Ferill 643. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Nr. 37/150.

Þingskjal 1609  —  643. mál.


Þingsályktun

um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra að koma á skipulögðum forvörnum meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Forvarnir verði samþættar kennslu og skólastarfi á öllum skólastigum, á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðru tómstundastarfi. Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt eftirfarandi framtíðarsýn og stefnumótandi aðgerðaáætlun fyrir árin 2021–2025 og að taka skuli mið af markmiðum hennar við gerð fjárlaga og fjármálaáætlunar fyrir árin 2021–2025, sbr. lög um opinber fjármál, nr. 123/2015.

I. FRAMTÍÐARSÝN OG MEGINMARKMIÐ
    Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni á hvergi að eiga sér stað í íslensku samfélagi. Þessi samfélagslegi vandi verði upprættur með samstilltu átaki byggðu á djúpstæðum skilningi á eðli og afleiðingum kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni. Með forvörnum er leitast við að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og draga úr þeim skaða sem slík háttsemi veldur þolendum og aðstandendum þeirra. Forvarnir til framtíðar skulu einnig fela í sér markviss viðbrögð við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og hegðun sem ýtir undir slíkt. Markviss viðbrögð taki einnig til þeirra sem beita ofbeldi svo að þeir axli ábyrgð á gjörðum sínum. Slíkt hefur forvarnagildi í sjálfu sér.
    Auk þess að fyrirbyggja að börn og ungmenni verði fyrir kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni skal með forvörnum stuðlað að menningu virðingar og jafningjasamskipta þar sem ofbeldi og áreitni fær ekki þrifist. Börn og ungmenni eiga rétt á öruggu umhverfi í námi og tómstundum jafnt sem á heimili sínu og stjórnvöld skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja það. Aðgerðir ályktunar þessarar skulu ná til allra barna og ungmenna í landinu og því skal þeim komið í farveg í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Framkvæmd áætlunarinnar taki í hvívetna mið af ólíkum þörfum og aðstæðum kynjanna og mismunandi einstaklinga og hópa, svo sem fatlaðra barna og ungmenna, hinsegin barna og ungmenna og barna og ungmenna sem hafa annað móðurmál en íslensku.
    Alþingi ályktar að forvarnir skuli byggjast á markvissri kennslu á öllum skólastigum í samvinnu við heilsugæslu, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar. Kennsla grundvallist á gagnreyndri þekkingu sem hæfi aldri og þroska nemenda. Inntak kennslunnar verði að meginstefnu þríþætt:
     1.      Almennar forvarnir sem stuðli að sterkri sjálfsmynd og þekkingu á mörkum og markaleysi, þar á meðal í samskiptum kynjanna, samskiptum milli fullorðinna og barna og í öðrum tilfellum þar sem valdamisræmi kann að vera fyrir hendi.
     2.      Fræðsla um kynheilbrigði og kynhegðun, einkum í grunnskólum og framhaldsskólum.
     3.      Opinská umfjöllun um eðli og birtingarmyndir kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni.
    Sérstaklega verði tekið mið af stafrænum samskiptum og þeim breytingum sem hafa orðið – og kunna að verða – á birtingarmyndum kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni. Börn og ungmenni verði jafnframt upplýst um hvert þau geti leitað ef þau verða fyrir eða fá vitneskju um ofbeldi og áreitni. Jafnframt verði fræðslu beint að starfsfólki allra skólastiga sem tryggi þekkingu þeirra á fyrirbyggjandi aðgerðum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og viðbrögðum við hegðun og háttsemi sem ýtir undir slíkt. Forvarnir og fræðsla eigi sér einnig stað í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðrum tómstundum, þar á meðal listkennslu, og í tómstundastarfi og þjálfun sem er sérstaklega ætluð fötluðum börnum og ungmennum.
    Til framtíðar skal menntun fagstétta tryggja undirbúning starfsfólks sem starfar með börnum og ungmennum eða hefur samskipti við þau í störfum sínum til að mæta auknum kröfum um forvarnir, fræðslu og viðbrögð við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.

II. AÐGERÐAÁÆTLUN FYRIR ÁRIN 2021–2025
    Alþingi ályktar að í aðgerðaáætlun fyrir árin 2021–2025 verði lögð megináhersla á að efla aldursmiðaða kennslu og forvarnir í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, í samvinnu við heilsugæslu, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar. Til þess að draga úr kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og lágmarka skaðann af slíkri háttsemi skuli unnið í samræmi við eftirfarandi sex þætti sem greinast í aðgerðir:
     A.      Almennar aðgerðir.
     B.      Forvarnir í leikskólum.
     C.      Forvarnir í grunnskólum í samvinnu við heilsugæslu, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar.
     D.      Forvarnir í framhaldsskólum.
     E.      Forvarnir í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðru tómstundastarfi.
     F.      Eftirfylgni og mat á árangri.

