Ferill 491. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 876  —  491. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Friðriki Friðrikssyni um skekkju í mannfjölda samkvæmt þjóðskrá.


    Við vinnslu svarsins var óskað eftir upplýsingum frá Hagstofu Íslands að því er varðar 1., 3. og 4. tölul. og frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) vegna 2. tölul. Svar þetta byggist á upplýsingum sem bárust frá þessum stofnunum.

     1.      Hvers vegna var mannfjöldi á Íslandi talinn minni samkvæmt þjóðskrá árið 2021 en í manntali Hagstofu Íslands fyrir sama ár, svo að skakkaði tæplega tíu þúsundum manna?

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í töflu að aftan er samanburður á mannfjölda samkvæmt þjóðskrá og manntali. Taflan er tekin úr frétt Hagstofu Íslands um manntalið sem birtist á vef hennar 14. nóvember 2022.

    Eins og fram kemur í fréttinni munar mestu um einstaklinga sem flytja af landi brott án þess að tilkynna búferlaflutninga til Þjóðskrár Íslands. Því eru þessir einstaklingar með skráð lögheimili á Íslandi en hafa í raun ekki fasta búsetu á landinu. Úrtaksrannsóknir Hagstofunnar renna stoðum undir þetta misræmi.
    Til að meta umfang þessa misræmis nýtir Hagstofan upplýsingar úr vinnumarkaðsrannsókn og skráarupplýsingar til að framkvæma svokallaða lífsmerkjarannsókn. Búið var til tölfræðilíkan sem tók mið af ýmsum þáttum á borð við kyn, aldur, fjölskyldustöðu, ríkisfang, menntun, komuár, tekjur og lengd tíma frá því að viðkomandi fékk síðast greidd laun.
    Í ljós kom að fjöldi þessara þátta gagnaðist til að spá fyrir um rétta eða ranga skráningu í þjóðskrá og höfðu vinnu- og tekjutengdar upplýsingar mest áhrif. Niðurstöður líkansins voru þær að 7.701 einstaklingur hafi vanalega búsetu erlendis þrátt fyrir að vera með íslenskt lögheimili í þjóðskrá.
    Annað helsta misræmi milli þjóðskrár og manntalsins má skýra með síðbúinni skráningu, t.d. ef einstaklingur flytur til útlanda í desember 2020 en tilkynnir flutninginn ekki fyrr en árið 2022. Í því tilviki er viðkomandi í þjóðskrá um áramótin 2021 en Hagstofan hefur möguleika á að gera leiðréttingu í manntalsgögnum vegna þess tíma sem leið milli viðmiðunardags og útgáfudags manntalsins.

     2.      Hvaða þýðingu hefur skekkja þessi haft fyrir stjórnsýslu og greiningu á vegum hennar, t.d. að því er snertir húsnæðisþörf?
    Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur yfirfarið húsnæðisþarfargreiningu sína miðað við hugsanlegt ofmat mannfjölda. Niðurstaða stofnunarinnar er að óuppfyllt húsnæðisþörf sé heldur minni en áður var talið þegar tekið hefur verið tillit til ofmatsins. Gangi spár um fólksfjölgun eftir verði eigi að síður svipuð þörf fyrir húsnæði næstu árin og fyrri greining HMS gaf til kynna.
    Ástæða þess að ekki dregur eins mikið úr þörfinni og hugsanlegt ofmat mannfjölda gefur til kynna er að fjölgun íbúa hefur verið umfram spá frá því að manntalið var gert og íbúðaþarfargreining er viðkvæmari fyrir breytingum en stöðu á tilteknum tíma.
    Oftalning mannfjölda er ekki nýtilkomin en vísbendingar eru um að hún hafi aukist og það myndar skekkju í íbúðaþarfargreiningu. Helstu áhrifaþættir íbúðaþarfar eru fólksfjölgun og breytingar á samsetningu heimila.

     3.      Í hvaða sveitarfélögum var skekkjan mest?
    Í töflu 1 að aftan er sýndur munur á mannfjölda milli manntals og þjóðskrár eftir sveitarfélagi.
    Mest prósentulækkun frá þjóðskrá til manntals var í Skagabyggð (20,7% eða 19 manns), Ásahreppi (19,6% eða 53 manns), Tjörneshreppi (16,1% eða 9 manns), Akrahreppi (13,8% eða 29 manns) og Eyja- og Miklaholtshreppi (13,4% eða 16 manns).
    Mesta prósentuhækkun var í Skorradalshreppi (16,7% eða 11 manns), Grímsnes- og Grafningshreppi (15% eða 74 manns) og Kjósarhreppi (10,4% eða 26 manns).


