Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

1994 nr. 64 19. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 1994. Breytt með: L. 144/1995 (tóku gildi 1. jan. 1996; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 59. gr.). L. 73/1996 (tóku gildi 19. júní 1996). L. 93/1996 (tóku gildi 1. jan. 1997). L. 140/1996 (tóku gildi 1. jan. 1997 nema 1. gr. sem tók gildi 30. des. 1996). L. 83/1997 (tóku gildi 6. júní 1997). L. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998). L. 121/1999 (tóku gildi 30. des. 1999). L. 131/1999 (tóku gildi 11. jan. 2000). L. 100/2000 (tóku gildi 6. júní 2000). L. 90/2002 (tóku gildi 1. jan. 2003). L. 164/2002 (tóku gildi 1. jan. 2003). L. 60/2003 (tóku gildi 15. okt. 2003). L. 94/2004 (tóku gildi 2. júlí 2004). L. 36/2005 (tóku gildi 25. maí 2005). L. 56/2008 (tóku gildi 10. júní 2008). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 123/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 63/2011 (tóku gildi 15. júní 2011 nema 2.–5. málsl. 1. mgr. 1. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2012). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 60/2013 (tóku gildi 15. nóv. 2015). L. 47/2018 (tóku gildi 26. maí 2018).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Orðskýringar.
1. gr.
Í lögum þessum merkir:
    Vernd: að veiðum eða öðrum aðgerðum, sem geta haft áhrif á viðkomu eða vanhöld dýra af tiltekinni tegund, sé hagað á þann hátt að henni sé ekki stefnt í útrýmingarhættu.
    Friðun: bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr viðkomu dýra af tiltekinni tegund. Þegar rætt er um friðun tekur hún einnig til eggja og hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar.
    Veiðar: að handsama eða drepa villt dýr. Þegar um er að ræða fuglaveiðar er einnig átt við eggjatöku.
    Villt dýr: allir fuglar og spendýr, önnur en selir, hvalir, gæludýr og bústofn. Dýr, sem er handsamað og haft í haldi, telst villt dýr.
    Stýring á stofnum villtra dýra: aðgerðir af opinberri hálfu er miða að því að hafa áhrif á útbreiðslu eða stærð tiltekins stofns villtra dýra.
    Tjón af völdum villtra dýra: fjárhagslegt tjón sem einstaklingar, fyrirtæki eða aðrir verða fyrir, heilsufarslegt tjón fólks eða búfénaðar og tjón á náttúru landsins.
    [Búsvæði: svæði sem villt dýr nota sér til framfærslu og viðkomu, svo sem varplönd og fæðusvæði, eða sem farleið.] 1)
    Grenjatími: tímabilið 1. maí til 31. júlí.
    Netlög: hafsvæði 115 m út frá stórstraumsfjörumáli landareignar eða 115 m út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að. Netlög fylgja einnig eyjum, hólmum og skerjum í sjó og stöðuvötnum.
    Landareign: jörð eða annað landsvæði sem er háð beinum eignarrétti einstaklings eða lögaðila, þar með talið sveitarfélag eða ríki.
   [ Ágangssvæði: nánar skilgreint svæði þar sem ágangur hreindýra er svipaður á öllu svæðinu.] 2)
    1)L. 94/2004, 1. gr. 2)L. 164/2002, 33. gr.

II. kafli. Markmið og gildissvið.
2. gr.
Markmið laga þessara er að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, skipulag á veiðum og annarri nýtingu dýra, svo og aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón sem villt dýr kunna að valda.
Ákvæði laga þessara taka hvorki til hvala né sela en um þær tegundir gilda sérstök lög.
Lögin ná til efnahagslögsögu Íslands.

III. kafli. Umsjón.
3. gr.
[Ráðherra] 1) hefur yfirumsjón með aðgerðum er varða vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum.
[Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu vera [ráðherra] 1) til ráðgjafar og gera tillögur varðandi vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eftir því sem tilefni er til.
Umhverfisstofnun hefur umsjón með og stjórn á þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra eða koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum, sbr. VI. kafla. [Í þeim tilvikum sem ákveðið er að aflétta friðun skal Umhverfisstofnun gera tillögur til [ráðherra] 1) um stjórn og framkvæmd veiða á stofnum villtra fugla og spendýra, sbr. 7. gr., að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands.] 2)
Um stefnumótandi mál um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum skal haft samráð við Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, hreindýraráð að því er varðar hreindýr, Skotveiðifélag Íslands sem og áhuga- og hagsmunasamtök um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Umhverfisstofnun leiðbeinir þeim sem stunda veiðar og aðrar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum villtra dýra.] 3)
    1)L. 126/2011, 189. gr. 2)L. 94/2004, 2. gr. 3)L. 164/2002, 34. gr.
4. gr.
[[Náttúrufræðistofnun Íslands stundar rannsóknir á stofnum villtra fugla og spendýra, metur ástand þeirra og gerir í framhaldi tillögur til [ráðherra] 1) um vernd og hvort viðkomandi stofn þoli veiðar, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.] 2)
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur ein heimild til að láta merkja villta fugla á Íslandi og getur stofnunin veitt einstaklingum leyfi til merkinga samkvæmt reglum sem hún setur og samþykktar eru af [ráðherra]. 1) Reglur þessar skulu birtar í Stjórnartíðindum.
Hverjum þeim sem finnur eða handsamar merktan fugl ber að senda merkið, hvort sem það er íslenskt eða útlent, til Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt nánari upplýsingum um fundinn.] 3)
    1)L. 126/2011, 189. gr. 2)L. 94/2004, 3. gr. 3)L. 164/2002, 35. gr.
