Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1247  —  332. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Frá 3. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Rammaáætlun er mikilvæg tilraun til að ná eins miklu jafnvægi og unnt er á milli ólíkra sjónarmiða varðandi þau landsvæði sem mögulegt væri að nýta undir orkuvinnslu. Á undanförnum árum hefur verið þróuð aðferðafræði til að bera saman hagsmuni af orkuvinnslu við aðra nýtingu svæðanna, eins og í þágu ferðaþjónustu eða náttúruverndar. Samhliða því að aðferðafræðin hefur þróast í verkefnisstjórnum rammaáætlunar hefur tillagan sjálf setið föst í höndum stjórnarflokkanna. Síðast samþykkti Alþingi heildstæða tillögu um rammaáætlun árið 2013, við hana bættist einn virkjunarkostur með ályktun Alþingis 2015. Sú tillaga sem hér er til umfjöllunar var fyrst lögð fram árið 2016 og er nú lögð fram í fjórða sinn. Þessi pólitíska pattstaða, sem skrifast fyrst og fremst á núverandi stjórnarflokka, hefur grafið undan tiltrú almennings á rammaáætlun sem verkfæri og byggt upp gríðarlegan þrýsting á orkuframleiðslu.
    Sú niðurstaða sem ríkisstjórnin hefur komið sér saman um, eins og hún birtist í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, gerir síðan illt verra með því að byggjast síst á faglegum rökum heldur pólitískum hrossakaupum. 3. minni hluti telur mikilvægt að þróa rammaáætlun áfram sem það verkfæri sem henni er ætlað að vera til að meta heildarhagsmuni þar sem upp koma hugmyndir um raforkuframleiðslu, en að jafnframt verði hún að þróast í samræmi við aukna áherslu á náttúruvernd.

Pólitísk pattstaða spillir ferlinu.
    Óhætt er að segja að núverandi stjórnarflokkar hafi ólíka stefnu hvað varðar náttúruvernd og orkuvinnslu. Það endurspeglast í því hvernig haldið hefur verið á rammaáætlun frá árinu 2013, en á því tímabili hafa fulltrúar allra þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn setið í embætti umhverfisráðherra.
    Að loknum kosningum 2013 lét Sigurður Ingi Jóhannsson það verða eitt sitt fyrsta verkefni í embætti umhverfis- og auðlindaráðherra að hætta við stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Þó að sú stækkun hafi fyrst og fremst byggst á náttúruverndarlögum og gríðarlegu verndargildi svæðisins, þá hafði mikil áhrif að Norðlingaölduveita hafði stuttu áður verið samþykkt af Alþingi í verndarflokk rammaáætlunar.
    Sami asi einkenndi ekki það hvernig ráðherrann studdi við starf verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Þó að verkefnisstjórn hafi verið skipuð af fyrri ráðherra snemma árs 2013, þá voru faghópar 1 og 2 ekki skipaðir fyrr en ári síðar og fengu ekki virkjunarkosti inn á borð til sín fyrr en að öðru ári liðnu. Enn lengra leið þar til allir faghópar voru skipaðir. Faghópur 3 var ekki skipaður fyrr en fjórum mánuðum eftir að virkjunarkostir lágu fyrir og faghópur 4 var ekki skipaður fyrr en heilum sjö mánuðum eftir að verkefninu var ýtt úr vör. Þegar við bættist að vegna Panamaskjalanna var boðað til kosninga fyrr en ella, þá var þeirri vinnu sem verkefnisstjórn og faghópar hefðu átt að sinna á fjögurra ára tímabili í raun þjappað saman á rúmlega eitt ár. Þegar hér var komið sögu lagði Sigrún Magnúsdóttir, sem þá hafði tekið við umhverfisráðuneyti, fram tillögu á Alþingi svo skömmu fyrir kosningar haustið 2016 að aldrei var við því búist að hún næði fram að ganga (145. lþ., 853. mál).
    Tillaga þessi um niðurstöður þriðja áfanga rammaáætlunar var aftur lögð fram af umhverfis- og auðlindaráðherra vorið 2017 (146. lþ., 207. mál), um svipað leyti og ráðherrann skipaði verkefnisstjórn fjórða áfanga til að halda vinnunni áfram. Þar með byrjaði að myndast sú undarlega staða, sem hefur aðeins ágerst á þeim tíma sem liðinn er, að unnið er að fleiri en einni rammaáætlun á sama tíma, án þess að nýr áfangi byggist á hinum fyrri samþykktum. Sú tillaga sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar heyrir til þriðja áfanga, en fjórði áfangi var í vinnslu árin 2017–2021 og verkefnisstjórn fimmta áfanga var skipuð í apríl 2021. Hætt er við að þessu fylgi óþarft flækjustig og að heildarsýn tapist.
    Þriðja framlagning tillögu um rammaáætlun varð ekki fyrr en þremur árum síðar, veturinn 2020–2021, síðasta þingvetur þess kjörtímabils. Sú töf sem varð á framlagningu kom á óvart þegar litið er til þess að enn var um óbreytta tillögu frá árinu 2016 að ræða. Helgaðist töfin því ekki af faglegu endurmati á forsendum áætlunarinnar heldur pólitískum samningaviðræðum milli stjórnarflokkanna. Á kjörtímabilinu 2017–2021 fléttaði ríkisstjórnin saman umræðu um rammaáætlun við tvö óskyld mál, frumvörp um þjóðgarðastofnun og um hálendisþjóðgarð. Hrossakaup þess kjörtímabils endurspegluðust í því að þegar frumvarp um hálendisþjóðgarð leit dagsins ljós (151. lþ., 369. mál) var þar opnað fyrir virkjanaframkvæmdir vítt og breitt um miðhálendið, sem hefði dregið verulega úr möguleikum til verndar svæðisins. Þegar upp var staðið náði ekkert málanna þriggja fram að ganga fyrir kosningar 2021.

