Ferill 592. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Nr. 29/152.

Þingskjal 1364  —  592. mál.


Þingsályktun

um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025.


    Alþingi ályktar í samræmi við 7. gr. laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda fyrir árin 2022–2025. Í því skyni verði lögð áhersla á fimm stoðir, þ.e. samfélagið, fjölskylduna, menntun, vinnumarkað og flóttafólk.

FRAMKVÆMDAÁÆTLUN Í MÁLEFNUM INNFLYTJENDA FYRIR ÁRIN 2022–2025.

1. Samfélagið.
    Þátttaka fólks af erlendum uppruna eykur fjölbreytileika, eflir íslenskt samfélag og menningu og er ein forsenda fyrir vexti efnahagslífsins. Samfélagsstoð framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda dragi fram áherslu á að stuðla að samfélagi þar sem öll geti verið virkir þátttakendur, óháð þjóðerni og uppruna. Fagleg, vönduð og upplýsandi umfjöllun um innflytjendur og þátttöku þeirra í samfélaginu verði þar höfð að leiðarljósi. Sjónarmið fjölmenningar endurspeglist í stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera með áherslu á jafnrétti fyrir alla íbúa landsins. Mikilvægt er að hugað verði áfram að því að tryggja innflytjendum gott aðgengi að opinberum þjónustustofnunum, bæði á vettvangi ríkis og sveitarfélaga og að tillit verði tekið til ólíkra þjónustuþarfa innflytjenda svo að þekking þeirra og reynsla fái að njóta sín í samfélaginu. Tryggt verði að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu.
    Lögð verði áhersla á eftirfarandi þætti fyrir þróun samfélagsins:
     a.      Stefnumótun.
     b.      Aðgang innflytjenda að þjónustu ríkis og sveitarfélaga.
     c.      Fræðslu fyrir starfsfólk og þekkingarmiðlun.

1.1. Mótun stefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og fjölmenningar.
1.1.1. Markmið: Móta skýra og heildstæða langtímastefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og fjölmenningar sem miði að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði með það að markmiði að auka gagnkvæman skilning og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, óháð uppruna og þjóðerni. Litið skuli til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og þingsályktunar nr. 43/150. Sérstök áhersla verði lögð á félagsleg réttindi, heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnuþátttöku þannig að á Íslandi verði fjölmenningarsamfélag þar sem grundvallarstefin eru jafnrétti, réttlæti og virðing fyrir einstaklingnum.
1.1.2. Framkvæmd/lýsing: Settur verði á fót starfshópur sem falið verði að taka saman grænbók sem hluta af stefnumótunarferli stjórnvalda. Í grænbókinni verði teknar saman upplýsingar um málefni innflytjenda og útlendinga á Íslandi, stöðu, tölfræði, samanburð við önnur lönd og umfjöllun um ólíkar leiðir eða áherslur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa. Við gerð grænbókarinnar verði framkvæmdaraðilum, samstarfsaðilum og hagsmunaaðilum boðið að taka þátt og leggja fram sjónarmið um áherslur, mögulegar lausnir eða leiðir að árangri. Grænbókin birtist í opnu samráðsferli í samráðsgátt. Að loknu samráði um grænbók verði mótuð hvítbók þar sem fjallað verði um niðurstöður samráðs, framtíðarsýn fyrir málaflokkinn, markmið og aðgerðir sem stjórnvöld áforma að kynna í nýrri stefnu.
1.1.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
1.1.4. Dæmi um samstarfsaðila: Fulltrúar viðeigandi ráðuneyta, hagsmuna- og þjónustuaðilar, hagsmunafélög innflytjenda, fulltrúar sveitarfélaga, aðilar vinnumarkaðarins, frjáls félagasamtök og stofnanir á sviði menntunar og heilbrigðisþjónustu.
1.1.5. Hagaðilar/markhópur: Samfélagið.
1.1.6. Tímabil: 2022–2025.
1.1.7. Kostnaður: 12 millj. kr., innan fjárheimilda.
1.1.8. Niðurstaða: Hvítbók – drög að stefnu.

1.2. Ráðgjafarstofa fyrir innflytjendur.
1.2.1. Markmið: Boðið verði upp á aðgengilega ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar fyrir innflytjendur á einum stað um nauðsynlega þjónustu, réttindi þeirra og skyldur og upplýsingamiðlun um hvert skuli leita til þess að fá úrlausn mála. Ráðgjafarstofa fyrir innflytjendur þjóni sem fyrsti viðkomustaður fólks í leit að upplýsingum og ráðgjöf.
1.2.2. Framkvæmd/lýsing: Gerð verði úttekt og mat lagt á reynsluna af Ráðgjafarstofu fyrir innflytjendur sem hefur sinnt tímabundnu þjónustuúrræði vegna COVID-19 og tekin ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag þjónustunnar með tilliti til staðsetningar og rafrænna lausna.
1.2.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
1.2.4. Dæmi um samstarfsaðila: Innflytjendaráð, Fjölmenningarsetur, opinberar stofnanir, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, félagasamtök og aðilar vinnumarkaðarins.
1.2.5. Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur.
1.2.6. Tímabil: 2022.
1.2.7. Kostnaður: Kostnaðarmat verði unnið í framhaldinu innan fjárheimilda.
1.2.8. Niðurstaða: Aðgengileg þjónusta og ráðgjöf fyrir innflytjendur verði á einum stað.

1.3. Gagnaöflun og þekkingarmiðlun.
1.3.1. Markmið: Þróa vettvang þar sem unnt er að miðla rannsóknum, þekkingu og tölfræðilegum upplýsingum er varða málefni innflytjenda og flóttafólks í íslensku samfélagi.
1.3.2. Framkvæmd/lýsing:
     a.      Skapaður verði vettvangur þar sem unnt er að miðla rannsóknum, þekkingu og tölfræðilegum upplýsingum gagnvirkt og myndrænt.
     b.      Áfram verði mælt viðhorf samfélagsins til innflytjenda á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar og breytingar greindar milli mælinga.
     c.      Viðhorf innflytjenda verði kannað með tilliti til atvinnu, menntunar og aðgengis að upplýsingum og þjónustu ríkis og sveitarfélaga, þátttöku barna og ungmenna í félagsstarfi og tungumálakunnáttu.
1.3.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
1.3.4. Dæmi um samstarfsaðila: Fjölmenningarsetur, sérfræðingar á sviði félagsvísindarannsókna, Hagstofa Íslands, háskólasamfélagið, sveitarfélög og Vinnumálastofnun.
1.3.5. Hagaðilar/markhópur: Samfélagið.
1.3.6. Tímabil: 2022–2025.
1.3.7. Kostnaður: 5 millj. kr., innan fjárheimilda.
1.3.8. Niðurstaða: Aukin þekkingarmiðlun og reglubundnar viðhorfsmælingar.

