Ferill 381. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1145  —  381. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðgerðir á ábyrgð ráðuneytisins gegn ofbeldi og afleiðingum þess.


     1.      Hvað hefur verið gert til að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem eru á ábyrgð ráðuneytisins í þingsályktun nr. 35/149, um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess? Svar óskast sundurliðað eftir aðgerðum og árum.
A.9. Vitundarvakning um einelti og ofbeldi á vinnustöðum.
Árið 2019.

    Gefin var út skýrslan Valdbeiting á vinnustað 1 sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sbr. forsetaúrskurð nr. 5/2022 um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti. Skýrslan varpar ljósi á algengi og eðli eineltis og kynferðislegrar- og kynbundinnar áreitni á íslenskum vinnumarkaði, auk þess að kanna viðbrögð stjórnenda við slíkri háttsemi. Kannað var hvort atvinnurekendur hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum sínum, þ.m.t. áætlun um forvarnir þar sem meðal annars komi fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi auk eineltis á vinnustöðum þeirra og til hvaða aðgerða skuli gripið ef slík hegðun á sér stað eða hafi átt sér stað á vinnustöðum þeirra eða ef þeir verða varir við slíkt á vinnustað sínum. Stjórnendur 326 fyrirtækja svöruðu könnuninni. Um 42% stjórnenda svöruðu því til að á vinnustaðnum hafi verið framkvæmt áhættumat sem tekur til alls vinnuumhverfisins og um 20% greindu frá því að áhættumat hafi verið gert sem tekur til hluta vinnuumhverfisins. Einungis um 7% sögðu að áhættumat hafi náð til sálfélagslegra þátta.

Árið 2020.
    Hrint var af stað verkefni sem miðar að því að upplýsa um heimilisofbeldi og mansal á vinnustöðum. Verkefninu er stýrt af Vörðu – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins í samstarfi við Félagsmálaskóla alþýðu, Samtök um kvennaathvarf, Jafnréttisstofu, Vinnueftirlitið og Neyðarlínuna. Um tvö verkefni er að ræða, annars vegar Heimilisofbeldi og vinnustaðir og hins vegar Mansal og vinnustaðir. Verið er að leggja lokahönd á gerð fræðsluefnis sem nýtt verður í trúnaðarmannafræðslu Félagsmálaskólans fyrir aðildarfélög ASÍ og BSRB, í fræðslu fyrir eftirlitsmenn og aðra starfsmenn Vinnueftirlitsins og verður auk þess aðgengilegt almenningi á vefgátt 112 um ofbeldi.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, og dómsmálaráðuneytið veittu Vörðu – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins 4 millj. kr. styrk til verkefnisins, sem var liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins.
Árið 2021.
    Vinnueftirlitið hefur síðastliðin ár lagt aukna áherslu á að atvinnurekendur tryggi starfsmönnum öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi, einkum þegar kemur að einelti og kynferðislegri áreitni og ofbeldi, og hefur í því skyni staðið fyrir fræðslu og gefið út fræðsluefni og leiðbeiningar fyrir stjórnendur.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, fól Vinnueftirlitinu framkvæmd aðgerðaáætlunar gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum 2 en áætlunin var unnin af aðgerðarhópi á vegum fyrrverandi félags- og barnamálaráðherra og afhent ráðherra í júní 2021. Aðgerðaáætlunin felur í sér sjö aðgerðatillögur sem miða einkum að því að auka aðgengi að fræðsluefni, miðla þekkingu og þróa stafrænar lausnir fyrir vinnustaði. Ein aðgerðatillagan kveður á um að árið 2023 verði framkvæmd sambærileg rannsókn og gerð var árið 2019 og greint var frá hér framar, þar sem rannsakað verði með ítarlegum hætti algengi og eðli kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði sem og stefna og viðbrögð stjórnenda við slíkri hegðun. Þannig verði hægt að sjá samanburð á milli ára á fjölda þeirra vinnustaða sem hafa gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal áætlanir um forvarnir, með sérstaka áherslu á sálfélagslegt vinnuumhverfi.
    Samningur félagsmálaráðuneytis, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, við Vinnueftirlitið um framkvæmd verkefnisins er til tveggja ára og er framlag ráðuneytisins alls 71,2 millj. kr.
    Vinnueftirlitið lét framkvæma könnun í mars sl. um þekkingu á og eftirfylgni vegna reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Könnunin var lögð fyrir stjórnendur sem valdir voru með tilviljunarúrtaki úr fyrirtækjaskrá og voru svarendur 1.027 talsins. Spurt var hvort fyrirtækið sem viðkomandi starfar hjá hafi sett sér viðbragðsáætlun gegn einhverju eða öllu af eftirfarandi: einelti, áreitni og/eða ofbeldi. Meiri hluti svarenda eða 64% svöruðu spurningunni játandi en 36% neitandi.