Verðmæti óbyggðra víðerna og endurheimt vistkerfa.
    Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint áratuginn 2021–2030 sem áratug endurheimtar vistkerfa. Endurheimt vistkerfa er ein grundvallarstoðin til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. 43% óbyggðra víðerna (e. uninhabited wilderness areas) Evrópu eru á Íslandi. 1 Tillagan er nú endurflutt af fjórða umhverfisráðherranum í röð án þess að taka tillit til afstöðu almennings eða fjölgunar ferðamanna sem hefur tekið umtalsverðum breytingum á þeim tíma sem liðinn er síðan faghópar verkefnisstjórnar lögðu mat á svæðin. Óbyggð víðerni eru fágæt og dýrmæt annars vegar vegna vistfræðilega þáttarins; líffræðilegs fjölbreytileika og bindingar kolefnis; og hins vegar vegna fagurfræðilega þáttarins; hingað sækir stór hluti ferðamanna sem njóta þess að upplifa ósnortna náttúru auk heimamanna.
    Aðferðafræði rammaáætlunar tekur ekki nægilegt tillit til þess að líta verði til verndar heildstæðra svæða sem eru verðmæt af því að þau eru stór, tiltölulega óröskuð og einstök. Sú fjölþáttagreining sem rammaáætlun styðst við hefur ýmsa kosti en hún tekur ekki nægilegt tillit til svæða sem hafa sérstakt mikilvægi eða verðmæti sem erfitt er að ná utan um með fjölþáttagreiningu, en eru eftir sem áður studd af náttúruverndarlögum. 2
    Samtök ferðaþjónustunnar bentu á í umsögn sinni að lítið tillit hefði verið tekið til efnahagslegra og samfélagslegra þátta þar sem ekki lágu fyrir nægar forsendur til að mæla þessa þætti. 3 Samtökin benda á að 80% erlendra ferðamanna sæki Ísland heim vegna óspilltrar náttúru og því sé mikilvægt að halda landslagsheildum óröskuðum og viðhalda þannig þeirri sérstöðu sem landið hefur sem ferðamannaland, en það er ein arðbærasta og sjálfbærasta nýting landsins fyrir samfélagið til framtíðar. Það er bagalegt að einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar hafi fengið svo lítið vægi í hagsmunamati áætlunarinnar. Þessi aðferðafræði hefur góðu heilli þróast í þeim áföngum sem unnist hafa á síðustu árum, þannig að binda má vonir við að í fimmta áfanga rammaáætlunar, sem nú er í vinnslu innan stjórnsýslunnar, verði betur hugað að þessum ólíku þáttum. En sú staða sýnir hversu bagalegt það er að hafa haldið áfram vinnu við síðari áfanga rammaáætlunar án þess að hafa lokið afgreiðslu þriðja áfangans.
    Í ljósi þess hve lengi vinna við þriðja áfanga rammaáætlunar hefur dregist hafa forsendur eðli málsins samkvæmt breyst og ýmsar upplýsingar sem hún byggist á eru úreltar. Tillaga umhverfisráðherra fjallar aðeins um þriðja áfangann, en fjórði og fimmti áfanginn er enn í vinnslu í ráðuneytinu. Það skortir því alla heildarmynd og náttúran tapar. Réttara væri að stíga varlega til jarðar þegar kemur að því að færa virkjunarkosti úr vernd eða í nýtingarflokk þegar ljóst liggur fyrir að endurmat þarf að fara fram með tilliti til nýrra forsendna.