1.4. Fræðsla fyrir starfsfólk ríkis og sveitarfélaga.
1.4.1. Markmið: Efla þekkingu starfsfólks ríkis og sveitarfélaga á menningarnæmi og menningarfærni.
1.4.2. Framkvæmd/lýsing:
     a.      Innleidd verði fræðsla sem þróuð verði á vegum Fjölmenningarseturs undir yfirskriftinni Fjölbreytni auðgar – samtal um góða þjónustu í samfélagi margbreytileikans.
     b.      Fjölmenningarsetur standi fyrir reglulegum fræðsluerindum í samstarfi við fagaðila og markvissri upplýsingamiðlun til sveitarfélaga, stofnana og annarra aðila sem koma að þjónustu við innflytjendur.
1.4.3. Ábyrgð: Fjölmenningarsetur.
1.4.4. Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, þjónustustofnanir og fjölmenningarfulltrúar sveitarfélaga og Rauði krossinn á Íslandi.
1.4.5. Hagaðilar/markhópur: Framlínustarfsfólk þjónustustofnana og sveitarfélaga og fleiri, svo sem starfsfólk í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.
1.4.6. Tímabil: 2022–2025.
1.4.7. Kostnaður: 4 millj. kr., innan fjárheimilda.
1.4.8. Niðurstaða: Aðgengileg fræðsluerindi fyrir framlínustarfsfólk.

1.5. Fjölmenningarstefnur og móttökuáætlanir sveitarfélaga.
1.5.1. Markmið: Stuðla að því að fjölmenningarsjónarmið og hagsmunir innflytjenda séu samþætt í stefnumótun og þjónustu sveitarfélaga.
1.5.2. Framkvæmd/lýsing: Opinber þjónusta og stefnumótun taki mið af ólíkum þörfum mismunandi hópa í samfélaginu með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.
     a.      Fjölmenningarsetur veiti sveitarfélögum og stofnunum stuðning við gerð móttökuáætlana og fjölmenningarstefna. Þau sveitarfélög sem þegar hafa innleitt fjölmenningarstefnur verði leiðandi sveitarfélög í málefnum fjölmenningar og veiti öðrum sveitarfélögum ráðgjöf og hvatningu til þess að innleiða fjölmenningarstefnur og ráða fjölmenningarfulltrúa sé þess óskað.
     b.      Komið verði á samstarfi Fjölmenningarseturs og Jafnréttisstofu um stuðning við sveitarfélög sem hyggjast sameina/samþætta fjölmenningarstefnur og jafnréttisáætlanir samkvæmt lögum um stjórnsýslu jafnréttismála.
1.5.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
1.5.4. Dæmi um samstarfsaðila: Fjölmenningarsetur, Jafnréttisstofa, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, innflytjendur og hagsmunaaðilar.
1.5.5. Hagaðilar/markhópur: Sveitarfélög og stofnanir.
1.5.6. Tímabil: 2022–2024.
1.5.7. Kostnaður: 8 millj. kr., innan fjárheimilda.
1.5.8. Niðurstaða:
     a.      Fjöldi sveitarfélaga hafi innleitt fjölmenningarstefnur og sett sér markmið og áætlanir til þess að koma í veg fyrir mismunun.
     b.      Samstarf Fjölmenningarseturs og Jafnréttisstofu um stuðning við sveitarfélög aukist.

1.6. Fræðsla og upplýsingar um íslenskt samfélag verði aðgengilegar á helstu tungumálum innflytjenda.
1.6.1. Markmið: Gera samfélagsfræðsluefni sem þróað hefur verið aðgengilegt á helstu tungumálum innflytjenda.
1.6.2. Framkvæmd/lýsing: Upplýsingar og fræðsla um íslenskt samfélag, sögu þess, menningu, hefðir og venjur og almennar upplýsingar um réttindi og skyldur verði aðgengilegar á helstu tungumálum innflytjenda. Upplýsingarnar verði aðgengilegar á opnum vef og þeim miðlað í rituðum texta og í formi kynningarmyndbanda. Huga skuli að fjölbreyttum leiðum til framsetningar og miðlunar efnis með tilliti til örra breytinga í nútímaupplýsingamiðlun og samskiptaleiðum.
1.6.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
1.6.4. Dæmi um samstarfsaðila: Vinnumálastofnun, Fjölmenningarsetur og símenntunarmiðstöðvar.
1.6.5. Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur og flóttafólk.
1.6.6. Tímabil: 2022–2025.
1.6.7. Kostnaður: 5 millj. kr., innan fjárheimilda.
1.6.8. Niðurstaða: Þýtt efni aðgengilegt á vef og notkun á því mæld.

1.7. Samfélagstúlkun.
1.7.1. Markmið: Þau sem ekki tala íslensku eigi kost á faglegri túlkun af og á eigið tungumál í samskiptum þeirra við stjórnvöld og þjónustuaðila. Tryggt sé að þau sem ekki skilja íslensku fái fullnægjandi aðstoð á ólíkum sviðum samfélagsins.
1.7.2. Framkvæmd/lýsing: Gætt verði að fullnægjandi gæðum túlkunar og að samfélagstúlkar búi yfir góðri þekkingu og hæfni til þess að miðla milli aðila sem ekki tala sama tungumál. Sett verði viðmið um gæði og mat á túlkaþjónustu. Stjórnvöld skýri framkvæmd og mismunandi skilning á því hvenær þau sem ekki tala íslensku eigi rétt á túlkun, hvernig bregðast skuli við erindum sem ekki berast á íslensku og hver beri ábyrgð.
1.7.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
1.7.4. Dæmi um samstarfsaðila: Túlkaþjónustur, túlkar, Fjölmenningarsetur, Ríkiskaup, mennta- og barnamálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, þjónustukaupendur, svo sem sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir, og aðilar vinnumarkaðarins.
1.7.5. Hagaðilar/markhópur: Notendur túlkaþjónustu.
1.7.6. Tímabil: 2022–2025.
1.7.7. Kostnaður: Innan fjárheimilda.
1.7.8. Niðurstaða: Viðmið um gæði og mat á túlkaþjónustu liggi fyrir. Skýrari framkvæmd og sameiginlegur skilningur á því hvenær þau sem ekki tala íslensku eigi rétt á túlkun í samskiptum sínum við stjórnvöld og þjónustuaðila og hvernig beri að bregðast við erindum sem berast á öðrum tungumálum en íslensku.

2. Fjölskyldan.
    Í fjölskyldustoð framkvæmdaáætlunar verði dregnar fram þær aðgerðir sem snúa að málefnum fjölskyldna og barna, félagslegu öryggi og velferð. Lögð verði áhersla á stuðning við þá hópa innflytjenda sem standa höllum fæti og skortir stuðningsnet hér á landi. Rík áhersla verði lögð á stuðning til aðlögunar við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra, m.a. gegnum skóla- og frístundastarf og með auknu aðgengi að íslensku- og samfélagsfræðslu. Horft verði til möguleika á móðurmálsfræðslu og fræðslu um félagsleg réttindi.
    Lögð verði áhersla á eftirfarandi þætti fyrir þróun samfélagsins:
     a.      Þátttöku innflytjenda á öllum sviðum samfélagsins.
     b.      Húsnæðismál.
     c.      Félagslegt öryggi og velferð.