A.10. Fræðsla um úrræði fyrir þolendur ofbeldis um allt land.
    Í stað þess að vinna sérstakt fræðsluefni fyrir hvert landssvæði var ákveðið að lögð yrði áhersla á að fræða almenning um land allt í gegnum nýja vefgátt 112.is sem gegnir nú einnig því hlutverki að vera helsta upplýsingaveita landsins um ofbeldi. Vefurinn inniheldur upplýsingar um öll úrræði og þjónustu vegna hvers kyns ofbeldis um land allt og er aðgengilegur á þremur tungumálum: íslensku, ensku og pólsku.

Árið 2020.
    Farið var í frekari þróun á rafrænni vefgátt 112.is og efnt til almennrar vitundarvakningar undir yfirskriftinni „Segðu frá“ þar sem almenningur var hvattur til þess að tilkynna og leita aðstoðar hefði aðili orðið fyrir ofbeldi eða orðið vitni af ofbeldi. Vitundarvakningin miðaði sérstaklega að viðkvæmum hópum, þ.m.t. börnum, fólki af erlendum uppruna, öldruðum og fötluðu fólki. 112.is er nú orðin vel þekkt upplýsingaveita um allt sem tengist ofbeldi og þangað leita margir daglega eftir upplýsingum um ofbeldi og birtingarmyndir þess, fræðsluefni, upplýsingum um þjónustuúrræði o.s.frv.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, og dómsmálaráðuneytið veittu Neyðarlínunni samtals 44,5 millj. kr. til þróunar á vefgátt (25 millj. kr.) og til vitundarvakningar (19,5 millj. kr.).
    Birtingar á markaðsefninu „Þú átt von“, vitundarvakningu gegn heimilisofbeldi.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, og dómsmálaráðuneytið, veittu Jafnréttisstofu 2 millj. kr. styrk til verkefnisins.
    Styrkur til verkefnanna var liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að bregðast við áhrifum COVID-19-faraldursins.