Tafla 1. Listi yfir sveitarfélög.
Nr. sveitarfélags Sveitarfélag Þjóðskrá Manntal Munur Prósentumunur
Landið í heild 368.791 359.122 –9.669
0 Reykjavík 133.263 130.999 –2.264 –1,7
1000 Kópavogur 38.331 37.348 –983 –2,6
1100 Seltjarnarnes 4.715 4.572 –143 –3
1300 Garðabær 17.693 17.199 –494 –2,8
1400 Hafnarfjörður 29.686 29.012 –674 –2,3
1604 Mosfellsbær 12.589 12.300 –289 –2,3
1606 Kjósarhreppur 250 276 26 10,4
2000 Reykjanesbær 19.676 18.718 –958 –4,9
2300 Grindavík 3.539 3.421 –118 –3,3
2506 Vogar 1.331 1.285 –46 –3,5
2510 Suðurnesjabær 3.649 3.531 –118 –3,2
3000 Akranes 7.697 7.459 –238 –3,1
3506 Skorradalshreppur 66 77 11 16,7
3511 Hvalfjarðarsveit 647 632 –15 –2,3
3609 Borgarbyggð 3.758 3.613 –145 –3,9
3709 Grundarfjörður 862 813 –49 –5,7
3710 Helgafellssveit 66 62 –4 –6,1
3711 Stykkishólmur 1.196 1.162 –34 –2,8
3713 Eyja- og Miklaholtshreppur 119 103 –16 –13,4
3714 Snæfellsbær 1.679 1.578 –101 –6
3811 Dalabyggð 620 635 15 2,4
4100 Bolungarvík 958 910 –48 –5
4200 Ísafjarðarbær 3.794 3.697 –97 –2,6
4502 Reykhólahreppur 236 249 13 5,5
4604 Tálknafjarðarhreppur 268 252 –16 –6
4607 Vesturbyggð 1.064 1.023 –41 –3,9
4803 Súðavíkurhreppur 201 192 –9 –4,5
4901 Árneshreppur 42 37 –5 –11,9
4902 Kaldrananeshreppur 110 108 –2 –1,8
4911 Strandabyggð 435 404 –31 –7,1
5200 Skagafjörður 4.084 4.027 –57 –1,4
5508 Húnaþing vestra 1.222 1.165 –57 –4,7
5604 Blönduós 950 919 –31 –3,3
5609 Skagaströnd 470 431 –39 –8,3
5611 Skagabyggð 92 73 –19 –20,7
5612 Húnavatnshreppur 372 332 –40 –10,8
5706 Akrahreppur 210 181 –29 –13,8
6000 Akureyri 19.219 18.959 –260 –1,4
6100 Norðurþing 3.030 2.893 –137 –4,5
6250 Fjallabyggð 1.970 1.919 –51 –2,6
6400 Dalvíkurbyggð 1.855 1.746 –109 –5,9
6513 Eyjafjarðarsveit 1.097 1.025 –72 –6,6
6515 Hörgársveit 653 612 –41 –6,3
6601 Svalbarðsstrandarhreppur 441 428 –13 –2,9
6602 Grýtubakkahreppur 371 367 –4 –1,1
6607 Skútustaðahreppur 471 415 –56 –11,9
6611 Tjörneshreppur 56 47 –9 –16,1
6612 Þingeyjarsveit 852 815 –37 –4,3
6706 Svalbarðshreppur 94 93 –1 –1,1
6709 Langanesbyggð 504 476 –28 –5,6
7300 Fjarðabyggð 5.079 4.887 –192 –3,8
7400 Múlaþing 5.020 4.762 –258 –5,1
7502 Vopnafjarðarhreppur 653 608 –45 –6,9
7505 Fljótsdalshreppur 98 93 –5 –5,1
8000 Vestmannaeyjar 4.347 4.113 –234 –5,4
8200 Árborg 10.452 10.211 –241 –2,3
8401 Hornafjörður 2.387 2.276 –111 –4,7
8508 Mýrdalshreppur 758 723 –35 –4,6
8509 Skaftárhreppur 624 562 –62 –9,9
8610 Ásahreppur 271 218 –53 –19,6
8613 Rangárþing eystra 1.924 1.792 –132 –6,9
8614 Rangárþing ytra 1.740 1.664 –76 –4,4
8710 Hrunamannahreppur 822 799 –23 –2,8
8716 Hveragerði 2.778 2.699 –79 –2,8
8717 Ölfus 2.369 2.245 –124 –5,2
8719 Grímsnes- og Grafningshreppur 492 566 74 15
8720 Skeiða- og Gnúpverjahreppur 590 523 –67 –11,4
8721 Bláskógabyggð 1.144 1.140 –4 –0,3
8722 Flóahreppur 690 651 –39 –5,7

     4.      Hver er ástæða þess að manntal er ekki framkvæmt árlega?
    Manntal er kostnaðarsamt og umfangsmikið verkefni sem er hluti af samevrópsku átaki, en það er tekið í samræmi við lög og reglur sem settar hafa verið á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt þeim reglugerðum var gert skráarbundið manntal á Íslandi árin 2011 og 2021. Hins vegar er tímanleiki á birtingu manntalsgagna mikilvægur í nútímasamfélagi því að hann eykur notagildi gagnanna. Hagstofa Íslands vinnur að því í samstarfi við hagstofur í Evrópu að bæta um betur og stefnir að árlegu manntali frá miðjum yfirstandandi áratug.