Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 908, 117. löggjafarþing 198. mál: meðferð einkamála (áfrýjun o.fl.).
Lög nr. 38 19. apríl 1994.

Lög um breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991.


1. gr.

     Í 1. mgr. 14. gr. laganna falla niður orðin „þar á meðal dómsgerðir í heild sinni“.
     Í fyrri málslið 2. mgr. 14. gr. laganna falla brott orðin „eftirrit af því sem hefur verið hljóðritað eða tekið á myndband“ en í stað þeirra kemur: eftirgerð af hljóðupptöku eða myndbandsupptöku.

2. gr.

     Í 15. gr. laganna fellur niður e-liður. Eldri f-liður verður þá e-liður.

3. gr.

     2. málsl. 5. mgr. 124. gr. laganna fellur niður.

4. gr.

     Við 2. mgr. 125. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur í reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar, þar á meðal um viðmiðunarmörk í mati hennar á skilyrðum fyrir gjafsókn skv. a-lið 1. mgr. 126. gr.

5. gr.

     151. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Með þeim takmörkunum sem leiðir af öðrum ákvæðum þessara laga er aðila heimilt að áfrýja héraðsdómi til Hæstaréttar. Við áfrýjun má leita endurskoðunar á úrskurðum og ákvörðunum sem hafa gengið undir rekstri máls í héraði.
     2. Hafi sakarefni verið skipt í máli skv. 31. gr. verður að áfrýja hverjum dómi fyrir sig áður en lengra er haldið við rekstur þess.
     3. Áfrýja má dómi í því skyni að honum verði breytt að efni til eða hann staðfestur, hann verði ómerktur og máli vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar eða máli verði vísað frá héraðsdómi.
     4. Heimilt er báðum eða öllum aðilum að áfrýja dómi. Skal málið þá flutt í einu lagi fyrir Hæstarétti.
     5. Afsal á rétti til málskots, hvort heldur er berum orðum eða þegjandi, verður ekki gefið fyrr en dómur er genginn í máli í héraði.

6. gr.

     152. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Nú varðar mál fjárkröfu og er það þá skilyrði áfrýjunar að fjárhæð hennar nemi 300.000 krónum. Þessari fjárhæð skal breyta um hver áramót miðað við breytingu á lánskjaravísitölu frá 1. júlí 1992, en dómsmálaráðherra auglýsir í Lögbirtingablaði nýja fjárhæð ekki síðar en 10. desember ár hvert.
     2. Áfrýjunarfjárhæð skal ákveða eftir höfuðstól kröfu í áfrýjunarstefnu. Ef fleiri kröfur en ein eru sóttar saman í máli skal leggja þær saman við ákvörðun áfrýjunarfjárhæðar. Hafi gagnkrafa verið höfð uppi til skuldajafnaðar skal ekki litið til hennar við ákvörðun áfrýjunarfjárhæðar.
     3. Ef mál varðar annars konar kröfu en fjárkröfu ákveður Hæstiréttur hvort hagsmunirnir svari til áfrýjunarfjárhæðar. Áður en ákvörðun er tekin getur Hæstiréttur leitað umsagnar málsaðila.
     4. Nú nær krafa ekki áfrýjunarfjárhæð eða Hæstiréttur telur hagsmuni ekki nægja til áfrýjunar skv. 3. mgr. og getur hann þá orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja máli ef einhverju eftirtalinna skilyrða er fullnægt:
 1. úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi,
 2. úrslit málsins varða mikilvæga hagsmuni þess sem leitar áfrýjunarleyfis,
 3. ekki er útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi kunni að verða breytt svo að einhverju nemi.

7. gr.