A.11. Stofnun miðstöðvar um ofbeldi gegn börnum.
Árið 2019.
    Sett var á laggirnar upplýsingamiðastöð um ofbeldi gegn börnum, sem gengur nú undir nafninu Þekkingarmiðstöð ofbeldismála barna og er í umsjá Barna- og fjölskyldustofu. Ráðinn var starfsmaður til þess að sinna verkefninu. Í upphafi miðaði vinnan einkum að því að kanna hverskonar gögnum verið er að safna á vegum mismunandi aðila, hvaða gögn eru til, hvaða gögn skila sér inn á borð Barna- og fjölskyldustofu (áður Barnaverndarstofu) og hvar vantar þekkingu. Í kjölfarið hefur verið lögð áhersla á að reyna að samræma skráningar til að geta gert greiningar á málaflokknum aftur í tímann frá fleiri sjónarhornum en voru möguleg.
    Þekkingarmiðstöðin hefur komið að tveimur verkefnum þar sem annars vegar var unnið að því að útbúa mælistikur/mælaborð til mælinga á hvers kyns ofbeldi og hins vegar að undirbúningsvinnu vegna mælinga á stafrænu ofbeldi. Í kjölfarið var hafin óformleg gagnasöfnun á meðal barnaverndarnefnda á stafrænu ofbeldi til að átta sig á umfangi málaflokksins. Til að gæta áreiðanleika og réttmætis slíkra mælinga þarf að gæta þess að skráningar séu samræmdar þvert á allar nefndir. Því var leitast við að koma stafrænu ofbeldi formlega að inn í skilgreiningar- og flokkunarkerfi í Barnavernd eða hið minnsta formlega inn í gagnasöfnun. Þeirri vinnu er nú lokið og uppfært skilgreiningar- og flokkunarkerfi hefur verið sent öllum fulltrúum barnaverndarnefnda og er einnig að finna á heimasíðu Barna- og fjölskyldustofu.
    Framundan bíða stór verkefni sem sumum hverjum hefur þegar verið ýtt úr vör. Þar ber helst að nefna verkefnið sem hefur hlotið vinnuheitið „Faraldur í skugga faraldurs“ en unnið hefur verið að því að fá félagasamtök, háskólasamfélagið, ríkislögreglustjóra og fleiri aðila til samstarfs. Verkefnið samanstendur af eftirfarandi:
     *      Fyrirlestraröð þar sem haldin verða 3–4 erindi.
     *      Ritröð gefin út samhliða fyrirlestraröðinni.
     *      Hlaðvarp.
    Gert er ráð fyrir þremur fyrirlestrum þar sem haldin verða erindi sem öll tengjast viðfangsefni þess fyrirlesturs. Efnin sem tekin verða fyrir eru 1) ofbeldi gegn börnum (líkamlegt og/eða heimilisofbeldi, 2) kynferðisofbeldi, 3) börn foreldra með áfengis- og/eða fíkniefnavanda. Möguleiki er að bæta við fleiri fyrirlestrum. Miðstöðin heldur fyrsta erindi hvers fyrirlesturs, sem opnar fundinn, og þá taka við erindi á vegum mismunandi stofnana eða samtaka. Samhliða hverjum fyrirlestri verður gefið út rit eða skýrsla sem kemur til með að samanstanda af greinum, upplýsingum og samantektum um málefni er viðkoma börnum og tengjast efni hvers fyrirlesturs fyrir sig. Ætlunin með þessu verkefni er að vekja athygli á málefnum barna, með sérstakri áherslu á ofbeldi gegn börnum út frá vinklinum „heimsfaraldur“, þ.e. hvað hafi komið í ljós í COVID, hvað megi læra af COVID, hvað hafi komið á óvart, hvað hafi breyst eða ekki breyst o.s.frv. Ástæða þrískipts verkefnis (fyrirlestra, rita og hlaðvarps) er til að ná til mismunandi markhópa. Hver þessara miðla gefa tækifæri til að nálgast efnið á mismunandi hátt frá ólíkum vinklum.
    Önnur verkefni sem bíða miðstöðvarinnar er að taka saman töluleg gögn aftur í tímann til samanburðar við þau sem hafa borist síðastliðin tvö ár. Gert er ráð fyrir að slík greining verði kynnt á fyrirlestrarröðinni eða í sérstöku riti á vef Barna- og fjölskyldustofu.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, veitti Barnaverndarstofu 15 millj. kr. til verkefnisins.

C.1. Starfsemi Bjarkarhlíðar – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis fest í sessi.
Árið 2019.
    Rekstrargrundvöllur Bjarkarhlíðar var tryggður varanlega frá árinu 2019 með árlegu fjárframlagi frá stjórnvöldum, í framhaldi af samþykkt tillagna dómsmálaráðuneytisins um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins frá árinu 2017.
    Þá hefur félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, á gildistíma aðgerðaáætlunarinnar einnig lagt til árlegt fjármagn.
    Framlag stjórnvalda yfir tímabilið 2019–2022: 80 millj. kr.
    Viðbótarframlag frá félagsmálaráðuneytinu, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, yfir tímabilið 2019–2022: 60 millj. kr.
    Heildarframlag yfir tímabilið 2019–2022: 140 millj. kr.