Tillögur um breytta flokkun tiltekinna virkjunarkosta.
    Grunnhugmyndafræði rammaáætlunarinnar er of virkjanamiðuð. Þegar eru til staðar ónýttir virkjunarkostir úr öðrum áfanga og orkuþörf er ekki svo brýn að nauðsynlega þurfi að virkja töluvert víðar til að stuðla að sjálfbærni. 4 Nálgunin gengur út á að öll landsvæði séu föl til orkuvinnslu vatns, vinds eða gufu, nema sýnt sé fram á ríka verndarhagsmuni. Þessu ætti að vera öfugt farið; náttúran ætti að fá að njóta vafans og aðeins ætti að virkja ef ríkir almannahagsmunir eru þar að baki. Ekki ætti að láta skammtímamarkmið um gróða ráða för þegar horfa þarf til framtíðar. Flokkun svæða í orkunýtingarflokk hefur langvarandi og óafturkræf áhrif og því mikilvægt að vanda til verka.

Nauðsynleg tiltekt Orkustofnunar.
    Með bréfi 7. júní 2022 tilkynnti Orkustofnun umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti um þá ákvörðun sína að draga til baka 28 virkjunarkosti sem hafa verið til umfjöllunar í rammaáætlun. Um er að ræða virkjunarkosti sem bætt var við áætlunina að frumkvæði Orkustofnunar sjálfrar án þess að eiginlegur virkjunaraðili væri að baki hugmyndinni. Þessar munaðarlausu hugmyndir flæktust þannig í raun fyrir umfjöllun um kosti sem raunverulegur áhugi er á að hrinda í framkvæmd.
    Þriðji minni hluti telur að virkjunarkostir sem komu til skoðunar að frumkvæði Orkustofnunar hafi á síðustu árum flækst fyrir framþróun í náttúruverndarmálum. Nærtækast er að benda á friðland að Fjallabaki, þar sem endurskoðun á friðlýsingarskilmálum fór fram á árunum 2017–2020. Samhliða þeirri endurskoðun var rætt um að stækka mörk friðlandsins, sem hafa verið óbreytt frá árinu 1979, svo að þau næðu a.m.k. yfir alla Torfajökulseldstöðina. Slík stækkun hefði orðið erfiðari, ekki síst vegna þeirrar pólitísku pattstöðu sem var í þáverandi ríkisstjórn, vegna þess að friðlandið er umkringt fjórum af þeim virkjunarkostum sem Orkustofnun leggur nú til að fella brott úr rammaáætlun (Sköflungi, Botnafjöllum, Grashaga og Sandfelli). 3. minni hluti fagnar sérstaklega þessari hreingerningu.