2.1. Þátttaka barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
2.1.1. Markmið: Auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi sem og öðru tómstundastarfi og draga úr brotthvarfi þeirra úr slíku starfi.
2.1.2. Framkvæmd/lýsing:
     a.      Kynningarefni fyrir börn og foreldra um íþrótta- og æskulýðsstarf og frístundastyrki verði gert aðgengilegra á algengustu tungumálum innflytjenda.
     b.      Rýnd verði verkefni sem reynst hafa vel bæði hér á landi og í nágrannalöndum til þess að efla og auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi.
2.1.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið.
2.1.4. Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, ÍSÍ, samtök innflytjenda með áherslu á ungt fólk, UMFÍ, Samfés og Æskulýðsvettvangurinn.
2.1.5. Hagaðilar/markhópur: Börn og ungmenni af erlendum uppruna.
2.1.6. Tímabil: 2022–2025.
2.1.7. Kostnaður: 3 millj. kr., innan fjárheimilda.
2.1.8. Niðurstaða: Þátttaka barna af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi aukist.

2.2. Ungmenni af erlendum uppruna sem eru hvorki í vinnu né í námi.
2.2.1. Markmið: Fækka ungmennum af erlendum uppruna sem eru hvorki í vinnu né í námi.
2.2.2. Framkvæmd/lýsing: Greina nánar stöðu ungmenna af erlendum uppruna á aldrinum 16–19 ára, sem ekki eru í námi eða starfi, og grípa til aðgerða til þess að efla þátttöku þeirra í námi og/eða starfi sem byggist á niðurstöðum greiningar.
2.2.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
2.2.4. Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneytið, Hagstofa Íslands, Vinnumálastofnun, innflytjendaráð, sveitarfélög, skólar, náms- og starfsráðgjafar, UMFÍ, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og aðilar vinnumarkaðarins.
2.2.5. Hagaðilar/markhópur: Ungmenni af erlendum uppruna.
2.2.6. Tímabil: 2022.
2.2.7. Kostnaður: 5 millj. kr., innan fjárheimilda.
2.2.8. Niðurstaða: Lagðar verði fram tillögur um aðgerðir til þess að auka virkni 16–19 ára ungmenna af erlendum uppruna í námi og/eða starfi.

2.3. Fötluð börn af erlendum uppruna og stuðningur við aðstandendur þeirra.
2.3.1. Markmið: Efla stuðning við fötluð börn af erlendum uppruna og aðstandendur þeirra. Fræðsluefni fyrir þjónustuveitendur og aðstandendur fatlaðra barna af erlendum uppruna verði aðgengilegt.
2.3.2. Framkvæmd/lýsing:
     a.      Innflytjendafjölskyldum standi til boða aukinn stuðningur og leiðbeiningar í gegnum þjónustukerfin.
     b.      Fræðsluefni um réttindi fatlaðs fólks samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja ásamt upplýsingum um þjónustu og stuðning sem því stendur til boða sé aðgengilegt á fjölda tungumála.
2.3.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
2.3.4. Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneytið, Ráðgjafar- og greiningarstöð, sveitarfélög, stafrænt Ísland (island.is), Fjölmenningarsetur, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og samtök sem vinna að málefnum innflytjenda og fatlaðs fólks.
2.3.5. Hagaðilar/markhópur: Fötluð börn af erlendum uppruna og aðstandendur þeirra.
2.3.6. Tímabil: 2022.
2.3.7. Kostnaður: 6 millj. kr., innan fjárheimilda.
2.3.8. Niðurstaða: Þjónusta við fötluð börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra verði betri og upplýsingar um málefni fatlaðs fólks á helstu tungumálum innflytjenda á Íslandi verði aðgengilegri.

2.4. Innflytjendur á húsnæðismarkaði.
2.4.1. Markmið: Upplýsa innflytjendur vel um réttindi sín á húsnæðismarkaði til að þeir nýti sér þau úrræði, aðstoð og þjónustu sem í boði er.
2.4.2. Framkvæmd/lýsing:
     a.      Upplýsingar og kynningar verði bættar með sérstaka áherslu á lögheimilisskráningu og húsnæðisstuðning ríkis og sveitarfélaga. Tryggt verði að öll úrræði sem kynnt eru vegna aðgerða á húsnæðismarkaði séu kynnt á fleiri tungumálum en íslensku.
     b.      Upplýsingar, ráðgjöf og fræðsla um réttindi og skyldur leigjenda og leigusala íbúðarhúsnæðis verði gerðar aðgengilegar á helstu tungumálum innflytjenda á Íslandi.
     c.      Áhersla verði lögð á að rannsóknir og kannanir sem gerðar eru á aðstæðum á íslenskum húsnæðismarkaði nái einnig til innflytjenda og séu greindar eftir fleiri bakgrunnsbreytum til þess að fá skýrari mynd á stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaði.
2.4.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
2.4.4. Dæmi um samstarfsaðila: Þjóðskrá Íslands, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Hagstofa Íslands, samtök sem vinna að málefnum innflytjenda og réttindum neytenda, Fjölmenningarsetur og innflytjendaráð.
2.4.5. Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur á húsnæðismarkaði.
2.4.6. Tímabil: 2022–2023.
2.4.7. Kostnaður: 5 millj. kr., innan fjárheimilda.
2.4.8. Niðurstaða:
     a.      Upplýsingamiðlun til innflytjenda um húsnæðisstuðning og aðgerðir á húsnæðismarkaði verði betri.
     b.      Leiðbeiningar og upplýsingar um réttindi og skyldur leigjenda verði aðgengilegar.
     c.      Niðurstöður rannsókna og kannana gefi upplýsingar um stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaði.

