Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 557  —  475. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 396/2021 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál), nr. 398/2021 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og XX. viðauka (Umhverfismál), nr. 49/2022 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun), nr. 77/2022 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) og XIII. viðauka (Flutningastarfsemi), og nr. 78/2022 og nr. 155/2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirfarandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar:
     1.      Ákvörðun nr. 396/2021 frá 10. desember 2021 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
                  a.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/956 frá 28. júní 2018 um vöktun og skýrslugjöf vegna koltvísýringslosunar og eldsneytisnotkunar nýrra þungra ökutækja.
                  b.      Framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/888 frá 13. mars 2019 um breytingu á I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/956 að því er varðar gögn um ný þung ökutæki sem aðildarríki og framleiðendur eiga að vakta og gefa skýrslu um.
     2.      Ákvörðun nr. 398/2021 frá 10. desember 2021 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1242 frá 20. júní 2019 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir ný, þung ökutæki og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 595/2009 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/956 og tilskipun ráðsins 96/53/EB.
     3.      Ákvörðun nr. 49/2022 frá 18. mars 2022 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/858 frá 30. maí 2018 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki, um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 715/2007 og (EB) nr. 595/2009 og niðurfellingu tilskipunar 2007/46/EB.
     4.      Ákvörðun nr. 77/2022 frá 18. mars 2022 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) og XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/1055 frá 15. júlí 2020 um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 1071/2009, (EB) nr. 1072/2009 og (ESB) nr. 1024/2012 að því er varðar að aðlaga þær að þróun sem orðið hefur á sviði flutninga á vegum.
     5.      Ákvörðun nr. 78/2022 frá 18. mars 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/1054 frá 15. júlí 2020 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 561/2006 að því er varðar lágmarkskröfur um daglegan og vikulegan hámarksaksturstíma, lágmarksvinnuhlé og daglegan og vikulegan hvíldartíma og reglugerð (ESB) nr. 165/2014 að því er varðar staðarákvörðun með aðstoð ökurita.
     6.      Ákvörðun nr. 155/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/645 frá 18. apríl 2018 um breytingu á tilskipun 2003/59/EB um grunnþjálfun og reglubundna þjálfun ökumanna tiltekinna ökutækja til vöru- eða farþegaflutninga og á tilskipun ráðsins 2006/126/EB um ökuskírteini.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á sex ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun), X. viðauka (Almenn þjónusta), XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992. Um er að ræða ákvarðanir nr. 396/2021, nr. 398/2021, nr. 49/2022, nr. 77/2022, nr. 78/2022 og nr. 155/2022 (fskj. I, IV,VI, VIII, X og XII). Með þeim eru felldar inn í EES-samninginn sjö gerðir sem tilgreindar eru í 1.–6. tölul. í tillögugreininni (fjsk. II, III, V, VII, IX, XI og XIII).

2. Samráð við Alþingi vegna upptöku gerðanna í EES-samninginn.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku gerðanna til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála og gerði utanríkismálanefnd ekki athugasemdir við upptöku þeirra í EES-samninginn. Einnig var haft samráð við nefndina í aðdraganda fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem umræddar ákvarðanir voru teknar og þær kynntar nefndinni sérstaklega.
    Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar og ráðsins (ESB) 2018/956 fékk jafnframt efnislega umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd sem gerðu ekki athugasemd við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1242 fékk einnig efnislega umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og var tekin upp í EES-samninginn með þeirri aðlögun sem nefndin tiltók í áliti sínu eins og nánar er rakið í 3. kafla.
    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/858 fékk jafnframt efnislega umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem gerðu ekki athugasemdir við upptöku hennar í EES-samninginn.
    Þá fékk tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/645 einnig efnislega umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd. Meiri hluti nefndarinnar tiltók í áliti sínu að brýnt væri að Ísland sæktist eftir því að fá aðlögunartexta vegna hömlunar á fjarnámi endi teldi hann mikilvægt að námið væri sem minnst íþyngjandi og kostnaði haldið í lágmarki. Að því gættu gerði meiri hlutinn ekki athugasemdir við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn. Ísland sóttist eftir aðlögun þess efnis að takmörkun á fjölda kennslustunda sem kenna mætti í fjarnámi ætti ekki við hér á landi og fékk hana. Einhver hluti námsins verður þó að vera í formi verknáms.