Héraðsvötn.
    Meiri hlutinn leggur til að færa Héraðsvötn úr verndarflokki í biðflokk. Öll rök um vernd óraskaðra vatnasvæða og óbyggðra víðerna eru látin lönd og leið en virkjanir á þessu mikilvæga víðernasvæði hálendisins myndu skerða náttúruna á óafturkræfan og langvarandi hátt. Héraðsvötn voru flokkuð í verndarflokk fyrir að vera einfaldlega með dýrmætustu náttúruna af faghópi 1, sem lagði m.a. mat á náttúruverðmæti. Þá komst faghópur 2 að þeirri niðurstöðu að jökulárnar í Skagafirði væru mjög mikilvægar fyrir ferðaþjónustu, bæði á landsvísu og í héraði.
    Tilllaga meiri hlutans um að færa Héraðsvötn úr verndarflokki í biðflokk er rökstudd með því að neikvæð áhrif fyrirhugaðra virkjana kunni að vera ofmetin. 3. minni hluta þykir meiri hlutinn hér snúa röksemdafærslunni á hvolf. Vatnasvið Héraðsvatna var flokkað í verndarflokk vegna ótvíræðs verndargildis þess. Meiri hlutinn færir engin rök fyrir tilfærslunni önnur en að vilja sýna sérstaklega mikla varúð gagnvart hagsmunum virkjunaraðila, þegar réttara væri að leyfa náttúrunni að njóta vafans. Ekki verður séð að það sé byggt á faglegum rökum heldur pólitískum vilja til að virkja sem mest.
    Þriðji minni hluti leggur því til að virkjunarkostir í Héraðsvötnum flokkist áfram í verndarflokk.

Kjalölduveita.
    Áratugum saman barðist heimafólk og náttúruverndarsinnar gegn gölnum hugmyndum Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu, sem sökkt hefði Þjórsárverum. Eftir að Alþingi samþykkti árið 2013 að setja Norðlingaölduveitu í verndarflokk annars áfanga rammaáætlunar tók Landsvirkjun til við að endurhanna veituhugmyndir á svæðinu svo að úr varð virkjunarkosturinn Kjalölduveita. Þar hefur áhrifasvæðið verið dregið út fyrir friðland Þjórsárvera, en að lokinni athugun faghópa komst verkefnisstjórn að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin hefði áhrif á sama landsvæði og Norðlingaölduveita og því væru forsendur flokkunar í verndarflokk þær sömu.
    Í umsögn Landsvirkjunar er því haldið fram að verkefnisstjórnin hafi sett Kjalölduveitu í verndarflokk með ólögmætum hætti án umfjöllunar faghópa. 5 Þessi rök eru hrakin í svari umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis við afstöðu þess til umsagnar Landsvirkjunar. 6 Að mati ráðuneytisins hlaut virkjunarkosturinn fullnægjandi umfjöllun, með vísan til bréfa formanna faghópa verkefnisstjórnar frá árinu 2015. 7 Samkvæmt bréfinu var Kjalölduveita tekin til umfjöllunar og metin samkvæmt viðurkenndri og vel skilgreindri aðferðafræði. Ráðuneytið bendir á að samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun sé hlutverk verkefnisstjórnar að vinna drög að tillögum um flokkun virkjunar- og verndarsvæða í samræmi við flokkunina. Það er því verkefnisstjórnar að meta hvaða landsvæði virkjunarkostur hefur áhrif á og gera tillögur að afmörkun virkjunar- og verndarsvæða. Verkefnisstjórnin hefur heimild að lögum til að afmarka svæðin eins og hún telur nauðsynlegt og leggja til flokkun þeirra í verndar-, bið- eða orkunýtingarflokk.
    Í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er þrátt fyrir þetta tekið undir gagnrýni Landsvirkjunar og lagt til að færa Kjalölduveitu úr verndarflokki í biðflokk. 3. minni hluti getur engan veginn fallist á þau sjónarmið og leggur því til að færa Kjalölduveitu aftur í verndarflokk. Jafnframt beinir 3. minni hluti því til stjórnar Landsvirkjunar að leggja endanlega til hliðar tilraunir fyrirtækisins til að leggja Þjórsárver í rúst í þágu virkjunarframkvæmda. Þær eftirhreytur af stóriðjustefnunni hafa valdið nógu miklum usla í samfélaginu.

