Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 769  —  382. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).

Frá 2. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Mikilvægt er að við Íslendingar framfylgjum alþjóðlegum skuldbindingum okkar varðandi móttöku flóttafólks. Jafnframt er mjög mikilvægt að ná sátt í samfélaginu um málaflokkinn í heild sinni. Á undanförnum áratug hefur umsóknum um alþjóðlega vernd fjölgað mjög. Ef litið er í baksýnisspegilinn má sjá að íslensk stjórnsýsla var einfaldlega ekki tilbúin að takast á við svo öran vöxt. Alþingi setti ný lög um útlendinga, nr. 80/2016, sem tóku gildi í upphafi árs 2017, en síðan þá hefur þeim verið breytt 17 sinnum. Frumvarp þetta hefur reynst dómsmálaráðherrum undanfarinna ára þungur baggi og er það nú til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd í fjórða skiptið. Að vísu hefur frumvarpið tekið ýmsum breytingum milli þinga, en að meginstefnu er markmiðið að auka skilvirkni við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og tryggja að þeir sem óska eftir alþjóðlegri vernd fái réttláta og vandaða málsmeðferð.

Íslenskar sérreglur.
    Í gildandi lögum eru sérreglur sem gera það að verkum að Ísland gengur lengra en nágrannaþjóðir þegar kemur að málsmeðferðarreglum vegna umsókna um alþjóðlega vernd og víðtækari undantekningar eru í gildi hér en annars staðar. Leiða má líkur að því að sérreglur í íslenskri löggjöf, og túlkun íslenskra stjórnvalda á matskenndum málsmeðferðarreglum, geri það að verkum að einstaklingar sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðrum Schengen-ríkjum sækja í auknum mæli um alþjóðlega vernd á Íslandi.
    Þær sérreglur sem um ræðir eru 1. og 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna. 1. málsl. kveður á um skyldu stjórnvalda til að taka mál til efnismeðferðar, þrátt fyrir að umsækjandi hafi þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru landi, ef nærtækast er að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæla annars með því. 2. málsl. er hin svokallaða 12 mánaða regla um að umsækjandi skuli fá efnismeðferð hafi verndarmálið verið til meðferðar lengur en 12 mánuði. Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um mál sem tengjast umræddum ákvæðum og m.a. tekið fram að regla 2. málsl. eigi sér ekki fyrirmynd í erlendri löggjöf eða alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, heldur sé hún sérregla sem Alþingi hafi valið að setja framkvæmdarvaldinu. 1 Í fjölda mála hafa einstaklingar hlotið synjun á efnismeðferð, neitað að fara úr landi sjálfviljugir og loks hlotið efnismeðferð sökum þess að meira en 12 mánuðir eru frá því að upphafleg umsókn barst.
    Frumvarp ráðherra boðar breytingar í átt að aukinni skilvirkni við móttöku og afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd. Meðal annars er stefnt að því að skýra orðalag 36. gr. laganna til að taka af allan vafa um það að synjun á efnismeðferð teljist lok máls á stjórnsýslustigi. Eins og frumvarpið er út garði gert mun það því miður ekki ná tilskildum árangri.
    Ástæða þess að 36 gr. laganna hefur ekki virkað sem skyldi í framkvæmd er einfaldlega sú sérreglan þyngir enn frekar álagið á stjórnsýsluna á þeim tímum þegar álagið er hvað mest. Hún býr til sjálfkrafa snjóhengju. Ef miklar tafir eru á afgreiðslu umsókna, þá virkjast ákvæðið í fjölda mála, sem leiðir til umfangsmeiri afgreiðslu, og enn meiri tafa. Það hlýtur að vera einsdæmi í íslenskri stjórnsýslu að umsækjendur sjái sinn hag af því að tefja afgreiðslu eigin umsókna, en þannig er því miður búið um hnútinn þegar kemur að umsóknum um alþjóðlega vernd.
    Þörf er að fella brott 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna til að tryggja að afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd á Ísland sé til samræmis við afgreiðslu í nágrannalöndum okkar og jafnframt til að koma í veg fyrir óþarfa tafir á afgreiðslu umsókna. Eftir sem áður gildir málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga um afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, og því myndi brottfall 12 mánaða reglunnar ekki veita stjórnvöldum undanþágu frá meginreglunni um að ákvarðanir í málum skuli taka eins fljótt og auðið er.