A. Almennar aðgerðir.
A.1. Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Innan Sambands íslenskra sveitarfélaga starfi forvarnafulltrúi sem hafi það hlutverk að fylgja eftir aðgerðaáætlun þessari, svo sem nánar er tilgreint í einstökum aðgerðum. Fulltrúinn styðji við skólaskrifstofur sveitarfélaganna við miðlun fræðslu og forvarna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, bæði í leikskólum og grunnskólum, ásamt frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Fulltrúinn miðli einnig þekkingu og fræðslu til grunnskóla og leikskóla sem ekki heyra undir skólaskrifstofur sveitarfélaga, þar á meðal sjálfstæðra skóla. Fulltrúinn hafi jafnframt það hlutverk gagnvart framhaldsskólum að miðla þekkingu og styðja framhaldsskóla við að efla kennslu og forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Þá safni forvarnafulltrúinn gögnum um árangur einstakra aðgerða.
          Mælikvarði: Forvarnafulltrúi hafi tekið til starfa á árinu 2021.
          Kostnaðaráætlun: 16 millj. kr. á ársgrundvelli, þar af eru 12–14 millj. kr. vegna launakostnaðar og annað vegna ferðakostnaðar.
          Ábyrgðaraðili: Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Jafnréttisstofa, embætti landlæknis, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, Barnaverndarstofa, Menntamálastofnun, skólaskrifstofur sveitarfélaga, umboðsmaður barna, fagfélög skólastjórnenda, kennarar og Grunnur – félag fræðslustjóra.

A.2. Skólaskrifstofur sveitarfélaga.
    Skólaskrifstofur sveitarfélaga, með stuðningi frá forvarnafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, miðli þekkingu og veiti leikskólum og grunnskólum, ásamt frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, stuðning til að tryggja að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði samþættar skólastarfi, einkum í kennslu, og að starfsfólk hljóti fræðslu. Skólaskrifstofurnar tryggi að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði markviss þáttur í skólastefnu sveitarfélaga og í forvarnastefnu hvers skóla um sig. Skólaskrifstofurnar haldi utan um tölfræðiupplýsingar um fræðslu í sínu umdæmi og miðli upplýsingum um árangur til forvarnafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga.
          Mælikvarði: Allar skólaskrifstofur hafi miðlað þekkingu til leik- og grunnskóla á sínu svæði í lok árs 2024.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Skólaskrifstofur.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, leik- og grunnskólar, Barnaverndarstofa og félagsþjónusta sveitarfélaga.

A.3. Ritstjóri hjá Menntamálastofnun.
    Innan Menntamálastofnunar starfi ritstjóri/verkefnisstjóri í a.m.k. hálfu starfi sem hafi það hlutverk að byggja upp þekkingu á námsefnisgerð sem styðji forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, þar á meðal gerð námsefnis í jafnréttis- og kynjafræðum. Verkefnisstjórinn skal fylgja eftir þeim verkefnum sem Menntamálastofnun eru falin samkvæmt aðgerðaáætlun þessari. Verkefnisstjórinn skal tryggja að nýtt námsefni sé unnið í samráði við fræðafólk og frjáls félagasamtök til að tryggja að stuðst sé við faglega þekkingu og reynslu af því að beina fræðslu til barna og ungmenna. Verkefnisstjórinn starfi á meðan áætlunin er í gildi en stöðugildið verði endurskoðað í næstu aðgerðaáætlun með tilliti til árangurs af starfinu.
          Mælikvarði: Ritstjóri/verkefnisstjóri hafi tekið til starfa á árinu 2021.
          Kostnaðaráætlun: 6 millj. kr. á ársgrundvelli vegna launa- og starfsmannakostnaðar.
          Ábyrgðaraðili: Menntamálastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og menningarmálaráðuneyti, forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Barnaverndarstofa (Barnahús), Jafnréttisstofa, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, háskólar og frjáls félagasamtök.

