Ferill 568. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 759  —  568. mál.
Leiðréttur texti.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (eingreiðsla).

Frá velferðarnefnd.


1. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris skv. 18. gr. eða endurhæfingarlífeyris skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, á árinu 2022 skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 60.300 kr. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi, sem skal innt af hendi eigi síðar en 31. desember 2022, skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2022 (409. mál) var gert ráð fyrir 650 m.kr. einskiptisframlagi til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Miðað var við að um væri að ræða 27.772 kr. eingreiðslu til einstaklings sem hefur verið með réttindi allt árið. Við afgreiðslu málsins frá fjárlaganefnd var lögð til breyting þess efnis að framlagið var hækkað um 780 m.kr. Með breytingunni er gert ráð fyrir að eingreiðslan hækki um 13% frá árinu 2021 og verði 60.300 kr. á einstakling. Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar kemur fram að gert sé ráð fyrir að lögð verði til breyting á lögum um almannatryggingar til að tryggja að aðrar greiðslur haldist óskertar þrátt fyrir uppbótina. Með frumvarpi þessu er lagt til að kveðið verði á um það í ákvæði til bráðabirgða að eingreiðslan skuli ekki teljast til tekna greiðsluþega, og teljist þannig skattfrjáls, og að hún skuli ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna. Ákvæðið er til samræmis við ákvæði um fyrri eingreiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, sbr. 24. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum, að því undanskildu að vísun til 12. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, fellur brott. Sú breyting helgast af því að með breytingu sem gerð var á lögum um slysatryggingar almannatrygginga með lögum nr. 108/2021 var eðli greiðslna skv. 12. gr. þeirra laga breytt þannig að nú er kveðið á um rétt hins slasaða til miskabóta skv. 4. gr. skaðabótalaga, sem greiða skal út með eingreiðslu. Þá voru felld brott ákvæði þess efnis að bætur samkvæmt lagabálkunum fari ekki saman. Í því felst að réttur til miskabóta samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga hefur ekki áhrif á rétt til örorkubóta samkvæmt lögum um almannatryggingar og öfugt.