C.2. Upplýsingavefur um ofbeldi.
Árið 2020.
    Ráðist var í að þróa og efla þjónustu Neyðarlínunnar og samhliða var vefurinn 112.is uppfærður. 112.is er nú sú gátt þar sem hægt er að tilkynna og leita aðstoðar vegna ofbeldis með því að fá samband við neyðarvörð, með netspjalli eða í gegnum 112 appið. Vefurinn gegnir einnig hlutverki upplýsingamiðlunar en þar er að finna margs konar efni um ofbeldi, þ.m.t. upplýsingar um þjónustu og úrræði á vegum opinberra aðila, félagasamtaka og einkaaðila. Þar er einnig að finna fræðsluefni um ofbeldi fyrir alla aldurshópa. Vefurinn er á þremur tungumálum: íslensku, ensku og pólsku.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, og dómsmálaráðuneytið veittu 25 millj. kr. styrk til verkefnisins sem var hluti af aðgerðum stjórnvalda til þess að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins (sbr. aðgerð A.10).

C.3. Stuðningur við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi.
Árin 2019 og 2020.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, og dómsmálaráðuneytið sameinuðust um rekstur Bjarmahlíðar til tveggja ára í tilraunaskyni.
    Framlag félagsmálaráðuneytis, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytis: 12 millj. kr.
    Framlag dómsmálaráðuneytis: 12 millj. kr.

Árið 2021 og 2022.
    Framlag félagsmálaráðuneytis, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytis: 12 millj. kr.
    Framlag dómsmálaráðuneytis: Framlag dómsmálaráðuneytisins felst í að tryggja aðkomu lögreglunnar á Norðurlandi eystra að verkefninu.
    Í fjárlögum fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir 7 millj. kr. til reksturs Bjarmahlíðar.
    Heildarframlag yfir tímabilið 2019–2022: 43 millj. kr.

C.4. Viðbragðsteymi um sérhæfða ráðgjöf til þolenda ofbeldis á landsbyggðinni.
    Aðgerðin hefur ekki komið til framkvæmda í þeirri mynd sem lagt var upp með. Á tímabili aðgerðaáætlunarinnar hafa hins vegar verið sett á fót ný úrræði eða viðbótarþjónusta, með fjárstuðningi frá ráðuneytunum, sem greiða eiga aðgengi að sérhæfðri þjónustu fyrir þolendur ofbeldis á landsbyggðinni:

Árið 2019.
    Bjarmahlíð, þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis, opnaði á Norðurlandi. Þjónustuþegar hafa á einum stað aðgengi að þjónustu samstarfsaðila, þ.m.t. félags- og lögfræðiráðgjöf, áfallameðferð, stuðningi og upplýsingagjöf frá lögreglu.
    Á árunum 2019–2022 hafa framlög félagsmálaráðuneytisins, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, til Bjarmahlíðar verið samtals 24 millj. kr.

Árið 2020.
    Samtök um kvennaathvarf opnuðu neyðarathvarf á Norðurlandi sumarið 2020.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, og dómsmálaráðuneytið veittu 1 millj. kr. til verkefnisins sem var hluti af aðgerðum stjórnvalda til þess að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins.

Árið 2021.
    Sigurhæðir, þjónustumiðstöð fyrir þolendur kynbundins ofbeldis, opnaði á Suðurlandi.
    Þjónustuþegar hafa aðgang að þjónustu samstarfsaðila, þ.m.t. félags- og lögfræðiráðgjöf, áfallameðferð, stuðningi og upplýsingagjöf frá lögreglu.
    Árið 2020 veittu félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, og dómsmálaráðuneytið 1,5 millj. kr. til undirbúnings verkefnisins sem var einn liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins.
    Árið 2021 veitti félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, 2 millj. kr. styrk til Sigurhæða.
    Í fjárlögum fyrir árið 2022 var gert ráð fyrir 6 millj. kr. til reksturs Sigurhæða.

