Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 316  —  150. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Valgerði Árnadóttur um verksmiðjubúskap.


     1.      Hver er skilgreiningin á verksmiðjubúskap annars vegar og þauleldi hins vegar?
    Skilgreining á hugtakinu verksmiðjubúskapur liggur ekki fyrir í íslenskum lögum.
    Hvað hugtakið þauleldi varðar kemur eftirfarandi fram í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 111/2021, um umhverfismat framkvæmda og áætlana: „Varðandi skilgreiningu á hugtakinu þauleldi vísast til leiðbeiningarits framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um skilgreiningar á tilteknum framkvæmdaflokkum í viðauka I og II í tilskipun um umhverfismat framkvæmda. Þar er þauleldi búfjár skýrt á sama hátt og þauleldi á fiski. Það má útleggja sem eldi búfjár í miklum þéttleika þar sem beitt er tilteknum aðferðum til að auka framleiðslu umfram náttúrulega getu umhverfisins og þar sem almennt er þörf á aðfluttu fóðri til að vega upp á móti takmarkaðri getu svæðisins þar sem eldið fer fram til að standa undir eldi af því umfangi og þéttleika sem um er að ræða. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í e-lið 1. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB.“ Lögin eru á forræði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og er vísað til þess ráðuneytis hvað frekari skýringar varðar.

     2.      Hver er stefna ríkisstjórnarinnar hvað varðar þessar greinar með tilliti til dýravelferðarsjónarmiða?
    
Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram að íslenskur landbúnaður og fiskeldi séu þungamiðja í innlendri matvælaframleiðslu sem verði efld á kjörtímabilinu. Með auknum áhuga á hreinum afurðum, sem framleiddar séu með endurnýjanlegri orku og grunnu kolefnisspori á Íslandi, skapist mikil sóknarfæri í framleiðslu matvæla og ýmissa hliðarafurða. Þá fer matvælaráðuneytið með forræði laga nr. 55/2013, um velferð dýra, og í lögunum kemur fram að markmið þeirra sé að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur sé það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

     3.      Hyggst ráðherra kanna hvað veldur því að Matvælastofnun gefur ekki upp ópersónugreinanlegar upplýsingar sem eiga að vera almenningi opnar á grundvelli upplýsingalaga, nr. 140/2012, þegar frjáls félagasamtök sem láta sig dýravelferð varða leita eftir þeim?
    Matvælastofnun er ríkisstofnun undir yfirstjórn matvælaráðherra og í því felst meðal annars útgáfa stjórnvaldsfyrirmæla og eftirlit með stofnuninni. Þá er heimilt að bera synjun um beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum, nr. 140/2012, undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál skv. 20. gr. upplýsingalaga. Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum og úrskurðum hennar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.

     4.      Hver er fjöldi dýra í verksmiðjubúskap og þauleldi á Íslandi, flokkað eftir tegundum?
    Matvælaráðuneytið birtir margháttaðar upplýsingar um fjölda búfjár og búfjáreigenda eftir tegundum á mælaborði landbúnaðarins, en búin eru ekki flokkuð. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir starfsemi samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og vísast þar af leiðandi til þeirrar stofnunar eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins hvað ítarlegri upplýsingar um þauleldi varðar.

     5.      Hversu mörg starfsleyfi eru í gildi samkvæmt lið 6.6 í viðauka I í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998? Óskað er eftir sundurliðun eftir tegundum. Einnig er óskað eftir sundurliðun gildra starfsleyfa hvert ár sl. fimm ár.
    Matvælastofnun veitir starfsleyfi á grundvelli laga nr. 93/1995, um matvæli. Lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, eru hins vegar á forræði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og gefur Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir starfsemi samkvæmt lögunum. Matvælaráðuneytið hefur því ekki upplýsingar um fjölda gildandi starfsleyfa á grundvelli laganna, sundurliðuð eftir tegundum.