A.4. Netnámskeið fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum.
    Útbúið verði gagnvirkt netnámskeið með grunnfræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum. Efnistök byggist á efni sem hefur verið unnið í tengslum við námskeiðið Verndum þau en höfundar þess eru sérfræðingar í Barnahúsi. Námskeiðið verði í fjórum útgáfum með eftirfarandi markhópa í huga: 1) leikskóla, 2) yngri bekki grunnskóla ásamt frístundaheimilum, 3) eldri bekki grunnskóla ásamt félagsmiðstöðvum og 4) framhaldsskóla. Þá verði útbúið viðbótarefni sem beinist sérstaklega að fagaðilum sem starfa með fötluðum börnum og ungmennum. Byggt verði á netnámskeiði í barnavernd sem útbúið var fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þó verði lögð megináhersla á eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni. Námskeiðið verði hannað með þeim hætti að stjórnendur geti fylgst með að starfsfólk hafi lokið námskeiðinu og að Barnaverndarstofa fái sjálfkrafa upplýsingar um heildarfjölda þeirra sem taka námskeiðið.
          Mælikvarði: Netnámskeið verði tilbúin árið 2022.
          Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr. á árinu 2021, 4 millj. kr. á árinu 2022 og 0,5 millj. kr. á árunum 2023–2025 til að tryggja eftirfylgni.
          Ábyrgðaraðili: Barnaverndarstofa (Barnahús).
          Dæmi um samstarfsaðila: Umboðsmaður barna, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Æskulýðsvettvangurinn, Menntamálastofnun, Jafnréttisstofa, Barnaheill, Stígamót, Þroskahjálp/Átak – félag fólks með þroskahömlun, réttindagæslumaður fatlaðs fólks, Tabú, Fjölmenningarsetur og Samtökin '78.

A.5. Aðgengi að námsefni og fræðsluefni.
    Náms- og fræðsluefni sem styður við forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni í leik-, grunn- og framhaldsskólum verði aðgengilegt á einum stað og merkt sérstaklega í leitarbrunni á vefsvæði Menntamálastofnunar. Menntamálastofnun setji fram faglegar kröfur sem slíkt efni þarf að uppfylla til að hægt sé að hýsa það á vefsvæði stofnunarinnar. Lögð verði áhersla á að efnið byggist á gagnreyndum aðferðum.
          Mælikvarði: Náms- og fræðsluefni sem styður við forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði merkt sérstaklega í leitarbrunni á vefsvæði Menntamálastofnunar árið 2021.
          Kostnaðaráætlun: 1,5 millj. kr. vegna vinnu við vef.
          Ábyrgðaraðili: Menntamálastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Barnaverndarstofa, Jafnréttisstofa, forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, embætti landlæknis og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

A.6. Mat á áhrifum aðgengis barna og ungmenna að klámi.
    Framkvæmt verði mat á áhrifum stafræns aðgengis barna og ungmenna að klámi á heilsu þeirra og líðan. Matið verði notað til að gera tillögur að aðgerðum sem stuðla að kynheilbrigði ungs fólks.
          Mælikvarði: Mat hafi verið framkvæmt og niðurstöður liggi fyrir við árslok 2021.
          Kostnaðaráætlun: 3 millj. kr. á árinu 2021.
          Ábyrgðaraðili: Heilbrigðisráðuneyti.
          Dæmi um samstarfsaðila: Félagsmálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, Jafnréttisstofa, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, embætti landlæknis, SAFT, Samtökin '78 og Stígamót.

A.7. Fræðsluátak um kynferðislega friðhelgi.
    Ráðist verði í fræðsluátak um kynferðislega friðhelgi, einkum um eðli og afleiðingar stafræns kynferðisofbeldis, samhliða aukinni kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Líta skal til þeirra breytinga sem hafa orðið á birtingarmyndum kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni með tilkomu stafrænnar tækni og einnig refsiákvæða laga hvað varðar slík brot.
          Mælikvarði: Fræðsluátak hafi verið gert fyrir árslok 2024.
          Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. árið 2023 og 1 millj. kr. árið 2024.
          Ábyrgðaraðili: Jafnréttisstofa.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, SAFT, Kvenréttindafélag Íslands og Barnaverndarstofa.

B. Forvarnir í leikskólum.
B.1. Fræðsla starfsfólks.
    Starfsfólk leikskóla hljóti fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og forvarnir sem hæfa leikskólabörnum. Leikskólastjórar, með stuðningi frá skólaskrifstofum sveitarfélaga eftir því sem við á, beri ábyrgð á fræðslunni. Tryggt verði að allt starfsfólk hljóti lágmarksfræðslu á netnámskeiði, sbr. aðgerð A.4. Skólaskrifstofur bjóði upp á frekari fræðslu og umræðu innan umdæmis síns og stjórnendur leikskóla nýti annað fræðsluefni til að tryggja viðunandi þekkingu og þjálfun starfsfólks.
          Mælikvarði: 90% starfsfólks hafi lokið netnámskeiði fyrir lok árs 2025.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Leikskólastjórar.
          Dæmi um samstarfsaðila: Skólaskrifstofur, forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félag stjórnenda leikskóla, Barnaverndarstofa og frjáls félagasamtök.