Þörf á að tryggja samræmi við nágrannalönd í veitingu viðbótarverndar.
    Á árunum 2018–2020 veitti Útlendingastofnun umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Venesúela viðbótarvernd skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með vísan til almennra aðstæðna í heimaríki óháð einstaklingsbundnum aðstæðum hvers umsækjanda. Á árinu 2021 tók Útlendingastofnun ákvörðun um breytta stjórnsýsluframkvæmd og tilkynnti að framvegis yrði lagt einstaklingsbundið mat á það hvort umsækjendur ættu rétt á viðbótarvernd skv. 2. mgr. 37. gr. sökum þess að aðstæður í Venesúela hefðu breyst til hins betra og vísaði m.a. til þess að í Noregi væri búið að breyta framkvæmdinni á þessa vegu. Kærunefnd útlendingamála kvað upp úrskurð fyrr á árinu sem tók þessa framkvæmd úr sambandi, og eins og fram kemur í greinargerð þessa frumvarps sækja nú mun fleiri ríkisborgarar Venesúela um alþjóðlega vernd á Íslandi en í nágrannaríkjum okkar. Hér er skýrt dæmi um ósamræmi milli nágrannaríkja sem leiðir til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd sækja gagngert um vernd á Íslandi frekar en í t.d. Noregi vegna þess að þeir meta líkur sínar betri hér. Þannig skapast óeðlilegt álag á stjórnsýsluna sem hefur ekki burði til að takast á við svona sveiflur.
    Fyrr á árinu kvað kærunefnd útlendingamála upp úrskurð í máli nr. 231/2022 þess efnis að umsækjandi um alþjóðlega vernd ætti rétt á viðbótarvernd skv. 2. mgr. 37. gr. Í úrskurðinum vísaði kærunefndin ítrekað til efnahagsástandsins í Venesúela, sbr. eftirfarandi umfjöllun:

        „Þá er ljóst að alvarlegt efnahagsástand í landinu og skortur á aðgengi almennings að fæðu, hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu stafar fyrst og fremst af aðgerðum stjórnvalda en ekki af utanaðkomandi þáttum líkt og þurrkum eða öðrum náttúruhamförum. Af framangreindum gögnum um heimaríki kæranda er ljóst að dregið hefur úr átökum í landinu síðustu ár þrátt fyrir það sé öryggisástand enn verulega ótryggt og glæpa- og morðtíðni há. Verður því ekki talið að aðstæður í landinu nái því marki að sérhver einstaklingur sem þangað fari eigi á hættu að láta lífið eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum. Á hinn bóginn er það mat kærunefndar að þegar markvissar aðgerðir stjórnvalda til að bæla niður andstöðu í landinu, alvarlegt efnahagsástand þar sem laun duga ekki til að uppfylla grunnþarfir almennings í landinu, skortur á hreinu drykkjarvatni, há glæpatíðni, skortur á lögregluvernd og algert hrun réttarkerfisins leggjast saman geti aðstæður einstaklinga við endursendingu til Venesúela náð því marki að rétt sé að veita þeim viðbótarvernd hér á landi.“ 2