2.5. Aldraðir af erlendum uppruna.
2.5.1. Markmið: Greina hagi og líðan aldraðra af erlendum uppruna. Draga úr félagslegri einangrun aldraðra af erlendum uppruna.
2.5.2. Framkvæmd/lýsing:
     a.      Hagir og líðan aldraðra af erlendum uppruna verði rannsökuð. Sérstök áhersla verði lögð á að kanna framfærslu og fátækt meðal hópsins, aðgengi að upplýsingum og meðvitund um þau réttindi sem aldraðir af erlendum uppruna njóta í íslensku samfélagi.
     b.      Upplýsingar um réttindi og skyldur aldraðra á Íslandi og þjónustu við þá verði gerðar aðgengilegar á helstu tungumálum innflytjenda á Íslandi.
     c.      Unnið verði að því, í samvinnu við sveitarfélög, að auka þátttöku aldraðra af erlendum uppruna í félagsstarfi fyrir fullorðna með það að markmiði að draga úr félagslegri einangrun og einmanaleika meðal aldraðra innflytjenda.
     d.      Kannað verði hvort umönnunarálag og framfærsluábyrgð aðstandenda aldraðra innflytjenda sé meiri en almennt gerist meðal fjölskyldna aldraðra af íslenskum uppruna.
2.5.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
2.5.4. Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneytið, sérfræðingar á sviði félagsvísindarannsókna, sveitarfélög og félagasamtök sem vinna að málefnum innflytjenda og aldraðra.
2.5.5. Hagaðilar/markhópur: Aldraðir af erlendum uppruna.
2.5.6. Tímabil: 2022–2023.
2.5.7. Kostnaður: 8 millj. kr., innan fjárheimilda.
2.5.8. Niðurstaða:
     a.      Könnun verði lögð fyrir á fimm ára fresti og samanburður gerður milli ára.
     b.      Upplýsingar um málefni aldraðra verði aðgengilegar á helstu tungumálum innflytjenda á Íslandi.

2.6. Ofbeldi.
2.6.1. Markmið: Þolendur og gerendur ofbeldis af erlendum uppruna þekki þá þjónustu og úrræði sem í boði eru. Þjónustu- og viðbragðsaðilar fái fræðslu um málefni innflytjenda, menningarnæmi og fjölmenningu.
2.6.2. Framkvæmd/lýsing:
     a.      Tryggt verði að fræðsla og úrræði fyrir þolendur og gerendur ofbeldis um allt land taki mið af þörfum innflytjenda sem ekki tala nægilega vel íslensku eða ensku og hugað verði sérstaklega að þörfum barna.
     b.      Haldin verði námskeið fyrir starfsfólk í framlínu þjónustustofnana og sérfræðinga í nærþjónustu, svo sem félagsráðgjafa, náms- og starfsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga, kennara og lögreglu, um flóknar birtingarmyndir ofbeldis. Áhersla verði lögð á norræna samvinnu og að fá til landsins sérfræðinga frá öðrum Norðurlandaþjóðum til þess að miðla þekkingu sinni og reynslu.
2.6.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
2.6.4. Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, Fjölmenningarsetur, innflytjendaráð, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Bjarkarhlíð, Heimilisfriður, heilsugæslan, Rauði krossinn á Íslandi, Nordens Velfærdscenter (NVC) og norrænir sérfræðingar í málefnum innflytjenda.
2.6.5. Hagaðilar/markhópur: Þolendur og gerendur ofbeldis og starfsfólk í framlínu þjónustustofnana.
2.6.6. Tímabil: Viðvarandi.
2.6.7. Kostnaður: 2 millj. kr., innan fjárheimilda.
2.6.8. Niðurstaða: Þekking aukist á úrræðum sem í boði eru. Þekking aukist á birtingarmyndum ofbeldis.

3. Menntun.
    Unnið verði markvisst að því að fleira ungt fólk með erlendan bakgrunn ljúki námi úr framhaldsskóla. Áhersla verði lögð á stuðning á öllum skólastigum, m.a. með aukinni áherslu á kennslu í íslensku sem annað tungumál, stuðning við móðurmál og fjöltyngi þeirra barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Gert verði átak í starfsþróun kennara svo að þeir séu betur búnir undir að takast á við kennslu í fjölmenningarsamfélagi.
    Gæði og framboð íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur verði aukið þannig að íslenska nýtist fólki til virkrar þátttöku í samfélaginu. Allar aðgerðir menntastoðar framkvæmdaáætlunarinnar miði með einum eða öðrum hætti að því að nýta menntun og mannauð innflytjenda, þeim sjálfum og samfélaginu öllu til hagsbóta. Innflytjendum verði gert auðveldara að fá menntun sína metna svo að þeir geti stundað atvinnu þar sem þekking þeirra og hæfileikar nýtast sem best.
    Lögð verði áhersla á eftirfarandi þætti fyrir þróun samfélagsins:
     a.      Fjölmenningarlegt lærdómssamfélag.
     b.      Starfsþróun kennara.
     c.      Aukna samfellu náms.
     d.      Íslensku sem annað mál.

3.1. Mat á fyrri þekkingu.
3.1.1. Markmið: Allir nemendur með annað móðurmál en íslensku fái mat á þekkingu, reynslu og námslegri stöðu sinni við upphaf skólagöngu hér á landi.
3.1.2. Framkvæmd/lýsing: Sveitarfélög og aðrir rekstraraðilar skóla sjái til þess að mat á þekkingu, reynslu og námslegri stöðu barna af erlendum uppruna fari fram við upphaf skólagöngu með stöðumati fyrir nýkomna nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Stöðumat verði gert aðgengilegt notendum að kostnaðarlausu. Skólar vinni einstaklingsáætlanir sem byggist á niðurstöðum.
3.1.3. Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
3.1.4. Dæmi um samstarfsaðila: Leik-, grunn- og framhaldsskólar og Menntamálastofnun.
3.1.5. Hagaðilar/markhópur: Nemendur á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og fjölskyldur þeirra.
3.1.6. Tímabil: 2022–2023.
3.1.7. Kostnaður: Innan fjárheimilda. Kostnaðarmat hjá mennta- og barnamálaráðuneyti.
3.1.8. Niðurstaða: Stöðumat verði komið í notkun hjá sveitarfélögum og skólum árið 2023.

3.2. Mat á menntun.
3.2.1. Markmið: Fleiri einstaklingar af erlendum uppruna eigi þess kost að fá menntun frá heimalandinu metna svo að þeim bjóðist störf við hæfi.
3.2.2. Framkvæmd/lýsing: Aðgengi innflytjenda að upplýsingum um mat á menntun með tilliti til aðgengileika og eftirspurnar verði kortlagt.
3.2.3. Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
3.2.4. Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Menntamálastofnun, ENIC-NARIC, IÐAN fræðslusetur, Rafmennt, framhaldsskólar og háskólar.
3.2.5. Hagaðilar/markhópur: Fullorðnir innflytjendur sem aflað hafa sér menntunar í heimalandi fyrir komuna til Íslands og vilja nýta hana á íslenskum vinnumarkaði.
3.2.6. Tímabil: 2022–2023.
3.2.7. Kostnaður: Innan fjárheimilda.
3.2.8. Niðurstaða: Fyrir liggi yfirlit og tillögur um aðgerðir sem fari til skoðunar í viðkomandi ráðuneyti eða stofnun.