3. Aðlögun að tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
    Í tilviki þeirra gerða sem felldar eru inn í samninginn með ákvörðunum nr. 396/2021, 398/2021 og 49/2022 eru gerðirnar aðlagaðar sérstaklega að tveggja stoða kerfi EES-samningsins á þann hátt að Eftirlitsstofnun EFTA eru veittar afmarkaðar heimildir til þess að leggja gjöld á framleiðendur ökutækja og sektir á framleiðendur ökutækja og aðra markaðsaðila, t.d. umboðs- og dreifingaraðila, eins og nánar er gerð grein fyrir í 4. kafla. Samkvæmt viðkomandi gerðum fer framkvæmdastjórn ESB með þessar heimildir í ESB-stoð samningsins.
    Fordæmi eru fyrir því að Eftirlitsstofnun EFTA séu færðar sambærilegar heimildir. Fyrir er í umferðarlögum heimild Eftirlitsstofnunar EFTA til álagningar umframlosunargjalds. Með 8. gr. laga nr. 39/2021 um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (umframlosunargjald og einföldun regluverks) var nýrri málsgrein bætt við 69. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 þess efnis að Eftirlitsstofnun EFTA væri heimilt að leggja umframlosunargjald á framleiðanda ökutækja þegar vegið meðaltal útblásturs skaðlegra lofttegunda nýskráðra ökutækja framleiðandans á Evrópska efnahagssvæðinu er hærra en viðmið sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur. Í reglugerðinni er ráðherra falið að kveða nánar á um hvernig og í hvaða tilvikum slíkt gjald skal lagt á.
    Um heimildina var sérstaklega fjallað í greinargerð með frumvarpinu, sbr. þingskjal 313, 280. mál, 151. löggjafarþing. Segir þar að færa megi fyrir því rök að um íþyngjandi viðurlög sé að ræða sem beita megi lögaðila þegar framleiðsla þeirra uppfyllir ekki viðmið reglna um framleiðslu ökutækja er varðar útblástur koltvísýrings. Almennt hefur Eftirlitsstofnun EFTA ekki heimildir til að leggja á gjöld eða beita innlenda aðila viðurlögum en fyrir því eru þó ákveðin fordæmi, svo sem fyrrgreind 69. gr. umferðarlaga vegna umframlosunargjalds og 250. gr. loftferðalaga, nr. 80/2022, sem byggist á eldri heimild í 136. gr. a loftferðalaga, nr. 60/1998, en er þó víðtækari. Með 250. gr. var Eftirlitsstofnun EFTA falin heimild til að leggja sektir á einstaklinga eða lögaðila þegar brot er talið af ásetningi eða gáleysi.
    Áður en Eftirlitsstofnun EFTA var veitt heimild til að leggja á sektir vegna brota á lögum um loftferðir og reglum settum samkvæmt þeim fékk forsætisráðuneytið Stefán Má Stefánsson lagaprófessor til að vinna álitsgerð um hvort ákvæði þess efnis að erlendri stofnun væri heimilt að leggja sektir á innlenda aðila stæðist ákvæði stjórnarskrár Íslands. Í álitsgerðinni sagði, líkt og tekið er upp í greinargerð með frumvarpi til laganna (þskj. 425, 349. mál á 140. lögþ.), „Er eðlilegt að líta svo á að ákveðið svigrúm sé fyrir hendi til að túlka viðkomandi stjórnarskrárákvæði þannig að ekki þrengi um of að möguleikum Íslands sem fullvalda þjóðréttaraðila til að tryggja hagsmuni sína sem best í samstarfi og samningum við aðrar þjóðir jafnvel þó að stofn þeirra sé gamall.“ Í minnisblaði sem unnið var af nefndasviði og aðallögfræðingi Alþingis af sama tilefni kom einnig fram að vart yrði séð að með sektarákvæðinu yrði gengið lengra en þegar hefði verið gert í samkeppnismálum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Sambærileg sjónarmið og hér hafa verið reifuð eiga jafnt við um framsal valds til að leggja gjöld á framleiðendur ökutækja og sektir á framleiðendur ökutækja og aðra markaðsaðila. Enginn framleiðandi ökutækja né tækniþjónusta er starfandi á Íslandi og þykir ósennilegt að heimildin hafi bein áhrif á innlenda aðila. Við það er að bæta að um er að ræða vel afmarkað framsal á afmörkuðu sviði sem ekki er gert ráð fyrir að verði íslenskum aðilum verulega íþyngjandi. Þá er auk þess gert ráð fyrir því að Eftirlitsstofnun EFTA fari með samsvarandi heimild gagnvart EFTA-ríkjunum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er falin gagnvart aðildarríkjum sambandsins. Með því er tveggja stoða kerfi EES-samningsins virt.