    Í framangreindri tilvitnun í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar vísaði kærunefndin m.a. til þess að í Venesúela væri „alvarlegt efnahagsástand þar sem laun duga ekki til að uppfylla grunnþarfir almennings í landinu, skortur á hreinu drykkjarvatni, há glæpatíðni“. Í sama úrskurði fjallaði kærunefnd um þróun ástandsins í Venesúela og sagði ljóst að dregið hefði úr átökum í landinu síðustu árin og að ekki yrði talið að sérhver einstaklingur sem þangað fari ætti á hættu að láta lífið eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum.
    Af rökstuðningi kærunefndar í fyrrgreindum úrskurði má ráða að úrskurðarnefndin telji að efnahagsástand í viðkomandi ríki geti haft þýðingu, jafnvel úrslitaþýðingu, við mat á því hvort umsækjandi teljist flóttamaður, og eigi því rétt á viðbótarvernd. Það liggur ljóst fyrir að alþjóðaskuldbindingar Íslands í málefnum flóttamanna leggja engar skyldur á landið að taka við efnahagslegum flóttamönnum. Slík afstaða myndi skapa Íslandi algjöra sérstöðu á alþjóðavísu og felur í sér mun víðtækari skilgreiningu á alþjóðlegri vernd en í nágrannaríkjum okkar.

Efnahagslegir innflytjendur aðgreindir frá flóttamönnum.
    Í 8. tölul. 3. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, er flóttamaður skilgreindur sem útlendingur sem er utan heimalands síns eða ríkisfangslaus einstaklingur sem er utan þess lands þar sem hann hafði reglulegt aðsetur vegna þess að hann hefur ástæðuríkan ótta um að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands.
    Samkvæmt 1. mgr. 37. laganna er flóttamaður skilgreindur sem útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967.
    Þeir einstaklingar sem falla undir viðbótarvernd teljast einnig flóttamenn skv. 2. mgr. 37. gr. laganna, en hún á við þegar raunhæf ástæða er til að ætla að viðkomandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði hann sendur aftur til heimalands síns. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
    Einstaklingur sem af öðrum ástæðum en kemur fram í skilgreiningunni yfirgefur heimaland sitt af fúsum og frjálsum vilja til að taka sér búsetu annars staðar telst ekki flóttamaður samkvæmt lögunum. Ef hann flyst eingöngu frá heimalandi eða aðseturslandi sínu á efnahagslegum forsendum er hann efnahagslegur innflytjandi en ekki flóttamaður. Í handbók um málsmeðferð og skilgreiningu á stöðu flóttamanns samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna sem gefinn var út af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er fjallað um þetta atriði, þ.e. skilin á milli efnahagslegra innflytjenda og flóttamanna. 3
    Skilin á milli efnahagslegs innflytjanda og flóttamanns eru stundum óskýr á sama hátt og skilin á milli efnahagslegra og pólitískra aðgerða í upprunalandi umsækjanda eru ekki alltaf skýr. Á bak við efnahagslegar ráðstafanir sem hafa áhrif á lífsviðurværi einstaklings geta verið kynþátta-, trúar- eða pólitísk markmið eða fyrirætlanir sem beinast gegn tilteknum hópi. Ef efnahagsráðstafanir eyðileggja efnahagslega tilveru tiltekins hluta þjóðarinnar, t.d. afturköllun viðskiptaréttinda eða mismunun eða óhófleg skattlagning á fólk af tilteknu þjóðerni eða trúarhópi, geta fórnarlömbin eftir aðstæðum orðið flóttamenn við brottför úr landinu. Mikilvægt er að þessi bakgrunnur einstaklings og tengsl við efnahagslegar ráðstafanir liggi fyrir og sé skýr til að einstaklingurinn geti talist flóttamaður en ekki efnahagslegur innflytjandi.
    Hvort það sama ætti við um fórnarlömb almennra efnahagsaðgerða, þ.e. þeirra sem beitt er að öllum almenningi án mismununar, færi eftir atvikum málsins. Andmæli gegn almennum efnahagsaðgerðum eru í sjálfu sér ekki góð rök fyrir því að krefjast stöðu flóttamanns. Á hinn bóginn getur það sem virðist við fyrstu sýn fyrst og fremst vera efnahagsleg ástæða brottfarar í raun einnig falið í sér pólitískan þátt og það geta verið stjórnmálaskoðanir einstaklingsins sem valda honum alvarlegum afleiðingum, fremur en andmæli hans við efnahagsráðstafanirnar sjálfar. Mikilvægt er að greining á þessu liggi fyrir við ákvörðun um hvort einstaklingur sé flóttamaður, þ.e. hvort stjórnmálaskoðanir hans séu að valda honum alvarlegum afleiðingum, fremur en andmæli hans við efnahagsráðstafanirnar sjálfar, hvað þá efnahagsástandið sjálft.
    Nauðsynlegt er að tryggja skýrleika laga hvað ofangreint varðar og því leggur 2. minni hluti til að við mat skv. 2. mgr. 37. gr. skuli ekki leggja til grundvallar efnahagsástand í viðkomandi ríki við ákvörðun um hvort einstaklingur teljist flóttamaður.