5. gr.
[Ráðherra] 1) skipar fulltrúaráð sem fram kemur fyrir Íslands hönd í Alþjóðafuglaverndarráðinu (Bird Life International) sem Ísland er aðili að. Í ráðinu skulu eiga sæti fulltrúar nefnda, samtaka og stofnana sem hafa fuglavernd á stefnuskrá sinni. Nánar skal kveðið á um skipan ráðsins og starfsreglur þess í reglugerð sem [ráðherra] 1) setur.
    1)L. 126/2011, 189. gr.

IV. kafli. Vernd, friðun1) og veiðar.
    1)Rg. 252/1996.
6. gr.
Villt dýr, þar með talin þau sem koma reglulega eða kunna að berast til landsins, eru friðuð nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Um innflutning dýra gilda lög nr. 54/1990 [og lög um náttúruvernd]. 1)
[Ávallt skal gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og búsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun. Við skipulag og landnotkun skal tekið tillit til villtra dýra og búsvæða þeirra, sbr. lög um náttúruvernd og [skipulagslög]. 2)] 3)
    1)L. 60/2013, 95. gr. 2)L. 123/2010, 57. gr. 3)L. 94/2004, 4. gr.
7. gr.
Ákvörðun um að aflétta friðun samkvæmt lögum þessum skal byggjast á því að viðkoma stofns sé nægileg til þess að vega upp á móti afföllum vegna veiða og að með veiðum sé verið að nytja verðmæti í kjöti, skinnum eða öðrum afurðum. Einnig er heimilt að taka tillit til þess hvort viðkomandi dýr valdi tjóni.
Í reglugerðum, 1) sem settar eru samkvæmt tillögum [Umhverfisstofnunar], 2) skal kveðið á um vernd, friðun og veiðar einstakra tegunda villtra dýra. [Þar skal m.a. kveða á um hvaða tegundir eru alfriðaðar, hverjar er heimilt að veiða, hvar megi veiða þær, gerð og notkun vopna og annarra veiðitækja, veiðiaðferðir, lengd veiðitímabils, sérákvæði vegna hefðbundinna fuglanytja, hvað teljist til fágætra fugla, skylduskil á þeim, umgengni við hreiður þeirra og annað sem máli skiptir.] 3)
[Þar sem talið er að villt dýr valdi tjóni einhvern tiltekinn tíma árs eða á svæðum þar sem viðkomandi tegundir eru friðaðar samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum byggðum á þeim getur [ráðherra] 4) að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, eða hreindýraráðs að því er varðar hreindýr, veitt tímabundið leyfi til veiða í því skyni að koma í veg fyrir tjón. Í reglugerð skal kveðið á um hvaða tegundir skuli ávallt undanskildar þessu ákvæði. Erindi samkvæmt þessu ákvæði skal svara eigi síðar en viku eftir að það berst ráðuneytinu.] 2)
[Ráðherra] 4) skal setja reglugerð um sölu, innflutning og útflutning villtra dýra og hluta þeirra, svo og egg. Þar skal einnig kveðið á um hamtöku og skinnatöku, uppsetningu dýra og starfsemi hamskera.
[Ráðherra] 4) getur að fenginni umsögn [Náttúrufræðistofnunar Íslands] 2) veitt undanþágur til veiða á villtum dýrum sem njóta friðunar eða verndar ef nota á þau við rannsóknir, fyrir söfn og dýragarða eða til ræktunar og undaneldis.
Náttúrufræðistofnun Íslands má án sérstakrar heimildar láta veiða allar tegundir fugla, þar á meðal friðaðar tegundir, og safna eggjum handa stofnuninni hvar sem er og án þess að endurgjald komi fyrir, enda sýni viðkomandi skilríki verði því við komið. Haft skal samráð við landeigendur fyrir fram og forðast óþarfa átroðning. … 2)
[Ráðherra] 4) getur að fenginni tillögu [Náttúrufræðistofnunar Íslands] 2) ákveðið að beita sér fyrir útrýmingu stofns eða tegundar dýra sem flust hefur til Íslands af mannavöldum. [[Ráðherra] 4) er heimilt að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands að aflétta tímabundið og á ákveðnum svæðum friðun á stofnum eða tegundum villtra dýra, sem flust hafa til Íslands af mannavöldum, til að halda stofnum niðri.] 3)
    1)Rg. 456/1994, sbr. 511/1994, 506/1998, 498/1999, 610/1999, 686/2002, 716/2003, 800/2005, 519/2006, 830/2006, 857/2007, 772/2009, 920/2011, 344/2012, 811/2012, 910/2013, 800/2016, 765/2017, 939/2018, 816/2019, 1006/2021 og 1217/2021. Rg. 437/1995, sbr. 207/1997 og 879/2014. 2)L. 164/2002, 36. gr. 3)L. 94/2004, 5. gr. 4)L. 126/2011, 189. gr.
8. gr.
Öllum íslenskum ríkisborgurum, svo og erlendum ríkisborgurum með lögheimili hér á landi, eru dýraveiðar heimilar í almenningum, á afréttum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra, og í efnahagslögsögu Íslands utan netlaga landareigna. Skulu þeir hafa aflað sér leyfis til þess samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.
Landeigendum einum eru heimilar dýraveiðar og ráðstöfunarréttur þeirra á landareign sinni nema lög mæli öðruvísi fyrir.
Eigi má skilja rétt til veiða að nokkru eða öllu leyti frá landareign fyrir fullt og allt. En leyfilegt skal að skilja rétt til veiða frá landareign um tiltekið tímabil er eigi má vera lengra en 10 ár í senn.
