún beinist að eða fulltrúa hans og að henni skuli fylgja skriflegur rökstuðningur. Almennt má ætla að tilkynning Vinnumálastofnunar um ákvörðun stofnunarinnar um dagsektir geti verið með ýmsum hætti, svo sem send með hefðbundnum bréfpósti, með ábyrgðarpósti eða rafrænt með tölvubréfi, svo fremi sem Vinnumálastofnun geti fært sönnur á að tilkynningin hafi borist réttum aðila. Í því sambandi má ætla að almennt sé erfiðara að færa sönnur á að tilkynning, sem send hefur verið rafrænt með tölvubréfi, hafi borist réttum aðila en tilkynning sem send hefur verið með ábyrgðarpósti.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að þeim atvinnurekanda sem fyrirhuguð ákvörðun um dagsektir beinist að skuli veittur frestur til að koma að skriflegum athugasemdum áður en ákvörðun er tekin. Enn fremur er gert ráð fyrir að skriflegur rökstuðningur skuli fylgja tilkynningu Vinnumálastofnunar um fyrirhugaða ákvörðun um dagsektir.
    Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um að ákvörðun um dagsektir feli í sér að sá atvinnurekandi sem ákvörðunin beinist að skuli greiða sekt fyrir hvern dag frá og með upphafi fyrsta virka dags eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina og að gjalddagi kröfunnar skuli jafnframt miðast við það tímamark. Einnig er gert ráð fyrir að miða skuli síðasta sektardag við þann dag þegar bætt hefur verið úr annmörkum að mati Vinnumálastofnunar.
    Lagt er til að dagsektir geti numið allt að 1 millj. kr. fyrir hvern dag en við ákvörðun fjárhæða dagsekta skuli líta til ýmissa sjónarmiða, svo sem fjölda launamanna þess atvinnurekanda sem ákvörðunin beinist að, hve aðkallandi úrbæturnar teljast, umfangs brots og hve umfangsmikill viðkomandi atvinnurekstur er. Er þannig við það miðað að dagsektir fari stighækkandi í samræmi við alvarleika brots.
    Þá er gert ráð fyrir að dagsektir renni í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu sektanna. Þykir það mikilvægt til að skýrt sé að Vinnumálastofnun beri ekki kostnað af því að beita heimild sinni samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur er gert ráð fyrir að ákvörðun Vinnumálastofnunar um dagsektir sé aðfararhæf og að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnumálastofnun ákveði slíkt sérstaklega. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði með fjárnámi að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag án undangengins dóms eða sáttar. Samkvæmt því verði unnt að innheimta dagsektir sem lagðar hafa verið á eftir að úrbætur hafa verið gerðar. Þykir þetta mikilvægt til að atvinnurekendur sjái hag sinn í því að verða sem fyrst við fyrirmælum Vinnumálastofnunar um úrbætur.
    Loks er gert ráð fyrir að um ákvörðun Vinnumálastofnunar um dagsektir fari að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Um 12. gr.

    Hér er lagt til hafi Vinnumálastofnun tekið ákvörðun um dagsektir skv. 11. gr. og hafi atvinnurekandi ekki gert viðeigandi úrbætur innan sex vikna frá því að ákvörðunin um dagsektir var sannanlega birt hlutaðeigandi atvinnurekanda geti stofnunin látið stöðva tímabundið starfsemi atvinnurekanda þar til úrbætur hafa verið gerðar, enda hafi önnur úrræði ekki skilað árangri. Er gert ráð fyrir að starfsmönnum Vinnumálastofnunar verði heimilt að óska eftir aðstoð lögreglu til að framfylgja ákvörðun stofnunarinnar á grundvelli ákvæðisins þegar slíkt er nauðsynlegt að mati stofnunarinnar. Er þetta lagt til í því skyni að auka líkur á að atvinnurekandi fari að fyrirmælum Vinnumálastofnunar og geri viðeigandi úrbætur við næstu útborgun launa og þykir sex vikna frestur í þessu sambandi hæfilegur þar sem ætla má að laun séu almennt greidd á fjögurra vikna fresti.
    Þykir nauðsynlegt að slíkt þvingunarúrræði sé fyrir hendi þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að áður en Vinnumálastofnun geti beitt úrræðinu hafi stofnunin beitt öðrum úrræðum og þar með gefið hlutaðeigandi atvinnurekanda tækifæri til að gera úrbætur í samræmi við fyrirmæli stofnunarinnar, sbr. 4. mgr. 9. gr.

Um 13. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um að Vinnumálastofnun hafi heimild til að leggja á allt að 5 millj. kr. stjórnvaldssektir í þeim tilvikum þegar atvinnurekandi hefur ítrekað ekki farið að fyrirmælum stofnunarinnar, sbr. 4. mgr. 9. gr., eða hefur ekki veitt stofnuninni upplýsingar skv. 1 og/eða 2. mgr. 10. gr. innan þess frests sem veittur hefur verið. Er gert ráð fyrir að hið sama gildi hafi atvinnurekandi veitt Vinnumálastofnun rangar eða ófullnægjandi upplýsingar skv. 1. og/eða 2. mgr. 10. gr. Gert er ráð fyrir að umrædd heimild Vinnumálastofnunar eigi við í framangreindum tilvikum óháð því hvort um ásetning eða gáleysi hefur verið að ræða af hálfu atvinnurekandans sem og óháð því hvort ráðningarsambandi launamanns og atvinnurekanda er lokið eða ekki. Enn fremur er gert er ráð fyrir að við mat á því hvort leggja skuli stjórnvaldssekt á atvinnurekanda beri Vinnumálastofnun meðal annars að líta til alvarleika brots, til þess hve lengi það hefur staðið yfir og hvort um ítrekað brot hafi verið að ræða, sem og til samstarfsvilja hins brotlega aðila.
    Jafnframt er lagt til að Vinnumálastofnun beri að tilkynna ákvörðun stofnunarinnar um stjórnvaldssekt skriflega á sannanlegan hátt þeim atvinnurekanda sem sektin beinist að eða fulltrúa hans auk þess sem gert er ráð fyrir að ákvörðuninni skuli fylgja skriflegur rökstuðningur. Með sannanlegum hætti er meðal annars átt við að Vinnumálastofnun geti fært sönnur á að tilkynning stofnunarinnar um ákvörðun um stjórnvaldssekt hafi borist réttum aðila. Almennt má ætla að tilkynning Vinnumálastofnunar um ákvörðun stofnunarinnar um stjórnvaldssekt geti verði með ýmsum hætti, svo sem send með hefðbundnum bréfpósti, með ábyrgðarpósti eða rafrænt með tölvubréfi. Í því sambandi má ætla að almennt sé erfiðara að færa sönnur á að tilkynning, sem send hefur verið rafrænt með tölvubréfi, hafi borist réttum aðila en tilkynning sem send hefur verið með ábyrgðarpósti.
    Gert er ráð fyrir að gjalddagi stjórnvaldssektar verði 30 dögum eftir að ákvörðun hefur verið tekin um sektina en hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skuli greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga í samræmi við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu.
    Enn fremur er lagt til að sett verði ákveðin tímamörk í tengslum við heimild Vinnumálastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir en gert er ráð fyrir að heimildin falli niður að fimm árum liðnum frá því að þeirri háttsemi sem um ræðir lauk. Gert er ráð fyrir að stjórnvaldssektir renni í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu auk þess sem þær verði aðfararhæfar en að öðru leyti fari um stjórnvaldssektir samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Um 14. gr.

