Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 903  —  181. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008 (almannavarnastig o.fl.).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Bjarnadóttur og Margréti Halldóru Hallgrímsdóttur frá dómsmálaráðuneytinu, Víði Reynisson og Helga Valberg Jensson frá ríkislögreglustjóra, Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrannar Má Gunnarsson frá BSRB, Ragnar Þór Pétursson og Önnu Rós Sigmundsdóttur frá Kennarasambandi Íslands, Þorgerði Laufeyju Diðriksdóttur og Karl Óttar Pétursson frá Félagi grunnskólakennara, Þorstein Gunnarsson og Jón Viðar Matthíasson frá Reykjavíkurborg, Höllu Bergþóru Björnsdóttur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Páleyju Borgþórsdóttur og Kristján Kristjánsson frá lögreglunni á Norðurlandi eystra, Ölmu Möller landlækni, Jón Brynjar Birgisson og Kristjönu Fenger frá Rauða krossinum á Íslandi, Sólveigu Þorvaldsdóttur, Guðbrand Örn Arnarson og Karen Ósk Lárusdóttur frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
    Nefndinni bárust umsagnir frá BSRB, embætti landlæknis, Félagi grunnskólakennara, Kennarasambandi Íslands, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunni á Norðurlandi eystra, Rauða krossinum á Íslandi, Reykjavíkurborg, ríkislögreglustjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sólveigu Þorvaldsdóttur og Veðurstofu Íslands, auk þess barst minnisblað og erindi með nánari upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á hugtökum á sviði almannavarna til að skilgreina nánar hvenær valdheimildir eru virkjaðar, að bráðabirgðaákvæði um borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila verði varanleg heimild, að færa lögreglustjórum í héraði beina aðkomu að gerð viðbragðsáætlana og hættumats ásamt því að leggja niður rannsóknarnefnd almannavarna og í hennar stað komi þrepaskipt kerfi við rýni að afléttu almannavarnastigi.

Umfjöllun nefndarinnar.
Heildarendurskoðun.
    Almennt var samhljómur á meðal umsagnaraðila um að frumvarpið væri til bóta og með því væru gerðar breytingar sem endurspegla hvernig almannavarnir starfa í reynd. Jafnframt lögðu umsagnaraðilar áherslu á að lög um almannavarnir sættu heildarendurskoðun eins og ráðuneytið hefur boðað og að það yrði gert í víðtæku samráði. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að við fyrirhugaða heildarendurskoðun laganna verði hafðar til hliðsjónar þær ábendingar sem bárust við meðferð þessa máls en ekki var tilefni til að bregðast við nú. Má þar til að mynda nefna þau sjónarmið um hvort rétt sé að hafa skilgreiningar á almannavarnastigum í lögum frekar en í reglugerð.

Valdsvið sveitarstjórna og almannavarnanefnda (7. og 10. gr.).
    Með 7. gr. frumvarpsins er lagt til að skerpt verði á hlutverki lögreglustjóra við gerð hættumats og viðbragðsáætlana. Í athugasemdum við ákvæði 7. gr. í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að formlega sé það hlutverk lögreglustjóra og almannavarnanefnda að sinna þessum verkefnum í samvinnu við ríkislögreglustjóra en ekki aðeins hlutverk almannavarnanefndar þar sem lögreglustjóri er þó ávallt einn af nefndarmönnum. Þá er með 10. gr. frumvarpsins lögð til sú breyting á 16. gr. laganna að lögreglustjóri fái það hlutverk ásamt sveitarfélögum í samvinnu við ríkislögreglustjóra að kanna áfallaþol í umdæmi sínu. Einnig skuli hann ásamt almannavarnanefnd í samvinnu við ríkislögreglustjóra gera viðbragðsáætlun í samræmi við hættumat í umdæmi þeirra. Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að framangreindar breytingar væru til þess fallnar að gera ábyrgð og valdsvið sveitarstjórna og almannavarnanefnda óskýrara.
    Nefndin áréttar að með frumvarpinu er ekki verið að breyta neinu í lögum um almannavarnir er snertir sveitarstjórnir beint. Ætlunin sé að skerpa á ábyrgð lögreglustjóra sem á sæti í almannavarnanefnd með fulltrúum sveitarstjórna skv. 9. gr. laganna og fela honum að bera ábyrgð á þessum verkefnum með sveitarstjórnum.