B.2. Þróun námsefnis fyrir leikskóla.
    Tryggt verði að leikskólar hafi aðgang að vönduðu námsefni sem stuðli að forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og henti leikskólabörnum á öllum aldri, sbr. grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá leikskóla. Farið verði heildstætt yfir kennslu- og fræðsluefni sem til er og það uppfært og endurútgefið eftir því sem við á. Þá verði þróað nýtt, gagnvirkt efni sem hæfi aldri og þroska nemenda, sbr. þingsályktun nr. 35/149, um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Efnið verði byggt á gagnreyndri þekkingu og þekkingu á leikskólastarfi og sérstöðu leikskólastigsins. Sérstaklega verði tekið tillit til ólíkra þarfa og aðstæðna kynjanna og mismunandi einstaklinga og hópa, svo sem fatlaðra barna, hinsegin barna og barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Þá verði tryggt að námsefnið taki mið af notkun barna á stafrænni tækni. Efninu fylgi greinargóðar leiðbeiningar til starfsfólks leikskóla um notkun þess. Námsefnið verði aðgengilegt á vef Menntamálastofnunar og verði öllum opið og frjálst til notkunar.
          Mælikvarði: Nýtt námsefni fyrir leikskóla verði tilbúið fyrir árslok 2022.
          Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. á árinu 2021 og 3 millj. kr. á árinu 2022.
          Ábyrgðaraðili: Barnaverndarstofa/Barnahús.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Menntamálastofnun, Jafnréttisstofa, verkefni Reykjavíkurborgar Opinskátt um ofbeldi, verkefnið Fræðsla, ekki hræðsla, Þroskahjálp, Tabú og Fjölmenningarsetur.

B.3. Velferð og öryggi barna í leikskólum.
    Handbók um velferð og öryggi barna í leikskólum verði uppfærð með tilliti til forvarna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Við uppfærsluna verði litið til varúðarráðstafana sem draga úr hættu á að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni eigi sér stað innan veggja leikskóla eða í tengslum við leikskólastarf, þar á meðal í ferðum á vegum leikskóla. Sérstaklega verði hugað að þörfum og aðstæðum jaðarsettra hópa, svo sem fatlaðra barna og barna sem hafa annað móðurmál en íslensku.
          Mælikvarði: Handbókin hafi verið uppfærð árið 2025.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
          Dæmi um samstarfsaðila: Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, embætti landlæknis, Barnaverndarstofa, Þroskahjálp og Tabú.

B.4. Forvarnir í heilsugæslu.
    Þekking starfsfólks í heilsugæslu í ung- og smábarnavernd á merkjum um ofbeldi verði aukin. Í því skyni verði netnámskeið fyrir starfsfólk leikskóla nýtt, sbr. aðgerð A.4. Samhliða verði því fylgt eftir að fræðsluefni um ofbeldi sé kynnt fyrir foreldrum í fjögurra ára skoðun.
          Mælikvarði: 90% starfsfólks í ung- og smábarnavernd hafi lokið netnámskeiði og fræðsluefni um ofbeldi sé kynnt fyrir öllum foreldrum í fjögurra ára skoðun.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
          Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, Barnaverndarstofa, embætti landlæknis og Barnaheill.