Nú er landareign í sameign en er skipt eftir merkjum og afnota- eða eignarskiptingu og á þá hver sameigandi rétt til dýraveiða á og fyrir sínum landshluta eða afnotasvæði, nema samkomulag hafi orðið um aðra lögmæta skipan.
Nú er landareign í óskiptri sameign og eru þá landeigendum öllum dýraveiðar jafnheimilar í þeirri landareign í réttu hlutfalli við afnotarétt lands nema samkomulag verði um aðra skipan.
Þar sem stöðuvötn, firðir, vogar eða sund, sem ekki eru 230 m á breidd, skipta landareignum eiga landeigendur veiðirétt út að miðlínu, svo og í ám og lækjum. Í stöðuvötnum, sem eru breiðari en 230 m, eru landeigendum, sem land eiga að vatninu, einum heimilar veiðar í almenningi þess og eru þær þeim öllum jafnheimilar. Sé forn venja til þess að réttur til dýraveiða í almenningi stöðuvatns fylgi tiltekinni eða tilteknum landareignum skal sú venja gilda eftirleiðis.
Erlendir ferðamenn, sem veiða hér á landi, skulu afla sér veiðikorta, sbr. 11. gr., og fullnægja að öðru leyti þeim kröfum sem gerðar eru til veiðimanna hér á landi.
9. gr.
Við veiðar má eingöngu nota skotvopn sem úr má skjóta fríhendis frá öxl með þeim undantekningum sem upp eru taldar í liðum 3, 4, 7 og 16 hér á eftir og nánar er kveðið á um í reglugerðum. Við fuglaveiðar er óheimilt að nota haglabyssu með hlaupvídd stærri en nr. 12. Við veiðar er m.a. óheimilt að nota:
    1. [Eitur eða svefnlyf, nema til músa- og rottuveiða.] 1)
    2. Sprengiefni, bensín eða önnur efni til þess að svæla með gasi eða reyk.
    3. Steina, barefli, eggvopn, skutla, stunguvopn eða áþekka hluti. Þó má nota barefli við hefðbundnar veiðar á fýls-, súlu- og skarfsungum.
    4. Net, nema háf til lundaveiða, sbr. þó 5. mgr. [20. gr.] 1) að því er varðar álku, langvíu og stuttnefju. Fugla, er drepast í netum sem lögð eru til fiskveiða eða kópaveiða, má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf. Lifandi fugla skal greiða úr neti og sleppa.
    5. Öngla eða önnur tól sem komið er fyrir í æti.
    6. Snörur og snörufleka.
    7. Fótboga eða gildrur, nema til músaveiða, rottuveiða, minkaveiða og til að ná tófuyrðlingum við greni. Gerðir fótboga og gildra skulu hafa hlotið samþykki [Umhverfisstofnunar]. 2)
    8. Rafbúnað sem getur drepið eða rotað.
    9. Segulbandstæki og aðra rafknúna hljóðgjafa.
    10. Ljósgjafa, nema til refa- og minkaveiða.
    11. Búnað til að lýsa upp skotmörk.
    12. Spegla eða annan búnað sem blindar.
    13. Búnað til þess að miða í myrkri með rafeindatækjum er stækka eða breyta ímyndinni.
    14. Sjálfvirk skotvopn, svo og handhlaðnar fjölskotabyssur og hálfsjálfvirk skotvopn, með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki.
    15. Lifandi dýr sem bandingja.
    16. Hunda til þess að hlaupa uppi bráð, nema við minkaveiðar.
    17. Vélknúin farartæki, nema báta á sjó til fuglaveiða enda gangi þeir ekki hraðar en níu sjómílur meðan á veiði stendur. Vélknúin farartæki á landi, [önnur en [vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki], 3)] 4) má nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Skotvopn skulu vera óhlaðin meðan á akstri stendur. Þau skulu einnig vera óhlaðin nær vélknúnu farartæki á landi en 250 m.
[Umhverfisstofnun getur veitt tímabundna undanþágu til að nota þær veiðiaðferðir sem taldar eru upp í 1. mgr. í vísindaskyni eða ef villt dýr valda umtalsverðu tjóni eða umtalsverðum ama og aðrar aðferðir eru ekki taldar henta.] 1)
    1)L. 94/2004, 6. gr. 2)L. 164/2002, 37. gr. 3)L. 36/2005, 1. gr. 4)L. 60/2003, 1. gr.
10. gr.
[Veiðar skulu óheimilar á svæðum sem eru friðlýst vegna dýralífs. [Ráðherra] 1) getur aflétt tímabundið eða rift þeirri friðun að fullu eða gagnvart tiltekinni tegund að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands.] 2)
Veiðimanni er skylt að hirða bráð sína. Særi veiðimaður dýr ber honum að elta það strax uppi og aflífa ef þess er nokkur kostur. Ákvæði þetta gildir einnig þótt sært dýr fari inn á landareign sem veiðimaður hefur ekki leyfi til að veiða á og er þá bráð eign landeiganda nema annað sé tekið fram í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    1)L. 126/2011, 189. gr. 2)L. 164/2002, 38. gr.

V. kafli. Veiðikort og hæfnispróf veiðimanna.
11. gr.
