Ferill 393. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 427  —  393. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991 (málskot í meiðyrðamálum).

Flm.: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Páll Jóhannsson, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Við 152. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    5. Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal ávallt heimilt að áfrýja máli þegar dómkröfur eru byggðar á 234.–237. gr. eða 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 148., 149., 150., 151. og 152. löggjafarþingi (367. mál) og er nú lagt fram að nýju óbreytt.
    Mikilvægur þáttur í því réttaröryggi sem dómstólar veita er að þeir sem leita til dómstóla eigi möguleika á því að úrlausn þeirra verði endurskoðuð af æðri dómstóli. Slíkar reglur stuðla bæði að auknu réttaröryggi og samræmi í réttarframkvæmd. Á Íslandi starfar nokkur fjöldi dómstóla á fyrsta stigi. Það stuðlar því að samræmi í réttarframkvæmd að gefa aðilum möguleika á að vísa málum sínum til æðra dómstigs. 1 Möguleiki á málskoti og endurskoðuðum úrlausnum dómstóla er nauðsynlegur hluti þess réttarríkis sem við búum við og í samræmi við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Í þeirri grein stjórnarskrárinnar felst rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar, sem er einnig verndaður í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, er það skilyrði fyrir því að áfrýja megi niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar að áfrýjunarfjárhæð nemi 1 millj. kr. Þessi fjárhæð skal breytast um hver áramót miðað við breytingu vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2018. Skv. 2. mgr. sömu greinar skal ákveða áfrýjunarfjárhæð eftir höfuðstól kröfu í áfrýjunarstefnu. Ef fleiri en ein krafa eru sóttar saman í máli skal leggja þær saman við ákvörðun áfrýjunarfjárhæðar.
    Við stofnun nýs millidómstigs var gerð breyting á 152. gr. með þeim hætti að tilskilin áfrýjunarfjárhæð breyttist úr u.þ.b. 890.000 kr. (uppfært miðað við lánskjaravísitölu frá 1. júlí 1992, sbr. lög nr. 38/1994) í 1 millj. kr. Þá var vikið frá því fyrirkomulagi að miða við lánskjaravísitölu, en miðað var við vísitölu neysluverðs í staðinn. Aðrar breytingar voru ekki gerðar með lögum nr. 49/2016 sem fylgdu stofnun nýs millidómstigs.

Málskot í meiðyrðamálum.
    Núgildandi reglur um áfrýjunarfjárhæð gera það að verkum að erfitt er að áfrýja málum sem varða lágar fjárkröfur. Þetta kann að vera bæði nauðsynlegt og eðlilegt þegar um er að ræða mál sem varða eingöngu litla fjárhagslega hagsmuni. Slíkar reglur draga til að mynda úr samfélagslegum kostnaði við umfangsmikinn rekstur viðamikilla dómsmála þar sem rætt er um tiltölulega litla hagsmuni. Sambærilegar reglur má finna í öðrum löndum og hefur almennt verið litið svo á að þær séu til bóta.
    Undir ákvæðið falla þó einnig þau mál sem varða bæði fjárhagslega hagsmuni og annars konar hagsmuni. Þar má sérstaklega nefna mál er varða ærumeiðingar skv. 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Slík mál eru svonefnd einkarefsimál þar sem einstaklingur stefnir öðrum vegna ákveðinna ummæla og krefst ómerkingar þeirra, en alla jafna eru einnig uppi miskabótakröfur í slíkum málum sem byggðar eru á 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Því líta dómstólar svo á að málin varði fjárkröfu og að dæmdar miskabætur í málunum þurfi þannig að ná áfrýjunarfjárhæð. Sú fjárhæð er, eins og áður sagði, 1 millj. kr. Í málum þar sem sakfellt er og ummæli ómerkt er afar sjaldgæft að dæmdar miskabætur nái þeirri upphæð þar sem miskabætur í málum er varða ærumeiðingar eru alla jafna nokkuð lágar. Hins vegar eru dómkröfurnar í slíkum málum að jafnaði mun hærri, og næstum alltaf yfir þeirri áfrýjunarfjárhæð. Af því leiðir að oftast er ekki hægt, skv. 1. mgr. 152. gr., að áfrýja dómum þar sem sakfellt er, en í flestum tilfellum þegar sýknað er. Augljóst verður að telja að slíkt kunni að valda ójafnvægi milli stefnanda og stefnda í slíkum málum þar sem auðveldara er að áfrýja sýknudómi en sakfellingardómi.

