Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 506  —  434. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 138/2022 og nr. 249/2022 um breytingar á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og nr. 151/2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirfarandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar:
     1.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 138/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
                  a.      Framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1255 frá 21. apríl 2021 um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) nr. 231/2013 að því er varðar áhættu tengda sjálfbærni og sjálfbærniþætti sem rekstraraðilar sérhæfðra sjóða eiga að taka tillit til.
                  b.      Framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1256 frá 21. apríl 2021 um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2015/35 að því er varðar samþættingu áhættu tengda sjálfbærni í stjórnkerfum vátrygginga- og endurtryggingafélaga.
                  c.      Framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1257 frá 21. apríl 2021 um breytingar á framseldum reglugerðum (ESB) 2017/2358 og (ESB) 2017/2359 að því er varðar samþættingu sjálfbærniþátta, sjálfbærniáhættu og óska um sjálfbærni við kröfur um eftirlit og stýringu afurða fyrir vátryggingafélög og dreifingaraðila vátrygginga og við reglur um viðskiptahætti og fjárfestingarráðgjöf fyrir vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir.
                  d.      Framselda tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1270 frá 21. apríl 2021 um breytingu á tilskipun 2010/43/ESB að því er varðar áhættu tengda sjálfbærni og sjálfbærniþætti sem taka á tillit til í tengslum við verðbréfasjóði (UCITS).
     2.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 151/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
                  a.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2088 frá 27. nóvember 2019 um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu.
                  b.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/852 frá 18. júní 2020 um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu og um breytingu á reglugerð (ESB) 2019/2088.
     3.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 249/2022 frá 23. september 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
                  a.      Framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1253 frá 21. apríl 2021 um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2017/565 að því er varðar samþættingu sjálfbærniþátta, -áhættu og -óska í tilteknar skipulagskröfur og rekstrarskilyrði fyrir verðbréfafyrirtæki.
                  b.      Framselda tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1269 frá 21. apríl 2021 um breytingu á framseldri tilskipun (ESB) 2017/593 að því er varðar samþættingu sjálfbærniþátta í afurðastýringarskyldur.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á þremur ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og um bókun 37 við eina þeirra (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn frá 2. maí 1992. Um er að ræða ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 151/2022 og nr. 249/2022 (fskj. I, VI og IX). Með þeim eru felldar inn í EES-samninginn átta gerðir sem tilgreindar eru í 1.–3. tölul. í tillögugreininni (fskj. II, III, IV, V, VII, VIII, X og XI).
    Í 2. kafla verður gerð grein fyrir samráði við Alþingi vegna upptöku gerðanna sem lagt er til að verði felldar inn í EES-samninginn með framangreindum ákvörðunum. Í 3. kafla verður fjallað um efni ákvarðananna og gerðanna auk aðlögunar þeirra að EES-samningnum. Gerðunum er öllum ætlað að auka sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu. Ekki er um að ræða breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Jafnframt er í þeim kafla skýrt frá lagabreytingum sem gera þarf hér á landi vegna innleiðingar gerðanna og hugsanleg áhrif. Þá er í 4. kafla fjallað um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn almennt og um stjórnskipulegan fyrirvara.

2. Samráð við Alþingi vegna upptöku gerðanna í EES-samninginn.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku þeirra gerða sem kalla á lagabreytingar til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála og gerði utanríkismálanefnd ekki athugasemdir við upptöku þeirra í EES-samninginn. Einnig var haft samráð við nefndina í aðdraganda fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem umræddar ákvarðanir voru teknar og þær kynntar nefndinni sérstaklega. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/852 fékk jafnframt efnislega umfjöllun hjá efnahags- og viðskiptanefnd en samkvæmt nefndaráliti voru ekki gerðar athugasemdir við upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn.

3. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar.
3.1. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 138/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
    Ákvörðun nr. 138/2022 hefur að geyma þrjár framseldar reglugerðir auk framseldrar tilskipunar sem allar varða reglur um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu. Tvær reglugerðanna eru á sviði vátryggingamarkaðar og ein reglugerð ásamt tilskipuninni á sviði sjóðamarkaðar. Einungis reglugerð (ESB) 2021/1257 kallar á lagabreytingar.
    Framseld reglugerð (ESB) 2021/1257 breytir framseldum reglugerðum (ESB) 2017/2358 og 2017/2359. Þær reglugerðir fjalla annars vegar um kröfur um eftirlit og stýringu afurða fyrir vátryggingafélög og dreifingaraðila vátrygginga og hins vegar kröfur um upplýsingar og reglur um viðskiptahætti sem gilda um dreifingu vátryggingatengdra fjárfestingarafurða. Í reglugerð (ESB) 2021/1257 eru reglurnar um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu, þ.m.t. sjálfbærniþætti og markmið, samþættar við efni reglugerða (ESB) 2017/2358 og 2017/2359. Gerðirnar fjórar eru hluti af sama pakka af gerðum og heyrir til ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 151/2022.
    Reglugerðir (ESB) 2017/2358 og 2017/2359 sem framselda reglugerðin breytir voru teknar upp í íslenskan rétt með ákvæði í lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, sbr. breytingalög nr. 82/2021. Veita þarf framseldu reglugerðinni lagagildi með sama hætti, þ.e. með breytingu á lögum um vátryggingarsamninga. Ætlunin er að innleiða framseldu reglugerðina með frumvarpi sem innleiðir einnig gerðirnar sem felldar eru inn í EES-samninginn með ákvörðun nr. 151/2022. Gert er ráð fyrir framlagningu frumvarps þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Hvorki er gert ráð fyrir áhrifum á stjórnsýslu né því að útgjöld ríkisins aukist vegna innleiðingar gerðanna.

