Ferill 699. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1050  —  699. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og lögum um loftslagsmál (geymsla koldíoxíðs).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar (VilÁ, BjarnJ, HSK, IÓI, NTF, OPJ).


I. KAFLI
Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „niðurdælingar“ í 19., 21. og 22. mgr. kemur: geymslu.
     b.      Í stað orðsins „niðurdælingarsvæðis“ í 20. mgr. kemur: geymslusvæðis.
     c.      23. mgr. orðast svo:
                  Hentugar jarðmyndanir til geymslu eru jarðmyndanir sem hafa eiginleika sem stuðla að öruggri og áreiðanlegri geymslu koldíoxíðs neðan jarðar.
     d.      24. mgr. orðast svo:
                  Geymsla koldíoxíðs í jörðu er niðurdæling og síðan geymsla koldíoxíðsstrauma í jarðmyndunum neðan jarðar.
     e.      25. mgr. orðast svo:
                  Geymslugeymir er geymslusvæðið, þ.e. jarðmyndanir þess og allt sem getur haft áhrif á öryggi og áreiðanleika geymslu koldíoxíðs á svæðinu.
     f.      26. mgr. orðast svo:
                  Geymslusvæði er skilgreint svæði innan jarðmyndana sem notað er til geymslu koldíoxíðs auk tilheyrandi búnaðar, hvort sem hann er ofan jarðar eða neðan jarðar.
     g.      27. mgr. orðast svo:
                  Rekstrartímabil geymslusvæðis er tíminn frá því að starfsleyfi er gefið út og niðurdæling og geymsla koldíoxíðs hefst á geymslusvæði og þar til starfsemi lýkur.

2. gr.

     a.      Í stað orðsins „niðurdælingarsvæði“ í a-lið 1. mgr. 22. gr., 5. tölul. 33. gr. b, tvívegis í 1. mgr. og 5. mgr. 33. gr. c, 2. mgr. 33. gr. e, 1. mgr. 33. gr. f, tvívegis í inngangsmálslið og 1. og 3. tölul. 1. mgr. 33. gr. g, 1. og 2. mgr. 33. gr. j og 7. mgr. 67. gr. laganna kemur: geymslusvæði.
     b.      Í stað orðsins „niðurdælingarsvæðis“ í 2. tölul. 33. gr. b og a-lið 4. mgr. 33. gr. d laganna kemur: geymslusvæðis.
     c.      Í stað orðsins „niðurdælingarsvæða“ í 6. tölul. 33. gr. b laganna kemur: geymslusvæða.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. a laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                 Þessi kafli gildir um geymslu koldíoxíðs í jörðu, innan efnahagslögsögu og á landgrunni Íslands.
     b.      Orðið „varanlegri“ í 3. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Í stað orðsins „niðurdælingar“ í 1., 3. og 4. tölul. 33. gr. b, 1. mgr., tvívegis í 2. mgr., tvívegis í 3. mgr., 4. og 6. mgr. 33. gr. c, 2. mgr. 33. gr. f, 1. mgr. 33. gr. j og 6. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna kemur: geymslu.

5. gr.

     a.      Í stað orðsins „niðurdælingargeymis“ í 1. tölul. 33. gr. b og 4. mgr. 33. gr. c laganna kemur: geymslugeymis.
     b.      Í stað orðsins „niðurdælingargeymi“ í 2. tölul. 33. gr. b, 2. og 3. mgr. 33. gr. c og 2. mgr. 33. gr. e laganna kemur: geymslugeymi.

6. gr.

    Fyrirsögn 33. gr. c laganna orðast svo: Könnun og starfsleyfi til geymslu.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. d laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                 Koldíoxíðsstraumur til niðurdælingar og geymslu skal ekki innihalda úrgang. Koldíoxíðsstraumur getur þó innihaldið tilfallandi tengd efni úr uppsprettunni, fönguninni eða niðurdælingarferlinu og snefilefni sem bætt er í hann til að auðvelda vöktun.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Samsetning koldíoxíðsstraums til geymslu.

8. gr.

    Orðið „varanlegrar“ í 3. mgr. 33. gr. f laganna fellur brott.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 33. gr. g laganna:
     a.      Orðin „eða steinrunnið“ í 1. tölul. falla brott.
     b.      Á eftir orðinu „niðurdælingu“ í 3. tölul. bætist: og geymslu.

10. gr.

