Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 732  —  550. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971 (frídagar).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Lenya Rún Taha Karim, Tómas A. Tómasson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Orðin „frá kl. 13“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ef frídag ber upp á laugardag eða sunnudag skal frídagurinn færast á næsta virkan dag á eftir sem ekki er frídagur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast strax gildi.

Greinargerð.

    Undanfarið hafa verkalýðsfélögin viðrað þá hugmynd að aðfangadagur og gamlársdagur skuli vera heilir lögbundnir frídagar, en ekki aðeins frá kl. 13, líkt og kveðið er á um í lögum, enda líta flestir á þessa tvo daga sem helgidaga sem einkum eru tileinkaðir fjölskyldunni og samveru með ástvinum. Umræðan um að frídagar sem lendi á helgi skuli færðir til næsta virka dags hefur staðið enn lengur. Með þessu frumvarpi er lagt til að bæta úr hvoru tveggja.
    Jólin 2022 eru andstæðan við brandajól. Almennir launþegar fá aðeins einn lögbundinn frídag alla jólahátíðina. Aðfangadag ber upp á laugardag og jóladagur er á sunnudegi, sem eru utan virkra daga samkvæmt skilningi vinnuviku. Þar að auki ber gamlársdag upp á laugardag og nýársdag upp á sunnudag. Þessi lagabreyting myndi gera það að verkum að frí vegna aðfangadags og jóladags myndi færast yfir á þriðjudag og miðvikudag, þar sem annar í jólum telst einnig frídagur, og frí vegna gamlárs- og nýársdags myndi færast yfir á næsta mánudag og þriðjudag.
    Jólin eru hátíð sem fólk ver með fjölskyldu og ástvinum sínum. Hátíðina ber upp í svartasta skammdeginu þegar fólki veitir ekki af upplyftingu. Trygging ákveðins fjölda lögbundinna frídaga óháð ártali yrði mikil lífsgæðaaukning. Rannsóknir hafa sýnt að stytting vinnuvikunnar hefur gefist afar vel, ánægja starfsfólks er mikil og afköst í samræmi við það. Sú breyting sem lögð er til í frumvarpi þessu er því til samræmis við þá þróun sem verið hefur á undanförnum árum. Telja flutningsmenn þessa frumvarps því að breytingarnar yrðu til hagsbóta bæði fyrir launþega og atvinnurekendur.

Samanburður við önnur lönd.
    Á Norðurlöndunum tíðkast það almennt ekki að færa frídaga yfir á næsta virkan dag. Í Svíþjóð er hins vegar algengt að fyrirtækjum og stofnunum sé lokað á hádegi fyrir frídag, en Svíar kalla þetta hálfan vinnudag eða hálfdag. Einnig er algengt, ef almennur frídagur er á þriðjudegi eða fimmtudegi, að starfsmönnum sé heimilt að taka sér aukafrídag eða svokallaðan klemmudag (s. klämdag), þ.e. daginn sem fellur á milli frídags og helgar. Í Svíþjóð er einnig hægt að taka út frídag síðar vegna þjóðhátíðardags Svía, 6. júní, ef hann er á laugardegi eða sunnudegi. Í sumum kjarasamningum er einnig kveðið á um að ef 1. maí, jóladag, annan í jólum eða nýársdag beri upp á laugardag eða sunnudag megi taka út frídag síðar.
    Í Bretlandi er fjallað um almenna frídaga í lögum um banka- og fjármálaviðskipti frá 1971. Ef almennur frídagur lendir á helgi er hægt að færa frídaginn yfir á næsta virkan dag, iðulega mánudag. Einnig er frí 27. desember ef 25. eða 26. desember er á sunnudegi.
    Önnur lönd hafa því reynslu af því að yfirfæra frídaga með þessum hætti sem ríkir mikil ánægja um meðal launafólks. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að hér verði tekið upp sams konar kerfi til hagsbóta fyrir almenning í landinu.