Ferill 513. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1220  —  513. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fjármálaáætlun sú sem hér um ræðir er fyrsta fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar. Tilgangur slíkrar áætlunar er að útskýra nákvæmlega hvernig eigi að framkvæma og fjármagna loforð ríkisstjórnarinnar eins og þau birtast í stjórnarsáttmála. Yfirlýsingar formanna ríkisstjórnarflokkanna virðast þó hafa skolast til í raunverulegri útfærslu því að ljóst er af lestri áætlunarinnar að pólitísk stefnumótun hefur vikið fyrir framreikningi í fjármálaráðuneyti. Að lestri loknum situr eftir ákveðin tómleikatilfinning þegar ljóst er að landið er á eins konar sjálfstýringu, þó með mikilvægum, og í sumum tilvikum ógnvænlegum, undantekningum fyrir þau okkar sem teljum hlutverk ríkisins að stuðla að samstöðu í samfélagi okkar, að skapa þá tilfinningu að við séum öll í þessu saman.
    Kerfislægur vöxtur skýrir nær allar breytingar í þessari fjármálaáætlun. Ríkisstjórnin treystir sér ekki einu sinni til að útfæra aðhaldsaðgerðir á tímabilinu. Að sumu leyti kemur það ekki á óvart enda eru margir þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin sé mynduð um stöðnun fremur en stöðugleika. Íslensk þjóð stendur frammi fyrir stórum verkefnum og breyttri heimsmynd. Eftirköst heimsfaraldurs, mesta verðbólga í 12 ár, brotinn húsnæðismarkaður, stríð í Evrópu. Og ríkisstjórnin leggur fram fjármálaáætlun sem felur í sér einfaldan framreikning. Þau virðast búa í öðrum veruleika en meiri hluti þjóðarinnar. Að minnsta kosti er svigrúm til aðgerða svo takmarkað að þau geta ekki einu sinni framfylgt sínum eigin hugmyndum um hvernig bæta megi samfélagið sem þau eiga að veita forystu.
    Hvernig stendur á þessari pattstöðu sem ríkisstjórnin hefur komið íslensku samfélagi í? Ríkisstjórnin stærir sig af því í fjármálaáætlun að stærsti einstaki útgjaldaliðurinn á tímabilinu sem hún tekur til sé félags- og tryggingamál, en þangað renna 26 milljarðar kr. aukalega á tímabilinu. Ríkisstjórnin kemur sér hins vegar hjá því að upplýsa um það að öll sú aukning kemur til vegna kerfislægs vaxtar. Hér á sér engin pólitísk stefnumótun stað, hér er kerfið ekki lagað að þörfum fólksins í landinu. Skjalið er einfaldlega uppfært miðað við forsendur um öldrun þjóðarinnar og nýgengi örorku. Um er að ræða 26 milljarða kr. sem bætast við útgjöld ríkissjóðs á tímabili áætlunarinnar til að standa straum af kostnaði sem leiðir af núgildandi lögum um almannatryggingar. Í aukningunni felst engin tilraun til að bæta kerfið og þjónustuna.
    Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við sjáum slíka talnaleikfimi frá ríkisstjórninni. Alþingi samþykkti nú í maí mótvægisaðgerðir fyrir heimilin í landinu vegna verðbólgu. Það voru aðgerðir sem 2. minni hluti hafði kallað eftir í fjóra mánuði. Hver aðgerðapakkinn á fætur öðrum var lagður fram og samþykktur í nágrannalöndum okkar vegna verðhækkana en ríkisstjórn Íslands taldi ekki þörf á slíkum aðgerðum hér. Þegar verðbólga var skriðin yfir 7% var ákveðið í skyndi að móta aðgerðir sem þurfti að flýta gegnum þingið á örfáum dögum. Þegar upphæðir í tengslum við mótvægisaðgerðirnar voru nefndar var sérstaklega tekinn fram kostnaður við hækkun almannatrygginga um 3%, eða um 5,5 milljarða kr. Staðreyndin er sú að slík hækkun er alls ekki mótvægisaðgerð. Bundið er í lög að verja skuli þann hóp sem þiggur greiðslur frá almannatryggingum fyrir verðbólgu. Í 69. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, stendur skýrum stöfum að tryggja eigi að upphæðir í almannatryggingakerfinu fylgi launaþróun eða verðbólgu ef hún er hærri.
    Það er því ekkert sértækt, sérstakt eða fréttnæmt við það að fara að lögum og virða réttindi fólks í velferðarsamfélagi. Í ofanálag eru mótvægisaðgerðirnar ekki fjármagnaðar. Ríkisstjórnin ætlar að nýta varasjóði í fjármálaráðuneyti til að fjármagna mótvægisaðgerðirnar þrátt fyrir að vitað sé að núverandi fjárlög séu sprungin vegna verðbólgu og nýrra kostnaðarliða.

Tengingin við velferðarsamfélagið er að rofna og ábyrgðin er stjórnvalda.
    Ríkisstjórnin boðaði endurskoðun á mikilvægum þáttum velferðarkerfisins í stjórnarsáttmála í vetur. Þar kom fram að afkoma ellilífeyrisþega yrði áfram bætt og sérstaklega litið til þeirra sem lakast stæðu. Enn fremur stóð þar að málefni örorkulífeyrisþega yrðu tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu og að sérstaklega yrði horft til þess að bæta afkomu.
    Ekkert slíkt verður þó gert ef marka má fjármálaáætlun. Engar fjárheimildir eru fyrir slíku hér. Allt tal um að breytingarnar muni bæði bæta kjör fólks og auka hagræði í kerfinu og þess vegna þurfi ekki aukið fjármagn á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Vissulega geta uppstokkun og breytingar falið í sér aukna virkni meðal eldra fólks. Betri nýting endurhæfingarúrræða getur dregið úr örorku og aukinn aðgangur að heilbrigðisþjónustu sömuleiðis. En slíkt „hagræði“ út frá óskilgreindri uppstokkun birtist ekki á fimm ára tímabili. Við verðum að horfast í augu við það sem samfélag að rýrnun innviða, bæði efnislegra og óefnislegra, undanfarinn áratug hefur orðið til þess að mikil uppsöfnuð skuld hefur skapast. Íslenska ríkið er fast í viðjum stöðnunar sem það mun ekki komast úr hjálparlaust.
    Við þurfum að sameinast um það að rjúfa þessa kyrrstöðu. Sameining og samstaða meðal þjóðar hagnast lítið á samvinnu stjórnmálaflokka ef sú samvinna elur af sér pólitískar ákvarðanir sem stía fólki í sundur í stað þess að höfða til samfélagskenndar fólks. Raunveruleg forysta á tímum sem þessum felur í sér ákall til fólks um að við stöndum saman um það að endurstilla velferðarkerfi okkar.
    Þar komum við að því sem er að stjórnmálum okkar daga, þeim stjórnmálum sem ríkisstjórnir undanfarinn áratug hafa stundað og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur heldur á lífi. Fyrst og fremst skortir kjark til að taka alvöruákvarðanir um að styrkja velferðarkerfi okkar með langtímasýn að leiðarljósi. Takmarkaður vilji er til að horfast í augu við það að til skamms tíma muni slíkar aðgerðir kosta okkur meira en sem nemur sparnaðinum. Mikilvægara er samt að við erum hætt að tala um hver tilgangurinn með þessu öllu saman er, um það á hverju tilvist hins opinbera byggist.
    Markmið stjórnvalda á ekki að vera að ná jafnvægi í ríkisfjármálum eins og heyrist svo víða, og nú þvert á ríkisstjórnarflokkana. Markmið stjórnvalda á að vera að þjónusta íbúa landsins og vernda samfélagið. Hvernig við náum því markmiði með hætti sem er sjálfbær og stuðlar að efnahagslegu jafnvægi snýr að tækjum og tólum; gjöldum og skattlagningu. Rökin með velferðarríkinu á síðustu öld snerust fyrst og fremst um samstöðu, um hvað við skuldum hvert öðru sem borgarar í þessu samfélagi. Í seinni tíð hefur rökræða um umfang og stöðu velferðarríkisins snúist í meiri mæli um að hve miklu leyti þeir sem lifa við skort eða erfiðleika í daglegu lífi bera á ábyrgð á eigin stöðu, að hve miklu leyti aðstæður þeirra eru sjálfskapaðar og hvert umfang aðstoðar hins opinbera eigi að vera fyrir þá hópa. Á Íslandi birtist þetta til að mynda í þeirri þróun að barnabætur eru orðnar að fátæktarbótum, ólíkt því sem þekkist á Norðurlöndum þar sem allir fá greitt með hverju barni. Þar, en ekki hér, er hugmyndin að styrkja þá tilfinningu að samfélagið komi til aðstoðar, í samræmi við það sem stundum er sagt: „Heilt þorp þarf til að ala upp barn.“ Skattheimta tekur þar mið af ólíkri fjárhagslegri stöðu fólks og þannig er stuðlað að auknum jöfnuði. Ekki með því að einangra einstaklinga frá framlögum hins opinbera ef viðkomandi er tekjuhár, heldur með því að skapa virka tengingu við velferðarríkið.
    Við Íslendingar munum sitja föst í spennitreyju kerfislægs vaxtar á næstu árum og áratugum og missa tökin á útgjöldum ríkissjóðs ef stjórnarfarið breytist ekki. Og það sem meira er, og alvarlegra, þetta kjarkleysi er til þess fallið að grafa undan trú almennings á virði og gildi velferðarsamfélagsins því að fólk hættir að sjá ástæðuna fyrir því að greiða í sameiginlega sjóði ef það upplifir að þjónustan sem það fær í staðinn sé ófullnægjandi. Það gleymir á hverju tilvist hins opinbera byggist. Tengingin við velferðarsamfélagið og samtrygginguna rofnar. Þetta er grafalvarlegt mál.
    Vantrú fólks á velferðarkerfi okkar og samtryggingunni eykst enn frekar þegar það mætir innistæðulausri orðræðu ríkisstjórnarinnar um að raunverulegar umbætur hafi átt sér stað í velferðarkerfinu eða séu í farvatninu, þrátt fyrir að fjármálaáætlun sýni svart á hvítu að lítið eigi að gera. Það stefnir alls ekki í nýtt og betra jafnvægi við þetta stjórnarfar.
    Þessi málflutningur, þar sem siglt er undir fölsku velferðarflaggi, er stórhættulegur. Hann rýrir trú fólksins í landinu á getu samfélagsins til að hlúa að því sem skiptir máli, sem er aðgengi að grunnþjónustu sem tryggir að þörfum fólks sé sinnt. Fólk glatar trúnni og hólfar sig af í stað þess að horfa í kringum sig. Brestir myndast í samfélaginu.
    En það eru aðrar mjög haldbærar ástæður fyrir því að hendur ríkisstjórnarinnar eru bundnar. Hér hefur ekki ríkt algjör stöðnun í aðgerðum ríkisins. Þróun undanfarinn áratug hefur verið hápólitísk og það hefur ekki verið vegna afskiptaleysis. Ráðist hefur verið í risastórar aðgerðir sem hafa grafið undan getu ríkissjóðs til að sinna grundvallarhlutverki sínu í samfélaginu. Tekjuhlið ríkissjóðs er brostin.

