Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 658  —  405. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta.


     1.      Hvert geta starfsmenn ráðuneyta leitað sem telja sig verða fyrir vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra, svo sem einelti og áreitni eða annars konar ofbeldi?
    Í gildi er stefna, forvarna- og viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins vegna EKKO (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbeldi), frá 16. júní 2022. Markmiðið með stefnunni er að tryggja að úrræði séu til staðar og stuðla að forvörnum og verkferlum í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn EKKO á vinnustöðum. Eins og heiti reglugerðar og stefnunnar gefur til kynna gilda þær um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annars konar áreitni á vinnustöðum. Ekki er þar að finna skilgreiningu á orðunum „vanvirðandi háttsemi“ sem vísað er til í fyrirspurninni. Samkvæmt reglugerðinni er bæði atvinnurekanda og starfsmönnum óheimilt að leggja starfsmenn í einelti á vinnustað, áreita þá kynferðislega, sem og á grundvelli kyns, eða beita þá ofbeldi.
    Samkvæmt EKKO-stefnu Stjórnarráðsins skal starfsumhverfi og menning í ráðuneytum vera þannig að starfsfólk sé öruggt og því líði vel. Í því sambandi er mikilvægt að stuðla að andlegri jafnt sem líkamlegri heilsu á vinnustað. Það er gert með markvissu forvarnastarfi, skýrum verkferlum og stuðningi. Samkvæmt stefnunni er einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi undir engum kringumstæðum umborið og eru allar ábendingar um slíkt teknar alvarlega. Þá skal í EKKO-tilvikum fylgja tiltekinni forvarna- og viðbragðsáætlun sem nánar er útfærð í stefnunni.
    Í viðbragðsáætlun stefnunnar segir m.a. að ef starfsmaður hafi orðið fyrir, orðið vitni að, eða hafi rökstuddan grun um að tilvik tengt EKKO hafi átt sér stað, skuli hann upplýsa sinn næsta yfirmann eða mannauðsstjóra (eða annan ábyrgðaraðila málaflokksins innan ráðuneytisins). Þá skuli ráðuneytin upplýsa á sínum innri vefjum ef gerður hefur verið samstarfssamningur við fagaðila, sem er starfsfólki ráðuneytis til aðstoðar og ráðgjafar í EKKO-málum, eða felur fagaðila að taka mál í ferli þegar um samskiptavanda eða formlega tilkynningu er að ræða. Fagaðili er skilgreindur sem sá sem hefur sérhæft sig í meðferð mála sem tilheyra þessum málaflokki (sálfræðistofa, ráðgjafarstofa o.s.frv.). Starfsfólk er hvatt til að láta vita af atvikum sem það telur að gæti varðað EKKO.
    Hlutverk stjórnenda og mannauðsstjóra (eða annars ábyrgðaraðila) er að bregðast við slíkum málum án tafar, meta í samráði við tilkynnanda í hvaða ferli mál þurfa að fara og tryggja að unnið sé eftir samþykktri viðbragðsáætlun. Á það sérstaklega við um samskipti milli starfsfólks, þ.m.t. við ráðuneytisstjóra og ráðherra, en einnig samskipti við aðra einstaklinga sem ekki starfa hjá ráðuneytinu en starfsfólk hefur samskipti við vegna starfstengdra mála.
    Hlutverk mannauðsstjóra og annarra stjórnenda er jafnframt að veita ráðgjöf og sinna viðeigandi úrvinnslu eftir því sem við á hverju sinni. Gert er ráð fyrir í viðbragðsáætluninni að ráðuneytin geti kallað til eða leitað eftir aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga/fagaðila í öllum tilvikum. Slík aðkoma getur verið í formi handleiðslu, ráðgjafar eða með beinni aðkomu og er það metið í hverju tilfelli fyrir sig. Unnið er út frá þeirri meginreglu að hvert mál sé einstakt og mikilvægt að þau skoðist sem slík. Áherslur við úrvinnslu mála geta verið ólíkar eftir eðli og aðstæðum hverju sinni en í meginatriðum er ferlið með svipuðu sniði.
    Ferlinu má að meginstefnu skipta í tvennt. Fyrsta skref kvörtunar er svokölluð „viðrun máls“. Samkvæmt viðbragðsáætluninni er tilgangur viðrunar að einstaklingur hafi öruggar aðstæður til að ræða upplifun sína óháð því hvort stofnað verður til formlegrar kvörtunar eður ei. Viðrun er ætluð til þess að einstaklingur fái upplýsingar um hvað felist í formlegi málsmeðferð, upplýsingar um skilgreiningar, ferli kvörtunar, hvaða aðilar koma að slíkri vinnu o.fl. Eftir viðrun er hægt að taka upplýsta ákvörðun um það hvort viðkomandi vilji halda áfram með málið og þá með þeim stuðningi sem viðkomandi kýs eða þarf á að halda. Sé einungis um viðrun að ræða eða sé óskað eftir inngripi án þess að leggja fram formlega EKKO-kvörtun er viðkomandi boðin aðstoð samkvæmt innra verklagi ráðuneytis um samskiptaörðugleika eða viðkvæm mál. Ráðuneytin hafa margs konar leiðir til að aðstoða starfsfólk við að greiða úr samskiptavanda eða koma með íhlutun í erfið mál sem ekki fara í formlegt ferli samkvæmt verklagi um formlegar kvartanir EKKO-mála.
    Sé lögð fram formleg kvörtun af hálfu starfsmanns um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi er fylgt nánar tiltekinni málsmeðferð þar sem framkvæmd er rannsókn á því hvort tilkynning falli undir skilgreiningar b–e-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Tilkynning getur borist bæði skriflega eða með viðtali við mannauðsstjóra/stjórnanda. Viðkomandi er þá tilkynnt að formlegt ferli sé hafið. Í formlegri meðferð máls fer fram könnun á málsatvikum og niðurstaða er fengin um það hvort einelti, áreitni eða ofbeldi hafi átt sér stað. Í framhaldinu er gerð áætlun um næstu skref. Samkvæmt viðbragðsáætluninni er eftirfarandi verklag haft til hliðsjónar í formlegri málsmeðferð:
     1.      Tilkynning berst mannauðsstjóra/stjórnanda (eða öðrum ábyrgðaraðila málaflokks).
     2.      Hlutlaus athugun og úrvinnsla hefst. Stjórnendur/mannauðsstjóri bera ábyrgð á því að hlutlaus athugun og úrvinnsla eigi sér stað og geta nýtt sér þjónustu fagaðila. Jafnframt skal mannauðstjóri/stjórnandi taka til athugunar hvort ástæða sé til breytinga innan vinnustaðar til að tryggja vinnuaðstæður á meðan á meðferð máls stendur.
     3.      Upplýsingaöflun í formlegri málsmeðferð. Rætt er við málsaðila, bæði þann sem kvartar og þann sem kvörtun beinist að, og gögnum safnað. Ef þörf krefur er rætt við tiltekna samstarfsmenn og fá málsaðilar tækifæri til að tilnefna slíka aðila sem geta varpað frekara ljósi á málavexti. Allar upplýsingar um málsmeðferðina eru trúnaðarmál og verða gögn varðveitt þar sem önnur viðkvæm persónugreinarleg mannauðsgögn eru vistuð. Úrvinnsluaðili getur óskað eftir upplýsingum um t.d. fjarvistir á ákveðnu tímabili, upplýsingar um önnur atvik, starfsmannaveltu, vinnustaðagreiningar o.fl. Rafrænar upplýsingar eru varðveittar í samræmi við gildandi lög um varðveislu persónuupplýsinga.
     4.      Úrvinnsla gagna og niðurstaða. Skilað er áliti um það hvort málsatvik uppfylli viðmið skilgreiningar b–e-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1009/2015 eða hvort um annars konar vanda sé að ræða, t.d. samskiptavanda. Lagðar eru fram tillögur að úrbótum fyrir málsaðila sem og annað starfsfólk á vinnustaðnum.
     5.      Niðurstöður eru kynntar verkbeiðanda og málsaðilum, hvor í sínu lagi, á skilafundi. Málsaðilum skal gefinn kostur á að leggja fram athugasemdir.
     6.      Eftirmálar. Málsaðilum er veitt eftirfylgni í formi samtala og ef þörf er á er málsaðilum boðið upp á frekari úrvinnsluleiðir, svo sem sálfræðimeðferð eða annars konar stuðning/ráðgjöf.
    Nánari upplýsingar um ferlið og stefnu, forvarna- og viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins vegna EKKO (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, og ofbeldi), er að finna á vefsíðu Stjórnarráðsins. 1
    Hinn 1. janúar 2021 tóku gildi ný lög um vernd uppljóstrara, nr. 40/2020. Á grundvelli laganna geta starfsmenn nú miðlað upplýsingum til næsta yfirmanns um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda, þ.m.t. meint brot á reglugerð nr. 1009/2015, þrátt fyrir fyrirmæli laga, siðareglna eða samninga um þagnar- eða trúnaðarskyldu. Miðlun slíkra upplýsinga getur jafnframt verið til lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila sem við eiga, t.d. umboðsmanns Alþingis, ríkisendurskoðanda og Vinnueftirlits ríkisins.