    Með vísan til framangreinds verður talið að lögfesting umræddra heimilda Eftirlitsstofnunar EFTA til að leggja gjöld á framleiðendur ökutækja sem mæta ekki viðmiðum um útblástur skaðlegra lofttegunda og sektir á framleiðendur eða viðeigandi markaðsaðila rúmist innan íslenskra stjórnskipunarreglna.
    Nánari grein er gerð fyrir þessum og öðrum aðlögunum í 4. kafla.

4. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar.
4.1. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 396/2021 frá 10. desember 2021 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.
    Með ákvörðuninni eru reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/956 og framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/888 felldar inn í EES-samninginn.
    Með reglugerð (ESB) 2018/956 er stefnt að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og markmið að baki henni því aðallega umhverfisleg. Komið er á sameiginlegu verklagi þar sem koltvísýringslosun og eldsneytisnotkun nýrra þungra ökutækja er skráð og vöktuð.
    Aðildarríkjum er með reglugerðinni gert að vakta tiltekin gögn varðandi ný þung ökutæki sem skráð eru í fyrsta sinn og veita skýrslu um þau gögn. Framleiðendum þungra ökutækja er gert að vakta gögn fyrir hvert nýtt þungt ökutæki og gefa skýrslu um þau gögn. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er falið að halda miðlæga skrá um þung ökutæki sem inniheldur fyrrgreind gögn og skal hún að meginstefnu vera aðgengileg almenningi. Framkvæmdastjórninni er þá einnig falið að vakta niðurstöður úr prófunum á vegum til að sannreyna koltvísýringslosun og eldsneytisnotkun nýrra þungra ökutækja og að gefa út ársskýrslu með greiningu á þeim gögnum sem látin hafa verið í té.
    Í tilviki EFTA-ríkjanna er Eftirlitsstofnun EFTA heimilt að leggja á sektir þegar þau gögn sem framleiðandi hefur gefið skýrslu um eru ekki talin í samræmi við gögn sem koma úr skráningarfærslu framleiðandans eða gerðarviðurkenningarvottorði fyrir hreyfil og frávikið er talið vegna ásetnings eða stórkostlegs gáleysis. Eftirlitsstofnuninni er einnig heimilt að leggja á sektir þegar tilskilin gögn hafa ekki verið lögð fram innan viðeigandi frests og ekki er hægt að rökstyðja seinkun framlagningarinnar með fullnægjandi hætti.
    Gera þarf breytingar á umferðarlögum til þess að gera Eftirlitsstofnun EFTA heimilt að leggja sektir á framleiðendur ökutækja vegna ófullnægjandi skýrslugjafar. Gert er ráð fyrir að frumvarp þar að lútandi verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Ætla má að heildaráhrif innleiðingar reglugerðarinnar hér á landi verði jákvæð. Flutningsaðilar eru að miklu leyti lítil eða meðalstór fyrirtæki sem hafa ekki aðgang að stöðluðum upplýsingum til að meta tækni sem bætir eldsneytisnýtingu eða til að bera saman þung ökutæki. Með opinberri birtingu slíkra upplýsinga er gagnsæi tryggt og flutningafyrirtækjum gert kleift að taka upplýstari ákvarðanir um kaup, til dæmis í því skyni að minnka eldsneytiskostnað. Framleiðendur geta þá borið eigin ökutæki saman við ökutæki annarra framleiðenda sem telja má auka hvata til nýsköpunar og hvetja til þróunar á orkunýtnari ökutækjum, sem munu í kjölfarið nýtast innlendum flutningsaðilum. Þá munu upplýsingarnar sem safnað er geta nýst við frekari stefnumótun. Innleiðingunni fylgja ekki áhrif á innlenda framleiðendur ökutækja þar sem engum slíkum er til að dreifa. Innleiðingunni fylgir aukin vinna Samgöngustofu og forritunarkostnaður.