     153. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Dómi verður áfrýjað til Hæstaréttar innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu hans.
     2. Hæstiréttur getur orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja dómi sem berst næstu þrjá mánuði eftir lok frests skv. 1. mgr. ef skilyrðum 4. mgr. 152. gr. er fullnægt, enda sé dráttur á áfrýjun nægilega réttlættur.
     3. Nú áfrýjar aðili dómi og er gagnaðila þá heimilt að gagnáfrýja án tillits til áfrýjunarfrests, en stefnu til gagnáfrýjunar verður að gefa út meðan hann nýtur enn frests til að leggja fram greinargerð fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 158. gr.
     4. Ef mál, sem hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar innan frests skv. 1.–3. mgr., verður ekki þingfest, það fellur þar niður eða því er vísað þaðan frá dómi er aðila heimilt að skjóta því þangað aftur þótt áfrýjunarfrestur sé þá liðinn. Ber þá að fá áfrýjunarstefnu gefna út á ný innan fjögurra vikna frá því málið átti að þingfesta eða uppkvaðningu dóms um niðurfellingu þess eða frávísun. Þessari heimild verður ekki beitt oftar en einu sinni í máli.

8. gr.

     154. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Sá sem leitar áfrýjunarleyfis skv. 152. eða 153. gr. skal senda Hæstarétti skriflega umsókn um það ásamt áfrýjunarstefnu sem hann vill fá gefna út og endurriti héraðsdóms. Í umsókninni skal rökstutt ítarlega hvernig umsækjandi telur skilyrðum fyrir áfrýjunarleyfi fullnægt.
     2. Hæstiréttur getur gefið öðrum málsaðilum kost á að tjá sig um umsókn áður en ákvörðun er tekin.
     3. Synji Hæstiréttur um áfrýjunarleyfi getur sami aðili ekki sótt um það öðru sinni.
     4. Nú er áfrýjunarleyfi veitt og skal þá gefa út áfrýjunarstefnuna sem fylgdi umsókn og árita hana um leyfisveitinguna. Hæstiréttur verður ekki krafinn um rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun.
     5. Ef synjað er um áfrýjunarleyfi skal þeim sem sótti um það tilkynnt bréflega um þá niðurstöðu. Í tilkynningunni skal greint frá ástæðum fyrir synjuninni.

9. gr.

     155. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Nú vill aðili áfrýja dómi og leggur hann þá fyrir hæstaréttarritara áfrýjunarstefnu ásamt endurriti af dóminum. Í áfrýjunarstefnu skal greina:
 1. heiti og númer sem málið bar fyrir héraðsdómi, fyrir hverjum héraðsdómstóli var leyst úr málinu og hvenær dómur var kveðinn upp í því,
 2. nöfn aðila, kennitölu og heimili eða dvalarstað, svo og nöfn fyrirsvarsmanna þeirra, ef því er að skipta, stöðu þeirra og heimili eða dvalarstað,
 3. hver eða hverjir flytji málið fyrir áfrýjanda,
 4. í hverju skyni áfrýjað er og hverjar dómkröfur áfrýjandi gerir,
 5. hvenær stefndi verði í síðasta lagi að tilkynna Hæstarétti að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum í málinu, en hæstaréttarritari ákveður dagsetningu í þessu skyni við útgáfu stefnu,
 6. hverju það varði að stefndi komi ekki fram tilkynningu skv. e-lið.
     2. Afhenda skal hæstaréttarritara tvö eintök af áfrýjunarstefnu sem Hæstiréttur fær haldið eftir.
     3. Hæstaréttarritari synjar um útgáfu áfrýjunarstefnu ef hann telur hana ekki vera í réttu horfi. Sé áfrýjunarfrestur að renna út getur hann ákveðið skamman frest handa áfrýjanda til að bæta úr áfrýjunarstefnu og má þá gefa hana út án áfrýjunarleyfis ef henni er framvísað til útgáfu á ný í réttu horfi innan þess tíma þótt áfrýjunarfrestur sé þá liðinn. Frestur í þessu skyni skal ekki vera lengri en ein vika og verður aðeins veittur í eitt skipti. Áfrýjandi getur krafist ákvörðunar Hæstaréttar um synjun hæstaréttarritara um útgáfu áfrýjunarstefnu.
     4. Hæstaréttarritari gefur út áfrýjunarstefnu í nafni dómsins.
     5. Áfrýjunarstefnu verður að birta ekki síðar en viku áður en frestur handa stefnda skv. e-lið 1. mgr. er á enda. Að öðru leyti gilda ákvæði XIII. kafla um birtingu áfrýjunarstefnu.