Alið á sundrungu í stað samstöðu.
    Útgjaldaþróun næstu ára er ekki ástæða þess að kerfislægur halli verður á ríkissjóði kjörtímabilið á enda samkvæmt fjármálaáætlun. Sá halli hefur ekkert með heimsfaraldur og einskiptisaðgerðir að gera heldur söfnum við skuldum vegna þess að þeir flokkar sem hafa verið við völd undanfarinn áratug hafa fjarlægt tugi milljarða króna úr ríkissjóði á hverju ári. Það hafa þeir gert með almennum skattalækkunum, lækkun gjalda og sértækum skattalækkunum án þess að litið hafi verið til annarra úrræða á tekjuhliðinni til að styrkja tekjustoðirnar. Verkalýðshreyfingin hefur bent á þetta í áraraðir en nú er svo komið að meira að segja fjármálaráð veitir þessari stöðu sérstaka athygli í nýjustu umsögn sinni um fjármálaáætlun. Ástæða þess að víða vantar fjármagn til að sinna grunnþörfum samfélagsins, og styrkja okkur, er ekki almenn óráðsía ríkissjóðs heldur hápólitísk ákvarðanataka um að veikja getu ríkisins til að veita grunnþjónustu.
    Þessi vegferð hófst með stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins fyrir tæpum áratug og Vinstri græn slógust í þá för árið 2017.
    Við stöndum á tímamótum í íslensku samfélagi. Undirliggjandi vanfjármögnunarstefna gagnvart velferðarkerfinu og tekjufall ríkissjóðs vegna pólitískra ákvarðana undanfarin ár er nú farin að vega verulega að grundvallarstofnunum hér á landi. Þeir brestir sem birst hafa í velferðarkerfinu upp á síðkastið eru afleiðing þessa; smám saman er grafið undan kerfinu þar til það gefur sig einn daginn. Þetta má sjá í heilbrigðiskerfinu þar sem starfsfólk sligast undan álagi og erfitt reynist að manna stöður vegna álags og slæmra kjara.
    Skammsýnin sem felst í þessu stjórnarfari dregur úr tækifærum fólks í öllu samfélaginu og grefur undan tekjugrunni okkar. Virkni einstaklinga byggist á því að fólk hafi heilsu til að taka þátt í vinnumarkaði og samfélagi. Nýgengi örorku hér á landi er mest meðal kvenna sem eru eldri en 55 ára. Í samfélagi þar sem grunnur tekjusköpunar er velferð fólks í landinu ætti það að vera forgangsatriði við stjórn velferðarmála að koma í veg fyrir að konur hverfi af vinnumarkaði mörgum árum fyrr en skyldi vegna örmögnunar. Sama á við um unga fólkið okkar sem hefur ekki aðgang að ásættanlegri geðheilbrigðisþjónustu vegna ákvarðanatöku núverandi ríkisstjórnar um að neita að fjármagna samning Sjúkratrygginga Íslands við sálfræðinga í landinu og úrræði víða á vegum hins opinbera með fullnægjandi hætti. Tíu prósent fólks á aldrinum 16–24 ára eru hvorki í vinnu né námi á Íslandi. Þetta er framtíðin okkar.
    Óvirkni sem þessi kostar gríðarlegar upphæðir og er til þess fallin að draga úr samstöðu með því að einangra fólk frá samfélaginu. Fjármálaráð bendir á að hvert prósentustig atvinnuleysis kosti ríkissjóð mikla fjármuni eða um 7–8 milljarða kr. árlega.
    En hvað viljum við jafnaðarfólk? Er hægt að gera þetta öðruvísi? Já, því að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er langt frá því að vera sjálfgefin.
    Nefnum fyrst ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að framlengja úrræðið „Allir vinna“, sem átti að gera venjulegu fólki kleift að sinna viðhaldi á húsnæði sínu með ódýrari hætti á tímum heimsfaraldurs. Ríkisstjórnin ákvað eftir umtalsverðan þrýsting frá hagsmunasamtökum byggingarfyrirtækja að framlengja úrræðið um síðustu áramót þrátt fyrir afgerandi athugasemdir frá sérfræðingum fjármálaráðuneytis um að úrræðið væri þensluhvetjandi og engin ástæða væri til að örva byggingargeirann. Fyrr í vor birtist sundurliðun á því hvernig umræddur skattafsláttur í „Allir vinna“ skiptist. Þar kom í ljós að íslenska ríkið endurgreiddi 15 milljarða kr. undanfarin tvö ár vegna úrræðisins. Þar af runnu 5 milljarðar kr. beint í vasa byggingarfyrirtækja, og eru þá ótalin óbeinu áhrifin af úrræðinu. Rök sem lengi var haldið á lofti um úrræðið voru þau að það myndi draga úr svartri atvinnustarfsemi því að forsendur þess að fá virðisaukaskatt endurgreiddan eru þær að hann hafi í raun verið greiddur. Hvernig það fæst rökstutt að byggingarfyrirtæki hefðu verið í svörtum viðskiptum sín á milli án úrræðisins er erfitt að sjá.
    Þá er byggingargeirinn ein af örfáum atvinnugreinum þar sem rekstrarafgangur jókst á tímum heimsfaraldurs miðað við fyrri tíð og skilaði atvinnugreinin methagnaði í raun, þeirri mestu á öldinni á tímabilinu. Þegar nánar var rýnt í gögnin um úrræðið „Allir vinna“ kom einnig í ljós að um þá sem sóttu beint um endurgreiðsluna gilti að rúmlega 4 milljarðar kr. runnu til tekjuhæstu 10% í landinu. Voru það 4 milljarðar kr. af 7,5 milljörðum kr. í heild, eða um 54%. Um 85% af endurgreiðslum til einstaklinga runnu til tekjuhæstu 30% í landinu.
    Á sama tíma blasir við 17 milljarða kr. uppsafnaður halli í málaflokki fatlaðs fólks eftir vanfjármögnun ríkisins frá því að málaflokkurinn var fluttur til sveitarfélaganna fyrir áratug án fullnægjandi fjármagns. En 15 milljarðar kr. voru fundnir í ríkissjóði til að auka hagnað verktakafyrirtækja og niðurgreiða framkvæmdir hjá efstu tekjuhópunum í samfélaginu.
    Úrræðið „Allir vinna“ er gott dæmi um þá sundrung sem núverandi stjórnarfar elur á. Þegar gagnrýni á úrræðið er viðruð er því stillt þannig upp að þeir sem vekja athygli á misskiptingu aðgerða eftir tekjuhópum séu að gagnrýna aðgerðir þeirra sem nýttu sér úrræðið. Alið er á einstaklingsábyrgðinni en hvergi minnst á hlutverk hins opinbera og velferðarríkisins við að stuðla að samfélagskennd. Ekki er minnst á að úrræði sem boðið sé upp á og afleiðingar þeirra séu á ábyrgð stjórnvalda en ekki þeirra sem nýta þau. Almenningur þarf að geta treyst því að aðgerðir stjórnvalda hafi í för með sér heppilega þróun fyrir samfélagið.
    Jafnaðarfólk vill virkja samtakamáttinn þvert á samfélagið og stuðla að því að þeir sem hefur gengið vel í lífinu átti sig á því að velgengnin var ekki aðeins afrakstur eigin framtaks. Velgengnin var afleiðing umhverfis sem gerði þeim kleift að skara fram úr, árangur meðfæddra eiginleika sem ekki eru öllum í blóð bornir og í mörgum tilvikum einfaldlega heppni. Gengi fólks getur vissulega verið misjafnt og ekkert við það að athuga. En góðu gengi fylgir líka ábyrgð gagnvart samfélaginu. Slík ábyrgð felst meðal annars í því hvernig við greiðum í sameiginlega sjóði.