4.2. Ákvörðun nr. 398/2021 frá 10. desember 2021 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.
    Með ákvörðuninni er felld inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1242. Með reglugerðinni er stefnt að skerðingu koltvísýringslosunar frá flutningum á vegum og stuðlað að markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá hagkerfinu öllu. Settar eru frammistöðukröfur um losun koltvísýrings fyrir tiltekin ný þung ökutæki og skulu viðmiðunargildi (atvinnuökutæki undanskilin svo sem þau sem notuð eru við sorphirðu eða í byggingarframkvæmdum) byggð á vöktunargögnum úr skýrslugjöf samkvæmt reglugerð (ESB) 2018/956.
    Vegna framleiðenda nýrra þungra ökutækja í EFTA-ríkjunum er gert ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA, í nánu samstarfi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ákvarði sértæka meðalkoltvísýringslosun fyrir síðastliðið skýrslutímabil með tilliti til gagna sem skýrsla hefur verið gefin um og stuðuls sem ákvarðaður er í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Eftirlitsstofnun EFTA er þá í nánu samstarfi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins falið, frá og með 1. júlí 2026, að ákvarða á grundvelli ákveðinna gilda markmið um sértæka losun koltvísýrings á næstkomandi skýrslutímabili.
    Framleiðendum eru veittar losunarheimildir og þeir geta átt inneign eða staðið í skuld. Ef framleiðandi væri á Íslandi og væri talinn bera ábyrgð á umframlosun koltvísýrings á tilteknu skýrslutímabili frá og með 2025 yrði Eftirlitsstofnun EFTA falið að leggja á gjald vegna umframlosunarinnar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er að mestu falin tæknileg framkvæmd reglugerðarinnar. Þegar er í umferðarlögum gert ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA sé heimilt að leggja gjald á framleiðanda ökutækja þegar vegið meðaltal losunar koltvísýrings frá nýskráðum ökutækjum framleiðandans á Evrópska efnahagssvæðinu er yfir tilteknu viðmiði.
    Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA verði veitt sams konar heimild, til að leggja á gjald vegna umframlosunar koltvísýrings á tilteknu skýrslutímabili og verður að mæla fyrir um hana í umferðarlögum. Gert er ráð fyrir að frumvarp þar að lútandi verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Ætla má að heildaráhrif innleiðingar reglugerðarinnar hér á landi verði jákvæð, helst vegna samdráttar í losun koltvísýrings. Koltvísýringslosun frá þungum ökutækjum er um 6% af heildarkoltvísýringslosun í Evrópusambandinu og um 25% af heildarkoltvísýringslosun frá flutningum á vegum. Án aðgerða var gert ráð fyrir að aukning yrði á hlutfalli koltvísýringslosunar frá þungum ökutækjum.
    Kostnaður af innleiðingu reglugerðarinnar hefur verið metinn óverulegur sem enginn. Þá er enginn framleiðandi þungra ökutækja hér á landi og áhrif sektarheimildar Eftirlitsstofnunar EFTA á innlenda aðilda því takmörkuð.

4.3. Ákvörðun nr. 49/2022 frá 18. mars 2022 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.
    Með ákvörðuninni er felld inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/858.
    Með reglugerðinni er leitast við að bæta úr vanköntum á lagaramma sambandsins um gerðarviðurkenningu á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum, sem ætlaðar eru í slík ökutæki. Gildandi reglur eru skýrðar í reglugerðinni, eftirlit aukið og ákvæði innleidd sem varða gerðarviðurkenningar, markaðseftirlit, upplýsingaskipti og annað í því skyni að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins. Það er talið í þágu fyrirtækja og neytenda og til þess fallið að auka öryggi ásamt heilbrigðis- og umhverfisvernd.