[Allir sem stunda veiðar á villtum dýrum, öðrum en rottum, músum og minkum, skulu afla sér veiðikorts gegn gjaldi, sbr. 3. mgr.] 1) Veiðikort þarf ekki til eggjatöku. [Umhverfisstofnun] 2) annast útgáfu veiðikorta. Á veiðikorti skal getið nafns handhafa, gildistímabils og þeirra tegunda sem viðkomandi hefur heimild til að veiða. Korthafi skal ætíð bera kortið á sér á veiðum. Hann skal framvísa því ef óskað er. [Eigi síðar en 1. apríl ár hvert skal veiðikortshafi skrá og skila þar til gerðri skýrslu um undangengið veiðiár sem telst frá 1. janúar til 31. desember. Ef veiðiskýrslu frá fyrra veiðitímabili hefur ekki verið skilað er útgáfa nýs veiðikorts óheimil. Ef veiðiskýrsla berst eftir lögmæltan skiladag hækkar gjald [í ríkissjóð] 3) fyrir útgáfu nýs veiðikorts í 5.000 kr.] 4) 5)
Ábúendur hlunnindajarða og aðrir rétthafar hefðbundinna hlunninda skulu fá sérstök veiðikort, hlunnindakort, til staðfestu því að þeir hafi rétt til að nýta hlunnindi á jörðinni, eða á tilteknu svæði, og til að verjast tjóni af völdum villtra dýra á jörðinni eða svæðinu. Hlunnindakort gilda fyrir eiganda eða ábúanda og það fólk sem honum er nauðsynlegt að hafa með sér við nýtingu hlunnindanna og við varnaraðgerðir við ágangi tjónvalda.
[Gjald fyrir veiðikort skal vera 3.500 kr. fyrir hvert veiðiár og rennur það í ríkissjóð. Ráðherra ákvarðar fjárveitingu til Umhverfisstofnunar á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum til rannsókna, vöktunar og stýringar á stofnum villtra dýra og útgáfu veiðikorta. Ráðherra úthlutar fé til rannsókna af fjárveitingu skv. 2. málsl. að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar.] 3)
[Þeir sem stunda veiðar á villtum dýrum skulu hafa tekið próf um villt dýr og umhverfi þeirra og í hæfni til veiða. [Umhverfisstofnun] 2) heldur námskeið til undirbúnings hæfnisprófum. [Umhverfisstofnun] 2) er heimilt að innheimta gjald fyrir töku prófs um villt dýr og umhverfi þeirra og í hæfni til veiða og fyrir námskeið til undirbúnings prófunum. Gjöld skulu aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu. Ráðherra setur að fengnum tillögum [Umhverfisstofnunar] 2) gjaldskrá fyrir próf og námskeið til undirbúnings hæfnisprófum.] 6)
    1)L. 94/2004, 7. gr. 2)L. 164/2002, 39. gr. 3)L. 47/2018, 36. gr. 4)L. 56/2008, 1. gr. 5)Rg. 291/1995, sbr. 230/1996, 403/1996 og 50/2004. 6)L. 131/1999, 1. gr.

VI. kafli. Sérákvæði um veiðar.
12. gr. Refir.
Óheimilt er að eyðileggja greni. Ekki má láta hunda hlaupa um á greni á grenjatímanum né hafa þar óþarfa umgang. Sveitarstjórnir skulu halda skrá yfir öll þekkt greni í sínu umdæmi ásamt lýsingu á þeim og skulu afrit af skránum varðveitt hjá [Umhverfisstofnun]. 1)
[Þar sem [ráðherra] 2) ákveður, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, að nauðsynlegt sé að láta veiða refi til þess að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum, sbr. 7. gr., er sveitarstjórn skylt að ráða kunnáttumann til grenjavinnslu og skal hann hafa með sér aðstoðarmann.] 1) Þar sem [Umhverfisstofnun] 1) og sveitarstjórn þykir betur henta má skipuleggja refaveiðar að vetrarlagi í stað grenjavinnslu og fela þá skotmanni með sama hætti framkvæmdina. Eigi fleiri sveitarfélög sameiginlegt upprekstrarland skulu sveitarstjórnir fela stjórn viðkomandi upprekstrar- eða fjallskilafélags umsjón refaveiða samkvæmt þessari málsgrein.
Á svæðum, þar sem friðun refa hefur verið aflétt, sbr. 7. gr., eru refaveiðar utan grenjatíma öllum heimilar sem til þess hafa leyfi samkvæmt lögum.
[Ráðherra] 2) ákveður árlega viðmiðunartaxta launa til skotmanna og aðrar greiðslur fyrir unna refi sem veiddir eru skv. 2. og 3. mgr. [Viðkomandi sveitarstjórnir skulu árlega gefa skýrslur til [Umhverfisstofnunar] 1) um refaveiðar og kostnað við þær, hver á sínu svæði, og endurgreiðir ríkissjóður þá hluta kostnaðar við veiðarnar m.a. með tilliti til fjárhagslegrar getu hlutaðeigandi sveitarfélaga eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.] 3) [Ráðherra] 2) getur í samráði við [Umhverfisstofnun] 1) heimilað sveitarstjórnum að ráða skotmenn til refaveiða á tilteknum svæðum til viðbótar þeim sem ákvörðuð hafa verið skv. 2. mgr. og falla þau þá ekki undir greiðsluskyldu ríkissjóðs.
Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. mega bændur og æðarræktendur, eða aðilar á þeirra vegum, skjóta refi sem búfénaði eða æðarvarpi stafar hætta af. Skal viðkomandi tilkynna skotmönnum, sbr. 2. mgr., um slíka veiði svo fljótt sem auðið er.
    1)L. 164/2002, 40. gr. 2)L. 126/2011, 189. gr. 3)L. 140/1996, 25. gr.
13. gr. Minkar.
[Minkar njóta ekki friðunar samkvæmt lögum þessum. Þó er [ráðherra] 1) heimilt, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, að friða minka í rannsóknarskyni á takmörkuðu svæði í skamman tíma.
