Ferill 528. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 670  —  528. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu rammasamnings um fiskveiðar milli ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd rammasamning um fiskveiðar milli ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja sem gerður var í Reykjavík 14. október 2022.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á rammasamningi um fiskveiðar milli ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja sem gerður var í Reykjavík 14. október 2022. Samningurinn er fylgiskjal með tillögunni.
    Með rammasamningnum eru lagðar til þær breytingar á núverandi samningsframkvæmd ríkjanna að hverfa frá gerð árlegs bréfskiptasamnings Íslands og Færeyja um fiskveiðar í lögsögu ríkjanna, sem lagður hefur verið fyrir Alþingi á hverju haustþingi. Í staðinn verði framvegis heimilt að semja um þessi fiskveiðiréttindi, sem og önnur skyld atriði, á samráðsfundum ríkjanna sem haldnir verða á grundvelli heimildar í rammasamningnum. Viðræður milli ríkjanna um þessa boðuðu breyttu framkvæmd hafa staðið yfir um nokkurra ára skeið. Staða viðræðnanna hefur verið kynnt í greinargerðum með þingsályktunartillögum um staðfestingu árlegra bréfaskiptasamninga ríkjanna, nú síðast með þingsályktunartillögu þeirri sem varð að þingsályktun nr. 4/152 (þskj. 277, 166. mál á 152. lögþ.).
    Sambærilegt rammasamningsfyrirkomulag á sviði sjávarútvegs hefur um tíma verið við lýði í samskiptum Íslands og Rússlands, sbr. tvíhliða bókun Íslands og Rússlands við þríhliða samning Íslands, Rússlands og Noregs um veiðar í Smugunni frá 15. maí 1999. Alþingi heimilaði staðfestingu þess samnings með þingsályktun nr. 1/124 (þskj. 18, 2. mál á 124. lögþ.). Einnig má hér nefna rammasamkomulag milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum frá 21. júní 2018. Það byggist á sambærilegri aðferðafræði. Alþingi heimilaði staðfestingu þess samkomulags með þingsályktun nr. 7/149 (þskj. 731, 449. mál á 149. lögþ.).
    Sögulega hafa mestu samskipti Íslands og Færeyja verið í kringum sjávarútveg. Árið 1976 veitti Ísland Færeyjum einhliða fiskveiðiheimildir eftir útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur til að veiða allt að 17 þúsund tonn af botnfiski í lögsögu Íslands (þorsk, ýsu, o.fl.). Árið 1991 var Færeyjum veitt frekari heimild til að veiða allt að 30 þúsund tonn af loðnu við Ísland, sem var til komin vegna efnahagskreppu í Færeyjum á þeim tíma. Frá sama tíma fékk Ísland aðgang að færeyskri lögsögu, aðallega til veiða á kolmunna, en úr eigin kvóta. Fiskveiðisamningar milli Íslands og Færeyja hafa verið gerðir árlega og lagðir fyrir Alþingi til samþykktar. Undanfarin ár hafa Færeyjar fengið að veiða 5.600 tonn af botnfiski og 25–30.000 tonn af loðnu. Þjóðirnar hafa síðan árlega samþykkt gagnkvæmar veiðiheimildir til veiða á síld og kolmunna í lögsögu hvor annarrar.
    Til þessa hafa sjávarútvegsráðherrar ríkjanna verið oddamenn í árlegum viðræðum ríkjanna og hefur það stundum reynst snúið í framkvæmd enda tími ráðherra oft af skornum skammti undir lok árs. Með nýjum rammasamningi er gert ráð fyrir því að embættismenn annist hina árlegu samningsgerð og þá framkvæmd sem rúmast innan rammasamkomulagsins og geti eftir atvikum leitað til síns ráðherra í þeim tilvikum þegar skiptar skoðanir koma upp.
    Meginefni þessa nýja rammasamnings Íslands og Færeyja um fiskveiðar er sem hér segir:
    Í formálsorðum samningsins koma fram helstu áherslur samningsaðila og forsendur samningsins. Þar er m.a. vísað til skyldleika og náinna tengsla samningsaðila og langvarandi samvinnu í tengslum við fiskveiðar og vilja til að skapa grunn fyrir sameiginlegar niðurstöður í framtíðinni og efla almennt samstarf um fiskveiðar milli samningsaðilanna. Þá er þar m.a. áréttað að samningsaðilar séu staðráðnir í að vinna saman, í þágu hagsmuna beggja aðila, að því að tryggja áfram ábyrgar fiskveiðar.
    Í 1. gr. er fjallað um samstarf samningsaðila og það markmið að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu lifandi sjávarauðlinda til lengri tíma og standa jafnframt vörð um vistkerfi þar sem auðlindir eru. Í a–h-lið ákvæðisins eru taldar upp þær meginreglur sem beita á til að stuðla að sjálfbærum efnahagslegum, umhverfislegum og félagslegum ávinningi. Þar á meðal er áhersla á sjálfbærni og bestu mögulegu nýtingu lifandi sjávarauðlinda til lengri tíma litið, að byggja verndunar- og stjórnunarráðstafanir á sviði fiskveiða á bestu fáanlegu vísindaþekkingu, svo og á að beita varúðarnálgunar í fiskveiðistjórnun.
