Ferill 528. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 811  —  528. mál.
Leiðréttur texti.

Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu rammasamnings um fiskveiðar milli ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Birgi Hrafn Búason og Helgu Hrönn Karlsdóttur frá utanríkisráðuneyti. Þá hefur nefndin móttekið bréf frá utanríkisráðuneyti ásamt afriti af samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2023 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík 7. og 8. desember 2022, sbr. fylgiskjal við álit þetta.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á rammasamningi um fiskveiðar milli ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja sem gerður var í Reykjavík 14. október 2022.
    Fram kemur í greinargerð með tillögunni að með rammasamningnum eru lagðar til þær breytingar á núverandi samningsframkvæmd ríkjanna að hverfa frá gerð árlegs bréfaskiptasamnings Íslands og Færeyja um fiskveiðar í lögsögu ríkjanna, sem lagður hefur verið fyrir Alþingi á hverju haustþingi. Í staðinn verði framvegis heimilt að semja um þessi fiskveiðiréttindi, sem og önnur skyld atriði, á samráðsfundum ríkjanna sem haldnir verða á grundvelli heimildar í rammasamningnum. Viðræður milli ríkjanna um þessa boðuðu breyttu framkvæmd hafa staðið yfir um nokkurra ára skeið og verið kynntar utanríkismálanefnd í tengslum við árlega staðfestingu bréfaskiptasamninga ríkjanna.
    Í bréfi utanríkisráðuneytis til nefndarinnar, dags. 12. desember sl., kemur fram að eftir framlagningu tillögunnar á Alþingi kom í ljós að ekki yrði mögulegt að ljúka staðfestingu rammasamningsins á stjórnskipulegan hátt í Færeyjum, m.a. vegna þingkosninga, fyrir upphaf næsta fiskveiðiárs 1. janúar nk. Til þess að rammasamningurinn öðlist gildi þurfa báðir samningsaðilar að hafa tilkynnt hvor öðrum að innlendum skilyrðum hafi verið fullnægt. Þar sem staðfesting rammasamningsins mun tefjast af hálfu gagnaðila hefur verið gerður bréfaskiptasamningur til eins árs með hefðbundnu sniði fyrir árið 2023 um heimildir til veiða innan lögsögu ríkjanna á því ári. Samningafundur sjávarútvegsráðherra aðila var haldinn 6. desember á fjarfundarformi. Í kjölfarið náðust samningar og fóru fram bréfaskipti að frumkvæði Færeyja 7. og 8. desember.
    Í framangreindum bréfaskiptasamningi er kveðið á um heimildir færeyskra skipa til veiða á loðnu, kolmunna og norsk-íslenskri síld innan fiskveiðilögsögu Íslands og heimildir íslenskra skipa til veiða á kolmunna, norsk-íslenskri síld og makríl í fiskveiðilögsögu Færeyja árið 2023.
    Heimildar Alþingis er þörf, skv. 21. gr. stjórnarskrárinnar, til þess að staðfesta framangreindan bréfaskiptasamning líkt og rammasamninginn sem nefndin hefur til meðferðar samkvæmt tillögunni. Nefndin gerir því breytingartillögu þess efnis að veitt verði heimild fyrir hvoru tveggja staðfestingu rammasamningsins og bréfaskiptasamningsins með ályktun Alþingis. Auk þess leggur nefndin til breytingu á fyrirsögn tillögunnar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Tillögugreinin orðist svo:
                  Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd rammasamning um fiskveiðar milli ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja sem gerður var í Reykjavík 14. október 2022 og samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2023 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík 7. og 8. desember 2022.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu rammasamnings um fiskveiðar milli ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja og samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2023.

Alþingi, 14. desember 2022.

Njáll Trausti Friðbertsson,
1. varaform., frsm.
Birgir Þórarinsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Jakob Frímann Magnússon. Jóhann Friðrik Friðriksson. Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Logi Einarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Fylgiskjal.

Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2023.


www.althingi.is/altext/erindi/153/153-789.pdf