Þar sem [ráðherra] 1) ákveður, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, að minkaveiðar séu nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum minka er sveitarstjórn skylt að ráða kunnáttumann til minkaveiða.] 2)
[Ráðherra] 1) ákveður árlega viðmiðunartaxta launa og annarra greiðslna fyrir unna minka sem veiddir eru skv. 2. mgr. [Viðkomandi sveitarstjórnir skulu árlega gefa skýrslur til [Umhverfisstofnunar] 2) um minkaveiðar og kostnað við þær, hver á sínu svæði, og endurgreiðir ríkissjóður þá allt að helming kostnaðar við veiðarnar eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.] 3) [Ráðherra] 1) setur reglugerð 4) um framkvæmd veiðanna og um tilhögun endurgreiðslna á hlut ríkissjóðs í kostnaði við þær.
    1)L. 126/2011, 189. gr. 2)L. 164/2002, 41. gr. 3)L. 144/1995, 57. gr. 4)Rg. 437/1995, sbr. 207/1997 og 879/2014.
14. gr. [Hreindýr.
[Ráðherra] 1) getur heimilað veiðar úr hreindýrastofninum, enda telji Umhverfisstofnun að stofninn þoli veiði og að æskilegt sé að veiða úr honum.
Ráðherra ákveður árlega fjölda þeirra dýra sem fella má, eftir aldri, kyni og veiðisvæðum, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og birtir auglýsingu þar að lútandi í Lögbirtingablaði. Eignarréttur á landi þar sem hreindýr halda sig veitir ekki rétt til veiða á hreindýrum.
Veiðar á hreindýrum eru heimilar öllum er til þess hafa leyfi samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Af hverju felldu hreindýri skal greiða til Umhverfisstofnunar sérstakt leyfisgjald sem ráðherra ákveður árlega að fengnum tillögum stofnunarinnar. Við ákvörðun gjaldsins skal taka mið af kostnaði við vöktun hreindýrastofnsins og eftirlit og stjórn hreindýraveiða. Gjaldið skal þó ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði.
[Umhverfisstofnun annast sölu veiðileyfa og eftirlit með hreindýraveiðum.] 2) Umhverfisstofnun skiptir arði af sölu veiðileyfa og afurða felldra dýra að fengnum tillögum hreindýraráðs. Umhverfisstofnun gerir tillögu til ráðherra um árlegan veiðikvóta og skiptingu hans milli veiðisvæða að fengnum tillögum hreindýraráðs þar að lútandi.
[Ráðherra] 1) skipar fjóra menn í hreindýraráð. Ráðherra skipar formann ráðsins án tilnefningar. Búnaðarsamband Austurlands og Búnaðarsamband Austur-Skaftafellssýslu tilnefna einn fulltrúa hvort og sveitarfélög á veiðisvæði hreindýra einn fulltrúa. Verði atkvæði jöfn á fundum ráðsins ræður atkvæði formanns. Hlutverk ráðsins er að vera Umhverfisstofnun og [ráðherra] 1) til ráðgjafar um vernd, veiðar og nýtingu hreindýrastofnsins. Fulltrúum Náttúrustofu Austurlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að sitja fundi hreindýraráðs og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Ráðið skal ár hvert gera tillögu til Umhverfisstofnunar um skilgreiningu ágangssvæða hreindýra, árlegan veiðikvóta og skiptingu hans milli veiðisvæða.
2) Verði Umhverfisstofnun eða eftirlitsmenn á vegum stofnunarinnar varir við að brotið sé gegn ákvæðum laganna og reglugerðum um hreindýraveiðar er heimilt að svipta viðkomandi veiðileyfi og leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.
2)
Náttúrustofa Austurlands annast vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Náttúrustofa Austurlands gerir Náttúrufræðistofnun Íslands grein fyrir niðurstöðu, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Af hverju felldu dýri skal greiða sérstakt gjald til þess að standa undir vöktun stofnsins og ákveður ráðherra upphæð gjaldsins, sbr. 3. mgr.] 3)
[[Enginn má stunda hreindýraveiðar nema hann hafi til þess veiðileyfi og sé í fylgd með leiðsögumanni. Áður en veiðimaður fer til hreindýraveiða skal hann hafa staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum. Veiðimaður þarf að skila inn staðfestingu á að hann hafi lokið verklegu skotprófi fyrir 1. júlí ár hvert. Skili veiðimaður ekki inn staðfestingu skal veiðileyfi hans úthlutað að nýju. Umhverfisstofnun er heimilt að veita veiðimanni sem fær úthlutað leyfi til hreindýraveiða eftir 1. júlí frest til að skila inn staðfestingu á verklegu skotprófi.
Enginn getur tekið að sér leiðsögn með hreindýraveiðum nema hann hafi til þess leyfi Umhverfisstofnunar. Leyfi skal veitt til allt að fjögurra ára í senn og miðast við tiltekin veiðisvæði. Til að geta hlotið leyfi sem leiðsögumaður þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    1. Hafa skotvopnaleyfi (B-flokk) og veiðikort.
    2. Hafa staðfestingu á að hann hafi staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum.
    3. Hafa þekkingu og reynslu af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra.
    4. Hafa staðfestingu á þátttöku í námskeiðum Umhverfisstofnunar og að hann hafi lokið prófi í kjölfar þeirra með fullnægjandi árangri í:
    a. líffræði, sýklafræði, vistfræði og náttúruvernd með sérstöku tilliti til hreindýra,
    b. líffærafræði, þekkingu á helstu sjúkdómum og sníkjudýrum sem finnast á Íslandi og töku sýna,
    c. náttúruverndarlögum, lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, reglugerð um hreindýraveiðar og öðrum lögum sem máli skipta,
    d. leiðsögn,
    e. meðferð skotvopna,
    f. meðferð og notkun áttavita og GPS-staðsetningartækja,
    g. veiði villtra dýra og siðfræði og siðareglum veiðimanna,
    h. staðháttum á viðkomandi veiðisvæði.