    Í 2. gr. er hvorum aðila um sig heimilað að færa veiðiheimildir til hins aðilans, svo og að veita skipum hins samningsaðilans aðgang að fiskveiðilögsögu sinni til veiða. Miðað er við að slíkar tilfærslur og aðgangur fái umfjöllun í árlegum viðræðum samningsaðila. Heimildir íslenskra stjórnvalda til slíkrar tilfærslna og aðgangsveitingar er nú að finna í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998. Þá eru einnig heimildir fyrir íslensk stjórnvöld til að setja reglur um veiði íslenskra skipta úr nytjastofnum utan lögsögu Íslands, sbr. I. kafla laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands nr. 151/1996. Taka ber fram að með þessu ákvæði samningsins er kveðið á um heimildir til gerðar milliríkjasamnings í skilningi 21. gr. stjórnarskrárinnar. Þar sem samningsheimildir munu framvegis byggjast á 2., 3. og 5. gr. samningsins, samþykki Alþingi þingsályktunartillögu þessa og forseti Íslands staðfesti samninginn, þá er miðað við að hvorki þurfi að leggja bókun um niðurstöður samningaviðræðna skv. 6. mgr. 3. gr. samningsins fyrir Alþingi né fyrir forseta til staðfestingar. Þó munu bókanir um niðurstöður samningaviðræðna sérhvers árs verða, líkt og aðrir milliríkjasamningar, birtar með auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda.
    Í 3. gr. er ákvæði sem fjallar um og rammar inn árlegar viðræður samningsaðila. Í ákvæði 1. og 2. mgr. kemur m.a. fram hvenær halda skuli viðræðufundina og hvaða málefni falli þar undir. Í 2. mgr. ákvæðisins er líka tiltekið að aðilar skuli einkum leitast við að komast að niðurstöðum um:
     a.      tilfærslur veiðiheimilda skv. 1. mgr. 2. gr.,
     b.      aðgang fiskiskipa skv. 2. mgr. 2. gr.,
     c.      samkomulag um reglufylgni, eftirlit og framfylgd skv. 2. mgr. 5. gr.
    Í 3.–6. mgr. er fjallað nánar um afmörkun umræðumálefna, skipan formanna sendinefnda og sameiginlega bókun um niðurstöður samningaviðræðna.
    Í 4. gr. er fjallað um fyrirkomulag leyfisveitingar þegar fiskiskipum, sem sigla undir fána annars samningsaðilans (aðilans sem stundar veiðar), hefur verið veittur aðgangur að fiskveiðilögsögu hins aðilans (leyfisveitingaraðilans) skv. 2. gr.
    Í 5. gr. er ákvæði um reglufylgni, eftirlit og framfylgd. Er þar m.a. fjallað um skyldur beggja samningsaðila til að tryggja að skip undir fána þeirra fari m.a. að öllum verndunar- og stjórnunarráðstöfunum, reglum og reglugerðum við veiðar innan fiskveiðilögsögu hins aðilans. Samningsaðilar geta gert með sér með nánara samkomulag um framkvæmd samningsins samkvæmt þessari grein t.d. í formi bókana og leiðbeiningarskjala.
    Í 6. gr. er hefðbundið ákvæði sem heimilar aðilum að semja um breytingar á samningnum með skriflegum hætti. Breyting þjóðréttarsamnings telst einnig fela í sér gerð þjóðréttarsamnings. Með sama hætti og segir í skýringum við 2. gr. er ekki gert ráð fyrir að slík samningsbreyting yrði lögð fyrir Alþingi eða forseta til staðfestingar nema um meiri háttar efnisbreytingu væri að ræða. Hún myndi þó, líkt og aðrir milliríkjasamningar, verða birt í C-deild Stjórnartíðinda.
    Í 7. gr. er ákvæði sem áréttar að honum er ekki ætlað að hafa áhrif á réttindi, lögsögu og skyldur samningsaðila varðandi mál sem tengjast hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1982 eða samningnum frá 1995 um framkvæmd ákvæða hafréttarsamningsins um verndun deilistofna og víðförulla fiskistofna og stjórnun veiða úr þeim.
    Í 8. gr. er að finna ákvæði um gildistöku, gildistíma og uppsögn samningsins. Líkt og venja er með þjóðréttarsamninga þá er tiltekið að samningurinn öðlist gildi þegar samningsaðilar hafa skipst á skriflegum tilkynningum um að nauðsynlegri málsmeðferð að innanlandsrétti þeirra sé lokið. Þegar samningurinn hefur öðlast gildi leysir hann af hólmi niðurstöðu viðræðna milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar frá 20. mars 1976. Samningurinn er ótímabundinn en uppsegjanlegur í samræmi við málsmeðferðina sem tilgreind er í lokamálsgrein ákvæðisins.


Fylgiskjal.


RAMMASAMNINGUR
um fiskveiðar milli ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja.


www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0670-f_I.pdf