Neðri-Þjórsá.
    Þriðji minni hluti tekur undir það álit meiri hluta nefndarinnar að sterk rök séu fyrir því að færa Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun úr orkunýtingarflokki í biðflokk.
    Þriðji minni hluti telur mikilvægt að skoða sérstaklega áhrif virkjana á lífríki árinnar. Um er að ræða vistsvæði eins stærsta laxastofns landsins auk þess sem á svæðinu eru stórir stofnar sjógengins urriða. Atlantshafslax á undir högg að sækja vegna ágangs mannsins. Þrátt fyrir þá óvissu sem er uppi um virkni seiðafleytna og áhrif vatnsmagns- og rennslisbreytinga á gönguleiðir, hrygningarstöðvar og uppeldisstöðvar laxfiska hefur verkefnisstjórn bætt öllum þremur virkjunum í Neðri-Þjórsá við í orkunýtingarflokk.
    Í greinargerð með tillögunni er bent á að þeirri óvissu verði ekki eytt á því stjórnsýslustigi sem verkefnisstjórn rammaáætlunar starfar á, heldur þurfi að fjalla um hana í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og við leyfisveitingar. Hér telur 3. minni hluti ástæðu til að benda á annmarka sem er á lögum nr. 111/2021, um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þar sem lögin fjalla um afgreiðslu leyfis til matsskyldra framkvæmda í 27. gr. laganna segir að leggja skuli álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat hennar til grundvallar. Þetta þýðir í reynd að neikvæð niðurstaða í umhverfismati kemur ekki í veg fyrir framgang jafnvel þeirra framkvæmda sem hafa allra neikvæðustu umhverfisáhrifin, þar sem leyfisveitandi getur litið fram hjá niðurstöðunni ef hann kýs. Úr þessu þarf að bæta með því að taka fram í 3. mgr. 29. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana að óheimilt sé að veita leyfi fyrir framkvæmdum sem Skipulagsstofnun hefur lagst gegn til að vernda hagsmuni náttúrunnar. Sambærilegt ákvæði var til staðar um nokkurra ára skeið en var fellt brott úr lögunum þegar álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati Kárahnjúkavirkjunar þótti standa í vegi fyrir þeim framkvæmdum sem þáverandi stjórnvöld voru mjög áfram um að næðu fram að ganga.
    Þriðji minni hluti styður þá tillögu meiri hluta nefndarinnar að færa Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun úr orkunýtingarflokki í biðflokk, en telur að ef ekki verði gengið lengra muni lítið fara fyrir heildstæðu endurmati á öllum þremur virkjunarkostum í Neðri-Þjórsá. Einföld tilmæli í nefndaráliti varðandi Hvammsvirkjun hafa ekki þau réttaráhrif sem nauðsynleg eru til að veita verkefnisstjórn það umboð sem nauðsynlegt er til að endurmeta alla þrjá kostina að fullu.
    Leggur 3. minni hluti því til að allir þrír virkjunarkostir í Neðri-Þjórsá verði færðir úr orkunýtingarflokki í biðflokk.

