Ferill 590. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1117  —  590. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980 (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur og Þór G. Þórarinsson frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Hjört Örn Eysteinsson og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson frá NPA miðstöðinni svf., Katrínu Oddsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Söru S. Öldudóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Andra Val Ívarsson frá Bandalagi háskólamanna, Hrannar Má Gunnarsson frá BSRB, Önnu Guðrúnu Halldórsdóttur og Steinunni Bergmann frá Félagsráðgjafafélagi Íslands og Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Félagsráðgjafafélagi Íslands, NPA miðstöðinni svf., Öryrkjabandalagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Almennt.
    Með frumvarpinu er lagt til að í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, verði kveðið á um að í undantekningartilvikum verði heimilt með samningi milli þess sveitarfélags sem í hlut á og hlutaðeigandi umsýsluaðila að víkja frá almennum reglum laganna hvað varðar hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita þjónustu á grundvelli 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Í lögunum hefur verið í gildi bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið var á um heimild til að víkja frá ákvæðum 53. og 56. gr. laganna um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum þjónustu á grundvelli 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Þá er kveðið á um að víkja megi frá framangreindum ákvæðum þannig að vinnutími geti varað í allt að 48 klukkustundir að hámarki og hvíldartími verði styttri hjá viðkomandi starfsmönnum en ákvæðið geri ráð fyrir. Í þeim tilfellum skal við það miðað að starfsmennirnir fái eins fljótt og við verði komið samsvarandi hvíldartíma og kveðið sé á um í fyrrnefndu ákvæði en jafnframt að starfsmennirnir geti hvílst að lágmarki í sjö klukkustundir samfellt á næturvinnutíma sem fellur innan vinnutímans. Með frumvarpi þessu er framangreint bráðabirgðaákvæði lögfest með ákveðnum breytingum.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Meiri hlutinn fagnar lögfestingu framangreindrar undanþágu í ljósi þess að komin er töluverð reynsla á framkvæmd notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar síðan framangreint bráðabirgðaákvæði var fyrst sett í lög. Meiri hlutinn vill þó koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri.
    Meiri hlutinn bendir á að þrátt fyrir að undanþágan sé nú fest í lög er mikilvægt að fylgjast vel með því hvort rétt sé að breyta þeim reglum um vinnutíma starfsmanna sem veita þjónustuna sem hér eru lagðar til. Kannanir sem gerðar hafa verið meðal starfsmanna og notenda notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sýna fram á almenna ánægju en engu að síður telur meiri hlutinn mikilvægt að haldið verði áfram að skoða með hvaða hætti vinnutíma starfsmanna verði best háttað þar sem gætt verði sjónarmiða starfsmannanna sem og sjónarmiða þeirra sem fá umrædda þjónustu. Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að fyrir árslok 2025 skuli hefjast endurskoðun á þeim undanþágum frá almennum vinnutímareglum sem frumvarpið gerir ráð fyrir en meiri hlutinn bendir á að ekkert sé því til fyrirstöðu að sú endurskoðun hefjist fyrr ef kallað verður eftir því.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð þar sem nánar sé kveðið á um framkvæmdina þegar kemur að þeim vinnutíma sem frumvarpið heimilar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að slík reglugerð verði sett sem fyrst og að hana þurfi að endurskoða reglulega eftir þörfum og reynslu hlutaðeigandi aðila.
    Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á að á samningum um notendastýrða persónulega aðstoð sé hámark sem takmarkað geti aðgengi notenda að þjónustunni. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að það leiti leiða til að fjölga samningum svo að þeir einstaklingar sem þurfa á að halda fái þjónustu við hæfi.
    Meiri hlutinn vill sérstaklega koma því á framfæri að markmiðið með lögfestingu er að gera umgjörðina um vinnutíma starfsmanna sem sinna notendastýrðri persónulegri aðstoð skýrari og í því sambandi skuli leitast við að samræma þau sjónarmið sem vegast á eins vel og unnt er. Tryggja þarf réttindi starfsmanna á sama tíma og veitt er svigrúm til að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt með veitingu þjónustunnar. Frumvarpið varðar öryggi og réttindi starfsfólks í þeim tilvikum þegar vikið er frá þeim lágmarksreglum sem kveðið er á um í lögunum. Hér eru ekki bara hagsmunir starfsfólks í húfi heldur einnig hagsmunir notenda þjónustunnar enda ljóst að mistök í starfi sem rekja má til ófullnægjandi hvíldar starfsmanna kunna að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þá sem nýta sér þjónustuna. Einnig er öllum í hag að gæta að hagsmunum starfsmanna. Það getur leitt af sér minni starfsmannaveltu sem hlýtur að verða notendum þjónustunnar til góðs. Þá bendir meiri hlutinn á að ekkert sé því til fyrirstöðu að samtök aðila vinnumarkaðarins geti með kjarasamningum samið um útfærslu á vinnutíma starfsmanna sé það innan þeirra lágmarksskilyrða sem frumvarpið og, eftir atvikum, reglugerðin sem sett verður kveða á um.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 30. maí 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Oddný G. Harðardóttir.
Orri Páll Jóhannsson. Óli Björn Kárason.