Ferill 643. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 901  —  643. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2021.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.

    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd tveggja ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 1. september 2021, um aukið vestnorrænt samstarf á vettvangi umhverfis- og loftslagsmála (nr. 1/2021) og um samstarf vestnorrænna háskóla um fjarkennslu (nr. 2/2021).

Greinargerð.

    Á ársfundi Vestnorræna ráðsins árið 2021, sem haldinn var 31. ágúst til 1. september, voru samþykktar tvær ályktanir.
    Sú fyrri fjallar um aukið samstarf milli Grænlands, Færeyja og Íslands á vettvangi umhverfis- og loftslagsmála. Loftslagsbreytingar eru ein af stærstu áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir. Vísindarannsóknir sýna að hlýnun á norðurslóðum er tvöfalt meiri en annars staðar á jörðinni og að áhrif áframhaldandi hlýnunar verða víðtæk fyrir íbúa svæðisins. Vestnorrænu ríkin finna öll fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga og mikilvægt er að löndin gegni áfram lykilhlutverki í þeirri viðleitni að styðja við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og umhverfisvernd á svæðinu. Aukið vestnorrænt samstarf um sameiginlega hagsmuni í loftslagsmálum getur aukið áhrif landanna þriggja á alþjóðlegum vettvangi. Grænland, Færeyjar og Ísland geta einnig deilt þekkingu og hugmyndum í tengslum við græn umskipti, t.d. varðandi endurnýjanlega orku, sjálfbærar fiskveiðar, grænar samgöngur og ferðaþjónustu. Í ályktun nr. 1/2021 kallar Vestnorræna ráðið eftir því að umhverfisráðherrar landanna þriggja geri með sér samstarfssamning þar sem m.a. verði kveðið á um árlegan samráðsfund ráðherranna. Á þeim fundum gæfist tækifæri til að auka vestnorrænt samstarf og deila reynslu og lausnum í umhverfis- og loftslagsmálum.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2021 hvetja menntamálaráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja til þess að aukið verði samstarf landanna þriggja um háskólamenntun með aðstoð fjarkennslu. Tækniþróun, bætt fjarskipti og aukin reynsla af fjarkennslu hafa undanfarin ár gjörbreytt möguleikum íbúa strjálbýlla svæða til að sækja sér fjölbreytta háskólamenntun. Fjarlægðir geta verið miklar í vestnorrænum löndum, sérstaklega á Grænlandi og Íslandi. Fjarnám gefur fólki sem býr fjarri höfuðborgum eða þéttbýliskjörnum kost á að sækja sér margvíslega menntun sem það hefði annars ekki notið. Auk þess nýtist fjarnám fólki sem stundar nám samhliða vinnu. Sýnt hefur verið fram á sterk tengsl fjarnáms við áframhaldandi búsetu í heimabyggð. Fjarnám hefur því ekki aðeins jákvæð áhrif á þroska einstaklinga heldur einnig á heilbrigði samfélaga á norðurslóðum. Með það í huga er hvatt til þess að menntamálaráðherrar landanna þriggja skoði möguleika á að innleiða fjarnám í samstarfi háskóla í löndunum þremur. Háskólar í þeim bjóða í vaxandi mæli upp á fjarkennslu í margvíslegum fögum og með því að tengja þá sterkari böndum mætti betur deila þekkingu og reynslu milli landanna. Námsframboð er óhjákvæmilega takmarkað í smærri samfélögum, sérstaklega eftir því sem sérhæfing verður meiri. Með aðstoð fjarkennslu gætu háskólar í löndunum þremur tekið höndum saman til að bjóða nemendum upp á ríkulegra námsframboð.