3.3. Stuðningur við móðurmál og virkt fjöltyngi.
3.3.1. Markmið: Fleiri nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn njóti móðurmálskennslu og stuðnings við virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi.
3.3.2. Framkvæmd/lýsing: Stuðningur við móðurmálskennslu í skóla- og frístundastarfi verði efldur og byggist á Leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi. Notaðar verði fjölbreyttar leiðir til þess að ná til sem flesta nemenda.
3.3.3. Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
3.3.4. Dæmi um samstarfsaðila: Leik-, grunn- og framhaldsskólar, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Heimili og skóli, samtök innflytjenda, frístundaheimili og Móðurmál – samtök um tvítyngi.
3.3.5. Hagaðilar/markhópur: Nemendur af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra.
3.3.6. Tímabil: 2022–2024.
3.3.7. Kostnaður: 10 millj. kr. Kostnaðarmat hjá mennta- og barnamálaráðuneyti, innan fjárheimilda ráðuneytisins.
3.3.8. Niðurstaða: Unnið samkvæmt Leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi í öllum skólum og frístundaheimilum.

3.4. Íslenskunám fullorðinna innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd.
3.4.1. Markmið: Íslenskunám fyrir útlendinga verði hæfnimiðað.
3.4.2. Framkvæmd/lýsing: Gerð verði þrepaskipt hæfnilýsing í íslensku fyrir útlendinga á grundvelli evrópska tungumálarammans.
3.4.3. Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
3.4.4. Dæmi um samstarfsaðila: Háskóli Íslands, símenntunarmiðstöðvar, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, fulltrúar fræðsluaðila og skólakerfis.
3.4.5. Hagaðilar/markhópur: Fullorðnir innflytjendur og umsækjendur um alþjóðlega vernd.
3.4.6. Tímabil: 2022–2023.
3.4.7. Kostnaður: 3 millj. kr. Kostnaðarmat hjá mennta- og barnamálaráðuneyti, innan fjárheimilda ráðuneytisins.
3.4.8. Niðurstaða: Þrepaskipt hæfnilýsing í íslensku birt í Stjórnartíðindum.

3.5. Fjölgun kennara og fagfólks af erlendum uppruna innan menntakerfisins.
3.5.1. Markmið: Einstaklingar af erlendum uppruna fái viðeigandi ráðgjöf, námsúrræði og stuðning svo að þeir geti lokið námi hér á landi til réttinda á sviði menntavísinda, svo sem kennsluréttinda á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi, tómstunda- og félagsmálafræði, þroskaþjálfunar og uppeldis- og menntunarfræða.
3.5.2. Framkvæmd/lýsing: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið í samráði við háskóla, sem bjóða upp á nám á sviði menntavísinda, og sveitarfélög setji af stað átak til að fjölga markvisst fagfólki af erlendum uppruna með viðeigandi ráðgjöf, námi og stuðningi.
3.5.3. Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.
3.5.4. Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, Menntamálastofnun, Kennarasamband Íslands, samtök innflytjenda og sveitarfélög.
3.5.5. Hagaðilar/markhópur: Kennarar í leik-, grunn- og framhaldsskólum, tómstunda- og félagsfræðingar, þroskaþjálfar og aðrar uppeldisstéttir.
3.5.6. Tímabil: 2022–2025.
3.5.7. Kostnaður: 20 millj. kr. til stuðningsaðgerða og ráðgjafar. Fjármögnun tryggð, innan fjárheimilda.
3.5.8. Niðurstaða: Kennurum og öðru fagmenntuðu starfsfólki á sviði menntavísinda með erlendan bakgrunn fjölgi.

3.6. Raunfærnimat fyrir innflytjendur.
3.6.1. Markmið: Innflytjendur með starfsreynslu og hæfni frá heimalandinu eigi kost á raunfærnimati á eigin tungumáli og stuðningsúrræði til þess að fá lokið formlegu námi á framhalds- og háskólastigi.
3.6.2. Framkvæmd/lýsing: Fræðslusjóður og aðilar sem meta hæfni til náms verði hvattir til að bjóða tungumálastuðning eða túlkaþjónustu við raunfærnimat.
3.6.3. Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
3.6.4. Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, símenntunarmiðstöðvar, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, IÐAN fræðslusetur, Rafmennt og framhaldsskólar.
3.6.5. Hagaðilar/markhópur: Fullorðnir innflytjendur.
3.6.6. Tímabil: 2022–2025.
3.6.7. Kostnaður: Innan fjárheimilda. Kostnaðarmat hjá mennta- og barnamálaráðuneyti.
3.6.8. Niðurstaða: Framkvæmd raunfærnimats fyrir innflytjendur verði hnökralaus.

3.7. Rafrænt hæfnimiðað stöðumat í íslensku og stuðningsefni.
3.7.1. Markmið: Þróað verði rafrænt hæfnimiðað stöðumat í íslensku sem öðru máli út frá evrópska tungumálarammanum og rafrænt stuðningsefni.
3.7.2. Framkvæmd/lýsing: Stöðumatið auki aðgengi að og einfaldi ferli við mat á íslenskukunnáttu innflytjenda þannig að þeir eigi auðveldara með að nýta þekkingu sína og hæfni. Stöðumatið nýtist m.a. tilvonandi kennurum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, sbr. kröfu um hæfni kennara í íslensku og kröfur um hæfni í umsóknum um ríkisborgararétt. Samhliða verði þróað rafrænt stuðningsefni til að efla grunnhæfni í íslensku sem öðru máli, sérstaklega tengt neðri þrepum evrópska tungumálarammans, sem standi öllum til boða á netinu.
3.7.3. Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
3.7.4. Dæmi um samstarfsaðila: Háskóli Íslands, Menntamálastofnun og ráðuneyti sem málið varðar.
3.7.5. Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur.
3.7.6. Tímabil: 2022–2024.
3.7.7. Kostnaður: 100 millj. kr., innan fjárheimilda. Kostnaðarmat hjá mennta- og barnamálaráðuneyti.
3.7.8. Niðurstaða: Rafrænt hæfnimiðað stöðumat ásamt rafrænu stuðningsefni verði tilbúið.

3.8. Samfella í fræðslu umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks.
3.8.1. Markmið: Fræðsla til umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks sem fær stuðning samræmdrar móttöku flóttafólks verði samræmd svo að hægt sé að tryggja samfellu og framgang í fræðslunni.
3.8.2. Framkvæmd/lýsing: Unnið verði yfirlit yfir þá fræðslu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd njóta og tryggt að þeir sem hljóta alþjóðlega vernd geti haldið áfram að byggja upp þekkingu sína, einkum með tilliti til tungumálanáms, í samfellu þó að lagaleg staða þeirra hér á landi taki breytingum.
3.8.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
3.8.4. Dæmi um samstarfsaðila: Vinnumálastofnun, Fjölmenningarsetur, sveitarfélög sem sinna umsækjendum um alþjóðlega vernd, símenntunarmiðstöðvar og flóttafólk.
3.8.5. Hagaðilar/markhópur: Umsækjendur um alþjóðlega vernd, flóttafólk sem fær veitta alþjóðlega vernd og þeir sem fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
3.8.6. Tímabil: 2022–2024.
3.8.7. Kostnaður: 2 millj. kr., innan fjárheimilda.
3.8.8. Niðurstaða: Samfella í fræðslu óháð dvalarleyfisstöðu umsækjenda.

