Ferill 418. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1246  —  418. mál.
Viðbót.

Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðlaugu Einarsdóttur, Elsu B. Friðfinnsdóttur og Önnu Birgit Ómarsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Svein Margeirsson frá Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit, Maríu Fjólu Harðardóttur og Vilborgu Gunnarsdóttur frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, Stefán Vilbergsson og Valdísi Ösp Árnadóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Gunnar Örn Gunnarsson og Söndru Bryndísardóttur Franks frá Sjúkraliðafélagi Íslands, Eddu Dröfn Daníelsdóttur og Guðbjörgu Pálsdóttur frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Árna Múla Jónasson frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Berglindi Indriðadóttur og Sigrúnu Huld Þorgrímsdóttur frá Farsælli öldrun – þekkingarmiðstöð.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Farsælli öldrun – þekkingarmiðstöð, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Landssamtökunum Þroskahjálp, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Sjúkraliðafélagi Íslands og Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit.
    Með tillögunni er lagt til að mótuð verði stefna um heilbrigðisþjónustu við aldrað fólk sem verði grundvöllur aðgerðaáætlunar til ársins 2030. Tillagan er byggð á stefnudrögum sem heilbrigðisráðherra lét vinna vorið 2021 og framsetning tekur mið af áherslum í samþykktri heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Í þeirri heilbrigðisstefnu er lögð áhersla á sjö meginviðfangsefni sem endurspeglast í fyrirliggjandi tillögu en þá með áherslu á eldra fólk og heilbrigðisþjónustu við það.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin fagnar framkominni tillögu og telur mikilvægt að marka skýra stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldrað fólk. Almenn ánægja er með tillöguna meðal umsagnaraðila en lögð er rík áhersla á gott og virkt samráð við notendur þjónustunnar, hagsmunaaðila og sérfræðinga við framkvæmd stefnunnar, gerð aðgerðaáætlunar og framkvæmd aðgerða. Tekur nefndin undir mikilvægi virks og breiðs samráðs og samvinnu um verkefnið.

Samþætting þjónustu.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að nauðsynlegt væri að móta sameiginlega stefnu í heilbrigðis- og félagsþjónustu við aldraða og undir forystu þeirra ráðuneyta sem færu með málaflokkana. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að horft sé á þjónustu við eldra fólk á breiðum grunni og þar á meðal til félagslegrar þjónustu. Slík áhersla er einnig í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Nefndin áréttar að verkefnastjórnin sem kveðið er á um í tillögunni og mælt er fyrir um í stjórnarsáttmálanum á einmitt að líta heildstætt á þjónustu við eldra fólk og að þar verði þessi samþætting því tekin til frekari umfjöllunar og skoðunar.

Réttindi fatlaðs fólks.
    Nefndinni var bent á mikilvægi þess að við stefnumótun sem lýtur að heilbrigðisþjónustu við aldrað fólk yrði sérstaklega litið til þeirra skyldna sem hvíla á íslenska ríkinu samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nefndin tekur undir mikilvægi þess og beinir því til framangreindrar verkefnastjórnar að líta sérstaklega til málefna eldra fatlaðs fólks og þjónustu við það.

Greiðsla húsnæðiskostnaðar til hjúkrunarheimila.
    Nefndinni var bent á að enn ríki ákveðin óvissa með greiðslur til hjúkrunarheimila. Bent var á þá sameiginlegu niðurstöðu vinnuhóps heilbrigðisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu að skoða þurfi húsnæðiskostnað hjúkrunarheimila sérstaklega og taka ákvörðun um hver eigi að standa straum af honum og hvernig haga beri fjármögnun og rekstri húsnæðis hjúkrunarheimilanna.
    Nefndin bendir á að nú þegar hafa verið stigin skref í þá átt með yfirlýsingu sem heilbrigðisráðherra gaf út 1. mars í tengslum við nýjan samning um aukið fjármagn til hjúkrunarheimila og úrbætur til framtíðar, þar sem fram kom að ráðherra myndi beita sér fyrir stofnun starfshóps um húsnæðismál hjúkrunarheimila sem fjármálaráðuneyti stýrir.

