Ferill 455. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1425  —  455. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um grænar fjárfestingar ríkisins.


     1.      Hversu hátt hlutfall af fjárfestingum ríkisins telst vera grænar fjárfestingar í þeim skilningi að þær eru til þess fallnar að draga úr losun mengandi gróðurhúsalofttegunda, vernda vistkerfi eða stuðla með öðrum hætti að því að Ísland uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar á sviði loftslagsmála? Hver er fjárhæð þeirra fjárfestinga?

Flokkun fjárfestinga samkvæmt fjárlögum og þjóðhagsreikningum.

    Nokkur munur er á framsetningu talna um fjárfestingu eins og þær birtast í útgjöldum ráðuneyta í fjárlögum og ríkisreikningi annars vegar (IPSAS-staðall) og þeirra sem taldar eru til fjárfestingar ríkissjóðs í þjóðhagsreikningum hins vegar (GFS-staðall). Í fjárlögum eru í fyrsta lagi veittar heimildir til fjárfestinga sem eru eignfærðar hjá ríkissjóði í ríkisreikningi. Í öðru lagi eru veittar fjárheimildir vegna fjármagnstilfærslna sem er fjárfesting sem ríkið stuðlar að en eignfærist ekki hjá ríkinu og telst því ekki til fjárfestingar ríkisins í þjóðhagsreikningum. Það á t.d. við um framlög í Ofanflóðasjóð sem eignfærast hjá sveitarfélögum og framlög í ýmsa sjóði sem síðan er úthlutað til tækni- og nýsköpunarverkefna á vegum fyrirtækja og einstaklinga. Framlög til rannsókna og þróunar, sem flokkast sem fjárfesting í mynd fjármagnstilfærslna í fjárlögum, eru því ekki talin til fjárfestingar samkvæmt GFS-þjóðhagsreikningastaðlinum. Á móti vegur að ákveðið hlutfall launa og annarra gjalda hjá tilteknum ríkisaðilum innan A1-hluta ríkissjóðs er skilgreint sem fjárfesting ríkisins samkvæmt GFS-staðlinum vegna þess að hluti af vinnu starfsmanna þeirra fer í að gera hugverk og kerfi sem teljast til fjárfestingar. Sem annað dæmi má nefna að í fjárlögum og ríkisreikningi teljast útgjöld vegna skógræktar og landgræðslu til reksturs en samkvæmt GFS-staðlinum eru þau færð sem fjárfesting. Einnig eru fyrir hendi umtalsverð útgjöld við ýmis verkefni sem stuðla að grænum markmiðum en teljast til reksturs en ekki fjárfestingar í fjárlögum. Niðurstöður geta því verið mismunandi eftir því hvor staðallinn er notaður til framsetningar á útgjöldum ríkissjóðs vegna fjárfestingaverkefna.
    Í þessu svari er gengið út frá framsetningarmáta fjárlaga og ríkisreiknings sem fangar betur allar fjárfestingar sem fjármagnaðar eru úr ríkissjóði en nær þó ekki til verkefna sem falla inn í annan rekstur stofnana. Heildarfjárfestingar á þennan mælikvarða nema 120,4 ma.kr., en þær eru samtala fjárfestingarheimilda, 82,6 ma.kr., og fjármagnstilfærslna, 37,7 ma.kr., eins og þær birtast í útgjaldarömmum fjárlaga og fjáraukalaga ársins 2021.