     2.      Hefur forsætisráðherra verið upplýst formlega eða óformlega um að ráðherra hafi sýnt af sér slíka háttsemi? Ef svo er, hver voru viðbrögð ráðherrans og í hvaða farveg fóru slík mál?
    Forsætisráðherra hefur ekki verið upplýst formlega um slíka háttsemi ráðherra. Að því er varðar óformleg samskipti er til þess að líta að til Katrínar Jakobsdóttur er stundum leitað í krafti vináttu og persónulegra tengsla og á hún oft og tíðum trúnaðarsamtöl við fólk, m.a. um samskipti á jafn fjölmennum vinnustað og Stjórnarráð Íslands er. Ráðherra hefur litið svo á að þegar leitað er til hennar sem trúnaðarvinar þá sé um persónuleg málefni að ræða sem alla jafna kalli ekki á að hún setji þau í farveg stjórnsýslumála, nema óskað sé eftir því. Sé hins vegar grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi er leitast við að leiðbeina viðkomandi um réttan farveg þessara mála á grundvelli framangreindrar viðbragðsáætlunar Stjórnarráðsins um EKKO.
    Þá er rétt að árétta að ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald og ráðherrar í ríkisstjórn Íslands bera óskoraða ábyrgð samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar á þeim stjórnarframkvæmdum sem heyra undir ráðuneyti þeirra. Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, sbr. og forsetaúrskurð um skiptingu starfa ráðherra, nr. 7/2022, ber hver og einn ráðherra ábyrgð á skipulagi, rekstri og starfsmannahaldi sinna ráðuneyta. Framangreind viðbragðsáætlun er skýr um þann farveg sem mál eiga að fara í og hvert starfsmenn eiga að leita þegar þeir hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustað. Þá er skýrt kveðið á um að allar upplýsingar um málsmeðferðina séu trúnaðarmál og vistaðar með öðrum viðkæmum persónugreinanlegum mannauðsgögnum.

