Ferill 640. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1218  —  640. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um áhrif breytts öryggisumhverfis.


     1.      Hafa áherslur í utanríkismálum tekið breytingum sl. áratug vegna breytts öryggisumhverfis og örrar tækniþróunar, m.a. með hliðsjón af fjölþáttaógnum, og ef svo er, hvernig?
    Áherslur í utanríkismálum hafa tekið breytingum í takt við breytt öryggisumhverfi, bæði í Evrópu og á alþjóðavísu. Öryggisumhverfi Evrópu breyttist við ólögmæta innlimun Rússlands á Krímskaga 2014, en innrás Rússlands í Úkraínu fyrr á árinu olli vatnaskilum. Á heimsvísu hafa áhrif ólýðræðislegra stjórnvalda aukist, auk þess sem aðilar og fylkingar sem eru óháðar ríkjum hafa víða mikil ítök. Átök, sér í lagi í Afríku og í Austurlöndum nær, hafa haft skelfilegar afleiðingar fyrir íbúa þar og leitt til gríðarlegs fjölda flóttafólks og fólks á vergangi. Á tímabilinu hafa hryðjuverk enn fremur færst í aukana þótt dauðsföllum af völdum þeirra hafi fækkað lítillega en nær helmingur dauðsfalla vegna hryðjuverka á sér stað í Afríku sunnan Sahara.
    Vægi norræns samstarf, samstarfs við bandalagsríki og líkt þenkjandi lýðræðisríki hefur aukist til samræmis við þessa þróun og áhersla verið lögð á að viðhalda alþjóðakerfi sem byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum og mannréttindum samhliða áherslu á öflugt öryggis- og varnarsamstarf af ýmsum toga. Í þessu svari verður hins vegar einblínt á þann þátt sem snýr að fjölþáttaógnum þar sem fyrirspurnin víkur að þeim sérstaklega.
    Fjölþáttaógnir, netógnir og netárásir af hálfu alræðisríkja hafa aukist mjög síðustu ár og orðið sífellt alvarlegri. Fjölþáttaógnum, þ.m.t. netógnum og -árásum, hefur verið og er markvisst beitt til að ná strategískum, pólitískum, efnahagslegum og/eða hernaðarlegum markmiðum. Ísland er ekki ónæmt fyrir fjölþáttaógnum og netárásum og þættir sem áður fyrr töldust náttúrulegar varnir, svo sem landfræðileg lega, einangrun og tungumál veita ekki lengur sambærilega vörn.
    Mikilvægi aukins viðnámsþols ríkja gagnvart fjölþáttaógnum skipar sífellt veigameiri sess í umræðum um öryggis- og varnarmál á alþjóðavettvangi sem og innan ríkja. Fjölþáttaógnir og -aðgerðir virða hvorki landamæri, skil á milli stofnana innan ríkja né mörk hins opinbera og einkageirans. Þær geta verið margháttaðar og eru hannaðar á þann veg að auðvelt er að neita sök og erfitt er að draga aðila til ábyrgðar. Það máir mörkin enn frekar að ríki hafa beitt fyrir sig málaliðum eða aðilum ótengdum ríkjum (e. proxy) til að ná fram markmiðum sínum og að framkvæma aðgerðir sem ekki teljast jafngilda vopnaðri árás gegn öðrum ríkjum. Í þessu skyni er hakkarahópum til dæmis beitt til netárása, tröllaverksmiðjum (e. trollfarms eða botnets) til að hafa áhrif á opinbera umræðu eða grafa undan trausti almennings, og stefnumiðuðum efnahagsaðgerðum, á borð við fjárfestingar í mikilvægum samfélagssviðum, til að hafa áhrif á svigrúm stjórnvalda til stefnumótunar og ákvarðanatöku. Þannig geta ríki haft áhrif á önnur ríki, án beinnar aðkomu og án þess að hægt sé draga þau til ábyrgðar. Breytt öryggisumhverfi hefur áhrif á Ísland og kallar á aukna árvekni á fleiri sviðum en áður hefur þekkst og krefst víðtæks samráðs og samhæfingar innan stjórnsýslunnar og á alþjóðavettvangi.
    Allt frá árinu 2017 hefur utanríkisráðuneytið lagt áherslu á að gæta árvekni vegna mögulegra áhættuþátta fjölþáttaógna, þ.m.t. vegna erlendra fjárfestinga í lykilinnviðum, fjarskipta- og netöryggismála og upplýsingaóreiðu. Þá hefur ráðuneytið lagt ríka áherslu á þekkingaruppbyggingu og þverfaglegt samstarf í málaflokknum innan ráðuneytisins sem og innan stjórnsýslunnar og í alþjóðasamstarfi.
    Ísland tekur þátt í alþjóðasamstarfi og samtali um málefni fjölþáttaógna m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins, á samstarfsvettvangi Norðurlandanna (N5 og NORDEFCO), Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) og í tvíhliða samstarfi.

     2.      Hefur skipulag ráðuneytisins tekið breytingum sl. áratug vegna breytts öryggisumhverfis og ef svo er, hvernig?
    Í ljósi vaxandi mikilvægis málaflokksins var sett á fót deild fjölþáttaógna innan öryggis- og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins í nóvember 2020. Markmið hennar er að tryggja hagsmuni landsins í síbreytilegu öryggisumhverfi nútímans. Deildin leiðir starf ráðuneytisins á sviði fjölþáttaógna, sinnir upplýsingaúrvinnslu, gerð hættumats og áætlana. Auk þess dregur hún saman og byggir upp þekkingu á fjölþáttaógnum og annast samstarf við hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir innanlands, sem og á alþjóðavettvangi.