4. Vinnumarkaður.
    Í vinnumarkaðsstoð framkvæmdaáætlunar verði dregnar fram þær aðgerðir sem snúa að innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði. Áhersla verði lögð á að styrkja stöðu innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði með aðgerðum sem draga úr atvinnuleysi meðal innflytjenda og stuðla að því að innflytjendur hafi jafnan aðgang að störfum og fái greidd sömu laun og njóti sömu kjara og aðrir fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
    Lögð verði áhersla á eftirfarandi þætti fyrir þróun samfélagsins:
     a.      Jöfn tækifæri á vinnumarkaði.
     b.      Aðgerðir til þess að draga úr atvinnuleysi meðal innflytjenda.
     c.      Aðgengilegar upplýsingar um réttindi og skyldur starfsfólks og vinnuveitenda.
     d.      Endurskoðun á lögum um atvinnurétt útlendinga.

4.1. Launajafnrétti á vinnumarkaði.
4.1.1. Markmið: Innflytjendur hafi jafnan aðgang að störfum, fái greidd sömu laun og njóti sömu kjara og aðrir fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
4.1.2. Framkvæmd/lýsing: Rannsókn á launamun eftir bakgrunni fari fram reglulega og greint verði hvað veldur launamun milli innflytjenda og innlendra. Þá verði lögð áhersla á að þróa aðferðir til þess að bæta núverandi líkan.
4.1.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
4.1.4. Dæmi um samstarfsaðila: Hagstofa Íslands, innflytjendaráð, Jafnréttisstofa, Fjölmenningarsetur og aðilar vinnumarkaðarins.
4.1.5. Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur á vinnumarkaði.
4.1.6. Tímabil: 2023–2024.
4.1.7. Kostnaður: 5 millj. kr., innan fjárheimilda.
4.1.8. Niðurstaða: Samanburður milli ára verði aðgengilegur.

4.2. Hlutfall innflytjenda í opinberum störfum og áhrifastöðum.
4.2.1. Markmið: Opinber þjónusta og atvinnulíf njóti þeirrar þekkingar og reynslu sem innflytjendur búa yfir og að hlutfall þeirra í opinberum störfum og áhrifastöðum endurspegli betur lýðfræðilega samsetningu samfélagsins.
4.2.2. Framkvæmd/lýsing:
     a.      Boðið verði upp á námskeið í fjölmenningarstjórnun, menningarlæsi og -næmi fyrir mannauðsstjóra, jafnréttisfulltrúa og aðra sem fara með ráðningarvald fyrir hönd stjórnvalda.
     b.      Handbók um ráðningar hjá ríkinu frá 2007 verði endurskoðuð með áherslu á fjölbreytileika og jöfn tækifæri. Handbókin taki mið af lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, og innihaldi m.a. leiðbeiningar til ráðningaraðila um fjölbreytileika, jafnrétti og jafna meðferð óháð fötlun, kynþætti, þjóðernisuppruna, kynhneigð, aldri og trú/ lífsskoðun.
4.2.3. Ábyrgð: Fjármálaráðuneytið. Kjara- og mannauðssýsla ríkisins.
4.2.4. Dæmi um samstarfsaðila: Innflytjendaráð, forsætisráðuneytið, Jafnréttisstofa, Fjölmenningarsetur, Samband íslenskra sveitarfélaga, félög og hagsmunasamtök innflytjenda og aðilar vinnumarkaðarins.
4.2.5. Hagaðilar/markhópur: Vinnumarkaðurinn, innflytjendur og samfélagið.
4.2.6. Tímabil: 2022–2025.
4.2.7. Kostnaður: 5 millj. kr., innan fjárheimilda.
4.2.8. Niðurstaða: Hlutfall innflytjenda í opinberum störfum og áhrifastöðum endurspegli betur lýðfræðilega samsetningu samfélagsins.

4.3. Atvinnuleysi meðal innflytjenda.
4.3.1. Markmið: Dregið verði úr langtímaatvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara.
4.3.2. Framkvæmd/lýsing:
     a.      Hvatningar- og virkniúrræðum fyrir fólk af erlendum uppruna verði fjölgað og hæfni efld.
     b.      Námstækifæri í gegnum átakið Nám er tækifæri og námstilboð símenntunarmiðstöðva standi til boða.
     c.      Fólk af erlendum uppruna verði hvatt til að sækja íslenskunámskeið og fái tvö námskeið endurgjaldslaust á hverju ári.
     d.      Samvinna verði við Samtök atvinnulífsins varðandi fræðslu um stofnun fyrirtækja í gegnum úrræðið Frumkvæði.
     e.      Samstarf verði við Ráðgjafarstofu fyrir innflytjendur varðandi upplýsingagjöf og aðstoð til atvinnuleitenda.
     f.      Samstarf við atvinnurekendur varðandi ráðningarstyrki og almennar ráðningar fólks af erlendum uppruna verði eflt.
4.3.3. Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
4.3.4. Dæmi um samstarfsaðila: ASÍ, verkalýðsfélög, Samtök atvinnulífsins, sveitarfélög, fræðslustofnanir, fyrirtæki, símenntunarmiðstöðvar og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
4.3.5. Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur sem njóta þjónustu Vinnumálastofnunar.
4.3.6. Tímabil: 2022–2024.
4.3.7. Kostnaður: Innan fjárheimilda Vinnumálastofnunar.
4.3.8. Niðurstaða: Færri erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá.

