Ferill 92. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 92  —  92. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands og lögum um happdrætti (bann við rekstri spilakassa).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Orðin „skyndihappdrættis með peningavinningum, svo og“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      3. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra skal gera samning við Háskóla Íslands um fjármögnun vegna uppbyggingar og viðhalds fasteigna á háskólasvæðinu. Áætlað tekjutap Happdrættis Háskóla Íslands vegna lokunar spilasala árin 2023–2026 skal jafna á móti greiðslum vegna samnings um uppbyggingu og viðhald fasteigna á háskólasvæðinu.

II. KAFLI
Breyting á lögum um happdrætti, nr. 38/2005, með síðari breytingum.
3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ríkissjóður skal greiða hluthöfum Íslandsspila bætur vegna tekjumissis að fjárhæð 1 milljarður kr., á ári hverju, árin 2023–2026. Skal sú greiðsla skiptast þannig að Rauði krossinn á Íslandi fái 64%, Slysavarnafélagið Landsbjörg fái 26,5% og SÁÁ fái 9,5%.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um söfnunarkassa, nr. 73/1994.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að rekstur spilakassa verði með öllu bannaður.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 151. og 152. löggjafarþingi (62. mál) en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt að dagsetningum undanskildum.
    Nokkur fjöldi umsagna barst um frumvarpið á 151. löggjafarþingi. Embætti landlæknis, Landssamtökin Þroskahjálp og Samtök áhugafólks um spilafíkn lýstu yfir stuðningi við frumvarpið í umsögnum sínum. Einnig bárust umsagnir frá Landsbjörg, Rauða krossinum og Háskóla Íslands. Rauði krossinn og Landsbjörg lögðu áherslu á það að beðið yrði eftir niðurstöðum starfshóps um happdrætti og fjárhættuspil. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki ennþá birt tillögur starfshópsins, en samkvæmt umsögnum átti starfshópurinn að skila tillögum um úrbætur 1. júní 2021. Háskóli Íslands taldi í umsögn sinni að mikilvægt væri að skoða málið heildstætt áður en gerðar yrðu grundvallarbreytingar á lagarammanum.

Rekstur spilakassa á Íslandi.
    Fjárhættuspil eru almennt bönnuð á Íslandi. Í almennum hegningarlögum eru ákvæði sem kveða á um bann við fjárhættuspilarekstri og veðmálastarfsemi. Lengi hefur þó tíðkast að veita undanþágur frá þessu banni og heimila góðgerðarfélögum og almannaheillafélögum að starfrækja happdrætti, hlutaveltu, getraunir og spilakassa. Upphaf slíkrar fjáröflunar má rekja til svokallaðra tíkallakassa sem voru notaðir til að fjármagna aðstoð vegna eldgossins í Vestmannaeyjum. Undanfarið hefur umræða skapast um rekstur spilakassa og hvort sú starfsemi sé í raun svo skaðleg að rétt sé að banna hana með öllu.
    Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) hafa undanfarin ár staðið fyrir átakinu „Lokum spilakössum“, eða Lokum.is. Markmiðið er að vekja athygli almennings og stjórnvalda á þeirri skaðsemi sem hlýst af rekstri spilakassa. Á vefsíðu samtakanna má lesa reynslusögur spilafíkla og aðstandenda þeirra. Þær sýna svart á hvítu hversu miklum skaða spilafíkn veldur samfélaginu. Átakið hefur vakið mikil viðbrögð í samfélaginu og hefur strax skilað árangri.
    Stjórn SÁÁ ákvað árið 2020 að draga sig út úr rekstri Íslandsspila þrátt fyrir vænt tekjutap upp á tugi milljóna króna. Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, sagði um ákvörðunina að þeim fyndist það ekki vera þess virði og ekki samræmast gildum SÁÁ að taka þátt í rekstri á spilakössum og vera þátttakandi í Íslandsspilum. Sagði hann afleiðingarnar fyrir SÁÁ beint vera tugmilljóna króna skerðing á sjálfsaflafé en að traust og virðing væri meira virði. Þá hefur Rauði krossinn kallað eftir því að stjórnvöld innleiði svokölluð spilakort. Spilakort koma þá í veg fyrir að hægt sé að eyða umfram tiltekið viðmið í spilakassa á ákveðnu tímabili.
    SÁS létu framkvæma skoðanakönnun um viðhorf almennings til spilakassa og leiddi hún í ljós að um 86% Íslendinga vilji banna slíkan rekstur. Þá voru 71% aðspurðra ósátt við að starfsemi í almannaþágu væri fjármögnuð með rekstri spilakassa.
    Spilakassar eru hannaðir til að ýta undir spilafíkn. Ólíkt happdrættum þá skila þeir niðurstöðu samstundis og hægt er að spila strax aftur. Það ýtir undir vanamyndun og því eru þátttakendur mun líklegri til að þróa með sér fíkn heldur en þátttakendur í happdrættum. Þá er útreiknað vinningshlutfall spilakassa almennt hærra en sambærilegt hlutfall í happdrættum og það getur ýtt undir ranghugmyndir notenda um afleiðingar þátttöku. Spilakassar velta yfir milljarði króna á ári hverju þrátt fyrir tiltölulega fáa notendur. Það gefur til kynna að veltuna megi að mestu leyti rekja til spilafíkla sem eyði verulegum fjármunum í fíkn sína.