    Markmið ákvæðisins er að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði þar sem brotið er gegn þeim lágmarkskjörum sem kjarasamningum er ætlað að tryggja, sbr. 5. gr.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, dags. 4. apríl 2019, sem gefin var í tengslum við undirritun svokallaðra lífskjarasamninga, var því heitið að brot gegn lágmarkskjörum kjarasamninga yrðu gerð refsiverð. Í vinnu við gerð frumvarpsins lagði Alþýðusamband Íslands áherslu á að í stað opinberra viðurlaga yrðu viðurlög einkaréttarlegs eðlis í formi févítis sem rynni til þess launamanns sem brotið hafi verið gegn, meðal annars til að bæta honum ætlað tjón. Þar sem hér er gert ráð fyrir að ágreiningi um févíti sé skotið af hálfu launamanns til samráðsnefndar til úrlausnar í ágreiningsmálum, sbr. 6. gr., sem ákvarði um rétt launamanns til almenns eða sérstaks févítis, var ákvæði þetta unnið í sérstöku samráði við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins.
    Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi, sem af ásetningi hefur greitt launamanni lakari laun en samkvæmt viðeigandi kjarasamningi, sbr. 5. gr., skuli að rökstuddri kröfu launamanns greiða viðkomandi launamanni févíti séu gjaldföllnu launin ekki greidd innan 18 daga frá því að launamaður sjálfur eða stéttarfélag hans í hans umboði gerði kröfu um greiðslu launanna. Hið sama á við um gjaldfallnar launakröfur hafi atvinnurekandi sannanlega áskilið launamanni lakari laun en samkvæmt viðeigandi kjarasamningi, sbr. 5. gr., þótt krafan sé enn ógreidd. Krafa um leiðréttingu launa telst sannanlega hafa verið gerð ef atvinnurekandi eða fulltrúi hans viðurkenna móttöku hennar en ella miðast upphafsdagur við póstlagningu rekjanlegs kröfubréfs. Með launum er í þessu sambandi átt við lágmarkskauptaxta kjarasamninga og aðra launaliði sem að lágmarki skal greiða samkvæmt kjarasamningi. Ákvæðið nær því ekki til hugsanlegra vanefnda á ráðningarsamningsbundnum kjörum umfram lágmark kjarasamninga eða þegar umsamin kjör starfsmanns eru metin jafn hagstæð eða hagstæðari en kjarasamningur áskilur.
    Ætla má að einhver tilvik þar sem atvinnurekandi greiðir launamanni lakari laun en kjarasamningur kveður á um megi rekja til misskilnings eða mistaka en einnig geta aðrar ástæður leitt til þess að greidd eru lakari laun en samkvæmt kjarasamningi, svo sem galli eða bilun í launa- og/eða tímaskráningarkerfum, og er þá eðlilega ekki um að ræða ásetning af hálfu atvinnurekanda. Er því gert ráð fyrir að í slíkum tilvikum geti atvinnurekandi leiðrétt launagreiðslur að kröfu launamanns án þess að til greiðslu févítis komi.
    Lagt er til að févíti komi ekki til álita við tilteknar aðstæður, svo sem þegar atvinnurekandi byggir framkvæmd sína á túlkun kjarasamnings sem nýtur stuðnings annars aðila kjarasamningsins. Ágreiningur um túlkun kjarasamnings verður leystur fyrir Félagsdómi eða eftir atvikum almennum dómstólum. Þótt niðurstaða verði launamanni í hag verður ekki talið að atvinnurekandi hafi í þeim tilvikum brotið kjarasamning af ásetningi. Að sama skapi getur verið ágreiningur um réttmæti eða fjárhæð kröfu launamanns, svo sem vegna fjarvista frá vinnu, lögmæti uppsagnar eða riftunar ráðningarsamnings, þar sem reynir á túlkun reglna vinnuréttar, löggjafar eða samninga. Í slíkum tilvikum er um kröfuréttarlegan ágreining að ræða þar sem meðal annars reynir á sönnun atvika eða efni skjala. Eðlilegt er að málsaðilar fái leyst úr ágreiningi sínum fyrir dómstólum án þess að annar aðili deilumáls eigi yfir höfði sér févíti gangi dómur ekki honum í vil. Í slíkum tilvikum er ekki gert ráð fyrir að févíti komi til álita. Févíti getur þó átt við séu mótbárur atvinnurekanda metnar haldlausar. Einnig geta aðrar málefnalegar ástæður legið að baki því að atvinnurekandi greiddi eða áskildi viðkomandi launamanni lakari laun en kjarasamningur kveður á um.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir þeirri meginreglu að ágreiningi um févíti sé skotið af hálfu launamanns til samráðsnefndar til úrlausnar í ágreiningsmálum, sbr. 6. gr., sem ákvarði um rétt launamanns til almenns eða sérstaks févítis. Hafi atvinnurekandi ekki andmælt kröfu um févíti er launamanni hins vegar heimilt að leita beint til dómstóla með kröfuna. Atvinnurekanda er þá innan 30 daga frá birtingu stefnu heimilt að skjóta ágreiningi um févíti til samráðsnefndar sem metur hvort févíti komi til álita. Niðurstaða samráðsnefndar skal liggja fyrir innan 30 daga frá því að leitað var til nefndarinnar. Telja verður að samráðsnefnd til úrlausnar í ágreiningsmálum skv. 6. gr. sé best til þess fallin að meta hvort forsendur séu fyrir greiðslu févítis, svo sem hvort um sé að ræða túlkunarágreining milli aðila kjarasamnings eða gild sjónarmið af hálfu atvinnurekanda að greiða ekki kröfu launamanns um laun.
    Forsenda févítis skv. 1. mgr. ákvæðisins er að greidd hafi verið lakari laun en samkvæmt kjarasamningi og því hlutverk samráðsnefndar skv. 6. gr. að meta hvort laun launamanns hafi verið lakari en kjarasamningur kveður á um, með sama hætti og þegar beiðni best frá Vinnumálastofnun til nefndarinnar skv. 7. mgr. 9. gr. Févíti kemur aðeins til álita í þessum tilvikum ef meiri hluti samráðsnefndar er því samþykkur en dómstólar dæma hins vegar um fjárhæð févítis ef samráðsnefnd telur forsendur vera fyrir févíti. Hafi atvinnurekandi ekki andmælt kröfu um févíti og ekki nýtt rétt sinn til að bera ágreining um févíti undir samráðsnefndina eftir að stefna hefur verið birt meta dómstólar hins vegar hvort tveggja skilyrði févítis og fjárhæðina.
    Dómstólum er ætlað að meta hæfilega fjárhæð févítis. Gert er ráð fyrir að annars vegar geti verið um að ræða almennt févíti til að bæta launamanni ætlað tjón vegna vanefnda atvinnurekanda og hins vegar sérstakt févíti. Ákvæðið gerir ráð fyrir að almennt févíti geti í alvarlegum tilvikum numið allt að tvöföldum dráttarvöxtum sem atvinnurekanda ber að greiða af höfuðstól gjaldfallinna launa. Að jafnaði má gera ráð fyrir að viðurlög vegna brota sem uppfylla skilyrði almenns févítis varði einföldum dráttarvöxtum en þau alvarlegri í þessum flokki brota geti sætt allt að tvöföldum dráttarvöxtum. Sérstakt févíti kemur til álita í alvarlegustu tilvikunum þar sem um sérlega vítaverða háttsemi hefur verið að ræða af hálfu atvinnurekanda en í slíkum tilvikum þykir rétt að leggja til sérstök viðurlög við bætur vegna ætlaðs tjóns launamanns af völdum háttsemi atvinnurekanda. Við mat á því hvort um sérlega vítaverða háttsemi atvinnurekanda hefur verið að ræða skal litið til þess hvort brotið hafi verið framið í auðgunarskyni með misneytingu, nauðung, fjársvikum, fjárkúgun, fjárdrætti eða annarri sambærilegri háttsemi. Skal meðal annars höfð hliðsjón af hvort brot geti fallið undir verknaðarlýsingu skv. XXVI. kafla almennra hegningarlaga. Áréttað skal í því sambandi að brot á lágmarksákvæðum kjarasamninga fela ekki í sér þjófnað í skilningi almennra hegningarlaga. Þar sem févíti er ætlað að koma í stað opinberra viðurlaga er gert ráð fyrir að sérstakt févíti geti numið allt að 80% af höfuðstól gjaldfallinna launa, enda í slíkum tilvikum um að ræða brot sem geta fallið undir verknaðarlýsingu almennra hegningarlaga. Við mat á fjárhæð févítis, hvort sem um er að ræða almennt févíti eða sérstakt févíti, skal auk þess að líta til alvarleika brots samkvæmt framansögðu, líta til þess hve lengi það hefur staðið yfir, til fjölda þeirra launamanna sem eiga í hlut hverju sinni sem og til samstarfsvilja hlutaðeigandi atvinnurekanda.
    Þá er gert ráð fyrir að ákvörðun samráðsnefndar skv. 6. gr. um forsendur févítis skuli vera bindandi fyrir aðila og er nefndinni jafnframt heimilt að gera tillögu að fjárhæð févítis að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem hér að framan hafa verið rakin.

Um 15. gr.

    Hér er lagt til að sameinaðar verði í eitt ákvæði 6. og 7. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Er það talið mikilvægt til að efni ákvæðanna verði skýrara. Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðunum.

Um 16. gr.

    Í 5. gr. a laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar félagi í lífeyrissjóði, sem á rétt á töku fæðingarorlofs samkvæmt lögum nr. 97/1980, ákveður að hverfa úr fyrra starfi að hluta eða öllu leyti og til heimilisstarfa vegna barnsburðar sé þeim lífeyrissjóði sem viðkomandi er félagsmaður í skylt að veita félagsmanninum heimild til áframhaldandi aðildar að sjóðnum á óbreyttum grundvelli í allt að sjö ár, enda taki félagsmaður þá að sér að greiða iðgjaldahlut atvinnurekanda ásamt sínum eigin. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að slíkur félagsmaður njóti allra sömu réttinda í lífeyrissjóðnum og aðrir félagsmenn, þar á meðal lánsréttinda.
    Hér er lagt til að í stað þess að vísað sé til laga nr. 97/1980, sem hafa verið felld úr gildi, í umræddu ákvæði verði vísað til laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020. Í þeim lögum er meðal annars kveðið á um að foreldri greiði að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslu í lífeyrissjóð meðan á fæðingarorlofi stendur og að Fæðingarorlofssjóður greiði að lágmarki 11,5% mótframlag. Í ljósi þessa þykir ekki ástæða til að kveða hér á um skyldu lífeyrissjóða til að veita viðkomandi félagsmanni heimild til áframhaldandi aðildar að hlutaðeigandi sjóði á óbreyttum grundvelli meðan á fæðingarorlofi stendur. Þar sem umrætt ákvæði í lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda gerir ráð fyrir að framangreind skylda lífeyrissjóða eigi við í allt að sjö ár, sem er talsvert lengra tímabil en fæðingarorlof foreldra samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, þykir rétt að kveða á um að umræddar skyldur lífeyrissjóða eigi við í allt að sjö ár ákveði félagi í lífeyrissjóði, sem á rétt á töku fæðingarorlofs á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof, að hverfa úr fyrra starfi að hluta eða öllu leyti vegna barnsburðar, meðal annars í því skyni að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Er við það miðað að viðkomandi félagsmaður taki þá að sér að greiða iðgjaldahluta atvinnurekanda ásamt sínum eigin iðgjaldahluta eftir að hann hefur fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs.
    Að öðru leyti eru ekki lagðar til breytingar á 5. gr. a laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og er því ekki um efnisbreytingar að ræða.

Um 17. gr.

