Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 977  —  415. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022–2025.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og Kristínu Þóru Harðardóttur frá forsætisráðuneytinu, Viðar Eggertsson frá Landssambandi eldri borgara, Rannveigu Traustadóttur frá rannsóknasetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Svandísi Önnu Sigurðardóttur frá Reykjavíkurborg, Guðlaugu M. Júlíusdóttur, Önnu Sigríði Pálsdóttur, Rósu Björk Ómarsdóttur og Unnstein Jóhannsson frá BUGL – barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Ólöfu Bjarka Antons frá Trans Íslandi – félagi trans fólks á Íslandi, Álf Birki Bjarnason og Bjarndísi Helgu Tómasdóttur frá Samtökunum '78, Ínu Björgu Hjálmarsdóttur, Svein Guðmundsson og Þorbjörn Jónsson frá Blóðbankanum og Þórólf Guðnason sóttvarnalækni.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Blóðbankanum, BUGL – barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Hveragerðisbæ, Landssambandi eldri borgara, rannsóknasetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökunum '78, Trans Íslandi – félagi trans fólks á Íslandi, og umboðsmanni barna, auk þess barst minnisblað frá forsætisráðuneytinu.
    Með þingsályktunartillögunni er lögð fram aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks í 19 liðum þar sem stefna stjórnvalda er skilgreind fyrir árin 2022–2025 og tilteknum verkefnum lýst sem er ýmist ætlað að varpa ljósi á stöðu hinsegin fólks í samfélaginu eða fela í sér beinar aðgerðir.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Meiri hlutin telur aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025 vera jákvætt og mikilvægt skref varðandi það að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks í samfélaginu. Við áframhaldandi vinnu og innleiðingu þeirra verkefna sem tilgreind eru í áætluninni þurfi að leita eftir víðtæku samráði við hagsmunaaðila auk þess sem mikilvægt sé að hverri aðgerð verði tryggt fjármagn, líkt og bent var á í umsögnum um málið. Meðal annars var fjallað um það fyrir nefndinni að margar aðgerðir í áætluninni hefðu beina þýðingu fyrir sveitarfélögin og leggur Samband íslenskra sveitarfélaga því áherslu á að það fái aðkomu að útfærslu þeirra aðgerða og vinnuhópa sem fyrirhugað er að setja á fót til að ná tilsettum markmiðum, auk þess sem þær aðgerðir sem snúi að sveitarfélögum verði kostnaðarmetnar. Meiri hlutinn tekur undir þessar ábendingar og að mikilvægt sé að vinna að innleiðingu þeirra aðgerða sem varða sveitarfélögin í góðri samvinnu við þau.


Reglugerð um heilbrigðisþjónustu.
    Í 17. lið aðgerðaáætlunarinnar er mælt fyrir um að setja skuli reglugerð um heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga sem falla undir lög nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna. Markmið aðgerðarinnar er að skýra betur hlutverk teymis barna- og unglingageðdeildar Landspítala um kynvitund þegar kemur að þjónustu við einstaklinga sem falla undir lögin og hvaða sérfræðiþjónustu sé nauðsynlegt að tryggja þeim sem leita eftir þjónustu teymisins. Í greinargerð með tillögunni kemur meðal annars fram að brýnt sé að skýra stöðu barna yngri en 16 ára þegar óskir koma fram um óafturkræfar breytingar á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. laganna.
    Í umsögn frá BUGL – barna- og unglingageðdeild Landspítalans og fyrir nefndinni kom fram að trans teymi BUGL legði mikla áherslu á að vinna við slíka reglugerð færi fram sem allra fyrst og að fulltrúar teymisins kæmu að þeirri vinnu. Fram kom að það væri mikilvægt að skilgreina tiltekin atriði nánar sem byggjast á ákvæðum laga um kynrænt sjálfræði, svo sem að skilgreina hvaða hópum verði vísað í þjónustu trans teymis BUGL og hvað skuli falla undir annars vegar afturkræfar og hins vegar óafturkræfar aðgerðir. Meiri hlutinn telur mikilvægt að horfa til þeirra þátta sem fram koma í umsögninni þegar þessi aðgerð áætlunarinnar kemur til framkvæmdar, sem er á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins.

