Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1292  —  143. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um tillögu til þingsályktunar um tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Þingsályktunartillagan mælir fyrir um að forsætisráðherra sé falið að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin geri tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks og að við vinnuna verði miðað við að uppfylla að minnsta kosti markmið stöðuskýrslu ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um einföldun gildandi regluverks frá september 2014 og sértækar jafnt sem almennar aðgerðir útlistaðar og tímasettar. Lagt er til að forsætisráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina á vorþingi 2022.
    Í tillögunni felst að aðgerðaáætlun forsætisráðherra verði kynnt á vorþingi 2022. Þar sem fyrirséð er að forsætisráðherra yrði ómögulegt að framkvæma efni ályktunarinnar innan þeirra tímamarka sem þar eru tilgreind er ekki unnt að samþykkja tillöguna óbreytta. Meiri hlutinn tekur undir að einfalda þurfi regluverk en telur aftur á móti ekki æskilegt að slíkar aðgerðir og gerð áætlana byggist á stöðuskýrslu sem gerð var fyrir tæplega átta árum. Margt hefur breyst innan íslensks stjórnkerfis og þurfa slíkar aðgerðir að grundvallast á nýjustu gögnum og upplýsingum sem völ er á.
    Meiri hlutinn leggur því til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að gera úttekt á nauðsyn þess að regluverk verði einfaldað.
    Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 14. júní 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Diljá Mist Einarsdóttir,
frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Orri Páll Jóhannsson.