    Hér er lagt til að komið verði á laggirnar sérstakri samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði en sambærileg nefnd hefur gefið góða raun í Noregi. Er gert ráð fyrir að ráðherra sem fer með mál er varða vinnumál hverju sinni skipi nefndina til þriggja ára í senn. Miðað við gildandi forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, er gert ráð fyrir að í samstarfsnefndinni eigi fast sæti forsætisráðherra, sem ráðherra sem fer með mál er varða þjóðhagsmál, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem ráðherra sem fer með mál er varða vinnumál, fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer með mál er varða lífeyrismál, og dómsmálaráðherra sem ráðherra sem fer með mál er varða ákæruvald. Jafnframt er gert ráð fyrir að fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, ríkislögreglustjóra, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skattinum, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun og Vinnueftirliti ríkisins eigi sæti í nefndinni. Þá er gert ráð fyrir að Bandalag háskólamanna og BSRB eigi sameiginlegan fulltrúa í nefndinni.
    Gert er ráð fyrir að samstarfsnefndin komi saman fullskipuð einu sinni á ári. Með því er átt við að þeir ráðherrar sem skipaðir eru hverju sinni til setu í samstarfsnefndinni fundi með nefndinni einu sinni á ári en aðrir fulltrúar í nefndinni geti fundað ofar, eftir því sem þörf krefur, meðal annars í því skyni að vinna tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði, sbr. 18. gr.
    Lagt er til að ráðherra, sem fer með mál er varða vinnumál hverju sinni, annist stjórnsýslu fyrir nefndina en með því er meðal annars átt við að hann leggi nefndinni til fundaraðstöðu og starfsmann.
    Þá er gert ráð fyrir að nefndarmönnum verði skylt að gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu fyrir nefndina og leynt skulu fara með samkvæmt lögum eða eðli máls.

Um 18. gr.

    Hér er lagt til að ráðherra, sem fer með mál er varða vinnumál hverju sinni, feli samstarfsnefnd, sem honum er jafnframt ætlað að skipa skv. 17. gr., að koma með tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda hvað varðar áherslur og aðgerðir gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Er jafnframt gert ráð fyrir að nefndin skuli afhenda ráðherra tillögu sína innan árs frá alþingiskosningum hverju sinni en slíkt þykir mikilvægt þannig að hver ríkisstjórn hafi tækifæri til marka sér stefnu og grípa til nauðsynlegra aðgerða innan hvers kjörtímabils.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að nefndin afhendi ráðherra skýrslur, eftir því sem þörf krefur að mati nefndarinnar og einnig ef ráðherra óskar sérstaklega eftir því, um stöðuna hvað varðar brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði hverju sinni. Ætla má að þörf fyrir slíkar skýrslur geti verið afar mismunandi eftir stöðunni á vinnumarkaði hverju sinni og því þykir mikilvægt að ekki sé tæmandi talið í ákvæðinu hvenær samstarfsnefndin skili slíkum skýrslum til ráðherra.

Um 19. gr.

    Hér er lagt til að með sérstökum samningum verði komið á fót samstarfsvettvangi opinberra eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Fyrsti samningur þess efnis milli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Skattsins, Vinnueftirlits ríkisins og Vinnumálastofnunar hefur þegar verið undirritaður og var það gert 15. nóvember 2019. Lagt er til að framangreindum aðilum verði jafnframt heimilt að stækka samstarfsvettvanginn með samningum við aðrar stofnanir ef þeir telja þörf á, að fengnu samþykki ráðherra, sem og að óska eftir ráðgjöf og aðstoð frá aðilum sem standa utan við samstarfsvettvanginn telji þeir þörf á því. Er þetta meðal annars lagt til svo að starfsmenn sem starfa á grundvelli samstarfsvettvangsins sem fulltrúar þeirra stofnana sem mynda vettvanginn geti aflað þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru hverju sinni í því skyni að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Þannig er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að markmiðið með samstarfsvettvangi sé að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á vinnumarkaði fari að ákvæðum laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á innlendum vinnumarkaði.
    Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um að þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvanginn skuli standa fyrir sameiginlegum aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði með eftirliti og virkri eftirfylgni, greiningarvinnu og upplýsingamiðlun milli aðila innan þeirra marka sem lög heimili.
    Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um þagnarskyldu starfsmanna hlutaðeigandi stofnana sem starfa á grundvelli samstarfsvettvangsins, sem og annarra sem kallaðir eru til samstarfs. Er þetta lagt til í ljósi þess að mikilvægt þykir að þær upplýsingar sem fyrrgreindir starfsmenn vinna með hverju sinni séu ekki nýttar í öðrum tilgangi en þeim sem snýr að samstarfinu innan samstarfsvettvangsins, enda má ætla að í það minnsta í einhverjum tilvikum geti verið um viðkvæmar upplýsingar að ræða.
    Þá er gert ráð fyrir að þær stofnanir sem mynda samstarfsvettvanginn skuli formbinda reglulegt samráð og samstarf við samtök aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit, eftir því sem við á. Þykir slíkt nauðsynlegt þar sem frumvarp þetta gerir ekki ráð fyrir breytingu hvað varðar þá meginreglu að aðilar vinnumarkaðarins hafi eftirlit með því að farið sé að ákvæðum kjarasamninga á innlendum vinnumarkaði.

Um 20. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að kveðið verði á um heimild til að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar til ráðuneytisins og að um slíkar kærur gildi ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Jafnframt er lagt til að skýrt verði kveðið á um í ákvæðinu að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
    Þá er lagt til að tilgreindur verði tveggja mánaða viðmiðunartími hvað varðar málsmeðferðartíma hjá ráðuneytinu sem verður að teljast sá tími sem það tekur að lágmarki að kveða upp úrskurð þar sem farið er að ákvæðum stjórnsýslulaga. Séu mál sérstaklega umfangsmikil eða málsmeðferðin reynist tímafrek verður þó að ætla að málsmeðferðartíminn lengist að sama skapi.

Um 21. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna, verði frumvarpið að lögum, svo sem í tengslum við beitingu viðurlaga á grundvelli V. kafla, enda liggi fyrir umsögn samtaka aðila vinnumarkaðarins. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að reglugerðir sem settar verða á grundvelli frumvarpsins, eftir gildistöku þess, verði unnar í samstarfi við samtök aðila vinnumarkaðarins, ekki síst í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir breytingu hvað varðar þá meginreglu að aðilar vinnumarkaðarins hafi eftirlit með því að farið sé að ákvæðum kjarasamninga á innlendum vinnumarkaði.