C. Forvarnir í grunnskólum í samvinnu við heilsugæslu, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar.
C.1. Forvarnateymi grunnskóla.
    Í hverjum grunnskóla starfi teymi sem hafi það hlutverk að tryggja kennslu í öllum árgöngum um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem hæfir aldri og þroska nemenda. Teymið verði kennurum og öðru starfsfólki til stuðnings og ráðgjafar varðandi fræðslu og umræðu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og sjái einnig um að tryggja viðunandi þekkingu og þjálfun starfsfólks. Teymið leitist jafnframt við að tryggja samhæfð viðbrögð starfsfólks með tilliti til ólíkra hópa og ólíkra einstaklinga í tilfellum þar sem börn reyna að greina frá ofbeldi og áreitni. Sérstaklega verði horft eftir merkjum um slíkt í tengslum við umfjöllun sem tengist forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Hvert teymi verði skipað með eftirfarandi hætti, þó eftir því sem við á innan hvers skóla: stjórnandi, kennari með þekkingu á málaflokknum, skólahjúkrunarfræðingur, skólasálfræðingur, þroskaþjálfi/sérkennari eða annar aðili sem ber ábyrgð á sérkennslu, námsráðgjafi, tengiliður við frístundaheimili og/eða tengiliður við félagsmiðstöð og tengiliður við félagsþjónustu. Teymið verði jafnframt tengiliður við skólaskrifstofur sem sjái um að miðla þekkingu og fræðslu. Skólaskrifstofur fylgi því eftir að innan hvers skóla verði starfrækt slíkt teymi.
          Mælikvarði: Teymi verði starfrækt í hverjum grunnskóla fyrir árslok 2021.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Skólastjórar grunnskóla og skólaskrifstofur sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og heilsugæslan.
C.2. Fræðsla starfsfólks.
    Starfsfólk grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva hljóti fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og forvarnir sem hæfa grunnskólabörnum. Forvarnateymi, með stuðningi frá skólaskrifstofum sveitarfélaga eftir því sem við á, beri ábyrgð á fræðslunni. Tryggt verði að allt starfsfólk hljóti lágmarksfræðslu á netnámskeiði, sbr. aðgerð A.4. Skólaskrifstofur bjóði upp á frekari fræðslu og umræðu innan umdæmis síns og stjórnendur grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva nýti annað faglegt og gagnreynt fræðsluefni til að tryggja viðunandi þekkingu og þjálfun starfsfólks.
          Mælikvarði: 90% starfsfólks í grunnskóla hafi lokið netnámskeiði, sbr. aðgerð A.4, í lok árs 2025.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Forvarnateymi grunnskóla.
          Dæmi um samstarfsaðila: Skólaskrifstofur, forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélag Íslands, Menntamálastofnun og frjáls félagasamtök.

C.3. Þróun og gerð námsefnis fyrir grunnskóla.
    Tryggt verði að grunnskólar hafi aðgang að vönduðu námsefni sem stuðli að forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og henti grunnskólabörnum á öllum aldri, sbr. grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Farið verði heildstætt yfir það náms- og fræðsluefni sem til er og það uppfært og endurútgefið eftir því sem við á. Þá verði nýtt gagnvirkt efni þróað sem byggist á gagnreyndri þekkingu og hæfi aldri og þroska nemenda og taki mið af notkun barna á stafrænni tækni. Við námsefnisgerð verði tekið tillit til ólíkra þarfa og aðstæðna kynjanna og mismunandi einstaklinga og hópa, svo sem fatlaðra barna, hinsegin barna og barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Einkum verði lögð áhersla á námsefni sem fjallar með beinum og opinskáum hætti um eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni. Jafnframt verði útbúið vandað námsefni um kynheilbrigði og kynhegðun, sbr. þingsályktun nr. 35/149, um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Efninu fylgi greinargóðar leiðbeiningar til kennara og annars starfsfólks um notkun þess. Námsefnið verði aðgengilegt á vef Menntamálastofnunar og verði öllum opið og frjálst til notkunar.
          Mælikvarði: Námsefni fyrir öll skólastig grunnskóla verði tilbúið fyrir árslok 2023.
          Kostnaðaráætlun: 3 millj. kr. árið 2021, 3 millj. kr. árið 2022 og 2 millj. kr. árið 2023. Fjármagnið fer í höfundalaun, myndefni, prentun, kennsluleiðbeiningar, vefefni og hljóðbók.
          Ábyrgðaraðili: Menntamálastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Barnaverndarstofa, Jafnréttisstofa, umboðsmaður barna, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, verkefni Reykjavíkurborgar Opinskátt um ofbeldi, embætti landlæknis, Barnaheill, Stígamót, Tabú, Fjölmenningarsetur, Samtökin '78 og Þroskahjálp.

C.4. Þróun fræðsluefnis heilsugæslunnar.
    Samhliða aðgerð C.3 verði farið heildstætt yfir fræðsluefni sem nýtt er af skólahjúkrunarfræðingum og stuðlar að forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Efnið verði uppfært eftir því sem við á og þróað nýtt fræðsluefni sem lýtur einkum að samskiptum, kynheilbrigði og kynhegðun, með hliðsjón af notkun barna og unglinga á stafrænni tækni. Tekið verði tillit til ólíkra þarfa og aðstæðna kynjanna og mismunandi einstaklinga og hópa, svo sem fatlaðra barna, hinsegin barna og barna sem hafa annað móðurmál en íslensku.
          Mælikvarði: Fræðsluefni skólahjúkrunarfræðinga hafi verið uppfært og nýtt efni þróað fyrir árslok 2021.
          Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. árið 2021.
          Ábyrgðaraðili: Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
          Dæmi um samstarfsaðila: Menntamálastofnun, forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Barnaverndarstofa, Jafnréttisstofa, verkefni Reykjavíkurborgar Opinskátt um ofbeldi, embætti landlæknis, Þroskahjálp, Tabú og önnur frjáls félagasamtök.