Áfrýjunarleyfi.
    Í 4. mgr. 152. gr. laga um meðferð einkamála er að finna heimild til handa Landsrétti til að heimila áfrýjun máls með áfrýjunarleyfi þegar áfrýjunarfjárhæð er ekki náð. Við ákvörðun um hvort veita skuli áfrýjunarleyfi skal Landsréttur líta til þess hvort einhverju af eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt:
     a.      úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi,
     b.      úrslit málsins varða mikilvæga hagsmuni þess sem leitar áfrýjunarleyfis,
     c.      ekki er útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi kunni að verða breytt svo að einhverju nemi.
    Svör við umsóknum um áfrýjunarleyfi eru þó ekki birt opinberlega og er því lítið gagnsæi í því hvernig farið er með umsóknir um slík leyfi. Í reynd hefur það verið svo að sjaldgæft er að áfrýjunarleyfi séu gefin út í meiðyrðamálum, jafnvel þó að úrslit málsins geti varðað mikilvæga hagsmuni þess sem leitar áfrýjunarleyfis, svo sem frelsi hans til tjáningar sem varið er í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Til þess að tryggja að stefnandi og stefndi hafi í meiðyrðamálum jafnan rétt til að fá úrlausn endurskoðaða af æðra dómstigi verður því að ganga úr skugga um að báðir aðilar hafi jafnan rétt til áfrýjunar án þess að þurfa að sækja um áfrýjunarleyfi.

Jafnræði aðila fyrir dómstólum.
    Í íslensku einkamálaréttarfari er meginregla um jafnræði málsaðila, en reglunni má lýsa á þann hátt að hún geri ráð fyrir að málsaðilar njóti sömu aðstöðu við rekstur máls, án nokkurrar mismununar. 2
    Regla þessi endurspeglast í þeim mannréttindaákvæðum sem gilda um réttláta málsmeðferð. Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er mönnum tryggður réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Þá er kveðið á um að dómþing skuli háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila. Markmið reglunnar er að tryggja jafnræði fyrir dómstólum og að ákvarðanir sem dómstólar taka um réttindi og skyldur manna hvíli á hlutlægum grundvelli. Reglan um réttláta málsmeðferð í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar á sér hliðstæðu í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Þrátt fyrir að möguleiki til áfrýjunar í einkamáli sé ekki beint tilgreindur í áðurnefndum greinum sem grundvallarréttindi hefur Mannréttindadómstóll Evrópu fjallað um möguleika til áfrýjunar sem þátt í aðgengi að dómstólum. Þannig geti synjun á áfrýjun vegið að reglum mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til réttlátrar málsmeðferðar. Þá hefur mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna lýst því að takmarkanir í lögum á rétti til áfrýjunar kunni að fela í sér takmörkun á rétti manna til að fá dóm sinn endurskoðaðan í samræmi við 5. mgr. 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem kveður á um jafnræði manna fyrir dómstólum og um jafnan aðgang þeirra að þeim. 3
    Til að bregðast annars vegar við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Hansens gegn Noregi, umsókn nr. 15319/09 (MDE, 2. október 2014), og hins vegar við umsögn mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um réttarframkvæmd í landinu breytti Noregur réttarfarslögum sínum á þann hátt að synjun um áfrýjun skyldi ávallt fylgja rökstuðningur. Af þessari framkvæmd má sjá að rétturinn til áfrýjunar kann að vera mikilvægur þáttur í réttlátri málsmeðferð.
    Ríkjandi ástand stuðlar ekki að jöfnum aðgangi að áfrýjun til æðra dómstigs. Það leiðir til þess að málsaðilar hafa ekki jafnan aðgang að endurskoðun á úrlausnum dómstóla. Það er hvorki í samræmi við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar né 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá kann ríkjandi ástand einnig að stríða gegn 13. gr. sáttmálans sem felur í sér rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns.

Niðurlag.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að ekki þurfi að uppfylla skilyrði 1.–4. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um áfrýjunarfjárhæð þegar um er að ræða meiðyrðamál skv. 234.–237. gr. almennra hegningarlaga eða þegar krafist hefur verið ómerkingar ummæla skv. 1. mgr. 241. gr. Slík mál snerta ávallt mikilvæg réttindi einstaklinga. Annars vegar snúa þau að mannhelgi þeirra og persónu, þ.e. ærunni, og hins vegar að tjáningarfrelsi einstaklinga eða lögaðila.
    Sú staðreynd að auðveldara er að áfrýja úrlausnum dómstóla í meiðyrðamálum þegar sýknað er fyrir ærumeiðingar, frekar en þegar sakfellt er, leiðir til ójafnvægis og getur bjagað niðurstöðu dómstóla. Rétturinn til að fá niðurstöðu dómstóla endurskoðaða tryggir réttaröryggi og samræmi í réttarframkvæmd. Það að einungis annar aðili hafi möguleika á áfrýjun, eftir því hver niðurstaðan er, býr til skekkju í dómaframkvæmd sem getur haft neikvæð áhrif á tjáningarfrelsið. Afar mikilvægt er að bregðast við þeirri stöðu og lagfæra þennan ágalla á réttarfarslögum. Það að annar aðili máls hafi ríkari rétt til áfrýjunar stríðir gegn meginreglu einkamálaréttarfars um jafnræði málsaðila og um rétt til réttlátrar málsmeðferðar sem varinn er af 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
1     Jón Steinar Gunnlaugsson, Um málskot í einkamálum (Bókaútgáfan Codex 2005), bls. 11–12.
2     Markús Sigurbjörnsson, Einkamálaréttarfar (2. útg., Úlfljótur 2003), bls. 13.
3     Hansen gegn Noregi, umsókn nr. 15319/09 (MDE, 2. október 2014).