    Aðildarríkjum er, auk annars, gert að koma á fót eða tilnefna eigin viðurkenningar- og markaðseftirlitsyfirvöld og ber ríkjunum að tryggja algera aðgreiningu hlutverka þeirra, svo að þau starfi óháð hvert öðru. Þau geta verið undir sömu stofnun en starfsemi þeirra verður þá að lúta óháðri stjórn sem hluti af öðrum stofnunum.
    Nánar er fjallað um hlutverk viðurkenningar- og markaðseftirlitsyfirvalda í reglugerðinni. Samgöngustofa er gerðarviðurkenningarstjórnvald hér á landi og veitir gerðarviðurkenningar. Markaðseftirlitsyfirvöldum ber helst að framkvæma reglulegar athuganir til að sannprófa að ökutæki, kerfi, íhlutir og aðskildar tæknieiningar uppfylli viðeigandi kröfur. Þær athuganir skal framkvæma með fullnægjandi hætti með sannprófun skjala og eftir því sem við á með prófunum á rannsóknarstofu og prófunum á vegum sem framkvæmdar eru á grundvelli tölfræðilega marktækra sýna. Lágmarksfjöldi prófana í hverju aðildarríki er ein á hver 40.000 vélknúin ökutæki sem skráð voru á næstliðnu ári, en framkvæmdar prófanir skulu þó ekki vera færri en fimm talsins. Aðildarríkjum er heimilt að semja við markaðseftirlitsyfirvald annars aðildarríkis eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um að annast þær prófanir en framkvæmdastjórnin skipuleggur og framkvæmir samkvæmt reglugerðinni, auk annars, eigin sannprófanir og skoðanir.
    Aðildarríkjum er falið að setja reglur um viðurlög við brotum markaðsaðila og að gera allar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og hafa varnaðaráhrif.
    Framkvæmdastjórn ESB er með reglugerðinni falið sektarvald gagnvart innlendum aðilum. Er það til að styðja við samræmdar ráðstafanir til úrbóta og takmarkandi ráðstafanir á vettvangi sambandsins í þeim tilvikum sem andmælum hefur verið hreyft við ráðstöfun aðildarríkis eða þegar framkvæmdastjórnin kemst að því eftir að hafa framkvæmt prófanir og skoðanir að ráðstafanir til úrbóta og takmarkandi ráðstafanir séu nauðsynlegar á vettvangi sambandsins. Hvað varðar EFTA-ríkin er Eftirlitsstofnun EFTA falið það hlutverk og gert ráð fyrir að stofnuninni verði heimilt að leggja sektir á markaðsaðila vegna þess að ökutæki, kerfi, íhlutur eða aðskilin tæknieining uppfyllir ekki þær kröfur sem mælt er fyrir um. Þær sektir sem lagðar eru á skulu vera skilvirkar, í réttu hlutfalli við brot og hafa varnaðaráhrif. Þær skulu ekki vera til viðbótar við viðurlög sem aðildarríkin beita og ekki vera hærri en 30.000 evrur á hvert ökutæki. Hvað sektir sem Eftirlitsstofnun EFTA innheimtir varðar er EFTA-ríkjunum eftirlátið að ákveða úthlutun þeirra.
    Í umferðarlögum er ekki gert ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA sé heimilt að leggja sektir á markaðsaðila vegna þess að ökutæki, kerfi, íhlutur eða aðskilin tæknieiningin uppfyllir ekki gerðar kröfur. Sökum þess verður að gera breytingar á umferðarlögum til innleiðingar gerðarinnar og er gert ráð fyrir að frumvarp þar að lútandi verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Hér á landi er hvorki starfandi viðurkennd tækniþjónusta í skilningi reglugerðarinnar né framleiðandi ökutækja og áhrif sektarheimildar Eftirlitsstofnunar EFTA á innlenda aðila því takmörkuð.