Einstaklingsbundin þjónustuáætlun.
    Í tillögunni er lögð ítarleg áhersla á einstaklingsmiðaða heilbrigðisþjónustu og persónumiðaða og samþætta þjónustu. Í 6. lið tillögunnar er m.a. vísað til þess að eitt af stefnumiðum til ársins 2030 sé að innleiða einstaklingsbundna þjónustuáætlun sem byggist á heildrænu öldrunarmati. Samband íslenskra sveitarfélaga lagði til við nefndina að í stað þess að tala um einstaklingsbundna þjónustuáætlun yrði notað hugtakið „stuðningsáætlun“ sem væri þá í samræmi við hugtakanotkun í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, og þá umræðu sem verið hefði um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Nefndin telur mikilvægt að skýrt sé við hvað er átt og hugsanlega gæti breytt orðanotkun verið til skýringar og samræmis. Nefndin bendir þó á að mikilvægt er að slík breyting sé gerð að undangenginni umræðu og í sátt við alla hagaðila. Nefndin beinir því til verkefnastjórnar að taka þetta til skoðunar og áréttar að í henni eiga sæti tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem geti tekið málið upp á þeim vettvangi.

Hugsað til framtíðar með nýsköpun.
    Nefndin leggur áherslu á mikilvægi nýsköpunar og rannsókna í framþróun heilbrigðisþjónustu við aldrað fólk og tekur undir áherslur tillögunnar á stóraukna notkun velferðartækni. Fyrir nefndinni var bent á tækifæri til að bæta þjónustu og mikilvægi þess að tengja markvissar rannsóknir við tilrauna- og þróunarverkefni sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila við að leysa áskoranir, hvort sem er á víðfeðmum og dreifbýlum svæðum eða í þéttbýli þar sem tækifæri til samþættingar geta verið mjög ólík.
    Í umsögn Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar er sagt frá þróunarverkefni hjá sameinuðu sveitarfélagi þar sem fyrirhugað er að búa til ramma um þjónustuna þar sem litið verður til skipulags á samþættri félags- og heilbrigðisþjónustu sem veitt er eldra fólki, til innleiðingar velferðartækni og fjarlausna og til uppbyggingar akstursþjónustu vegna hæfingar, dagdvalar og félagsstarfs.
    Með vísan til efnis tillögunnar og þess sem þegar hefur komið fram um mikilvægi þess að samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu telur nefndin mikilvægt að verkefnastjórnin líti til slíkra verkefna, stuðli að faglegu mati og úttekt á reynslu af þeim og hafi til hliðsjónar þá þekkingu sem þegar er til hjá ólíkum sveitarfélögum og mismunandi stofnunum og fyrirtækjum.

Breytingartillögur.
Áratugur heilbrigðrar öldrunar.
    Eitt af þeim verkefnum sem lagt er til að ráðist verði í til að skýra hlutverk og vinna að bættri stjórnun og samhæfingu í heilbrigðiskerfinu er að skipaður verði starfshópur vegna Áratugar heilbrigðrar öldrunar, þvert á ráðuneyti og með þátttöku heilbrigðisstétta, sbr. b-lið 1. liðar tillögunnar. Samband íslenskra sveitarfélaga vakti athygli á því að þegar sambærileg vinna átti sér stað varðandi samþættingu í þjónustu við börn hafi sambandið fengið að tilnefna einstakling í þann starfshóp. Sambandið benti á að sveitarfélög bæru mikla ábyrgð þegar kæmi að þjónustu við eldra fólk og þörf væri á að tengja þessa vinnu við umfjöllun um kostnaðarþátttöku og ábataskipti ríkis og sveitarfélaga. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið sambandsins og telur þátttöku fulltrúa sambandsins í verkefnastjórn sérstaklega mikilvæga við leit að leiðum til frekari samþættingar þjónustu. Nefndin leggur til breytingu þessu til samræmis en áréttar að Samband íslenskra sveitarfélaga mun eiga tvo fulltrúa í þeirri verkefnastjórn sem kveðið er á um í tillögunni og mælt fyrir um í stjórnarsáttmálanum.
    Þá leggur nefndin til smávægilegar orðalagsbreytingar sem hafa ekki efnisleg áhrif og þarfnast ekki skýringa.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 4. mgr.
                  a.      Í stað orðanna „Þær tillögur að aðgerðum sem Alþingi leggur til í þingsályktun þessari verða“ í 1. málsl. komi: Aðgerðirnar verði.
                  b.      2. málsl. orðist svo: Svo að framangreind framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu við aldraða verði að veruleika heyri hluti aðgerða undir önnur ráðuneyti eða stjórnvöld en heilbrigðisráðherra.
     2.      Við b-lið kafla 1. kafla, Forysta til árangurs, bætist orðin: og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

    Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 2. mgr. 29. gr. þingskapa. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 13. júní 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðný Birna Guðmundsdóttir. Guðrún Hafsteinsdóttir. Halldóra Mogensen.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Orri Páll Jóhannsson. Óli Björn Kárason.