Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um 40 stunda vinnuviku

1971 nr. 88 24. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 1972. Breytt með: L. 25/1979 (tóku gildi 1. júní 1979). L. 94/1982 (tóku gildi 31. des. 1982).


1. gr.
Lög þessi taka til allra launþega í landinu, annarra en þeirra, sem hér eru taldir:
    a. Sjómenn á fiskiskipum.
    b. Kaupafólk og vinnuhjú, nema ráðin séu til starfa samkvæmt kjarasamningum verkalýðsfélaga og vinnuveitenda.
    c. Launþegar, sem vinna heimavinnu eða önnur þau störf, sem vinnuveitandi hefur ekki aðstöðu til að fylgjast með.
    d. Forstöðumenn og sérstakir fulltrúar í störfum, sem eru þess eðlis, að eftirliti með vinnutíma verði ekki við komið.
Þar sem rætt er um aðila í lögum þessum, er átt við aðila vinnumarkaðarins.
2. gr.
[Í hverri viku skulu ekki vera fleiri en 40 dagvinnutímar, sem vinna ber á því dagvinnutímabili á virkum dögum vikunnar, sem aðilar koma sér saman um. Heimilt er að semja um skemmri vinnuviku.
Að jafnaði skulu unnar 8 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags, nema annar vinnutími henti betur af sérstökum ástæðum og um það sé samið af aðilum.
Heimilt er að semja um tilfærslu á dagvinnutímum, þannig að dagvinnutímar verði fleiri en 40 á tilteknum árstímum og færri á öðrum, en að meðaltali á ári hverju ekki fleiri en 40. Þetta gildir þó aðeins í þeim tilvikum, þar sem slíkur háttur hefur verið á hafður fyrir gildistöku laga þessara.
Þegar dagvinnu er skilað með 8 stunda vinnu á dag frá mánudegi til föstudags skal næturvinna taka við á föstudögum strax og lögboðinni eða umsaminni vinnuviku er lokið.] 1)
    1)L. 25/1979, 1. gr.
3. gr.
Heimilt er að semja um vaktavinnu, og taka ákvæði þessara laga ekki til þess vinnufyrirkomulags að öðru leyti en því, að ekki skal miða við fleiri en 40 klst. dagvinnu á viku, að meðaltali.
4. gr.
Matartími skal ekki skemmri vera en 30 mínútur, og telst hann ekki til vinnutíma. Aðilar koma sér saman um, hvenær á vinnutímabilinu matartími skuli vera.
5. gr.
Kaffihlé teljast til vinnutíma, en um lengd þeirra og fjölda fer eftir samkomulagi aðila.
6. gr.
Frídagar eru helgidagar þjóðkirkjunnar, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní, enn fremur aðfangadagur jóla og gamlársdagur frá kl. 13.
[Frá og með árinu 1983 skal fyrsti mánudagur í ágúst vera frídagur og skal greiða laun fyrir þann dag samkvæmt sömu reglum og gilda í kjarasamningum um aðra almenna frídaga.] 1)
    1)L. 94/1982, 1. gr.
7. gr.
Víkja má frá lögum þessum með samningum, sem staðfestir eru af hlutaðeigandi heildarsamtökum.
Með heildarsamtökum er hér átt við landssambönd innan Alþýðusambands Íslands og Alþýðusamband Íslands vegna þeirra félaga, sem ekki eru í landssamböndum þess, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna. Staðfestingu heildarsamtaka vinnuveitenda þarf þó ekki við, þegar í hlut eiga ríkið, sveitarfélög og stór fyrirtæki, sem ekki eru í vinnuveitendasamtökum.
8. gr.
Vinnutímastytting sú, sem felst í lögum þessum, hefur ekki í för með sér skerðingu á viku- og mánaðarlaunum.
9. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.