10. gr.

     156. gr. laganna verður svohljóðandi:
     1. Eftir birtingu áfrýjunarstefnu en áður en fresti stefnda skv. e-lið 1. mgr. 155. gr. lýkur skal áfrýjandi afhenda Hæstarétti stefnuna ásamt sönnun fyrir birtingu hennar, svo og greinargerð af sinni hálfu. Einnig skal hann þá skila málsgögnum í þeim fjölda eintaka sem Hæstiréttur ákveður, en til þeirra teljast þau málsskjöl og endurrit sem áfrýjandi hyggst byggja mál sitt á fyrir Hæstarétti og liggja þegar fyrir. Mál er þá þingfest fyrir Hæstarétti.
     2. Í greinargerð áfrýjanda skal koma fram:
 1. Í hverju skyni sé áfrýjað og hvers áfrýjandi krefjist nákvæmlega fyrir Hæstarétti, svo og hvort einnig sé áfrýjað til að fá hnekkt tilteknum úrskurði eða ákvörðun héraðsdómara.
 2. Málsástæður sem áfrýjandi ber fyrir sig fyrir Hæstarétti. Lýsing þeirra skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála á hverju áfrýjun sé byggð, en eftir atvikum getur áfrýjandi vísað um þær til tiltekinna skjala málsins. Felli áfrýjandi sig ekki við lýsingu annarra atvika í héraðsdómi skal hann á sama hátt greina frá hvernig hann telji þeim réttilega lýst.
 3. Tilvísun til helstu réttarreglna sem áfrýjandi byggir málatilbúnað sinn á fyrir Hæstarétti.
 4. Gögn sem áfrýjandi leggur þegar fram fyrir Hæstarétti, svo og gögn sem hann telur sig þurfa að afla eftir þann tíma.
     3. Þegar mál hefur verið þingfest beinir hæstaréttarritari því til héraðsdómstólsins, þar sem var leyst úr máli, að afhenda Hæstarétti dómsgerðir.
     4. Hæstiréttur setur nánari reglur um frágang málsgagna og dómsgerða.

11. gr.

     Ný grein, sem verður 157. gr. laganna, verður svohljóðandi:
     1. Nú lætur áfrýjandi undir höfuð leggjast að afhenda Hæstarétti áfrýjunarstefnu, greinargerð eða málsgögn samkvæmt fyrirmælum 156. gr. og verður þá ekki frekar af máli.
     2. Ef ekki er sótt þing af hálfu áfrýjanda á síðara stigi verður málið fellt niður með dómi. Hafi stefndi skilað greinargerð í málinu má dæma honum málskostnað úr hendi áfrýjanda.

12. gr.

     Ný grein, sem verður 158. gr. laganna, verður svohljóðandi:
     1. Nú hyggst stefndi skila greinargerð í máli, og skal þá bréfleg tilkynning hans um það berast Hæstarétti innan frests sem honum var settur í þessu skyni í áfrýjunarstefnu. Þegar mál er þingfest ákveður hæstaréttarritari stefnda frest í fjórar til sex vikur til að skila greinargerð og sendir honum eintak af málsgögnum áfrýjanda. Áfrýjanda skal tilkynnt um þann frest sem stefnda er veittur.
     2. Gagnáfrýjun veitir ekki stefnda rétt til sjálfstæðs frests.
     3. Berist Hæstarétti ekki tilkynning skv. 1. mgr. eða skili stefndi ekki greinargerð innan þess frests sem honum hefur verið settur skal litið svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Skal málið þá dómtekið, en fyrst má þó veita áfrýjanda skamman frest til að ljúka gagnaöflun sem hann hefur boðað í greinargerð. Hæstiréttur kveður upp dóm í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna án munnlegs flutnings.
     4. Hafi stefndi skilað greinargerð en þingsókn fellur niður af hans hálfu á síðara stigi máls má gefa áfrýjanda kost á að svara vörnum hans í skriflegri sókn og ljúka gagnaöflun. Skal málið síðan dómtekið og dómur lagður á það eftir framkomnum kröfum, gögnum og sókn áfrýjanda með tilliti til þess sem hefur komið fram af hálfu stefnda.
     5. Nú hefur stefndi ekki skilað greinargerð og getur þá Hæstiréttur allt að einu heimilað honum að taka til varna í máli með eða án samþykkis áfrýjanda, enda séu miklir hagsmunir í húfi fyrir hann og vanræksla hans þyki afsakanleg. Eins má fara að ef þingsókn stefnda fellur niður á síðara stigi máls.