Tekjustoðir ríkissjóðs veiktar markvisst.
    Líkt og fjármálaráð fjallar ítarlega um í umsögn sinni um fjármálaáætlun hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fjarlægt 41,6 milljarða kr. af tekjuhlið ríkisins með skattalækkunum undanfarinna ára. Í umsögn fjármálaráðs segir eftirfarandi : „Stærsta einstaka skattaaðgerð ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili fólst í endurskoðun á tekjuskattskerfi einstaklinga. Hún hafði í för með sér að skattar lækkuðu um 21 ma.kr. á ársgrundvelli þegar aðgerðirnar voru að fullu gengnar í gegn, auk sérstakrar hækkunar persónuafsláttar árið 2019 sem var aðgerð upp á tæpa 2 ma.kr.“ Jafnframt segir í umsögninni: „Gert var ráð fyrir 2,1 ma.kr. tekjutapi árlega vegna nýrra eða aukinna skattastyrkja til að styðja við félög sem starfa í þágu almannaheilla, þ.e. í svokölluðum þriðja geira. Þá var tryggingagjald lækkað um 8 ma.kr. á ári.“
    Fjármálaráð heldur áfram í upptalningu sinni á aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem hafa veikt tekjuhliðina: „Hluti af skattaráðstöfunum þessarar ríkisstjórnar á fyrra kjörtímabili var að hækka frítekjumark erfðafjárskatts og var áætlað að við það myndu álögur minnka um 500 m.kr.“ Enn fremur segir þetta: „Þá var stofn fjármagnstekjuskatts endurskoðaður en gert var ráð fyrir að umfang breytinga á stofninum gæti numið allt að 2 ma.kr. til lækkunar.“
    Lækkun bankaskatts upp á um 6 milljarða kr. á tíma heimsfaraldurs átti að tryggja að bankarnir myndu fjármagna gat sem myndast hafði í rekstri fyrirtækja vegna sóttvarnaaðgerða en leiddi fyrst og fremst til sögulegrar útlánabólu til íbúðakaupa og skilaði sér í methagnaði fjármálastofnana. Ef þeirri lækkun bankaskatts er bætt við er ljóst að svigrúm ríkissjóðs til að standa undir grunnþjónustunni er nú 41,6 milljörðum kr. minna en áður. Þetta er helmingur þeirrar fjárhæðar sem rennur til Landspítala árlega.
    Fjármálaráð bendir á að það séu ein stærstu tíðindi þessarar áætlunar að kerfislægur halli á rekstri ríkissjóðs sé helsta ástæða áframhaldandi skuldasöfnunar hins opinbera fram til 2025. Þessi undirliggjandi halli hafi verið til staðar allt frá árinu 2019. Þá bendir fjármálaráð á að erfitt verði að takmarka útgjaldavöxtinn jafnmikið og boðað er. Aftur á móti sé svo til engin ný tekjuöflun boðuð í áætluninni.
    Eina tekjuaðgerðin snýr að því að bregðast við breyttu umhverfi í tekjum af ökutækjum þar sem færri og færri bílar eru nú knúnir bensíni og dísil sem hefur verið grunnur gjaldtöku.
    Ekkert er að finna í fjármálaáætlun um þær aðgerðir sem boðaðar voru í stjórnarsáttmála til að endurskoða skattmatsreglur svo að koma mætti í veg fyrir „óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga“, eins og fjármálaráð orðar það í umsögn sinni. Í stjórnarsáttmála var talað um að endurskoða þyrfti regluverk kringum tekjutilflutning til að tryggja að þau sem hefðu eingöngu fjármagnstekjur reiknuðu sér endurgjald og greiddu útsvar. Alþýðusambandið hefur áður minnst á að glufur í skattkerfinu í tengslum við nýtingu einkahlutafélaga til að reikna sér fjármagnstekjur í stað launatekna hafi orðið til þess að hið opinbera verði af 3–8 milljörðum kr. árlega. Samband íslenskra sveitarfélaga tekur undir þetta.
    Þá kom það fram þegar fjallað var um fjármálaáætlun í nefndinni að hvergi í heiminum þekktist það fyrirkomulag sem tíðkast hér á landi að einstaklingum væri í raun frjálst að ákvarða hversu stór hluti af þeim tekjum sem skráðar eru gegnum einkahlutafélög væru fjármagnstekjur og hversu stór hluti launatekjur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði gert athugasemdir við verklagið hérlendis. Víða væri fyrirkomulagið með þeim hætti að ákvörðuð væri föst ávöxtun á það fjármagn sem er í félaginu og það endurspeglaði fjármagnstekjur. Afgangur af tekjum félagsins væri þá sjálfkrafa launatekjur.
    Það er með öllu óskiljanlegt að ríkisstjórnin hafi ekki ráðist í breytingar á þessu fyrirkomulagi sem verður til þess að hið opinbera, að langmestu leyti sveitarfélög, verða af mörgum milljörðum í tekjur á ári hverju. Að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga eru um 90% af tapi vegna einkahlutafélagavæðingarinnar tap sveitarfélaga.
    Framangreind yfirferð sýnir svart á hvítu að stöðnun er langt frá því að vera raunsönn lýsing á ákvörðunum stjórnvalda undanfarin ár. Markvisst hefur verið ráðist í veikingu tekjustofna.

Sögulega lágar tekjur.
    Í umsögn fjármálaráðs er farið ítarlega yfir það hvernig tekjuhlið ríkissjóðs hefur þróast á undanförnum árum. Staðfestir umsögnin málflutning sem 2. minni hluti hefur stundað undanfarna mánuði um veikingu á bolmagni ríkissjóðs til að standa undir grunnþjónustunni. Í umsögninni kemur fram að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar árið 2019 hafi verið stefnt að því að tekjur ríkissjóðs færu úr 31,1% af vergri landsframleiðslu sama ár í 29,7% árið 2023. Nú er það svo að undir lok tímabils þeirrar fjármálaáætlunar sem hér um ræðir, árið 2027, munu tekjur ríkissjóðs á sama mælikvarða standa í 29,1% af vergri landsframleiðslu. Fjármálaráð tekur skýrt fram að þetta sé tekjustaða sem endurspegli ekki lengur heimsfaraldur heldur einfaldlega undirliggjandi stöðu ríkissjóðs eftir skattalækkanir síðasta kjörtímabils. Þetta 29,1% er þó háð því að þær afkomubætandi ráðstafanir sem rætt er um í fjármálaáætlun á tekjuhliðinni eigi sér stað. Þær eru hins vegar óútfærðar og óljóst hvaðan sá tekjubati á að koma. Án þeirra ráðstafana myndu tekjur ríkissjóðs því standa í 28,7% af vergri landsframleiðslu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Í umsögn fjármálaráðs er í því samhengi vakin athygli á þeirri staðreynd að hlutfall heildartekna ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu á áætlunartímabilinu verði enn vel undir meðaltali áranna 1998–2021. Gögn sýni að tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu árin 1998–2021, þegar leiðrétt hafi verið fyrir einskiptisliðum, hafi verið 29,8% að meðaltali en hlutfall heildartekna af vergri landsframleiðslu í framlagðri áætlun endi í jafnvægi við 29,1%, sem sé nokkuð undir þessu meðaltali án tillits til langtímaþróunar.
    Þessi þróun endurspeglast á afgerandi hátt þegar tekjur ríkissjóðs á mann eru skoðaðar. Í greiningu fjármálaráðs kemur fram að á tímabilinu 2016–2021 hafi tekjur á mann gefið eftir og hafi árið 2021 verið á sambærilegum stað og árin 2001 og 2010 ef litið er til hlutfallstalna. Tekið er fram að á þeim rúmu 20 árum sem liðin eru frá árinu 2001 hafi hlutfall aldraðra (67 ára og eldri) af heildarmannfjölda aukist úr 10,23% í 12,95%. Þá hafi samfélagsgerðin breyst og því fylgi aðrar samfélagslegar kröfur og önnur viðmið. Leiða megi líkur að því að með breytingum á samsetningu mannfjöldans sé þörf fyrir meiri tekjuöflun á mann en nú.
    Ríkissjóður er því vanfjármagnaður eftir skattalækkanir undanfarinna ára. Um þetta verður ekki deilt. Gatinu verður ekki lokað nema dregið verði frekar úr grunnþjónustu á Íslandi eða snúið af braut núverandi hagstjórnar.
    