    33. gr. h laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Aðgangur þriðja aðila að flutningskerfi og geymslusvæði.

    Mögulegir notendur skulu hafa aðgang að flutningskerfi koldíoxíðs og/eða geymslusvæði rekstraraðila, í þeim tilgangi að flytja þangað og dæla þar niður koldíoxíði til geymslu. Rekstraraðila er heimilt að innheimta fyrir það gjald.
    Rekstraraðila er heimilt að synja um aðgang að flutningskerfi og/eða geymslusvæði, að teknu tilliti til eftirfarandi viðmiða:
     a.      geymslugetu sem eðlilegt er að sé tiltæk á geymslusvæði,
     b.      markmiðs íslenskra stjórnvalda samkvæmt alþjóðalögum um kolefnisföngun og geymslu koldíoxíðs,
     c.      nauðsynjar þess að synja um aðgang í tilvikum þegar tækniforskriftir eru ósamrýmanlegar og erfitt er að bæta úr,
     d.      fjölda þeirra aðila sem óska eftir aðgangi.
    Rekstraraðila er einkum heimilt að synja um aðgang vegna skorts á rými, ef tækniforskriftir eru ósamrýmanlegar og í þeim tilvikum sem tenging er ekki til staðar og erfitt er að bæta úr. Synji rekstraraðili um aðgang að flutningskerfi og/eða geymslusvæði skal sú ákvörðun rökstudd.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. i laganna.
     a.      Í stað orðsins „niðurdælingarsvæði“ í 1. málsl. 1. mgr. og 3. mgr. kemur geymslusvæði.
     b.      2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Lausn deilumála vegna aðgangs að flutningskerfi og geymslusvæði.

12. gr.

    Orðin „eða steinrunnið“ í 2. mgr. 33. gr. j laganna falla brott.

13. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla A laganna verður: Geymsla koldíoxíðs í jörðu.

14. gr.

    Töluliður 6.9 í viðauka I við lögin orðast svo: Föngun koldíoxíðsstrauma frá atvinnurekstri sem falla undir lög þessi til geymslu í jörðu.

15. gr.

    Nýr töluliður bætist við viðauka II við lögin, svohljóðandi: Geymsla koldíoxíðs í jörðu.

II. KAFLI
Breyting á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.
16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. viðauka við lögin:
     a.      Orðið „varanlegrar“ í lið 3.09, 3.10 og 3.20 fellur brott.
     b.      Í stað orðsins „Niðurdælingarsvæði“ í lið 3.18 kemur: Geymslusvæði.