C.5. Forvarnir í félagsmiðstöðvum.
    Fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni verði beint til unglinga í gegnum félagsmiðstöðvar. Stígamótum verði falið að halda áfram fræðslu til starfsfólks félagsmiðstöðva sem fram hefur farið í tengslum við átakið Sjúk ást. Þannig verði fest í sessi það fyrirkomulag að unglingar sem sækja árlegt ball Samfés þurfi fyrst að fá fræðslu í félagsmiðstöð sinni. Skoðað verði hvernig megi styðja með frekari hætti forvarnastarf í félagsmiðstöðvum, einkum það sem beinist að því að þjálfa starfsfólk félagsmiðstöðva í að fjalla um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni, svo sem með Ofbeldisforvarnaskólanum.
          Mælikvarði: Allir unglingar sem sækja árlegt ball Samfés hljóti fræðslu Sjúkrar ástar í félagsmiðstöð sinni.
          Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. á ársgrundvelli árin 2021–2025.
          Ábyrgðaraðili: Stígamót.
          Dæmi um samstarfsaðila: Samfés, Ofbeldisforvarnaskólinn, verkefni Reykjavíkurborgar Opinskátt um ofbeldi, Háskóli Íslands (tómstunda- og félagsmálafræði), Samtökin '78, Fjölmenningarsetur, Tabú og forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

D. Forvarnir í framhaldsskólum.
D.1. Forvarnir í tengslum við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli.
    Virkjað verði net tengiliða verkefnisins Heilsueflandi framhaldsskóli í skólum en meðal áhersluþátta heilsueflandi viðmiða eru jafnrétti, kynheilbrigði og öryggi. Tengiliðir, ásamt námsráðgjöfum, fái fræðslu og verkfæri til að stuðla að virkum forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni sem beinist einkum að nemendum, í samhengi við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli. Einnig verði hvatt til að hver skóli helgi ákveðinn tíma á skólaárinu umfjöllun um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni.
          Mælikvarði: Allir tengiliðir verkefnisins Heilsueflandi framhaldsskóli og námsráðgjafar fái upplýsingar sem stuðli að virkum forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Embætti landlæknis.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofa, Skólameistarafélag Íslands, umboðsmaður barna og heilsugæslan.

D.2. Fræðsla starfsfólks.
    Starfsfólk framhaldsskóla hljóti fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og forvarnir sem hæfa framhaldsskólanemum. Skólastjórnendur beri ábyrgð á fræðslunni með stuðningi frá forvarnafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og í samstarfi við tengilið við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli og námsráðgjafa. Tryggt verði að allt starfsfólk hljóti lágmarksfræðslu á netnámskeiði, sbr. aðgerð A.4. Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga bjóði upp á frekari fræðslu og umræðu og stjórnendur framhaldsskóla nýti annað fræðsluefni til að tryggja viðunandi þekkingu og þjálfun starfsfólks.
          Mælikvarði: 90% kennara og starfsfólks framhaldsskóla hafi lokið netnámskeiði fyrir lok árs 2025.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Skólameistarar framhaldsskóla.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Skólameistarafélag Íslands, tengiliður við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli, Barnaverndarstofa og frjáls félagasamtök.

D.3. Þróun námsefnis fyrir framhaldsskóla.
    Tryggt verði að framhaldsskólar hafi aðgang að vönduðu námsefni sem stuðli að forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og henti framhaldsskólanemendum á öllum aldri, sbr. grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Farið verði heildstætt yfir náms- og fræðsluefni sem til er og mælt verði með uppfærslu og endurútgáfu þar sem það á við. Þá verði þróað nýtt gagnvirkt efni sem byggist á gagnreyndri þekkingu og hæfi aldri og þroska nemenda og taki mið af notkun framhaldsskólanema á stafrænni tækni. Sérstaklega verði tekið tillit til ólíkra þarfa og aðstæðna kynjanna og mismunandi einstaklinga og hópa, svo sem fatlaðra, hinsegin fólks og þeirra sem hafa annað móðurmál en íslensku. Einkum verði lögð áhersla á námsefni sem fjalli með beinum og opinskáum hætti um eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni. Jafnframt verði útbúið vandað námsefni um kynheilbrigði og kynhegðun, sbr. þingsályktun nr. 35/149, um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Efninu fylgi greinargóðar leiðbeiningar til kennara og annars starfsfólks um notkun þess. Námsefnið verði aðgengilegt á vefsvæði Menntamálastofnunar og verði öllum opið og frjálst til notkunar.
          Mælikvarði: Nýtt námsefni fyrir framhaldsskóla verði tilbúið fyrir árslok 2022.
          Kostnaðaráætlun: 3 millj. kr. árlega árin 2021 og 2022.
          Ábyrgðaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
          Dæmi um samstarfsaðila: Menntamálastofnun, forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Barnaverndarstofa, Félag framhaldsskólakennara, Jafnréttisstofa, Stígamót, Þroskahjálp og Tabú.