Aðgerð um breytingu á reglugerð um blóðgjafir.
    Í 18. lið aðgerðaáætlunarinnar er mælt fyrir um að gerðar verði breytingar á reglugerð nr. 441/2006, um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV við sömu reglugerð, með það að markmiði að horfið verði frá því að bann við blóðgjöf tengist kynhneigð einstaklinga.
    Í umsögn og fyrir nefndinni fjölluðu sóttvarnalæknir og Blóðbankinn meðal annars um mikilvægi þess að tryggja fjármögnun svo hægt sé að innleiða svokallaða NAT-skimun og smithreinsun rauðkorna. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið sem fram komu fyrir nefndinni um að ávallt skuli hafa að leiðarljósi að tryggja öryggi blóðþega. Jafnframt sé mikilvægt að byggja á málefnalegum sjónarmiðum varðandi það hverjir geti gerst blóðgjafar og tímabært sé að fara í þær breytingar sem aðgerðaáætlunin felur í sér hvað þetta varðar.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Málefni hinsegin eldri borgara og öryrkja.
    Fyrir nefndinni var vakin athygli á stöðu hinsegin fólks sem nú telst til eldri borgara. Innan þess hóps eru margir sem stóðu í réttindabaráttu hinsegin fólks og ruddu brautina en upplifðu jafnframt ýmiss konar mismunun við það að stíga fram opinberlega og berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Þessi hópur er í viðkvæmri stöðu þegar komið er á efri ár og þarf jafnvel að þiggja þjónustu inni á heimili sínu eða hjá stofnunum. Í umsögn Landssambands eldri borgara er þessum sjónarmiðum lýst og lögð áhersla á að þessi hópur hinsegin fólks verði skilgreindur sem hópur í viðkvæmri stöðu.
    Nefndin óskaði eftir nánari upplýsingum frá forsætisráðuneytinu varðandi sjónarmið um stöðu eldri borgara innan hinsegin samfélagsins. Í minnisblaði til nefndarinnar vakti ráðuneytið athygli á verkefni norrænu ráðherranefndarinnar um lífsgæði eldra fólks innan hinsegin samfélagsins að frumkvæði Noregs sem nú fer með formennsku, en verkefnið er unnið í samstarfi við Ísland sem tekur við formennsku í nefndinni á næsta ári. Verkefnið er tveggja ára verkefni og felst meðal annars í því að rannsaka stöðu hópsins á Norðurlöndum sem nýtist við stefnumótun. Sérstök áhersla er lögð á þjónustu við eldra hinsegin fólk í félagslega kerfinu og heilbrigðiskerfinu og að auka þekkingu á lífskjörum eldra hinsegin fólks og fræðslu meðal starfsmanna, svo sem á hjúkrunarheimilum og annars staðar þar sem eldra fólk leitar þjónustu. Meiri hlutinn fagnar þessari vinnu á vegum norrænu ráðherranefndarinnar, ljóst er að hún á eftir að nýtast vel. Til viðbótar þessu vakti ráðuneytið athygli á styrkveitingu til Samtakanna '78 frá félags- og vinnumarkaðsráðherra til að efla stuðning samtakanna við hinsegin eldra fólk, meðal annars með aukinni þjónustu og fræðslu.
    Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi framangreindra sjónarmiða um stöðu þessa hóps. Í tillögunni er á einum stað fjallað um eldri borgara, í 3. lið sem fjallar um kortlagningu á stöðu og réttindum hinsegin fólks á Íslandi, þar kemur fram að meðal annars skuli horfa til stöðu eldri borgara innan hinsegin samfélagsins. Meiri hlutinn telur jafnframt rétt að leggja til breytingu þess efnis að ráðist verði í sérstaka aðgerð með það að markmiði að rannsaka líðan eldri borgara sem og öryrkja innan hinsegin samfélagsins. Einstaklingar innan þessara hópa kunna að vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu og meðal annars í aukinni hættu á að einangrast.

Staða hinsegin fólks á landsbyggðinni.
    Staða hinsegin fólks á landsbyggðinni kann að vera viðkvæm, ekki síst fyrir ungmenni. Við umfjöllun nefndarinnar um málið var komið inn á þennan þátt og telur meiri hlutinn þörf á að bregðast við með því að leggja til að við þingsályktunartillöguna bætist nýr liður sem feli í sér aðgerð með það að markmiði að rannsaka líðan og stöðu hinsegin fólks á landsbyggðinni, út frá samfélagslegum þáttum og sjónarmiðum um jöfn búsetuskilyrði í landinu. Huga þurfi að aukinni fræðslu og aðgengi að stuðningi á landsbyggðinni. Í framhaldi af þeirri úttekt sem mælt er fyrir um komi til skoðunar að útfæra og framkvæma frekari aðgerðir sem er talin þörf á til að jafna stöðu hinsegin fólks um allt land.

    Til viðbótar leggur meiri hlutinn til tvær breytingar sem eru tæknilegs eðlis. Að því virtu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      Á eftir 3. lið tillögugreinarinnar komi tveir nýir liðir, 4. og 5. liður, svohljóðandi:
    a.      4. Líðan hinsegin öryrkja og aldraðra.
                 Úttekt á líðan hinsegin öryrkja og aldraðra verði gerð og skoðuð út frá samfélagslegum þáttum og því markmiði að jafna stöðu öryrkja og aldraðra í samfélaginu. Hugað verði sérstaklega að líðan og stöðu þessa hóps í samfélaginu og litið til einangrunar og tjáningar.
                 Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka líðan og stöðu hinsegin öryrkja og aldraðra.
                 Tímaáætlun: 2022–2024.
                 Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
                 Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
                 Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2, 10.3, 10.4.
    b.      5. Líðan hinsegin fólks á landsbyggðinni.
                 Úttekt á líðan hinsegin fólks á landsbyggðinni verði gerð og hún skoðuð út frá samfélagslegum þáttum og því markmiði að jafna búsetuskilyrði í landinu. Hugað verði sérstaklega að líðan og stöðu hinsegin fólks í litlum samfélögum á landsbyggðinni þar sem nálægð er mikil og atvinnulíf er víða einhæft.
                 Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka líðan og stöðu hinsegin fólks á landsbyggðinni.
                 Tímaáætlun: 2022–2024.
                 Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samstarfi við innviðaráðuneyti.
                 Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
                 Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2, 10.3, 10.4., 11.a, 11.b, 11.3.
     2.      Í stað „233. gr.“ í 1. málsl. 9. liðar tillögugreinarinnar komi: 233. gr. a.
     3.      Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025.


    Bergþór Ólason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 29. apríl 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Jódís Skúladóttir,
frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.
Eyjólfur Ármannsson. Jóhann Friðrik Friðriksson. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Logi Einarsson.