13. gr.

     Ný grein, sem verður 159. gr. laganna, verður svohljóðandi:
     1. Í greinargerð stefnda skal koma fram:
 1. hver eða hverjir flytji málið fyrir stefnda,
 2. kröfugerð stefnda, en í þeim efnum skal skýrlega tekið fram hvort og þá hvers vegna hann breyti kröfum frá þeim sem hann gerði í héraði, svo og hvort hann samþykki kröfur áfrýjanda í einhverjum atriðum og þá nákvæmlega hverjum,
 3. málsástæður sem stefndi ber fyrir sig fyrir Hæstarétti, en lýsing þeirra skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála á hverju hann byggi. Felli stefndi sig ekki við lýsingu annarra atvika máls í héraðsdómi eða eftir atvikum áfrýjunarstefnu skal hann geta á sama hátt hvernig hann telji atvikum réttilega lýst,
 4. tilvísun til helstu réttarreglna sem stefndi byggir málatilbúnað sinn á fyrir Hæstarétti,
 5. athugasemdir við málatilbúnað áfrýjanda ef þeirra er þörf,
 6. gögn sem stefndi telur sig þurfa að afla síðar.
     2. Með greinargerð skal stefndi afhenda málsgögn í þeim fjölda eintaka sem Hæstiréttur ákveður, en til þeirra teljast þau málsskjöl og endurrit sem hann hyggst byggja mál sitt á fyrir Hæstarétti og liggja þegar fyrir, enda hafi áfrýjandi ekki þegar afhent þau.
     3. Ákvæði 4. mgr. 156. gr. gilda um málsgögn stefnda.

14. gr.

     Ný grein, sem verður 160. gr. laganna, verður svohljóðandi:
     1. Áfrýjanda skal tilkynnt þegar Hæstarétti hafa borist greinargerð og málsgögn stefnda og sent eintak af þeim. Hafi aðilar ekki þegar lýst gagnaöflun lokið skal þeim um leið veittur sameiginlegur frestur til frekari gagnaöflunar. Sá frestur skal að jafnaði ekki vera lengri en einn mánuður. Hvor aðili um sig skal afhenda í einu lagi ný gögn sín í frumriti og ljósrit eða eftirrit þeirra í sama búningi og segir í 156. og 159. gr. Hæstiréttur tilkynnir aðilum um gögn sem berast innan þessa frests, en að honum liðnum telst gagnaöflun sjálfkrafa lokið nema áður hafi verið fallist á skriflega ósk aðila um lengri frest eða dómurinn beinir því síðar til aðila að hann megi afla tiltekinna gagna. Hæstiréttur getur þó heimilað aðila að leggja fram ný gögn eftir lok gagnaöflunar ef ekki var unnt að afla þeirra fyrr eða atvik hafa breyst svo að máli skiptir eftir þann tíma.
     2. Strax og gagnaöflun er lokið skal hvor aðili um sig tilkynna Hæstarétti hve langan tíma hann áætli að hann þurfi til að flytja munnlega málflutningsræðu í málinu.
     3. Ef þörf krefur tekur Hæstiréttur mál fyrir á dómþingi til að ráða til lykta atriðum varðandi rekstur þess. Skulu aðilar kvaddir fyrir dóm með hæfilegum fyrirvara í þessu skyni.

15. gr.