3.2. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 151/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn.
    Með ákvörðuninni eru felldar inn í EES-samninginn tvær reglugerðir sem eru liður í því að uppfylla markmið áætlunar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun árið 2030 og að efla viðbrögð við loftslagsbreytingum með því að auka fjármagnshvata fyrir fyrirtæki til að aðlaga sig að takmarkaðri losun gróðurhúsalofttegunda og viðnámi gegn loftslagsbreytingum.
    Með reglugerð (ESB) 2019/2088 eru lagðar skyldur á herðar aðilum á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjöfum til að birta upplýsingar um hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvarðanir og í ráðgjöf og hvort og þá hvernig tekið er tillit til skaðlegra áhrifa á sjálfbærni. Í reglugerðinni er mælt fyrir um samræmdar reglur fyrir aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa um þær upplýsingar sem þeim ber að birta fjárfestum með viðeigandi hætti um sjálfbærnitengd áhrif í tengslum við fjármálaafurðir. Reglugerðin tekur mið af markmiðum Parísarsamkomulagsins um að draga verulega úr áhættu og áhrifum af loftslagsbreytingum með því meðal annars að samhæfa fjármálamarkaðinn við ferli í átt að þróun að minni losun gróðurhúsalofttegunda og viðnámi gegn loftslagsbreytingum. Með áhættu tengdri sjálfbærni er átt við atvik eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gætu haft veruleg og neikvæð áhrif á virði fjárfestinga. Upplýsingarnar eiga að gera endanlegum fjárfestum kleift að taka upplýstari fjárfestingarákvarðanir og eiga því að vera hluti af þeirri upplýsingagjöf sem veitt er fjárfestum áður en samningur er gerður. Aðilum á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjöfum ber að birta upplýsingarnar á vefsetrum sínum, í starfskjarastefnum sínum og áður en samningur er gerður við fjárfesta.
    Reglugerð (ESB) 2020/852 kveður á um samræmdan ramma sem stuðlar að sjálfbærum fjárfestingum. Með henni er komið á fót flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teljist vera sjálfbær atvinnustarfsemi. Flokkunarkerfinu er ætlað að auka gagnsæi með tengdri upplýsingagjöf markaðsaðila og stórra fyrirtækja og hjálpa fjárfestum og fyrirtækjum að átta sig á því hversu sjálfbær tiltekin atvinnustarfsemi er svo að þeim sé kleift að taka upplýstar fjárfestingarákvarðanir með sjálfbærni að leiðarljósi. Flokkunarkerfinu er jafnframt ætlað að sporna við svokölluðum „grænþvotti“ sem lýsir sér í því að tiltekin atvinnustarfsemi eða fjárfestingarafurð er markaðssett sem sjálfbær án þess að hægt sé að sýna fram á það. Flokkunarkerfið skapar grundvöll fyrir evrópska staðla og vottanir fyrir sjálfbærar fjármálaafurðir. Það tekur mið af sex umhverfismarkmiðum sem eru mildun loftslagsbreytinga, aðlögun að loftslagsbreytingum, sjálfbær nýting og verndun vatns og sjávarauðlinda, umbreyting í hringrásarhagkerfi, mengunarvarnir og eftirlit með mengun og verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa.
    Í reglugerðinni eru sett fram fjögur grunnskilyrði þess að atvinnustarfsemi geti talist sjálfbær en þau eru í fyrsta lagi að um sé að ræða verulegt framlag til a.m.k. eins af umhverfismarkmiðunum, í annan stað að starfsemin skaði ekki verulega neitt af öðrum markmiðum, í þriðja lagi að lágmarksverndarráðstöfunum sé fullnægt og að lokum að tæknilegum viðmiðunum sé fullnægt.
    Ítarlegri tæknileg viðmið um hvaða atvinnustarfsemi telst færa verulegt framlag til umhverfismarkmiða reglugerðarinnar verða útfærð í framseldum reglugerðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
    Í reglugerð (ESB) 2020/852 eru gerðar kröfur um tilteknar upplýsingar sem birta þarf ef fjármálaafurð er markaðssett sem sjálfbær. Meðal annars þarf að tilgreina hvernig og að hvaða leyti flokkunarkerfið hefur verið notað til að meta hvort fjármálaafurðin teljist vera sjálfbær, að hvaða umhverfismarkmiðum fjármálaafurðin stuðlar og hlutfall þeirra fjárfestinga sem leggja grunn að fjármálaafurðinni teljast sjálfbærar í skilningi reglugerðarinnar. Reglugerðin gildir um aðila á fjármálamarkaði eins og þeir eru skilgreindir samkvæmt reglugerð (ESB) 2019/2088. Þá gildir hluti reglugerðarinnar um stór félög og einingar tengdar almannahagsmunum sem falla undir skyldu til að birta ófjárhagslegar upplýsingar, sbr. 66. gr. d laga um ársreikninga, nr. 3/2006.
    Engar efnislegar aðlaganir voru gerðar við reglugerðirnar við upptökuna.
    Gera má ráð fyrir að almenn áhrif innleiðingar gerðanna verði jákvæð. Þær gera ríkari kröfur um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja, fjármálaráðgjafa, stærri fyrirtækja og félaga, sem tengjast almannahagsmunum, til neytenda um sjálfbærnimál og auka samræmi þeirra upplýsinga og aðferða sem beitt er við mat á því hvað teljist vera sjálfbær atvinnustarfsemi. Þess má vænta að traust á þeim fjármálaafurðum sem markaðssettar eru sem sjálfbærar eða grænar aukist og jafnframt dragi úr áðurnefndum grænþvotti. Enn fremur mun innleiðing gerðanna hvetja aðila á fjármálamarkaði og stærri félög til að horfa í auknum mæli til sjálfbærrar þróunar í starfsemi sinni, m.a. við markaðssetningu og fjárfestingar. Má því vænta að af því verði samfélagslegur ávinningur. Gera má ráð fyrir að einhver kostnaður og fyrirhöfn muni fylgja breyttri framkvæmd en það veltur að miklu leyti á því að hve miklu leyti fyrirtækin hafa þegar tekið tillit til sjálfbærniþátta í starfsemi sinni. Gera má ráð fyrir að flokkunarkerfið muni auka fjármagnsaðgengi fyrirtækja sem aðlaga fjárfestingar og útlánasöfn sín að þeim skilyrðum sem sett eru í kerfinu. Flokkunarkerfið mun jafnframt skapa hvata fyrir fyrirtæki til að endurskipuleggja rekstur sinn í átt að sjálfbærni. Auk þess eykur samræming á reglum Evrópska efnahagssvæðisins alþjóðlega samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja á svæðinu. Seðlabanki Ísland mun taka tillit til þeirra auknu verkefna sem stofnuninni verða falin, bæði í kostnaði og útreikningi á eftirlitsgjaldi samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ekki er því gert ráð fyrir áhrifum á afkomu ríkissjóðs.