Breytingartillögur vegna þenslu ýkja þróunina.
    Við þetta bætist að umfangsmiklar breytingar á fjármálaáætlun bárust frá ríkisstjórninni nokkrum dögum áður en samþykkja átti áætlunina. Ríkisstjórnin ber fyrir sig þenslu í hagkerfinu og ójafnvægi í rekstri ríkissjóðs en ljóst er af yfirferðinni hér að framan að ójafnvægi var fyrir hendi strax við mótun fjármálaáætlunar í byrjun árs. Merkilegt er að verða vitni að vinnulagi við stjórn velferðar- og efnahagsmála í landinu. Margt virðist unnið á hlaupum og þegar taka á erfiðar ákvarðanir er ákveðnum kimum samfélagsins ítrekað hlíft.
    Þriðjungur af aðgerðum vegna verðbólgu á tekjuhlið felst í krónutöluhækkunum sem eiga nú að vera í takt við mælda verðbólgu. Um er að ræða flötustu skattheimtu sem til er enda taka krónutölugjöld ekki tillit til svigrúms heimila til að mæta slíkum hækkunum. Tekjulægri einstaklingar finna langmest fyrir verðbólgu; bæði er fjárhagslegt svigrúm þeirra minna og neyslukarfa þeirra í mun ríkari mæli búin til úr liðum sem nú hafa hækkað mest í verði. Krónutöluhækkanir þýða hlutfallslega hæstu skattheimtuna á hópa sem hafa fengið verðbólguna í fangið nú þegar.
    Þá er aðhaldskrafa í málaflokkum tvöfölduð og fer úr 1% á næsta ári í 2% auk þess sem dregið er úr almennu útgjaldasvigrúmi. Á mannamáli þýðir þetta að útgjöld þurfa að vera 5–6 milljörðum kr. lægri á næsta ári en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Meiri vigt er á útgjaldahliðinni en tekjuhliðinni hjá ríkissjóði til að vega á móti þenslu þrátt fyrir varnaðarorð fjármálaráðs um að sá útgjaldavöxtur sem þá þegar hafði verið boðaður í áætluninni væri óraunhæfur. Verkefnin væru slík að erfitt væri að halda útgjöldum undir 1% raunvexti eins og boðað var.

Áhrif vanfjármögnunar á fjárfestingu í landinu.
    Þrátt fyrir verulegt útgjaldaaðhald á tímabili fjármálaáætlunar er eftir sem áður kerfislægur halli á ríkissjóði. Þetta veldur gífurlegum áhyggjum, sérstaklega í ljósi þess að margt bendir til að engar líkur séu á því að hægt sé að standa við þann takmarkaða útgjaldavöxt sem boðaður er í fjármálaáætluninni. Alþýðusamband Íslands og BSRB hafa bent á óraunsæið sem felst í útgjaldavexti sem er minni en 1% á ári hverju og tekur fjármálaráð undir þau sjónarmið í umsögn sinni.
    Þá bendir fjármálaráð á að þrátt fyrir að raunvöxtur frumgjalda ríkissjóðs eigi að vera minni en 1% árlega sé reiknað með 1,3% raunvexti rammasettra útgjalda að meðaltali á stefnutímabilinu og þar með sé treyst á að vöxtur útgjalda utan ramma, sem telja megi að sé öllu óvissari en rammasett útgjöld, leggi meira til við að halda útgjaldavexti í heild í skefjum en rammasett útgjöld. Launaþróun stendur utan við rammann og ljóst er að sú aftenging sem stjórnvöld vinna ötullega að gagnvart launþegum í landinu og verkalýðshreyfingunni með því að grafa undan velferðarkerfinu er ekki til þess fallin að draga úr launakröfum á tímabili fjármálaáætlunar. Þetta er ólíkt því sem sést á Norðurlöndum þar sem litið er á samvinnu stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda sem grundvallaratriði í rekstri velferðarsamfélags.
    Eftir stendur að útgjöld sem eru ekki lögbundin verða fyrir niðurskurðarhnífnum og eru fjárfestingar þar oftast fyrsti kostur eins og reynsla síðasta áratugar sýnir. Þetta er áhyggjuefni í ljósi þess að fjárfestingarstig hér á landi er enn of lágt. Líkt og fjármálaráð bendir réttilega á er tæpast hægt að halda því fram að fjárfestingarstigið sé sérstaklega hátt í sögulegu samhengi þrátt fyrir svokallað fjárfestingarátak ríkissjóðs undanfarin ár. Þar að auki virðist því átaki nú sjálfhætt vegna spennitreyjunnar sem stjórnvöld hafa skapað sér með því að veikja tekjustoðir ríkissjóðs á kjörtímabilinu. Fram hefur komið við umfjöllun málsins í nefndinni að aukinn kostnaður við fjárfestingarverkefni ríkissjóðs, m.a. vegna þróunar í alþjóðamálum, muni leiða til þess að framkvæmdum sem hafa verið samþykktar í samgönguáætlun verði seinkað. Fjármagn sé einfaldlega ekki til staðar til að mæta þessari stöðu.
    Staðfesting fékkst á stöðunni og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar breytingartillögur við fjármálaáætlun bárust í skyndi, þar sem fjárfestingarstiginu er beinlínis beitt sem afgangsstærð. Skera á niður framlög til fjárfestinga um 10 milljarða kr. á næsta ári miðað við upphaflega áætlun. Og það þrátt fyrir skýra umfjöllun fjármálaráðs um að fjárfestingu eigi ekki að beita sem hagstjórnartæki.
    Fjármálaráð bendir í þessu samhengi á að auðveldlega megi réttlæta skuldsetningu til að fjármagna þjóðhagslega arðbærar fjárfestingar, svo lengi sem arðsemin er meiri en fjármagnskostnaður og þegar lítil hætta er á að fjárfestingunum fylgi neikvæð hliðaráhrif í hagkerfinu. Ekkert slíkt mat er þó til staðar í fjármálaráðuneyti. Eina matið er það að útgjaldaramminn sé pikkfastur, þröngur og hafi þrengst enn frekar undanfarin ár vegna ákvarðana ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að rýra tekjur ríkissjóðs verulega. Færa má rök fyrir því að skattalækkunarstefna ríkisstjórnarinnar undanfarin ár hafi gert hagkerfið enn viðkvæmara fyrir verðbólgu, enda tekjuhlið ríkissjóðs jafnvel til þess fallin að draga úr þenslu og samdráttur í útgjöldum. Þessi þróun er áhyggjuefni.
    Enn alvarlegri þróun má sjá þegar litið er á fjárfestingarstöðu sveitarfélaganna. Þar stefnir í sögulega lága fjárfestingu ef skoðað er hlutfall fjárfestingar af tekjum. Fjármálaráð vekur sérstaka athygli á þessari þróun og alvarleika hennar. Þróunin í fjárfestingarstigi sveitarfélaga verður ekki í tómarúmi. Niðurskurður hefur komið bakdyramegin frá ríki til sveitarfélaga og falið í sér að verkefni hafa verið flutt til sveitarfélaga án þess að nægilegt fjármagn hafi fylgt. Þetta hefur dregið verulega úr svigrúmi flestra sveitarfélaga til að halda fjárfestingarstiginu uppi. Niðurstöður skýrslu starfshóps um greiningu á kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk á árunum 2018–2020 sýna að halli í málaflokknum nemur um 17 milljörðum kr. Þeir 17 milljarðar kr. sem sveitarfélögin hafa þurft að greiða til að stoppa upp í vanfjármögnunargat ríkissjóðs bitna því beint á svigrúmi til fjárfestingar. Svipar þeirri upphæð til árlegs framlags til fjárfestingar á sveitarfélagastiginu öllu þegar fjárfesting var sem minnst árin eftir hrun. Miðað við fjárfestingarstig sveitarfélaganna í fyrra eru umræddir 17 milljarðar kr. um 40% af framlagi til fjárfestinga. Um verulegar upphæðir er því að ræða.
    Í því samhengi er vert að nefna að þeir 17 milljarðar kr. sem vantar í fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks eru ígildi þess skattafsláttar sem ríkið hefur veitt byggingargeiranum undanfarin ár þrátt fyrir mikla þenslu í atvinnugreininni.

Umræða um nokkur málefnasvið.
02 Dómstólar.
    Dómstólasýslan vakti sérstaka athygli á því í umsögnum til fjárlaganefndar að verulegur halli myndi skapast í málaflokknum á tímabili fjármálaáætlunar ef fjárheimildir yrðu ekki auknar. Vísaði dómstólasýslan einna helst til mikilvægis þess að viðbótarfjármagn fengist til stafrænnar málsmeðferðar í dómskerfinu.
    Þá kom einnig fram sú alvarlega staða sem uppi væri hjá Landsrétti þar sem málshraði væri að mati dómstólasýslunnar að komast á hættustig út frá réttaröryggissjónarmiðum. Vandann mætti rekja til þess að dómstóllinn hefði verið undirmannaður frá því að hann tók til starfa vegna viðbragða við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar. Yrði ekki farin sú leið að fjölga varanlega dómurum við Landsrétt væri brýnt að dómurum yrði a.m.k. fjölgað um einn tímabundið til að vinna á þessum fortíðarvanda.
    Telur dómstólasýslan að um 900 millj. kr. vanti í málaflokkinn á tímabili fjármálaáætlunar til að rétta stöðuna af. Er það tæpur þriðjungur af núverandi fjárveitingu til málaflokksins.
    Í umsögninni kom fram að það hefði ekki áður gerst að hún hefði ekki fengið tillögur samþykktar enda mikilvægi sjálfstæðis dómstóla skýrt. Var þar vitnað til þess að tilgangur 21. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, annars vegar og ákvæði laga nr. 50/2016, um dómstóla, hins vegar hefði verið að stuðla að sjálfstæði dómstólanna að því er snerti eigin fjárhag og að styrkja stöðu þeirra gagnvart framkvæmdarvaldinu.
    Annar minni hluti telur afar brýnt að skortur á fjárveitingum haldi ekki aftur af getu dómstólanna til að sinna hlutverki sínu. Verklag í stafvæðingu hins opinbera vekur einnig athygli 2. minni hluta í ljósi þess að mikil áhersla er innan fjármálaráðuneytis á stafvæðingu til að auka hagkvæmni í rekstri. Jafnmikilvægt verkefni og stafvæðing dómstólanna hefði átt að vera fjármálaráðuneyti ljóst og virðist sem yfirsýn á fjárþörf vegna slíkra verkefna sé ekki fullnægjandi.