4.4. Vinnuvernd og réttindi á vinnumarkaði.
4.4.1. Markmið: Innflytjendur njóti sömu verndar og aðrir á vinnumarkaði og séu vel upplýstir um réttindi sín og skyldur. Innflytjendur viti hvert þeir geti leitað verði þeir fórnarlömb brotastarfsemi, svo sem félagslegra undirboða, á vinnumarkaði.
4.4.2. Framkvæmd/lýsing:
     a.      Fræðsluefni fyrir vinnuveitendur og starfsfólk um vinnuvernd og félagsleg réttindi á íslenskum vinnumarkaði verði gert aðgengilegra og samræmt á helstu tungumálum innflytjenda á Íslandi. Markvisst verði unnið að því að kynna helstu málaflokka vinnuverndar, m.a. líkamlega áhættuþætti, félagslega og andlega áhættuþætti og einelti, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, heilsuvernd á vinnustað, atvinnusjúkdóma og slysavarnir. Einnig verði unnið að því að kynna stuðning við fórnarlömb brotastarfsemi á vinnumarkaði og rétt þeirra og hvert beri að leita eftir stuðningi. Áhersla verði lögð á gerð stafræns fræðsluefnis.
     b.      Upplýsingar um hlutverk trúnaðarmanna og öryggistrúnaðarmanna á vinnustöðum verði gerðar aðgengilegri og kynntar fyrir starfsmönnum af erlendum uppruna.
4.4.3. Ábyrgð: Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið.
4.4.4. Dæmi um samstarfsaðila: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, aðilar vinnumarkaðarins, Jafnréttisstofa, Fjölmenningarsetur og stéttarfélög.
4.4.5. Hagaðilar/markhópur: Innflytjendur og útlendingar á íslenskum vinnumarkaði.
4.4.6. Tímabil: 2022–2024.
4.4.7. Kostnaður: 3 millj. kr., innan fjárheimilda.
4.4.8. Niðurstaða: Innflytjendur á íslenskum vinnumarkaði þekki helstu málaflokka vinnuverndar og hvernig bregðast eigi við ef ekki er hugað nægilega að öryggi og heilsu á vinnustað, hver réttindi fólks eru sé á því brotið varðandi kjör og starfsaðstæður og hvert skuli leita eftir aðstoð.

4.5 Endurskoðun laga um atvinnuréttindi útlendinga.
4.5.1. Markmið: Ákvæði er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku verði rýmkuð og skilvirkni aukin með einföldun ferla. Umsóknarferli um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir einstaklinga sem sinna störfum sem krefjast sérfræðiþekkingar verði einfaldað. Tryggt verði að fólk sem fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið fái samhliða óbundið atvinnuleyfi.
4.5.2. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
4.5.3. Dæmi um samstarfsaðila: Dómsmálaráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.
4.5.4. Framkvæmd/lýsing: Hefðbundin breyting á lögum með lögbundnu samráði.
4.5.5. Tímabil: 2022.
4.5.6. Kostnaður: Fellur innan hefðbundinnar starfsemi ráðuneytis og er því innan fjárheimilda.
4.5.7. Niðurstaða: Breytt löggjöf í samræmi við markmið breytinga.

5. Flóttafólk.
    Lögð verði áhersla á að kerfi og stofnanir sem meta einstaklingsbundnar aðstæður og hagsmuni séu mannúðleg og skilvirk, laga- og regluverk skýrt og framkvæmd fullnægjandi. Áhersla verði lögð á að flóttafólk fái nauðsynlega aðstoð til virkrar þátttöku í samfélaginu, hvort sem er á vinnumarkaði, til náms eða á öðrum sviðum. Lögð verði áhersla á aukinn stuðning og jafna þjónustu við flóttafólk, jafnt við fólk sem hingað kemur fyrir milligöngu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og fólk sem kemur á eigin vegum og fær alþjóðlega vernd hér á landi. Þjónusta við flóttafólk verði styrkt með innleiðingu og eftirfylgni á samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk í samvinnu við móttökusveitarfélög, Vinnumálastofnun, Fjölmenningarsetur og félagasamtök sem vinna að málefnum flóttafólks.
    Lögð verði áhersla á eftirfarandi þætti fyrir farsæla móttöku flóttafólks:
     a.      Samræmda þjónustu.
     b.      Andlega heilsu og virka þátttöku í samfélaginu.
     c.      Rannsóknir og bættar upplýsingar.

5.1. Samræmd þjónusta við fólk með vernd á Íslandi.
5.1.1. Markmið: Innleiða samræmda þjónustu við fólk sem hlotið hefur alþjóðlega vernd hér á landi.
5.1.2. Framkvæmd/lýsing: Verkefni um samræmda móttöku flóttafólks verði innleitt og mat lagt á frekari þróun verkefnisins í samstarfi við framkvæmdaraðila á samningstíma verkefnisins.
5.1.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
5.1.4. Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, Rauði krossinn á Íslandi, Samband íslenskra sveitarfélaga, Útlendingastofnun og félagasamtök.
5.1.5. Hagaðilar/markhópur: Fólk með vernd og móttökusveitarfélög.
5.1.6. Tímabil: 2022–2024.
5.1.7. Kostnaður: Kostnaðarmat verði unnið á grundvelli áætlunar um fjölda þátttakenda.
5.1.8. Niðurstaða: Nauðsynlegar breytingar verði innleiddar í samræmi við niðurstöður mats.

5.2. Handbók um móttöku og þjónustu við flóttafólk.
5.2.1. Markmið: Verklag verði samræmt í þjónustu við flóttafólk. Ný móttökusveitarfélög geti greiðlega kynnt sér og innleitt verklag við móttöku og þjónustu við flóttafólk.
5.2.2. Framkvæmd/lýsing: Fjölmenningarsetur, í samvinnu við móttökusveitarfélög og Vinnumálastofnun, geri handbók og leiðbeinandi reglur aðgengilegar fyrir sveitarfélög vegna móttöku og þjónustu við flóttafólk. Gefnar verði út aðgengilegar leiðbeiningar fyrir fagfólk sem kemur að þjónustu við flóttafólk og einstaklinga sem fengið hafa vernd hér á landi. Útdráttur úr verklagsreglunum verði til á nokkrum tungumálum.
5.2.3. Ábyrgð: Fjölmenningarsetur.
5.2.4. Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, Vinnumálastofnun, heilbrigðisstofnanir, Útlendingastofnun og félagasamtök sem vinna með flóttafólki.
5.2.5. Hagaðilar/markhópur: Sveitarfélög og einstaklingar með alþjóðlega vernd.
5.2.6. Tímabil: 2022.
5.2.7. Kostnaður: 2 millj. kr., innan fjárheimilda.
5.2.8. Niðurstaða: Handbók, leiðbeiningar og leiðbeinandi reglur verði aðgengilegar öllum sem koma að móttöku og þjónustu við flóttafólk.

5.3. Líðan og þátttaka flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.
5.3.1. Markmið: Gerðar verði greiningar á högum og líðan flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi og þátttöku þeirra í samfélaginu.
5.3.2. Framkvæmd/lýsing: Hagir og líðan flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi verði rannsökuð. Þróaðir verði mælikvarðar um líðan og virkni flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í samfélaginu og á atvinnumarkaði en einnig verði hafðir til hliðsjónar mikilvægir áhrifaþættir á líðan flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd og framtíðarmöguleika þess, svo sem andlegt og líkamlegt heilbrigði, áhrif viðskilnaðar við nánustu fjölskyldu og áhrif fjölskyldusameininga.
5.3.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
5.3.4. Dæmi um samstarfsaðila: Háskólasamfélagið, sérfræðingar á sviði félagsvísindarannsókna, Hagstofa Íslands, sveitarfélög, Vinnumálastofnun, Fjölmenningarsetur og félagasamtök sem vinna að málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.
5.3.5. Hagaðilar/markhópur: Stjórnvöld, einstaklingar með alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum og umsækjendur um alþjóðlega vernd.
5.3.6. Tímabil: 2022–2024.
5.3.7. Kostnaður: 8 millj. kr., innan fjárheimilda.
5.3.8. Niðurstaða: Samanburður milli ára verði aðgengilegur.