     3.      Hefur alþjóðlegt samstarf sem Ísland tekur þátt í tekið breytingum sl. áratug vegna breytts öryggisumhverfis og ef svo er, hvernig?
    Það samstarf sem Ísland á aðild að á vettvangi alþjóðastofnana, líkt og Atlantshafsbandalagsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og Sameinuðu þjóðanna, hefur tekið breytingum. Þróun í samskiptatækni, nýrrar tækni, hugbúnaðar og hlutanetsins gera það að verkum að ríki geta beitt fleiri aðferðum en hernaðarlegum til að ná fram strategískum markmiðum. Sömuleiðis hefur mikið af nýrri tækni tvíþætt notagildi, þ.e. getur nýst hvort sem er til hernaðar eða almennrar notkunar. Þetta gerir að verkum að tækni sem almennir borgarar nota, getur orðið skotspónn fjölþáttahernaðar, með beinum eða óbeinum hætti. Alþjóðastofnanir hafa tekið málefnin upp og lagt til ákveðin viðmið eða skuldbindingar, sem ríki hafa á einn eða annan hátt samþykkt að gangast undir, m.a. til að efla varnir sínar og mæta skuldbindingum sínum. Fyrir margar alþjóðastofnanir, sem hafa nálgast öryggi og varnir á hefðbundnum forsendum, hefur áskorunin verið að halda í við hraða þróun nýrrar tækni og aðferðafræði fjölþáttaógna.
    Notkun og þróun upplýsinga- og fjarskiptatækni, auk nýrrar tækni getur fylgt bæði tækifæri og áhættur. Umræður um regluverk og hvaða reglur og viðmið eigi að gilda um notkun upplýsinga- og fjarskiptatækni og hvernig megi tryggja að hún verði notuð á uppbyggilegan og friðsamlegan hátt hafa verið fyrirferðarmiklar en engir alþjóðasáttmálar eru fyrir hendi. Í slíkum umræðum má greina ákveðin skil milli líkt þenkjandi lýðræðisríkja, sem leggja áherslu á mikilvægi alþjóðalaga og lýðræðislegra viðmiða, og annarra ríkja sem vilja stýra þróun á þann hátt að hún styðji fremur við nálgun þeirra, sem oft þrengir að réttindum. Í ljósi breytts öryggisumhverfis og örrar þróunar er töluverð áhersla lögð á upplýsingaskipti, svo sem um góðar starfsvenjur, lærdóm af fenginni reynslu og þróun lagasetningar tengdri fjölþáttaógnum, sem víða er enn í mótun eða þarf að aðlaga breyttu öryggisumhverfi. Þá hefur einnig verið lögð áhersla á aukna þátttöku hlutaðeigandi, oft tæknilegra, sérfræðinga í starfi alþjóðastofnana. Þannig eiga sérfræðingar frá netöryggissveitum ríkja víða í formlegu og óformlegu samstarfi um netöryggi. Þá hefur Ísland lagt áherslu á að taka frumkvæði í þessum málaflokki, m.a. með aukinni þátttöku í faglegu starfi um fjölþáttaógnir, svo sem innan Atlantshafsbandalagsins, í svæðisbundnu samstarfi og með virkri þátttöku í starfi Evrópska öndvegissetursins um fjölþáttaógnir í Helsinki og öndvegissetri Atlantshafsbandalagsins um netvarnir í Tallin.

     4.      Hefur innlent samstarf, m.a. innan stjórnsýslunnar, tekið breytingum sl. áratug vegna breytts öryggisumhverfis og ef svo er, hvernig?
    Fjöldi aðila kemur að stefnumótun, rekstri og viðhaldi grunninnviða landsins, sem kallar á víðtækt samstarf þvert á stjórnsýslustig, hið opinbera og einkageirann. Breytt öryggisumhverfi kallar á aukið samráð og samhæfingu þvert á stjórnsýsluna, ráðuneyti og stofnanir en einnig á milli opinbera geirans og einkageirans, en aðkoma hans og hlutverk í öryggisumhverfi dagsins í dag hefur vaxið töluvert. Það á sér fleiri skýringar, t.d. má nefna hlutverk fyrirtækja í þróun og rekstri tækni, innviða og þjónustu sem nauðsynleg eru til að tryggja daglegan rekstur og nauðsynlegar varnir samfélagsins. Samstarf ráðuneyta, stofnana og, eftir atvikum, annarra hlutaðeigandi aðila hefur aukist. Fjölþáttaógnir eru þess eðlis að áhrif þeirra, sem og viðbrögð við þeim, eru sjaldan afmörkuð við eitt ákveðið svið samfélagsins og kalla því á samhæfingu fleiri aðila.
    Utanríkisráðuneytið hefur gert samstarfssamninga við netöryggissveit Fjarskiptastofu (CERT-IS) og embætti Ríkislögreglustjóra í því skyni að auka samráð, samhæfingu og samstarf milli stofnananna, sér í lagi að því er varðar málefni sem snúa að fjölþátta- og netógnum og vörnum gegn þeim.

     5.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir auknum vörnum gegn fjölþáttaógnum, þ.m.t. netógnum, og ef svo er, þá hvernig?
    Utanríkisráðuneytið mun hér eftir sem hingað til leggja höfuðáherslu á að efla varnir gegn fjölþáttaógnum, þ.m.t. netógnum, í samræmi við umboð sitt og lögbundið hlutverk og vísast í þeim efnum til forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta, þar sem kveðið er á um að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn varnarmála og mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi, til laga um utanríkisþjónustu Íslands nr. 39/1971 og varnarmálalaga nr. 34/2008.