Um 22. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 23. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að kveðið verði á um breytingar á öðrum lögum.
    Í a–g-lið 1. tölul. er gert ráð fyrir að kveðið verði á um breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.
     Um a-lið 1. tölul.
    Hér er lagt til að við 45. gr. laganna bætist tvær nýjar málsgreinar sem miði að því að auka öryggi við stjórn véla. Er þannig gert ráð fyrir að kveðið verði á um að stjórnandi vélar skuli vera líkamlega og andlega fær um að stjórna þeirri vél sem um ræðir hverju sinni auk þess sem lagt er bann við því að einstaklingur stjórni eða reyni að stjórna vél í ástandi sem ætla má að dragi mjög úr hæfni hans til þess að stjórna vélinni. Er gert ráð fyrir að reglan verði fortakslaus öryggisins vegna. Ekki er gert ráð fyrir að þau tilvik séu tæmandi talin í ákvæðinu sem geta gert það að verkum að einstaklingur sé ófær um að stjórna tiltekinni vél.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna tiltekinni vél, sbr. 1.–5. mgr. ákvæðisins, sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki vera vélknúið ökutæki, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, sem vegna neyslu lyfja telst óhæfur til að stjórna vélinni, sbr. 48. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, eða er undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru hér á landi samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim, ef magn áfengis eða ávana- og fíkniefna sé yfir þeim mörkum sem kveðið er á um í 49. og 50. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að skýrt sé að sömu viðmið gildi hvað varðar neyslu lyfja eða áfengis eða ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru hér á landi, samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim, í tengslum við stjórnun framangreindra véla og stjórnun vélknúinna ökutækja.
     Um b-lið 1. tölul.
    Lagt er til að við lögin bætist ný málsgrein, 57. gr. a, þar sem kveðið verði á um það nýmæli að atvinnurekendum sé skylt að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna sinna, sem innihaldi meðal annars upplýsingar um daglegan og vikulegan vinnutíma sem og upplýsingar um á hvaða tíma sólarhrings unnið er, samfelldan hvíldartíma og vikulegan frídag. Einnig er gert ráð fyrir að fram komi upplýsingar um tilvik þar sem vikið hefur verið frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag samkvæmt lögum þessum eða kjarasamningum sem og upplýsingar um hvort starfsmenn hafi í slíkum tilvikum fengið hvíld síðar. Tilgangur slíkrar skráningar er að Vinnueftirlit ríkisins eða eftir atvikum dómstólar geti metið hvort skilyrði laganna um hámarksvinnutíma og lágmarkshvíld og vikulegan frídag séu virt sem og hvort starfsmenn hafi fengið hvíld síðar ef vikið er frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag samkvæmt lögunum eða kjarasamningum. Er jafnframt gert ráð fyrir að kveðið verði á um að starfsmaður eigi þess kost að nálgast umræddar upplýsingar 12 mánuði aftur í tímann. Er talið mikilvægt að atvinnurekandi hafi umræddar upplýsingar tiltækar ef upp kemur grunur um brot á ákvæðum laganna, verði frumvarpið samþykkt. Skráning atvinnurekanda á vinnutíma starfsmanna sinna getur eðli máls samkvæmt verið mjög mismunandi. Í því sambandi má nefna að í sumum tilvikum er aldrei um breytingu á vinnutíma að ræða og ætla má að í slíkum tilvikum sé ekki um að ræða flókið kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna.
     Um c-lið 1. tölul.
    Vinnuumhverfi á vinnustöðum hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum þar sem verkefni verða oft og tíðum flóknari og sérhæfðari en áður var á meðan önnur verkefni hverfa með aukinni tækniþróun og sjálfvirknivæðingu. Verkefni opinberra stofnana eru þar engin undantekning og hefur stafræn þróun í tengslum við ýmis verkefni verið mikil á undanförnum árum. Þykir því eðlilegt að stofnanir hafi svigrúm til að meta hverju sinni hvers konar sérþekkingu þær þurfa á að halda til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Á það ekki síst við á tímum hraðra tækniframfara og tilkomu nýrrar þekkingar á ýmsum sviðum samhliða breyttum samfélagsháttum. Ljóst er að starfsemi Vinnueftirlitsins krefst þverfaglegrar sérþekkingar ýmissa sérfræðinga og meðal annars í ljósi þess má ætla að mörg þeirra verkefna sem áður þóttu falla í hlut læknis fari betur í höndum annarra sérfræðinga. Má nefna sem dæmi að allar tilkynningar um slys sem verða á vinnustöðum berast rafrænt til stofnunarinnar og er því með einföldum hætti unnt að kalla fram nauðsynlegar upplýsingar um tíðni slysa og þróun þeirra í því skyni að efla forvarnarstarf. Rannsóknir vinnuslysa, forvarnarstarf og eftirlit á vinnustöðum krefst sjaldnast læknisfræðilegrar þekkingar heldur reynir frekar á sérþekkingu á því sviði sem tengist slysum hverju sinni. Starfsmenn sem hafa orðið fyrir slysi eða líður illa leita sér aðstoðar innan heilbrigðis- eða félagskerfisins en Vinnueftirlit ríkisins metur hvernig vinnuumhverfið sem slíkt hefur áhrif á starfsmenn og hvaða úrbætur þurfi að gera þannig að öryggi, heilsa og vellíðan starfsmanna sé sem best tryggð. Hið sama á við um rannsóknir á orsökum einstakra atvinnusjúkdóma, enda þótt sú vinna geti krafist fagþekkingar ólíkra sérgreinalækna eftir eðli sjúkdóma hverju sinni en ekki síður þekkingar annarra sérfræðinga, svo sem efnafræðinga, lífeðlisfræðinga eða þekkingar á sviði líftækni. Í slíkum rannsóknum er tilgangurinn að koma í veg fyrir að starfsmenn verði fyrir neikvæðum áhrifum starfsumhverfis sem talin eru valda sjúkdómi. Í ljósi framangreinds er því lagt til að ekki verði lengur í 68. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum kveðið á um að Vinnueftirlit ríkisins skuli hafa lækni í þjónustu sinni. Þurfi Vinnueftirlitið á læknisfræðilegri þekkingu að halda við úrlausn einstakra verkefna þykir eðlilegra að stofnunin leiti til viðeigandi sérgreinalækna eða eftir atvikum heilbrigðisstofnana vegna þeirra verkefna. Enn fremur þykir ekki hæfa nútímarekstrarfyrirkomulagi stofnana að kveða í lögum á um innra skipulag þeirra. Þess í stað þykir mikilvægt að hægt sé að aðlaga innra skipulag stofnana að þörfum samfélagsins hverju sinni þannig að þeim sé ávallt kleift að veita almenningi skilvirka og markvissa þjónustu.
    Mikilvægt þykir fyrir störf Vinnueftirlits ríkisins að hafa nákvæmar upplýsingar um vinnuslys, atvinnusjúkdóma og eitranir á vinnustöðum til að stofnunin geti gripið til ráðstafana í samstarfi við aðra aðila í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á að upp komi slík tilvik á vinnustöðum. Með áherslu á forvarnir þykir því mikilvægt að Vinnueftirlitið geti fylgst vel með þróun á innlendum vinnumarkaði þannig að stofnuninni sé unnt að tryggja að vinnuslys, atvinnusjúkdómar eða eitranir á vinnustöðum endurtaki sig ekki. Söfnun upplýsinga um framangreind tilvik á vinnustöðum hefur tekið hröðum breytingum og sem dæmi má nefna að atvinnurekendur tilkynna rafrænt um framangreind tilvik til Vinnueftirlitsins. Þýðingarmikið er því að kveða skýrt á um í lögum hvernig söfnun slíkra upplýsinga skuli háttað til að vernd persónugreinanlegra upplýsinga verði tryggð. Hér er því lagt til að kveðið verði á um skyldu Vinnueftirlitsins til að skipuleggja og halda skrár á landsvísu um eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma sem tilkynntir eru til stofnunarinnar skv. 79. og 80. gr. laganna, meðal annars tíðni, orsakir og afleiðingar.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um að tilgangur framangreindra skráa sé að afla upplýsinga um tíðni, orsakir og afleiðingar eitrana á vinnustöðum sem og vinnuslysa og atvinnusjúkdóma og að auka þannig þekkingu í því skyni að efla forvarnarstarf á vinnustöðum.
    Þá er gert ráð fyrir að Vinnueftirlitið skuli einnig vinna upplýsingar úr framangreindum skrám til notkunar í forvarnarstarfi, við áætlanagerð sem og við stefnumótun og önnur verkefni stjórnvalda. Í þessu sambandi er jafnframt lagt til að í ákvæðinu verði skýrt kveðið á um að vinnsla Vinnueftirlitsins á persónugreinanlegum upplýsingum í tengslum við framangreindar skrár skuli vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja vernd persónugreinanlegra gagna við vinnslu Vinnueftirlitsins á upplýsingum sem stofnuninni er heimil samkvæmt ákvæðinu.
    Þá er lagt til að Vinnueftirliti ríkisins verði heimilt, meðal annars í samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands, að nýta stafræna innviði stjórnvalda við söfnun nauðsynlegra upplýsinga í skrár skv. 1. mgr. ákvæðisins með það að markmiði að auðvelda og einfalda tilkynningar til stofnunarinnar um eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma skv. 79. og 80. gr. laganna. Er það lagt til þar sem mikilvægt þykir að Vinnueftirlitinu og Sjúkratryggingum Íslands verði heimilað að eiga samstarf sín á milli um nýtingu stafrænna innviða til að samræma vefþjónustur sínar með það að markmiði að auðvelda og um leið einfalda almenningi samskipti við stofnanirnar. Þannig er gert ráð fyrir að með því að heimila Vinnueftirliti ríkisins og Sjúkratryggingum Íslands framangreint samstarf um nýtingu stafrænna innviða við söfnun nauðsynlegra upplýsinga þurfi einungis að tilkynna einu sinni til stjórnvalda um eitrun á vinnustað sem og vinnuslys og atvinnusjúkdóm. Er þannig gert ráð fyrir að þegar tilkynnt er um eitranir á vinnustöðum sem og vinnuslys og atvinnusjúkdóma verði með nýtingu stafrænna innviða þessara stofnana unnt að senda þann hluta tilkynningarinnar sem er nauðsynlegur til að halda skrár yfir eitranir, vinnuslys og atvinnusjúkdóma á vinnustöðum til Vinnueftirlitsins annars vegar og þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar í tengslum við viðeigandi bætur, eftir því sem við á, til Sjúkratrygginga Íslands hins vegar. Með nýtingu stafrænna innviða í gegnum Ísland.is verði þannig komið í veg fyrir að upplýsingar þurfi að fara frá einni stofnun til annarrar eða að tilkynnandi þurfi að fylla út tvö óskyld eyðublöð sem hvor stofnun fyrir sig gefur út líkt og gildandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir. Jafnframt er gert ráð fyrir að með breyttu fyrirkomulagi, líkt og kveðið er á um í frumvarpinu, verði tryggt að umræddum stofnunum berist ekki upplýsingar sem eru þeim óviðkomandi og þær þurfa ekki á að halda til að geta sinnt lögbundnum skyldum sínum.