Aðstoð erlends hjálparliðs og norrænt samstarf um almannavarnir.
    Við umfjöllun málsins kom fram fyrir nefndinni mikilvægi þess að með frumvarpinu sé verið að bæta við lögin ákvæði um móttöku erlends hjálparliðs vegna almannavarnaástands. Nefndin tekur undir þetta sjónarmið og mikilvægi þess að ef til þess kemur þá sé ferlið skilvirkt og að unnt sé að bregðast við hratt og örugglega.
    Í tilefni af samþykkt Norðurlandaráðs í mars 2022 um tilmæli þar sem ríkisstjórnir Norðurlandanna eru hvattar til að fylgja eftir tillögum í svokallaðri Enestam-skýrslu um almannavarnir óskaði nefndin jafnframt eftir nánari upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu varðandi samstarf á Norðurlöndunum um almannavarnir. Í minnisblaði ráðuneytisins er gerð grein fyrir Haga-samstarfi Norðurlanda um almannavarnir en markmið þess er að efla öryggi almennings með því að auka og styrkja samstarf Norðurlanda um almannavarnir. Á þeim vettvangi funda fulltrúar Norðurlandanna og ræða áskoranir á sviði almannavarna og er m.a. haldinn árlegur fundur með ráðherrum Norðurlandanna sem bera ábyrgð á almannavörnum. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þessa samstarfs og að norrænt samstarf um almannavarnir verði eflt enn frekar.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Aðkoma lögreglustjóra þegar ríkislögreglustjóri lýsir yfir almannavarnastigi (1. gr.).
    Á grundvelli umsagna lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Norðurlandi eystra er lagt til að bætt verði við ákvæðið að þegar ríkislögreglustjóri lýsi yfir almannavarnastigi sé það gert í samráði við viðkomandi lögreglustjóra ef unnt er og er það til samræmis við núgildandi framkvæmd. Í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins er tekið undir þessa breytingu.

Forstjóri Veðurstofu Íslands í almannavarnaráði (3. gr.).
    Til samræmis við ábendingu í umsögn Veðurstofu Íslands er lagt til að vísa til þess að forstjóri Veðurstofu Íslands skuli eiga sæti í almannavarnaráði, í stað veðurstofustjóra.

Varanleg lögfesting heimildarákvæðis um borgaralega skyldu opinberra aðila (12. gr.).

    Með lögum nr. 27/2020, um breytingu á lögum um almannavarnir, var bætt við lögin ákvæði til bráðabirgða um borgaralega skyldu opinberra aðila til að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Gildistími ákvæðisins var svo framlengdur með lögum nr. 16/2021 til 1. janúar 2022. Með frumvarpinu er nú lagt til að ákvæðið verði lögfest varanlega.
    Fyrir nefndinni komu fram ólík sjónarmið um þetta ákvæði. Annars vegar á þann veg að það hefði nýst vel á meðan heimsfaraldur COVID-19 gekk yfir en hins vegar kom fram gagnrýni á það hvernig ákvæðinu hefði verið beitt í vissum tilvikum auk þess sem orðalag ákvæðisins væri of opið. Í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að rétt þyki að falla frá tillögu frumvarpsins um varanlega lögfestingu umrædds heimildarákvæðis og taka það til ítarlegrar skoðunar við heildarendurskoðun laganna.
    Nefndin tekur undir með ráðuneytinu og leggur til að 12. gr. frumvarpsins falli brott auk þess sem orðalag 11. gr. frumvarpsins verði uppfært til samræmis við þá breytingu. Nefndin áréttar mikilvægi þess að möguleg lögfesting ákvæðisins verði unnin í breiðu samráði við helstu aðila í ljósi þeirra umsagna sem liggja fyrir.