Árið 2022.
    Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Akureyri:
    Aflið, sem hefur um árabil veitt þjónustu til þolenda ofbeldis á Norðurlandi, hefur útvíkkað starfsemi sína og býður nú einnig upp á þjónustu á Austurlandi.
    Árið 2022 gerði félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, þriggja ára þjónustusamning við Aflið, samtals 54 millj. kr. á árunum 2022–2024.
    Meðferð við áfallastreituröskun á rafrænu formi:
    Nú stendur yfir þróun vefútfærslu á hugrænni úrvinnslumeðferð við áföllum fyrir þolendur ofbeldis í samstarfi sálfræðiþjónustu geðþjónustu Landspítala, Miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis og Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu. Neyðarmóttakan og áfallamiðstöð LSH bjóða sálfræðiþjónustu fyrir þolendur kynferðisofbeldis og ofbeldis í nánum samböndum sem leita til spítalans. Mikil eftirspurn hefur verið eftir þjónustunni og er markmiðið með verkefninu að geta betur annað þeirri eftirspurn með því að bjóða skjólstæðingum upp á þann valmöguleika að nálgast meðferðina á rafrænan hátt, þegar það er talið henta viðkomandi.
    Árið 2020 veittu félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, og dómsmálaráðuneytið 12,2 millj. kr. til verkefnisins sem var liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins.

C.5. Tímabundið leyfi frá störfum í kjölfar ofbeldis.
    Aðgerðin er ekki komin til framkvæmda.

C.6. Stuðningur við svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi.
Árið 2022.
    Ríkislögreglustjóra var falin ábyrgð á aðgerðinni. Í lögreglulögum er ríkislögreglustjóra falið, skv. 5. gr. g-liðar, að annast viðfangsefni sem eðli máls samkvæmt eða aðstæðna vegna kalla á miðstýringu eða samhæfingu á landsvísu eða samstarf við lögreglu í öðru landi. Ríkislögreglustjóri óskaði formlega eftir því við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið að taka yfir ábyrgð á verkefninu með tilliti til þess að hafin var vinna á vegum embættisins við að byggja upp svæðisbundið samráð með lykilaðilum á hverju svæði.

C.7. Fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum.
Árið 2020.
    Starfshópur sem skipaður var af fyrrv. félags- og barnamálaráðherra skilaði tillögum um fjölbreyttari úrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum. 3 Starfshópnum var samkvæmt skipunarbréfi falið að kortleggja og skilgreina þjónustuþörf fyrir gerendur í ofbeldismálum og þá sem eru í hættu á að fremja ofbeldisbrot. Þá skyldi starfshópurinn einnig leggja fram tillögur um viðeigandi úrræði og jafnframt með hvaða hætti mætti efla forvarnir og fræðslu með það að markmiði að koma í veg fyrir ofbeldisbrot.
    Ríkislögreglustjóra var falið að leggja til og leiða aðgerðir sem miða að gerendum ofbeldis. Aðgerðirnar fela í sér a) innleiðingu áhættumatskerfis í málum sem varða ofbeldi í nánum samböndum, b) þróun og innleiðingu á áhættumatskerfi þar sem skilningur á kynferðisbrotum gegn börnum og aðstæðum er dreginn fram og mögulegar kveikjur brotanna, c) að þróaðar verði leiðir til að draga úr áhættu á frekari brotum og d) að bjóða upp á hvatningarsamtöl með geranda eða sakborningi af forvarnarteymi, óháð sakamálarannsókn.
    Veittur var 15 millj. kr. styrkur til verkefnisins sem var liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins.

Árið 2021.
    Ein af tillögum ofangreinds starfshóps var að sett yrði á laggirnar sértæk þjónusta fyrir einstaklinga sem vilja leita sér hjálpar í kjölfar brota eða telja sig vera í hættu á að beita ofbeldi, einkum einstaklinga með óviðeigandi kynferðislegar hugsanir og hegðun, svo sem barnagirnd, en einnig einstaklinga með aðra skaðlega ofbeldishegðun. Á árinu 2021 veitti félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, styrk til sérhæfðra meðferðaraðila til þess að koma á fót slíku úrræði, sem gengur undir nafninu Taktu skrefið.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, veitti 2 millj. kr. styrk til verkefnisins.

Árið 2022.
    Félagsmálaráðuneytið veitti Taktu skrefið styrk til þess að veita sérhæfða sálfræðimeðferð fyrir allt að 30 einstaklinga sem sýnt hafa skaðlega kynferðislega hegðun eða hafa áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni á netinu eða gagnvart öðrum. Verkefnið er tilraunaverkefni til eins árs.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, veitti 6 millj. kr. styrk til verkefnisins.

