Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Nr. 21/152.

Þingskjal 1228  —  415. mál.


Þingsályktun

um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025.


    Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025.

1. Framkvæmdasjóður hinsegin málefna.
    Varið verði 40 millj. kr. samtals til verkefna sem styðja við málefni hinsegin fólks á vegum ráðuneyta á tímabilinu 2022–2025. Verkefnin verði samstarfsverkefni ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, ríkisstofnana eða háskólasamfélagsins og niðurstöður, reynsla og þekking verði nýtt á sviði málefna hinsegin fólks eða til að innleiða tillögur á grunni verkefna í aðgerðaáætlun.
    Forsætisráðuneytið auglýsi eftir umsóknum frá ráðuneytum og úthluti 10 millj. kr. árlega á tímabilinu að undangengnu faglegu mati skrifstofu jafnréttismála. Reglur sjóðsins og umsóknareyðublöð verði kynnt ráðuneytum fyrir 1. september 2022.
    Tímaáætlun: 2022–2025.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: 40 millj. kr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Aðalinntak heimsmarkmiðanna um að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

2. Staða Íslands á regnbogakorti ILGA-Europe.
    Unnið verði að því að koma Íslandi í eitt af efstu sætunum á regnbogakorti ILGA-Europe með réttarbótum og bættri stöðu hinsegin fólks.
    Markmiðið verði að koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks.
    Tímaáætlun: 2022–2025.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Aðalinntak heimsmarkmiðanna um að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

3. Kortlagning á stöðu og réttindum hinsegin fólks á Íslandi.
    Gerð verði rannsókn á stöðu og réttindum hinsegin fólks á Íslandi. Meðal annars verði horft til löggjafar og stefnumótunar stjórnvalda, stöðu hinsegin barna og ungmenna í skólum, stöðu á vinnumarkaði, stöðu eldri borgara innan hinsegin samfélagsins, aðgengis að félagslegri þjónustu og þjónustu heilbrigðiskerfisins og almennt til félagslegrar stöðu og réttinda. Leitað verði eftir samstarfi við Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum (RIKK) við framkvæmd rannsóknarinnar.
    Markmið aðgerðarinnar verði að kortleggja stöðu og réttindi hinsegin fólks á Íslandi til að útfæra frekari aðgerðir til hagsbóta fyrir hinsegin fólk í samfélaginu.
    Tímaáætlun: 2022–2024.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: 5 millj. kr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2, 10.3, 10.4, 16.6, 16.7, 16.10, 16.b og 17.17.

4. Líðan hinsegin öryrkja og aldraðra.
    Úttekt á líðan hinsegin öryrkja og aldraðra verði gerð og hún skoðuð út frá samfélagslegum þáttum og því markmiði að jafna stöðu öryrkja og aldraðra í samfélaginu. Hugað verði sérstaklega að líðan og stöðu þessa hóps í samfélaginu og litið til einangrunar og tjáningar.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka líðan og stöðu hinsegin öryrkja og aldraðra.
    Tímaáætlun: 2022–2024.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2, 10.3 og 10.4.

5. Líðan hinsegin fólks á landsbyggðinni.
    Úttekt á líðan hinsegin fólks á landsbyggðinni verði gerð og hún skoðuð út frá samfélagslegum þáttum og því markmiði að jafna búsetuskilyrði í landinu. Hugað verði sérstaklega að líðan og stöðu hinsegin fólks í litlum samfélögum á landsbyggðinni þar sem nálægð er mikil og atvinnulíf er víða einhæft.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka líðan og stöðu hinsegin fólks á landsbyggðinni.
    Tímaáætlun: 2022–2024.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samstarfi við innviðaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2, 10.3, 10.4., 11.a, 11.b og 11.3.

6. Fræðsla fyrir stjórnendur ríkisins um hinsegin málefni.
    Tryggt verði að stjórnendur og þeir sem fara með mannaforráð hjá ríkinu hafi þekkingu á málefnum hinsegin fólks á vinnumarkaði.
    Markmið aðgerðarinnar verði að efla fræðslu meðal stjórnenda ríkisins í samstarfi við hagsmunasamtök hinsegin fólks þannig að stjórnendur þekki til málefna og stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði.
    Tímaáætlun: 2023–2024.
    Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 8.8, 10.4, 16.6 og 16.10.