     Ný grein, sem verður 161. gr. laganna, verður svohljóðandi:
     1. Þegar gagnaöflun er lokið í máli þar sem stefndi skilar greinargerð ákveður Hæstiréttur hvenær það verði flutt og tilkynnir aðilum um það með hæfilegum fyrirvara.
     2. Að jafnaði skal flytja mál um formsatriði þess áður en það verður tekið til frekari meðferðar að efni til. Hæstiréttur getur þó ákveðið að mál verði flutt í einu lagi um formsatriði og efni eða að taka formsatriði máls til úrlausnar án sérstaks málflutnings, enda hafi aðilar þá áður átt kost á að tjá sig um það.
     3. Ef stefndi hefur skilað greinargerð í máli verður það flutt munnlega. Hæstiréttur getur þó ákveðið að mál verði skriflega flutt ef sérstakar ástæður mæla með því. Hæstiréttur getur einnig tekið til greina samhljóða óskir aðila um að málið verði dómtekið án sérstaks málflutnings.
     4. Um leið og boðað er til málflutnings getur Hæstiréttur beint til aðila að þeir afhendi hvor um sig með tilteknum fyrirvara stutt yfirlit um atvik máls í tímaröð, málsástæður sínar og tilvísanir til réttarreglna, svo og um tilvitnanir í fræðirit og dóma sem þeir hyggjast styðjast við í málflutningi.
     5. Hæstiréttur getur takmarkað ræðutíma aðila við munnlegan flutning máls. Þegar boðað er til málflutnings má taka fram hve langan tíma aðilar fá hvor um sig til umráða.

16. gr.

     Ný grein, sem verður 162. gr. laganna, verður svohljóðandi:
     1. Áður en munnlegur málflutningur hefst á dómþingi skal gerð grein fyrir dómsorði héraðsdóms og áfrýjunarstefnu að því leyti sem forseti telur þess þörf til skýringar á málflutningi. Að því loknu verða málflutningsræður fluttar.
     2. Frumræða verður fyrst flutt af hálfu áfrýjanda og síðan af hálfu stefnda nema forseti hafi ákveðið aðra röð og aðilum verið það tilkynnt við boðun til málflutnings. Eftir frumræður skal gefinn kostur á að fram komi stutt andsvör af hálfu hvors aðila í sömu röð. Flytji málflutningsumboðsmaður málið af hálfu aðila getur forseti heimilað aðilanum sjálfum að koma að stuttum athugasemdum að loknum andsvörum umboðsmanns hans.
     3. Í málflutningi skal gera grein fyrir kröfum, í hverju ágreiningsefni aðilanna felast, málsástæðum og öðrum röksemdum fyrir kröfum. Skal forðast málalengingar og málflutningi beint að þeim atriðum sem ágreiningur er um eða nauðsynlegt er að fjalla um til að varpa ljósi á ágreiningsefni.
     4. Forseti stýrir þinghaldi. Hann getur krafist að málflytjandi haldi sig við efnið og láti vera að fjalla um þá þætti máls sem ágreiningur er ekki um eða ástæðulaust er af öðrum sökum að gera frekari grein fyrir. Forseti getur stöðvað málflutning ef ræður verða langar úr hófi fram eða sett honum tímatakmörk og við þau bundið enda á málflutning.
     5. Að loknum málflutningi tekur Hæstiréttur málið til dóms.

17. gr.

     Ný grein, sem verður 163. gr. laganna, verður svohljóðandi:
     1. Dómar Hæstaréttar skulu byggðir á því sem hefur komið fram í máli og er sannað eða viðurkennt. Ákvæði 111. gr. gilda um dóma Hæstaréttar.
     2. Nú hefur aðili borið fram kröfur eða málsástæður sem hann hafði ekki uppi í héraði og getur þá Hæstiréttur byggt á þeim við úrlausn máls ef þær hafa komið fram í greinargerð aðilans, grundvelli máls er ekki raskað á þann hátt, afsakanlegt er að þær voru ekki hafðar uppi í héraði og það yrði aðilanum til réttarspjalla að ekki yrði tekið tillit til þeirra.

18. gr.