D.4. Námsefni fyrir starfsbrautir.
    Þróað verði gagnvirkt námsefni um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni fyrir nemendur starfsbrauta. Efnið taki mið af námsefni fyrir framhaldsskóla, sbr. aðgerð D.3, en verði hannað sérstaklega með tilliti til þarfa nemenda á starfsbrautum og innihaldi greinargóðar kennsluleiðbeiningar. Efnið verði kynnt öllum framhaldsskólum sem halda úti námi á starfsbrautum og það einnig vistað á vefsvæði Menntamálastofnunar.
          Mælikvarði: Nýtt námsefni fyrir nemendur á starfsbrautum verði tilbúið fyrir árslok 2023.
          Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. á árinu 2023.
          Ábyrgðaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Barnaverndarstofa, Félag framhaldsskólakennara, Jafnréttisstofa, Félag starfsbrautakennara, réttindagæslumaður fatlaðs fólks, Átak – félag fólks með þroskahömlun, Þroskahjálp og Tabú.
D.5. Efling kynjafræðikennslu.
    Staðið verði að kynningarátaki um gildi kynjafræðikennslu í framhaldsskólum og þar á meðal um gildi þess að gera kynjafræði að skyldufagi, sbr. 23. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Samhliða verði námsefni um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og um kynheilbrigði og kynhegðun kynnt fyrir framhaldsskólakennurum, sbr. aðgerð D.3.
          Mælikvarði: Kynningarátak um gildi kynjafræðikennslu í framhaldsskólum hafi átt sér stað á árinu 2022.
          Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. á árinu 2022.
          Ábyrgðaraðili: Jafnréttisstofa.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Skólameistarafélag Íslands, Samband íslenskra framhaldsskólanema, menntavísindasvið háskólanna og embætti landlæknis.

E. Forvarnir í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðru tómstundastarfi.
E.1. Fræðsla starfsfólks.
    Starfsfólk og sjálfboðaliðar íþrótta- og æskulýðsstarfs og annars tómstundastarfs hljóti fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og forvarnir sem hæfi iðkendum og öðrum þátttakendum. Stjórnendur íþrótta- og æskulýðsfélaga og annarra tómstundafélaga og listkennslu beri ábyrgð á fræðslunni. Tryggt verði að allt starfsfólk og sjálfboðaliðar hljóti lágmarksfræðslu á netnámskeiði um barnavernd sem hannað var fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf. Jafnframt verði hvatt til þess að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafélög, auk listaskóla, nýti sér annað faglegt og gagnreynt fræðsluefni til að tryggja þekkingu og þjálfun starfsfólks.
          Mælikvarði: 90% starfsfólks og sjálfboðaliða hafi lokið netnámskeiði um barnavernd fyrir árslok 2025.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Stjórnendur íþrótta- og æskulýðsfélaga og annarra tómstundafélaga og listkennslu.
          Dæmi um samstarfsaðila: Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsfélaga, Barnaverndarstofa, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, UMFÍ, Æskulýðsvettvangurinn og fagfélög listgreinakennara.

