Ferill 575. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1287  —  575. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

Frá 2. minni hluta velferðarnefndar.


    Í mars 2022 kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi, nánar tiltekið varðandi stefnu, skipulag, kostnað og árangur. Í stuttu máli má segja að íslenska geðheilbrigðiskerfið hafi fengið falleinkun. Fjölmargar brotalamir á núverandi geðheilbrigðiskerfi komu fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. Eins og þar segir þá er geta stjórnvalda til að tryggja nauðsynlega þjónustu undir væntingum og bið eftir þjónustu er almennt of löng og ekki í samræmi við markmið stjórnvalda. Stjórnvöld skortir yfirsýn um stöðu geðheilbrigðismála en upplýsingar um tíðni og þróun geðsjúkdóma liggja ekki fyrir og ekki hefur farið fram greining á þjónustu- og mannaflaþörf Landspítala. Ekki er haldin miðlæg skrá um biðlista og upplýsingar um fjárþörf og raunkostnað geðheilbrigðisþjónustunnar liggja ekki á reiðum höndum. Tölur um óvænt eða alvarleg atvik við veitingu geðheilbrigðisþjónustu eru ekki með góðu móti aðgengilegar og á það einnig við um fjölda kvartana til embættis landlæknis. Þá er skráning á beitingu þvingunarúrræða ekki til staðar. Áréttuð er í skýrslu Ríkisendurskoðun nauðsyn þess að bætt verði úr þessu. 1
    Sérstök stefna um geðheilbrigðismál var ekki sett hér á landi fyrr en með aðgerðaráætlun fyrir árin 2016–2020, sem hefur nú runnið sitt skeið án þess að ný hafi tekið gildi. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ný stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 taki gildi. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er gott verkfæri til að rýna stefnuna og leggja mat á hvort hún er til þess fallin að leysa úr vandamálum geðheilbrigðiskerfisins og stuðla þannig að bættri geðheilsu þjóðarinnar.
    Það sem skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir svo glöggt er að það er þörf á því að endurskoða málaflokkinn í heild. Íslenska geðheilbrigðiskerfið byggist að miklu leyti á úreltri nálgun á geðheilbrigði og geðheilsu. Því miður ber stefnan ekki með sér að verið sé að endurskoða stoðir kerfisins, heldur miklu frekar að plástra núverandi kerfi. Það er rík þörf fyrir að grípa til nýrrar nálgunar í málaflokknum og telur 2. minni hluti miður af þetta tækifæri verði ekki nýtt til þess.
    Einn stærsti galli núverandi kerfis er skortur á heildrænni nálgun þar sem einstaklingum er mætt á þeirra forsendum, með þeirra hagsmuni að leiðarljósi. Kerfið er ekki hugsað út frá upplifun notenda, heldur út frá skipulagningu þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu. Afleiðingin er sú að geðheilbrigðisþjónusta er brotakennd, samskipti á milli mismunandi eininga eru takmörkuð og handahófskennd. Kerfið er hugsað á grundvelli þess að sjúkdómsgreina og flokka notendur eftir því hvernig kerfið skilgreinir þá, en ekki út frá þörfum hvers og eins. Staðreyndin er sú að flest fólk þarf á einhverjum tímapunkti aðstoð fagfólks í geðheilbrigðisþjónustu. Það lendir enda í alls konar áföllum í lífinu og margt býr við erfiðar félagslegar aðstæður, bæði á uppvaxtarárum og seinna á lífsleiðinni. Með því að bjóða einstaklingsmiðaða þjónustu og það snemma, áður en vandi verður þyngri og flóknari, má koma í veg fyrir mörg af þeim vandamálum sem núverandi kerfi reynir að leysa.
    Þá verður að horfa til þess að eftir því sem vandi viðkomandi eykst þá verður kerfið óskilvirkara – einstaklingur sem þarf margþætta þjónustu er líklegri til þess að fá brotakennda þjónustu og að falla á milli kerfa, lenda á þeim mörgu gráu svæðum sem fjallað er um í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
    Eitt af stóru púslunum sem vantar í allri umræðu um stefnu í geðheilbrigðismálum er það hvaða áhrif félagslega kerfið hefur á geðheilsu. Mörg, og jafnvel flest, þeirra vandamála sem geðheilbrigðiskerfinu er ætlað að leysa eiga rætur sínar að rekja í félagslega kerfinu, þar sem áhrifarík snemmtæk íhlutun getur komið í veg fyrir mörg vandamál síðar meir. Það að setja stefnu sem tekur ekki mið af aðgerðum í félagslega kerfinu getur aldrei orðið heildstæð, sem er nauðsynleg forsenda þess að ná fram árangursríkum breytingum í geðheilbrigðiskerfinu.

Alþingi, 14. júní 2022.

Halldóra Mogensen.


1     www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-gedheilbrigdismal.pdf