C.8. Hagsmunagæsla aldraðra þegar grunur er um að þeir séu beittir ofbeldi.
Árið 2021.
    Í stað þess að skipa sérstakan starfshóp var greiningardeild ríkislögreglustjóra falið að vinna skýrslu um ofbeldi gegn öldruðum. Skýrslan Ofbeldi gegn öldruðum á Íslandi 4 kom út á árinu 2021 en markmið hennar var að varpa ljósi á ofbeldi gegn öldruðum á Íslandi í þeim tilgangi að greiða fyrir stefnumörkun í málaflokknum. Í skýrslunni eru lagðar fram tillögur um það hvernig bæta megi verklagsreglur og viðbrögð við ofbeldi gegn öldruðum meðal þeirra starfsstétta sem koma að þjónustu við aldraða svo sem félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, lögreglu o.fl. Leitast verður eftir því að skýrslan verði höfð til hliðsjónar í þeirri vinnu sem framundan er þegar kemur að endurskoðun á þjónustu við eldra fólk.
    Til frekari upplýsinga má nefna að félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur skipað starfshóp um hagsmunafulltrúa eldra fólks í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögu hinn 13. júní 2021 þar sem kveðið er á um að stofnaður verði starfshópur hagsmunaaðila sem ásamt starfsfólki ráðuneytisins semji frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Í skipunarbréfi kemur fram að gæta þurfi hagsmuna og réttinda eldra fólks og bregðast við ef talið er að með athöfnum eða athafnaleysi sé verið að brjóta gegn réttindum, þörfum eða hagsmunum eldra fólks og að tryggja þurfi vernd gegn misnotkun og ofbeldi ásamt fullnægjandi viðbrögðum og ferlum við tilkynningum um slíkt. Í starfshópnum eru fulltrúar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alzheimersamtökunum og Landsambandi eldri borgara. Gert er ráð fyrir að tillögum verði skilað í september 2022.

C.9. Mat á þörf fyrir kvennaathvörf á landsbyggðinni.
Árið 2020.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, og dómsmálaráðuneytið veittu styrk til Samtaka um kvennaathvarf til stuðnings við að koma á laggirnar neyðarathvarfi fyrir konur og börn á Akureyri. Styrkurinn var liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins. Um var að ræða tilraunaverkefni til eins árs en að ári liðnu var ákveðið að halda áfram starfsemi athvarfsins um óákveðinn tíma en verkefnið er unnið í nánu samstarfi við lykilaðila á svæðinu á þessu sviði.
    Veittur var 2,5 millj. kr. styrkur til verkefnisins.

C.10. Samræmd velferðarþjónusta fyrir þolendur mansals fest í sessi.
Árið 2020.
    Bjarkarhlíð tók við umsjá framkvæmdateymis um mansalsmál, sem áður hafði verið leitt af félagsmálaráðuneytinu, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Um tilraunaverkefni er að ræða sem stendur til 1. júlí 2022.
    Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, hefur veitt Bjarkarhlíð samtals 6 millj. kr. til verkefnisins á árunum 2020 og 2021.
    Samhliða hefur verið farið í markvissa vitundarvakningu um mansal í samstarfi við Neyðarlínuna og fleiri hlutaðeigandi aðila. Inni á vef 112.is er nú að finna mikið fræðsluefni um mansal, birtingarmyndir og upplýsingar um úrræði. Þá hefur Neyðarlínan þróað sérstaka verkferla vegna mansalstilkynninga.

C.11. Leiðbeinandi reglur um velferðarþjónustu fyrir þolendur mansals.
    Ákveðið var að bíða með framkvæmd aðgerðarinnar þar til lokaskýrsla tilraunaverkefnis í Bjarkarhlíð, sbr. aðgerð C.10, liggur fyrir.

C.12. Árlegur landssamráðsfundur um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
    Ríkislögreglustjóra var falið að taka yfir ábyrgð verkefnisins. Gert ráð fyrir að fyrsti landssamráðfundurinn fari fram haustið 2022 og er undirbúningur þegar hafinn en við undirbúning hans verður haft samráð við stjórnvöld, stofnanir og aðra viðeigandi hagsmunaaðila.     Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið veitir ríkislögreglustjóra 1 millj. kr styrk til verkefnisins.