E.2. Fræðsla fagaðila, sjálfboðaliða og annarra sem starfa með fötluðum börnum og ungmennum.
    Fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni verði beint sérstaklega að fagaðilum, sjálfboðaliðum og öðrum sem starfa með fötluðum börnum og ungmennum, þar á meðal innan heilbrigðiskerfisins, íþróttafélaga, í ferðaþjónustu fatlaðs fólks og á heimilum og í skammtímadvöl fyrir fötluð börn og ungmenni. Sérstaklega verði fræðslu beint til sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa, íþróttaþjálfara og sjálfboðaliða og til starfsfólks á skammtímadvalarheimilum fyrir fötluð börn. Stjórnendur félaga og stofnana, með stuðningi frá forvarnafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, beri ábyrgð á fræðslunni. Tryggt verði að allt starfsfólk hljóti lágmarksfræðslu á netnámskeiði, sbr. aðgerð A.4, með áherslu á viðeigandi aldurshóp og viðbótarfræðslu sem fjalli með ítarlegri hætti um eðli og afleiðingar ofbeldis og áreitni gegn fötluðum börnum.
          Mælikvarði: 90% fagaðila, sjálfboðaliða og annarra sem starfa með fötluðum börnum og ungmennum innan skipulagðra félaga eða stofnana hafi lokið netnámskeiði fyrir lok árs 2025.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Stjórnendur félaga og stofnana.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Tabú, Æfingastöðin, Íþróttasamband fatlaðra, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Barnaverndarstofa.

F. Eftirfylgni og mat á árangri.
F.1. Vöktun upplýsinga.
    Fylgst verði með niðurstöðum kannana sem mæla umfang kynferðislegs ofbeldis og áreitni gegn börnum og ungmennum, svo sem frá Rannsóknum & greiningu. Upplýsingarnar verði nýttar til að varpa ljósi á árangur af þessari áætlun. Auk þess verði horft eftir vísbendingum um fjölda barna og ungmenna sem greina frá slíku ofbeldi og sérstaklega skal leitast við að greina tíðni og eðli ofbeldis og áreitni sem beinist að fötluðum börnum og ungmennum. Haft verði í huga að tölur geta hækkað með aukinni meðvitund um ofbeldi.
          Mælikvarði: Árlega verði greindar upplýsingar sem varpa ljósi á umfang ofbeldis og áreitni og fjölda barna og ungmenna sem greina frá slíku.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Barnaverndarstofa (Miðstöð um ofbeldi gegn börnum).
          Dæmi um samstarfsaðila: Rannsóknir & greining, félagsþjónustan, heilsugæslan, forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, embætti landlæknis og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

F.2. Mat á árangri einstakra aðgerða.
    Árlega verði gerð samantekt yfir stöðu á öllum mælikvörðum sem fram koma í ályktun þessari og hún kynnt samhæfingarhópi, sbr. aðgerð F.3, ásamt yfirliti yfir störf forvarnafulltrúa. Forvarnafulltrúi skili einnig heildstæðri samantekt til forsætisráðuneytis í tengslum við mótun nýrrar aðgerðaáætlunar fyrir árin 2026–2030. Tekið verði mið af áætlun þessari við gerð stefnumarkandi landsáætlunar um framfylgd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins) frá 2011.
          Mælikvarði: Árlegt yfirlit yfir alla mælikvarða og störf forvarnafulltrúa kynnt fyrir samhæfingarhópi.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og allir ábyrgðaraðilar fyrir einstakar aðgerðir.

F.3. Eftirfylgni og ábyrgð á framkvæmd.
    Forsætisráðuneyti beri ábyrgð á samhæfingu vegna framkvæmdar þessarar áætlunar og eftirfylgni hennar. Ráðuneytið og forvarnafulltrúinn vinni í sameiningu drög að nýrri aðgerðaáætlun fyrir árin 2026–2030. Forsætisráðuneytið kalli saman alla aðila sem bera meginábyrgð á aðgerðum samkvæmt áætluninni, þar sem því verður við komið, a.m.k. einu sinni á ári og oftar ef þurfa þykir. Sá hópur verði forvarnafulltrúanum til stuðnings og ráðgjafar og leggi mat á árangur aðgerðaáætlunarinnar. Þá fái hópurinn tillögu að nýrri aðgerðaáætlun til umsagnar.
          Mælikvarði: Að aðgerðaáætlunin sé komin að fullu til framkvæmda í lok árs 2025.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgðaraðili: Forsætisráðuneyti.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og ábyrgðaraðilar fyrir einstakar aðgerðir.

III. ENDURSKOÐUN AÐGERÐAÁÆTLUNARINNAR
    Forsætisráðherra leggi aðgerðaáætlun fyrir árin 2026–2030 fyrir Alþingi eigi síðar en á löggjafarþingi 2024–2025. Sú áætlun verði unnin af forsætisráðuneytinu í samstarfi við forvarnafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og í samráði við heilbrigðisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti og eftir atvikum aðra sem bera ábyrgð á framkvæmd einstakra aðgerða. Áætlunin verði unnin í samræmi við markmið þessarar þingsályktunar og skal byggð á eftirfylgni þeirrar aðgerðaáætlunar sem hér er kveðið á um.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2020.