    5. Hafa tvisvar á sama veiðitímabili leiðsagt með hreindýraveiðum undir handleiðslu starfandi leiðsögumanns sem valinn er af Umhverfisstofnun.
    6. Hafa sótt skyndihjálparnámskeið á síðustu tveimur árum.
Umhverfisstofnun heldur námskeið skv. 4. tölul. 10. mgr. í samráði við hreindýraráð og skal Umhverfisstofnun m.a. meta þörf á að halda slík námskeið með tilliti til eðlilegrar nýliðunar í hópi leiðsögumanna. Umhverfisstofnun er heimilt að innheimta gjald fyrir námskeið á vegum hennar, próf í kjölfar námskeiða, verkleg skotpróf og fyrir útgáfu eða endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn. Gjöld skulu aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu. Ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar gjaldskrá fyrir námskeið á vegum hennar, próf í kjölfar námskeiða, verkleg skotpróf og fyrir útgáfu eða endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn.
Umhverfisstofnun heldur verkleg skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn og leiðsögumenn. Umhverfisstofnun er heimilt að fela öðrum framkvæmd verklegra skotprófa, svo sem rekstraraðilum skotvalla.
Til að fá endurnýjun leyfis sem leiðsögumaður þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    1. Hafa skotvopnaleyfi (B-flokk) og veiðikort.
    2. Hafa staðfestingu á að hann hafi staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum.
    3. Hafa staðfestingu á þátttöku í endurmenntunarnámskeiði Umhverfisstofnunar.
    4. Hafa sótt skyndihjálparnámskeið á síðustu tveimur árum.
Vilji leiðsögumaður bæta við sig veiðisvæðum hvort sem er við endurnýjun eða í öðrum tilvikum þarf hann að auki að standast próf í staðháttum á viðkomandi veiðisvæði.
Hlutverk leiðsögumanna með hreindýraveiðum er að fylgja veiðimanni um veiðisvæði, hjálpa honum að þekkja þau dýr sem hann má veiða, sjá til þess að veiðimaður fari rétt að við veiðarnar, skrái þær upplýsingar á veiðiskýrslur sem krafist er og skili inn veiðiskýrslum rétt útfylltum. Leiðsögumaður á að sjá til þess að veiðar séu í samræmi við lög og reglur. Brjóti leiðsögumaður gegn lögum og reglugerðum getur Umhverfisstofnun veitt honum áminningu eða svipt hann leyfi séu sakir alvarlegar eða ítrekaðar. Hafi leiðsögumaður verið sviptur leyfi getur hann öðlast slíkt leyfi á ný þegar fjögur ár eru liðin frá sviptingu enda fullnægi hann þeim kröfum sem gerðar eru þegar um nýtt leyfi er að ræða, sbr. 10. mgr. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á í reglugerð um hlutverk og skyldur leiðsögumanna með hreindýraveiðum að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og hreindýraráðs.
Aðeins er heimilt að úthluta arði af hreindýraveiðum til þeirra sem heimila hreindýraveiðar á landi sínu allt veiðitímabilið. Eigandi eða ábúandi jarðar skal fyrir 1. júlí ár hvert tilkynna til Umhverfisstofnunar hvort hann heimili veiðar á landi sínu eður eigi. Eigandi eða ábúandi þarf þó ekki að tilkynna afstöðu sína árlega hafi hann gert það einu sinni og ekki orðið breyting á afstöðu hans. Umhverfisstofnun er heimilt að miða við afstöðu eiganda eða ábúanda frá fyrri veiðitímabilum hafi hann ekki tilkynnt um afstöðu sína fyrir 1. júlí.] 4)
Ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar nánari reglur 5) um framkvæmdina, m.a. um skiptingu arðs af hreindýraveiðum.] 2)
    1)L. 126/2011, 189. gr. 2)L. 94/2004, 8. gr. 3)L. 164/2002, 42. gr. 4)L. 63/2011, 1. gr. 5)Rg. 486/2003, sbr. 636/2010, 51/2013, 46/2015, 134/2015 og 607/2015. Rg. 487/2003. Rg. 424/2012.
15. gr. Mýs og rottur.
Rottur og húsamýs, svo og hagamýs í húsum inni, eru ekki friðaðar samkvæmt lögum þessum.
[Heilbrigðisnefndir hafa umsjón með fækkun á músum og rottum eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur.] 1)
    1)L. 94/2004, 9. gr.
16. gr. Hvítabirnir.
Hvítabirnir eru friðaðir samkvæmt lögum þessum á landi, hafís og á sundi, sbr. þó 3. mgr.
[Gangi hvítabjörn á land þar sem fólki eða búfénaði er ekki talin stafa bráð hætta af er Umhverfisstofnun heimilt að láta fanga björninn og flytja hann á stað þar sem ekki stafar hætta af honum.] 1)
Fella má hvítabjörn sem gengið hefur á land og fólki eða búfénaði er talin stafa hætta af.
Hafi hvítabjörn verið felldur skv. 3. mgr. skal það tilkynnt [ráðherra] 2) án tafar og getur hann þá krafist þess að björninn verði afhentur Náttúrufræðistofnun Íslands til athugunar og ráðstöfunar, enda greiði ríkissjóður áfallinn kostnað.
    1)L. 164/2002, 43. gr. 2)L. 126/2011, 189. gr.
17. gr. Fuglar.