    Innleiðingu reglugerðarinnar kemur til með að fylgja u.þ.b. 20 milljóna króna kostnaður m.a. þar sem mæla verður fyrir um markaðseftirlitsstjórnvald sem framkvæma skal að minnsta kosti fimm prófanir ökutækja á ári, ásamt því að sinna öðru eftirliti. Heildaráhrif innleiðingar reglugerðarinnar má þó gera ráð fyrir að verði jákvæð þar sem hún er sett í þágu fyrirtækja og neytenda og til að auka öryggi, heilbrigðis- og umhverfisvernd.

4.4. Ákvörðun nr. 77/2022 frá 18. mars 2022 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) og XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
    Með ákvörðuninni er felld inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/1055 um breytingu á eldri reglugerðum að því er varðar að aðlaga þær að þróun sem orðið hefur á sviði flutninga á vegum.
    Reynslan af framkvæmd fyrrnefndra eldri reglugerða hefur leitt í ljós að tilefni eru til úrbóta. Með reglugerð (EB) nr. 2020/1055 eru samkeppnisskilyrði rekstraraðila samræmd, m.a. í því skyni að tryggja lágmarksfagmennsku þeirra sem nota vélknúin ökutæki með leyfða heildarþyngd sem fer yfir 2,5 tonn en ekki yfir 3,5 tonn til milliríkjaflutninga.
    Reglugerðin skýrir þær reglur sem gilda um gestaflutninga í farmflutningum og samræmir kröfur um endurkomu ökutækis til staðfesturíkis við reglur um aksturs- og hvíldartíma auk þess að tryggja viðurkenningu rafrænna flutningsupplýsinga.
    Reglugerðin skýrir kröfur um gott orðspor og gerir þær ítarlegri auk þess að skýra reglur um nauðsynleg gögn til staðfestingar á viðunandi fjárhagsstöðu. Skilgreiningar á alvarlegum brotum á reglum um daglegan aksturstíma eru samræmdar við það sem fram kemur í reglugerð (EB) nr. 561/2006.
    Gildissvið laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, er bundið við vélknúin ökutæki þar sem leyfð heildarþyngd fer yfir 3,5 tonn. Vegna þessa er nauðsynlegt að gera breytingar á gildissviðsákvæði laganna svo að tryggja megi að milliríkjaflutningar með vélknúnum ökutækjum þar sem leyfð heildarþyngd fer yfir 2,5 tonn en ekki yfir 3,5 tonn falli einnig undir regluverkið. Frumvarp þar að lútandi hefur verið lagt fram á þessu löggjafarþingi (þskj. 282, 279. mál á 153. löggjafarþingi).
    Ekki er talið að þær breytingar á gildissviði sem felast í reglugerð (ESB) 2020/1055 komi til með að hafa mikil áhrif hér á landi í ljósi þess að breytingin tekur aðeins til ökutækja með leyfða heildarþyngd yfir 2,5 en ekki yfir 3,5 tonn í milliríkjaflutningum. Vegna landfræðilegrar legu landsins er gert ráð fyrir að breyting á gildissviði laganna hafi hverfandi áhrif.

4.5. Ákvörðun nr. 78/2022 frá 18. mars 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
    Með ákvörðuninni er felld inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/1054.
    Reglugerðinni er í senn ætlað að auka umferðaröryggi og tryggja ökumönnum bætt vinnuskilyrði.
    Gildandi reglur þykja óskýrar hvað varðar vikulegan hvíldartíma, hvíldaraðstöðu og hvíldartíma þegar fleiri en einn ökumaður vinna saman. Sömuleiðis þykja reglurnar óskýrar hvað varðar heimkomu ökumanna og hefur það leitt til þess að framkvæmd reglnanna er misjöfn á milli aðildarríkja og hafa nokkur ríki gengið lengra en þeim er gert í því skyni að draga úr lagalegri óvissu.
    Af öðrum breytingum ber helst að nefna að auknar kröfur eru gerðar um notkun snjallökurita og frá 1. júlí 2026 taka reglurnar einnig til ökutækja, að meðtöldum eftirvögnum eða festivögnum, yfir 2,5 tonnum að heildarþyngd. Það er að því gefnu að ökutækið sé notað í vöruflutninga þvert á landamæri eða gestaflutninga.