04 Utanríkismál og 35 Alþjóðleg þróunarsamvinna.
    Enga viðbótarfjárveitingu er að finna í fjármálaáætlun sem tekur mið af fjölgun flóttamanna til landsins í tengslum við stríðið í Úkraínu þrátt fyrir yfirlýst markmið stjórnvalda um að taka við stórum hópi fólks hingað til lands á næstu mánuðum og árum. Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) metur það svo að kostnaður vegna flóttamanna frá Úkraínu muni nema um 0,25% af vergri landsframleiðslu Evrópuríkja á ári hverju. Ef gert er ráð fyrir að hlutur Evrópuþjóða sé jafn í þessari aðstoð og Ísland láti ekki sitt eftir liggja myndi það þýða um 7–8 milljarða kr. kostnað ár hvert hér á landi. Ef litið er til fjárframlaga til þróunarsamvinnu á Íslandi, sem gætu nýst vegna stríðsins í Úkraínu, eru þetta um 50% af framlagi okkar til þróunarsamvinnu árið 2027, og um þriðjungur af því sem á að renna til þróunarsamvinnu í ár.
    Í málaflokki 10.5 Útlendingamál er gert ráð fyrir um 4 milljörðum kr. en fjárframlög til málaflokks 10 í heild sinni fara minnkandi á tímabili fjármálaáætlunar.
    Fram kom við umfjöllun málsins í nefndinni að varasjóður yrði nýttur vegna kostnaðar við flóttamenn eða heimildir í fjáraukalögum. Ljóst er að takmörk eru fyrir því hversu mörg verkefni geta sótt fjármagn í varasjóð, enda er varasjóðnum ætlað að mæta breytingum á efnahagsforsendum í fjárhagsáætlunum. Að mati 2. minni hluta er óheppilegt að ekki sé gert ráð fyrir augljósum kostnaði sem hlýst af stríðinu í Úkraínu.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
    Annar minni hluti fagnar aukinni áherslu á nýsköpun og þekkingargreinar og þeirri breytingu sem vart verður milli fjármálaáætlana að því er snertir framlag til málaflokksins. Viðbótarfjármagn hefur verið veitt í sjóði og framhald verður á endurgreiðslum vegna fjárfestingar í rannsóknum og þróun. Hátt í 15 milljarða kr. viðbót verður veitt á tímabili fjármálaáætlunar ef miðað er við stöðuna fyrir heimsfaraldur.
    Í þessu samhengi vill 2. minni hluti þó vekja athygli á mikilvægi þess að farið sé yfir nýtingu endurgreiðsluúrræðisins og þær athugasemdir sem hafa borist frá Skattinum um að framkvæmd úrræðisins geti verið flókin. Í einhverjum tilvikum geti verið erfitt að skilja á milli venjubundins rekstrarkostnaðar og kostnaðar vegna nýsköpunarverkefna. Ekki hafa verið sett lög um beitingu álags eða refsiviðurlaga ef misnotkun á stuðningi sem þessum á sér stað. Fram kom í umræðu um málið að ráðuneytið hefði gert samning við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) um úttekt á endurgreiðslukerfinu. Ábatagreiningu á úrræðinu skortir.
    Til viðbótar hvetur 2. minni hluti til þess að umræða fari fram um það hvernig hið opinbera geti í auknum mæli notið ábatans af því þegar vel gengur með sértæk úrræði sem þessi. Í þessu samhengi má vitna til hagfræðingsins Mariönu Mazzucato sem leggur áherslu á mikilvægi þess að hið opinbera taki ekki á sig kostnaðinn af nýsköpun og niðurgreiði verkefni með skattfé án þess að eiga möguleika á að fá hluta af ábatanum með beinum hætti. Líkt og víða í kerfi okkar þar sem hið opinbera niðurgreiðir áhættuna en ábatinn er einkavæddur.
    Fjármálaráð nefnir þetta einnig í umsögn sinni: „Þá má velta upp ýmsum spurningum um hvort og hvernig hið opinbera eigi að njóta ábatans þegar vel gengur og hvort skattleggja eigi sérstaklega þau fyrirtæki sem blómstra eftir að hafa þegið opinbera styrki.“

08 Sveitarfélög og byggðamál.
    Nú hefur komið fram að 17 milljarða kr. hefur vantað í málaflokk fatlaðs fólks hjá sveitarfélögum á árunum 2018–2020 til að sinna lögbundnum skyldum. Athygli vekur að þrátt fyrir að þetta mat liggi fyrir er engra leiða leitað til að draga úr vanfjármögnun málaflokksins í fjármálaáætlun. Í raun er hvergi tekist á við þennan stórkostlega vanda í fjármálaáætlun.
    Fram kom hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að umræddur halli skýrði stærstan hluta af þeim halla sem mælist á sveitarstjórnarstigi. Þessi staða hamlar fjárfestingu sveitarfélaga eins og áður var nefnt. Nú er að störfum tekjustofnanefnd sem skoðar tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Mjög brýnt er að tekið verði mið af þeim niðurstöðum í næstu fjármálaáætlun. Hallinn vegna málaflokks fatlaðs fólks mun aðeins vinda upp á sig, en að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga nemur gatið um 12–13 milljörðum kr. árlega.
    Hætta er á að svipuð þróun verði í tilviki farsældarfrumvarpsins en ríkissjóður hefur skuldbundið sig til að veita 1,1 milljarð kr. til sveitarfélaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að fylgja frumvarpinu eftir. 2. minni hluti vekur athygli á mikilvægi þess að endurskoðun á kostnaði vegna úrræðisins eigi sér stað til að tryggja að hér fari ekki aftur af stað sama atburðarás og í málaflokki fatlaðs fólks. Samband íslenskra sveitarfélaga vekur athygli á þeim vanda sem upp er kominn varðandi farsældarfrumvarpið: Hvað gera sveitarfélög ef grunnúrræðin sjálf eru vanfjármögnuð? Farsældarfrumvarpið fjármagnar tengiliði vegna velferðarúrræða og því í raun aðeins umgjörðina og skipulagið. En það sé annað mál að fjármagna raunverulegar bjargir.
    Þá vöktu nokkur landshlutasamtök athygli á þeim umframkostnaði sem hefði skapast hjá þeim vegna niðurlagningar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en ákveðið tómarúm virðist hafa skapast sem stjórnvöld hafa ekki komið til móts við. Á Vesturlandi tóku landshlutasamtökin að sér hluta verkefna Nýsköpunarmiðstöðvar sem felast í að hjálpa til við umsóknir í sjóði. Áhyggjur hafa vaknað af því að yfirsýn hafi tapast við niðurlagningu miðstöðvarinnar, en ekkert nýtt fjármagn virðist hafa runnið til landshlutasamtakanna til að mæta þessu aukna álagi. Fjármagninu sem fór í rekstur stofnunarinnar átti að verja í samkeppnissjóði en óljóst er að hve miklu leyti það hefur skilað sér til sjóðanna. Ljóst er að talsverður kostnaður við aðstoð við umsóknir hefur fallið á landshlutasamtök.
    Að mati 2. minni hluta er brýnt að framlög til sóknaráætlana landshluta verði endurskoðuð til að taka mið af auknu umfangi þeirra í atvinnuráðgjöf á svæðunum. Mikilvægt er að hluti af því fjármagni sem sparaðist við að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð renni þangað í ljósi þess að landshlutasamtök hafa tekið að sér vinnu sem þar fór áður fram.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
    Annar minni hluti vekur athygli á þeirri ótrúlegu stöðu sem upp er komin við stjórn ríkisfjármála, sem er sú að beita eigi fjárfestingu sem afgangsstærð. Til viðbótar við þá 10 milljarða kr. sem taka á úr fjármálaáætlun með breytingartillögu við síðari umræðu kom fram við umfjöllun málsins í nefndinni að stefnt væri að því að seinka framkvæmdum í samgönguáætlun því að kostnaður hefði aukist vegna vendinga á alþjóðasviðinu. Framkvæmdaliðir eru ekki verðbættir í fjárlögum og því stenst samgönguáætlun ekki lengur í núverandi mynd. Hér er brugðist við kostnaðarhækkunum með öfugum hætti við það sem nútímahagstjórn kveður á um og fjármálaráð hefur lagt áherslu á; að ekki sé litið á fjárfestingar sem afgangslið þegar forgangsraða þurfi í ríkisrekstri.
    Í ofanálag er ljóst að fjármagn sem rennur til viðhalds í samgöngumálum er enn langt undir nauðsynlegri ársþörf.
    Þá vekur 2. minni hluti athygli á því að samningur ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um eflingu almenningssamgangna frá árinu 2012 gerði ráð fyrir 1.000 millj. kr. árlegum framlögum á föstu verðlagi úr ríkissjóði. Uppsafnaðar vanefndir á þeim samningi nema þó um 1,5 milljörðum kr. Nú á að framlengja samninginn um 12 ár og mikilvægt að ríkið standi skil á framlagi sínu til verkefnisins að mati 2. minni hluta.