[Ráðherra] 1) getur í reglugerð, 2) að fengnum tillögum [Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands], 3) aflétt friðun eftirtalinna fuglategunda innan þeirra tímamarka er hér segir, sbr. 7. gr.:
    1. Allt árið: svartbakur, sílamáfur, silfurmáfur, hrafn.
    2. Frá 20. ágúst til 31. mars: grágæs, heiðagæs.
    3. Frá 1. september til 31. mars: fýll, dílaskarfur, toppskarfur, súla, blesgæs, helsingi, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, duggönd, skúfönd, hávella, toppönd, hvítmáfur, hettumáfur, rita, skúmur, kjói. Ætíð er heimilt að skjóta kjóa nærri æðarvarpi.
    4. Frá 1. september til 10. maí: álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi.
    5. Frá 15. október til 22. desember: rjúpa.
[Heimilt er að takmarka veiðar við ákveðna daga innan þeirra tímamarka sem fram koma í 1. mgr. og ákveðinn tíma sólarhrings.] 4)
Nú hefur [ráðherra] 1) ákveðið að aflétta friðun skv. 1. mgr. og getur hann þá að ósk sveitarstjórnar ákveðið að friðun gildi áfram í tiltekinn tíma á ákveðnum svæðum þar sem umferð veiðimanna er talin óæskileg.
Óheimilt er að þeyta flautur, fljúga flugvélum eða vera með annan hávaða að óþörfu í grennd við fuglabjörg. Enn fremur er óheimilt að hleypa af skoti á landi nær fuglabjörgum en 200 m og á sjó nær en 500 m. Aldrei má skjóta fugl í fuglabjörgum.
Óheimilt er að veiða fugla í sárum.
    1)L. 126/2011, 189. gr. 2)Rg. 456/1994, sbr. 511/1994, 506/1998, 498/1999, 610/1999, 686/2002, 716/2003, 800/2005, 519/2006, 830/2006, 772/2009, 920/2011, 344/2012, 811/2012, 910/2013, 800/2016, 765/2017, 816/2019 og 1217/2021. 3)L. 164/2002, 44. gr. 4)L. 36/2005, 2. gr.
[17. gr. a. Bann við sölu á veiðifangi.
[Ráðherra] 1) er heimilt með reglugerð, 2) þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt í samræmi við ákvæði 17. gr., að banna sölu á þeim fuglum og afurðum þeirra, enda sé talið nauðsynlegt vegna ástands viðkomandi stofns að takmarka veiðar.
Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja fugla og afurðir fugla sem ráðherra hefur bannað sölu á skv. 1. mgr. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi.
Sölubann sem ráðherra ákveður skv. 1. mgr. nær ekki til innfluttra fugla og fuglaafurða þeirra tegunda sem bannið tekur til. Innflytjanda og seljanda ber að tryggja að innfluttar fuglategundir og afurðir þeirra séu þannig merktar að fram komi í hvaða landi þær eru upprunnar.] 3)
    1)L. 126/2011, 189. gr. 2)Rg. 456/1994, sbr. 511/1994, 506/1998, 498/1999, 610/1999, 686/2002, 716/2003, 800/2005, 830/2006, 772/2009 og 939/2018. 3)L. 36/2005, 3. gr.

[VII. kafli. Sértæk friðun.]1)
    1)L. 94/2004, 10. gr.
[18. gr.
Ráðherra er heimilt með reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög eftir því sem við á og að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, að kveða á um aukna vernd ákveðinna friðaðra stofna villtra fugla og spendýra ef brýn ástæða er til. Í reglugerðinni er heimilt að kveða á um að strangari reglur gildi um búsvæði þessara tegunda ef sýnt þykir að tegundunum stafi sérstök ógn af mannaferðum eða umferð eða séu sérstaklega viðkvæmar fyrir raski.
Umhverfisstofnun getur að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágu frá ákvæðum þessa kafla, svo sem vegna myndatöku og rannsókna, enda sé sótt um hana fyrir fram. Skilyrði skulu sett um umgang við hreiður við veitingu slíkrar undanþágu.] 1)
    1)L. 94/2004, 10. gr.
[19. gr. Ernir.
Óheimilt er frá 15. mars til 15. ágúst að koma nær arnarhreiðrum en 500 m nema brýna nauðsyn beri til, svo sem vegna lögmætra nytja sem ekki er hægt að stunda á öðrum árstíma, enda sýni menn ýtrustu varfærni og forðist að trufla fuglana. Þessi takmörkun á umferð gildir bæði þar sem ernir eru að búa sig undir varp og við þau hreiður sem orpið hefur verið í og eru með eggjum eða ungum.
Óheimilt er að hrófla við hreiðrum og hreiðurstæðum arna og svæði sem takmarkast af 100 m hringmáli umhverfis, hvort sem er á varptíma eða utan hans. Einnig er óheimilt að koma fyrir hvers kyns búnaði í þeim tilgangi að fæla fugla frá hreiðurstæðum eða reyna að hindra þá í að verpa þar. Með hreiðurstæðum samkvæmt þessari grein er átt við alla þá staði sem ernir hafa orpið á. Heimilt er þó að stugga við örnum sem halda til eða sjást í friðlýstum æðarvörpum, svo fremi sem fuglunum sjálfum, hreiðrum þeirra, eggjum og ungum er ekki hætta búin. Þó er óheimilt að stugga við hreiðurörnum innan 2 km frá varpstað. Ráðherra setur reglugerð um þær aðferðir sem heimilt er að nota til að stugga við örnum í friðlýstum æðarvörpum.