7. Fræðsla um hinsegin málefni fyrir lögreglu.
    Unnið verði fræðsluefni fyrir lögreglu um hinsegin málefni með það fyrir augum að tryggja betri þekkingu innan lögreglunnar á málaflokknum.
    Markmið aðgerðarinnar verði að fræðsluefni um hinsegin fólk, málefni og stöðu þess verði komið með skipulegum hætti til lögregluembætta landsins.
    Tímaáætlun: 2023–2024.
    Ábyrgð: Dómsmálaráðuneyti í samvinnu við ríkislögreglustjóra.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.3, 16.3, 16.6 og 16.10.

8. Hinsegin börn og ungmenni í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi.
    Unnið verði fræðsluefni um stöðu hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi, auk þess sem útbúnar verði leiðbeiningar fyrir þá sem bera ábyrgð á slíku starfi. Tekið verði mið af þörfum ólíkra hópa í skipulögðu íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Aðilar sem bera ábyrgð á starfseminni setji sér jafnréttisstefnu sem taki til þátttöku og aðgengis hinsegin barna og ungmenna að íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi.
    Markmiðið verði að tryggja þátttöku og aðgengi hinsegin barna og ungmenna að íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2 og 10.3.

9. Líðan hinsegin barna og ungmenna í skólum.
    Úttekt á líðan hinsegin barna í skólakerfinu verði samþætt við rannsóknir á líðan skólabarna og unnar tillögur um úrbætur á grundvelli niðurstaðna. Hugað verði sérstaklega að líðan og stöðu hinsegin barna og ungmenna í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka líðan og stöðu hinsegin barna og ungmenna.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 4.2, 4.5, 4.a, 5.c, 10.2 og 10.3.

10. Hinsegin fólk og heimilisofbeldi.
    Gerð verði rannsókn á heimilisofbeldi í hinsegin samböndum og fjölskyldum.
    Markmið aðgerðarinnar verði að skapa þekkingu á heimilisofbeldi meðal hinsegin fólks á Íslandi og vinna gegn því.
    Tímaáætlun: 2023–2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2, 10.3, 16.1, 16.3, 16.7 og 16.10.

11. Hatursorðræða og hatursglæpir – lagabreytingar.
    Breytingar verði gerðar á 233. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þannig að hatursorðræða á grundvelli kyneinkenna verði gerð refsiverð. Samhliða verði gert refsivert að neita einstaklingi um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli kyneinkenna. Jafnframt verði gerð breyting á 70. gr. sömu laga um refsihæð þannig að það leiði til refsiþyngingar ef brot telst hatursglæpur, þ.e. ef rekja má brot til tilgreindra atriða er varða brotaþola. Við ákvörðun refsingar verði litið til þess hvort brotið megi rekja til þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra sambærilegra þátta.
    Markmið aðgerðarinnar verði að endurskoða lagaákvæði almennra hegningarlaga um hatursorðræðu og hatursglæpi.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Dómsmálaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2, 10.3, 16.1, 16.3, 16.6, 16.7 og 16.10.

12. Breytingar á reglugerðum um hollustuhætti.
    Gerðar verði breytingar á reglugerð nr. 941/2002, um hollustuhætti, reglugerð nr. 814/2010, um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, og reglugerð nr. 460/2015, um baðstaði í náttúrunni.
    Markmið aðgerðarinnar verði að tryggja að tekið sé tilliti til trans fólks og þar á meðal fólks með hlutlausa kynskráningu í ákvæðum sem snúa að aðgengi að salernum og annarri aðstöðu.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.2 og 10.3.

13. Aðgengi trans fólks – vinnustaðir, sundstaðir, íþróttamannvirki.
    Skipaður verði starfshópur undir forystu forsætisráðuneytis til að vinna að heildarúttekt á aðgengismálum fyrir trans fólk út frá gildandi reglum og stöðu málaflokksins almennt. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og innviðaráðuneyti.
    Markmið aðgerðarinnar verði að skýra og samræma reglur um aðgengi trans fólks á vinnustöðum og almenningsrýmum, svo sem sundlaugum og öðrum íþróttamannvirkjum.
    Tímaáætlun: 2023–2024.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 8.8, 10.2 og 10.3.