     3.      Hefur eitthvert ráðuneyta Stjórnarráðsins gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn sl. 5 ár? Ef svo er, hvaða ráðuneyti er um að ræða og hvert var tilefni slíks samnings/samninga?
     4.      Hver er útlagður kostnaður ráðuneyta Stjórnarráðsins af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað sl. 5 ár?

    Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. fyrirspurnar ber hver og einn ráðherra í ríkisstjórn ábyrgð á skipulagi, rekstri og starfsmannahaldi sinna ráðuneyta samkvæmt gildandi forsetaúrskurði. Þá skal fyrirspurn samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, varða mál sem ráðherra ber ábyrgð á. Samkvæmt framangreindu getur forsætisráðherra ekki svarað fyrir önnur ráðuneyti en forsætisráðuneytið. Óski fyrirspyrjandi eftir upplýsingum um samninga sem önnur ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands hafa gert um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn og kostnað því tengdan sl. fimm ár, er rétt að hann beini sérstökum fyrirspurnum þar að lútandi til viðkomandi ráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis.
    Forsætisráðuneytið er með „Heil heilsu“-þjónustusamning við Auðnast ehf. Með samningnum fær ráðuneytið forgang að tiltekinni sérfræðiþekkingu og fagþjónustu á sviði heilsu- og vinnuverndar. Meginmarkmiðið með samningnum er að gæta heilsutengdra hagsmuna starfsmanna, lágmarka fjarvistir vegna veikinda og streitutengdra þátta og grípa fyrr inn í heilsufarslegan vanda sem leitt getur til heilsubrests og því fjarvista.
    Þjónustan felur eftirfarandi í sér:
     *      EKKO-tilkynningaveitu.
     *      Fagþjónustu, svo sem sálfræðiþjónustu vegna áskorana í starfi/á vinnustað.
     *      Aðgengi mannauðsstjóra og stjórnenda að fagfólki.
     *      Trúnaðarlæknaþjónustu.
     *      Bakvakt áfallateymis.
     *      Þjónustu-, stuðnings- og fræðsluþörf.
    Í samræmi við framangreinda viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins um EKKO er starfsfólk forsætisráðuneytisins upplýst um tengilið hjá Auðnast á innri vef ráðuneytisins vegna þessara mála.
    Samkvæmt samningnum greiðir ráðuneytið mánaðargjald að fjárhæð 1200 kr. á starfsmann fyrir þjónustu Auðnast en greitt er aukalega fyrir sálfélagslega þjónustu sem óskað er eftir, svo sem sálfræðiviðtöl. Eftirfarandi töflur sýna útlagðan kostnað forsætisráðuneytisins sl. fimm ár í tengslum við sálfélagslegan stuðning við starfsfólk ráðuneytisins, m.a. vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustaðnum:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



1     www.stjornarradid.is/gogn/stefnur-og-aaetlanir/stefnur-raduneytanna/stefna-stjornarradsins-gegn-einelti/