Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 613  —  340. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um afmörkun hafsvæða.


     1.      Telur ráðherra nægjanlegt samræmi vera milli afmörkunar svæða samkvæmt lögum um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979, og þeirra skilgreininga á svæðunum sem notaðar eru í hinum ýmsu lögum á málefnasviðum annarra ráðherra?
    Lög nr. 41/1979, um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, afmarka hafsvæði í kringum Ísland. Landhelgin markast af línu sem alls staðar er 12 sjómílur frá grunnlínu sbr. 1. gr. laganna. Utan landhelgi er aðlægt belti sem afmarkast af línu sem alls staðar er 24 sjómílur frá grunnlínum landhelginnar og utan við aðlæga beltið er efnahagslögsaga sem afmarkast af línu sem allstaðar er 200 sjómílur frá grunnlínum nema þar sem annað hefur verið ákveðið með samningum við hlutaðeigandi ríki. Landgrunnið nær síðan til hafsbotnsins og neðansjávarsvæða utan landhelgi, sem eru framlenging landsvæðisins, allt að ytri mörkum landgrunnsvæðisins, þó að 200 sjómílna fjarlægð frá grunnlínum landhelginnar þar sem ytri mörk landgrunnssvæðisins ná ekki þeirri fjarlægð, nema þar sem annað hefur verið ákveðið með samningum við hlutaðeigandi ríki. Næstu áramót bætist síðan við lögin skilgreining á hugtakinu innsævi, þ.e. hafsvæði landmegin við grunnlínur, sbr. 2. tölul. 40. gr. laga nr. 82/2022, um áhafnir skipa.
    Utanríkisráðherra er ekki kunnugt um að framangreind hafsvæði séu sérstaklega skilgreind í lögum á málefnasviðum annarra ráðherra. Hafsvæði eru aftur á móti ekki afmörkuð í öðrum lögum. Í tilteknum sérlögum er þó að finna ákveðnar tegundir lögsaga sem spanna fleiri en eitt lögsögubelti, t.d. mengunarlögsögu, fiskveiðilögsögu og fiskveiðilandhelgi.
    Í íslenskum lögum eru hafsvæðin yfirleitt notuð til að lýsa landfræðilegu gildissviði laga, sérstaklega þegar um er að ræða lög sem ná ekki einungis til íslensks yfirráðasvæðis, þ.e. lands, lofthelgi, innsævis og landhelgi, heldur einnig hafsvæða utan landhelginnar. Í slíkum gildissviðsákvæðum er að jafnaði gengið út frá þeirri meginreglu að íslensk lög gildi á íslensku yfirráðasvæði. Í dæmaskyni er í lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, kveðið á um að lögin nái til efnahagslögsögu Íslands án þess að önnur svæði séu tilgreind en lögin yrðu tæplega túlkuð þannig að villt dýr njóti einungis friðunar á hafi úti. Er þar átt við að lögin gildi í efnahagslögsögunni, til viðbótar við almennt landfræðilegt gildissvið íslenskra laga.
    Ákvæði sem lýsa landfræðilegum gildissviðum eru fremur fátíð í lagasafninu. Þrátt fyrir að ekki hafi verið fullkomið samræmi í aðferðafræði við ritun slíkra ákvæða undanfarna áratugi er ekki vitað til þess að það hafi leitt til vandræða við framkvæmd eða túlkun laganna, enda almennt viðurkennd meginregla að íslensk lög gildi á íslensku yfirráðasvæði.

     2.      Telur ráðherra að valdið geti misskilningi við framkvæmd laga þegar heitið efnahagslögsaga er notað sem samheiti innsævis, landhelgi og efnahagslögsögu, sem er á skjön við skilgreiningu 3. gr. laga um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979, og 55. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna?
    Líkt og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar er ekki vitað til þess að teljandi vandræði hafi komið upp við framkvæmd laga vegna þess að einungis sé vísað til efnahagslögsögu en önnur svæði ekki talin upp. Almennt virðist gengið út frá þeirri meginreglu að íslensk lög gildi á íslensku yfirráðasvæði og þar sem vísað er til efnahagslögsögu kemur svæðið til viðbótar við önnur svæði.
    Þrátt fyrir að ekki sé vitað til þess að vandamál hafi komið upp færi vel á því að stuðla að auknu samræmi við hugtakanotkun í lagasafninu.

     3.      Hvaða lög hafa gildissviðsákvæði sem ná m.a. yfir hafsvæði? Hver þeirra ákvæða eru í fullu samræmi við lög um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979, og 55. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna? Hver eru það ekki?
    Ekki hefur farið fram rannsókn á því hvaða gildissviðsákvæði ná m.a. yfir hafsvæði af hálfu utanríkisráðherra. Af almennu landfræðilegu gildissviði íslenskra laga leiðir þó að öll íslensk lög ná yfir hafsvæði, þ.e. innsævið og landhelgina. Töluverður fjöldi laga hefur síðan gildissviðsákvæði sem ná yfir efnahagslögsöguna að því leyti sem heimilt er samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

    Alls fóru tvær vinnustundir í að taka svar þetta saman.