14. Útfærsla söfnunar og skráningar kyngreindrar tölfræði hjá sveitarfélögum.
    Eyðublöð, skráningarform og skilríki, þar sem kynskráningar er krafist, verði samræmd þannig að gefinn sé kostur á hlutlausri kynskráningu auk karlkyns og kvenkyns.
    Markmið aðgerðarinnar verði að setja verklagsreglur um söfnun og skráningu kyngreindra tölfræðiupplýsinga.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 16.6 og 16.10.

15. Fræðsla um hinsegin málefni fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga.
    Boðið verði upp á fræðslu um hinsegin málefni fyrir alla kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga.
    Markmið aðgerðarinnar verði að auka þekkingu meðal kjörinna fulltrúa og starfsfólks sveitarfélaga um réttindi og félagslega stöðu hinsegin fólks.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 10.3 og 16.6.

16. Fjölbreytileiki á vinnumarkaði.
    Gerð verði könnun á viðhorfi og þekkingu atvinnurekenda á stöðu og aðgengi hinsegin fólks að vinnumarkaði.
    Markmið aðgerðarinnar verði að vekja athygli á stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði og mikilvægi fjölbreytileika á vinnustöðum.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 8.8 og 10.3.

17. Hinsegin sjávarútvegur og landbúnaður.
    Gerð verði könnun á viðhorfi og stöðu hinsegin fólks innan sjávarútvegs og landbúnaðar.
    Markmið aðgerðarinnar er að vekja athygli á stöðu hinsegin fólks í sjávarútvegi og landbúnaði og mikilvægi fjölbreytileika í öllum atvinnugreinum.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Matvælaráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 8.8 og 10.3.

18. Verklagsreglur teymis Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum.
    Tryggð verði viðeigandi og fordómalaus heilbrigðisþjónusta fyrir trans fólk og teymi Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum setji sér verklagsreglur í samræmi við viðurkenndar vinnureglur á alþjóðavettvangi.
    Markmið aðgerðarinnar verði að setja verklagsreglur sem byggjast á nýjustu rannsóknum í málaflokknum.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 3.8 og 5.6.

19. Reglugerð um heilbrigðisþjónustu.
    Reglugerðarheimild í 3. mgr. 13. gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, verði nýtt til að setja reglugerð um heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga sem falla undir lögin.
    Markmið aðgerðarinnar verði að skýra betur hlutverk teymis Barna- og unglingageðdeildar Landspítala um kynvitund þegar kemur að þjónustu við einstaklinga sem falla undir lögin og hvaða sérfræðiþjónustu sé nauðsynlegt að tryggja þeim sem leita eftir þjónustu teymisins.
    Tímaáætlun: 2023–2024.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 3.8 og 5.6.

20. Reglugerð um blóðgjafir.
    Gerðar verði breytingar á reglugerð nr. 441/2006, um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs, og viðauka IV við sömu reglugerð í því skyni að afnema mismunun gagnvart samkynhneigðum þegar kemur að blóðgjöf.
    Markmið aðgerðarinnar verði að afnema mismunun sem blóðgjafar hafa sætt á grundvelli kynhneigðar.
    Tímaáætlun: 2022–2023.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 3.8 og 5.6.

21. Utanríkisstefna með áherslu á réttindi hinsegin fólks.
    Utanríkisráðuneyti nýti áfram öll tækifæri til að leggja ríka áherslu á mannréttindi hinsegin fólks í alþjóðlegu samstarfi og í samskiptum við önnur ríki og leitist þannig við að hafa jákvæð áhrif á stöðu hinsegin fólks um allan heim. Stjórnvöld nýti sér þá stöðu og reynslu sem Ísland hefur þegar kemur að réttindum og félagslegri stöðu hinsegin fólks til að auka vernd og réttindi þess annars staðar í heiminum.
    Markmið aðgerðarinnar verði að stjórnvöld leggi sérstaka áherslu á réttindi hinsegin fólks í utanríkisstefnu Íslands.
    Tímaáætlun: 2022–2025.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneyti.
    Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Aðalinntak heimsmarkmiðanna um að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

Samþykkt á Alþingi 13. júní 2022.