[Ráðherra] 1) getur veitt undanþágu frá banni skv. 1. og 2. mgr. í sérstökum tilvikum, svo sem vegna lagningar þjóðvega eða annarrar mannvirkjagerðar í almannaþágu, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá er Umhverfisstofnun heimilt, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, að veita undanþágu frá ákvæðum 1. mgr., svo sem vegna myndatöku og rannsókna, enda sé sótt um hana fyrir fram. Skilyrði skulu sett um umgang við hreiður við veitingu slíkrar undanþágu.
Náttúrufræðistofnun Íslands skal halda skrá yfir hreiðurstæði arna og láta Umhverfisstofnun í té. Fara skal með allar upplýsingar úr skránni sem trúnaðarmál í samræmi við reglur sem [ráðherra] 1) setur um meðferð upplýsinga úr skránni. Heimilt er þó að veita landeiganda upplýsingar um arnarhreiður á landareign hans og öðrum sem er nauðsynlegt að fá slíkar upplýsingar, t.d. vegna mannvirkjagerðar í almannaþágu.] 2)
    1)L. 126/2011, 189. gr. 2)L. 94/2004, 10. gr.

[VIII. kafli.]1) Nýting hlunninda.
    1)L. 94/2004, 10. gr.
[20. gr.]1)
Frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert eru öll skot bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km nema brýna nauðsyn beri til. [Frá 1. apríl til 14. júlí ár hvert] 2) má eigi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli.
[Ráðherra] 3) setur reglugerð 4) um hvernig staðið skuli að skilgreiningu og friðlýsingu æðarvarps samkvæmt lögum þessum.
Í varpi kríu, silfurmáfs, hvítmáfs og hettumáfs skal heimilt að taka egg þessara fugla en þó aldrei eftir 15. júní ár hvert.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka súlu, dílaskarfs, toppskarfs, fýls, skúms, hvítmáfs, ritu, álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda telst til hefðbundinna hlunninda, skulu friðunarákvæði laga þessara ekki vera til fyrirstöðu því að nytja megi þau hlunnindi eftirleiðis.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem veiði fullvaxinna lunda, álku, langvíu og stuttnefju í háf telst til hlunninda, skulu friðunarákvæði laga þessara ekki vera til fyrirstöðu því að nytja megi þau hlunnindi eftirleiðis. Veiðar þessar hefjist ekki fyrr en 1. júlí og ljúki eigi síðar en 15. ágúst.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem andarvarp er mikið, skal veiðirétthafa heimilt að taka egg frá eftirtöldum andartegundum: æðarfugli, stokkönd, rauðhöfðaönd, urtönd, duggönd, skúfönd, hávellu, húsönd og toppönd. Við slíka eggjatöku skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri. Heimilt er og að taka grágæsar- og heiðagæsaregg, en þá skulu eigi færri en tvö egg skilin eftir í hreiðri. Andaregg og heiðagæsaregg, sem tekin eru samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar, má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf.
Telji eigandi veiðiréttar sig hafa heimild til nýtingar hlunninda skv. 4. eða 5. mgr. skal hann afla staðfestingar viðkomandi sveitarstjórnar og sýslumanns á rétti sínum. Neiti þessir aðilar að staðfesta heimild veiðirétthafa sker [ráðherra] 3) úr þeim ágreiningi.
    1)L. 94/2004, 10. gr. 2)L. 36/2005, 4. gr. 3)L. 126/2011, 189. gr. 4)Rg. 252/1996.

[IX. kafli.]1) Refsiákvæði og réttarfar.
    1)L. 94/2004, 10. gr.
[21. gr.]1)
Brot gegn lögum þessum og reglum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum [eða fangelsi allt að 2 árum] 2) og sviptingu skotvopna- og veiðileyfis. Virða skal það refsingu til þyngingar ef um sjaldgæfar eða fágætar fuglategundir er að ræða, sbr. 7. gr. Sama gildir um æðarfugl og æðaregg, svo og stórfelldar ólögmætar fuglaveiðar og spjöll á friðlýstum varpstöðvum.
[Gera má lögaðila sekt fyrir brot gegn 17. gr. a. Um refsiábyrgðina fer eftir II. kafla A almennra hegningarlaga.] 3)
Tilraun til brota gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar eru á grundvelli þeirra, varða refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Hið sama gildir um hlutdeild í brotum.
Gera má upptækt til ríkissjóðs: Ólöglegt veiðifang, egg eða eggjaskurn, veiðitæki og annan búnað sem notaður hefur verið við framkvæmd brots, [veiðifang sem boðið er til sölu eða selt í bága við sölubann skv. 17. gr. a], 3) svo og hagnað af ólöglegri veiði og sölu framangreindra verðmæta. Ekki er það upptöku til fyrirstöðu þótt annar sé eigandi veiðitækis eða annars sem upptaka er heimil á en sá sem sekur hefur reynst um brot á lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra. Að öðru leyti skal fara um eignaupptöku samkvæmt ákvæðum 69. gr. laga nr. 19/1940.
    1)L. 94/2004, 10. gr. 2)L. 82/1998, 214. gr. 3)L. 36/2005, 5. gr.
[22. gr.]1)2)
    1)L. 94/2004, 10. gr. 2)L. 88/2008, 233. gr.

[X. kafli.]1) Almenn ákvæði, gildistaka og brottfallin lög.
    1)L. 94/2004, 10. gr.
[23. gr.]1)
Reglugerðir, og aðrar stjórnvaldsaðgerðir um spendýrastofna og fugla, sem settar hafa verið fyrir gildistöku þessara laga, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þær brjóta ekki í bága við þau uns nýjar reglur hafa verið settar.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1994.
    1)L. 94/2004, 10. gr.