Hvalárvirkjun.
    Hvalárvirkjun var í orkunýtingarflokki í verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var 14. janúar 2013. Sú staða var óbreytt við fyrstu framlagningu þeirrar tillögu sem hér er til umfjöllunar, sem lögð var fyrir Alþingi 1. september 2016. Frá þeim tíma hafa forsendur virkjunarinnar breyst, m.a. við það að Skipulagsstofnun skilaði álitsgerð vegna hennar 3. apríl 2017 þar sem byggt var á matsskýrslu Vesturverks. Þar koma fram ýmis neikvæð áhrif Hvalárvirkjunar. 3. minni hluti bendir sérstaklega á að Skipulagsstofnun telur að áhrif Hvalárvirkjunar á ásýnd, landslag og víðerni verði verulega neikvæð þrátt fyrir mótvægisaðgerðir. Náttúrufræðistofnun Íslands og alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN hafa hvatt til friðlýsingar Drangajökulssvæðisins, enda er um að ræða ein stærstu ósnortnu víðerni í Evrópu. Jafnframt metur Skipulagsstofnun að Hvalárvirkjun hefði veruleg áhrif á náttúruminjar sem njóta verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga.
    Að framangreindu virtu leggur 3. minni hluti til að Hvalárvirkjun verði færð úr orkunýtingarflokki í biðflokk og því beint til verkefnisstjórnar að endurmeta virkjunarkostinn á grundvelli nýrra upplýsinga.

Búrfellslundur.
    Á undanförnum árum hefur tækni til að beisla vindorku fleygt fram. Þegar tillaga um rammaáætlun var síðast samþykkt vorið 2013 beindi meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar því til ráðherra að láta störf næstu verkefnisstjórnar taka einnig til vindorku. Meiri hlutinn talaði á þeim tíma um vindorku sem „framtíðarkost“, en hún tilheyrir nú svo sannarlega samtímanum. Þeir tveir vindorkukostir sem til umfjöllunar eru í þriðja áfanga rammaáætlunar eru ákveðið frumkvöðlaverkefni, tilraun til að þróa verkfærið til að ná utan um nýja tegund orkuvinnslu. Er það mat 3. minni hluta að vindorka eigi heima innan rammaáætlunar og mikilvægt að þróa lagarammann þannig að skýrt sé kveðið á um það.
    Meiri hlutinn telur ótímabært að færa Búrfellslund úr biðflokki í nýtingarflokk. 3. minni hluti telur að sá virkjunarkostur kunni að falla vel að starfsemi nærliggjandi vatnsaflsvirkjunar, en telur mikla óvissu ríkja um það hvort tilfærsla meiri hlutans sé yfirleitt tæk. Sá virkjunarkostur sem verkefnisstjórn þriðja áfanga mat er allt annars eðlis en sá sem meiri hlutinn lítur til úr fjórða áfanga hvað varðar alla ásýnd, umfang og staðsetningu. 3. minni hluti geldur varhug við því að virkjunarkostur sé í raun færður frá fjórða áfanga rammaáætlunar inn í þá tillögu sem hér er til umfjöllunar á grundvelli vinnu verkefnisstjórnar þriðja áfanga. Þá bendir 3. minni hluti á að verkefnisstjórn fjórða áfanga flokkaði endurhannaðan Búrfellslund í biðflokk líkt og verkefnisstjórn þriðja áfanga. Það er núna eitt af viðfangsefnum núverandi verkefnisstjórnar í fimmta áfanga rammaáætlunar að fullnusta greiningu á virkjunarkostinum, m.a. á grundvelli nýjustu upplýsinga um áhrif virkjunarkostsins á óbyggð víðerni.

Samandregin afstaða 3. minni hluta.
    Þriðji minni hluti:
     *      styður tillögu meiri hlutans um að færa Skrokköldu, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun úr orkunýtingarflokki í biðflokk, en leggur til viðbótar til að gera slíkt hið sama með Hvammsvirkjun, svo að eins sé farið með alla þrjá virkjunarkosti í Neðri-Þjórsá,
     *      leggst gegn tillögu meiri hlutans um að færa Kjalölduveitu og virkjanir í Héraðsvötnum úr verndarflokki í biðflokk og styður ekki að Búrfellslundur verði færður úr biðflokki í nýtingarflokk,
     *      leggur til að Hvalárvirkjun verði færð úr orkunýtingarflokki í biðflokk.

