Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1303, 152. löggjafarþing 350. mál: stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).
Lög nr. 65 27. júní 2022.

Lög um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).


I. KAFLI
Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

1. gr.

     3. og 4. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

2. gr.

     3.–6. mgr. 3. gr. laganna falla brott.

3. gr.

     15. gr. a laganna fellur brott.

4. gr.

     15. gr. b laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Nýting sjávargróðurs.
     Enginn má stunda þangslátt í atvinnuskyni nema hafa fengið til þess leyfi sem Fiskistofa gefur út til allt að fimm ára í senn. Leyfið skal bundið við þau sláttutæki, eða sláttupramma, sem hagnýtt eru af leyfishafa. Leyfið er óskiptanlegt og óframseljanlegt.
     Um heimild til þangsláttar í fjöru eða netlögum sjávarjarðar fer samkvæmt samkomulagi við ábúanda eða landeiganda. Er nægilegt að meiri hluti eigenda eða fyrirsvarsmaður skv. 1. mgr. 9. gr. jarðalaga, nr. 81/2004, veiti samþykki sé það ekki til lengri tíma en tíu ára.
     Ráðherra er heimilt að binda leyfi samkvæmt þessari grein skilyrðum sem varðað geta m.a. löndun, vigtun, eftirlit og skráningu. Þá er leyfi háð skilyrði um að leyfishafi hafi gert nýtingaráætlun um töku þangs sem gildi a.m.k. í fimm ár í senn. Skal áætlun uppfærð áður en sláttur hefst á hverju ári. Í henni skal greina hvaða tæki verði hagnýtt við slátt, hvaða magn verði slegið, hvar verði slegið og eftir atvikum hvaða svæði verði hvíld eftir slátt til að örva endurvöxt. Skal áætlunin byggjast á mati á lífmassa þangs og líklegu aðgengi að því í fjörum. Leitast skal við að gera grein fyrir áhrifum nýtingar á umhverfið með hliðsjón af þeim sláttutækjum og sláttuaðferðum sem verða hagnýtt. Drög að nýtingaráætlun skal leyfishafi kynna Hafrannsóknastofnun skriflega. Hafrannsóknastofnun skal, að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, veita umsögn um nýtingaráætlunina. Leyfishafa er skylt í nýtingaráætlun að greina athugasemdir stofnunarinnar og hvernig brugðist hafi verið við þeim.
     Ráðherra er heimilt, sé talin þörf á að koma í veg fyrir staðbundna ofnýtingu á tilteknum stofni, að ákveða að öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni utan fjörusvæða sé auk almenns veiðileyfis háð sérstöku leyfi Fiskistofu, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Auk þeirra skilyrða sem þar greinir má binda leyfi sömu skilyrðum og greinir í 1. og 3. mgr. Geta leyfi þessi verið til allt að 10 ára í senn. Ráðherra getur kveðið nánar á um gerð og innihald nýtingaráætlana í reglugerð, um skilyrði fyrir tæki og búnað við öflun sjávargróðurs og um form og efni ákvörðunar um leyfi vegna öflunar á sjávargróðri.

5. gr.

     15. gr. c laganna fellur brott.

6. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða XVII–XIX í lögunum falla brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018.

7. gr.

     Orðið „klóþangs“ í 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023. Leyfi til öflunar sjávargróðurs í atvinnuskyni sem eru í gildi á því tímamarki skulu uppfylla skilyrði laga þessara og geta þá gilt til allt að fimm ára.

Samþykkt á Alþingi 15. júní 2022.