13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
    Í umsögnum sveitarfélaga þar sem fiskeldi vegur þungt í tekjum mátti finna athugasemdir við úthlutun úr fiskeldissjóði. Gjald af fiskeldi rennur í sjóðinn en nefnd sem skipuð er af Alþingi úthlutar úr sjóðnum samkvæmt umsóknum. 2. minni hluti vekur athygli á þeirri óánægju sem er meðal umræddra sveitarfélaga þar sem fyrirkomulagið tryggir ekki að sveitarfélögin fái tekjur af gjaldinu í hlutfalli við umsvif fiskeldis á hverju og einu svæði. 2. minni hluti telur að taka þurfi til skoðunar fyrirkomulag fiskeldissjóðs með hag umræddra sveitarfélaga að leiðarljósi.
    Eins þarf að endurskoða fyrirkomulag Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Bent hefur verið á að Hafrannsóknastofnun hafi fengið úthlutað úr sjóðnum sem hlýtur að teljast sérstakt í ljósi þess að stofnunin er á fjárlögum. Þessi staða endurspeglar vanfjármögnun stofnunarinnar, sem á ekki að bitna á möguleikum einstaklinga til að fá úthlutað úr sjóðnum.
    Í umsögnum Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfjarða kom fram að möguleikar svæðanna til að halda betur utan um fiskeldið og byggja upp nauðsynlega innviði myndu gjörbreytast ef Vestfirðir fengju gjaldið beint úr fiskeldissjóði. Framlagið yrði þá ígildi fasteignaskatta á aðra starfsemi í landi.

15 Orkumál og 17 Umhverfismál.
    Í síðustu fjármálaáætlun var yfirsýn yfir hversu miklum fjármunum væri varið í loftslagsmál allt tímabilið. Erfiðara er að sjá áherslubreytingar í fjármálaáætlun síðan þá þar sem fjárhæðir eru nú ekki teknar saman. Í síðustu fjármálaáætlun var ljóst að um 13 milljarðar kr., um 0,5% af vergri landsframleiðslu, færu í loftslagsmál, en meiri hluti þess í niðurgreiðslur á raf- og tengiltvinnbílum. Ekkert slíkt yfirlit er nú til staðar og saknar 2. minni hluti þess. Ljóst er að eitthvert aukafjármagn, sem veitt hefur verið í sjóði í málaflokki 07, flokkast undir loftslagsmál en engar upplýsingar eru þó um það í fjármálaáætlun og fengust þær upplýsingar heldur ekki eftir fyrirspurn 2. minni hluta. Skortur á yfirsýn um fjármögnun loftslagsmála gerir það að verkum að erfitt er að meta áherslur ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Í stjórnarsáttmála má finna uppfært markmið um samdrátt um 55 % fyrir árið 2040, sem voru 40% áður. Engar vísbendingar eru þó um að því markmiði fylgi raunverulegur slagkraftur, a.m.k. er hvergi að sjá hvernig fjármögnunin breytist til að fylgja metnaðarfyllra markmiði eftir.
    Sú staða að fjármagn fylgi ekki markmiðum í stjórnarsáttmála er ekki einstök. Í greinargerð með málaflokki 15 Orkumál má sjá markmið um jöfnun kostnaðar við dreifingu á raforku. Þar á jöfnunarhlutfall að fara úr 78% í 85% árið 2023 og 95% undir lok áætlunar árið 2027. Fjármagn sem veitt er í verkefnið tekur þó ekki mið af þessu markmiði en það verður nær óbreytt á tímabili fjármálaáætlunar. Í svari við spurningum nefndarinnar til ráðuneytisins kom fram að það væri mat ráðuneytisins að til að ná markmiðinu um 85% hlutfall á jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku í dreifbýli árið 2023 þyrftu árlega að renna 2,6 milljarðar kr. til verkefnisins og 3,1 milljarður kr. til að ná viðmiði um 95%. En fjárframlögin í málaflokkinn samkvæmt fjármálaáætlun eru um 2,1 milljarður kr. á hverju ári fjármálaáætlunar.
    Forgangsröðun fjármagns með þessum hætti stríðir gegn markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum enda er jafnt aðgengi að rafmagni forsenda fyrir þátttöku allra landsmanna í orkuskiptum. Óbreytt niðurgreiðsla á rafmagni til húshitunar þýðir einnig að engin framþróun verður í því að jafna kostnað á köldum svæðum á landinu á tímabili áætlunarinnar.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
    Stórsóknina sem boðuð var í heilbrigðismálum í stjórnarsáttmála er ekki að finna í þessari fjármálaáætlun. Áætlunin sýnir það svart á hvítu að lítið er að marka orð heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um að ekki standi á fjármagni til spítalans til að laga vandann í heilbrigðiskerfinu.
    Á meðfylgjandi mynd má sjá þróun í fjárframlögum til spítalans. Fyrir heimsfaraldur var rétt búið að endurheimta stöðu sem ríkti fyrir gífurlega erfitt tímabil niðurskurðar sem markar spítalann enn. Síðan þá hefur þjóðin elst og ný verkefni verið færð til sjúkrahússins, m.a. vegna vanfjármögnunar annars staðar í kerfinu. Á seinni myndinni sést hvernig fjármögnun til spítalans hefur þróast undanfarin ár ef tekið er tillit til aukinnar hjúkrunarþyngdar, m.a. því að þjóðin hefur elst og eldra fólk þarf meiri þjónustu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 1,5% árlegum vexti að meðaltali í málaflokki sjúkrahúsþjónustu til ársloka árið 2027 þrátt fyrir að vitað sé að það er langt undir nauðsynlegum raunvexti. Spítalinn hefur talað um 2,5%. Það er vitað mál að einfaldur framreikningur í tengslum við öldrun, fólksfjölgun og hjúkrunarþyngd sem því fylgir ætti að þýða a.m.k. 2,5% aukningu á ári.
    Um fjórðungur legurýma á spítalanum er nú nýttur í öldrunarþjónustu. Hvergi liggur fyrir hvert eðlilegt umfang hennar á Landspítala ætti að vera og kallað hefur verið eftir því að verkefni verði skilgreind betur. Hjúkrunarheimili hafa verið vanfjármögnuð og uppbygging þeirra sömuleiðis, sem skilar sér í meiri þrýstingi á Landspítala. Sparnaðurinn sem næst með því að sleppa því að byggja hjúkrunarrými og nýta áfram pláss á spítalanum skilar sér ekki í meira fé til spítalans, enda þarf hann alltaf að taka við þeim sem til hans leita.
    Staðreyndin er sú að eftir árið 2023 er nær ekkert fjármagn í fjármálaáætlun fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimila þó að vitað sé að grunnvandinn í heilbrigðiskerfinu sé skortur á rýmum til að nýta eftir sjúkrahúsvist.
    Þetta vekur athygli í ljósi nýlegrar skýrslu um heilbrigðiskerfið sem ráðgjafarfyrirtækið McKinsey gaf út. Þar kom fram að nýr Landspítali væri nú þegar sprunginn að því er snerti legurými ef ekki yrði fjárfest í úrræðum fyrir langtímaumönnun. Fram kemur í skýrslunni að bæta þurfi við 240 úrræðum fyrir langtímaumönnunarsjúklinga, svo sem í heimaþjónustu, hjúkrunarrýmum og í endurhæfingu, til að spítalinn springi ekki.
    Sparnaður í heilbrigðiskerfinu við að ráðast í slíka aðgerð yrði 1–2 milljarðar kr. og 9 milljarðar kr. á Landspítala. Sá sparnaður myndi aðeins birtast með tíð og tíma.
    Ekkert stendur um þetta í fjármálaáætlun. Þetta bætist við þá illskiljanlegu staðreynd að varla er gert ráð fyrir neinum fjármunum í uppbyggingu hjúkrunarrýma eftir árið 2023. Spítalanum er gert ókleift að færa sig úr spennitreyju vanfjármögnunar og laða að sér starfsfólk í heppilegt vinnuumhverfi ef þessi grundvallaratriði eru ekki leyst.
    Aukið fjármagn verður að renna til spítalans. Það verður að standa straum af grunnrekstri og úrræðum sem draga úr umframkostnaði vegna skorts á hjúkrunarrýmum. Slík fjármögnun er forsenda þess að hægt sé að reka spítalann með eðlilegum hætti. Stjórn Landspítala og ríkisstjórninni er mikið í mun að lagðar verði fram alvörutillögur til framtíðar fyrir spítalann. Landspítali starfar ekki einn og sér heldur í kerfi sem þarf að virka.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
    Í fjármálaáætlun kemur fram að gert sé ráð fyrir því að raunvöxtur á greiðslum til Sjúkratrygginga Íslands í flestum málaflokkum verði ekki meiri en 2% á ári. Fram kom við umfjöllun málsins í nefndinni að skortur á fjármagni í málaflokki 24.2 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun geri það að verkum að talsverð áskorun verði að semja við sérfræðilækna. 2. minni hluti vekur athygli á greiningu Öryrkjabandalags Íslands á aukinni greiðsluþátttöku fólks í heilbrigðisþjónustu frá árslokum 2018 þegar sérfræðilæknar, og sjúkraþjálfarar rúmu ári síðar, sögðu sig frá samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Greiningin bendir til þess að vegna þessa hafi komugjöld, sem innheimt voru úr vasa almennings til að standa straum af kostnaði, numið 1,7 milljörðum kr. Afar brýnt er að samið verði við umræddar stéttir og þá þarf svigrúm að vera í fjárveitingu sem virðist of lítið miðað við upplýsingar sem nefndinni hafa borist.
    