     2.      Hvaða fjármunum hefur verið varið til þeirra aðgerða? Svar óskast sundurliðað eftir aðgerðum og árum.
    Í svari við 1. tölul. koma fram þær fjárhæðir sem veitt hefur verið til aðgerða ásamt upplýsingum um hvaðan fjármagnið kom. Aðgerðaáætluninni fylgdi ekki sérstakt fjármagn og var það því á hendi hvers ráðuneytis að forgangsraða fjármagni innan sinna safnliða til aðgerða. Á tímabili aðgerðaáætlunarinnar hefur félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, veitt samtals 205,2 millj. kr. í framlög til aðgerða.

Framlög félagsmálaráðuneytisins, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, til aðgerða á árunum 2019–2022.

2019
A.11. Stofnun miðstöðvar um ofbeldi gegn börnum 15.000.000
C.1. Starfsemi Bjarkarhlíðar – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis 15.000.000
C.3. Stuðningur við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi 6.000.000
2020
C.1. Starfsemi Bjarkarhlíðar – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis 15.000.000
C.3. Stuðningur við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi 6.000.000
C.10. Samræmd velferðarþjónusta fyrir þolendur mansals fest í sessi 3.000.000
2021
C.1. Starfsemi Bjarkarhlíðar – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis 15.000.000
C.3. Stuðningur við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi 6.000.000
C.4. Viðbragðsteymi um sérhæfða ráðgjöf til þolenda ofbeldis á landsbyggðinni 2.000.000
C.7. Fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum 2.000.000
C.10. Samræmd velferðarþjónusta fyrir þolendur mansals fest í sessi 3.000.000
2022
A.9. Vitundarvakning um einelti og ofbeldi á vinnustöðum 71.200.000
C.1. Starfsemi Bjarkarhlíðar – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis 15.000.000
C.3. Stuðningur við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi 6.000.000
C.4. Viðbragðsteymi um sérhæfða ráðgjöf til þolenda ofbeldis á landsbyggðinni 18.000.000
C.7. Fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum 6.000.000
C.12. Árlegur landssamráðsfundur um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess 1.000.000
Samtals 205.200.000

Sérstakt aðgerðateymi gegn ofbeldi.
    Í upphafi heimsfaraldurs árið 2020 ákváðu stjórnvöld að grípa til markvissra aðgerða og vitundarvakningar gegn ofbeldi, einkum heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Þáverandi ráðherrar dóms- og félagsmála skipuðu sérstakt aðgerðateymi til að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi. Aðgerðateyminu var m.a. falið að fylgja eftir almennum aðgerðum er lúta að fræðslu, þjónustu og stuðningi vegna ofbeldis í samræmi við tillögur í þingsályktun um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019–2022 og jafnframt þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025.
    Á fjáraukalögum nr. 36/2020 var því ákveðið að ráðstafa 215 millj. kr. í aðgerðir gegn ofbeldi, þar af 145 millj. kr. í almennar aðgerðir og 70 millj. kr. í aðgerðir vegna ofbeldis gegn börnum. Félagsmálaráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, veitti auk þess 30 millj. kr. til verkefna vegna barna í viðkvæmri stöðu og til að vinna gegn stafrænu kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Auk þess hafa hinir ýmsu samstarfsaðilar komið með mótframlög inn í einstakar aðgerðir.
    Í svari við 1. tölul. er tilgreint sérstaklega hvenær um er að ræða framlag frá félagsmálaráðuneytinu, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, og hvenær um er að ræða framlag frá félags- og dómsmálaráðuneytunum, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu, vegna verkefna aðgerðateymisins.

     3.      Hver hafa verið helstu umfjöllunarefni árlegs landssamráðsfundar um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, sem skv. lið C.12 aðgerðaáætlunarinnar átti fyrst að halda haustið 2019?
    Ríkislögreglustjóra var falið að taka yfir ábyrgð verkefnisins. Gert er ráð fyrir að fyrsti landssamráðfundurinn fari fram haustið 2022 og er undirbúningur hafinn. Umfjöllunarefni fundarins er ekki staðfest en við undirbúning verður haft samráð við stjórnvöld, stofnanir og aðra viðeigandi hagsmunaaðila.