5.4. Fræðsla fyrir flóttafólk, umsækjendur um alþjóðlega vernd og fagaðila sem koma að þjónustu við flóttafólk.
5.4.1. Markmið: Auka þekkingu fagaðila á sérstöðu flóttafólks með tilliti til menningarlæsis, afleiðinga áfalla og einkenna áfallastreituröskunar sem og leiðum til valdeflingar þess.
5.4.2. Framkvæmd/lýsing:
     a.      Fræðsla verði þróuð fyrir þjónustuveitendur með áherslu á sérstöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks, menningarlæsi, einkenni og afleiðingar áfalla og langvarandi streitu og mikilvægi valdeflingar flóttafólks. Áhersla verði lögð á gerð aðgengilegs rafræns fræðsluefnis og hagnýtra leiðbeininga.
     b.      Þróað verði fræðsluefni fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk sem glímir við afleiðingar áfalla og langvarandi streitu.
     c.      Geðheilsuteymum sem eru starfandi um landið standi til boða fræðsla og leiðbeiningar um geðheilbrigðismál umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks.
5.4.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
5.4.4. Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneytið, menntamálaráðuneytið, Fjölmenningarsetur, Rauði krossinn á Íslandi, fræðsluaðilar, háskólasamfélagið og aðilar sem annast endurhæfingu.
5.4.5. Hagaðilar/markhópur: Einstaklingar með alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum, umsækjendur um alþjóðlega vernd og fagaðilar sem veita þeim þjónustu.
5.4.6. Tímabil: 2022–2023.
5.4.7. Kostnaður: 5 millj. kr., innan fjárheimilda.
5.4.8. Niðurstaða:
     a.      Leiðbeiningar og fræðsluerindi fyrir fagfólk sem kemur að þjónustu við flóttafólk verði aðgengileg.
     b.      Fræðsluefni fyrir flóttafólk sem glímir við afleiðingar áfalla og langvarandi streitu verði aðgengilegt.

5.5. Fylgdarlaus börn sem sækja um alþjóðlega vernd.
5.5.1. Markmið: Endurskoða verklag vegna móttöku fylgdarlausra barna.
5.5.2. Framkvæmd/lýsing: Verklag vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn verði endurskoðað. Rannsóknir og greiningar sem liggja fyrir verði nýttar til þess að gera nauðsynlegar úrbætur.
5.5.3. Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
5.5.4. Dæmi um samstarfsaðila: Barna- og fjölskyldustofa, Útlendingastofnun, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Rauði krossinn á Íslandi og önnur félagasamtök.
5.5.5. Hagaðilar/markhópur: Fylgdarlaus börn sem sækja um alþjóðlega vernd.
5.5.6. Tímabil: 2022.
5.5.7. Kostnaður: Innan fjárheimilda.
5.5.8. Niðurstaða: Bætt verklag.

5.6. Stuðningur við fylgdarlaus börn og ungmenni sem hafa fengið vernd.
5.6.1. Markmið: Styðja við fylgdarlaus börn og ungmenni sem hafa hlotið vernd hér á landi.
5.6.2. Framkvæmd/lýsing: Börnum og ungmennum sem eru án fjölskyldu hér á landi standi til boða úrræði sem styður þau við að taka sín fyrstu skref á Íslandi. Greind verði verkefni sem hafa gefið góða raun erlendis og stuðningsverkefni innleidd til þess að efla ungt flóttafólk til þátttöku í samfélaginu.
5.6.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
5.6.4. Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneytið, sveitarfélög og félagasamtök.
5.6.5. Hagaðilar/markhópur: Ungt flóttafólk.
5.6.6. Tímabil: 2022–2024.
5.6.7. Kostnaður: 9 millj. kr., innan fjárheimilda.
5.6.8. Niðurstaða: Stuðningsverkefni verði innleidd.

5.7. Flóttafólk á vinnumarkaði.
5.7.1. Markmið: Auðvelda flóttafólki að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði.
5.7.2. Framkvæmd/lýsing: Þróaðar verði leiðir sem auðvelda flóttafólki að taka sín fyrstu skref á íslenskum vinnumarkaði þar sem m.a. verði horft til þess að styðja atvinnurekendur sem vilja ráða flóttafólk til vinnu sem og til þess að auka stuðning á vinnustöðum þar sem flóttafólk hefur verið ráðið til vinnu.
5.7.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
5.7.4. Dæmi um samstarfsaðila: Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur.
5.7.5. Hagaðilar/markhópur: Flóttafólk.
5.7.6. Tímabil: Viðvarandi.
5.7.7. Kostnaður: Fellur undir aðgerðir í samræmdri móttöku flóttafólks og innan fjárheimilda þess verkefnis.
5.7.8. Niðurstaða: Aukin atvinnuþátttaka flóttafólks.

5.8. Móttaka og þjónusta við flóttafólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
5.8.1. Markmið: Bæta verklag vegna móttöku sérstaklega viðkvæmra hópa flóttafólks, svo sem hinsegin flóttafólks, flóttafólks sem býr við fötlun eða annarra sem teljast í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
5.8.2. Framkvæmd/lýsing: Tryggja fræðslu, ráðgjöf og stuðning við fólk sem tilheyrir sérstaklega viðkvæmum hópum um réttindi þess hér á landi og þann stuðning sem stendur því til boða. Jafnframt að tryggja að þeir sem þjónusta flóttafólk sem telst í sérstaklega viðkvæmri stöðu fái fræðslu um þann sértæka stuðning sem því er nauðsynlegur. Útbúið verði fræðsluefni jafnt fyrir flóttafólkið sjálft og fagfólk sem vinnur með því. Að auki verði unnar verklagsreglur um móttöku og þjónustu við ólíka hópa sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
5.8.3. Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
5.8.4. Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneytið, sveitarfélög, Samtökin '78, Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp, Fjölmenningarsetur, félagasamtök sem vinna að málefnum flóttafólks og Mannréttindaskrifstofa Íslands.
5.8.5. Hagaðilar/markhópur: Flóttafólk sem er í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
5.8.6. Tímabil: 2022–2024.
5.8.7. Kostnaður: 3 millj. kr., innan fjárheimilda.
5.8.8. Niðurstaða: Bætt verklag og fræðsluefni sem miðar sérstaklega að móttöku og þjónustu við flóttafólk sem telst í sérstaklega viðkvæmri stöðu, svo sem vegna kynhneigðar eða fötlunar. Flóttafólk sem telst í sérstaklega viðkvæmri stöðu sé upplýst um réttindi sín og stuðning sem því stendur til boða.

Samþykkt á Alþingi 16. júní 2022.