    Þá er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, þar sem meðal annars verði kveðið nánar á um skipulagningu og gerð skráa, sem og um vinnslu upplýsinga úr þeim í forvarnarskyni.
     Um d-lið 1. tölul.
    Í 1. málsl. 8. mgr. 87. gr. laganna er kveðið á um að ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins um dagsektir séu aðfararhæfar. Í 2. málsl. 8. mgr. er kveðið á um að málskot til ráðuneytisins fresti aðför. Hér er lagt til að í stað 2. málsl. 8. mgr. komi tveir nýir málsliðir þar sem kveðið verði á um að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður eftir síðasta sektardag nema Vinnueftirlitið ákveði slíkt sérstaklega. Er þannig gert ráð fyrir að eftir að atvinnurekandi hefur bætt úr annmörkum þurfi hann engu að síður að greiða þær dagsektir sem lagðar hafa verið á frá og með fyrsta dagsektardegi og þar til bætt hefur verið úr annmörkum að mati Vinnueftirlitsins. Þykir þetta mikilvægt til að atvinnurekendur sjái hag sinn í því að verða sem fyrst við fyrirmælum Vinnueftirlitsins um úrbætur svo að úrræðið þjóni tilgangi sínum. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði með fjárnámi að innheimta dagsektir eftir síðasta sektardag án undangengins dóms eða sáttar.
     Um e-lið 1. tölul.
    Hér er lagt til að á eftir 1. mgr. 99. gr. laganna bætist við fimm nýjar málsgreinar sem kveði á um það nýmæli að það varði sektum eða fangelsi, allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum að brjóta gegn tilteknum ákvæðum laganna. Er hér gert ráð fyrir að tiltekin brot á lögunum varði auknum viðurlögum umfram það sem getið er um í 1. mgr. 99. gr. Er þetta lagt til svo að alvarlegustu brotin gegn ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum varði þyngri viðurlögum en eingöngu sektum. Fordæmi fyrir slíkum viðurlögum má meðal annars finna í 67. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, 65. gr. efnalaga, nr. 61/2013, og 58. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010. Með þessum breytingum er jafnframt verið að tryggja að brot á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum fyrnist ekki á tveimur árum líkt og nú er skv. 81. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en meginreglan er sú að fyrningartími brota ræðst af því hve langur refsiramminn er hverju sinni. Í 1. mgr. 99. gr. kemur fram að einungis sé um viðurlög að ræða í formi sekta og fyrnast því brot gegn ákvæðum laganna á tveimur árum samkvæmt gildandi lögum.
    Gert er ráð fyrir að í 1. tölul. 2. mgr. 99. gr. verði kveðið á um að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn 27. gr. Jafnframt er gert ráð fyrir að hið sama gildi brjóti atvinnurekandi eða verkstjóri gegn 1. eða 2. mgr. 86. gr. Brot gegn ákvæðum þessum þykja það alvarleg að eðlilegt þykir að þyngri refsing liggi við brotum en nú er. Er sú tilhögun í samræmi við framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum. Í 27. gr. er kveðið á um að ef fjarlægja þarf öryggishlífar eða annað sambærilegt af tæki eða vél vegna viðgerðar eða niðursetningar tækisins eða vélarinnar skuli sá sem verkið framkvæmir setja öryggisbúnað á sinn stað aftur eða gera aðrar ráðstafanir, sem jafngildar eru, að verki loknu. Í 1. mgr. 86. gr. er kveðið á um að verði atvinnurekanda eða starfsmönnum, sem falin hefur verið verkstjórn, öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf, sbr. tiltekin ákvæði laganna, ljóst að skyndilega hafi komið upp bráð hætta á heilsutjóni eða vinnuslysum starfsmanna á vinnustað, svo sem vegna loftmengunar, eitraðra, eldfimra eða hættulegra efna, hættu á hruni jarðvegs, vörustæðu eða burðarvirkis, fallhættu, sprengihættu eða annarrar alvarlegrar hættu, sé þeim skylt að hlutast til um að starfsemin verði stöðvuð strax og/eða að starfsfólk hverfi frá þeim stað þar sem hættuástand ríkir. Enn fremur er í 2. mgr. 86. gr. kveðið á um að atvinnurekanda beri jafnframt að tryggja að starfsmenn geti sjálfir, ef öryggi þeirra eða annarra er stefnt í bráða hættu, gripið til viðeigandi ráðstafana til að komast hjá afleiðingum hættunnar þegar ekki er unnt að ná sambandi við yfirmann eða starfsmann sem falin hefur verið öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf.
    Lagt er til að í 2. tölul. 2. mgr. 99. gr. verði gert refsivert að brjóta með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn 1. mgr. 14. gr., 2. mgr. 23. gr. eða 3. mgr. 80. gr. Ákvæðin varða leiðbeiningarskyldu atvinnurekanda eða verkstjóra gagnvart starfsmönnum í tengslum við hvers kyns hættu í vinnuumhverfinu sem getur valdið slysi eða sjúkdómi. Er lagt til að stórfelld eða ítrekuð brot gegn ákvæðunum skuli varða refsiábyrgð. Í 1. mgr. 14. gr. er kveðið á um að atvinnurekandi skuli gera starfsmönnum sínum ljósa þá slysa- og sjúkdómshættu sem kunni að vera bundin við starf þeirra. Auk þess skuli atvinnurekandi sjá um að starfsmenn hans fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Í 2. mgr. 23. gr. er kveðið á um að verði verkstjóri var við einhver þau atriði sem leitt geti til hættu á slysum eða sjúkdómum skuli hann tryggja að hættunni sé afstýrt. Sé ekki hægt að afstýra hættunni með því sem tiltækt er á staðnum skuli hann umsvifalaust gera vinnuveitanda viðvart. Í 3. mgr. 80. gr. kemur fram að atvinnurekandi skuli án tafar upplýsa starfsmenn sem er hætta búin eða fulltrúa þeirra um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að hættuleg efni og efnavörur geti valdið mengun.
    Gert er ráð fyrir að í 3. tölul. 2. mgr. 99. gr. verði gert refsivert að brjóta gegn 8. mgr. 45. gr. en við ákvörðun refsingar skuli fara eftir 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019. Lagt er til að í 8. mgr. 45. gr. verði kveðið á um að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna tiltekinni vél, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr. en telst ekki vera vélknúið ökutæki, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru hér á landi samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim, ef magn áfengis eða ávana- og fíkniefna er yfir þeim mörkum sem kveðið er á um í 49. og 50. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019. Þá er gert ráð fyrir að hið sama skuli eiga við ef viðkomandi stjórnandi telst óhæfur til að stjórna tiltekinni vél vegna neyslu lyfja, sbr. 48. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Í samræmi við gildandi löggjöf hefur Vinnueftirlit ríkisins beitt 9. gr. reglna nr. 198/1983, um réttindi til að stjórna vinnuvélum, við eftirlit með þeim sem stjórna vinnuvélum en samkvæmt þeim reglum er heimilt að svipta stjórnanda vinnuvélar réttindum í tilteknum tilvikum og að undangenginni rannsókn. Þessu ákvæði hefur hins vegar einungis verið unnt að beita hafi lögreglan jafnframt svipt þann stjórnanda vinnuvélar sem um ræðir ökuréttindum fyrir að hafa stjórnað vélinni í almennri umferð undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og er beiting reglnanna jafnframt háð því að lögreglan sendi Vinnueftirlitinu upplýsingar um brotið. Hins vegar er það refsilaust samkvæmt gildandi löggjöf að stjórna skráningarskyldri vinnuvél með þeim hætti sem lýst er í ákvæðinu ef hún telst ekki vera vélknúið ökutæki, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, svo sem þegar um er að ræða byggingakrana. Er sú framkvæmd í samræmi við niðurstöðu í dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2004 í máli nr. 236/2004 þar sem kom fram að verknaðarlýsing í reglum nr. 198/1983 væri ekki fullnægjandi refsiheimild. Í ljósi framangreinds er hér lögð til sú breyting að umrædd háttsemi verði gerð refsiverð samkvæmt lögunum.
    Lagt er til að í 4. tölul. 2. mgr. 99. gr. verði kveðið á um að ef brot gegn ákvæðum laganna og/eða ákvæðum reglna eða reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra leiði til alvarlegs slyss, dauða starfsmanns eða annarra eða alvarlegs óhapps þar sem verulegar líkur hafi verið á því að afleiðingarnar hefðu getað orðið þær sömu skuli brotið teljast það alvarlegt að það geti varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Í því sambandi er ekki gerður greinarmunur á því hvort slys eða dauði hljótist af broti ef verulegar líkur hafa verið á því að afleiðingarnar hefðu getað orðið þær sömu. Sem dæmi má nefna krana sem fellur á byggingarvinnustað og einungis tilviljun ræður því að ekki verða alvarleg slys á fólki.
    Gert er ráð fyrir að í 3. mgr. 99. gr. verði kveðið á um að heimilt sé að ákvarða atvinnurekendum sektir í samræmi við II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, fyrir þau brot sem tilgreind séu í 2. mgr. 99. gr.
    Þá er gert ráð fyrir að í 4. mgr. 99. gr. verði kveðið á um, í samræmi við 3. tölul. 2. mgr. 99. gr., að Vinnueftirlit ríkisins hafi heimild til að banna stjórnanda að nota skráningarskylda vinnuvél, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sbr. einnig 49. gr., ef grunur er um að hann sé undir áhrifum áfengis, ávana- og fíkniefna eða lyfja, en þá skuli lögregla jafnframt kölluð til. Jafnframt er lagt til að lögreglu verði veittar sömu heimildir til rannsókna á öndunar-, svita-, munnvatns-, blóð- og þvagsýnum frá stjórnanda skráningarskyldrar vinnuvélar vegna gruns um brot sem tilgreint er í 3. tölul. 2. mgr. 99. gr. og hún hefur skv. 1.–4. mgr. 52. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, gagnvart ökumanni vélknúins ökutækis, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019. Auk þess er gert ráð fyrir að kostnaður vegna slíkra rannsókna skuli teljast til sakarkostnaðar með sama hætti og skv. 2. málsl. 6. mgr. 52. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019.