     4.      Hvenær var lokið ráðningu verkefnisstjóra skv. lið C.13 aðgerðaáætlunarinnar, hvar starfar hann og hversu hátt starfshlutfall er helgað eftirfylgni með aðgerðaáætluninni?
    Ekki var ráðinn sérstakur verkefnisstjóri til þess að fylgja aðgerðaáætluninni eftir en sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, hefur fylgt eftir framgangi verkefna hjá ábyrgðaraðilum.
    Sérfræðingurinn vann einnig náið með COVID-19 aðgerðateyminu gegn ofbeldi, sem falið var að líta til þessarar þingsályktunar við undirbúning aðgerða, og fylgir eftir öllum þeim verkefnum sem hrint var í framkvæmt yfir starfstíma aðgerðateymisins.

     5.      Hvað líður vinnu við endurskoðaða aðgerðaáætlun, sem skv. lið C.14 á að vinna í víðtæku samráði og leggja fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþingi 2022?
    Hlutaðeigandi ráðuneyti eru nú að fara yfir stöðu þeirra aðgerða sem heyra undir hvert og eitt ráðuneyti. Í framhaldinu munu ráðuneytin í sameiningu leggja mat á árangur aðgerðaáætlunarinnar og ákveða hvort talin sé þörf á að leggja fram endurskoðaða áætlun, einkum með tilliti til fjölda verkefna á þessu sviði sem stjórnvöld vinna að um þessar mundir. Má þar nefna:
     *      Eftirfylgd þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025. 5 Í aðgerðaáætlun er lögð megináhersla á að efla aldursmiðaða kennslu og forvarnir í leik-, grunn- og framhaldsskólum, í samvinnu við heilsugæslu, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar.
     *      Gerð landsáætlunar um innleiðingu Istanbúl-samningsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Skipaður hefur verið starfshópur um innleiðingu landsáætlunarinnar undir formennsku dómsmálaráðuneytisins. Aðrir fulltrúar koma frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, nú mennta- og barnamálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
     *      Starfshópur um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreiti. Hlutverk starfshópsins, sem skipaður var af dómsmálaráðherra og leiddur er af ríkislögreglustjóra, er að styðja við uppbyggingu á samstarfi lögreglu og samstarfsaðila gegn ofbeldi og afleiðingum þess, þar á meðal í formlegri þjónustu við þolendur kynferðisbrota. Starfshópurinn mun einnig standa fyrir almennri vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi í samfélaginu.
     *      Skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í átaksverkefni UN Women „Kynslóð jafnréttis“. 6 Íslensk stjórnvöld veita aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi forystu og hafa unnið að megináherslum þess og mótun skuldbindinga um aðgerðir og verkefni til næstu fimm ára. Skuldbindingarnar eiga hvort tveggja við um aðgerðir sem hafa að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi og kynferðislega áreitni og ofbeldi hér á landi sem og verkefni sem unnin verða fyrir tilstilli alþjóðasamstarfs og í þróunarsamvinnu.

1     www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Felagsmalaraduneytid/Valdbeiting%20%c3%a1%20vinnusta%c3%b0_%20-%20Copy%20(1).pdf
2     www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Felagsmalaraduneytid/Till%C3%B6gur%20a%C3%B0ger%C3%B0ah%C3%B3ps%20g egn%20einelti,%20kynfer%C3%B0islegri%20%C3%A1reitni,%20kynbundinni%20%C3%A1reitni%20og%20ofbeldi%20%C3%A1 %20vinnust%C3%B6%C3%B0um.X.pdf
3     www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Till%C3%B6gurnar%20um%20%C3%BArr%C3%A6%C3%B0i%20fyrir%20gerendur.pdf
4     www.logreglan.is/wp-content/uploads/2021/03/Ofbeldi-gegn-oldrudum.pdf
5     www.althingi.is/altext/150/s/1609.html
6     www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/FOR/Fylgiskjol-i-frett/GEF-Iceland.pdf