Fjarskipti og aðgangur almannavarna og viðbragðsaðila að öruggu fjarskiptaneti (8. gr. og 19. gr.).
    Í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins er tekið undir ábendingar í umsögn ríkislögreglustjóra þar sem lagðar eru til breytingar á ákvæði um samhæfingar- og stjórnstöð í lögum um almannavarnir sem fjalla um fjarskipti og aðgang almannavarna og viðbragðsaðila að öruggu fjarskiptaneti. Þegar vá ber að höndum er nauðsynlegt að trygg neyðar- og öryggisfjarskipti séu til staðar svo að hægt sé að hefja og samræma aðgerðir viðbragðsaðila. Starfræksla neyðar- og öryggisfjarskiptakerfis þarf jafnframt að hvíla á grunni öruggs reksturs. Þá þarf innbyggðar varnir í neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi gegn vá og truflunum svo að það haldi fullri virkni þótt almenn fjarskiptanet kunni að verða að einhverju leyti óvirk um lengri eða skemmri tíma. Með breytingu á 12. gr. laganna er ætlunin að skýra orðalag svo að það fari ekki á milli mála að um er að ræða neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi en ekki almenn fjarskiptakerfi og að viðbragðsaðilar hafi aðgang að því. Með breytingu á reglugerðarheimild í 34. gr. er lagt til að ráðherra hafi heimild til að útfæra nánar tilhögun neyðar- og öryggisfjarskiptakerfisins í reglugerð. Leggur nefndin til breytingar þess efnis.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      Fyrri málsliður 1. mgr. a-liðar 1. gr. orðist svo: Ríkislögreglustjóri lýsir yfir almannavarnastigi í samráði við viðkomandi lögreglustjóra ef unnt er og tilkynnir það ráðherra, þegar neyðarástand er líklegt, er yfirvofandi eða ríkir, eða sambærilegar aðstæður eru fyrir hendi.
     2.      Í stað orðsins „Veðurstofustjóri“ í 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. komi: Forstjóri Veðurstofu Íslands.
     3.      Við 8. gr. bætist nýr liður, a-liður, svohljóðandi: 3. mgr. 12. gr. orðast svo:
         Samhæfingar- og stjórnstöð og viðbragðsaðilar skulu hafa aðgang að neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi, sem er óháð og aðskilið frá almennum fjarskiptakerfum, vegna samskipta samhæfingar- og stjórnstöðvar og viðbragðsaðila almannavarna. Ráðherra er heimilt að fela aðila í opinberri eigu rekstur neyðar- og öryggisfjarskiptakerfisins.
     4.      Orðin „svo sem beiting heimildar 19. gr. a um borgaralega skyldu opinberra aðila“ í a-lið 11. gr. falli brott.
     5.      12. gr. falli brott.
     6.      Við 19. gr. bætist nýr stafliður sem verði a-liður, svohljóðandi: 1. mgr. orðast svo:
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um flokkun almannavarnastiga almannavarna, inntak þeirra og viðbrögð, um frekara skipulag samhæfingar- og stjórnstöðvar og þjónustumiðstöðva skv. V. kafla að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, um tilhögun neyðar- og öryggisfjarskiptakerfisins um störf stjórnar samhæfingar- og stjórnstöðvar og samhæfingar- og stjórnstöðvarráðs, svo og hverjir skuli teljast viðbragðsaðilar almannavarna.

    Bergþór Ólason og Eyjólfur Ármannsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigmar Guðmundsson áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 7. apríl 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Birgir Þórarinsson,
frsm.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.
Jódís Skúladóttir. Jóhann Friðrik Friðriksson. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Logi Einarsson.