    Flutningafyrirtækjum er gert að skipuleggja vinnu ökumanna svo að þeim sé kleift að komast aftur á bækistöð vinnuveitandans þar sem ökumaðurinn hefur að jafnaði aðsetur og þar sem vikulegur hvíldartími hans hefst. Þeim er gert að skrásetja hvernig þau uppfylla þessa skyldu og geyma gögn þar um á athafnasvæði sínu til framvísunar að beiðni eftirlitsyfirvalda. Flutningafyrirtækjum er þá gert að bera kostnað af hvíldaraðstöðu starfsmanns sem er við störf og óheimilt er að láta ökumönnum í té greiðslu sem tengist ekinni vegalengd, hraða afhendingar og/eða magni fluttrar vöru ef slík greiðsla getur orðið til þess að ógna umferðaröryggi og/eða hvetur til brota á reglugerðinni.
    Í umferðarlögum er fjallað um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og ökumönnum við akstur í farþega- og farmflutningum í atvinnuskyni á ökutækjum sem eru yfir 3,5 tonn að heildarþyngd gert að njóta nægjanlegrar hvíldar til að geta sinnt störfum sínum. Í því skyni er ráðherra falið að kveða nánar á um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, ökurita og fleira í reglugerð.
    Með reglugerðinni er sú breyting gerð að reglur um aksturs- og hvíldartíma ökumanna munu einnig taka til ökutækja, að meðtöldum eftirvögnum eða festivögnum, yfir 2,5 tonn að heildarþyngd. Verður því að gera breytingu á ákvæði umferðarlaga. Flutningafyrirtækjum er þá gert að bera kostnað af hvíldaraðstöðu starfsmanna sinna sem eru við störf og þykir rétt að mælt verði fyrir um skylduna í lögum. Gert er ráð fyrir að frumvarp þar að lútandi verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Innleiðingu reglugerðarinnar kann að fylgja aukin vinna Samgöngustofu og lögreglu og þar af leiðandi kostnaður sem talinn er verða óverulegur. Þá munu þær breytingar sem gerðar eru á gildandi reglum hugsanlega leiða til aukins kostnaðar flutningsaðila m.a. vegna kostnaðar af hvíldaraðstöðu starfsmanna sinna. Með innleiðingunni má telja að umferðaröryggi komi til með að aukast vegna þess að betur verður tryggt að ökumenn fái hvíld og betri vinnuaðstæður. Heildaráhrif innleiðingar reglugerðarinnar má þar af leiðandi telja jákvæð.

4.6. Ákvörðun nr. 155/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
    Með ákvörðuninni er felld inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/645.
    Tilskipunin er í senn liður í aðgerðum Evrópusambandsins í átt að auknu umferðaröryggi og aðgerðum sambandsins á sviði umhverfisverndar. Stefnt er að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda ásamt fækkun umferðarslysa með því að mæla fyrir um aukna fræðslu og þjálfun ökumanna sem ætlað er að leiða til vistvænni og öruggari aksturs.
    Gerðar eru breytingar á gildandi regluverki til að vinna bug á ákveðnum vanköntum varðandi m.a. lagalega óvissu og ólíka túlkun undanþáguheimilda. Þá þótti veitt fræðsla aðeins gagnast með takmörkuðum hætti og ökumönnum hafði reynst erfitt að fá hana metna á milli ríkja.
    Ákveðnir námsþættir eru taldir krefjast verklegrar þjálfunar þar sem ekki sé hægt að kenna þá með fullnægjandi hætti í fjarnámi. Sökum þess er í tilskipuninni mælt fyrir um að ekki skuli kenna meira en 12 kennslustundir af 35 í fjarnámi. Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 155/2022 var gerð aðlögun þess efnis að krafa um hámarksfjölda kennslustunda sem kenndar væru í fjarnámi ætti ekki við um Ísland. Þær kröfur eru þó gerðar að hluti kennslunnar sé verklegur.
    Aðildarríkjum er gert að skiptast á upplýsingum um starfshæfnisvottorð og að koma í þeim tilgangi upp rafrænum gagnagrunni með nauðsynlegum upplýsingum um útgefin og ógild starfshæfnisvottorð. Vinna skal að sameiginlegu upplýsingakerfi.