Efni frumvarpsins.
    Það er orðið löngu tímabært að hætta rekstri spilakassa á Íslandi. Það getur ekki réttlætt svo skaðlega starfsemi að ágóðinn renni til góðgerðarmála. Það gerir lítið gagn að innleiða svokölluð spilakort. Sú aðferð mundi hvorki leysa fjármögnunarvanda góðgerðarfélaga né vinna gegn vanda spilafíkla. Það eina sem dugar er algert bann. Þá er það engin afsökun að vísa til þess að Íslendingar hafi aðgang að fjárhættuspilum í gegnum erlendar vefsíður. Erlendar spilasíður eru vissulega skaðlegar og þörf er á frekari aðgerðum til að koma í veg fyrir aðgengi að þeim á Íslandi. Við getum ekki afsakað eigin sóðaskap með því að benda á háttsemi annarra. Við eigum að stefna að því að koma í veg fyrir aðgengi að erlendum spilasíðum í stað þess að nota tilvist þeirra til að réttlæta áframhaldandi rekstur spilakassa.
    Um þessar mundir hafa tvö félög heimild til reksturs spilakassa. Happdrætti Háskóla Íslands rekur spilakassa undir nafninu Gullnáman og Íslandsspil, félag í eigu Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sér einnig um rekstur spilakassa. Frumvarp þetta leggur til að heimildir til reksturs spilakassa verði felldar brott úr lögum um Happdrætti Háskóla Íslands og að lög um söfnunarkassa falli úr gildi. Með samþykkt frumvarpsins yrði ekki heimild í lögum til að starfrækja spilakassa og mundi slík starfsemi því varða refsiábyrgð skv. 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga.
    Til að koma í veg fyrir tekjufall hjá rekstraraðilum Íslandsspila er lagt til að ríkissjóður greiði hluthöfum árlega 1 milljarð kr. árin 2023–2026. Hagnaður Happdrættis Háskóla Íslands hefur verið nýttur til uppbyggingar á háskólasvæðinu. Til að fjármagna viðhald og áframhaldandi uppbyggingu er lagt til að ráðherra geri samning við háskólann um uppbyggingu á svæðinu og að ríkissjóður sjái um að fjármagna uppbyggingu með lánveitingum til háskólans. Lagt er til að áætlað tekjutap HHÍ vegna lokunar spilasala árin 2023–2026 gangi upp í greiðslur vegna samningsins. Framangreindar aðgerðir koma í veg fyrir skyndilegt tekjufall rekstraraðila spilakassa en ljóst er að þörf er á frekari stefnumótun um fjármögnun SÁÁ, Landsbjargar, Rauða krossins og Háskóla Íslands. Vonandi fær sú stefnumótun forgang hjá stjórnvöldum með samþykkt þessa frumvarps.