III. KAFLI
Breyting á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012.
17. gr.

    Í stað orðsins „niðurdælingu“ í 5. mgr. 21. gr. b laganna kemur: geymslu.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins vegna innleiðingar tilskipunar 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Ákvæði tilskipunarinnar voru innleidd að fullu með lögum nr. 12/2021 sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2021. Frá samþykkt laganna vorið 2021 hefur ráðuneytið unnið að gerð reglugerðar um frekari útfærslu á framkvæmd laganna í nánu samstarfi við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Meginþungi þeirrar vinnu hefur falist í að vinna að mótun og gerð sérstakra krafna er taka mið af Carbfix-aðferðinni, sem gengur út á steinrenningu koldíoxíðs í jarðlögum neðan jarðar en ekki geymslu þess í holrýmum neðan jarðar, enda er tilskipunin mótuð í kringum CCS-aðferðina (e. Carbon Capture and Storage) og þar með skýrari um kröfur sem gerðar eru til slíkra verkefna. Niðurstaða samtals stjórnvalda og ESA hefur leitt í ljós að ekki er neitt svigrúm við innleiðingu tilskipunarinnar þrátt fyrir að aðferð við steinrenningu koldíoxíðs sé frábrugðin þeirri aðferð sem lýst er í tilskipuninni. Er þar átt við þá útvíkkun orðalags og hugtaka sem lagt var upp með í lögum nr. 12/2021. Í lögunum er t.d. talað um niðurdælingu koldíoxíðs í stað geymslu þess. Það var gert að beiðni Carbfix ohf. sem hefur lagt áherslu á að í þeirri aðferð felist ekki geymsla, heldur steinrenni koldíoxíð með Carbfix-aðferðinni og að slíkt sé óafturkræft öfugt við það koldíoxíð sem komið er fyrir í geymslu með hinni hefðbundnu CCS-aðferð. Niðurdæling koldíoxíðs væri hins vegar það sem er sameiginlegt með báðum aðferðunum og því var ákveðið að skipta út orðinu „geymsla“ fyrir orðið „niðurdæling“ við innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi. Í lögunum má því finna orðin „niðurdælingarleyfi“ í stað „geymsluleyfis“, „niðurdælingarsvæði“ í stað „geymslusvæðis“ o.s.frv.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Umhverfisstofnun áttu fund með ESA í byrjun febrúar á þessu ári þar sem farið var yfir reglugerðardrögin. Eftir þann fund uppfærði ráðuneytið reglugerðardrögin og orðalagið var fært enn nær orðalagi tilskipunarinnar. Á þeim fundi var einnig ákveðið að ESA myndi funda með ESB til að ræða hvort það gengi upp að nota orðið „niðurdæling“ í stað „geymslu“ í skilningi tilskipunarinnar.
    Á fundi ráðuneytisins og ESA 21. mars sl. greindu fulltrúar ESA frá niðurstöðu fundar þeirra við ESB um framangreint atriði. Niðurstaða fundar milli ESB og ESA var sú að ekki gengi upp að nota orðið „niðurdæling“ í stað „geymslu“ við innleiðingu á tilskipuninni því það gæti leitt til misskilnings varðandi ýmsar aðrar kröfur sem settar eru fram í tilskipuninni. Jafnframt hafi verið tekið fram á fundi ESB og ESA að tilskipunin væri tæknilega hlutlaus.
Skrifstofa loftslagsmála ræddi niðurstöður ESA og ESB við Umhverfisstofnun. Ákveðið var að breyta orðalagi reglugerðardraganna í samræmi við orðalag tilskipunarinnar, þ.e. skipta út orðinu „niðurdæling“ fyrir „geymslu“. Sú breyting hefur í för með sér að einnig þarf að breyta orðalagi í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (VI. kafla A laganna), lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, og lögum um umhverfismat framkvæmda, nr. 111/2021, því þar er orðið „niðurdæling“ notað í þeim tilvikum þar sem í tilskipuninni er notað „geymsla“.
    Ráðuneytið hefur haldið fulltrúum Carbfix ohf. upplýstum um gang mála við gerð reglugerðarinnar og fundaði með þeim í lok mars um niðurstöður fundar ráðuneytisins og ESA varðandi hver hugtakanotkun reglugerðar og laga þurfi að vera.
    Skrifstofa loftslagsmála hefur í samráði við Umhverfisstofnun unnið að breytingu á orðalagi laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir (breyting sem inniheldur fyrrgreindar orðalagsbreytingar vegna innleiðingar tilskipunar 2009/31/EB). Breytingarnar sem um ræðir eru tæknilegs eðlis og eru í frumvarpi þessu settar fram í svokölluðum bandormi þar sem einnig þarf að breyta orðalagi í lögum um loftslagsmál og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
    Í 10. og 11. gr. frumvarpsins eru gerðar tillögur um breytingar á ákvæðum 33. gr. h og 33. gr. i laganna um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Í 10. gr. er lagt til að viðmiðanir sem áður voru í a–d-lið 33. gr. i verði færðar í 33. gr. h. Líkt og á við um önnur ákvæði frumvarpsins er þessi breyting lögð til í kjölfar samtals íslenskra stjórnvalda við ESA um innleiðingu tilskipunar 2009/31/EB þar sem m.a. kom fram að viðmiðanir um synjun aðgangs að flutningskerfi og/eða niðurdælingarsvæði þyrftu að vera í því ákvæði laganna sem fjallar um aðgang þriðju aðila að flutningskerfi og/eða niðurdælingarsvæði. Í ljósi þessa er framangreind breyting lögð til á 33. gr. h. Í 11. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 33. gr. i í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 10. gr.
    Í samræmi við afstöðu framkvæmdastjórnar ESB, sem hefur lagt áherslu á tæknilegt hlutleysi tilskipunarinnar við íslensk stjórnvöld, er lagt upp með tæknilegt hlutleysi íslenskrar löggjafar um geymslu koldíoxíðs. Lögð er áhersla á að frumvarpið verði að lögum á Alþingi á vorþingi þannig að innleiðing tilskipunarinnar verði rétt og samræmi verði á milli orðalags laganna og þeirrar reglugerðar sem er í vinnslu.