     Ný grein, sem verður 164. gr. laganna, verður svohljóðandi:
     1. Að því leyti sem þarf að taka afstöðu til atriða varðandi rekstur máls fyrir Hæstirétti ræður hann þeim til lykta með ákvörðun, hvort sem ágreiningur er um þau milli aðila eða ekki, enda leiði ákvörðunin ekki til loka máls fyrir dóminum. Ákvörðun verður ekki rökstudd sérstaklega, en um efni hennar skal getið í þingbók eftir þörfum.
     2. Úr öðrum atriðum máls leysir Hæstiréttur með dómi. Ef mál er fellt niður eða því er vísað frá Hæstarétti skal aðeins getið um ástæður þess í dómi, svo og um málskostnað ef því er að skipta. Sama gildir ef héraðsdómur er ómerktur og máli vísað heim eða því er vísað frá héraðsdómi.
     3. Sé kveðið á í dómi um önnur málalok en getur í 2. mgr. skal greina þar frá kröfum aðila eftir því sem þörf er á svo að niðurstaða verði skýr. Að því leyti sem greinargerð um málsatvik er ábótavant í héraðsdómi skal bætt úr því í dómi Hæstaréttar. Ef og að því leyti sem niðurstöðu héraðsdóms er breytt skal það rökstutt í dómi Hæstaréttar. Fallist Hæstiréttur á niðurstöðu héraðsdóms en ekki á röksemdir fyrir henni getur hann greint frá rökum sínum eftir því sem þykir þörf.
     4. Um dóma Hæstaréttar gilda að öðru leyti ákvæði 114. gr. eftir því sem getur átt við.

19. gr.

     Ný grein, sem verður 165. gr. laganna, verður svohljóðandi:
     1. Dóm skal kveða upp svo fljótt sem er unnt eftir að mál er dómtekið og aldrei síðar en þegar fjórar vikur eru liðnar frá því. Verði því ekki komið við og hafi mál verið munnlega flutt skal endurtaka málflutning að því leyti sem Hæstarétti þykir nauðsynlegt.
     2. Strax eftir dómtöku máls skulu dómarar ræða með sér fyrir luktum dyrum röksemdir og niðurstöðu dóms. Fyrir málflutning felur forseti einum dómara að vera frummælandi á þeim fundi, en forseti stýrir þar ráðagerðum, ber fram spurningar, stuðlar að því að álit hvers dómara komi þar sem skýrast fram og telur atkvæði þeirra. Afl atkvæða ræður úrslitum. Að lokinni umræðu felur forseti frummælandanum að semja atkvæði að dómi. Greinist dómarar í meiri og minni hluta semur frummælandinn atkvæði fyrir þann hluta sem hann heyrir til, en hinir dómararnir ákveða hver þeirra semji atkvæði þeirra. Dómari, sem greiðir atkvæði með ómerkingu héraðsdóms eða frávísun máls og verður í minni hluta, verður einnig að greiða atkvæði um efni máls. Dómarar ganga í sameiningu frá dómi, með eða án sératkvæða.
     3. Við uppkvaðningu dóms skal lesa upp dómsorð í heyranda hljóði á dómþingi eftir því sem þörf þykir. Ef sératkvæði er í dómi skal þess einnig getið.
     4. Í dómasafni Hæstaréttar skal birta alla dóma hans ásamt rökstuðningi fyrir héraðsdómum í sömu málum og öðru því úr héraðsdómum sem er þörf á svo að dómar Hæstaréttar verði nægilega ljósir. Einnig skal birta sératkvæði í dómum Hæstaréttar ef þar er komist að annarri niðurstöðu en í atkvæði meiri hluta, en annars nægir að geta að ágreiningur hafi orðið um rökstuðning fyrir niðurstöðu. Birta má útdrátt úr dómi ef það telst nægilegt til upplýsinga um málavexti og málsástæður. Hæstiréttur setur nánari reglur um dómasafn.

20. gr.

     Ný grein, sem verður 166. gr. laganna, verður svohljóðandi:
     Um meðferð áfrýjunarmála fer að öðru leyti eftir reglum þessara laga um meðferð mála í héraði eftir því sem á við.

21. gr.

     157. og 158. gr. laganna verða 167. og 168. gr.

22. gr.