Rétt hugtakanotkun og skýr lagatexti skiptir máli.
    Í frumvarpinu er fjallað um endurtekna umsókn. 2. minni hluti telur að sú hugtakanotkun sé til þess fallin að valda misskilningi við túlkun og framkvæmd laganna. Það er ljóst af lestri ákvæðanna, þ.e. 1., 3. og 7. gr., að reglunum er ekki aðeins ætlað að fjalla um þau tilvik þegar sótt er um að nýju vegna sömu ástæðna, heldur einnig þegar sótt er um að nýju vegna annarra ástæðna. Í tilskipun Evrópusambandsins 2011/95/ESB er notast við orðið subsequent í sambærilegum tilvikum. Réttara væri því að fyrrgreint ákvæði fjalli um síðari umsókn. Sú hugtakanotkun fellur betur að orðalagi 7. gr. og samrýmist betur hugtakanotkun á alþjóðavettvangi. Þannig yrði ekki vafa undirorpið að ákvæðin næðu utan um tilvik þar sem umsókn er lögð fram að nýju vegna sömu atvika og tilvik þegar umsókn er lögð fram vegna annarra atvika.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram ábending frá Alþýðusambandi Íslands þess efnis að hvergi er í lögum um atvinnuréttindi útlendinga fjallað um rétt útlendinga til að starfa sjálfstætt með pósitívum hætti. Í lögunum segi að óheimilt sé að starfa sjálfstætt nema að viðkomandi sé undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi og því megi gagnálykta frá gildandi lögum að undanþága frá kröfu um atvinnuleyfi veiti einnig rétt til að starfa sjálfstætt. Betur fer þó að réttindi sem þessi séu tryggð berum orðum í lögum, enda er æskilegt að ákvæði sem veita réttindi séu skýr þannig að ekki sé vafa undirorpið hvaða réttindi lögin tryggja. Því leggur 2. minni hluti til orðalagsbreyting á 3. mgr. 6. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga þannig að ákvæðið orði þau réttindi sem fjallað er um með pósitívum hætti.

Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðasáttmála um mannréttindi.
    Í umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands um frumvarpið er vísað í 4. kafla í greinargerð með frumvarpinu þar sem fram kemur eftirfarandi: „Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá.“ Hvorki er vísað til ákvæða stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) í athugasemdum við frumvarpið. Þetta er afar óheppilegt líkt og Mannréttindastofnun Háskólans bendir á. Hér er um frumvarp að ræða sem varðar mikilvæg réttindi fólks á flótta sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi. Efni frumvarpsins varðar með augljósum hætti mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í umsögninni eru tekin dæmi: brottfall þjónustu (6. gr.) varðar 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár og 65. gr. stjórnarskrár, breyttar reglur um endursendingar varða 68. gr. stjórnarskrár og 3. gr. MSE, sbr. ítarlega dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins, sérákvæði um börn varða 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár, framkvæmd ákvarðana varða 71. stjórnarskrár og 8. gr. MSE og eftir atvikum 68. gr. stjórnarskrár og 3. gr. MSE og ýmis útfærsluatriði á málsmeðferð kunna að varða 70. gr. stjórnarskrár og 6. og 13. gr. MSE hvað varðar rétt til aðgangs að dómstólum, réttláta málsmeðferð og rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns.
    Hér má einnig benda á að mál er varðar flóttamenn hafa komið til kasta Mannréttindadómstóls Evrópu, t.d. mál dómstólsins nr. 17931/16 er fjallar um niðurfellingu á réttindum málsaðila, sem hafði verið synjað um alþjóðlega vernd í Hollandi. Sjá umfjöllun hér að neðan.
    Í þessu samhengi vísar Mannréttindastofnun Háskólans sérstaklega til nýfallins dóms Hæstaréttar 26. okt. 2022 í máli nr. 20/2022. Hæstiréttur gagnrýnir þar að í frumvarpi til breytinga á lögum um lax- og silungsveiði sé, líkt og í frumvarpi því sem hér er til umsagnar, tekið fram að ekki hafi þótt tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá. Um þetta segir Hæstiréttur: „Við undirbúning að setningu laga nr. 50/2015 virðist því ekki hafa verið litið til þýðingar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að þessu leyti þótt ríkt tilefni væri til.“ „Við breytingar á verkefnum veiðifélaga með lögum nr. 50/2015 sinnti löggjafinn því ekki stjórnskipulegri skyldu sinni til að meta hvort lagasetning rúmaðist innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur.“ (Áhersla ekki í frumtexta).
    Tilvitnuð orð í frumvarpinu um að það gefi ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá benda til þess að frumvarpið sé ekki nægjanlega vel unnið. Grundvallaratriði er að Alþingi meti hvort lagasetning þessi brjóti ekki gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, sbr. tilvitnuð orði hæstaréttar í máli 20/2022.
    Í frumvarpinu er ákvæði sem leggur til brottfall réttinda að liðnum 30 dögum frá endanlegri synjun um umsókn um alþjóðlega vernd. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um jákvæðar skyldur ríkisins til að tryggja fólki aðstoð vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. 6. gr. frumvarpsins myndi fela það í sér að þegar umsækjandi missir rétt til fæðis, húsnæðis og heilbrigðisþjónustu þá yrði brotið gegn 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár. Brottfall réttinda af þessu tagi myndi einnig varða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyndingum og ómannúðlegri meðferð, en um eðlisólíkar greinar er að ræða.
    Annar minni hluti telur að ákvæði 6. gr. frumvarpsins standist ekki gagnvart 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að óbreyttu, og eftir atvikum farið gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Ekki er ólíklegt, verði ákvæðið samþykkt óbreytt, að það kalli á dómsmál þar sem reyni á ákvæði gagnvart nefndu ákvæði stjórnarskrárinnar og 3. gr. MSE. Slíkt mál gæti farið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu líkt og ofangreint mál nr. 17931/16 gegn Hollandi. 2. minni hluti er því með breytingartillögu við ákvæði 6. gr. frumvarpsins til að tryggja að ákvæðið standist 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að óbreyttu og fari jafnframt ekki í bága við 3. gr. MSE.
    Í áðurnefndum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 17931/16 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að niðurfelling á réttindum málsaðila, sem hafði verið synjað um alþjóðlega vernd í Hollandi og var þar í ólögmætri dvöl, hefði ekki brotið í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en ákvæðið er sambærilegt 68. gr. stjórnarskrárinnar. Í málinu lá fyrir að málsaðila stóð til boða að fara í lokað búsetuúrræði (e. detention center) þar sem hann gæti notið þjónustu. Rétturinn tók fram að einstaklingar sem ber að yfirgefa aðildarríki geti að meginstefnu til ekki krafist þess að dvelja áfram í ríkinu til að njóta heilbrigðisþjónustu, félagslegrar eða annarrar tegundar aðstoðar sem ríkið veitir.
    Einstaklingi ber að yfirgefa landið eftir að umsókn hans um alþjóðlega vernd hefur verið synjað. Neiti hann því verða stjórnvöld að beita þvingunum til að koma honum úr landi með svokallaðri þvingaðri brottför. Á Íslandi er ekki boðið upp  á svokallað lokað búsetuúrræði (e. detention center) þar sem hann gæti notið þjónustu á meðan beðið er hinnar þvinguðu brottfarar af landinu. Augljóst er að einstaklingur sem bíður þvingaðrar brottfarar er ekki að sýna samstarfsvilja. Sama á við einstakling sem bíður brottfarar í lokuðu búsetuúrræði. Mikilvægt er að einstaklingum sem ekki sýna samstarfsvilja og bíða þvingaðrar brottfarar standi til boða lágmarksþjónusta hvað varðar fæði og húsaskjól og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta svo þeirra bíði ekki örbirgð þrátt fyrir skort á samstarfi.
    Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Réttur samkvæmt þessu ákvæði stjórnarskrárinnar er ekki skilyrtur á nokkurn hátt. Hann er það ekki heldur í ofangreindu samhengi, og þá hvort einstaklingur hafi sýnt samstarfsvilja við brottvísun. Rétturinn fellur því ekki niður bíði einstaklingur þvingaðrar brottfarar.
    Annar minni hluti leggur til breytingu á frumvarpinu sem feli stjórnvöldum að tryggja að einstaklingur sem hefur fengið endanlega synjun á umsókn falli ekki í örbirgð þann tíma sem hann dvelur á Íslandi. Breytingin stuðlar að því að ekki verði farið á svig við 76. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu við brottfall réttinda skv. a-lið 6. gr. frumvarpsins.
    Annar minni hluti telur sérstaka ástæðu til að fjalla um málefni barna og fatlaðs fólks. Alþingi hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en samningurinn hefur ekki enn verið lögfestur. Dæmi eru um að við framkvæmd brottvísana hafi stjórnvöld virt að vettugi réttindi fatlaðra. Til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig leggur 2. minni hluti til að framvegis verði að tryggja að framkvæmd brottvísunar brjóti ekki í bága við 15. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem fjallar um frelsi frá pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá leggur 2. minni hluti einnig til að við framkvæmd brottvísana í tilviki barna skuli starfsmaður barnaverndar vera viðstaddur.