    Lagt er til að í 5. mgr. 99. gr. verði kveðið á um heimild Vinnueftirlits ríkisins til að svipta stjórnendur skráningarskyldra vinnuvéla, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sbr. einnig 49. gr., sem jafnframt eru ekki vélknúin ökutæki, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, vinnuvélaréttindum hafi þeir brotið gegn ákvæðum laganna og brotið er tilgreint í 3. tölul. 2. mgr. 99. gr., eða stjórnandinn hefur neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls, skv. 4. mgr. Jafnframt er lagt til að svipting vinnuvélaréttinda skuli annaðhvort vara í tiltekinn tíma og þá eigi skemur en einn mánuð eða vara ótímabundið ef sakir eru miklar eða brot er endurtekið öðru sinni eða oftar. Enn fremur er lagt til að skýrt verði kveðið á um að svipting vinnuvélaréttinda feli í sér sviptingu tiltekinna réttinda sem tilgreind séu í vinnuvélaskírteini sem og réttar til að öðlast vinnuvélaréttindi. Þá er lagt til að sé svipting vinnuvélaréttinda ótímabundin geti sá sem sviptur er réttindum ekki sótt að nýju um vinnuvélaréttindi fyrr en fimm ár eru liðin frá sviptingunni að undangengnu verklegu og bóklegu prófi á viðkomandi vél. Er ákvæðið í samræmi við 99.–101. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, eftir því sem við á, til að tryggja að sömu reglur gildi um sviptingu vinnuvélaréttinda á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og um sviptingu ökuréttinda á grundvelli umferðarlaga.
    Loks er lagt til að í 6. mgr. 99. gr. verði kveðið á um heimild Vinnueftirlits ríkisins til að svipta stjórnanda skráningarskyldrar vinnuvélar, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sbr. einnig 49. gr., sem jafnframt er vélknúið ökutæki, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, vinnuvélaréttindum ef lögregla hefur svipt stjórnandann ökuréttindum. Er þá gert ráð fyrir að svipting vinnuvélaréttinda gildi í sama tíma og ökuréttarsviptingin varir.
    Um f-lið 1. tölul.
    Hér er lagt til að á eftir 99. gr. komi nýtt ákvæði, 99. gr. a, þar sem kveðið verði á um það nýmæli að Vinnueftirlit ríkisins hafi heimild til að leggja á stjórnvaldssekt vegna brota gegn tilteknum ákvæðum laganna. Mikilvægt þykir að kveðið verði á um heimild til stjórnvaldssekta vegna tiltekinna brota til að auka líkur á að farið sé að ákvæðum laganna.
    Lagt er til að Vinnueftirlitinu verði í tilteknum tilvikum heimilt að leggja stjórnvaldssekt á þá aðila sem bera tilteknar skyldur samkvæmt lögunum, nánar tiltekið atvinnurekendur, sbr. 1. mgr. 12. gr., verkkaupa eða fulltrúa verkkaupa, sbr. 1.–2. mgr. 36. gr., og framleiðanda, innflutningsaðila og dreifingaraðila varnings, sbr. 4. gr. laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995. Þau lög eru að hluta til rammalög og gilda um öll markaðseftirlitsstjórnvöld, þ.m.t. Vinnueftirlit ríkisins. Í 4. gr. þeirra laga er að finna samræmda skilgreiningu á því hverjir teljast til framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila varnings og er því vísað til þeirra laga varðandi þær skilgreiningar. Samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hvíla ákveðnar skyldur á framangreindum aðilum, sbr. 48. gr. og 48. gr. a. Allir framangreindir aðilar geta verið annaðhvort atvinnurekandi eða einstaklingur, eftir atvikum.
    Lagt er til að í a-lið 1. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins um stöðvun vinnu eða lokun starfsemi eða hluta hennar eða um bann við notkun vélar skv. 84. og 85. gr. Í framkvæmd hefur Vinnueftirlitið ekki beitt slíku banni nema mögulega sé fyrir hendi veruleg hætta fyrir líf og/eða heilbrigði starfsmanna og því þykir rétt að brot gegn slíkum fyrirmælum stofnunarinnar geti varðað stjórnvaldssektum.
    Gert er ráð fyrir að í b-lið 1. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins um bann við markaðssetningu eða um bann við notkun sem og afturköllun eða eyðileggingu á vélum, tækjum og öðrum búnaði skv. 48. gr. a. Um er að ræða brot þar sem starfsmönnum og/eða öðrum getur verið hætta búin ef ekki er farið að slíkum fyrirmælum Vinnueftirlitsins. Ákvæðinu er meðal annars ætlað tryggja með fullnægjandi hætti innleiðingu á ýmsum gerðum Evrópusambandsins í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Um er að ræða innleiðingu á 45. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/424 frá 9. mars 2016 um togbrautabúnað og niðurfellingu á tilskipun 2000/9/EB, 45. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/425 frá 9. mars 2016 um persónuhlífar og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/686/EBE, 43. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/426 frá 9. mars 2016 um tæki sem brenna loftkenndu eldsneyti og niðurfellingu á tilskipun 2009/142/EB, 47. gr. tilskipunar 2014/68/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða þrýstibúnað fram á markaði, 40. gr. tilskipunar 2014/29/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða einföld þrýstihylki fram á markaði og 43. gr. tilskipunar 2014/33/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur.
    Gert er ráð fyrir að í c-lið 1. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins um bann við framleiðslu, flutningi eða notkun hættulegra efna og efnavara skv. 2. mgr. 51. gr. Brot gegn slíku banni getur leitt til hættu fyrir líf og/eða heilbrigði starfsmanna og því þykir rétt að brot gegn slíkum fyrirmælum Vinnueftirlitsins geti varðað stjórnvaldssektum.
    Lagt er til að í d-lið 1. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta ítrekað gegn fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skv. 37., 42. og 46. gr. sem gefin hafa verið vegna sambærilegrar háttsemi eða brots. Ítrekað brot gegn fyrirmælum Vinnueftirlitsins vegna sambærilegrar háttsemi eða brots teljast vera framin af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi atvinnurekenda þegar kemur að aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi starfsmanna. Markmið ákvæðisins er að stuðla að því að Vinnueftirlitið þurfi ekki að hafa ítrekuð afskipti af sama atvinnurekanda vegna sambærilegra brota gegn ákvæðum laganna og að stuðla að því að farið sé að fyrirmælum Vinnueftirlitsins þannig að koma megi í veg fyrir vinnuslys og/eða atvinnusjúkdóma. Sem dæmi má nefna að Vinnueftirlitið getur gefið atvinnurekanda fyrirmæli um skort á fallvörnum á verkpöllum á byggingarvinnustað og úrbætur eru síðan gerðar eftir að stofnunin bannar vinnu á verkpöllunum. Síðar kemur í ljós við aðra eftirlitsskoðun Vinnueftirlitsins að aftur er skortur á fallvörnum á verkpöllum hjá sama atvinnurekanda þannig að stofnunin þarf aftur að gefa sama atvinnurekanda fyrirmæli vegna sambærilegs brots. Til þess að minnka líkur á að slík háttsemi atvinnurekanda endurtaki sig ítrekað er hér mælt fyrir um að háttsemin geti varðað stjórnvaldssektum.
    Lagt er til að í e-lið 1. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn ákvæðum reglugerðar um bann við notkun asbests á vinnustöðum. Asbest er verulega hættulegt fyrir líf og heilbrigði starfsmanna og er því um að ræða alvarlegt brot þegar brotið er gegn ákvæðum reglugerðarinnar. Í reglugerðinni er kveðið á um þá meginreglu að notkun asbests sé óheimil á vinnustöðum. Heimilt er að veita undanþágu frá framangreindri meginreglu þegar um niðurrif asbests er að ræða, svo sem í byggingum, byggingarhlutum, vélum og öðrum búnaði sem inniheldur asbest. Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar er niðurrif asbests eingöngu heimilt þegar Vinnueftirlitið hefur veitt leyfi fyrir hvert verk og þeir starfsmenn sem sinna niðurrifinu hafa gengist undir sérstakt námskeið og heilsufarsskoðun. Í reglugerðinni er einnig kveðið á um hvaða önnur skilyrði skuli vera uppfyllt þannig að Vinnueftirlitinu sé heimilt að veita framangreinda undanþágu, svo sem í tengslum við notkun viðeigandi persónuhlífa og hvernig standa eigi að verkinu að öðru leyti.
    Lagt er til að í f-lið 1. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn 5. mgr. 36. gr., 60. gr. eða 1. eða 2. mgr. 80. gr. Brot gegn framangreindum ákvæðum þykir það alvarlegt að ekki þurfi að kveða sérstaklega á um að brotið þurfi að vera alvarlegt eða ítrekað til að Vinnueftirlitinu sé heimilt að leggja á stjórnvaldssekt við broti.
    Í 5. mgr. 36. gr. er kveðið á um að verkkaupa eða fulltrúa verkkaupa sé skylt að tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins um vinnustað áður en vinna hefst þegar um er að ræða byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð og ráðgert er að vinna standi yfir lengur en í 30 daga og fleiri en 20 starfsmenn verði við vinnu samtímis. Hið sama á við þegar ráðgert er að vinna við slík verk taki lengri tíma en sem nemur 500 dagsverkum. Ákvæðið hefur verið útfært nánar í reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Brýnt þykir að Vinnueftirlitið fái tilkynningar um verk í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð sem eru af þessari stærðargráðu svo að unnt sé að tryggja öryggi og heilbrigði þeirra starfsmanna sem um ræðir. Við ákvörðun stjórnvaldssekta, þegar um er að ræða brot gegn ákvæði þessu, er gert ráð fyrir að Vinnueftirlitinu beri að líta til þess hvort stofnunin hafi haft fullnægjandi vitneskju um starfsemina áður en framkvæmdir hófust, jafnvel þótt tilkynning hafi ekki borist stofnuninni, eða hvort verkkaupi eða fulltrúi hans hafi mátt sjá fyrir að umfang starfseminnar yrði með þeim hætti að tilkynna bæri starfsemina til Vinnueftirlitsins.
    Í 1. mgr. 60. gr. er kveðið á um að ekki megi ráða börn til vinnu en skv. 59. gr. eru börn skilgreind sem einstaklingar sem eru undir 15 ára aldri eða eru í skyldunámi. Í 2. mgr. 60. gr. koma síðan fram þrjú undanþágutilvik sem heimila frávik frá meginreglu 1. mgr. Í fyrsta lagi er heimilt að ráða börn til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi en sá sem ræður börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri skal afla leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur. Í öðru lagi er heimilt að ráða börn 14 ára og eldri til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi. Í þriðja lagi er heimilt að ráða börn sem náð hafa 14 ára aldri til starfa af léttara tagi. Börn sem náð hafa 13 ára aldri má ráða til starfa af léttara tagi í takmarkaðan stundafjölda á viku, svo sem til léttra garðyrkju- eða þjónustustarfa eða annarra sambærilegra starfa. Í reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga hafa framangreindar undanþágur verið nánar útfærðar samkvæmt heimild í 63. gr. f. Hér getur verið um að ræða einstaklinga í viðkvæmri stöðu og því afar mikilvægt að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir vinnuslysum. Er því talið nauðsynlegt að Vinnueftirliti ríkisins verði heimilt að beita stjórnvaldssektum við brotum gegn þessum ákvæðum.