     Á eftir 168. gr. laganna kemur nýr kafli, sem verður XXVII. kafli, en fyrirsögn hans verður: Endurupptaka máls sem hefur verið dæmt í Hæstarétti. Í þeim kafla verður ein grein, sem verður 169. gr., svohljóðandi:
     1. Hæstiréttur getur leyft samkvæmt umsókn aðila að mál, sem þar hefur verið dæmt, verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu á ný ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
 1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós í Hæstarétti þegar málið var þar til meðferðar fyrra skiptið og aðilanum verður ekki kennt um það,
 2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
 3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
     2. Aðili getur ekki sótt um endurupptöku máls skv. 1. mgr. nema einu sinni. Að öðru leyti getur aðili ekki afsalað sér rétti til að beiðast endurupptöku.
     3. Ákvæði 1.–3. mgr. 168. gr. gilda um umsókn um endurupptöku, meðferð umsóknar, ákvörðun um hana og áhrif endurupptöku.
     4. Nú hefur endurupptaka verið ákveðin en útivist verður við nýja meðferð málsins fyrir Hæstarétti af hendi þess sem beiddist hennar og fellur þá frekari meðferð málsins niður þannig að fyrri dómur stendur óhaggaður. Dómur skal hins vegar felldur á málið þótt gagnaðili sæki ekki þing.
     5. Að öðru leyti fer meðferð málsins fram á ný fyrir Hæstarétti samkvæmt reglum XXIV. eða XXV. kafla þessara laga eftir því sem á við.

23. gr.

     159.–169. gr. laganna verða 170.–180. gr. Þá verða XXVII. og XXVIII. kafli laganna XXVIII. og XIX. kafli.

24. gr.

     1. Nú hefur dómi verið áfrýjað fyrir gildistöku þessara laga og hagsmunir í málinu hefðu ekki nægt til að áfrýjað yrði skv. 152. gr., og getur þá Hæstiréttur ákveðið að málið verði skriflega flutt þar fyrir dómi.
     2. Hafi dómi verið áfrýjað fyrir gildistöku þessara laga en málið ekki verið þingfest fyrir Hæstarétti skal þingfesting fara fram eftir fyrirmælum eldri laga á áður ákveðnum tíma, en upp frá því skal málið rekið eftir reglum þessara laga, sbr. einnig 3. mgr.
     3. Hafi mál verið þingfest fyrir Hæstarétti fyrir gildistöku þessara laga en greinargerð áfrýjanda ekki verið lögð fram þar fyrir dómi eða ágrip dómsgerða verið afhent skal Hæstiréttur setja áfrýjanda frest til að afhenda greinargerð og málsgögn eftir ákvæðum 156. gr. Upp frá því skal málið rekið eftir reglum þessara laga, en fyrri ákvörðun um fyrirtöku máls fyrir Hæstarétti fellur þá niður.
     4. Hafi áfrýjandi lagt fram greinargerð fyrir Hæstarétti og afhent ágrip dómsgerða fyrir gildistöku þessara laga en stefndi ekki lagt fram greinargerð fyrir sitt leyti skal Hæstiréttur setja honum frest til að afhenda greinargerð og málsgögn fyrir sitt leyti skv. 159. gr. Upp frá því skal málið rekið eftir reglum þessara laga, en fyrri ákvörðun um fyrirtöku máls fyrir Hæstarétti fellur þá niður.
     5. Hafi greinargerðir aðila verið lagðar fram í máli fyrir Hæstarétti fyrir gildistöku þessara laga og því hefur verið frestað til frekari gagnaöflunar skal Hæstiréttur setja aðilunum frest til að ljúka henni skv. 160. gr. Upp frá því skal málið rekið eftir reglum þessara laga, en fyrri ákvörðun um fyrirtöku máls fyrir Hæstarétti fellur þá niður.
     6. Nú er mál tilbúið til munnlegs málflutnings eða málflutningur hefur þegar farið fram en máli er þó ekki lokið fyrir Hæstarétti við gildistöku þessara laga og gilda þá reglur þessara laga um frekari meðferð þess eftir því sem getur átt við.

25. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1994. Við gildistöku þessara laga falla úr gildi 39.– 59. gr. laga um Hæstarétt Íslands, nr. 75 21. júní 1973, með áorðnum breytingum.

Samþykkt á Alþingi 6. apríl 1994.