    Að framangreindu virtu leggur 2. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „endurtekin“ í 1. gr. og sama orðs í öllum beygingarmyndum í 3. gr. og hvarvetna í 7. gr. komi: síðari.
     2.      Við 5. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við 2. mgr. 31. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: verði viðstaddur við framkvæmd ákvörðunar um brottvísun.
     3.      Við a-lið 6. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir 1. og 2. málsl. ber stjórnvöldum að tryggja að einstaklingur sem hefur fengið endanlega synjun á umsókn falli ekki í örbirgð þann tíma sem hann dvelur á Íslandi.
     4.      C-liður 8. gr. orðist svo: 2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     5.      Við 2. tölul. 9. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Við mat skv. 2. mgr. skal ekki leggja til grundvallar efnahagsástand í viðkomandi ríki þegar metið er hvort einstaklingur eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.
     6.      Við 18. gr. bætist nýr stafliður svohljóðandi: Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun skal koma fram við fatlaða einstaklinga af virðingu og virða réttindi þeirra sem tryggð eru í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og gæta þess að framkvæmd ákvörðunar brjóti ekki í bága við 15. gr. samningsins.
     7.      Við 1. tölul. 21. gr. bætist nýr stafliður, a-liður, svohljóðandi: 3. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
                      Útlendingi er heimilt að starfa sjálfstætt hér á landi sé hann undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum.

Alþingi, 9. desember 2022.

Eyjólfur Ármannsson.


1     Sjá álit Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9722/2018.
2    Úrskurður kærunefndar útlendingamála í máli nr. 231/2022.
3    Handbook on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status under the 1951 Convention and the 1967 Protocol relating to the Status of Refugees. UNHCR. www.unhcr.org/4d93528a9.pdf