25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
    Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa lýst áhyggjum af því að þjónustusamningar við hjúkrunarheimili hafi ekki verið fullfjármagnaðir í síðustu fjármálaáætlun. Svipaðar forsendur má finna í rekstrarframlögum til hjúkrunarheimila og Landspítala, eða um 1,5% raunvöxt. Það var von 2. minni hluta að breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar við síðari umræðu tæki m.a. mið af umsögnum Landspítala og hjúkrunarheimila. Ljóst er að ekki varð af því. Þvert á móti er að finna frekari niðurskurð í þessum málaflokkum, sem 2. minni hluti hefur þó ekki tök á að greina almennilega eftir rekstri og fjárfestingu þar sem fjármálaráðuneyti sá sér ekki fært að upplýsa nefndina um hvernig niðurskurðurinn myndi skiptast innan málaflokkanna.
    Þá vekur 2. minni hluti athygli á því að Framkvæmdasjóður aldraðra hefur undanfarin ár verið nýttur til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila með undanþágu í fjárlögum. Sjóðurinn, sem er fjármagnaður með nefskatti, var stofnaður til að fjármagna meiri háttar viðhald, breytingar og endurbætur á hjúkrunarheimilum. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu fara aðeins um 300–400 millj. kr. úr sjóðnum til þeirra verkefna sem ráð var fyrir gert í upphafi. Minna er því eftir fyrir hjúkrunarheimili til að sinna nauðsynlegum endurbótum á húsnæði, sem dregur úr þjónustu við íbúa heimilanna. Það getur ekki gengið til lengdar að ríkið komi sér undan því að fjármagna rekstur og fjárfestingu hjúkrunarheimila með því að seilast í slíka sjóði.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
    Annar minni hluti fjallaði um málaflokk 27 í fyrri hluta álits þessa með almennum hætti en nefnir hér sérstaklega stöðu NPA-samninga.
    Ljóst er að vanfjármögnun á úrræðum fyrir fatlað fólk er víða að finna í áætlunum stjórnvalda. Má þar nefna fjármögnun á NPA-samningum, en samkvæmt Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ) var 91 samningur í gildi í fyrra. Um 300 millj. kr. var bætt við fjármögnun á NPA í síðustu fjárlögum eftir umræðu í nefndinni og hefur þessari fjármögnun verið haldið í fjármálaáætlun. Brýnt er þó að taka fram að ekki er í raun um viðbót að ræða. Hið rétta er að framlög sem áður áttu að vera varanleg framlög voru ekki sett inn sem slík. Umræddar 300 millj. kr. eru því einungis til að standa undir þágildandi samningum en ekki til að fjölga þeim. Samkvæmt skýrslu hóps um endurskoðun laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, voru 44 umsóknir um NPA-samninga í bið hjá sex sveitarfélögum árið 2021, en sú tala er líklega vanmat.
    ÖBÍ bendir á að fjöldi notenda NPA gæti mögulega tvöfaldast frá því sem nú er ef framlög væru til staðar. Ef ríkið stæði við sinn hluta samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 38/2018 væri um 172 samninga að ræða í ár. Kostnaður gæti þá numið allt að 1,3 milljörðum kr., sem er tvöfalt framlag ríkisins til þjónustunnar sem stendur.

31 Húsnæðis- og skipulagsmál.
    Innviðaráðherra lét eftirfarandi orð falla á Alþingi í vetur í umræðu um húsnæðismál: „Sá ráðherra er hér stendur leggur mikla áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis um allt land og hefur lagt inn tillögur í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 um verulega aukningu fjármuna til að fjölga uppbyggingu íbúða fyrir tilstuðlan opinbers húsnæðisstuðnings.“ Enn fremur sagði hann: „Og já, við erum með framtíðarsýn, við erum með plan og það skýrist.“
    Það plan hefur nú skýrst og heitir fjármálaáætlun. Í þessari áætlun má finna 500 millj. kr. til viðbótar til að mæta fjölgun leigjenda á tímabilinu. Ekki er það aukinn stuðningur við hópinn heldur er þetta hinn vel þekkti kerfislægi vöxtur. Að öðru leyti dregst húsnæðisstuðningurinn saman. Stofnframlög til að byggja almennar íbúðir dragast saman um 2 milljarða kr. Innviðaráðherra bar það fyrir sig eftir að fjármálaáætlun birtist að enn væri verið að vinna að tillögum fyrir húsnæðismarkaðinn. Því væri ekki tímabært að tala um fjármögnun þeirra strax, þrátt fyrir yfirlýsingar um að ráðherra hefði þá þegar lagt tillögur inn í fjármálaáætlun.
    Fyrir nokkrum vikum birtust húsnæðistillögur stjórnvalda þar sem talað er um að ríkið, í samvinnu við sveitarfélög, ætli að stuðla að uppbyggingu 4.000 íbúða á ári næstu árin og þriðjungur verði með beinum stuðningi hins opinbera. Nýta eigi stofnframlög inn í almenna íbúðakerfið. Þrátt fyrir að auka eigi uppbyggingu og húsnæðisáætlunin sem innviðaráðherra vitnaði í sé nú fram komin bættist ekkert fjármagn við málaflokk húsnæðis- og skipulagsmála fyrir síðari umræðu um fjármálaáætlun.
    Núverandi stofnframlög til íbúðabyggingar eru um 3,7 milljarðar kr. Umræddar upphæðir hafa ekki einu sinni staðið undir þeim hér um bil 600 íbúðum sem byggja átti fyrir það fjármagn. Nú á að tvöfalda þær íbúðir sem verða fjármagnaðar með stuðningi ríkisins en framlag til málaflokksins er skorið niður um 2 milljarða kr. í stað þess að bæta öðru eins við hið minnsta.
    Nú ber ríkisstjórnin verðbólguhættu fyrir sig og því megi ríkið vart hreyfa sig. En misskilningur virðist ríkja um eðli kerfisins. Húsnæðismarkaðurinn er brotinn og drífur áfram verðbólgu. Kjarasamningaviðræður fara fram í haust og ríkisstjórnin heldur með tómar hendur til þeirra. Ekkert viðbótarfjármagn rennur til húsnæðismála.
    
Ógagnsæi ríkisfjármála – til hvers eru langtímaáætlanir?
    Það var endurtekið stef í samtölum nefndarinnar við umsagnaraðila að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar væri ógagnsætt skjal. Umfjöllun um einstaka málaflokka væri verulega ábótavant þar sem engin sundurliðun væri gerð innan málaflokka og því ómögulegt að átta sig á fjárveitingum til stórra verkefna. Fjárlaganefnd fékk í sumum tilvikum frekari sundurliðun eftir málaflokkum í kynningu einstakra ráðuneyta, en 2. minni hluti lýsir vonbrigðum sínum með að fjármálaráðuneyti hafi ekki séð sér fært að veita nefndinni aðgang að almennri sundurliðun innan málaflokka. Ljóst var af kynningu þó nokkurra ráðuneyta að slík sundurliðun er til. Það hamlar verulega umfjöllun um málið að veita nefndinni ekki aðgang að öllum gögnum sem til eru. Vekur það þær áhyggjur að verklag við vinnslu áætlunarinnar sé ekki rétt.
    Sömu sögu má segja um þær umfangsmiklu breytingartillögur sem bárust nefndinni nokkrum dögum áður en afgreiða átti fjármálaáætlun úr nefnd. Skjölin sem nefndinni bárust sama dag og afgreiða átti málið innihéldu ekki sömu töfluskiptingu fyrir málaflokka og finna mátti í upphaflegri áætlun. Það var því ómögulegt fyrir nefndarmenn að átta sig á því hvernig breytingartillögurnar voru hugsaðar. Grófa skiptingu milli málaflokka var þar að finna en ekki skiptingu í rekstrar- og fjárfestingarframlög eftir málaflokkum. Slík framsetning getur skipt sköpum við yfirferð á breytingunum. 2. minni hluti ítrekar að slíkt vinnulag er óeðlilegt í hæsta máta og gefur til kynna að fáir aðilar í fjármálaráðuneyti komi að vinnslu tillagnanna þar eð kerfið er ekki uppfært samstundis og ekki heldur þær töflur sem með réttu ættu að berast fjárlaganefnd strax.
    Þá er það umhugsunarefni, líkt og fjármálaráð nefndi í umsögn sinni um fyrstu útgáfu fjármálaáætlunar, að fimm ára áætlunarplagg hafi í raun breyst í árlega áætlun, því að fjármálaáætlanir eru uppfærðar svo oft. Í þetta sinn er um verulegar breytingar að ræða milli umræðna. Vissulega er verðbólga áhyggjuefni en í þessu samhengi má vitna til umfjöllunar fjármálaráðs um það hvers megnug opinber fjármál raunverulega eru við hagstjórn. Ljóst er að varhugavert er að ákveða fjárfestingu með sveiflujöfnun að takmarki. Sú forgangsröðun sem rætt er um í breytingartillögum á alltaf við. Ójafnvægið sem fjármálaráð nefndi, og 2. minni hluti hefur rætt ítarlega í áliti þessu, snýst fyrst og fremst um undirliggjandi rekstur og halla ríkissjóðs. Er rekstur ríkissjóðs raunverulega fjármagnaður eins og nauðsyn krefur og nauðsynlegum fjárfestingum sinnt? Ef ríkissjóður er í jafnvægi ætti reksturinn að ráða við sveiflur í efnahagslífinu og ef afrakstri uppgangstíma er varið með skynsamlegum hætti er svigrúm til að takast á við niðursveiflu. Þessa átakafjármögnun þarf því ekki að stunda.
    Í þessu samhengi vill 2. minni hluti minnast á að þær sveiflur sem hafa fylgt launaþróun í landinu, og erfitt reynist að spá fyrir um í áætlunum stjórnvalda, eru afleiðing af vanfjármögnun velferðarkerfisins. Tilfærslukerfin hér á landi eru veik, og það hefur orðið til þess að launþegar sækja kaupmáttaraukningu sína fyrst og fremst í launaliðinn, ólíkt því sem þekkist á Norðurlöndum. Er þetta dæmi um hvernig skammsýni í rekstri ríkisins og sparnaður í velferðarkerfinu skilar sér í ítrekuðum vanáætlunum um launa- og verðlagskostnað og þar með í meiri kostnaði til langs tíma.