    Í 1. og 2. mgr. 80. gr. er kveðið á um að atvinnurekandi skuli tilkynna Vinnueftirliti ríkisins án ástæðulauss dráttar og eigi síðar en innan sólarhrings um öll slys eða óhöpp þar sem kunni að vera hvers konar hættuleg efni eða efnavörur sem geti valdið mengun. Skal atvinnurekandi veita upplýsingar um aðstæður á slysstað, um hvers konar efni er að ræða og hvaða ráðstafana gripið hafi verið til, eftir því sem frekast er unnt. Þá skal atvinnurekandi tilkynna skriflega um slysið eða óhappið til Vinnueftirlits ríkisins innan viku frá því að tilvikið átti sér stað. Þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, sbr. 4.–6. gr., og þjónustuaðili, sbr. 66. gr. a, skulu fá afhent afrit af tilkynningunni. Mikilvægt þykir að atvinnurekendur sinni skyldu sinni samkvæmt þessum ákvæðum og tilkynni til Vinnueftirlitsins slys eða óhöpp þar sem vera kann að hvers konar hættuleg efni eða efnavörur geti valdið mengun. Þá þykir mikilvægt að Vinnueftirlitið fái vitneskju um slík slys og óhöpp án ástæðulausrar tafar til þess að unnt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda starfsmenn og rannsaka orsakir slíkra atvika í samræmi við 81. gr. og koma þannig í veg fyrir að sambærileg atvik endurtaki sig. Einnig þykir mikilvægt að framangreind slys og óhöpp séu skráð í slysagagnagrunn Vinnueftirlitsins til að unnt sé að greina áhættuþætti í atvinnulífinu og beina eftirliti þangað sem þörfin er mest hverju sinni.
    Gert er ráð fyrir að í g-lið 1. mgr. verði lagt til að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta með stórfelldum hætti og alvarlega gegn 1. eða 2. mgr. 53. gr., 1. eða 2. mgr. 54. gr. eða 55. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. skal vinnutíma hagað þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld. Skv. 2. mgr. 53. gr. er heimilt með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins að stytta samfelldan hvíldartíma í allt að átta klukkustundir ef eðli starfs eða sérstakir atvinnuhættir gera frávik nauðsynleg. Skv. 1. mgr. 54. gr. skal starfsmaður á hverju sjö daga tímabili fá a.m.k. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma. Skv. 2. mgr. 54. gr. er heimilt að víkja frá framangreindri meginreglu með samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins ef sérstök þörf er á, vegna eðlis hlutaðeigandi starfa, með því að fresta vikulegum frídegi þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíldartíma síðar en þó ávallt innan 14 daga. Þar sem sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg er þó heimilt með samkomulagi á vinnustað að fresta vikulegum hvíldartíma þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á hverjum tveimur vikum. Skv. 1. mgr. 55. gr. skal hámarksvinnutími starfsmanna á viku að yfirvinnu meðtalinni ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili. Skv. 2. mgr. 55. gr. er heimilt með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins að reikna hámarksvinnutíma starfsmanna út frá viðmiðunartímabili sem má vera allt að sex mánuðir. Skv. 3. mgr. 55. gr. er samtökum aðila vinnumarkaðarins heimilt að ákveða með samningum að hámarksvinnutími starfsmanna skuli reiknaður út frá viðmiðunartímabili sem er allt að 12 mánuðir, að gættum meginreglum laganna um öryggis- og heilsuvernd starfsmanna, ef fyrir liggja hlutlægar eða tæknilegar ástæður eða vegna sérstaks eðlis þeirra starfa sem um ræðir. Samtök aðila vinnumarkaðarins hafa gert með sér samkomulag vegna frávika skv. 2. mgr. 53. gr., 2. mgr. 54. gr. og 2. og 3. mgr. 55. gr. og flestir kjarasamningar nýta sér undanþágurnar. Til að mynda er átta klukkustunda samfelld hvíld á sólarhring í raun meginreglan á innlendum vinnumarkaði. Í kjarasamningum er kveðið á um að atvinnurekandi skuli greiða starfsmanni bætur ef brotið er gegn lögum eða kjarasamningum hvað varðar daglegan hvíldartíma, vikulegan frídag eða hámarksvinnutíma og er því eingöngu gert ráð fyrir að Vinnueftirlitinu verði heimilt að beita stjórnvaldssektum þegar um er að ræða stórfelld og alvarleg brot. Með stórfelldu og alvarlegu broti er átt við að ekki getur verið um að ræða einfalt brot eða minni háttar frávik auk þess sem brotið verður að hafa í för með sér hættu fyrir líf og heilbrigði starfsmanna. Sem dæmi má nefna að þegar starfsmenn vinna við vélar og tæki getur skortur á hvíld leitt til alvarlegra afleiðinga fyrir starfsmenn sem og almannahagsmuni en einnig getur skortur á hvíld leitt til kulnunar í starfi ef brotið er stórfellt og alvarlegt.
    Gert er ráð fyrir að í h-lið 1. mgr. verði lagt til að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 50. gr. eða 1. mgr. 51. gr. a. Er þetta lagt til þar sem stórfelld eða ítrekuð brot gegn framangreindum ákvæðum þykja vera það alvarleg að rétt þyki að Vinnueftirlitið geti beitt stjórnvaldssektum þegar um er að ræða slík brot. Í 1. mgr. 48. gr. er kveðið á um að óheimilt sé að setja á markað eða taka í notkun tegund véla, tækja eða annars búnaðar sem uppfyllir ekki reglur um öryggi og formskilyrði, svo sem um merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi eða prófunarskýrslur, sem sett eru samkvæmt lögum þessum, sérreglum sem settar eru á grundvelli þeirra eða viðurkenndum stöðlum er gilda á sameiginlegum markaði ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Mikilvægt er að starfsmenn vinni með örugg tæki og vélar en ætla má að alvarlegustu vinnuslysin geti orðið í tengslum við slíkan búnað. Því þykir jafnframt mikilvægt að kveða á um að Vinnueftirlitið hafi heimild til að beita stjórnvaldssektum hafi atvinnurekendur, framleiðendur eða innflytjendur brotið með stórfelldum hætti eða ítrekað gegn þeirri skyldu sinni að framleiða og/eða flytja hingað til lands örugg tæki og vélar í samræmi við viðurkennda staðla. Einnig þykir nauðsynlegt að kveða á um heimild Vinnueftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssekt vegna framangreindra brota til að tryggja innleiðingu á ýmsum gerðum Evrópusambandsins í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Um er að ræða innleiðingu á 45. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/424 frá 9. mars 2016 um togbrautabúnað og niðurfellingu á tilskipun 2000/9/EB, 45. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/425 frá 9. mars 2016 um persónuhlífar og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/686/EBE, 43. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/426 frá 9. mars 2016 um tæki sem brenna loftkenndu eldsneyti og niðurfellingu á tilskipun 2009/142/EB, 47. gr. tilskipunar 2014/68/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða þrýstibúnað fram á markaði, 40. gr. tilskipunar 2014/29/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða einföld þrýstihylki fram á markaði og 43. gr. tilskipunar 2014/33/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur.
    Í 1. mgr. 50. gr. er kveðið á um að á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eða efnavörur, efnaúrgangur eða spilliefni, þ.m.t. sprengifim efni, eldfim efni og sprengiefni, eru notuð eða kunna að vera notuð skuli atvinnurekandi gæta þess að þeim framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðum sé beitt sem tryggja að starfsmenn séu varðir gegn slysum, mengun og sjúkdómum. Fjöldi reglna hefur verið settur um þær framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðir sem beita skal til að tryggja að starfsmenn séu varðir gegn slysum, mengun og sjúkdómum og má þar nefna reglur nr. 530/2020 um verndun starfsmanna á vinnustöðum gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna sem geta valdið krabbameini eða stökkbreytingu í kímfrumum, reglugerð nr. 553/2004 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum og reglugerð nr. 390/2009 um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum. Stórfellt eða ítrekað brot gegn þessu ákvæði þykir alvarlegt brot og því mikilvægt að Vinnueftirlitið hafi heimild til að leggja á stjórnvaldssekt ef brotið er gegn ákvæðinu með stórfelldum hætti eða ítrekað.
    Í 1. mgr. 51. gr. a er kveðið á um að á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eða efnavörur eru notaðar eða kunna að vera notaðar í þeim mæli að við slys geti skapast umfangsmikil hætta fyrir fólk og umhverfi skuli atvinnurekandi gera öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir slík slys. Enn fremur skuli atvinnurekandi gera ráðstafanir til að unnt sé að bregðast við slíkum slysum svo að tafarlaust megi draga úr afleiðingum þeirra. Þessi skylda til að koma í veg fyrir og bregðast við stórslysum af völdum hættulegra efna hefur verið nánar útfærð í reglugerð nr. 1050/2017 um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna. Stórfellt eða ítrekað brot gegn þessu ákvæði þykir alvarlegt brot og því þykir jafnframt mikilvægt að Vinnueftirlitið hafi heimild til að leggja á stjórnvaldssekt ef brotið er gegn ákvæðinu.
    Gert er ráð fyrir að í i-lið 1. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að brjóta gegn ákvæðum laganna og/eða reglum og reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra þegar brotið veldur loftmengun eitraðra eða eldfimra eða hættulegra efna, sprengihættu, klemmihættu, skurðhættu, fallhættu eða hættu á hruni jarðvegs, verkpalls, vörustæðu, gáma, kerja eða burðarvirkis sem skapi verulega hættu fyrir líf og heilbrigði starfsmanna. Á grundvelli 85. gr. getur Vinnueftirlitið bannað vinnu við þessar aðstæður en mikilvægt þykir að Vinnueftirlitið geti jafnframt lagt á stjórnvaldssektir við þessar aðstæður.
    Lagt er til að í j-lið 1. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að tilkynna ekki í samræmi við 1. mgr. 79. gr. eða veita rangar eða villandi upplýsingar um vinnuslys sem leiðir til dauða eða veldur langvinnu eða varanlegu heilsutjóni starfsmanns. Mikilvægt þykir að Vinnueftirlitið fái ávallt réttar og greinargóðar upplýsingar svo að stofnuninni sé unnt að rannsaka orsök slyss þannig að unnt sé að koma í veg fyrir sambærileg slys síðar. Er því jafnframt talið mikilvægt í ljósi þeirra alvarlegu hagsmuna sem um er að ræða að Vinnueftirlit ríkisins geti beitt stjórnvaldssekt ef upplýsingar sem stofnunin fær eru rangar eða villandi eða henni er ekki tilkynnt um slys, sbr. framangreint. Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að Vinnueftirlitinu beri meðal annars að líta til þess hvort stofnunin hafi haft fullnægjandi vitneskju um það slys sem um ræðir jafnvel þó að henni hafi ekki borist tilkynning um slysið.