3.3. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 249/2022 frá 23. september 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
    Ákvörðun nr. 249/2022 varðar tvær gerðir sem varða báðar reglur um sjálfbærni á sviði verðbréfafyrirtækja.
    Í fyrsta lagi er um að ræða framselda reglugerð (ESB) 2021/1253. Hún breytir framseldri reglugerð (ESB) 2017/565 sem fjallar um skipulagskröfur og rekstrarskilyrði verðbréfafyrirtækja. Í reglugerð (ESB) 2021/1253 eru reglur um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu, þar á meðal sjálfbærniþætti, -áhættu og -óskir, samþættar við tilteknar skipulagskröfur og rekstrarskilyrði fyrir verðbréfafyrirtæki.
    Framseldri reglugerð (ESB) 2017/565 var veitt lagagildi hér á landi með lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Innleiðing framseldu reglugerðar (ESB) 2021/1253 kallar því á breytingu á ákvæðum þeirra laga. Til stendur að gera þá breytingu með frumvarpi sem innleiðir einnig sjálfbærnigerðirnar sem felldar eru inn í EES-samninginn með ákvörðun nr. 151/2022. Gert er ráð fyrir framlagningu frumvarps þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Í öðru lagi er með ákvörðun nr. 249/2022 felld inn í EES-samninginn framseld tilskipun (ESB) 2021/1269. Hún breytir framseldri tilskipun (ESB) 2017/593 sem varðar fjármálagerninga og fjármuni í eigu viðskiptavina, afurðarstýringarskyldur og reglurnar sem gilda um veitingu eða móttöku þóknana, umboðslauna eða hvers konar peningalegs eða ópeningalegs ávinnings. Í framseldri tilskipun (ESB) 2021/1269 er kveðið á um samþættingu sjálfbærniþátta við fyrirkomulag stjórnarhátta verðbréfafyrirtækja í tengslum við vernd eigna viðskiptavina fjármálagerninga og vöruþróunarferli verðbréfafyrirtækja sem framleiða fjármálagerninga. Framseld tilskipun (ESB) 2021/1269 verður innleidd með reglugerðarbreytingu. Almenn áhrif innleiðingar gerðanna eru talin vera jákvæð þar sem þær gera ríkari kröfur um upplýsingagjöf og eftirfylgni á verðbréfamarkaði vegna sjálfbærnimála.
    Þær breytingar sem gerðirnar fela í sér munu hafa lítil áhrif á eftirlit fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands með verðbréfafyrirtækjum og eru áhrif á ríkissjóð vegna innleiðingar þeirra engin.

4. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umræddar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar fela í sér breytingar á EES-samningnum en þar sem þær kalla á lagabreytingar hér á landi voru þær teknar með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum á EES-samningnum sem í ákvörðununum felast.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 138/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0506-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1255 frá 21. apríl 2021 um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) nr. 231/2013 að því er varðar áhættu tengda sjálfbærni og sjálfbærniþætti sem rekstraraðilar sérhæfðra sjóða eiga að taka tillit til.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0506-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1256 frá 21. apríl 2021 um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2015/35 að því er varðar samþættingu áhættu tengda sjálfbærni í stjórnkerfum vátrygginga- og endurtryggingafélaga.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0506-f_III.pdf



Fylgiskjal IV.


Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1257 frá 21. apríl 2021 um breytingar á framseldum reglugerðum (ESB) 2017/2358 og (ESB) 2017/2359 að því er varðar samþættingu sjálfbærniþátta, sjálfbærniáhættu og óska um sjálfbærni við kröfur um eftirlit og stýringu afurða fyrir vátryggingafélög og dreifingaraðila vátrygginga og við reglur um viðskiptahætti og fjárfestingarráðgjöf fyrir vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0506-f_IV.pdf



Fylgiskjal V.


Framseld tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1270 frá 21. apríl 2021 um breytingu á tilskipun 2010/43/ESB að því er varðar áhættu tengda sjálfbærni og sjálfbærniþætti sem taka á tillit til í tengslum við verðbréfasjóði (UCITS).

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0506-f_V.pdf



Fylgiskjal VI.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 151/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0506-f_VI.pdf



Fylgiskjal VII.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2088 frá 27. nóvember 2019 um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0506-f_VII.pdf



Fylgiskjal VIII.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/852 frá 18. júní 2020 um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu og um breytingu á reglugerð (ESB) 2019/2088.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0506-f_VIII.pdf



Fylgiskjal IX.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 249/2022 frá 23. september 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0506-f_IX.pdf



Fylgiskjal X.


Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1253 frá 21. apríl 2021 um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2017/565 að því er varðar samþættingu sjálfbærniþátta, -áhættu og -óska í tilteknar skipulagskröfur og rekstrarskilyrði fyrir verðbréfafyrirtæki.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0506-f_X.pdf



Fylgiskjal XI.


Framseld tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1269 frá 21. apríl 2021 um breytingu á framseldri tilskipun (ESB) 2017/593 að því er varðar samþættingu sjálfbærniþátta í afurðastýringarskyldur.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0506-f_XI.pdf