Þetta þarf ekki að vera svona – ákall um samstöðu.
    Þær umfangsmiklu breytingartillögur við fjármálaáætlun sem birtust nokkrum dögum fyrir afgreiðslu málsins, og verklagið sem þar endurspeglaðist, er býsna góð birtingarmynd þess hvernig ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fer með vald sitt. Því gefst ágætt tækifæri til að taka saman hvað gengur raunverulega á í rekstri velferðarsamfélags okkar.
    Áður en breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar birtust batt 2. minni hluti vonir við að breytingar til batnaðar kæmu fram eftir að umsagnir um fjármálaáætlun bárust víða að úr samfélaginu. Kannski kæmi loks viðbótarfjármagn til Landspítala. Niðurskurður í húsnæðismálum dreginn til baka. Hlustað yrði á málflutning hjúkrunarheimila um vanfjármögnun þjónustusamninga. Litið yrði til athugasemda fjármálaráðs um að tekjuhlið ríkissjóðs væri brostin sem ylli því að kerfislægur halli væri á ríkissjóði. Kannski sæi einhver í ríkisstjórninni að þeir tæplega 50 milljarðar kr. sem ríkisstjórnin tók úr tekjugrunni ríkissjóðs með almennum skattalækkunum án mótvægisaðgerða á síðasta kjörtímabili græfu nú undan trú fólksins í landinu á að við gætum raunverulega staðið saman og fjármagnað grunnþjónustu.
    Í staðinn birtast tillögur um að draga úr verðbólgu án þess að tekið sé á undirliggjandi rekstrarvanda og vanfjárfestingu. Þó að færa megi rök fyrir nauðsyn slíkra aðgerða er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar lýsandi fyrir stóru myndina sem birtist í fjármálaáætluninni. Þensla um þessar mundir er tilkomin vegna eftirmála heimsfaraldurs og aðgerða stjórnvalda. Mótvægisaðgerðir ættu að taka mið af því. Húsnæðismarkaðurinn er stór hluti af verðbólgu nú og leggst þar ofan á innflutta verðbólgu. Í ákveðnum atvinnugreinum hefur þensla skapast eftir ójafnvægi í heimsfaraldri. Nokkrar atvinnugreinar og kimar samfélagsins hafa uppskorið ríkulega í heimsfaraldri en sumir misst allt.
    Við sjáum methagnað í byggingariðnaði og fasteignaviðskiptum, líkt og BHM nefnir í umsögn sinni. Skýrist sá methagnaður m.a. af áherslum stjórnvalda um að örva hagkerfið í gegnum markað með heimili fólks, en eins af beinum úrræðum á borð við „Allir vinna“ sem byggingariðnaðurinn hefur hagnast á. Fjármálafyrirtæki skila hárri arðsemi eftir húsnæðislánabólu og stuðningsaðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem hafa gert bönkum kleift að auka eignir sínar verulega vegna takmarkaðs taps á tímum heimsfaraldurs. Og þróun á alþjóðamörkuðum skilar nú sjávarútvegi methagnaði. Svo að ekki sé minnst á fjármagnseigendur sem hafa fengið metávöxtun undanfarin ár eftir örvunaraðgerðir stjórnvalda sem hækkað hafa eignaverð á flestum mörkuðum.
    Þenslan er augljós. En hún er ekki alls staðar. Mótvægisaðgerðir gegn henni ættu að taka mið af því hvaða kimar samfélagsins hafa þanist út þegar aðrir hafa staðið í stað eða rýrnað í hinni miklu verðbólgu sem mælist nú.
    En hvað leggur ríkisstjórnin til við síðari umræðu um fjármálaáætlun? Krónutöluhækkanir til að auka tekjur sínar, sem taka eiga mið af hárri verðbólgu frekar en fyrri spám. Slík gjöld eru flötustu skattar sem til eru. Af því leiðir að tekjuhátt fólk sem á miklar eignir finnur minnst fyrir þeim og þau sem hafa lítið á milli handanna hlutfallslega mest. Er þetta eðlilegt mótvægi miðað við hvar þenslan í samfélaginu er?
    Þá ræðst ríkisstjórnin í 5–6 milljarða kr. viðbótarniðurskurð í grunnþjónustu með auknu aðhaldi og dregur úr framlögum til fjárfestinga um 10% frá núverandi fjárveitingu.
    Hvar er hvalrekaskatturinn sem sumir stjórnarliðar hafa talað fyrir? Það er hvalrekinn sem m.a. eykur núverandi verðbólgu. Ekki er einu sinni vilji fyrir því að ráðast í einskiptisaðgerðir til að mæta verðbólgunni sem fjarlægja fjármagn úr hagkerfinu, með skattlagningu eða gjöldum, þar sem arðsemin er í hæstu hæðum. Stórútgerðina má ekki snerta þrátt fyrir sterka stöðu, engan hvalreka er þar að finna. Greiningar hafa bent til að við fáum innan við 10% af raunverulegri auðlindarentu í ríkiskassann. Hvalrekann á að sækja til tekjulægri og viðkvæmra einstaklinga sem reiða sig hvað mest á velferðarkerfi okkar.
    Ljóst er að lækkun bankaskatts hefur ekki skilað sér í lægri gjöldum til viðskiptavina. Lækkunin leiddi vafalaust til aukinnar húsnæðisverðbólgu í landinu því að hún jók útlánasvigrúm banka á tímum heimsfaraldurs, sem leitaði allt inn á húsnæðismarkaðinn. Þar fóru 6 milljarðar kr. af skattfé. Það er jafnhá upphæð og nú bætist við niðurskurð í grunnþjónustu vegna breytingartillagna meiri hluta nefndarinnar og mætti sleppa ef fjármagnið væri raunverulega sótt á þá staði þar sem þenslan er upprunnin.
    Þrátt fyrir mikla hækkun fjármagnstekna getur ríkisstjórnin ekki einu sinni boðað einfalda aðgerð, sem er í raun lokun á glufu í skattareglum, um að koma í veg fyrir skattundanskot með því að nýta einkahlutafélög, þar sem einstaklingar komast upp með að greiða fjármagnstekjuskatt af launatekjum. Enn síður ætlar ríkisstjórnin sér að hrófla við almennri skattlagningu á fjármagn.
    Umræddar breytingartillögur eru því einstök innsýn í það hvernig ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur heldur á velferðarmálum. Til viðbótar við þau tekjuúrræði sem ríkisstjórnin lítur fram hjá þurfum við líka að eiga hreinskiptið samtal um almenna skattlagningu hér á landi. Velferðarríkið byggist á þeirri hugmynd að greitt sé fyrir samtryggingu og fólk fái úthlutað úr kerfinu eftir þörfum. Aðgerðir stjórnvalda undanfarin ár hafa rofið tengsl fólks við velferðarkerfið. Hvatt er til skattalækkana svo að fólk geti séð um sig sjálft í stað þess að hvetja til samstöðu.
    Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja að tengingin við velferðarsamfélagið rofni ekki. Ríkisstjórnin er hins vegar á góðri leið með að auka efasemdir landsmanna um að við getum staðið saman sem þjóð. Þær aðgerðir sem nú á að bæta við það afar þrönga svigrúm sem var þegar í fjármálaáætlun ýkja þessa þróun enn í stað þess að vinna á móti henni.

Alþingi, 13. júní 2022.

Kristrún Frostadóttir.