    Gert er ráð fyrir að í k-lið 1. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að ráða börn eða ungmenni til vinnu við þær aðstæður sem kveðið er á um í 62. gr. en skv. 59. gr. eru börn skilgreind sem einstaklingar sem eru undir 15 ára aldri eða eru í skyldunámi. Í 62. gr. er kveðið á um að óheimilt sé að ráða ungmenni, þ.m.t. börn, til vinnu við tilteknar aðstæður. Er í því sambandi meðal annars átt við vinnu sem ætla má að sé ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi viðkomandi einstaklings, vinnu sem veldur varanlegu heilsutjóni, vinnu þar sem hætta er á skaðlegri geislun, vinnu þar sem fyrir hendi er slysahætta sem gera má ráð fyrir að börn og ungmenni geti átt í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun, vinnu sem felur í sér hættu fyrir heilsu viðkomandi einstaklings vegna óvenju mikils kulda, hita, hávaða eða titrings og vinnu þar sem hætta er á ofbeldi og annarri sérstakri hættu að því undanskildu að ungmennin starfi með fullorðnum. Hér er um að ræða einstaklinga sem geta verið í viðkvæmri stöðu og því afar mikilvægt að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir vinnuslysum. Er því talið nauðsynlegt að Vinnueftirliti ríkisins verði heimilt að beita stjórnvaldssektum sé um að ræða brot gegn þessum ákvæðum.
    Gert er ráð fyrir að í l-lið 1. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt að veita Vinnueftirliti ríkisins rangar eða ófullnægjandi upplýsingar að mati stofnunarinnar um þau atriði sem veita skal stofnuninni upplýsingar um skv. 5. mgr. 36. gr., 58. gr., 1. og 2. mgr. 80. gr. og 2., 3., 5. eða 10. mgr. 82. gr. Öll framangreind ákvæði eiga það sameiginlegt að í þeim er kveðið á um skyldur atvinnurekanda eða annarra aðila til að tilkynna Vinnueftirlitinu um tiltekin atriði eða veita stofnuninni upplýsingar um tiltekin atriði. Mikilvægt þykir að sá sem tilkynnir Vinnueftirlitinu um fyrirhugaða byggingarvinnustaði (5. mgr. 36. gr.), um úrbætur vegna fyrirmæla sem Vinnueftirlit hefur gefið honum (10. mgr. 82. gr.) eða veitir starfsmönnum Vinnueftirlitsins upplýsingar er tengjast eftirliti þeirra (2., 3. og 5. mgr. 82. gr. og 58. gr.), veiti Vinnueftirlitinu réttar upplýsingar og reyni ekki að villa um fyrir stofnuninni þannig að stofnuninni sé unnt að sinna lögbundnu hlutverki sínu.
    Gert er ráð fyrir að í 2. mgr. ákvæðisins verði kveðið á um að Vinnueftirlit ríkisins geti lagt stjórnvaldssekt á starfsmann, sbr. 24. gr., sem brýtur gegn 6. mgr. 45. gr. eða gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við notkun tiltekins tækis, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 99. gr. Tilteknar skyldur samkvæmt lögunum eru þess eðlis að þær teljast vera skyldur starfsmanna en ekki atvinnurekenda en mikilvægt þykir að umræddir starfsmenn sinni þessum skyldum sínum.
    Lagt er til að í a-lið 2. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt þegar starfsmaður brýtur gegn 6. mgr. 45. gr. Í því ákvæði er kveðið á um að sá einn megi vera stjórnandi tiltekinnar vélar, sbr. 1.–5. mgr. ákvæðisins og 1. mgr. 46. gr., sem hefur öðlast fullgild réttindi til að stjórna þeirri vél sem um ræðir hverju sinni samkvæmt reglum sem hafa verið settar á grundvelli 3. mgr. 49. gr. Hér er um að ræða réttindi sem tengd eru starfsmanni og því eðlilegt að starfsmaðurinn beri ábyrgð brjóti hann gegn ákvæðinu. Í 6. mgr. 45. gr. er jafnframt verið að vísa til þess að stjórnandi vinnuvélar, sem er skráningarskyld samkvæmt gildandi reglum nr. 388/1989 um skráningu og skoðun farandvinnuvéla og vinnuvéla skuli hafa öðlast fullgild réttindi samkvæmt gildandi reglum nr. 198/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum.
    Gert er ráð fyrir að í b-lið 2. mgr. verði kveðið á um að það geti varðað stjórnvaldssekt þegar starfsmaður brýtur gegn fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins um bann við notkun tiltekins tækis, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 99. gr. Er það í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í e-lið 1. tölul. ákvæðis þessa þar sem gert er ráð fyrir að í einni af fimm nýjum málsgreinum sem bætast við 99. gr. laganna, sem yrði þá 4. mgr. 99. gr., verði kveði á um að Vinnueftirliti ríkisins verði heimilt að banna stjórnanda að nota tiltekna vél, sbr. 1.–5. mgr. 45. gr., sem er skráningarskyld skv. 49. gr., ef grunur sé um að hann sé undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna en gert er ráð fyrir að þá skuli lögregla jafnframt kölluð til.
    Lagt er til að stjórnvaldssekt sem Vinnueftirlitið hafi heimild til að leggja á starfsmann geti numið allt að 1 millj. kr. og að stjórnvaldssekt sem stofnunin hafi heimild til að leggja á atvinnurekanda geti numið allt að 15 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að við ákvörðun stjórnvaldssekta skuli Vinnueftirlitið meðal annars líta til alvarleika brots, til þess hve lengi það hefur staðið yfir, samstarfsvilja hins brotlega aðila sem og hvort um ítrekað brot hafi verið að ræða og til umfangs atvinnureksturs hins brotlega aðila sé um atvinnurekanda að ræða. Er því gert ráð fyrir að um misjafnlega alvarleg brot geti verið að ræða og í ljósi þess þykir nauðsynlegt að sektarfjárhæðin geti numið allt að 15 millj. kr. þegar um alvarlegustu brot atvinnurekanda er að ræða. Í þessu sambandi er gert ráð fyrir að við ákvörðun stjórnvaldssekta muni Vinnueftirlitið meðal annars líta til fordæma dómstóla og sektargerða ákæruvaldsins vegna brota á nýrri 2. mgr. 99. gr., sbr. e-lið 1. tölul. ákvæðis þessa.
    Lagt er til að kveðið verði skýrt á um að Vinnueftirlitinu sé heimilt að beita stjórnvaldssekt óháð því hvort brotið sem um ræðir var framið af ásetningi eða gáleysi. Er það í samræmi við önnur sambærileg ákvæði um heimildir stjórnvalda til að leggja á stjórnvaldssekt í löggjöf hér á landi, meðal annars í efnalögum, nr. 61/2013, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og lögum um neytendasamninga, nr. 16/2016.
    Lagt er til að kveðið verði skýrt á um að öðrum viðurlögum samkvæmt lögunum verði ekki beitt ef stjórnvaldssekt er lögð á. Er það lagt til í því skyni að tryggja að ekki komi til tvöfaldra viðurlaga fyrir sama brot. Einnig er lagt til að kveðið verði á um að ekki skuli leggja stjórnvaldssekt á starfsmann og atvinnurekanda fyrir sama brot. Er það lagt til þar sem það þykir ekki í samræmi við meðalhóf stjórnsýslulaga verði unnt að leggja stjórnvaldssekt á starfsmann og atvinnurekanda fyrir sama brot.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að Vinnueftirliti ríkisins beri að tilkynna ákvörðun stofnunarinnar um stjórnvaldssekt skriflega á sannanlegan hátt þeim aðila sem sektin beinist að auk þess sem gert er ráð fyrir að ákvörðuninni skuli fylgja skriflegur rökstuðningur. Með sannanlegum hætti er meðal annars átt við að Vinnueftirlit ríkisins geti fært sönnur á að tilkynning stofnunarinnar um ákvörðun um stjórnvaldssekt hafi borist réttum aðila. Almennt má ætla að tilkynning Vinnueftirlit ríkisins um ákvörðun stofnunarinnar um stjórnvaldssekt geti verði með ýmsum hætti, svo sem send með hefðbundnum bréfpósti, með ábyrgðarpósti eða rafrænt með tölvubréfi. Í því sambandi má ætla að almennt sé erfiðara að færa sönnur á að tilkynning, sem send hefur verið rafrænt með tölvubréfi, hafi borist réttum aðila en tilkynning sem send hefur verið með ábyrgðarpósti.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gjalddagi stjórnvaldssektar verði 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin en hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skuli greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga í samræmi við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu. Enn fremur er lagt til að sett verði ákveðin tímamörk í tengslum við heimild Vinnueftirlits ríkisins til að leggja á stjórnvaldssekt og gert er ráð fyrir að heimildin falli niður að fimm árum liðnum frá því að þeirri háttsemi sem um ræðir lauk. Gert er ráð fyrir að stjórnvaldssekt renni í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu sektarinnar auk þess sem slíkar sektir verði aðfararhæfar. Loks er tekið fram að um ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um stjórnvaldssekt fari að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Um g-lið 1. tölul.
    Hér til lagt til að XV. kafli laganna beri fyrirsögnina Viðurlög og refsiákvæði í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæðum kaflans.
    Um 2. og 3. tölul.
    Hér eru lagðar til breytingar á lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, og lögum um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, til samræmis við 11. gr. frumvarpsins og vísast til umfjöllunar í skýringum við það ákvæði eftir því sem við á.
    Um 4. tölul.
    Hér er lagt til að í c-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, verði vísað til 5. gr. starfskjaralaga í stað 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Er það lagt til í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Að tveimur árum liðnum frá gildistöku er lagt til að ráðherra skuli meta í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins hvort þörf sé á endurskoðun á 14. gr. Jafnframt er gert ráð fyrir að komi til endurskoðunar á 14. gr. skuli slík endurskoðun fara fram í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins. Þykir þetta mikilvægt þar sem efni ákvæðisins er nýmæli á innlendum vinnumarkaði. Þau álitaefni sem ætla má að sérstaklega þurfi að hyggja að við mat á því hvort þörf sé á endurskoðun á 14. gr. er meðal annars framkvæmd á grundvelli ákvæðisins á vettvangi samráðsnefndar til úrlausnar í ágreiningsmálum, sbr. 6. gr., sem og hvort verklag samráðsnefndarinnar hafi skilað þeim árangri sem stefnt er að með frumvarpi þessu, hvort viðmið hvað varðar fjárhæð févítis hafi virkað sem fullnægjandi forvörn gegn lakari launagreiðslum en kjarasamningar kveða á um og hvort með því ferli sem mælt er fyrir um í ákvæðinu hafi í reynd náðst sá árangur sem til var ætlast.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.