Pattstaða og pólitísk málamiðlun á kostnað náttúrunnar.
    Ríkisstjórnir Katrínar Jakobsdóttur hafa átt í vandræðum með að afgreiða rammaáætlun þau fimm ár sem þær hafa setið á valdastóli. Af því hefur hlotist tvenns konar skaði.
    Annars vegar hefur byggst upp gríðarlegur þrýstingur á virkjanir utan rammaáætlunar. Verndar- og orkunýtingaráætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011. Óþreyja eftir afgreiðslu rammaáætlunar í tíð síðustu ríkisstjórna hefur orðið til þess að fjölmargir virkjunaraðilar hafa skipulagt virkjunarkosti rétt undir 10 MW mörkunum til að komast fram hjá ferlinu. Þær virkjanir hafa oft gríðarlegt umhverfisrask í för með sér og ljóst er að þessu þarf að breyta. Sömu ábendingar komu fram við afgreiðslu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar á öðrum áfanga rammaáætlunar vorið 2013, en því miður hefur þeim ríkisstjórnum sem síðan hafa farið með málaflokkinn ekki auðnast að taka á vandanum. Þegar við bætist að neikvætt álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati virkjana bindur ekki hendur sveitarfélaga við leyfisveitingar er ljóst að mikill þrýstingur getur byggst upp, sér í lagi á fámenn sveitarfélög sem rík eru að landnæði og náttúruauðlindum.
    Hins vegar hefur byggst upp svo mikill þrýstingur á að ljúka afgreiðslu tillögunnar að heildarsýn á hagsmuni náttúrunnar hefur gleymst hjá meiri hlutanum. Rammaáætlun er risastór málamiðlun milli ólíkra hagsmuna. Á lokametrunum ákveða stjórnarflokkarnir hins vegar að ganga enn lengra með því að gera pólitíska málamiðlun sem er ekki studd sterkum faglegum rökum. Þessi málamiðlun er ekki í þágu náttúru Íslands heldur eru þetta pólitísk hrossakaup sem eru fyrst og fremst hugsuð til að viðhalda völdum þeirra flokka sem nú skipa ríkisstjórnina, niðurstaða sem snýst um að standa með sjónarmiðum hagsmunaafla í virkjanageiranum. Ríkisstjórn Íslands ber skylda til að vernda náttúruna, bæði fyrir komandi kynslóðir en ekki síður fyrir náttúruna sjálfa. Það er döpur staða fyrir náttúruverndarhreyfinguna að sjá þessa þróun eiga sér stað hjá ríkisstjórn sem stýrt er af flokki sem eitt sinn þótti standa framarlega í baráttunni fyrir náttúruvernd. Sú niðurstaða sem meiri hlutinn hefur komið sér saman um lýsir skammsýni í þágu gróðasjónarmiða virkjunarsinna á tímum þegar nær hefði verið að leyfa náttúrunni að njóta vafans.

    Að framangreindu virtu leggur 3. minni hluti til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstökum þingskjölum og gerð hefur verið grein fyrir. Önnur tillagan er lögð fram með 1. og 2. minni hluta nefndarinnar.

Alþingi, 13. júní 2022.

Andrés Ingi Jónsson.


1     wildlandresearch.org/wp-content/uploads/sites/39/2022/03/Iceland-Wilderness-Report_FINAL_ March16-3_compressed-med.pdf, bls. 3.
2     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-986.pdf
3     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-955.pdf
4     kjarninn.is/frettir/ekki-rettlaetanlegt-ad-virkja-meira-a-thessu-stigi/
5     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-964.pdf
6     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-1195.pdf
7     www.althingi.is/altext/erindi/152/152-1197.pdf