Flokkun grænna fjárfestinga.
    Í fyrirspurninni er spurt um umfang grænna fjárfestinga í tilteknum skilningi. Þeir staðlar fyrir reikningshald og hagskýrslugerð sem áður er getið, IPSAS og GFS, fela ekki í sér skilgreiningu á grænum eða sjálfbærum útgjöldum. Nokkrir mismunandi staðlar eða leiðbeiningar eru þó til um skilgreiningar og flokkun slíkra útgjalda. Þar má nefna EU Taxonomy, Green Bond Principles, Green Loan Principles, Climate Bonds Standard, OECD DAC RIO-Markers o.fl. Við mat á því hvað telst til grænna fjárfestinga í þessu svari var stuðst við vinnu að sjálfbærum fjármögnunarramma ríkissjóðs sem var gefinn út í september 2021. Við vinnu á þeim ramma var horft til flestra framangreindra staðla og leiðbeininga.
    Auk þess er vert að hafa í huga að flestar fjárfestingar hafa fjölþættan tilgang. Fjárfestingar geta þannig verið grænar að einhverju marki þó að það sé ekki beinlínis tilgangur þeirra. T.d. er hægt að útfæra þær fjárfestingar sem nauðsynlegar eru í innviðum landsins með þeim hætti að neikvæð umhverfisáhrif þeirra verði sem minnst. Dæmi um slíkt er að nú eru velflestar nýbyggingar á vegum Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna með umhverfisvottun. Tilgangur þeirra framkvæmda er þá eftir sem áður fyrst og fremst að hýsa starfsemi stofnana ríkisins þótt samhliða sé gætt að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum bygginganna. Sem annað dæmi má nefna ýmsar framkvæmdir í þjóðgörðum, svo sem við þjónustumiðstöðvar, sem styðja við starfsemi þeirra. Þetta felur í sér að talsvert flókið getur verið að setja saman heildstætt yfirlit yfir grænar fjárfestingar.
    Hér eru umhverfisvænustu samgöngufjárfestingarnar taldar með að fullu, þ.e. framlög í göngu- og hjólastíga, og einnig u.þ.b. helmingur af framlagi ríkisins til betri samgangna. Það samsvarar því hlutfalli af framkvæmdum Betri samgangna sem fer í loftslagsvæn verkefni: göngu- og hjólastíga og borgarlínu.
    Ráðuneytið hefur í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið gróflega flokkað fjárfestingar ríkisins með tilliti til þess hvort þær teljist vera grænar eins og fram kemur í eftirfarandi töflu:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þessar tölur ná yfir helstu útgjöld ríkisins en ekki er útilokað að innan annarra fjárfestinga sé að finna undirverkefni sem geta talist græn. Því er vel hugsanlegt að þessi viðmið vanmeti að einhverju leyti grænar fjárfestingar. Ef notuð er þröng afmörkun á grænum fjárfestingum gefa þessar tölur til kynna að þær hafi verið um 2,9 ma.kr. árið 2021, eða nálægt 2% af heildarfjárfestingu. Eins og áður segir er hins vegar umtalsverðum fjármunum varið árlega til ýmissa verkefna sem teljast ekki beinlínis til fjárfestinga í fjárlögum, einnig til fjárfestinga sem flokkast þó ekki sem slíkar til grænna verkefna, heldur eru það með óbeinni hætti, en er samt full ástæða til að taka með í reikninginn í þessu samhengi. Að slíkum verkefnum meðtöldum, en útgjöld vegna þeirra námu um 21,6 ma.kr., gefur þessi samantekt til kynna að fjárfesting af þessu tagi hafi verið alls um 24,4 ma.kr., eða 20% af heildarfjárfestingu.
    Sem dæmi um verkefni sem falla undir þessa víðari afmörkun má nefna að mikil áhersla hefur verið lögð á að draga úr losun tengdri samgöngum. Þannig býður Orkusjóður upp á fjölbreytta styrki sem styðja við orkuskipti og hefur m.a. úthlutað til uppbyggingar á innviðum fyrir rafbíla, svo sem hleðslustöðvum. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er stefnt að orkuskiptum í ferjum og gengur nýja Vestmannaeyjaferjan fyrir rafmagni. Auk þess leggur ríkið árlega til um 2 ma.kr. til Betri samgangna en yfir helmingur þeirra framkvæmda verður vegna umhverfisvænna fjárfestinga í borgarlínu, göngu- og hjólastígum.
    Ríkið styrkir sveitarfélög vegna fráveitna allt að 20% af framkvæmdakostnaði. Þá má nefna að til að stuðla að hringrásarhagkerfi veitir ríkið ýmsa styrki, svo sem vegna úrgangsforvarna og til að bæta flokkun og endurvinnslu. Eins og áður segir teljast framlög til skógræktar og landgræðslu til reksturs í fjárlögum, u.þ.b. 2,3 ma.kr. á ári, en samkvæmt GFS-þjóðhagsreikningastaðlinum telst slík starfsemi til fjárfestingar. Auk þess er vert að nefna að framlög til Stafræns Íslands nema um 1,5 ma.kr. árlega. Stafrænt Ísland gerir opinbera þjónustu skilvirkari og sparar tíma og ferðakostnað fyrir almenning og fyrirtæki.
    Loks má nefna að ríkið veitir skattstyrki sem stuðla að grænni fjárfestingu einkaaðila með flýtifyrningu grænna fjárfestinga og fyrningarálagi á stofnverð eigna sem teljast umhverfisvænar samkvæmt skilningi laga nr. 90/2003, sbr. lög um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (hvatar til fjárfestinga).

     2.      Hversu hátt hlutfall af fjárfestingum ríkisins telst ekki vera grænar fjárfestingar í framangreindum skilningi? Hver er fjárhæð þeirra fjárfestinga?
    Miðað við að um 2% fjárfestinga teljist vera „grænar“ í þröngum skilningi þá eru um 98% fjárfestinga ekki grænar, eða sem svarar til um 118 ma.kr. Hins vegar kann að vera réttara að horfa til víðari skilgreiningarinnar þar sem teknar eru með fjárfestingar á grunni GFS-þjóðhagsreikningastaðalsins og fjárfestingar sem eru fyrst og fremst ætlaðar til að bæta innviði en eru jafnframt útfærðar með þeim hætti að þær hafi sem minnst neikvæð umhverfisáhrif. Þá væru grænar fjárfestingar í þeim skilningi taldar nema um 20% en á móti væru um 80% fjárfestinga ekki í þeim flokki, eða sem svarar til um 96 ma.kr.