    Loks ber að nefna að með tilskipuninni verður breyting á framsetningu upplýsinga í ökuskírteini frá því sem nú gildir. Tákntalan 95 (réttindi til að stjórna stórum bifreiðum í atvinnuskyni) skal koma í línu viðeigandi réttindaflokks og unnt verður að meta endurmenntun sem ökumaður hefur aflað sér samkvæmt öðrum reglum inn í nám vegna endurmenntunar.
    Í umferðarlögum er mælt fyrir um skyldu ákveðinna ökumanna til að undirgangast endurmenntun og ráðherra falið að kveða nánar á um tilhögun hennar í reglugerð. Segir þá í lögunum að heimilt sé að ljúka endurmenntun í fjarnámi en með þeim breytingum sem gerðar eru verður hluti endurmenntunar að vera í formi verklegrar þjálfunar. Sökum þess verður að gera breytingar á gildandi umferðarlögum. Gert er ráð fyrir að frumvarp þar að lútandi verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Innleiðingu tilskipunarinnar munu helst fylgja áhrif á innlenda ökumenn og flutningsaðila þar sem krafa verður gerð um að hluti endurmenntunar fari fram í formi verklegrar þjálfunar. Aukin og fjölbreyttari fræðsla verður að telja af hinu góða og til þess fallið að stuðla að vistvænni akstri og fækkun umferðarslysa. Innleiðingu tilskipunarinnar mun fylgja óverulegur eða enginn kostnaður.

5. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umræddar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar fela í sér breytingar á EES-samningnum en þar sem þær kalla á lagabreytingar hér á landi voru þær teknar með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum á EES-samningnum sem í ákvörðununum felast.


Fylgiskjal I.Ákvörðun nr. 396/2021 frá 10. desember 2021 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_I.pdfFylgiskjal II.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/956 frá 28. júní 2018 um vöktun og skýrslugjöf vegna koltvísýringslosunar og eldsneytisnotkunar nýrra þungra ökutækja.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_II.pdfFylgiskjal III.


Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/888 frá 13. mars 2019 um breytingu á I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/956 að því er varðar gögn um ný þung ökutæki sem aðildarríki og framleiðendur eiga að vakta og gefa skýrslu um.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_III.pdfFylgiskjal IV.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 398/2021 frá 10. desember 2021 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_IV.pdfFylgiskjal V.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1242 frá 20. júní 2019 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir ný, þung ökutæki og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 595/2009 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/956 og tilskipun ráðsins 96/53/EB.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_V.pdfFylgiskjal VI.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2022 frá 18. mars 2022 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_VI.pdfFylgiskjal VII.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/858 frá 30. maí 2018 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki, um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 715/2007 og (EB) nr. 595/2009 og niðurfellingu tilskipunar 2007/46/EB.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_VII.pdfFylgiskjal VIII.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 77/2022 frá 18. mars 2022 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) og XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_VIII.pdfFylgiskjal IX.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/1055 frá 15. júlí 2020 um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 1071/2009, (EB) nr. 1072/2009 og (ESB) nr. 1024/2012 að því er varðar að aðlaga þær að þróun sem orðið hefur á sviði flutninga á vegum.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_IX.pdfFylgiskjal X.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2022 frá 18. mars 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_X.pdfFylgiskjal XI.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/1054 frá 15. júlí 2020 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 561/2006 að því er varðar lágmarkskröfur um daglegan og vikulegan hámarksaksturstíma, lágmarksvinnuhlé og daglegan og vikulegan hvíldartíma og reglugerð (ESB) nr. 165/2014 að því er varðar staðarákvörðun með aðstoð ökurita.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_XI.pdfFylgiskjal XII.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 155/2022 frá 29. apríl 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_XII.pdfFylgiskjal XIII.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/645 frá 18. apríl 2018 um breytingu á tilskipun 2003/59/EB um grunnþjálfun og reglubundna þjálfun ökumanna tiltekinna ökutækja til vöru- eða farþegaflutninga og á tilskipun ráðsins 2006/126/EB um ökuskírteini.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0557-f_XIII.pdf